145. löggjafarþing — 72. fundur
 2. feb. 2016.
Evrópuráðsþingið 2015, ein umræða.
skýrsla ÍÞER, 465. mál. — Þskj. 748.

[14:07]
Flm. (Karl Garðarsson) (F):

Virðulegi forseti. Á vettvangi Evrópuráðsþingsins á árinu 2015 bar hæst neyðarástandið í Úkraínu, hlutdeild Rússa í átökunum og stöðu landsnefndar þeirra hjá Evrópuráðsþinginu, flóttamannavandann á Miðjarðarhafi og baráttuna gegn hryðjuverkum.

Á árinu ályktaði Evrópuráðsþingið meðal annars um slæma stöðu flóttamanna og vegalauss fólks á átakasvæðum í suð­austurhluta Úkraínu og afdrif týndra einstaklinga vegna átakanna í héruðunum Donetsk og Luhansk í Úkraínu og á Krímskaga. Á fundi sínum í apríl 2014 ákvað þingið að svipta rússnesku landsdeildina atkvæðisrétti sínum ásamt rétti til að sitja í helstu stjórnum þingsins og taka þátt í kosningaeftirliti vegna hlutdeildar Rússlands í átökunum. Réttindi landsdeildarinnar voru tvívegis endurmetin árið 2015. Á janúarfundi þingsins var ákveðið að fullgilda kjörbréf landsdeildar Rússa en að réttindi hennar yrðu áfram jafn takmörkuð og áður. Ef Rússar sýndu viðleitni til að draga innlimun Krímskaga til baka, rannsaka mannréttindabrot, leysa upp herafla sinn í Úkraínu og stilla sig um að beita sjálfstæða fjölmiðla þrýstingi, hugðist þingið skoða að veita Rússum full réttindi aftur. Á júnífundi þingsins var samþykkt að ógilda ekki kjörbréf landsdeildar Rússlands að sinni en að réttindi hennar yrðu áfram jafn takmörkuð og áður. Í ályktun um málið segir að rússneska þingið og landsdeild þess hjá Evrópuráðsþinginu verði nú að hefja samræður við Evrópuráðsþingið á ný, án skilyrða, um skuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu, þar á meðal hvað varðar stefnu sína gagnvart nágrannaríkjum. Í ályktuninni er undirstrikað að samþykki slíkra samræðna sé grunnregla aðildar að Evrópuráðsþinginu sem öll aðildarríki verði að fylgja. Sem fyrsta skref ætti rússneska landsdeildin að snúa aftur til vinnu eftirlitsnefndar þingsins og heimila framsögumönnum nefndarinnar gagnvart Rússlandi að sækja landið heim í tengslum við störf sín.

Rétt áður en janúarfundur Evrópuráðsins hófst í síðustu viku barst síðan bréf frá rússneska þinginu, Dúmunni, þar sem tilkynnt var að Rússar mundu ekki taka neinn þátt í starfi Evrópuráðsins á yfirstandandi ári og það er staðan í dag. Rússar eru aðilar að Evrópuráðinu og sem slíkum ber þeim að virða grunngildi þess.

Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Í þeim tilgangi beitir ráðið sér meðal annars fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála.

Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Þar ber hæst mannréttindasáttmála Evrópu, samanber lög nr. 62/1994, og félagsmálasáttmála Evrópu.

Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið meðal annars gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, meðal annars með tæknilegri aðstoð á sviði laga og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll og eru þau nú 47 talsins. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007. Þar með mynda ríki Evrópuráðsins eina órofa landfræðilega heild í álfunni, að Hvíta-Rússlandi undanskildu.

Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þessara 47 þjóðþinga Evrópuráðsins. Á þinginu sitja 318 fulltrúar og jafn margir til vara. Ólíkt ráðherranefnd Evrópuráðsins þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar.

Evrópuráðsþingið er eins konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál. Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:

eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,

hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir í þeim tilvikum sem misbrestur er þar á,

vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.

Á aprílfundi sínum lýsti Evrópuráðsþingið yfir miklum áhyggjum af áframhaldandi harmleik flóttamanna og óreglulegs farandfólks á Miðjarðarhafi með gífurlegri aukningu dauðsfalla vikurnar á undan. Í ályktun um málið kallaði þingið eftir að ríki Evrópusambandsins tækju á málinu á alhliða hátt með því að styrkja leit og björgun á svæðinu, samþykkja skilvirkar sameiginlegar aðgerðir til að berjast gegn mansali og smyglurum, endurskoða Dyflinnarreglugerðina með það að leiðarljósi að deila ábyrgð og kostnaði betur með kvótum fyrir móttöku flóttafólks fyrir hvert ríki byggt á íbúafjölda þess og landsframleiðslu, fjölga löglegum leiðum til farandflutnings til Evrópu fyrir flóttafólk, auka mannúðaraðstoð og tryggja aðgengi að hæli fyrir fólk sem þarfnast alþjóðlegrar verndar.

Á októberfundi þingsins var meðal annars rætt og ályktað um þörfina fyrir nýtt kerfi fyrir móttöku hælisleitenda sem koma til álfunnar og hins vegar þær áskoranir sem þau ríki sem flóttamenn hafa viðkomu í standa frammi fyrir.

Í ályktun um síðarnefnda málefnið óskaði þingið eftir því að aðildarríki Evrópuráðsins sendu hælisleitendur ekki til baka til Líbanons, Jórdaníu, Tyrklands, Grikklands, Makedóníu, Serbíu og Ungverjalands eða annarra ríkja sem bera meiri þunga af flóttamannastraumnum en önnur ríki og/eða þar sem öryggi hælisleitenda er ekki tryggt af hálfu móttökuríkjanna.

Í ályktun um hryðjuverkaárásirnar í París 7.–9. janúar 2015 kallaði Evrópuráðsþingið eftir því að aðildarríki stilltu sig um að framkvæma óskipulagt fjöldaeftirlit með borgurum, veittu löggæslustofnunum og öryggis- og leyniþjónustum nægilegt fjármagn og þjálfun til að takast á við vaxandi ógn af hryðjuverkum og tryggðu að leyniþjónustur Evrópuríkja ykju samstarf sitt sín á milli og samstarf við ríki í Miðausturlöndum og í arabaheiminum. Loks kallaði þingið eftir því að aðildarríki og nágrannaríki þeirra undirrituðu og fullgiltu sáttmála Evrópuráðsins um forvarnir gegn hryðjuverkum og fagnaði sérstaklega viðauka við sáttmálann sem sneri að hryðjuverkamönnum sem snúa aftur til síns heima.

Í ályktun á aprílþinginu um afleiðingar af aðgerðum hryðjuverkahóps sem kennir sig við íslamskt ríki, Daesh eða ISIS, lýsti þingið yfir miklum áhyggjum af sífellt versnandi ástandi í Sýrlandi en á árinu 2014 létu 76 þúsund manns lífið í tengslum við átök uppreisnarhópa og stjórnarhersins þar í landi og ekki er vitað um afdrif þúsunda manna. Þá hafa 11,5 milljónir manna flúið land en þar af eru 4 milljónir flóttamenn og um 7,5 milljónir vegalaust fólk innan eigin lands. Átökin í Sýrlandi hafa leitt til þess að Sýrlendingar eru nú stærsti hópur flóttamanna sem Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna aðstoðar. Þingið hrósaði sérstaklega Tyrklandi, Líbanon, Írak og Egyptalandi fyrir að hafa tekið á móti um 92% af flóttamönnunum. Þingið óskaði eftir að aðildar- og áheyrnarríki Evrópuráðsins ykju fjárhagslegan stuðning sinn við stofnanir sem starfa á sviði mannúðarmála, veittu sýrlenskum flóttamönnum tímabundna vernd og vegabréfaáritanir til að þeir gætu stundað nám eða vinnu, gripu til aðgerða gegn smyglurum á Miðjarðarhafssvæðinu, lögsæktu fólk sem hefði framið stríðsglæpi og sæju til þess að konur ættu aðild að friðarferlinu í Sýrlandi.

Í upphafi árs 2015 var Anne Brasseur frá Lúxemborg endurkjörin formaður Evrópuþingsins til eins árs en hún var ein í framboði. Þá var Wojciech Sawicki endurkjörinn framkvæmdastjóri Evrópuráðsþingsins til fimm ára með 140 atkvæðum á móti 108 atkvæðum mótframbjóðanda.

Varaformaður Íslandsdeildar, Unnur Brá Konráðsdóttir, fundaði með forseta Evrópuráðsþingsins, Anne Brasseur, 28. október í Reykjavík, ásamt Óttari Proppé og Líneik Önnu Sævarsdóttur sem ásamt Unni Brá sitja í þverpólitískri þingmannanefnd Alþingis um útlendingamál. Til umræðu á þeim fundi var fyrst og fremst mikill straumur flóttamanna til Evrópu og viðbrögð Íslands við stöðunni. Þingmenn upplýstu Anne Brasseur um vinnu þverpólitísku þingmannanefndarinnar og endurskoðun útlendingalaga á Íslandi. Anne Brasseur lýsti yfir ánægju með hvernig þingmannanefndin væri að vinna að málaflokknum, þvert á flokka og í sem mestri sátt. Í mörgum löndum væru stjórnmálaflokkar að nýta sér krefjandi aðstæður til að ýta undir hatursorðræðu og fordóma í því skyni að auka fylgi sitt. Hatursorðræða væri ógn við lýðræðið, en ekki flóttamenn.

Af öðrum málum en stöðunni í Úkraínu, flóttamannastraumi og hryðjuverkaógninni má nefna að Evrópuráðsþingið ályktaði um fjölmiðlafrelsi og lýsti þingið yfir miklum áhyggjum af sífellt versnandi stöðu þegar kæmi að öryggi blaðamanna og fjölmiðlafrelsi í Evrópu og hvatti aðildarríki til að auka starf sitt á þessu sviði. Meintar árásir á fjölmiðla í átökunum í Austur-Úkraínu voru fordæmdar og kallað eftir því að stjórnvöld í Úkraínu og Rússlandi rannsaki brotin og lögsæki gerendur.

Í ályktun um fjöldaeftirlit með almenningi lýsti þingið yfir miklum áhyggjum af fjöldaeftirliti Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna og samstarfsaðila þeirra í nokkrum aðildarríkjum Evrópuráðsins sem Edward Snowden, fyrrverandi starfsmaður Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna, upplýsti um í júní 2013. Uppljóstrunin leiddi til mikillar umræðu um þann skort sem er á viðunandi löggjöf og tæknilegri vernd í þessu sambandi. Í ályktuninni segir að eftirlitskerfin sem Snowden ljóstraði upp um stofni grundvallarmannréttindum í hættu, þar á meðal réttinum til einkalífs og tjáningar- og upplýsingafrelsis. Þingið hvatti aðildar- og áheyrnarríki Evrópuráðsins til að tryggja að löggjöf þeirra leyfði aðeins söfnun og greiningu persónuupplýsinga með leyfi frá viðkomandi persónu eða að dómsúrskurður liggi fyrir byggður á rökstuddum grun um að viðkomandi hafi tekið þátt í glæpsamlegu athæfi.

Á sumarfundi Evrópuráðsþingsins var meðal annars ályktað um virkni lýðræðisstofnana í Aserbaídsjan og fordæmdi þingið versnandi vinnuaðstæður borgaralegra samtaka og verndara mannréttinda og kallaði eftir að stjórnvöld hættu kerfisbundinni áreitni í garð þeirra sem gagnrýna þau og tryggðu skilvirkt mat ríkissaksóknara á tilraunum til slíks. Þá kallaði þingið eftir að stjórnvöld í Aserbaídsjan framfylgdu að fullu dóma Mannréttindadómstóls Evrópu, tryggðu aðskilnað valds, styrktu eftirlit þjóðþingsins með framkvæmdarvaldinu, tryggðu sjálfstæði dómstóla og hvettu til fjölhyggju, frjálsra kosningaherferða og fjölmiðlafrelsis.

Í ályktun um afdrif týndra einstaklinga vegna átakanna í Úkraínu lýsti þingið yfir miklum áhyggjum af vaxandi fjölda týndra einstaklinga vegna átakanna í héruðunum Donetsk og Luhansk í Úkraínu og á Krímskaga. Ekki sé einungis um að ræða hermenn heldur einnig almenna borgara, þar á meðal sjálfboðaliða sem voru að hjálpa fórnarlömbum átakanna. Lagt var til að veitt yrði sérstök aðstoð til fjölskyldna týndra einstaklinga. Það væri á ábyrgð rússneskra og úkraínskra stjórnvalda og þeirra aðskilnaðarhópa sem hafa yfirráð yfir héruðunum Donetsk og Luhansk að hjálpa fjölskyldum að finna ástvini sína án frekari tafar.

Í utandagskrárumræðu um flóttamenn á Miðjarðarhafi var kallað eftir að þingmenn hvettu evrópska leiðtoga til að deila ábyrgðinni gagnvart flóttamönnum. Þeir ættu að sýna meiri samheldni þegar kæmi að því að taka á móti flóttamönnum í heimalöndum sínum og styðja þau ríki sem tækju mestu ábyrgðina í því sambandi. Aukin samvinna aðildarríkja Evrópuráðsþingsins væri raunhæf lausn á vandamálinu. Að deila ábyrgðinni væri ekki einungis lagaleg skylda heldur einnig mannúðleg.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, flutti ávarp á haustþinginu og fullvissaði hann Evrópu um að hún hefði stuðning Sameinuðu þjóðanna þegar kæmi að baráttunni gegn ofbeldishneigðri öfgahyggju og aukinni andúð gegn gyðingum og múslimum og annarri mismunun. Þá lagði hann áherslu á réttindi flóttamanna, hælisleitenda og farandverkamanna og lagði í því sambandi til að settar yrðu upp lagalegar leiðir fyrir búferlaflutninga og sameiningu fjölskyldna.

Á haustfundi Evrópuráðsþingsins sat Thorbjørn Jagland, framkvæmdastjóri ráðsins, fyrir svörum í fyrirspurnatíma á fyrsta degi þingfunda. Ég spurði Jagland hvort viðræður ættu sér stað milli Evrópuráðsins og Rússlands um stöðu landsins innan ráðsins, og vísaði til funda forseta Bandaríkjanna og Rússlands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um aukna hernaðarlega íhlutun Rússa í Sýrlandi og neyðarástandið í Úkraínu. Jagland svaraði að ekki væru einungis í gangi samræður milli ráðsins og Rússlands heldur hefði ráðherranefnd Evrópuráðsins samþykkt fjölda ákvarðana um ólöglega innlimun Rússa á Krímskaga og hlutdeild þeirra í málefnum Austur-Úkraínu. Samhliða því styddi Evrópuráðið viðleitni Úkraínumanna við að byggja upp traust ríki þar sem spilling þrifist ekki. Ástandið í Sýrlandi væri hins vegar ekki til umræðu þar sem Evrópuráðið hefði ekki umboð til að taka á því. Það væri á ábyrgð öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að tryggja frið og öryggi í heiminum og hvað Sýrland varðaði hefði öryggisráðið brugðist.

Í umræðum um flóttamannavandann í Evrópu var annars vegar rætt og ályktað um þörfina fyrir nýtt kerfi fyrir móttöku hælisleitenda sem koma til álfunnar og hins vegar þær áskoranir sem þau ríki sem flóttamenn hafa viðkomu í standa frammi fyrir. Þingið mælti með því að Evrópusambandið og aðildarríki þess mótuðu skuldbindandi reglur um móttöku og flutning hælisleitenda milli aðildarríkja í viðleitni sambandsins til að bæta framkvæmd Dyflinnarreglugerðarinnar og annarra reglna um móttöku flóttamanna. Þá mælti þingið með því að búin yrði til sérstök lagaleg staða „evrópskra flóttamanna“ sem gætu á grunni þeirrar stöðu flutt búferlum milli aðildarríkja og notið sömu réttinda í þeim öllum, eða að öðrum kosti að flóttamenn sem eru undir alþjóðlegri vernd fái langtímadvalarleyfi að tveimur árum liðnum. Hvað varðar Dyflinnarreglugerðina kallaði þingið eftir að Evrópusambandið og aðildarríki þess hæfu án tafar heildræna endurskoðun á henni. Í ályktun um þær áskoranir sem þau ríki sem flóttamenn hafa viðkomu í standa frammi fyrir mælti þingið með því að Evrópusambandið tryggði samræmi í stefnu sinni gagnvart flóttamönnum, virti mannréttindi og réttarríkið og forðaðist að einblína á landamæraeftirlit og öryggismál. Þingið óskaði jafnframt eftir því að aðildarríki Evrópuráðsins sendu hælisleitendur ekki til baka til Líbanons, Jórdaníu, Tyrklands, Grikklands, Makedóníu, Serbíu eða Ungverjalands eða annarra ríkja sem bera meiri þunga af flóttamannastraumnum en önnur ríki og/eða þar sem öryggi hælisleitenda er ekki tryggt af hálfu móttökuríkjanna. Í tilmælum til ráðherranefndar Evrópuráðsins hvatti þingið nefndina til að tryggja mannréttindi flóttamanna í samstarfi sínu við þriðju ríki og styðja viðkomandi ríki í viðleitni þeirra við að auka vernd flóttamanna og við að móta heildstæða stefnu fyrir aðlögun þeirra.

Virðulegur forseti. Loks má geta þess að stærsta nefnd Evrópuráðsþingsins, Committee on Political Affairs and Democracy, hefur ákveðið að funda í Reykjavík í september næstkomandi og er það mikið fagnaðarefni hvað bæði nefndin og Evrópuráðið hafa sýnt landinu mikinn áhuga. Þá ber að þakka Alþingi fyrir að hafa boðið Evrópuráðsþinginu að halda fundinn hérlendis en á honum gefst einstakt tækifæri til að koma á framfæri málefnum og sjónarmiðum sem sérstaklega tengjast Íslandi.



[14:26]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Garðarssyni fyrir prýðilega skýrslu af framgangi mála hjá Evrópuráðinu. Það kemur fram í skýrslunni, eins og í mörgum skýrslum þeirra funda sem þingmenn sitja á erlendum vettvangi fyrir Alþingi Íslendinga, að eitt þeirra mála sem hefur hæst borið í umræðum og á fundum Evrópuráðsins er vitaskuld deilan sem hefur spunnist um íhlutun Rússa í Úkraínu. Hv. þingmaður situr í utanríkismálanefnd og sinnir mjög vel utanríkismálum fyrir hönd Alþingis. Honum hafa líka verið falin trúnaðarstörf fyrir sinn flokkahóp og er þess vegna hnútum kunnugur. Mig fýsir að vita hvort hv. þingmaður getur gert sér einhverja grein fyrir því, af þeim umræðum sem hann hefur tekið þátt í á vettvangi Evrópuráðsins og þeim fundum sem hann hefur setið, hvernig líklegt er að þessi togstreita og deila sem hefur staðið vegna Rússlands og Úkraínu muni þróast. Við höfum séð það að Vesturlönd hafa gripið til ákveðinna viðbragða. Sumum finnast þau linkuleg og skila litlum árangri, en klárt er að þau hafa alla vega kallað yfir þær þjóðir sem að þeim standa gagnaðgerðir sem hafa líka haft í för með sér erfiðleika. Við höfum orðið þess áskynja að ýmsir af hinum stóru leikurum á hinu alþjóðlega sviði eru á bak við tjöldin að reyna að finna lausn á málinu sem hugsanlega tæki líka til lausnar á ýmsum öðrum vandamálum, sem tengjast t.d. Sýrlandi.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann hvort hann sér einhver merki þess að hugsanlegt sé að í þessa deilu komist á næstunni eða þessu ári einhver lausn sem báðir aðilar geti við unað og leiði hugsanlega til þess að gagnkvæmum aðgerðum verði aflétt.



[14:28]
Flm. (Karl Garðarsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir ágæta spurningu.

Ég er þeirrar skoðunar að lausnin varðandi Úkraínu muni tengjast mögulegri lausn í Sýrlandi. Rússar koma að báðum þessum málum með einum eða öðrum hætti og ég held að að lokum verði ákveðin tengsl þarna á milli. Að þessu sögðu þá held ég að Krímskagi verði ekki aftur hluti af Úkraínu. Ég held að það sé útséð með það. Þar verður áframhaldandi eins konar „frozen conflict“ eins og við sáum í Nagorno-Karabakh og á fleiri stöðum og það eru mjög litlar líkur á því að Krímskagi verði aftur hluti af Úkraínu.

Hvað varðar austurhluta Úkraínu, þá erum við að tala um Donetsk og Luhansk og svæðin þar í kring, þá er ég öllu bjartsýnni. Ég hef þá trú að niðurstaðan verði að lokum sú að þessi héruð fái ákveðna sjálfsstjórn í sínum málum, verði áfram hluti af Úkraínu, það verði niðurstaðan, en með mjög ákveðna sjálfsstjórn í ákveðnum málum sem þau leggja áherslu á. Það er mín skoðun að þetta muni enda á þann hátt.



[14:30]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Skömmu eftir hryðjuverkin í París þá var frétt þar sem vísað var í ummæli Frakklandsforseta, eftir að hann hafði m.a. verið í samtölum við Pútín Rússlandsforseta, þar sem hann sagði að hinum gagnkvæmu þvingunaraðgerðum Rússa og Vesturlanda mundi að öllum líkindum linna fyrr en menn hygðu. Það vakti undrun mína að þessi ummæli forsetans flugu ekkert víða, alls ekki hér á Íslandi og ekki var mikið veður gert úr þeim erlendis. Ég las úr þessu að menn væru að reyna að ná alslemmi sem fælist í því að menn næðu einhvers konar samkomulagi um Úkraínu og Krímskagann annars vegar, sem líkast til yrði á þeim nótum sem hv. þingmaður greindi hér frá, þ.e. að Krím yrði „frozen conflict“-svæði, með leyfi forseta, eins og ýmis þau önnur átakasvæði sem við höfum séð, en að Rússar mundu virða samkomulög sem hafa verið gerð varðandi austurhlutann og þeir mundu að svo stöddu ekki aðhafast neitt frekar, enda er það viðurhlutaminnst fyrir þá og kostnaðarminnst. En á hinn vænginn yrði líka eins konar samkomulagi náð með hvaða hætti þeir ásamt öðrum sem eru á vellinum í Sýrlandi mundu haga sínum aðgerðum. Nú er ég ekki endilega að segja að þær aðgerðir séu það besta í stöðunni sem hægt er að grípa til til þess að ná fram lausn. Ég held að það sé pólitísk lausn þar sem allir komi að og það sé algjörlega klárt að súnnítar fái sinn rétt. Það er ekki síst þeirra hlutur sem hefur leitt til þess hver staðan er þar.

En ég vildi bara segja það að ég er sammála hv. þingmanni. Telur hann að það sé hugsanlegt að við sjáum einhverja svona þróun á fyrri helmingi þessa árs?



[14:32]
Flm. (Karl Garðarsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir innlegg hans. Ég er algjörlega sammála því sem hann hefur fram að færa í þessu máli, eins og ég er reyndar oftast þegar við höfum ræðst við í utanríkismálanefnd um þessi mál. Það eru fáir hér innan húss sem hafa betri skilning á utanríkismálum heldur en einmitt hv. þm. Össur Skarphéðinsson.

Það er alveg ljóst að þær þvinganir sem eru í gangi gagnvart Rússum eru farnar að bíta verulega þar innan lands og það vita allir. Það er mjög aukin pressa innan lands á Pútín að reyna að finna einhverja lausn, því fólk er náttúrlega farið að finna fyrir mikilli verðbólgu, hruni rúblunnar o.s.frv. þar. Það er því þrýstingur innan lands á hann, olíuverðið hefur hrunið o.s.frv.

Ég hef þá trú að lausn náist í þessu máli á þessu ári. Það gerist ekki á næstu mánuðum, en vonandi í lok þessa árs. Ég hef fulla trú á því að sú lausn geti tengst mögulegri lausn í Sýrlandi. Þar eru reyndar ákveðin teikn á lofti um stefnubreytingu. Við heyrðum það síðast í gær í fréttum með Breta, þar eru menn farnir að ýta undir hvort ekki sé rétt að hefja jafnvel landhernað í Sýrlandi. Slíkar vangaveltur munu örugglega aukast á næstu mánuðum vegna þeirra hryðjuverka sem átt hafa sér stað á Vesturlöndum. Þannig að ég held að Rússar séu bara komnir á það stig núna að þeir vilji frið í Úkraínu og þeir vilja að sjálfsögðu líka frið í Sýrlandi.



[14:34]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Garðarssyni, formanni Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, fyrir ágæta yfirferð yfir skýrslu um Evrópuráðsþingið og aðkomu okkar íslenskra þingmanna að því. Mér finnst líka ástæða til að færa nefndarritara, Vilborgu Guðjónsdóttur, kærar þakkir fyrir hennar góða framlag til vinnu nefndarinnar og aðstoð við okkur þingmennina.

Eins og fram kom í máli formanns Íslandsdeildarinnar voru helstu mál, sem komu til umfjöllunar á vettvangi Evrópuráðsþingsins á árinu 2015, málefni flóttamanna við Miðjarðarhafið og síðan upp eftir allri Evrópu, baráttan gegn hryðjuverkum, og eins og hún gat um í ræðu sinni var einnig mikið fjallað um uppljóstrara og þá einnig eftirlit með leyniþjónustum og löggæslu, og síðan var það náttúrlega Úkraínudeilan sem setti svip á umræðu á árinu en svo hefur verið allar götur frá því Rússar voru sviptir rétti sínum innan Evrópuráðsins til að taka þátt í störfum sjálfs þingsins. Ég held að það hafi verið mjög mikil mistök enda greiddi ég atkvæði gegn þessum ákvörðunum að minnsta kosti í tvígang eða alltaf þegar þetta kom til umfjöllunar.

Evrópuráðið missti sig því miður í að gleyma hvað það er. Evrópuráðið er varðstöðustofnun um mannréttindi og lýðræði fyrst og fremst. Evrópuráðið er stofnun Pussy Riot gegn rússneska ríkinu. Evrópuráðið er stofnun þeirra sem ríkin 47 brjóta gegn. Þegar við drögum úr réttindum Rússlands eða annarra ríkja eða víkjum þeim brott úr Evrópuráðinu erum við að svipta þetta fólk réttinum og aðkomu að því að sækja rétt sinn fyrir dómstól Evrópuráðsins og fyrir stofnunum Evrópuráðsins. Þetta vill stundum gleymast.

Við höfum annars konar ríkjablokkir. Við höfum Evrópusambandið og við höfum NATO sem glíma við verkefnin á öðrum forsendum en Evrópuráðið gerir og á að gera. En Evrópuráðið missti sig aftur og ítrekað í þetta hlutverk, tók afstöðu með stjórnvöldum í Úkraínu og iðulega gegn mannréttindum, til dæmis var borin upp tillaga í Evrópuráðinu og á þingi Evrópuráðsins og samþykkt um að Úkraína mætti ekki undir neinum kringumstæðum verða sambandsríki. Við í flokkahópi vinstri flokkanna höfðum lagt til að við létum þetta liggja milli hluta. Það væri ákvörðunarefni í Úkraínu og úrlausnarefni þar á bæ að ráða slíkum ráðum en ekki okkar. Okkar tillaga var felld vegna þess að tekin var afstaða með þeim sem héldu um stjórnartaumana í Kænugarði. Þetta er dæmi um hvernig Evrópuráðið missti sig í þessum efnum.

Síðan er á það að líta að stjórnvöld í Úkraínu komust á valdastólinn með því að ýta lýðræðislega kjörnum forseta til hliðar og hrifsa völdin úr hans hendi. Það vita allir að fingraför Atlantshafsbandalagsins, NATO, Bandaríkjanna, og því miður Evrópusambandsins einnig, sem hefur verið gagnrýnt fyrir að gerast of utanríkispólitískt í þessu máli, var einnig að merkja í því. Síðan vitum við, sem fylgdumst með kosningum í Úkraínu, hvernig þrengt var að lýðræðinu. Til dæmis voru fulltrúar kommúnista ofsóttir, skildir eftir í ruslatunnum. Það eru nokkuð skýr skilaboð, ekki satt? Þegar ráðist er á frambjóðendur flokks og þeim hent í ruslatunnur. Hvern langar til að bjóða sig fram fyrir slíkan flokk? Enda er búið að banna hann núna. Það var gert með því að banna merki flokksins og hugmyndafræði. Að sjálfsögðu liggur í hlutarins eðli að þeir sem bera þá hugmyndafræði eru úr sögunni. Nú er þetta fyrir dómstólum, reyndar, í Kænugarði.

Þetta er það sama og við höfum séð í ýmsum öðrum ríkjum, svo að dæmi sé tekið í Aserbaídsjan. Ég fylgdist með kosningum þar í byrjun nóvember og gat ekki skrifað undir að fullu afstöðu eftirlitsnefndarinnar vegna þess að mér þótti vanta í álitsgerðina að gagnrýna rammann. Það er eitt að kosningar gangi liðlega fyrir sig og talið sé heiðarlega upp úr kössunum o.s.frv., sem við teljum að hafi átt sér stað í Úkraínu, þegar við fylgdumst með kosningunum þar. En spurningin er: Hvernig er farið með þá sem halda uppi stjórnmálaumræðu í óþökk stjórnvalda, eru gagnrýnir? Sitja þeir í fangelsi eins og er í Aserbaídsjan? Er þrengt að fjölmiðlum? Þetta verðum við að skoða, þetta samhengi hlutanna verðum við að skoða áður en við stimplum kosningar lýðræðislega framkvæmdar. Að sjálfsögðu þurfum við að gera það. Og þetta er Evrópuráðið, það snýst um þetta. Að heyra fulltrúa breska heimsveldisins — það rauk enn upp af þeim eftir innrásina í Írak 2003, en tilfinningahitinn og ofstækið var óþrjótandi þegar kom að því að fordæma Rússa fyrir aðkomu þeirra að Úkraínu. Það dæmi er náttúrlega mjög margslungið.

Auðvitað viljum við helst spyrja hvað fólkið vilji gera. Hvað vill fólkið á Krímskaga gera? Formaður nefndarinnar kom ágætlega að því máli í framsögu sinni. Þetta væri margslungið mál, þar á meðal yrði að horfa til vilja fólksins. Auðvitað verðum við að virða þann vilja. Ég kom með tillögu um það á Evrópuráðsþinginu að við settum það inn í ályktun þingsins að auk þess að virða landamæri ríkja bæri að horfa til lýðræðislegs vilja. Það var fellt. Evrópuráðsþingið felldi tillögu um að við virtum lýðræðið. Það þótti mér mjög miður. Við sem sækjum þessi þing eigum fyrst og fremst að horfa til mannréttindanna. En þessi heimur er náttúrlega flókinn.

Þegar við segjum: Það á að virða lýðræðislegan vilja, á það gilda í Nagorno-Karabakh eins og formaður vék að? Í þeirri deilu? Sem tilheyrði Aserbaídsjan og Armenar tóku á sitt vald? Hinn lýðræðislegi vilji er óvefengjanlega armenskur, að vilja ekki tilheyra Aserbaídsjan, en engu að síður tilheyrði landið Aserbaídsjan. Og í alþjóðlegum skilningi er verið að brjóta þarna á Aserbaídsjan. Það sama kemur upp varðandi Krímskagann. Ef við tökum Kýpur. Tyrkir voru dreifðir um alla eyjuna á sínum tíma, þeir eru komnir núna á eitt tiltekið svæði. Á að virða lýðræðislegan vilja þar? Eða horfa til Kýpur heildstætt? Þetta er ekki einfalt mál. Þetta er flókið. Og ég er ekki að halda því fram að þetta sé einfalt.

En mér fannst einföldunin sem átti sér stað, og hefur átt sér stað, varðandi Rússland og Úkraínu með ólíkindum og mér þótti það mjög miður og lét það oft í ljós í umræðu á þinginu. Ég tel að Evrópuráðið sé vettvangur sem Íslendingar eigi að leggja mikla rækt við. Ég fagna því að ákvörðun hafi verið tekin um að endurreisa skrifstofu okkar í Strassborg. Við erum eina ríkið af 47 sem hefur ekki haft sendiherrastöðu þar. Það var eðlileg afleiðing hrunsins. Það var verið að draga saman á ýmsum sviðum. En það var tímabundin ákvörðun sem þar var tekin.

Um þessi mál öll gæti ég og vildi gjarnan hafa langt mál en við höfum skýrsluna. (Forseti hringir.) Mér finnst mikilvægt að henni sé komið vel á framfæri. Hún er á vef þingsins. Þar er að finna ýmsar upplýsingar. En síðan mega menn vita það að við tökum þátt í þessu starfi til að hafa áhrif á umræðuna og það get ég borið vitni um að við þingmennirnir sem höfum sótt þessa fundi höfum reynt að gera.



[14:44]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er kosturinn við hv. þm. Ögmund Jónasson að hann skefur ekkert utan af skoðunum sínum. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann í samhengi við það sem hann velti upp varðandi það við hvaða aðstæður hægt er að skipta um stjórn í ríkjum og jafnvel mynda nýtt ríki eða ríkjahluta: Er þá að hans mati til dæmis mögulegt að tiltekið ríki fari með hervaldið og skeri skika af landi og sturti síðan þar inn fólki og láti svo fara fram atkvæðagreiðslu og þegnarnir sem þar eru ákveði þá að búa til sjálfstætt ríki? Er það í lagi? Er það aðferð sem við getum skrifað upp á? Ég er ekki alveg viss um það. Ég nefni þetta kannski ekki í sambandi við Krím heldur það dæmi sem hann notaði líka til stuðnings máli sínu, sem var Kýpur.

Ef við komum síðan að Krím og Úkraínu er það þannig að mér fer eins og Bretunum sem hv. þingmaður vísaði til, það rýkur upp af mér út af Írak en af allt öðrum ástæðum, af nákvæmlega sömu ástæðum og rauk upp af hv. þm. Ögmundi Jónassyni árum saman út af Írak. Ég og hv. þingmaður vorum algjörlega sammála um Írak, um innrásina sem þar var gerð, og í dag sjáum við hrapallegar afleiðingar hennar. En herra trúr, ég get samt sem áður ekki annað en fordæmt athæfi Rússa, bæði varðandi austurhluta Úkraínu og líka Krím, þótt segja megi að öðru máli gegni um Krím. En er það þá í lagi, herra forseti, að af því það er haldin atkvæðagreiðsla á Krím og niðurstaðan er með tilteknum hætti megi málin vera í þessum farvegi? Er að minnsta kosti (Forseti hringir.) ekki lágmarkskrafa að menn eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson eða aðrir sem eiga sæti í Evrópuráðinu séu þar í kosningaeftirliti og sjái til þess (Forseti hringir.) að atkvæðagreiðslan sé lögleg? Er það ekki lágmarksskilyrði?



[14:47]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, það er lágmarksskilyrði. Atkvæðagreiðsla sem fram fer undir hæl Vladimírs Pútíns er ekki marktæk, að sjálfsögðu ekki. En ég vísa í atkvæðagreiðslur sem höfðu farið áður fram á Krím og yfirlýsingar þingsins á tíunda áratugnum um sjálfstæði Krímskaga. Þeim var þá hótað hernaðarvaldi frá Kiev, frá Kænugarði, af þáverandi forseta. Það hefur verið upplýst og það hefur verið staðfest.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er ekkert einhlítt í þessum efnum og ég skrifa ekki upp á þá aðferðafræði sem hann lýsti. En þegar við horfum til samkenndar sem myndast í heiminum á milli þeirra sem hafa völdin í ríkjum um að undir öllum kringumstæðum varðveita landamærin, þá hef ég mínar efasemdir. Við náttúrlega munum úr Afríkusögunni, Katanga frá Kongó á sjöunda áratugnum og Biafra frá Nígeríu. Ætli Katanga sé ekki á stærð við Frakkland og Þýskaland, þetta litla hérað í Afríku sem vildi verða sjálfstætt? Ég man ekki hver stærðarhlutföllin þarna eru. Nei, það er ekkert einhlítt í þessum efnum, alls ekki.

Varðandi Íraksstríðið vorum við sammála um að það hefði verið forkastanlegt að ráðast þar inn. Fordæmi ég atferli Rússa? Ég fordæmi allan yfirgang. Ég fordæmi hernaðaríhlutun. Ég fordæmi það þegar menn fara ekki fram á lýðræðislegan hátt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann á móti: Fordæmir hann íhlutun vestrænna ríkja þegar lýðræðislega kjörnum forseta var steypt af stóli með valdi í Úkraínu í byrjun árs 2014? Fordæmir hv. þm. Össur Skarphéðinsson (Forseti hringir.) bannfæringu kommúnistaflokks Úkraínu núna? Fordæmir hann þetta fortakslaust?



[14:49]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Að því er lýtur að síðustu spurningu hv. þingmanns um það hvort ég fordæmi bann á kommúnistaflokknum í Úkraínu og notkun á merki hans þá er það algjörlega klárt að ég fordæmi það til dæmis að stjórnmálahreyfingum sem eru byggðar á lýðræðislegri þátttöku fólks sé bannað að starfa. Ég fordæmi að þær fái ekki að nota þau tæki og tól sem beitt er í friðsamlegum tilgangi. Að því gefnu að það sé í fullkomlega friðsamlegum tilgangi er ég þeirrar skoðunar að allar hugmyndir og stjórnmálaskoðanir eigi að fá að keppa gagnvart fólkinu í því landi sem það býr í. Ég er þeirra skoðunar að almennt sé reglan sú að það eigi ekki að banna stjórnmálahreyfingar.

Spurningin sem hv. þingmaður beindi til mín á undan var akkúrat sú sem ég vildi aðeins reifa hér. Ég er ekki sannfærður um það sem hv. þingmaður sagði að þeir atburðir sem urðu í Úkraínu hafi fyrst og fremst verið fyrir atbeina vestrænna afla. Hann tiltók sérstaklega þrjú, Bandaríkin, Evrópusambandið og NATO. Um Evrópusambandið er það að segja að það kann vel að vera að Evrópusambandið hafi tekið þátt í því af einhvers konar athugunarleysi, reynsluleysi, eins og mér fannst gæta hjá sumum forustumönnum Evrópusambandsins, að ýta undir væntingar sem voru ekki raunhæfar, t.d. um það að Úkraína gæti gengið rakleiðis inn í Evrópusambandið. Það var aldrei raunhæft. Við vitum það. En Evrópusambandið hefur að öðru leyti ekkert kynt undir. NATO hefur svo best ég viti engan möguleika á því að kynda undir.

Hitt er alveg klárt að einstök ríki eins og Bandaríkin og Bretland og fleiri hafa í sögunnar rás orðið uppvís að slíku. Það er vel hugsanlegt en ég þekki það ekki. Hitt fullyrði ég (Forseti hringir.) að það er algjörlega út í hött að halda því fram að atburðirnir í Úkraínu hafi fyrst og fremst orðið vegna þess að það var einhvers konar utanaðkomandi þrýstingur. Þetta var alveg augljós vilji (Forseti hringir.) fólks sem braust fram.



[14:51]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Málið í lýðræðisríkjum er að vilji fólksins er margvíslegur. Það voru margir sem vildu steypa þeim lýðræðislega kjörna forseta af stóli sem þá sat, það er alveg rétt. Við vitum að þar voru líka að verki fasísk öfl sem hafa haft sig mjög í frammi. (ÖS: Fengu ekkert í kosningum.) Fengu ekkert í kosningum en fengu miklu fram náð með ofbeldi sínu íklæddir nasistabúningum og fasískum merkjum o.s.frv. Það er staðreynd. Við vitum líka hvernig farið var með fólkið sem var myrt í Odessa þegar það var brennt inni og málið aldrei rækilega rannsakað. Síðan þekkjum við það þegar verið er að banna þessar hreyfingar.

Lýðræðislegur vilji fólks er af margvíslegum toga. Hlutverk okkar í Evrópuráðinu er að reyna að standa vörð um þá umgjörð alla og halda alltaf með mannréttindunum og halda alltaf með lýðræðinu, eins og ég veit að hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerir og kom ágætlega fram í svörum hans.



[14:52]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það gleður mig alltaf þegar við fáum tækifæri til að ræða um störf Íslandsdeilda í alþjóðastarfi. Mér finnst mjög leiðinlegt hve fáir þingmenn taka þátt í þessum umræðum og eru hér viðstaddir því að grunnurinn að mjög mörgum samþykktum sem fara síðan í gegnum þjóðþing okkar á oft uppruna sinn í alþjóðastarfinu.

Mig langar að vekja athygli á einu sem mér finnst mjög athugavert við alþjóðastörfin. Ég hef verið viðloðandi alþjóðastörfin frá því ég kom á þing. Ég skildi fyrst ekki, til dæmis þegar við erum aðilar að samþykktum og ályktunum sem margar hverjar eru mjög góðar, af hverju þær eru ekki síðan gerðar að einhvers konar þingmáli hérlendis, og hef ég rannsakað töluvert hvernig þessu er háttað í öðrum löndum. Til dæmis hefur það verið reynsla mín hjá Alþjóðaþingmannasambandinu um ályktanir þess margar hverjar eða allar, að þar eru náttúrlega mun færri ályktanir samþykktar en hjá Evrópuráðinu og fleiri alþjóðanefndum sem við tökum þátt í. En það virðist sem við í Evrópu séum bara orðin svo hrokafull að okkur finnst við ekki þurfa að gera þær ályktanir sem fulltrúar okkar eru aðilar að og oft mjög virkir í að koma með breytingartillögur eða skrifa þær, að þingmálum, á meðan önnur ríki sem eru yngri en þessi gamalgrónu Evrópulönd eru miklu duglegri við að finna leiðir til þess að gera það.

Mig langar sérstaklega að vekja athygli þeirra sem hér eru á nokkrum tilmælum sem samþykkt hafa verið hjá Evrópuráðsþinginu. Ber fyrst að nefna það sem samþykkt var á öðrum hluta þingfundar frá 24. apríl, tilmæli 2067 og 2045, um fjöldaeftirlit, eða „mass surveillance“. Þetta eru gríðarlega góð tilmæli og sér í lagi er ályktunin sem þessi tilmæli byggja á mjög vönduð og góð. Byggði ég þá ályktun töluvert á þessari ályktun frá Evrópuráðsþinginu, sem ég fékk samþykkta og fékk þann heiður að gera fyrir Alþjóðaþingmannasambandið.

Síðan eru líka tilmæli 2073 sem vert er að skoða, um aukna vernd fyrir uppljóstrara. Hvet ég þingmenn sem hafa áhuga á þeim málaflokkum að skoða þau. Það eru líka mjög margar ályktanir og tilmæli sérstaklega hjá Evrópuráðsþinginu sem mér finnst alveg ofboðslega góður grunnur að því að betrumbæta lagaramma okkar. Því langar mig til að skora á þingmenn sem eru í mismunandi alþjóðanefndum að finna farveg, einn farveg til þess að kanna hvar við stöndum okkur hvað varðar öll þessi tilmæli og ályktanir, þ.e. að fara fram á skýrslu frá ráðherra sem hver ályktun fellur undir. Ég held að það væri gríðarlega góð leið. Það sem ég upplifi oft er að við erum búin að gera margt í þessum ályktunum, en við megum gera betur og við þurfum að kanna hvar við erum stödd því að annars eru þessar ályktanir og alþjóðastarf sem við erum aðilar að til lítils og eiginlega ekki til neins ef við tökum það ekki lengra en bara samþykkja það á einhverjum fundi í útlöndum. Ég veit að margir þingmenn sem eru í alþjóðastarfinu eru sammála mér um þetta. Þess vegna ákvað ég að gera pínulitla tilraun og sjá hvernig það gengur með því að leggja fram beiðni um skýrslu sem kæmi frá innanríkisráðherra út frá ályktun þeirri sem verður fjallað um á eftir, um lýðræði á stafrænum tímum og ógnir gegn friðhelgi einkalífs.

Mig langar svo mikið að við gerum meira við þetta af því að fæstir þingmenn vita af öllu því frábæra starfi sem á sér stað í alþjóðastarfinu. Þar nýtur maður svo góðs af því að fá að vinna með þingmönnum sem hafa kannski möguleika á að sérhæfa sig meira. Við höfum aðgengi að sérfræðingum sem eru jafnvel þeir bestu á sínu sviði. Þess vegna finnst mér mikilvægt að draga það heim í land.

Mig langar líka aðeins að vekja athygli á öðru. Mjög ítarlega er farið yfir til dæmis ályktun um fjöldaeftirlit með almenningi á bls. 7 og hv. þm. Karl Garðarsson kom aðeins inn á það. Mjög ánægjulegt er að sjá hvernig ákveðin málefni speglast í því sem er næst okkur, sem er þá norræna samstarfið, síðan Evrópusambandið og svo alþjóðasamstarfið og jafnvel NATO-samstarfið. Mér finnst að við ættum að finna einhvern farveg þar sem við getum tekið og skoðað hvað það er sem við erum kannski algerlega þverpólitískt að vinna að erlendis til að kalla eftir að eitthvað verði gert með það, hvort sem við mundum gera sameiginlegar beiðnir um skýrslur eða þingsályktanir upp úr því sem við erum að taka þátt í að samþykkja. Ég held að það væri öllum til góða.

Það hefur náttúrlega borið mikið á því í þessu starfi hjá Evrópuráðsþinginu og víðar þeir miklu erfiðleikar sem mannkynið stendur frammi fyrir. Það á kannski rætur sínar að rekja til mikilla breytinga í veðurfari og minnkandi aðgengi að auðlindum, bæði út af alls konar sveiflum í verði á auðlindunum, eins og t.d. olíunni sem margir sem þekkja til kalla hreinlega gjaldeyrisstríð. Því miður er það alltaf þannig, alveg sama hvernig stríð það eru, þá eru fórnarlömbin minni ríki sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér.

Því miður er það mjög stuttur tími sem maður fær í þessum umræðum og að jafnaði eingöngu einu sinni á ári. Þess vegna hefði mér þótt vænt um að sjá fleiri þingmenn í þeim því að í þessu alþjóðastarfi verða þingmenn svo sannarlega reynslunni ríkari. Íslendingar hafa verið mjög duglegir að beita sér eins og kemur fram í skýrslunni og vil ég hrósa fulltrúum okkar í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins fyrir vinnu þeirra og hvetja þá sem fylgjast með störfum Alþingis til að kynna sér þessar skýrslur, því að í þeim er mjög margt merkilegt að finna þó að þær séu kannski ekki mjög lipurlega skrifaðar fyrir almenning. Ef fólk fer inn á vef Evrópuráðsþingsins finnur það þessar ályktanir. Svo er óskandi að við, þjóðþing Íslendinga, séum duglegri í að koma með þessar ályktanir yfir á íslensku þannig að við getum rætt þær betur í okkar almennu þingstörfum.



[15:02]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um skýrslu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2015, en ég á þær sæti.

Mig langar að byrja á því að þakka félögum mínum sem sitja þar fyrir gott samstarf, þó sérstaklega varamanni mínum, Brynjari Níelssyni, sem hefur í flestum tilfellum setið fundi þingsins í forföllum mínum.

En það er ein ferð sem ég fór í sem Evrópuráðsþingmaður á þessu starfsári sem ekki er minnst á í skýrslunni, enda var hún svo sem utan dagskrár. Það var heimsókn í flóttamannabúðir í Tyrklandi þar sem ég fékk tækifæri til þess að kynna mér aðstæður þar í samráði og samstarfi við tyrkneska Evrópuráðsþingmenn.

Í sömu ferð fór ég ásamt sendinefndinni í heimsókn til Líbanon, þá í samstarfi við innanríkisráðuneytið, og síðan enduðum við ferðina á að fara til Sikileyjar og var það gert í samstarfi við ítalskan Evrópuráðsþingmann.

Eins og fram kom í framsöguræðu formanns Íslandsdeildar voru flóttamannamálin í rauninni stærsta einstaka umræðuefnið á þingum ráðsins á þessu starfsári enda augljóst að þar er stórt verkefni á ferðinni. Það var helst á þessum fundum í Evrópuráðsþinginu sem mér birtust áhyggjur Tyrkja sérstaklega, þ.e. tyrknesku þingmannanna, af því sem koma skyldi. Það var áður en vandinn stækkaði til muna í sumar.

Tyrknesku þingmennirnir á Evrópuráðsþinginu hafa verið duglegir við það á undanförnum árum að benda þingmönnum annarra Evrópuríkja á að ef ekkert yrði að gert mundi niðurstaðan verða sú að fólk færi í auknum mæli að streyma til Evrópu. Það kom allt saman á daginn. Evrópa og við sofnuðum á verðinum og gripum ekki til aðgerða strax.

En það sem er lærdómsríkast og stendur í rauninni upp úr eftir þessa ferð er það ákall, bæði þeirra sýrlensku flóttamanna sem ég átti kost á að ræða við, og eins allra þeirra starfsmanna hjálparsamtaka sem við hittum á ferðum okkar, um að aðstoða í nágrannalöndum Sýrlands. Það var númer eitt hjá öllum sem rætt var við. Það má líkja þessu við að það að ef við Íslendingar mundum verða fyrir mikilli náttúruvá og þyrftum að flýja heimili okkar tímabundið mundum við væntanlega vilja fara til nágrannalanda okkar frekar en að fara langt, og reyna að bíða af okkur hamfarirnar þar með það í huga að fara aftur heim sem fyrst.

Það er akkúrat það sem sýrlenskir flóttamenn óska sér, að komast aftur heim. Það er það sem flestir vilja. Nú er hins vegar staðan orðin sú að fólk er búið að vera í nágrannalöndum Sýrlands í fjögur ár, sumir lengur, ef til vill fyrst á flótta innan Sýrlands og síðan í nágrannalöndum Sýrlands og fólk er farið að missa vonina. Það birtist okkur með þeim hætti að fólk er tilbúið að fórna lífinu á litlum, lekum bátum í Miðjarðarhafinu frekar en að vera áfram í vonleysi í nágrannalöndum Sýrlands.

Það er þrennt sem við getum gert til að hjálpa: Það er í fyrsta lagi að aðstoða meira í nágrannalöndum Sýrlands, að taka á móti fleira kvótaflóttafólki frá Sýrlandi og nágrannalöndum Sýrlands, og að tala fyrir friðarviðræðum og lausnum í þessum málefnum.

Frú forseti. Mig langar líka að ræða aðeins um alþjóðastarfið hér í þinginu. Ég tel að full þörf sé á að þingið taki það allt saman til endurskoðunar og umræðu. Hvað viljum við fá út úr þessu? Í hvaða farveg setjum við málin? Hvað verður um þetta allt saman?

Ég er svo heppin að vera formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins. Við í Vestnorræna ráðinu höfum sérstöðu. Við höfum mjög sterkt vopn. Vestnorræna ráðið er samstarf þingmanna frá Íslandi, Grænlandi og Færeyjum. Við drögum ályktanir þegar við erum búin að funda og þegar við komum heim hvert og eitt í okkar land leggjum við ályktanirnar fram í formi þingsályktunartillagna. Þess vegna er efnislega sama þingsályktunartillagan samþykkt á þjóðþingum landanna þriggja. Þar er skorað á ríkisstjórnir landanna að fylgja eftir ákveðnum málefnum. Öll vinna okkar ratar því beint í þingsal og yfirleitt eru tillögur okkar samþykktar og rata þannig inn á borð hjá ráðherrum sem sérstök verkefni sem þeim ber að fylgja eftir.

Þegar ég fer á vegum annarra nefnda á fundi í útlöndum þar sem maður leggur á sig mikla vinnu til að fá fram einhverja niðurstöðu verð ég því stundum svolítið vonsvikin yfir því að málið fer ekki áfram. Ég hef átt þess kost að sitja á fundum Norðlægu víddarinnar, sem er einhvers konar samstarf Evrópusambandsins, norrænu ríkjanna, Rússlands og Vestnorræna ráðsins. Á þessum fundum er alltaf gerð ályktun fundarins. Ég var svo lánsöm að fá að stýra þeirri vinnu á síðasta ári. Fundurinn var haldinn á Íslandi þar sem við lögðum meðal annars mikla áherslu á jafnrétti og fleiri mjög mikilvæg málefni. Í það fór mikill tími, mikill sannfæringarkraftur að ná öllum að sama borði. Rússarnir voru kannski erfiðastir, en við náðum árangri.

En hvað verður um þá vinnu? Það verður ekkert um hana. Hún verður bara minning í hugum okkar sem vorum á fundinum, þá aðallega þeirra sem sátu í nefndinni sem bjó til ályktunina. En þetta ratar ekki formlega inn á borð neins til einhvers konar umræðu eða áframhaldandi vinnu.

Það sama á við um norðurslóðavinnuna. Á tveggja ára fresti er haldin stór ráðstefna þar sem þingmenn norðurslóðaríkjanna hittast, fara yfir málin og gera svona ályktanir. Ég veit ekki til þess að þær rati neitt. Það kom aðeins til umræðu á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin var nú um helgina í Grindavík þar sem við náðum að spyrja fulltrúa utanríkisráðuneytisins um þessa tilteknu ályktun Norðlægu víddarinnar. Starfsmaður ráðuneytisins lofaði okkur því að þegar hann mætti til vinnu á mánudaginn mundi hann leita að þessari ályktun og athuga hvort hún hefði dúkkað einhvers staðar upp í ráðuneytinu.

En þetta segir okkur bara að við þurfum að reyna að koma málunum í fastari farveg. Við gætum notað vestnorræna módelið sem einhvers konar fyrirmynd að því sem hægt er að gera. Ég veit ekki alveg hversu hresst embættismannakerfið yrði með það, en ég lofa því að við þingmennirnir sem leggjum á okkur þessa vinnu yrðum mjög kát með að færa umræðuna inn í sali Alþingis á einhvern formlegan og fastan hátt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Efni ráðstefnunnar nú um helgina var lýðræði á norðurslóðum og þá sérstaklega á vestnorræna svæðinu. Við áttum þess kost að hafa hjá okkur mjög færa fyrirlesara. Einn af þeim er Zlatko Savic, stjórnmálafræðiprófessor við háskólann í Ljúblíana í Slóveníu, sem lagði mikla áherslu á þátttöku þingmanna í utanríkismálapólitíkinni.

Þegar ég kom hér inn sem nýr þingmaður hafði ég engan áhuga á því að eyða tíma mínum í utanríkismál. Það skilaði mér engu í kjördæmapólitík minni, það skilaði litlu til kjósenda minna, fannst mér á þeim tíma, og mér fannst það eiginlega bara eyðsla á almannafé. Eftir því sem maður síðan þroskast í starfi og sér að Ísland er ekki eyland og hlutirnir koma manni nú kannski við, mannréttindi og svo framvegis, þá lærir maður að þetta skiptir máli. Við eigum að hafa áhuga á utanríkismálum. Við höfum ekki efni á að hafa það ekki. Það er svo margt sem við getum lært af öðrum og eins að gefa af okkur.

Þess vegna finnst mér mikilvægt að við sem störfum í alþjóðanefndum Alþingis tökum upp umræðu um breytt vinnubrögð og einhvers konar nefndarvinnu á vegum forustu Alþingis um það hvert við viljum sjá starfið stefna í framtíðinni og hvernig við ætlum að nýta þá fjármuni sem best sem við leggjum þó í þetta starf.

Fyrir mér er alla vega óþolandi að fara á fundi og leggja í mikla vinnu í einhverjar ályktanir sem eru bara dægurfluga, þegar þeirra sér hvergi stað í framhaldinu.



[15:11]
Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir hennar ræðu. Það er gott að finna að maður er ekki einn um að vilja gera eitthvað til þess að breyta þessu verklagi hérna.

Mig langaði að spyrja þingmanninn hvort maður ætti ekki hreinlega að reyna að stefna að því að koma þingmönnum í alþjóðastarfi saman á fund sem allra fyrst og að við mundum þá jafnvel leggja fram tillögu til yfirstjórnar Alþingis um hvað okkur þætti skynsamlegast að gera. (Gripið fram í.)

Ég hef einmitt hugsað að það væri sniðugt að nota vestnorræna módelið og nýta sér jafnframt að maður getur kallað eftir skýrslum um hvernig staðan er og unnið þaðan upp ályktanir til að ná að vera í samræmi við það sem maður er að samþykkja.

En það er eitt sem ég hef hoggið eftir og það er að stundum er mjög erfitt að fá þessar ályktanir þýddar yfir á íslensku. Ég hef þurft að berjast fyrir því að fá mína eigin ályktun þýdda, sem ég vann að hjá Alþjóðaþingmannasambandinu.

Mig langar að spyrja þingmanninn — hv. þingmaður hefur verið aðeins lengur en ég á þingi — hvort hún telji að það skipti máli að fá þetta yfir á íslensku og hvort ekki væri sniðugt að reyna að hafa sérdeild sem sér um það, í skjaladeildinni til dæmis.



[15:13]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í því tilviki sem ég þekki best, sem er Vestnorræna ráðið, þá er vinnutungumálið danska. Þegar við komum heim af ársfundum Vestnorræna ráðsins þurfum við að þýða ályktanir af dönsku yfir á íslensku.

Það er enginn hér í þinginu sem hefur sérþekkingu á því verkefni heldur hefur verið reynt að bjarga þessu. Í ár vorum við með tiltölulega viðamiklar tillögur, sem ég mun mæla fyrir hér á eftir, sem er gríðarlega vandasamt að orða. Það þarf að vanda til þýðinga. Ég krafðist þess að fá þýðanda til að gera þetta og fékk nei við því, en eftir japl, jaml og fuður þá varð þetta nú ágætt hjá okkur. Ég þakka Vilborgu Ásu Guðjónsdóttur, ritara Vestnorræna ráðsins, sérstaklega fyrir að standa í öllu þessu stappi með mér.

Þó að við séum ágætar í dönsku þá er leiðinlegt að vera búin að leggja í alla þessa vinnu og koma síðan út með orðalag sem 12 ára barnaskóladanskan mín gerir mér kleift að skrifa niður. Það er eiginlega ekki boðlegt. Ef við ætlum að vera alvöru í þessu þá verðum við líka að stunda fagmennsku. Það er þess sem ég krefst og það er eitt af því sem við svo sannarlega þurfum að ræða við yfirstjórn þingsins.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að við berum ábyrgð sem stýrum þessu alþjóðastarfi hér og eigum að hittast næstu daga, eins og við höfum kannski rætt óformlega um hér á göngunum, og rita erindi til forsætisnefndar. Það tekur stundum langan tíma að ná í gegn breytingum. Við gerum það kannski ekki alveg á næstu vikum en við getum alla vega stigið fyrstu skrefin.



[15:15]
Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það sem er svo frábært við alþjóðastarfið er að maður er að vinna óháð flokkslínum. Maður er oft að vinna með fólki sem er algjörlega á hinum pólnum við mann í stjórnmálum en maður nær að vinna að tillögum að lagfæringum á þessum helstu málaflokkum sem skipta síðan svo miklu máli þegar það síast inn hér heima, þverpólitískt.

Ég verð að segja að einhver mesta ánægja sem ég hef fengið út úr vinnunni sem þingmaður er að fá tækifæri til að vinna með fólki óháð því hvaðan það kemur, óháð því frá hvaða löndum það kemur, óháð stjórnmálaflokkum. Maður spyr ekki einu sinni um það. Það er aldrei rætt til dæmis hjá Alþjóðaþingmannasambandinu úr hvaða flokki fólk er. Það er bara talað um löndin.

Mér finnst frábært að heyra þann samhljóm sem ég hef fundið í dag og við höfum auðvitað, þingmennirnir í þessu alþjóðastarfi, talað saman á göngunum. Núna skynja ég að við séum að fara í aðgerðir sem er frábært.

Eitt af því sem við verðum að sjálfsögðu að leggja mikla áherslu á eru þýðingarnar. Það er líka rosalega lýjandi. Maður er kannski búinn að leggja mikla vinnu í eitthvað. Svo kemur maður heim og maður er að berjast við vindmyllur við að fá einfalda hluti gerða sem kosta lítið miðað við allan tilkostnaðinn á þessu batteríi.

Við þurfum að fara heildrænt yfir þetta. Ég hlakka til að sjá hvað kemur út úr þessu samstarfi okkar þingmanna þvert á flokka í þessum málaflokki.



[15:17]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið ágæt umræða. Ég hlakka til framhaldsins og vil vekja athygli á því sem kom fram í umræðunni frá Íslandsdeild ÖSE-þingsins að þar á bæ stendur yfir vinna við að útfæra nánari skilgreiningu á því hvert ályktanir eigi að fara, hvernig eigi að vinna með þær o.s.frv. Við erum nú þegar byrjuð að ýta aðeins af stað þessum bolta um bætt vinnubrögð. Það er alltaf gagnrýni á það þegar stjórnmálamenn eru í útlöndum og þykir ákveðinn óþarfi í sumum tilfellum að vera að taka þátt í þessu starfi. Það er einfaldlega vegna þess að við erum ekki nægilega dugleg við að upplýsa um hvað þetta er, hvað í þessu felst og sýna fram á að þetta skili árangri.

Ég vil sjá árangur af því sem við erum að gera. Ég hef alveg séð fundi sem kannski skila ekki gríðarlega miklum árangri. Þá byrjar strax umræðan: Var þetta þarft, var þetta þörf ferð, eða var þetta bara svokallaður, með leyfi forseta, „parliamentary tourism“? Ég hef engan áhuga á að taka þátt í slíku starfi. Það á að heyra sögunni til. Við eigum að vera að gera eitthvað af viti.



[15:19]
Flm. (Karl Garðarsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum Birgittu Jónsdóttur og Unni Brá Konráðsdóttur fyrir framlag þeirra. Ég gæti ekki verið meira sammála því sem þær hafa sagt um þetta mál, ég verð að segja alveg eins og er. Ég hef oft hugsað sjálfur um alla þessa miklu vinnu sem hefur farið í ályktanir hjá Evrópuráðinu og við erum ekki einir um að hafa áhyggjur af þessu. Ég heyri þetta hjá þingmönnum annarra landa líka, flestra landa.

Forseti Evrópuráðsins hefur talað um þetta vandamál að þingmenn séu ekki að fara með ályktanir ráðsins til sinna landa, koma þessu í framkvæmd. Mikið af þessu fer upp í ráðuneyti, en þetta skilar sér ekkert lengra, þetta endar bara ofan í skúffu þar. Að vísu er það þannig í Evrópu, til dæmis í Evrópuráðinu, að ályktanir á hverju ári eru ábyggilega 100 til 150 og góður hluti þessara ályktana á kannski ekki beint við um okkur, þetta eru ályktanir sem er verið að beina að ákveðnum löndum þar sem verið er að krefjast úrbóta og þær eru yfirleitt teknar mjög alvarlega í þeim löndum. Svo er annar hluti ályktana sem á beint erindi við okkur. Það eru til dæmis ályktanir sem tengjast mikið málaflokkum sem Píratar hafa áhuga á o.s.frv., og mannréttindamálum almennt. Þetta eru mál sem við verðum að fara að taka upp hjá okkur.

Ég er ekki með neina beina spurningu, en ég fagna þessari umræðu. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur kærlega fyrir að vekja máls á þessu.



[15:20]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átti þess kost á Norðurlandaráðsþingi að eiga fund með Anne Brasseur sem leiðir Evrópuráðsþingið og ræddi þessi mál við hana. Ég var svolítið hreinskiptin í orðavali, en þetta var nú samt allt í lagi. Ég tek undir orð hv. þm. Karls Garðarssonar og við í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins ættum kannski að gera okkur verklagsreglur um að setjast árlega yfir ályktanir ráðsins og reyna að velja úr þeim. Auðvitað getum við ekki lagt hér fram hundrað og eitthvað þingsályktunartillögur á grundvelli ályktana Evrópuráðsþingsins, heldur getum við valið úr hverjar við teljum að eigi að koma hér til umræðu.

Þá er eitt vandamál eftir, það er að fá tíma hér í þinginu til að mæla fyrir þessum ályktunum. Það er ekki auðvelt. Ég mæli hér í dag fyrir þremur þingsályktunartillögum frá Vestnorræna ráðinu sem voru lagðar fram í haust. Þetta eru tillögur alþjóðanefndar þingsins þar sem sitja þingmenn allra flokka fyrir utan Pírata. Það eru sex þingmenn, þannig að það eru sex þingmenn sem sitja í þessari nefnd. Og hvar erum við sett í röðina? Við erum sett í röðina eftir þingmannamálum, áherslumálum stjórnmálaflokkanna varðandi þingmannamál. Þar erum við í virðingarröðinni hjá yfirstjórn Alþingis. Þetta gagnrýni ég harðlega og geri það núna bara opinberlega í fyrsta skipti, en þessu þarf að breyta. (BirgJ: Heyr, heyr.)

Nú er tiltölulega stutt eftir af þinginu og þessar tillögur okkar eru þungar og efnismiklar og ég hef miklar áhyggjur af því að þær komist einfaldlega ekki hér í gegnum þingið meðan félagar okkar, þingmennirnir í Færeyjum og á Grænlandi, eru langt komnir með að ná öllum sínum málum í gegn. Þetta er óviðunandi.



[15:22]
Flm. (Karl Garðarsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg rétt hjá hv. þingmanni, auðvitað er ýmislegt við vinnulagið hér á Alþingi að athuga og hvernig mál fara á dagskrá, það vita allir. Ég held að næsta skref hjá okkur sé óhjákvæmilega það að setjast niður. Fyrst við, sem erum í þessum alþjóðlegu nefndum, að setja okkur einhver markmið í þessum málum, hitta síðan fulltrúa þingsins og reyna að ná fram því sem við teljum að sé nauðsynlegt til að þessi málaflokkur og þessi mál njóti þeirrar virðingar sem þau eiga skilið hér í þinginu. Ég fagna þessu framtaki beggja þingmanna sem hafa komið fram hér á undan mér með sínar ræður, hv. þingmönnum Birgittu Jónsdóttur og Unni Brá Konráðsdóttur. Ég held að við eigum að drífa í þessu sem allra fyrst því að tíminn líður mjög hratt. Ef við eigum að ná þessum málum í gegn sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir minntist á hér áðan þarf að vinna mjög hratt í þessu, annars verða þau bara hér afgangs.



[15:24]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég heyrði í þann mund sem ég vatt mér í stólinn að fram kom tillaga hér úr þingsal um að menn eins og ég ættu að hafa tvöfaldan ræðutíma. Ég er reiðubúinn til að skoða þá tillögu af kostgæfni. Ég kem aðallega til að þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað og notað þennan dagskrárlið til að gera að umtalsefni hvernig við getum komið á framfæri við þingið, og eftir atvikum jafnvel til stefnumótunar með samþykkt, tillögum sem við höfum ýmist tekið þátt í að gera eða samþykkja á erlendum þingum þar sem við sitjum sem fulltrúar Alþingis.

Ég er algerlega sammála þeim sem hér koma og tala í þá veru að það sé í fyrsta lagi nauðsynlegt að þingið sjái til þess að lykilsamþykktir séu þýddar og lagðar fyrir þingið eða komi til þingmanna; í öðru lagi reifuðu hv. þingmenn Unnur Brá Konráðsdóttir og Birgitta Jónsdóttir nauðsyn á því að jafnvel í sumum tilvikum yrðu þær líka lagðar fyrir þingið sem eins konar stefnumótun.

Ég vil í þriðja lagi bæta því við að ég tel að það sé eiginlega svartalágmark að slíkar tillögur séu ræddar í utanríkismálanefnd. Nú er það stundum þannig að þegar tillögur eru samþykktar á stórum, alþjóðlegum þingum þar sem fjöldi fulltrúa margra þjóðþinga kemur saman þá er hugsanlegt að niðurstaðan sé í andstöðu við það sem er vilji ríkjandi meiri hluta. Þess vegna tel ég að fyrsta skrefið varðandi meðferð slíkra tillagna sé að ræða þær í utanríkismálanefnd og hún síðan eftir atvikum meti hvort það sé í samræmi við þá stjórnarstefnu sem ríkir á hverjum tíma, eða í samræmi við mikilvægi málsins, að koma því í tillöguformi til þingsins. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir gerði réttilega að umræðuefni þá kvöl sem felst í því að reyna að pína mál á dagskrá frá Vestnorræna ráðinu. Nú hefur Vestnorræna ráðið aukist verulega að þyngd og mikilvægi á síðustu árum og ekki síst fyrir atbeina hv. formanns Unnar Brár Konráðsdóttur. En herra trúr, ef það er erfitt að koma á dagskrá málum frá heilum ráðum þriggja þjóða, hvað þá með okkur ræflana, þingmennina, sem hér liggjum inni með kannski sex, sjö mál jafnvel árum saman án þess að fá nokkru sinni ráðrúm til að ræða það?

Ég hef hér ásamt hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur og mörgum öðrum þingmönnum lagt fram mál sem tók mig hálft sumar að vinna um samstarf við Grænland. Það eru tvö sumur frá því að ég lauk þeirri tillögu og fékk ýmsa þingmenn til liðsinnis. Það hefur aldrei fengist rætt. Þó að ég geri kannski ráð fyrir að sitja hér fjögur til átta ár til viðbótar veit ég ekki hvort tími vinnst til að ná því til umræðu.

En í alvöru talað, án gamans, þetta er forkastanlegt. Ég segi stundum að þetta þing umbuni letingjum. Þeir sem leggja á sig mikla vinnu við að skrifa fjölmörg þingmál — eins og til dæmis sá sem hér stendur sem af einskærri þing- og sköpunargleði hangir enn í þessu starfi — fá enga umbun fyrir það, ekki einu sinni þá litlu að geta séð sínar eigin tillögur ræddar, svo að maður fari nú ekki fram á að þær séu samþykktar.

Hvað er það sem þátttaka í alþjóðlegu starfi gefur manni? Mikla innsýn í gang alþjóðamála. Fyrir menn með brennandi áhuga, eins og ég, á utanríkismálum gefur það manni að minnsta kosti færi á að ná mikilli þekkingu við að hlusta og ræða við fólk sem er koma beint úr hringiðu atburða, stundum frá styrjöldum. Þetta skiptir miklu máli. En það er annað sem það gefur Alþingi Íslendinga. Ef hv. þingmenn skoða sögu utanríkisráðherra síðustu tveggja áratuga, liggur mér við að segja, þá eru þeir allir aldir upp af þinginu við störf á alþjóðavettvangi. Ég ætla að leyfa mér að spá því að þeir utanríkisráðherrar sem kunna að taka við á næstu árum sitji hugsanlega hér í salnum, þ.e. fólkið sem er að ræða þessi mál. Bara svo að menn tapi ekki sjónum á því að þetta hefur mikið gildi til að búa til þingmenn sem geta sinnt því starfi að tala og semja fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Þetta er að ýmsu leyti, eins og nefndir þingsins, skóli í þeim fagsviðum sem menn eru að starfa við.

Þetta var nú um formið. Um það efni sem hér hefur verið rætt vildi ég hafa langt mál. Af hverju? Vegna þess að það er mjög sjaldgæft að það náist að taka hér umræður um þau mál sem brýnust eru á alþjóðavettvangi. Mál sem varða okkur miklu. Þær skýrslur sem hafa verið fluttar í dag og verða kannski fluttar á eftir og voru fluttar í síðustu viku báru þess öll merki að það er sama málið sem alls staðar hefur verið efst á baugi í umræðum okkar, þ.e. deilan sem annars vegar tengist Úkraínu og hins vegar Sýrlandi. Og þær eru skyldar. Undir niðri liggja þræðir þar á milli. Það hefur komið fram að þetta eru mál sem varða gríðarlega hagsmuni fyrir Íslendinga. Samt er þetta eiginlega aldrei rætt hér á hinu háa Alþingi, svo merkilegt sem það nú er. Því að hér ræða menn helst ekki utanríkismál.

Hv. þm. Karl Garðarsson flutti hér mjög efnismikla og góða ræðu um starfsemi Evrópuráðsins. Ég sat sjálfur árum saman í Evrópuráðinu og veit hversu mikla skólun það gefur manni, mikla innsýn í réttindabaráttu í löndum sem ekki hafa náð jafn langt og okkar. Þær umræður sem hafa síðan orðið af hálfu annarra þingmanna sýna það hvílík hringiða atburðarásar liggur um Evrópuráðið varðandi mannréttindamálin. Það eru örfá atriði sem ég vildi drepa á.

Ég hefði til dæmis viljað eiga orðastað við hv. þm. Ögmund Jónasson um Krím. Ég er honum ósammála í grundvallaratriðum um það hvað er heimilt og hvað er ekki heimilt. Bara svo að ég segi það fyrir mína hönd og míns flokks þá er ég algerlega sammála þeim sem segja að það verði að bregðast fast við því þegar stórt ríki eins og Rússland fer yfir landamæri, efnir þar til uppþota og óeirða eins og eru jafnvel enn í dag að gerast í Austur-Úkraínu og hrammsar jafnvel til sín skika innan landamæra þjóðar. Hverjir eru það sem fyrst og fremst eiga að stappa niður fæti og vera á varðbergi? Það eru litlar þjóðir. Hverjar í hópi hinna smæstu þjóða eiga að standa fast á því að alþjóðalög séu virt? Auðvitað þær sem, eins og Ísland, hafa ekki her sér til varnar. Okkar vörn er í alþjóðlegum sáttmálum, alþjóðlegum samningum. Þar er mesta fullveldisvörn okkar. Ekki síst fyrir þá sök að við höfum sökum smæðar lítil tök á að verja okkur. Það er mjög mikilvægt að þingmenn skilji þetta og að Íslendingar skilji. Við þurfum alltaf að taka okkur stöðu með smáum þjóðum sem verið er að kúga í skjóli einhvers konar hervalds eða kúgunartækja af öðrum toga. Þetta er mikilvægt. Jafnvel þó að það hafi í för með sér að fórna þurfi skammtímahagsmunum verða menn að meta það í ljósi langrar sögu, bæði aftur á bak og líka þegar menn horfa inn í tímann. Við verðum alltaf að taka okkur stöðu á þessum hóli.

Um það með hvaða hætti við höfum tekið þátt í þeim refsiaðgerðum gagnvart Rússlandi er hægt að deila. Ég hef ekki kosið að koma hér með mínar helstu aðfinnslur um það mál en ég segi hins vegar alveg skýrt: Það er meiri háttar utanríkismál og hefði í upphafi máls átt að ræða í utanríkismálanefnd, bara svo að það liggi skýrt fyrir. Ég tel að það hefði mátt standa öðruvísi að því. Það breytir ekki hinu að ég hefði aldrei lent öðruvísi en þarna megin svo að það liggi algerlega skýrt fyrir.

Á þeim vettvangi sem ég hef starfað hafa menn rætt mikið hvort þessar aðgerðir hafi skilað einhverju. Hv. þm. Karl Garðarsson sagði að þær hefðu skilað ýmsu. Hann benti á veikingu rúblunnar, ýmsar efnahagslegar afleiðingar málsins. Til skamms tíma dró ég það mjög í efa. Ég get fallist á að loks liggja fyrir gögn sem benda til þess að það hafi haft áhrif á það. En fyrst og fremst eru þetta þó þær ákvarðanir sem voru teknar af þeim mönnum sem ákveða olíuverð í Sádí-Arabíu sem hafa haft áhrif. Ég er þeirrar skoðunar að þetta hafi haft meira gildi sem táknræn samstaða Vesturlanda. Svo er það alltaf spurning um hvað menn eigi að ganga langt í að útiloka þá sem eru brotlegir. Hv. þm. Ögmundur Jónasson vakti mig með merkilegum hætti til umhugsunar hér áðan um einn anga þessa máls sem ég hafði aldrei hugsað út í. Mér fannst það í lagi þegar stjórnarnefndin á NATO-þinginu vísaði Rússlandi út. Ég skildi það vel þegar Evrópuráðið tók svipaða afstöðu. Ögmundur Jónasson benti á að með því að vísa Rússum úr Evrópuráðinu er verið að svipta fólk innan Rússlands þeim rétti að skjóta málum, þegar því þykir það sæta ofríki af hálfu Rússlandsstjórnar, til Evrópuráðsins. Þetta er merkileg nálgun.

Í öllu falli. Ég læt þess getið að það kom fram í utanríkismálanefnd í morgun þegar verið var að ræða strandgæslu Norðurskautsins að undir forustu Kanada var Rússlandi vísað úr því samstarfi. En þegar Bandaríkin tóku þar við voru þeir teknir inn aftur. Ég held eftir á að hyggja að það sé alltaf best að reyna að hafa ríki innanborðs og eiga við þau samtöl.

Svo að ég komi að hinu málinu á þremur sekúndum: Sýrlandsdeilan verður aldrei leyst með hervaldi. Hún verður bara leyst með samningum. En þar (Forseti hringir.) þurfum við atbeina Rússa, við þurfum atbeina Bandaríkjanna og Írans. Íslenskir þingmenn eiga alltaf að leggja sinn atbeina og sinn atgeir að því að ná samningum, friðsamlegum lausnum.



[15:34]
Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka ræðuna. Hv. þingmaðurinn kom inn á marga ólíka fleti. Ég hjó sérstaklega eftir tveimur hlutum. Annar er, og ég er alveg sammála hv. þingmanninum um það, að við þurfum nauðsynlega að taka inn og skapa svigrúm í utanríkismálanefnd fyrir þær ályktanir sem við erum beinir þátttakendur að. Auðvitað er það svo að margar ályktanir eru þess eðlis að þeim er ekki beint til okkar, en það er samt rauður þráður í mörgum ályktananna í gegnum alþjóðastarfið í heild. Svo eru sértæk mál sem lúta mjög að framtíð okkar og líka nútíðinni, eins og varðandi norðurslóðamálin, sem mér finnst furðulegt að ekki skuli vera farvegur fyrir í þinginu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann þekki til hvernig þetta er hjá öðrum þjóðum. Ég hef lagt mikla áherslu á að reyna að finna út úr því og það vill svo skemmtilega til að á næsta fundi Alþjóðaþingmannasambandsins verður lögð sérstök áhersla á að finna leiðir og skoða hvernig önnur lönd haga málum sínum, sem við getum notað sem fyrirmynd. Það er mikil umræða um akkúrat þessi mál á alþjóðavettvangi.

Mig langaði að athuga hvort hv. þm. Össur Skarphéðinsson, með sína miklu reynslu í utanríkisstarfi, gæti varpað einhverri sýn á hvernig hann teldi að best væri að haga málum okkar í þessu. Síðan geri ég að sjálfsögðu ráð fyrir að hv. þingmaður verði með í hinum þverpólitíska hópi sem berst fyrir því að vegsemd utanríkismála eigi sér fastari sess og sterkari á þinginu.



[15:36]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Það sem ég kom ekki að í ræðu minni áðan þegar ég var að ræða hvernig ætti að fara með svona samþykktir sem við komum kannski heim með í farteskinu var eftirfarandi: Ég tel að fyrir utan að þetta eigi að koma til kasta utanríkismálanefndar eigi eftir atvikum að leggja fram hugsanlega einhvers konar álit nefndarinnar sem formaður nefndar mundi flytja og eftir atvikum einn frá minni hlutanum ef það er ágreiningur um slíkt mál, ef þau eru talin vera þannig vaxin að mikilvægi að sjónarmiðin eigi að komast til þingsins.

Ég hef líka hugsað það oft að kannski væri ráð að veita slíkum málum einhvern tiltekinn stuttan tíma til umræðna. Ég fer ekki einu sinni fram á að það verði frjálsar umræður en kannski að tveir þingmenn úr stjórn og stjórnarandstöðu gætu komið að skoðunum sínum í tveggja mínútna ræðum um slíkt. Ef hins vegar væri um að ræða stórmál, við skulum segja t.d. það mál sem hér hefur borið hæst, Rússland og Úkraína, þá tel ég að ef meiri hluti utanríkismálanefndar telur að slíkt mál eigi erindi inn í þingið til almennrar umræðu eigi að veita tíma til slíks. Ég held að það væri mjög heppilegt og hefði getað hjálpað til við ýmislegt sem mér hefur þótt vandræðalegt við þessa umræðu sem hefur sprottið þar um. Þetta er um það.

Hvað varðar hina raunverulegu fyrri spurningu hv. þingmanns er það þannig að þetta er hið sama og þingmenn mjög margra þinga kvarta undan. Það er ekki farvegur í þinginu. Ástæðan er sú að þingin eru gömul, sitja á gömlum merg og eru skorðuð í gömlum farvegi en alþjóðamálin eru orðin svo miklu umfangsmeiri og snarari þáttur af hagsmunum þjóðanna. Þetta hefur einhvern veginn ekki aðlagað sig hvort að öðru. En í mörgum þingum eru þó (Forseti hringir.) skipaðar undirnefndir undir utanríkismálanefndum þar sem sérstakir tilteknir málaflokkar eru teknir fyrir, sums staðar til dæmis norðurslóðamál.



[15:39]
Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svarið. Ég held að ég mundi vilja ganga jafnvel aðeins lengra. Ég held að það sé mjög brýnt. Mér finnst til dæmis mjög furðulegt fyrirkomulag að einu sinni á ári sé fjallað um þá rosalega stóru málaflokka á þingi sem lúta að alþjóðastarfinu. Það væri mjög gaman og gagnlegt ef til að mynda utanríkisráðherra væri hér og tæki þátt í umræðunum með okkur, sér í lagi þegar kemur að beinum utanríkispólitískum málefnum sem utanríkisráðherra er oft andlit Íslands í umræðum um.

Ég ætla ekki að fara út í of tæknileg atriði um það hvernig við eigum að haga störfum okkar hérna en það er eitt sem mig langaði að spyrja hv. þingmann um sem tengist því að við eigum alltaf að standa sem smáþjóð með öðrum smáþjóðum. Mig langar að spyrja hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hvort hann sé ekki sammála mér um að við ættum endilega að nýta okkur þá stöðu sem við erum í varðandi tvíhliða viðskiptasamning við Kína til að ræða þau mannréttindabrot sem eiga sér stað gagnvart tíbesku þjóðinni.



[15:40]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði áðan að ástæðan fyrir því að þingin almennt í Evrópu hefðu ekki fundið heppilegan farveg fyrir það efni og ályktanir og niðurstöður sem verða á alþjóðlegum ráðstefnum og þingum sem fulltrúar þeirra eiga sæti á væri sú að þingin væru að eðli til gamlar stofnanir. En alþjóðamálin hafa yfirskyggt allt annað eftir því sem verslun og viðskipti heimsins hafa samþæst meira og hagsmunirnir orðið meiri sem tengjast utanríkismálum. Þetta hefur ekki náð að aðlagast hvort öðru. Fyrir vikið er staðan eins og hv. þingmaður lýsti, við tökum einu sinni einn dag rosalegar umræður um utanríkismál og svo er það frá. Jú, það voru svo sem umræður þegar Evrópumálin bar sem hæst.

Ég tek sem dæmi norðurslóðamálin. Þau hafa bara á síðustu sjö, átta árum orðið að raunverulegu hagsmunamáli og áhugamáli þingsins, hvar eru þau? Þau eru hjá utanríkismálanefnd. Ættu þau að vera einhvers staðar annars staðar? Ættu þau að vera hjá umhverfisnefndinni? Við ræðum þau mjög sjaldan hérna nema af sérstöku tilefni. Það þarf að vera farvegur til að þingið geti rætt tiltekin mál. Það á ekki endilega að vera að frumkvæði framkvæmdarvaldsins heldur utanríkismálanefndar. Ég tel til dæmis að það væri vel til fundið að utanríkismálanefnd gæti ráðið því að hún tæki við umræðu um alþjóðlega björgunarmiðstöð af því að hún er komin á legg og það eru pólitískar spurningar sem þarf að svara um þátttöku þjóða, til dæmis Rússa.

Ég nefni TiSA. Það eru miklar deilur um það. Af hverju ræðum við það mál ekki hérna? Við gerum það ekki. Málið sem hv. þingmaður nefndi til dæmis um Tíbet, og önnur slík álitaefni, mannréttindabrot Kínverja og annarra, finnst mér að ætti að vera mál sem yrði rætt í utanríkismálanefnd og ef hún telur að tilefni sé til að ræða það, t.d. í tengslum við ákveðinn möguleika sem við höfum vegna hliðarsamnings með fríverslunarsamningunum við Kína, (Forseti hringir.) þá ætti það að vera á valdi utanríkismálanefndar að ræða í almennum umræðum æsingalaust með öðrum hætti en þegar við tökum upp sérstakar umræður sem oft bera keim burtreiða og verða ekki nógu málefnalegar fyrir vikið. (BirgJ: Heyr, heyr.)



[15:43]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef setið hér og fylgst með þessum umræðum um skýrslur alþjóðanefnda þingsins. Það er gríðarlega fróðlegt fyrir þann sem ekki situr í tilteknum nefndum að hlusta og fylgjast með og fá þannig innsýn í það sem er að gerast. Ég verð að segja að ég er hjartanlega sammála því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði í ræðu sinni áðan að hér ræða menn helst ekki utanríkismál. Í rauninni hef ég orðið hissa á því hversu lítið utanríkismál eru rædd á þinginu einmitt vegna þess að þau eru farin að skipta okkur svo gríðarlega miklu máli. Ég held að vægi þeirra muni bara aukast í framtíðinni fyrir svo margra hluta sakir. Hér hafa verið nefnd norðurslóðamálin, flóttamannamálin tengjast þessu, loftslagsbreytingar. Allt eru þetta mál sem koma inn á utanríkismál líka. Ég held þess vegna að það sé rosalega mikilvægt að við ræðum þessi mál.

Mér fannst það áhugaverð leið sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson lagði til um að utanríkismálanefnd fengi til sín mál og ynni einhvern veginn með þau. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er ekki einmitt mikilvægt að mál komist til þingsins? Það er svo oft sem sagt er að mál, sérstaklega þau sem koma frá framkvæmdarvaldinu, hafi verið kynnt í utanríkismálanefnd. (Forseti hringir.) Er það nóg að mati hv. þingmanns? Þarf ekki einmitt að taka málin lengra og ræða þau í þingsal, en ekki bara að kynna þau fyrir nefndarmönnum (Forseti hringir.) í utanríkismálanefnd sem eru oft bundnir trúnaði um það sem þar kemur fram?



[15:45]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Ég held að æskilegt væri að utanríkismálanefnd gæti ákveðið sjálf hvaða mál væru af þeim toga að það þyrfti að ræða þau hér. Ég hef til dæmis nefnt TiSA. Það er dæmigert mál þar sem eru heitar tilfinningar og sterkar skoðanir og ætti að ræða á þessum vettvangi, en það er varla rætt í utanríkismálanefnd, þó hefur það nú komið fyrir. Málefni norðurslóða alveg sérstaklega. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir nefndi Tíbet. Mörg önnur mál gæti ég nefnt, en fyrsta stoppistöðin ætti að vera utanríkismálanefnd. Hún ætti að hafa með höndum einhvers konar vald til þess að geta óskað eftir því að á dagskrá þingsins kæmu mál sem hún metur það mikilvæg að rétt væri að ræða þau. Það væri sjálfsagt að setja um það ákveðinn fastan tímaramma þannig að ljóst væri að menn væru ekki að nota þetta til þess að spilla tíma þingsins. En þetta er mjög þarft. Ég held að það hefði líka verið mikilvægt í ýmsum öðrum efnum að fá umræðu til þess að upplýsa þingmenn um málin.

Svo ég komi aftur að Rússlandi og Úkraínu og refsiaðgerðunum sem gripið var til þá er það auðvitað dæmi um mál sem hefði strax átt að ræða hér og fara yfir, fara yfir þann möguleika að við tækjum þátt í því, fara yfir þann möguleika að við tækjum þátt með tilteknum skilyrðum, sem hefði alveg verið hægt, eða, eins og hefur reyndar komið frá báðum vængjum stjórnmálanna sem breiða sig yfir Alþingi, ræða þá skoðun hvort við ættum að standa hjá og ekki taka þátt í því. Það er fullkomlega lögmæt skoðun þó að ég hafi hana ekki. En það hefði verið þarft að fá þau rök öll (Forseti hringir.) fram í upphafi og það hefði hjálpað hæstv. ráðherra til þess að taka yfirvegaða ákvörðun.



[15:47]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þetta sé ansi gott dæmi sem hv. þingmaður tók hvað varðar viðskiptaþvinganirnar á Rússland því að við sitjum uppi með það núna að tekin hafi verið ákvörðun án þess að hún hafi í rauninni verið rædd og svo langt frá því að öllum flötum hafi verið velt upp í því máli, t.d. varðandi hagsmuni fiskútflytjenda svo eitt dæmi sé nefnt. Ég held að við hefðum getað komist hjá ansi miklum deilum í íslensku samfélagi hefðum við tekið þessa umræðu á undan.

Það er annað atriði sem mig langar að ræða við hv. þingmann, en það er tæknifrasi sem ég vil kalla svo sem ég held að mér hafi tekist að læra, en það er þegar framkvæmdarvaldið eða hæstv. ráðherrar skrifa undir samninga í útlöndum með því sem kallað er stjórnskipulegur fyrirvari um samþykkt Alþingis. Hæstv. ráðherra skrifar undir í útlöndum og svo er það rætt eftir á á Alþingi. Vissulega er hægt að hnekkja ákvörðun ráðherrans, en það er samt alltaf þannig að Alþingi stendur að hluta til frammi fyrir orðnum hlut. Það er alltaf erfiðara, það er alltaf á brattann að sækja þegar umræðunni er þannig háttað.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann teldi til bóta að þessi umræða væri tekin í þingsal á undan, svo færi hæstv. ráðherrann út, síðan væri formsins vegna hægt að afgreiða málið í þingsal og (Forseti hringir.) staðfesta undirskriftina.



[15:49]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já. Ég tel það. Ég rifja það upp fyrir hv. þingmanni, sem að vísu sat ekki hér á síðasta kjörtímabili, að þegar ég var utanríkisráðherra og kom til þingsins með mál sem höfðu stjórnskipulegan fyrirvara voru það náttúrlega eingöngu EES-mál, en nánast alltaf mál sem engar líkur voru á að mundu valda einhverri úlfúð eða deilum. Það voru hins vegar mál sem kröfðust lagabreytinga.

Í nokkrum tilvikum hafði ég sjálfur efasemdir um að viðkomandi mál stæðist stjórnarskrá, því að það var ekki ljóst í öllum tilvikum. Þar var um að ræða framsal valds, ég nefni flugsektarmál og fleira, smámál, en öll tekin saman fannst mér vera komið út af hinu gráa svæði sem stjórnskipan heimilar. Þá kom ég með þau í Alþingi og ræddi áður. Þau voru ekki flutt nema í einu tilviki þar sem um var að ræða flýtimeðferð vegna tilskipunar um viðskipti með loftslagskvóta þar sem þurfti að leiðrétta ákveðna hluti. Þessi mál flutti ég nánast alltaf áður en ég fór út eða leyfði mínum embættismönnum að skrifa undir þau. Þannig ætti það helst að vera.

Kannski get ég tekið nýlegra dæmi sem er um þennan fjárfestingarbanka í Asíu sem augljóslega hafa risið deilur um, óvæntar, og skera á flokksbönd og böndin sem liggja milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það væri æskilegra að það hefði verið gengið frá því áður.

Um aðra samninga eins og til dæmis TiSA-samninginn er það þannig að ráðherrann hefur fullkomið leyfi til þess að skrifa undir. Hann þarf ekki að koma með það til Alþingis. Það má hins vegar segja hæstv. ráðherra til hróss, Gunnari Braga Sveinssyni, að hann hefur ákveðið að láta þingið ræða það og koma með samninginn í formi þingsályktunartillögu. Þar er tekið tillit til lýðræðisins og skoðana sem upp hafa komið. (Forseti hringir.) Kannski ætti að ganga frá slíku miklu harðar og hafa klárari reglur um það. — En svarið er já.