145. löggjafarþing — 73. fundur
 3. feb. 2016.
embætti umboðsmanns aldraðra, fyrri umræða.
þáltill. KG o.fl., 14. mál. — Þskj. 14.

[15:50]
Flm. (Karl Garðarsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um að Alþingi álykti að fela félags- og húsnæðismálaráðherra að leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um embætti umboðsmanns aldraðra.

Tillaga þessi gerir ráð fyrir að komið verði á fót sérstöku embætti umboðsmanns. Hlutverk hans verði að gæta réttinda og hagsmuna þess sístækkandi hóps sem aldraðir eru. Það geri hann meðal annars með því að leiðbeina öldruðum um réttindi sín og bregðast við telji hann að brotið sé gegn þeim, gera tillögur um úrbætur á réttarreglum er varða aldraða og hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni aldraðra.

Þjónusta við aldraða dreifist á hendur ríkis, sveitarfélaga, félagasamtaka og einkaaðila. Löggjöf sem varðar málaflokkinn er flókin, ekki síst á sviði skatta, almannatrygginga og heilbrigðismála. Aldraðir eru stór og fjölbreyttur hópur og misjafnlega fær um að gæta réttar síns og hagsmuna sjálfur. Að mati flutningsmanna er því rík þörf á málsvara sem gæti réttinda og hagsmuna aldraðra og leiðbeini þeim um rétt þeirra. Sú þörf mun aðeins aukast eftir því sem tímar líða. Gert er ráð fyrir að þeim sem eru 67 ára og eldri fjölgi um rúmlega 26 þús. á næstu 15 árum, eða um 71%. Talið er að 80 ára og eldri fjölgi um tæplega 6.600 á sama tíma, eða um 55%. Þessi gríðarlega fjölgun í elstu aldurshópunum kallar á nýja nálgun í öllum málaflokkum sem tengjast öldruðum, ekki síst hvað varðar alla þjónustu, húsnæði o.s.frv. Þetta kallar líka á stóraukið upplýsingaflæði til þessa hóps.

Tillögur í þessa veru hafa nokkrum sinnum áður verið lagðar fram á þingi en ekki hlotið afgreiðslu. Á 120., 121. og 122. löggjafarþingi voru lagðar fram samhljóða tillögur til þingsályktunar um umboðsmann aldraðra. Í þeim var lagt til að ríkisstjórninni yrði falið að kanna forsendur fyrir stofnun slíks embættis sem sinnti gæslu hagsmuna og réttinda þeirra.

Ef við skoðum frumvarp sem lagt var fram á 122. löggjafarþingi var lagt til að komið yrði á fót embætti umboðsmanns aldraðra sem hefði það hlutverk að standa vörð um hagsmuni og réttindi þeirra. Í greinargerð með frumvarpinu kom fram að talsverð umræða hefði verið um að aldraða skorti talsmann sem nyti virðingar og gætti hagsmuna þeirra gagnvart stjórnvöldum, tryggði að vilji aldraðra kæmi fram áður en teknar væru ákvarðanir sem vörðuðu þá, fylgdist með því að þjóðréttarsamningar, lög og stjórnsýslureglur væru í heiðri hafðar og brygðist við ef talið væri að með athöfnum eða athafnaleysi væri brotið gegn réttindum, þörfum eða hagsmunum aldraðra.

Á 126. löggjafarþingi var enn lögð fram tillaga til þingsályktunar um umboðsmann aldraðra. Þar var lagt til að ríkisstjórninni yrði falið að stofna slíkt embætti sem sinnti gæslu hagsmuna og réttinda þessa hóps. Þá var á 136. löggjafarþingi lögð fram tillaga til þingsályktunar um málsvara fyrir þennan hóp. Í henni var lagt til að félags- og tryggingamálaráðherra yrði falið að beita sér fyrir því að komið yrði á fót þjónustu sem sinnti gæslu hagsmuna og réttinda aldraðra. Metið yrði hvort sett yrði á laggirnar sérstakt embætti umboðsmanns þessa hóps eða hvort sveitarfélög önnuðust verkefnið. Samráð yrði haft við hagsmunasamtök aldraðra við vinnuna. Loks var þingsályktunartillaga sú sem hér er lögð fram einnig lögð fram á 144. löggjafarþingi en kom ekki til umræðu. Að mati flutningsmanna er ærin ástæða til að láta loks verða af því að koma á fót þessu embætti og í raun með ólíkindum að slíkt embætti hafi ekki orðið að veruleika fyrr.

Ég vil sérstaklega benda á að umboðsmaður Alþingis, Tryggvi Gunnarsson, kom á fund stjórnskipunarnefndar Alþingis ekki fyrir löngu til að ræða störf sín og taldi hann sérstaka ástæðu til að minnast á þátt aldraðra. Þannig fær umboðsmaður Alþingis inn á borð til sín sífellt fleiri mál þar sem aldraðir kanna rétt sinn gagnvart stjórnvöldum. Þeir þekkja ekki rétt sinn og vita ekki hvert á að leita eftir svörum. Í slíkum tilvikum er oft það eina sem fólki dettur í hug að senda bréf til umboðsmanns Alþingis. Staðreyndin er nefnilega sú að upplýsingar um réttindi og skyldur aldraðra liggja ekki fyrir á einum stað. Eldri borgarar þurfa að ganga á milli stofnana með pappíra til að sanna rétt sinn, hringja í símaborð þeirra til að fá óljós svör og oft engin. Kerfið er allt annað en einfalt og stundum er eins og tölvuöldin hafi ekki enn gengið í garð í íslensku stjórnkerfi. Eiga eldri borgarar þessa lands ekki betra skilið? Það eiga ekki allir ættingja sem geta gengið í málið og fundið úrlausn.

Niðurstaðan er sú að eldri borgarar þessa lands verða oft af greiðslum úr kerfinu sem þeir eiga þó rétt á bara vegna þess að þeim láðist að sækja um þennan eða hinn styrkinn eða greiðsluna úr kerfinu. Þeir verða líka af þjónustu sem þeir eiga rétt á og mundi oft á tíðum einfalda líf þeirra og gera það bærilegra. Er ekki lágmark að við sjáum til þess að borgarar þessa lands geti fengið úrlausn mála sinna á einfaldan og skilvirkan hátt? Er ekki lágmark að eldri borgarar fái það sem er svo sannarlega þeirra?

Formaður kjaranefndar Landssambands eldri borgara og formaður Félags eldri borgara, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, ritaði ágæta grein í Morgunblaðið um þessi mál fyrir um það bil ári. Þar segir hún orðrétt, með leyfi forseta:

„Það hefur æ oftar komið fram á fundum hjá aðildarfélögum Landssambands eldri borgara hversu mikilvægt er að við fáum „umboðsmann aldraðra“. Í umræðunni hefur verið bent á að æðimörg og margvísleg mál gætu borist til umboðsmanns aldraðra. Fyrirspurnir, ábendingar og hreinlega kærur þar sem menn telja rétt sinn brotinn. Það er líka rétt að það komi fram, að barist hefur verið fyrir því að fá umboðsmann aldraðra árum saman á meðan aðrir hagsmunahópar hafa fengið talsmann eða umboðsmann.“

Fyrrum formaður Landssambands eldri borgara segir aðeins síðar í grein sinni orðrétt:

„Þekking fólks á réttindum sínum er misjöfn og þurfa margir að láta kanna stöðu sína, aðgengi að upplýsingum liggur víða og veitist mörgum flókið að ná heildarmynd af þeim. Hvergi er hægt að ganga að upplýsingaflæði fyrir eldra fólk um þau ár sem þá eru fram undan. Eldri borgarar sem eru í leit að hentugra húsnæði eru dæmi um hóp sem fær misvísandi upplýsingar um hvað sé þjónustuíbúð eða öryggisíbúð og þurfa opinberir aðilar, þar með talinn umboðsmaður aldraðra ef við hefðum hann, að koma að því að fá fasta og örugga skilgreiningu á þessum íbúðamálum. Ekki má kaupa köttinn í sekknum.

Alþingi þarf að taka þetta mál til skoðunar og vinna að löggjöf um „umboðsmann aldraðra“ með það að leiðarljósi, að slíkt embætti geti stuðlað að bættu upplýsingaflæði til eldri borgara og að réttarstaða þessa hóps sé virt í hvívetna. Taka á móti fyrirspurnum, kanna mál einstaklinga, og stuðla að því að fólk á öllum aldursskala efri áranna njóti persónulegra réttinda, virðingar og samfélagsþátttöku.“

Þetta eru orð formanns kjaranefndar Landssambands eldri borgara. Og svona má halda áfram. Í BSc-ritgerð sem Sólveig Pálmadóttir skrifaði um réttarstöðu aldraðra var meðal annars skoðað hvort brotið væri á réttindum aldraðra sem búa á öldrunarheimilum og hvort mannréttindabrot ættu sér stað þegar kæmi að öldruðum. Rétt er að taka það fram að þessi ritgerð var skrifuð fyrir nokkru síðan þannig að ekki er víst að allar fullyrðingar séu réttar í dag. En niðurstaða hennar var í stuttu máli sú að staðan væri þannig að nauðsynlegt væri að skipa umboðsmann aldraðra sem hefði það hlutverk að gæta hagsmuna þeirra og standa vörð um réttindi þeirra og bæta hag í samfélaginu. Sólveig segir í ritgerð sinni að umboðsmaður mundi sjá til þess að stefna stjórnvalda í málefnum aldraðra væri í samræmi við vilja þeirra og væntingar. Hann gæti sett fram úrbætur í málum sem snerta hag þeirra á öllum sviðum. Einnig gæti hann haft frumkvæði um umræður í samfélaginu um málefni þeirra og stuðlað að úrbótum á þeim réttarreglum og stjórnsýslufyrirmælum sem snerta mál skjólstæðinga hans.

Margrét Margeirsdóttir, fyrrverandi formaður Félags eldri borgara, sagði á sínum tíma að eldri borgarar stæðu mjög illa að vígi þegar þeir þyrftu að sækja eða verja réttindi sín. Enginn aðili í stjórnkerfinu væri til staðar sem þeir gætu leitað til og hefði það lögbundna hlutverk að sinna málum þeirra þegar þeir teldu brotið á sér. Eldri borgarar stæðu berskjaldaðir gagnvart stofnunum og yfirvöldum sem beittu valdi sínu á óréttlátan hátt, líkt því miður fjölmörg dæmi væru um eins og hún sagði. Það er rétt að taka fram að þessi ummæli Margrétar féllu fyrir um það bil átta árum. En hvað hefur breyst? Staðreyndin er sú að stór hópur eldri borgara er í stöðugri baráttu við kerfið, eins og ég kom inn á áðan, vegna þess að þeim finnst brotið á sér og þeir fá ekki lausn eða leiðréttingu mála sinna. Mjög oft er um að ræða lífeyrismál, húsnæðismál, skattamál, þjónustumál o.s.frv.

Við skuldum eldri borgurum þessa lands að búa vel að þeim og skapa þeim eins öruggt umhverfi og framast er kostur. Þetta fólk hefur lagt mikið af mörkum til samfélagsins á langri ævi og það er lágmark að við sjáum til þess að það þurfi ekki að hafa áhyggjur af jafn sjálfsögðum hlut og réttindum sínum á síðustu æviárunum. Réttindi eldri borgara eru víða varin, ekki bara í lögum, reglugerðum og stjórnsýslufyrirmælum hér innan lands heldur líka í alþjóðlegum skuldbindingum okkar. Mannréttindasamningar og milliríkjasamningar leggja skyldur á herðar okkar þegar kemur að mannréttindum og þeir eru bindandi fyrir okkur. Þannig segir Sólveig Pálmadóttir í ritgerð sinni að vanvirðandi meðferð á öldruðum brjóti gegn stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum, mikilvægt sé að hlúa vel að öldruðum sem skilað hafi sínu ævistarfi og ætti það velferðarþjóðfélag sem Ísland er að setja það í forgang að gera öldruðum kleift að lifa sín síðustu ár með reisn: „Þeir eiga að fá að halda sjálfstæði sínu þar til yfir lýkur, mannlegri reisn og við góða aðhlynningu í tryggu umhverfi.“

Þetta er kjarni málsins. Eldri borgarar eiga sinn rétt. Þetta er ekki alltaf vinsælasti þjóðfélagshópurinn hjá stjórnmálamönnum en það breytir engu um réttindi þessa fólks.

Ég ætla að vona að þingið beri gæfu til að samþykkja þetta góða mál að þessu sinni og ýta því ekki til hliðar eins og hefur verið gert svo oft áður. Það er komið nóg. Þeim peningum sem varið er í þennan málaflokk er vel varið. Þeir munu skila sér margfalt til baka. Hugsum um hag sístækkandi hóps eldri borgara. Hugsum um hag okkar allra.

Meðflutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu eru hv. þingmenn Elsa Lára Arnardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Þórunn Egilsdóttir og Jóhanna María Sigmundsdóttir. Að lokinni umræðu mælist ég til að málinu verði vísað til velferðarnefndar.



[16:03]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það, tillagan er afar góð og ég styð að hún komi fram. Ég vil gjarnan sjá þetta embætti umboðsmanns verða að veruleika og tek undir margt sem kom fram í orðum þingmannsins, m.a. að ekki eiga allir bakland sem getur stutt þá í því flókna ferli að takast á við lífeyriskerfið sem við förum inn í þegar við eldumst. Ég minni á að við vinstri græn eigum eitt gott mál í þinginu sem einmitt hefur ekki fengist mælt fyrir og snýr að því að fólk geti búið saman á dvalarheimilum þegar annar aðilinn er orðinn veikur og þarfnast aðstoðar og getur ekki verið heima. Eins og við vitum hefur almennt ekki verið í boði að makinn geti verið með.

Hverjir eiga að hafa umboðsmann? Eiga öryrkjar að hafa umboðsmann? Það skiptir svolitlu máli hvernig við förum með þetta og það gæti orðið tregða í kerfinu. Við þurfum að hugsa um að aðrir eru líka að berjast við kerfið ef við getum sagt sem svo. Þess vegna finnst mér það skipta máli og spyr hv. þingmann hvort hann sjái fyrir sér að við verðum með mjög marga umboðsmenn, eða hvaða málaflokkar telur hann helst að eigi heima þar undir?



[16:05]
Flm. (Karl Garðarsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir ágæta fyrirspurn og vil einnig hrósa henni fyrir það mál sem hún minntist á áðan, mál sem flokkur hennar, Vinstri grænir, hefur lagt fram um það að fólk geti búið saman á efri árum þannig að ekki sé verið að stía giftu fólki í sundur. Það er mjög gott málefni og það er mál sem ég mun tvímælalaust styðja hér.

Hún spyr hverjir eigi að fá umboðsmann. Í rauninni er ekki hægt að hafa neina tæmandi skilgreiningu á því. Umboðsmannakerfið er til staðar hjá okkur í dag. Það sem ýtti þessu máli úr vör var að þetta er mjög stór hópur og mun stækka alveg gríðarlega á næstu árum eins og fram kom í máli mínu áðan. Tugþúsundir manna verða komnar yfir 67 ára aldur eftir nokkur ár. Hagsmunir þessa fólks eru miklir, þetta er fólk sem er komið á þann stað í lífinu að það áttar sig ekki á breytingum í kerfinu og ekki hvert það á að leita.

Ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt að fólk hafi einn málsvara og þetta snýst um það. Ég ætla ekki þar með að útiloka að það geti þurft umboðsmenn fyrir fleiri hópa, alls ekki, en hins vegar eru takmörk fyrir því hvað við getum haft marga umboðsmenn. Það segir sig sjálft en ég tel að varðandi þennan hóp sé það algjörlega nauðsynlegt. Þar tala ég af eigin reynslu þar sem ég hef verið að annast mál fyrir fólk á þessum aldri og hef einmitt áttað mig á að það er ekki bara að þetta fólk átti sig ekki á réttindum sínum, heldur tók það mig margar vikur að finna út hvaða réttindi viðkomandi aðilar áttu í kerfinu. Þó ætti ég að vera þokkalega vel að mér í þeim málum.



[16:07]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta svar. Það getur nefnilega skipt máli. Við erum í tveimur tilfellum að tala um viðkvæma hópa sem hafa þurft, eins og fram kom í ræðu þingmannsins, og munu þurfa stuðning þegar þeir komast á efri ár. Eins og ég segi styð ég þetta og mér fannst góð grein formanns Félags eldri borgara sem hann vitnaði í.

Það er tvennt í þessu. Nú hafa verið lögð fram húsnæðisfrumvörp og undirliggjandi er að laga megi byggingarreglugerðina að því að hafa rýmin mjög lítil. Mér óar við að minnsta kosti einu sem þar er undir af því að ég vil horfa á það þannig að við séum ekki að skerða rými. Ég get hugsað mér það varðandi stúdentaíbúðir en ekki íbúðir sem við viljum að fólk geti búið í til framtíðar og geti fengið þjónustu heima hjá sér eins lengi og mögulegt er. Ég hef miklar áhyggjur af því að við förum inn í byggingarreglugerð og skerðum þar með húsnæði sem á að fara að rísa og spyr þingmanninn hvort hann telji ekki að þar sé meðal annars verið að takmarka aðstöðu eldra fólks til að minnka við sig, vera lengur heima o.s.frv.

Síðan verð ég auðvitað að spyrja í lokin, í ljósi allrar þeirrar umræðu sem við áttum hér um kjaramál eldri borgara og öryrkja fyrir jólin, (Forseti hringir.) hver hann haldi að niðurstaðan hefði orðið ef eldri borgarar hefðu getað skotið máli sínu til umboðsmanns eldri borgara.



[16:09]
Flm. (Karl Garðarsson) (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég held að kannski sé ekki rétt að setja þetta alveg í samhengi við fyrirliggjandi húsnæðisfrumvörp. Ég held að lífsgæði eldri borgara séu alveg sérdæmi og það verði tekið fullt tillit til þeirra í þessum málum og varðandi þær heimildir sem mögulegar verða leyfðar um stærð íbúðarhúsnæðis og annað slíkt.

Þingmaðurinn veltir fyrir sér hver niðurstaðan í kjaramálum eldri borgara hefði orðið ef þeir hefðu getað skotið máli sínu til umboðsmanns aldraðra. Umboðsmaður aldraðra er ekki neinn dómstóll þannig að hann hefði í sjálfu sér ekki komið með neina ákveðna niðurstöðu í því máli, hann hefði hins vegar getað komið fram með upplýsingar um stöðu aldraðra, verið búinn að heyra ýmislegt um þau mál í þinginu, mjög misvísandi fullyrðingar um hver staða aldraðra er. Það hefði verið gott að hafa umboðsmanninn þótt ekki væri nema til þess að leggja fram upplýsingar sem allir geta verið sammála um og hefðu getað tekið tillit til í þeirri umræðu sem hér varð í kringum jólin.

Hann hefði fyrst og fremst nýst í slíkum tilfellum en ekki beint til þess að kveða upp einhvern úrskurð um hvort þeir hefðu átt að fá þessa prósentuhækkun eða hina eins og var í umræðunni fyrir jól.



[16:11]
Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Karli Garðarssyni fyrir að leggja fram þessa þingsályktunartillögu og vonast svo sannarlega til að hún nái fram að ganga. Auðvitað hefði maður óskað þess að hún og mörg önnur þingmannamál hefðu náð að komast fyrr á dagskrá.

Tillagan er góð og það er rétt hjá hv. þingmanni að kerfið er of flókið. Það er allt of erfitt fyrir marga að leita réttar síns. Það er líka rétt sem kom fram í ræðu hv. þingmanns að líklega verði margir aldraðir af rétti sínum, tapi jafnvel fjármunum eða missi af fjármunum sem þeir eiga eflaust rétt á vegna þess að lagaumhverfið er töluvert flókið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Í sumum sveitarfélögum úti á landi hefur svokölluðum öldungaráðum farið fjölgandi eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar að ég held, þ.e. í sumum sveitarfélögum hefur þeim verið komið á fót þannig að aldraðir geta innan sveitarfélaganna komið upplýsingum sínum er varða sveitarfélögin á framfæri og eiga þar málsvara. Telur hv. þingmaður að það sé til bóta fyrir þennan hóp fólks? En eins og hann sagði í ræðu sinni telur hann að sá hópur fari ört stækkandi og sýnir fram á tölulegar upplýsingar um það. Telur hv. þingmaður að þessi öldungaráð séu til bóta?



[16:13]
Flm. (Karl Garðarsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir fyrirspurnirnar.

Það er eitt varðandi réttindin sem ég komst að þegar ég fór að vinna í þessum málum fyrir ættingja mína og það er að ekkert gerist sjálfkrafa í kerfinu. Ef þú sækir ekki um þá færðu ekki það sem þú átt að fá út úr kerfinu. Þú þarft alltaf að sækja um allt. Það gerist ekkert sjálfkrafa. Þetta kom mér á óvart því að ég hélt að kerfið væri þannig uppbyggt að eldri borgarar þyrftu ekki að fara inn á fullt af einhverjum síðum til að leita að einhverjum dálkum og eyðublöðum til að fylla út. En það er þannig. Það þarf að gera það svoleiðis. Þetta kom mér verulega á óvart.

Varðandi öldungaráðin held ég að þau séu til góðs. Ég er alveg sannfærður um að þau gera gott gagn þar sem þau hafa verið sett á fót. Ég held hins vegar að umboðsmaður sé skilvirkara form. Ég held um slík öldungaráð að hlutverk þeirra yrðu kannski mismunandi milli sveitarfélaga, þau yrðu misjafnlega skilvirk í vinnu sinni, það tæki kannski á sumum stöðum mjög langan tíma að fá niðurstöðu í mál o.s.frv. Ég hef ekkert á móti þeim. Ég held að þau aðstoði eldri borgara talsvert. En ég held að umboðsmaður sé mun skilvirkara fyrirkomulag. Það yrði væntanlega lögfræðimenntaður aðili með eitthvað af aðstoðarfólki. Ég er ekki að tala um stóra stofnun heldur litla stofnun sem svarar fyrirspurnum og bendir á ýmislegt í réttarmálum fyrir aldraða sem má bæta.



[16:15]
Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að umboðsmaður aldraðra verði skilvirkara form en öldungaráðin en tel samt sem áður að öldungaráðin skili mjög vel því sem þeim er ætlað að skila og séu mikil bót og mikilvægt að rödd þessara einstaklinga fái að heyrast innan stjórnsýslu sveitarfélaga, bæja og borga.

En það er rétt sem hv. þingmaður segir að það gerist ekkert af sjálfu sér í þessu kerfi. Of oft hef ég heyrt af fólki, jafnvel nálægt mér, sem er að leita réttar síns og fær svör við hvers vegna lífeyrir sé skertur í tekjuáætlun og þess háttar og svörin eru: Það er bara svona. Fólk hefur ekki þekkingu til þess að spyrja eða ganga lengra til að fá skýrari og nákvæmari svör hvers vegna verið sé til dæmis að skerða bæturnar.

Mér finnst þetta afar göfug þingsályktunartillaga. Ég mun svo sannarlega veita henni atkvæði mitt enda einn af meðflutningsmönnum hennar.

Vegna þess að við erum með annan hóp sem á jafnframt stundum líka erfitt með að leita réttar síns, sem eru öryrkjar, þá langar mig að spyrja: Hvernig þætti hv. þingmanni ef þetta væri umboðsmaður lífeyrisþega? Kannski eru hóparnir það ólíkir þrátt fyrir að vera báðir í þessu kerfi. Kannski á það ekki samleið. Ég hef verið að velta fyrir mér ef þetta væri umboðsmaður lífeyrisþega, hvernig það liti út. En eins og ég segi, kannski eru hóparnir það ólíkir innbyrðis samt sem áður.



[16:17]
Flm. (Karl Garðarsson) (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir fyrirspurnina. Við tölum oft um aldraða og öryrkja sem eitt mengi, en þetta eru tveir ólíkir hópar. Þó að þeir fái lífeyri og annað slíkt eru þetta tveir ólíkir hópar, ólíkar þarfir o.s.frv. Þess vegna þótti mér rétt í þessu tilfelli að leggja til að þetta yrði bundið við aldraða. Ekki er þar með sagt að öryrkjar þurfi ekki sterka málsvara í kerfinu, þeir þurfa þess svo sannarlega og eiga það skilið líka, en mér þótti í þessu tilfelli betra að taka þennan ákveðna hóp út, og þá var ég að horfa svolítið mikið til þeirra vandamála, þeirra erfiðleika sem það fólk á í þegar kemur að réttindum þess. Fólk sem missir til dæmis maka og er í sárum þarf kannski viku eða tveimur vikum seinna að fara inn á einhverjar síður í kerfinu til að leita að réttindum sínum, eyða dögum í einhverja slíka hluti, það er gjörsamlega fáránlegt. Það er fyrir neðan allar hellur hvað kerfið sem við erum með er flókið. Það er það sem ég var að horfa á þegar ég settist niður út af þessu máli, að búa til eitthvert kerfi sem væri þannig að fólk, eldri borgarar, gæti leitað á einn stað, fengið allar nauðsynlegar upplýsingar hvert það á að leita, hvernig það á að fylla þetta og hitt út og hver réttindi þess væru. Það getur ekki verið svo flókið að við getum ekki sett upp slíkt kerfi.



[16:18]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég kem nú bara hér upp til að fagna þessari tillögu frá hv. þingmönnum Framsóknarflokksins sem leggja hana fram og ég tel hana löngu tímabæra.

Það hefur ekki síst komið í ljós núna fyrir jólin, þegar við stóðum í stappi með afturvirkar greiðslur til þessa hóps, að það hefði kannski ekki verið slæmt fyrir þennan hóp að hafa umboðsmann til að vinna að sínum málum. Ekki síst finnst mér það algjörlega nauðsynlegt í ljósi þess að þjóðin er að eldast eins og fram kemur hér.

Það eru margir sem búa við mjög bágan kost af eldri borgurum. Það kom líka í ljós hérna fyrir áramótin, þegar verið var að ræða þessi mál, að það eru um og yfir 4.000 einstaklingar, eldri borgarar, sem búa við fátæktarmörk. Þetta er fólk sem hefur nánast ekki í nein hús að venda.

Nú er ég ekkert að lasta það fólk sem er í forsvari fyrir eldri borgara. Þetta er dugmikið fólk sem berst áfram fyrir réttindum síns fólks, en það vantar töluvert mikið upp á. Ég tek líka undir með þeim sem hafa talað hér, eins og hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, og spyr: Þurfa öryrkjar líka umboðsmann?

Það er spurning sem er mjög mikilvæg og við ættum að taka til umræðu hér á þingi vegna þess að þessir hópar fólks hafa ekki samningsrétt og eru upp á Alþingi komnir með það að lifa. Eins og kannski kom fram var gríðarleg undiralda í samfélaginu fyrir jól og eldri borgarar og öryrkjar, þó að maður eigi kannski ekki alltaf að spyrða þessa tvo hópa saman, lögðu á það gríðarlega áherslu að þingmenn stæðu með þeim og uppfylltu það réttlæti sem þeir fóru fram á. Það brást eins og kom í ljós og ekkert við því að gera.

En umboðsmaður aldraðra væri stórt skref. Ég furða mig líka á því, þegar maður les þessa greinargerð og annað, að sams konar mál hafa verið lögð fram margoft áður og aldrei hlotið hljómgrunn. Ég velti því fyrir mér hvers vegna. Hvaða augum lítum við eldri borgara í þessu landi? Þessi hópur er sístækkandi og við þekkjum það öll hér inni. Við eigum aldraða foreldra, skyldmenni og annað sem hafa það ekkert allt of gott og búa við fátæktarmörk.

Við erum ekki að bjóða þessu fólki upp á mannsæmandi lífskjör. Það er algjört lykilatriði að búa í samfélagi þar sem öllum er séð fyrir mannsæmandi lífskjörum. Það stendur í öllum sáttmálum sem við höfum skrifað undir og stjórnarskrá. Þess vegna fagna ég þessu virkilega.

Mér datt í hug, þegar við vorum að ræða þetta hér áðan, þegar hv. þm. Karl Garðarsson mælti hér fyrir þingsályktunartillögunni, að það var maður sem hringdi í mig fyrir jól. Það voru reyndar tveir menn sem hringdu í mig rétt fyrir jól, eldri menn, rúmlega 80 ára báðir, sem gátu ekki einu sinni veitt sér þann munað að kaupa sér lyf. Þeir voru með um 160–170 þús. kr. útborgaðar á mánuði, þar af fóru 90 þús. kr. í leigu og síðan þurftu þeir að reyna að reka bíl og annað. Annar þeirra upplifði á sínum tíma snjóflóðið á Patreksfirði þar sem hann missti móður sína og bróður og hafði fengið loforð um að fá styrk og framfærslu frá ríkinu til að byrja nýtt líf annars staðar. Það var allt svikið og nú býr hann einn í íbúð og getur nánast enga björg sér veitt. Það er þyngra en tárum taki að þurfa að hlusta á þetta í landi eins og Íslandi þar sem ein ríkasta þjóð í heimi býr.

Það er skammarlegt að við skulum þurfa að vera að tala um það hér á Alþingi að eldri borgarar þessa lands, fólkið sem byggði þetta land upp úr mjög erfiðum aðstæðum, um og í kringum miðja síðustu öld, þurfi að búa við þessar aðstæður. Það er alveg forkastanlegt. Þjóð sem er jafn rík af auðlindum á ekki að þurfa að standa í þessu, að geta ekki boðið fólkinu sínu upp á mannsæmandi lífskjör þegar dregur að endalokunum.

Ég vil því ítreka að ég er mjög ánægður með þessa tillögu og styð hana og vona að hún fái brautargengi. Vonandi fær þetta brautargengi og umræðu í velferðarnefnd og verður afgreitt hér strax í vor. Ég er mjög hlynntur því að öll mál komist í gegn og verði tekin til afgreiðslu í þingi og þetta er eitt af þeim málum sem ég mun veita brautargengi. Það er alveg ljóst.



[16:23]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í þetta mál vegna þess að ég er ekki sammála hv. flutningsmanni um hvernig honum finnist að taka beri á þessu, þ.e. að einhvern veginn sé hægt að aðskilja samtalið og samræðuna út frá þessari tilteknu tillögu. Ef við stofnum embætti umboðsmanns aldraðra þá eigum við auðvitað að ræða hvað í því felst.

Mér fannst hv. þingmaður svara því eins og þetta ætti að vera frekar bitlaus aðili í sjálfu sér; felldi enga dóma og kveddi ekki upp úrskurð. Hann getur nefnilega alveg kvatt upp tiltekinn úrskurð, það fer eftir því hvaða vald hann hefur.

Við höfum hér umboðsmann Alþingis sem leggur mat á tiltekin málefni og Alþingi virðir það; virðir niðurstöðu umboðsmanns Alþingis. Þess vegna spurði ég þessarar spurningar varðandi kjaramálin sem við ræddum hér fyrir áramótin, hvort ekki hefði verið farið svolítið öðruvísi að; ég tel að eldri borgarar hefðu klárlega leitað réttar síns í gegnum umboðsmann sinn. Meiri hlutinn hefði kannski hinkrað með að að láta málin ganga fram í fjárlögum eins og þau gerðu.

Við eigum að hugsa þetta í stóra samhenginu. Við erum alltaf að plástra þegar við fjöllum um hin ýmsu málefni. Mér finnst því að við eigum að ræða það opinskátt, þegar við erum að stofna embætti, hvað við viljum að það geri.

Hv. flutningsmaður fór svo sem ágætlega yfir ákveðna hluti og vitnaði til greina sem skrifaðar hafa verið frá 2007. Málið hefur jú mjög lengi verið að velkjast í kerfinu; þetta er, eins og þingmaðurinn rakti, ekki í fyrsta, annað eða þriðja sinn sem þetta er lagt til, það er margoft búið að leggja þetta til. En einhverra hluta vegna nær þetta ekki fram að ganga.

Þá spyr maður sig, þó að við hér í minni hlutanum séum tilbúin til að styðja þetta, hvaða tregða það er í kerfinu sem veldur því að við náum þessu ekki í gegn. Það er kannski að hluta til þetta, ímynda ég mér: Hverjir eiga að hafa umboðsmann? Það gæti verið atriði númer eitt, eins og við fórum aðeins inn á í andsvörum áðan, að það þurfi að vera búið að marka það aðeins að ef við samþykkjum að setja á fót embætti umboðsmanns aldraðra þá muni öryrkjar, sem eru kannski að berjast við kerfið um þá flóru alla, líka telja sig eiga rétt á slíkum umboðsmanni.

Við þurfum að vera heiðarleg við sjálf okkur og setja niður hvað það er sem hefur orðið til þess að málið hefur ekki náð fram að ganga. Ég tek undir allt sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, auðvitað á það fólk sem byggði landið sem við búum í núna ekki að þurfa að lepja dauðann úr skel og átti aldrei að þurfa að gera.

Það kemur fram í greinum þessara tveggja kvenna — önnur þeirra er formaður Landssamband eldri borgara og hin var varaformaður Félags eldri borgara í Reykjavík, þegar hún er skrifuð árið 2007 — að áhyggjuefnið er það að standa berskjaldaður fyrir framan stofnanir og yfirvöld ef valdið er misnotað á einhvern hátt, innan og utan stofnana. Þá er talað um kjaramál, eins og í fyrri greininni hjá Margréti Margeirsdóttur, skattamál og þjónustu. Þess vegna leyfði ég mér að nefna þetta hér áðan. Við vitum að það er jú enginn aðili sem tekur heildstætt á þessu eða er að leiðbeina fólki innan kerfis.

Í þessari grein er líka verið að tala um lífeyrismálin og mál sem þeim eru tengd, skattamál, en einnig búsetumál, skort á þjónustu, bæði utan stofnana aldraðra sem og innan þeirra, af því að hópurinn hefur jú kannski ekki allur efni á því að leita aðstoðar lögfræðinga.

Í grein Þórunnar er líka minnst á kjarabæturnar. Hún nefnir að eldri borgarar, sem eru í leit að hentugra húsnæði, séu dæmi um hóp sem fær misvísandi upplýsingar um hvað sé þjónustuíbúð eða öryggisíbúð og allt slíkt. Þess vegna leyfði ég mér að tala um þetta hér áðan í hinu stóra samhengi af því að við eigum að gera það, að velta því fyrir okkur hvað slíkur umboðsmaður mundi hugsanlega fá inn á borð til sín. Það rekja þær, þessar ágætu konur, ágætlega að mínu viti. Af því að við erum nú þegar að fjalla um velferðarmálin í tengslum við húsnæði þá finnst mér alla vega, miðað við það upplegg sem þar er undir að hluta, að það þurfi að breyta því töluvert til þess einmitt að mæta þessum hópi til framtíðar.

Í grein Þórunnar H. Sveinbjörnsdóttur segir, með leyfi forseta:

„Eldri borgarar sem eru í leit að hentugra húsnæði eru dæmi um hóp sem fær misvísandi upplýsingar um hvað sé þjónustuíbúð eða öryggisíbúð og þurfa opinberir aðilar, þar með talinn umboðsmaður aldraðra ef við hefðum hann, að koma að því að fá fasta og örugga skilgreiningu á þessum íbúðamálum. Ekki má kaupa köttinn í sekknum.“

Þetta finnst mér vera mjög mikilvægt.

Ég er líka alveg sammála því, eins og hér kom fram, að við þurfum að gæta að orðræðu okkar, við spyrðum oft saman eldri borgara og öryrkja. Þetta er alls ekki sama mengið, eins og hv. þingmaður kom ágætlega inn á. Stór hluti þessa hóps býr við bág kjör, er að berjast við kerfið, eins og sagt er, og það hefur okkur sem talsmenn sína af því að hann hefur ekki verkfallsrétt. Þess vegna eru þessir hópar kannski gjarnan spyrtir saman, en auðvitað eigum við ekki að gera það. Ekki frekar en, eins og Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir bendir á í grein sinni, þegar verið er að tala um rétt sjúklinga og annað slíkt, aldraða og veika sem festast inni á sjúkrahúsum fram að dvöl á hjúkrunarheimili; hún bendir á að fráflæðisvandi sjúkrahússins einskorðist ekki við eldri borgara. Hún bendir einnig á að enginn annar aldurshópur fái slíka umfjöllun og lítur á það sem aldursmismunun. Þegar við erum að tala um að fólk hafi það misgott þurfum við alltaf að gæta okkar í því að það eru ekkert allir undir í því frekar en í öðru.

En mig langaði aðeins að koma hingað upp og tjá mig um þetta af því að mér finnst að við þurfum líka að velta því fyrir okkur hvers vegna þetta hafi ekki náð fram að ganga og að við verðum að reyna að átta okkur á því utan um hvað þessi aðili á að ná; það á ekki bara að leiðsegja fólki í gegnum kerfi sem við komum ekkert að. Við komum að því með lagasetningu sem við erum meðal annars að vinna að í dag.



[16:32]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vildi taka til máls og lýsa yfir miklum stuðningi við þessa tillögu. Mér finnst hún stórgóð. Ég held að það séu fleiri hópar í samfélaginu sem mundu njóta góðs af því ef sérstakt embætti umboðsmanns væri þeim til handa. Mér finnst alveg þess virði að minnast á það við þetta tækifæri að ég tel þessa hugmynd koma oft fram í samfélaginu vegna þess að það er einn umboðsmaður sem hefur staðið sig með stakri prýði og það er umboðsmaður Alþingis. Vinnan sem hefur komið frá því embætti hefur verið með þvílíkum sóma og margsinnis varpað ljósi á hluti sem betur mega fara, oft og tíðum hefur það í för með sér að þeim er breytt til hins betra. Það er vegna þess að umboðsmaður nýtur mikillar virðingar í samfélaginu öllu. Störf hans eru álitin skipta raunverulegu máli.

Þess vegna er afskaplega mikilvægt þegar sett er á fót slíkt embætti að embættið sjálft njóti trausts og stuðnings og virðingar þeirra sem þeim umboðsmanni er ætlað að aðstoða með réttarvernd sína. En ég held að svona embætti þurfi ekki endilega að vera stór til að vera gagnleg, sér í lagi fyrir viðkvæma hópa eins og aldraða, öryrkja, fanga og aðra hópa í samfélaginu sem er ákveðin tilhneiging til í samfélagi okkar, því miður er það allt of algengt, að líta á sem einhvers konar afgangsstærð. Ég held að ef þessi tillaga nái fram að ganga sé hægt að draga mjög mikið úr þeirri tilhneigingu í fyrsta lagi og í öðru lagi draga úr áhrifum þeirrar tilhneigingar. Mörg vandamál eru þannig að það þarf ekki nema að benda á þau og tala um þau til þess að eitthvað lagist, auðvitað ekki af sjálfu sér alfarið, fólk þarf að gera eitthvað til að laga hlutina, en það er mikið af vandamálum sem eru óleyst einfaldlega vegna þess að enginn talar um þau eða kemur ekki upplýsingum á framfæri á nógu skilvirkan hátt.

Það er auðvitað hárrétt sem hv. þm. Karl Garðarsson fór vel yfir í ræðu sinni að það hversu flókið kerfið er þegar kemur að öldruðum og öðrum viðkvæmum hópum veldur því að réttarvernd er afskaplega erfið. Sú mantra verður seint endurtekin of oft að mínu viti að þegar viðkvæmir hópar, sem oft og tíðum hafa ekki mikið milli handanna, lenda í því að á rétti þeirra er á einhvern hátt brotið verða þeir að hafa utanaðkomandi aðila til að aðstoða sig við að gera sér ljóst hver réttindi þeirra eru og hvernig eigi að bregðast við því þegar eitthvað fer úrskeiðis. Við getum alveg gefið okkur að hlutirnir fari úrskeiðis. Það er alveg sama hversu glæsilegar stofnanir við höfum, það verður alltaf fólk sem vinnur þar og það verður alltaf fólk sem vinnur samkvæmt lögum og reglugerðum sem við setjum hér eða þá hæstv. ríkisstjórn. Afleiðingarnar af því þegar mistök eiga sér stað bitna á þessum skjólstæðingum en ekki endilega á þeim sem setja reglurnar. Maður getur ímyndað sér muninn á því að finna sjálfur fyrir afleiðingum gjörða sinna og því að gera það ekki. Munurinn er gríðarlegur.

Mér finnst því afskaplega mikilvægt að á Íslandi almennt tileinkum við okkur hugarfar aðhalds og mótvægis. Við þurfum að hafa stofnanir sem veita hver annarri aðhald og mótvægi. Þetta er hugtak sem á ensku, með leyfi forseta, er kallað „checks and balances“ og er notað í bandarískri stjórnsýslu. Mér finnst að við eigum að tileinka okkur það hugarfar og slík vinnubrögð meira í framtíðinni. Við getum ekki treyst stofnunum af þeirri einföldu ástæðu að þær eru stofnanir. Í því felst enginn áfellisdómur heldur aðeins viðurkenning á því að stofnanir séu mannleg fyrirbæri og maðurinn er ekki óbrigðull. Það er líka vegna þess að stjórnsýslan er ekki lífvera og hefur ekki tilfinningar og finnur ekki endilega fyrir því þegar eitthvað bjátar á. Það getur komið alfarið niður á skjólstæðingum án þess að kerfið, eins og það er kallað, finni fyrir því. Þá er svo mikilvægt að til staðar sé embætti á borð við umboðsmann, sem ég tel mjög heppilega lausn, til þess að veita þá tilfinningu í formi gagnrýni eða upplýsingaleitar eða jafnvel einhvers konar ákvörðunarvalds.

Umboðsmaður Alþingis er áhugaverð stofnun að því leyti að umboðsmaður hefur í sjálfu sér ekki neitt dómsvald. Hann getur ekki skikkað stofnanir til þess að gera eitt eða neitt né breyta einu eða neinu. Það er alfarið vegna virðingar fyrir starfi hans og fyrir þeirri stofnun og sögu stofnunarinnar af afgreiðslu mála og metnaðar fyrir því að gera rétt sem niðurstöður umboðsmanns Alþingis hafa raunveruleg áhrif. Aftur kemur að því hversu mikilvægt það er að slík embætti njóti virðingar, séu almennilega fjármögnuð og hlutverkið skýrt o.s.frv., en aðallega að fólk, og sér í lagi skjólstæðingar embættisins, upplifi það sem svo að það skipti raunverulega máli sem kemur frá umboðsmanni. Það skiptir gríðarlegu máli. Ég held að ástæðan fyrir vinsældum umboðsmanns Alþingis sé að fólk upplifir sem það skipti máli þegar hann úrskurðar um eitthvað eða segir eitthvað eða skilar skýrslu sem segir eitthvað. Það hafi raunveruleg áhrif jafnvel þótt lögformlega hafi umboðsmaður Alþingis ekki neitt dómsvald.

Enn og aftur lýsi ég yfir stuðningi við þessa tillögu og verð að segja að það hafa komið fram tillögur svipaðs eðlis um aðra hópa og umboðsmaður flóttamanna verið nefndur, umboðsmaður innflytjenda, umboðsmaður fatlaðs fólks og fleira í þeim dúr. Ég vara við því einu að þetta sé álitin einhvers konar galdralausn. Það getur þurft meira en einfaldlega að setja á fót embætti umboðsmanns og telja þá að verkefninu sé lokið. Það þarf alltaf að fylgja því eftir og tryggja að tiltekið embætti nái raunverulegum árangri og hafi þau tæki og tól með lögum og fjármagni og aðstæðum til þess að sinna vinnu sinni þannig að niðurstöður stofnana skipti raunverulegu máli. Sömuleiðis er mikilvægt að umræddur umboðsmaður sé ótengdur þeim kerfum sem hann á að gagnrýna eða hafa einhvers konar eftirlit með. Með því er ekki átt við að hann eigi ekki að þekkja kerfin sem hann fjallar um heldur fyrst og fremst að þetta tvennt sé aðskilið. Umboðsmaður Alþingis er nefnilega ein af þeim stofnunum sem heyrir beint undir Alþingi, tilheyrir ekki ríkisstjórn sem dæmi. Það er afskaplega mikilvæg staða fyrir það embætti að mínu mati. Almennt tel ég að eftirlitsstofnanir eigi að tilheyra Alþingi. Það er í sjálfu sér ekki aðalatriði en ég vildi varpa því fram að í okkar litla landi skiptir miklu máli að við séum með aðskilnað stofnana mjög skýran og sem skynsamlegastan.

Fleira hef ég ekki að segja um þetta mál annað en að ég ítreka enn og aftur stuðning minn við það. Ég vona svo sannarlega að þetta góða mál fái fulla meðferð á Alþingi og vænti þess fastlega að Alþingi samþykki málið ef það nær til atkvæðagreiðslu eftir síðari umr.



[16:40]
Flm. (Karl Garðarsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem tekið hafa til máls, Páli Val Björnssyni, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur og Helga Hrafni Gunnarssyni, fyrir þeirra framlag. Ég get tekið undir nánast allt það sem þau hafa sagt úr þessum stól.

Það eru nokkur atriði sem mig langar til að hnykkja á í þessu máli. Það er rétt, sem hv. þm. Páll Valur Björnsson minntist á, að aldraðir hafa ekki samningsrétt, og því er mikilvægt að aðrir geti fjallað um þau mál. Að sama skapi er það rétt, sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson minntist á, að umboðsmaður hefur ekki dómsvald. Umboðsmaður er heldur ekki kjaradómur. Við þurfum að hafa það alveg á hreinu. Hann getur komið með úrskurð um ýmis mál, en hann er ekki dómstóll og hann er ekki kjaradómur þannig að það sé alveg á hreinu.

Af hverju hefur þetta mál verið lagt svona oft fram hér á þingi og aldrei náð í gegn? Ég hef rætt við flutningsmann sem lagði þetta mál fram nokkrum sinnum á þingi og staðreyndin er sú, eins og við í þessum sal vitum, að um það bil 2–3% mála sem eru samþykkt hér á þinginu koma frá almennum þingmönnum, nánast öll mál, eða 95%, koma frá ríkisstjórninni. Það er því oft afskaplega erfitt fyrir þingmenn að ná slíkum málum í gegn. Ég held að það sé kannski ein af ástæðunum fyrir því að þetta mál hefur ekki náð í gegn. Mér heyrðist á viðkomandi, sem ég ræddi við, að mikill stuðningur hafi verið við viðkomandi frumvörp eða þingsályktunartillögur, en það hefði ekki dugað til þar sem málið hefði ekki komist á dagskrá og umræðan hefði ekki klárast.

Maður er líka alltaf hræddur um að stækka kerfið, að verið sé að búa til eina stóra stofnun í viðbót sem er ekki það sem ég hef í huga með þessari tillögu minni. Ég held, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson minntist réttilega á, að þetta þurfi ekki endilega að vera stórt dæmi, að ekki þurfi mjög margir að vera í vinnu í þessu til að þetta geti skilað góðum árangri.

Fólk veltir þá fyrir sér: Hvað með aðra hópa, af hverju fá þeir ekki líka umboðsmann? Þá er rétt að geta þess að við erum með umboðsmannakerfi nú þegar. Við höfum verið með umboðsmann skuldara, umboðsmann barna og umboðsmann Alþingis þannig að þetta kerfi er við lýði hjá okkur og þetta er ekki neitt sem við erum að finna upp með þeirri þingsályktunartillögu sem hér er.

Hvernig embættið verður nákvæmlega byggt upp? Þetta er þingsályktunartillaga sem gerir ráð fyrir því og óskar eftir því að félagsmálaráðherra leggi fram frumvarp um þetta mál þar sem farið verði í gegnum það hvert hlutverk umboðsmanns aldraðra verður, þannig að það verði skilgreint nánar. Enn fremur er hægt að skilgreina það með reglugerð ef þörf krefur. Tilgangurinn með þessari tillögu er að hreyfa við málinu, koma því af stað og sjá til þess að ráðherra leggi frumvarp fyrir þingið innan skamms tíma.

Að lokum vil ég þakka hv. þingmönnum sem komu hér upp og ræddu þetta mál fyrir þeirra stuðning. Ég er mjög ánægður með það og vona að málið fái góðan framgang.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til velfn.