145. löggjafarþing — 74. fundur
 4. feb. 2016.
gjaldtaka af ferðamönnum.

[10:32]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vildi spyrja hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hvað væri að frétta af náttúrupassanum, þ.e. hvað væri að frétta af fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar um einhvers konar gjaldtöku af ferðamönnum sem staðið geti straum af þeim mikla kostnaði sem þarf að ráðast í, m.a. á fjölmörgum náttúrustöðum hringinn í kringum landið. Hér voru uppi fyrirætlanir um að þróa sérstakan náttúrupassa sem sannarlega féllu í grýttan jarðveg. Hugmyndir hafa verið uppi um að hækka gistináttagjaldið. Áður hafði verið ákveðið að hækka virðisaukaskattsstigið í ferðaþjónustunni og margar aðrar tillögur út af fyrir sig verið á borðinu. Nú eru að verða liðin þrjú ár af kjörtímabilinu og ég verð að segja að það hlýtur að vera í hæsta mála tímabært að við fáum niðurstöðu í það hvað hæstv. ráðherra ætlar að gera á kjörtímabilinu í þessu stóra hagsmunamáli íslensku þjóðarinnar. Við þurfum að efla mjög innviði fyrir ferðaþjónustuna og það er mikilvægt að sá kostnaður lendi ekki einvörðungu á íslenskum skattgreiðendum. Það er eðlilegt að þeir sem hingað koma til þess að sækja þjónustu og njóta náttúru Íslands taki þátt í þeim kostnaði sem verður til við það.

Virðisaukaskatturinn er lægri í greininni en á vörur almennt í landinu, þess vegna er sjálfsagt að huga að því hvort gjaldtaka eins og gistináttagjaldið eða aðrir slíkir hlutir geti hjálpað okkur við að fjármagna mikilvæga uppbyggingu við helstu perlur landsins. Ég held að við séum öll sammála um að algerlega nauðsynlegt er til að sýna íslenskri náttúru þá virðingu sem henni ber að ráðast í þá innviðauppbyggingu sem víða er orðið mjög þörf að fara í á fallegustu náttúrustöðum hér á landinu. Þess vegna spyr ég ráðherrann: Hvar stendur þetta mál núna?



[10:34]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er rétt sem fram kom í máli hans og eru ekki fréttir í þessum sal að náttúrupassafrumvarpið náði ekki fram að ganga á sínum tíma. Síðan þá hefur margt og mikið gerst á sviði ferðaþjónustu. Við höfum í samvinnu við greinina og sveitarfélögin í landinu kynnt stefnumótun til framtíðar, svokallaðan vegvísi í ferðaþjónustu, um þau brýnu verkefni og þær aðgerðir sem grípa þarf til til að tryggja viðhlítandi vöxt og viðgang þessarar mikilvægu atvinnugreinar. Ég verð að segja að það samstarf sem hefur tekist í kjölfarið með Stjórnstöð ferðamála og með þeim góða vegvísi sem við erum að vinna eftir hefur gengið afbragðsvel.

Það er alveg rétt sem fram kemur í máli fyrirspyrjanda, við þurfum að bæta í varðandi innviði. Við þurfum að bæta í ýmis mál sem hafa setið á hakanum og það erum við að gera. Við höfum tryggt aukna fjármuni í það.

Varðandi gjaldtöku á ferðamannastöðum þá kemur það skýrt fram í vegvísinum að leggja skuli áherslu á gjaldtöku fyrir virðisaukandi starfsemi. Það er það sem verið er að gera meðal annars á Þingvöllum. Þar er verið að leggja á gjald fyrir þjónustu til að mynda við bílastæði og við salerni. Varðandi tekjur af ferðamönnum er núna verið að vinna að breytingum á virðisaukaskattskerfinu sem þingmaðurinn þekkir væntanlega vel, bæði með því að hækka neðra þrepið, lækka efra þrepið og fækka undanþágum. Þessar breytingar standa yfir og gefa vonandi af sér frekari tekjur (Forseti hringir.) af þessari atvinnugrein. Varðandi gjaldtökumálið (Forseti hringir.) sem slíkt hefur ekki verið tekin ákvörðun um nýtt frumvarp í þeim efnum.



[10:36]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum með það að ekki séu neinar fyrirætlanir uppi á borðum um gjaldtöku af ferðamönnum. Ég tel að það sé algerlega óviðunandi að greiða eigi það úr ríkissjóði eins og ástatt er, fjárvant víða í velferðarkerfinu og byrðar þungar víðs vegar í samfélaginu og mörg verkefni sem ríkissjóður þarf að taka á. Það er ekkert nema sjálfsagt að þeir ferðamenn sem hingað flykkjast taki þátt í þeim kostnaði sem er við innviðauppbygginguna og við að tryggja það að helstu perlur landsins séu þannig að boðlegt sé að koma þangað. Ég spyr ráðherrann hvort hún sé að boða það að fara eigi í frekari hækkun á neðra þrepi virðisaukaskattsins, hvort það hafi átt að skilja ræðu hennar sem svo.

Ég vil að síðustu hvetja ráðherrann til þess að beita sér fyrir því að gistináttagjaldið, sem er ákaflega lágt gjald sem ferðamenn greiða fyrir hótelgistingu, gjald sem þekkist um allan heim, verði einfaldlega hækkað og tekjurnar af því notaðar til þess að standa (Forseti hringir.) sómasamlega að móttöku erlendra ferðamanna á Íslandi án þess að það bitni á (Forseti hringir.) skattgreiðendum eða þjónustu í velferðarkerfinu.



[10:37]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Til að taka af öll tvímæli: Nei, ég er ekki að boða frekari hækkun á neðra þrepi virðisaukaskatts. Ég var að lýsa því að þær breytingar hafa verið gerðar og nú er verið að fækka undanþágum sem munu skila auknum tekjum af ferðamönnum sem hingað koma til lands. Það má ekki gleyma því að við fáum nú þegar gríðarlegar tekjur af ferðamönnum. Þessi fræði eru engin geimvísindi. Það eru nokkrar leiðir til að innheimta tekjur af ferðamönnum. Allar hafa þær kosti og galla og það kom skýrt fram á sínum tíma þegar við vorum að ræða þessi mál. Ég lagði til leið náttúrupassa sem ég er enn þeirrar skoðunar að sé góð leið. Hún náði ekki fram að ganga og þá er það sú staða sem við erum að vinna með. Það eru kostir og gallar við að hækka gistináttagjaldið eða setja komugjald eða hækka skatta að öðru leyti. Þetta er eitthvað sem við munum án efa skoða í framtíðinni. Það sem mestu máli skiptir er að við erum að taka þessa atvinnugrein föstum tökum og tryggja innviðauppbyggingu og (Forseti hringir.) stuðning við greinina mjög vel með þeim aðgerðum sem við höfum lagt fram nú þegar.