145. löggjafarþing — 75. fundur
 15. feb. 2016.
málefni ferðaþjónustunnar.

[15:05]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um stöðuna í málefnum ferðaþjónustunnar sem er löngu hætt að vera viðfangsefni eins einstaks ráðherra heldur farið að vera alvarlegt vandamál í landinu öllu. Fjöldi ferðamanna nú í janúar var jafn mikill og í júnímánuði árið 2012. Ríkisstjórnin hefur algjörlega klúðrað því að bregðast við þessari fjölgun og klúðrað gjaldtöku af ferðamönnum allan þennan tíma. Það er óhugsandi að 330 þús. manna þjóð geti af skattfé sínu byggt innviði sem dugi fyrir 400 þús. manns á hverjum tíma. Það mun setja óbærilegar byrðar á okkur og bitna á heilbrigðisþjónustunni sem við búum við og velferðarþjónustunni sem við búum við að öðrum kosti. Það verður að láta ferðamenn sjálfa greiða fyrir uppbyggingu innviða. Fólk er í lífshættu við fossa. Fólk er í lífshættu í Reynisfjöru. Mannskaði hefur orðið í Silfru og á Sólheimajökli. Við horfum yfir sviðið. Fólk er í lífshættu þegar það ekur Ölfusið. Samt stendur þessi ríkisstjórn fyrir Íslandsmeti í framkvæmdaleysi í samgöngumálum. Það eru engir nýir peningar í löggæslumál. Það er búið að spyrja innanríkisráðherra oft um það. Ekki er von á neinu. Í heilbrigðismálum eru engir nýir peningar. Heilbrigðisstofnun Suðurlands kemur með upplýsingar um að sjúkraakstur hafi aukist um 100% frá árinu 2012 og sjúkraflug um 300%. Engir nýir peningar eru í það.

Virðulegi forseti. Hvernig hyggst ríkisstjórnin bregðast við þessari stöðu? Þetta er orðið gríðarlega alvarlegt mál. Innviðir duga ekki. Fólk er í lífshættu og það verður að taka gjöld af ferðamönnum sjálfum. Við erum núna að kljást við afleiðingar þess að ríkisstjórnarflokkarnir börðust eins og ljón gegn öllum hugmyndum um gistináttagjald á síðasta kjörtímabili og tókst að koma í veg fyrir að það væri nægjanlega hátt til að standa undir raunverulegri innviðafjárfestingu. Þetta snýst ekki lengur um einn og einn göngustíg, virðulegi forsætisráðherra, þetta snýst um öryggi þjóðarinnar (Forseti hringir.) og innviðina sem hún býr við.



[15:07]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Mér þykir hv. þingmaður ganga heldur langt í því að draga upp neikvæða mynd af þeirri miklu fjölgun ferðamanna sem við höfum horft upp á undanfarin ár. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir, fjölgunin hefur verið gríðarlega mikil, m.a. vegna þess að það var komist hjá því að fara í skattaaðgerðir sem síðasta ríkisstjórn boðaði sem hefði verið til þess fallin að fæla fólk frá, eins og reyndar nokkrir hv. fyrrverandi þingmenn Samfylkingarinnar mega eiga að þeir viðurkenndu síðar að hefðu verið mistök, að ætla að fara í þá gjaldtöku, enda höfðu þeir sem best þekkja til í þessari grein bent á að það hefði akkúrat verið vísasta leiðin til að snúa við þeirri þróun sem var farin af stað og hefur haldið áfram á miklum hraða, að ferðamönnum til Íslands fjölgar mikið. Það kallar auðvitað á innviðauppbyggingu og hana þarf að fjármagna. Hins vegar hefur fjölgunin verið það hröð að jafnvel það fjármagn sem hefur verið til reiðu í innviðauppbyggingu hefur ekki verið nýtt jafn hratt og stjórnvöld hafa veitt það. Þegar ferðamönnum fjölgar eins mikið og hv. þingmaður benti á, að þeir urðu jafn margir í janúar núna og í júní 2012, ef ég heyrði rétt, segir það sig sjálft, virðulegur forseti, að menn þurfa tíma í ferðaþjónustunni og sveitarfélögin um allt land og þeir sem halda utan um ferðamannastaði til að bregðast við því. Það hefur ekki staðið á ríkisstjórninni í því. Þó að þær tillögur sem hv. þingmaður vísaði til og hæstv. iðnaðarráðherra kynnti hafi ekki fallið í kramið hjá hv. þingmanni hafa menn í millitíðinni haft aðrar leiðir til þess að sækja fjármagn, þeir sem hafa verið reiðubúnir að nýta það. Þegar fjölgunin er þetta gríðarlega hröð er eðlilegt að það taki tíma að byggja upp kerfi sem getur (Forseti hringir.) haldið í við þá þróun.



[15:09]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það kemur ekkert svar við spurningunni: Hvernig á að mæta þessari brýnu þörf? Hvernig á að koma í veg fyrir að fólk sé í lífshættu? Hvar á að taka féð til að byggja nýja vegi til þess að mæta þessari fjölgun ferðamanna? Af almennu skattfé áfram? Þá verður minna til ráðstöfunar í heilbrigðisþjónustuna og önnur dýrmæt verkefni (Gripið fram í.) fyrir landsmenn. Það verður að byggja upp vegakerfið. Það verður að tryggja löggæslu við þessa hættulegustu ferðamannastaði. Það er ekkert fé til reiðu í það núna úr ríkiskassanum. Það er stóra spurningin sem hæstv. ráðherra er spurður. Það þýðir ekkert að sitja hjá og grobba sig af því að engin gjöld séu lögð á greinina. Það er vandamál að ekki eru lögð gjöld á ferðamenn sem koma til landsins þannig að þeir standi undir kostnaði við uppbyggingu innviða. Það er ekki hægt að setja fólk hér á landi í lífshættu við að aka um vegi þessa lands og bjóða upp á það (Forseti hringir.) að við þurfum að skerða heilbrigðisþjónustuna sem er völ á í landinu til að geta veitt ferðamönnum þjónustu sem þeir ættu auðvitað að borga sérstaklega fyrir sjálfir, þ.e. þá þjónustu sem þeir þiggja hér.



[15:10]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég skil ekki þessa geðshræringu hv. þingmanns. Það er eins og hann telji að landið sé að verða fyrir innrás ferðamanna og mönnum standi ógn af þessu fólki hvar sem það kemur. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á, að sjálfsögðu þarf að byggja upp innviði til að taka á móti þessum mikla fjölda. Sú uppbygging stendur yfir. Fjármagn hefur verið veitt af hálfu ríkisins í þá uppbyggingu, en það sama þurfa fyrirtæki í ferðaþjónustu að sjálfsögðu að gera og sveitarfélögin, allir þurfa að laga sig að þessari miklu fjölgun ferðamanna sem skila nú þegar gríðarlegum tekjum til ríkisins, og þetta virðist hv. þingmanni algjörlega hafa yfirsést, (Gripið fram í.) og fyrir vikið höfum við úr meira fjármagni að spila, eins og hv. þingmaður þekkir.

Hann heldur fram hreinum ósannindum um að engir nýir peningar séu í löggæslu og engir nýir peningar í heilbrigðismálin. Telur þingmaðurinn að hann geti talið einhverjum trú um þetta þegar menn sjá það blasa við sem hafa bara fyrir því að kynna sér helstu lykiltölur að aukning framlaga (Forseti hringir.) til heilbrigðismála hefur sjaldan verið meiri? Framlög til löggæslunnar voru stóraukin á liðnu ári og við sjáum áframhaldandi aukningu núna o.s.frv.