145. löggjafarþing — 76. fundur
 16. feb. 2016.
sjúkratryggingar og lyfjalög, 2. umræða.
stjfrv., 228. mál (heilbrigðisþjónusta yfir landamæri, EES-reglur). — Þskj. 244, nál. m. brtt. 744.

[16:08]
Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti velferðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og lyfjalögum, nr. 93/1994, sem miða einkum að því að veita sjúkratryggðum að meginreglu til rétt til að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki EES-samningsins og fá endurgreiddan kostnað af þjónustunni frá sjúkratryggingum eins og um heilbrigðisþjónustu innan lands væri að ræða, enda sé þjónustan samsvarandi þeirri þjónustu sem sjúkratryggingar taka þátt í að greiða hér á landi. Frumvarp svipaðs efnis var lagt fram á 144. löggjafarþingi, mál nr. 636, en var ekki afgreitt.

Frumvarpinu er ætlað að innleiða tilskipun 2011/24/ESB, um réttindi sjúklinga varðandi heilbrigðisþjónustu yfir landamæri, og framkvæmdartilskipun 2012/52/ESB, um ráðstafanir til að auðvelda viðurkenningu á lyfseðlum sem eru gefnir út í öðru aðildarríki. Í 7. gr. tilskipunar 2011/24/ESB, samanber einkum 1. og 4. mgr., er sett fram sú meginregla að heimaríki sjúkratryggðs skuli greiða kostnað hans af heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki að því marki sem hann hefði átt rétt á hefði hann fengið sömu þjónustu í heimaríkinu, án þess þó að fjárhæð greiðslunnar fari yfir raunverulegan kostnað.

Hæstv. forseti. Nefndin hefur fjallað um málið, farið yfir umsagnir sem bárust og fengið á sinn fund ýmsa gesti hverra nöfn er að finna á nefndarálitinu og verða ekki talin upp hér.

Í umsögnum kom meðal annars fram, og lögð var áhersla á frá embætti landlæknis og Landspítala, að fjárfestingar í tækjum, búnaði og mannskap í heilbrigðisþjónustu krefðist ákveðins lágmarksfjölda sjúklinga til að standa undir sér og vegna fámennis á Íslandi gæti það komið niður á framboði heilbrigðisþjónustu innan lands, einkum þjónustu sem krefðist mjög sérhæfðrar þekkingar, ef fjöldi sjúklinga leitaði heilbrigðisþjónustu erlendis. Það gæti einnig og aftur ógnað öryggi sjúklinga. Læknafélag Íslands og Öryrkjabandalagið lögðu einnig áherslu á aðgengi að heilbrigðisþjónustu í háum gæðaflokki innan lands.

Tilskipun 2011/24/ESB heimilar takmarkanir á beitingu reglna um endurgreiðslu kostnaðar við heilbrigðisþjónustu yfir landamæri á grundvelli brýnna almannahagsmuna, svo sem skipulagskrafna í tengslum við markmiðið um að tryggja að í viðkomandi aðildarríki sé fullnægjandi og varanlegur aðgangur að jöfnu framboði meðferðar í háum gæðaflokki eða markmiðið um að hafa stjórn á kostnaði og eftir því sem unnt er að komast hjá sóun á fjármagni, tækni og mannauði, enda sé gætt meðalhófs og takmarkanirnar leiði ekki til handahófskenndrar mismununar eða óréttmætrar hindrunar á frjálsum vöruflutningum, frjálsri för fólks eða frjálsri þjónustustarfsemi, samanber 9. og 11. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar.

Hæstv. forseti. Í ljósi fámennis hérlendis og athugasemda embættis landlæknis og Landspítala telur nefndin brýna almannahagsmuni af því að heimilt verði að synja um endurgreiðslu kostnaðar vegna heilbrigðisþjónustu í öðru EES-ríki ef hægt er að veita heilbrigðisþjónustuna hér á landi innan tímamarka sem má réttlæta læknisfræðilega þegar tekið er mið af heilsufarsástandi sjúklings og líklegri framvindu sjúkdóms. Nefndin leggur því til breytingu þess efnis. Jafnframt leggur nefndin til að heimilt verði að synja um endurgreiðslu ef öryggi sjúklings eða almennings er stefnt í hættu með heilbrigðisþjónustu í öðru EES-ríki eða ef tilefni er til að efast um að veitandi þjónustunnar fylgi gæða- og öryggiskröfum, enda telur nefndin það einnig til brýnna almannahagsmuna.

Þar sem nefndin leggur til að takmarkanir á endurgreiðslum á grundvelli brýnna almannahagsmuna verði ákveðnar í lögunum leggur hún til að felld verði brott heimild ráðherra til að takmarka með reglugerð endurgreiðslu kostnaðar á grundvelli brýnna almannahagsmuna.

Hæstv. forseti. Tilskipun nr. 24/2011/ESB heimilar aðildarríkjum að áskilja í vissum tilvikum fyrirframsamþykki fyrir endurgreiðslu kostnaðar við heilbrigðisþjónustu yfir landamæri, samanber einkum 8. gr. tilskipunarinnar. Nefndin telur áskilnað um fyrirframsamþykki geta auðveldað stjórn og bætt yfirsýn yfir framkvæmd laganna. Hún telur þó rétt að stjórnvöldum verði kleift að útfæra í hvaða tilvikum þess skuli krafist. Nefndin leggur því til að ráðherra kveði í reglugerð á um hvenær sækja skuli um fyrirframsamþykki.

Hæstv. forseti. Öryrkjabandalag Íslands lagði til að einstaklingum yrði heimilt að fá kostnað við heilbrigðisþjónustu erlendis fyrir fram greiddan í vissum tilvikum. Samtökin lögðu einnig til að mælt yrði fyrir um greiðslur vegna ferðakostnaðar. Nefndin telur mikilvægt að jafnræðis sé gætt gagnvart fötluðum að þessu leyti, en telur rétt að framkvæmd laganna í þessu efni verði útfærð í reglugerð.

Hæstv. forseti. Af hálfu Lyfjafræðingafélags Íslands kom fram að skýra mætti hvernig lyfjabúðir ættu að staðreyna lækningaleyfi útgefanda lyfseðlis í öðru EES-ríki. Í viðauka við framkvæmdartilskipun 2012/52/ESB er listi yfir þau atriði sem að lágmarki skulu koma fram á lyfseðlum. Þar á m.a. að geta nafns, faglegrar menntunar og hæfis þess sem gefur út lyfseðil og fram þurfa að koma upplýsingar um hvernig megi hafa milliliðalaust samband við hann. Lyfjabúðum ætti því að mati nefndarinnar að vera unnt að staðreyna lækningaleyfi útgefanda lyfseðlis í öðru EES-ríki.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga lagði til að í 6. gr. frumvarpsins yrði ekki aðeins vísað til lækna, tannlækna og dýralækna heldur einnig til annarra heilbrigðisstarfsmanna sem hefðu leyfi til að ávísa lyfjum, enda hefðu hjúkrunarfræðingar leyfi til að ávísa lyfjum í sumum Evrópuríkjum.

Hæstv. forseti. Í lyfjalögum hefur verið mörkuð sú stefna að áskilja alla jafna að læknar, tannlæknar eða dýralæknar ávísi lyfjum. Nefndin telur ekki rétt að sinni að leggja til breytingu þar á.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Eftirfarandi breytingar verði á 3. gr.:

a. Á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi: Heimilt er að synja um endurgreiðslu kostnaðar skv. 1. mgr. ef:

1. Hægt er að veita heilbrigðisþjónustuna hér á landi innan tímamarka sem má réttlæta læknisfræðilega þegar tekið er mið af heilsufarsástandi sjúklings og líklegri framvindu sjúkdóms.

2. Öryggi sjúklings eða almennings er stefnt í hættu með heilbrigðisþjónustu sem veitt er á grundvelli 1. mgr.

3. Tilefni er til að efast um að veitandi heilbrigðisþjónustunnar fylgi gæða- og öryggiskröfum.

b. 3. mgr. orðist svo:

Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um framkvæmd greinarinnar, meðal annars um hvenær sækja skuli um fyrirframsamþykki fyrir endurgreiðslu á grundvelli 1. mgr.

Virðulegur forseti. Steingrímur J. Sigfússon ritar undir álit þetta með fyrirvara. Ásmundur Friðriksson, Elsa Lára Arnardóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álit þetta samkvæmt 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Að öðru leyti rita undir þetta, virðulegur forseti, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem er framsögumaður, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og les ég nú heildina upp: Elsa Lára Arnardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, með fyrirvara, Ásmundur Friðriksson, Páll Valur Björnsson og Unnur Brá Konráðsdóttir.

Virðulegur forseti. Þetta er nefndarálit velferðarnefndar. Eins og sjá má er nefndin nokkuð einhuga um að fara þessa leið og verður fróðlegt að fylgjast með umræðum um þetta samkomulagsmál.



[16:19]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli framsögumanns þá er þetta mál afgreitt af öllum nefndarmönnum. Ég vil nota tækifærið hér til að byrja með og þakka framsögumanni, hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, fyrir að vinna þetta vel og leggja sig fram um að ná sátt í nefndinni um breytingar, sem gerði að verkum að við gátum öll staðið að þessu máli. Ég kem hér upp bara örstutt til þess að lýsa afstöðu Samfylkingarinnar.

Við erum sammála því að fólk eigi að hafa frelsi til að sækja heilbrigðisþjónustu til annarra Evrópuríkja og bendum jafnframt á að flestir vilja fá heilbrigðisþjónustu í sínu heimalandi, en það getur verið, vegna fjölskylduaðstæðna og annarra ástæðna, mikilvægt fyrir fólk að geta leitað þessarar þjónustu annars staðar. Auðvitað stendur þessi Evróputilskipun mun nær því fólki sem býr þannig í heimaríki sínu að það býr nálægt landamærum við önnur ríki. Við erum náttúrlega eyja úti í hafi sem leiðir til þess að undir venjulegum kringumstæðum ætti ekki að vera mikil ásókn í þetta, en við teljum mikilvægt að fólk geti sótt þessa þjónustu annars staðar en í heimalandi sínu.

Við teljum líka að þetta ætti að skapa þann þrýsting á stjórnvöld að halda biðlistum í lágmarki. Þess ber að geta að nú eru ekki eðlilegar aðstæður hér á landi. Það eru gríðarlegir biðlistar, bæði uppsafnaðir vegna niðurskurðar en ekki síður vegna verkfalla. Það var þess vegna sem landlæknir lýsti yfir miklum áhyggjum af því hvað gæti gerst ef frumvarpið yrði samþykkt án einhverra heimilda til hindrana. Þess vegna er komið inn þetta ákvæði um að ráðherra skuli með reglugerð kveða nánar á um framkvæmd greinarinnar, þ.e. um endurgreiðslu á kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu yfir landamæri og hvenær skuli vera um fyrirframsamþykki fyrir endurgreiðslu að ræða. Það ber að líta til þess að núna, þegar svo margir hafa beðið allt of lengi eftir því að fá til dæmis liðskipti vegna mjaðma og hnjáa, þjónusta sem við viljum að fólk fái áður en það verður örkumla, getur þessi lagabreyting leitt til þess að það margir færu erlendis að mati landlæknis að það mundi koma niður á veitingu heilbrigðisþjónustu hér á landi, því að þá fara fjármunir út til þeirra sem fara og sækja þjónustuna erlendis, þurfa ekki að sæta þeim biðlistum sem hér eru. Ef við tryggjum ekki nægilegt fjármagn inn í kerfið þurfa þeir sem kannski eru í brýnustu þörf en geta ekki farið utan að bíða enn lengur. Þess vegna töldum við gríðarlega mikilvægt að fá inn þetta ákvæði sem gerir að verkum að heilbrigðisráðherra, sem verður nú að fylgjast mjög náið með því hvernig þetta þróast, getur þá gripið inn í ef fjármunir eru að renna til þeirra sem eru kannski ekki í helsta forgangi fyrir aðgerðir.

Það hlýtur að vera sameiginlegt keppikefli okkar að það séu ekki biðlistar eins og nú eru í íslensku heilbrigðiskerfi. Þetta er algjörlega óviðunandi. Við sjáum ákall þjóðarinnar núna um að auka fjármuni til heilbrigðiskerfisins. Það er nauðsynlegt til þess að við búum ekki við kerfi sem mætir ekki þörf fyrir heilbrigðisþjónustu; fólk á besta aldri, fólk í vinnu, er hætt að komast til vinnu því það getur ekki gengið vegna kalkaðra liða, en bíður og bíður eftir skurðaðgerðum.

Ég vil líka taka fram að Öryrkjabandalagið lýsti yfir áhyggjum af því að þeir sem eru í Öryrkjabandalaginu þurfi oft einhvern með sér á ferðalögum, þurfi aðstoð, og hvatti til þess að heimilt yrði að fá kostnað við heilbrigðisþjónustu fyrir fram greiddan í vissum tilvikum út af fjárhagsaðstöðu, en líka að það væru greiðslur vegna ferðakostnaðar og slíkt. Nefndin treysti sér ekki til að koma með breytingartillögu hvað það varðar, en hefur komið því þannig fyrir að kveðið verði á um þetta í sérstakri reglugerð, því þessi tilskipun er fyrst og fremst til þess ætluð að auka möguleika fólks á að sækja sér þjónustu. Hún á ekki að auka á mismunun. Við teljum að með þeim breytingum sem gerðar hafa verið dragi úr þeirri hættu og að við höfum mætt áhyggjum sem landlæknir viðraði við nefndina.

Ég ætla að láta máli mínu lokið og endurtaka þakkir til framsögumanns fyrir góða vinnu.



[16:25]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka undir það að ánægjulegt samstarf tókst í nefndinni um að vinna þetta mál vel og skoða. Framsögumaður leiddi það til farsælla lykta að mínu mati. Ég stend að þessu nefndaráliti með fyrirvara eins og fram hefur komið og ætla að gera aðeins grein fyrir því í hverju hann er fólginn og fjalla að öðru leyti lítillega efnislega um þetta mál.

Það er nú fyrst til að taka að í grunninn er ég enginn sérstakur aðdáandi þess sem er fólgið í þessari tilskipun og í tilskipunum af tengdum toga sem hafa verið smíðaðar í hinu háa Evrópusambandi, þ.e. þeim hluta þeirra sem snýr að því að færa meira af velferðarþjónustu til og endurskilgreina hana inn á svið hins markaðsvædda samkeppnis- og samrunaréttar í Evrópu. Um þetta voru og hafa verið hörð átök. Ísland og Noregur voru aðilar að þessu á sínum tíma og reyndu að koma ýmsum vörnum við fyrir sína hönd sem EES-ríki, áttu ásamt fleiri ríkjum ákveðinn þátt í því að niðurstaða tilskipunarinnar er tiltekin málamiðlun þrátt fyrir að grunnhugsunin eða nálgunin sé auðvitað þessi, að fara að líta á jafnmiðlæga kjarnavelferðarþjónustu og heilbrigðisþjónustan er sem hluta af þessu markaðsvædda samkeppnisumhverfi á grundvelli fjórfrelsisins innan Evrópu.

Eins og fram kemur í frumvarpinu þá er það meðal annars Evrópudómstóllinn sem hefur knúið þessa þróun áfram. Hann hefur komist að þeirri niðurstöðu og í raun hafnað því að heilbrigðisþjónusta án tillits til þess hvernig hún er skipulögð eða fjármögnuð, jafnvel fullkomlega opinber heilbrigðisþjónusta fjármögnuð af ríki í gegnum sameiginlegt aflafé — það sé samt ekki nægjanlegt til þess að um hana gildi í grunninn önnur lögmál en aðra þjónustu á samkeppnismarkaði; að sérstaða heilbrigðisþjónustunnar dugi ekki til að vera undanþegin grundvallarreglunni um frelsi til að veita þjónustu innan alls Evrópusambandsins og þar með Evrópska efnahagssvæðisins. Menn hafa engu að síður komist að þeirri niðurstöðu og gert tilteknar málamiðlanir í þeim efnum að þó sé ríkjum heimilt á grundvelli almannahagsmuna að koma nokkrum vörnum við.

Nálgunin er dálítið sérstök og á vissan hátt mótsagnakennd. Annars vegar viðurkenna allir skyldu ríkja til að veita þessa þjónustu. Það er sérstaklega tekið fram að þessi tilskipun dregur ekkert úr henni, í greinargerðinni er fjallað um þetta. Tilskipunin hefur ekki áhrif á ábyrgð aðildarríkjanna til að veita borgurum á yfirráðasvæði þeirra örugga, skilvirka og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu í háum gæðaflokki. Skyldurnar eru til staðar áfram, en við eigum að takast á við þær þrátt fyrir það að að einhverju leyti sé markaðnum opnuð leið inn í þessa þjónustu og þess vegna gert kleift að fleyta rjómann ofan af, en ríkin sitja eftir með þá ábyrgð engu að síður að veita fyrsta flokks þjónustu sem kannski verður þar með dýrari og erfiðari vegna þess að menn eru farnir að blanda einkarekstri í ágóðaskyni inn í dæmið. Þetta er tvískinnungurinn eða „dílemman“ sem oft er á ferðinni í þeirri málamiðlunarvegferð manna í að markaðsvæða opinbera þjónustu. Þetta er auðvitað ekki bara bundið við Evrópusambandið, þetta hefur verið víða á ferli á Vesturlöndum með þeim alræmda árangri auðvitað að sums staðar fer kostnaðurinn upp úr öllu valdi. Ríkin sitja eftir með það sem enginn annar vill sinna, oft það dýrasta og erfiðasta, ríkin sitja eftir með algerlega óbreyttar skyldur til að tryggja borgurum sínum þessa þjónustu, en farvegir eru opnaðir fyrir það að veita fjármagn út úr kerfunum til einkaaðila. Þetta er pilsfaldakapítalismi því hér er yfirleitt um að ræða þjónustu sem er greidd af skattfé. Þá finna menn þá leið, til þess að geta farið inn í þessar markaðslausnir engu að síður, að færa greiðslurnar til viðkomandi aðila og hann geti svo farið með það sjálfur og keypt sér þjónustu þar sem honum sýnist með skattfé í raun.

Það er þetta grundvallarskipulag eða þessi grundvallarnálgun sem ég set fyrirvara við og skýrir það af hverju ég stend áfram að afgreiðslu þessa máls með fyrirvara þó að ég sé mjög ánægður með niðurstöðuna í velferðarnefnd. Ég tel að þar hafi verið unnið gott starf. Þar er fyrst til þess að taka að við fengum mjög góðar umsagnir, fyrst frá Landspítalanum og í kjölfarið kom landlæknir og skilaði inn viðbótarumsögn sem féll mjög vel í sömu átt, þar sem dregin er upp mynd af ástandinu eins og það er í íslenska heilbrigðiskerfinu í dag og hverjar gætu orðið afleiðingar þess ef við innleiddum þetta algerlega án nokkurrar stýringar og opnuðum bara alla kanala fyrir það að menn geti farið og keypt sér þessa þjónustu hvar sem þeir vildu hér í nálægum löndum og sent ríkinu reikninginn. Á tímum þegar okkar heilbrigðisþjónusta er enn mjög lestuð af ýmsum ástæðum — auðvitað takmörkuðum fjárveitingum undanfarinna ára enn þann dag í dag, eftir erfiðleika eftirhrunsáranna í efnahagsmálum, eftir talsverðar truflanir vegna vinnudeilna og af ýmsum fleiri ástæðum sem hafa leitt til þess ásamt fleiru að langir biðlistar eru eftir ýmissi þjónustu, ýmsum aðgerðum o.s.frv., það er auðvitað langt út fyrir ramma þess sem er hægt að segja að sé ásættanlegt — þá er staðan hér sérstaklega viðkvæm að þessu leyti og að því verður að hyggja.

Varfærnissjónarmið á grundvelli þessa leiddu nefndina sameiginlega að þeirri niðurstöðu að gera grundvallarbreytingar á frumvarpinu og snúa því í raun við frá því sem það var lagt fram síðastliðið haust og aftur til þess horfs sem það var í þegar það kom fyrst fram enda komu kannski ekki mjög sterk rök fyrir þeirri breytingu sem varð á frumvarpinu milli þinga. Hér er það fært til baka með mjög tryggilegum hætti í það form að við nýtum okkur rétt okkar til þess, á grundvelli ríkra almannahagsmuna, að geta haft nokkra stjórn á því hvort menn fá það samþykkt að fara og láta gera aðgerðir erlendis eða leita sér þjónustu erlendis sem er í boði hér heima innan ásættanlegra tímamarka. Okkur er sem sagt heimilt að takmarka þá reglu að almennt beri okkur að greiða kostnað af svona þjónustu þótt menn sæki hana yfir landamæri, ef við gerum það með vísan til okkar brýnu almannahagsmuna eins og þar er um fjallað sem getur tengst skipulagskröfum og þeim markmiðum að tryggja að í viðkomandi aðildarríki sé fullnægjandi og varanlegur aðgangur að jöfnu framboði meðferðar í háum gæðaflokki og sömuleiðis það markmið að hafa stjórn á kostnaði. Það er eitt af því sem getur verið andlag þess að ríkið beiti stýringu í þessum efnum að þau vilja tryggja sig fyrir því að kostnaður fari ekki úr böndunum og að komast hjá sóun á fjármagni, tækni og mannauði. Hér þarf svo að sjálfsögðu að gæta meðalhófs og það þurfa að vera málefnalegar ástæður og rökstuðningur fyrir niðurstöðu stjórnvalda sem takmarkar að þessu leyti frjálsa vöruflutninga, frjálsa för eða frjálsa þjónustustarfsemi innan svæðisins.

Lítum þá aðeins á það hversu góð og gild málefnaleg rök Ísland hefur í þessu tilviki. Þau eru óvenjusterk. Það er af þeirri ástæðu, frú forseti, sem okkur er væntanlega öllum ljós hér inni, að við erum eyja úti í miðju Atlantshafi. Við erum 330.000 manna samfélag, en við höfum mikinn metnað til þess að veita, skulum við vona, fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu og við höfum byggt hana upp. Og það er dýrt fyrir lítið samfélag að kaupa tækjabúnað, byggja húsnæði, mennta mannskap og ráða hann til starfa á sæmilegum launum, til þess að geta gert þetta. Við skulum hafa það í huga að okkar samfélag, með 330.000 íbúum, er minna en upptökusvæði stærri sjúkrahúsa á hinum Norðurlöndunum. Það þykir ekki óeðlilegt að þar sé svona 500.000 íbúa upptökusvæði á bak við stórt héraðssjúkrahús eða eitt hverfahús í stórborg. Þar af leiðir að sjálfsögðu að ýmis sérhæfðari starfsemi, ýmis sérhæfðari búnaður — nýtingin er í lágmörkum hér jafnvel svo að það getur skapað vandræði að starfsfólk fær tæpast næga þjálfun á þeim sérhæfðu sviðum sem um ræðir þó að það framkvæmi allar slíkar aðgerðir á Íslandi, hvað þá ef einhver hluti þeirra aðgerða fer úr landi sem leiðir til enn minni nýtingar, minni þjálfunar og lakari útkomu að þessu leyti, bæði efnahagslega en líka faglega. Þess vegna ætti staða Íslands til að rökstyðja og réttlæta stýringu í þessum efnum að vera hafin yfir allan vafa, úr því það er á annað borð yfir höfuð heimilt og jafnvel hjá milljónaþjóðum með allt aðrar aðstæður í þessum efnum. Auðvitað er það rétt, sem hér kom fram áðan, að aðstæður manna úti á miðju meginlandi Evrópu, þar sem menn geta hoppað yfir landamæri í hálftímabílferð eða með lest og farið í sjúkrahús í nálægu héraði þó að það tilheyri öðru landi, kannski á sama málsvæði, eru náttúrlega gjörólíkar því sem hér á við.

Undir venjulegum kringumstæðum og við fyrsta flokks aðstæður í okkar heilbrigðiskerfi hefði maður enga ástæðu til að ætla að á þetta mundi reyna í miklum mæli á Íslandi. Maður hefði það í raun og veru ekki, því að það kostar alltént flugfar og er talsvert fyrirtæki að bregða sér út fyrir landsteinana til að sækja sér slíka þjónustu héðan. En aðstæðurnar eru hins vegar í dag mjög brothættar og viðkvæmar og þarf nú víst ekki að bæta í umræðuna um stöðu heilbrigðiskerfisins og allt sem þar er á dagskrá. Þess vegna tel ég það mjög farsæla og góða niðurstöðu að við höfum sameinast um að leggja til við þingið að fara hér þessa varfærnu leið. Auðvitað má ég þá minna á að menn geta svo sem hvenær sem er slakað á því síðar í framkvæmdinni, en það yrði erfiðara að fara til baka ef við hefðum lagt upp með þetta allt galopið án nokkurrar stýringar.

Það er niðurstaða okkar að ganga mjög tryggilega frá því, með breytingartillögunum sem framsögumaður okkar gerði grein fyrir, að á grundvelli þessara málefnalegu, rökstuddu sjónarmiða, með vísan til almannahagsmuna, öryggis og gæða, þá getum við haft takmarkanir á því í hvaða tilvikum er samþykkt að greiða kostnað vegna aðgerða yfir landamæri og með því að bæta inn nýrri málsgrein í 3. gr., þar sem heimildin til þess að synja endurgreiðslu kostnaðar þegar þetta á við, er tekin inn og svo bætt við 3. mgr. sem orðast svo, eins og þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um framkvæmd greinarinnar, m.a. um hvenær sækja skuli um fyrirframsamþykki fyrir endurgreiðslu á grundvelli 1. mgr.“

Ég vek athygli á þessu orðalagi. Það er ekkert skilið eftir opið. Heimildin skal nýtt. Ráðherra skal setja reglugerð um það hvernig þetta verður síðan framkvæmt. Til þess þarf kannski nokkurn aðdraganda þannig að það er alveg ljóst að einhver reglugerðarvinna bíður ráðherrans. Nefndin skoðaði það ekki sérstaklega hvort tímamörkin sem eru í sjálfu frumvarpinu eru fullnægjandi í þeim efnum, en af því að það er nú kominn hér miður febrúar þá leitaði það allt í einu á mig að við hefðum kannski þurft að athuga það við ráðuneytið hvort 1. júní 2016 er lengur nægjanlegur eða raunhæfur aðlögunartími fyrir ráðuneytið til að innleiða breytingarnar. Frumvarpið kom fram með þessari gildistöku og þá var auðvitað hátt í ár í stefnu, en nú eru fáeinir mánuðir þangað til 1. júní 2016 gengur í garð, það stöðvar enginn tímans þunga nið, og hann hefur liðið í vetur eins og alla aðra vetur, þannig að ég er nú að nefna þetta sem eitthvað sem við getum kannski skoðað aðeins milli umræðna. Við erum ekkert endilega að óska eftir málinu inn í nefnd til þess, en ég fer að efast um það, þegar ég hugsa málið, að þetta sé kannski nægur tími fyrir menn til að undirbúa þær reglur sem hér þarf að undirbúa til þess að framkvæmdin geti hafist því auðvitað þarf að vera sæmilega tryggilega um það búið.

Að lokum, frú forseti: Það sem ég bind hvað mestar vonir við í kjölfar þessarar farsælu niðurstöðu velferðarnefndar er að þetta verði okkur — nú vildi ég gjarnan að hv. 4. þm. Reykv. n. hlustaði — hvatning til þess að koma heilbrigðiskerfinu á Íslandi, þar með talið biðlistunum, í það ástand að við þurfum ekki að hafa stórar áhyggjur af hlutum eins og þessum, að það verði einfaldlega þannig að það þurfi enginn að bíða eftir nauðsynlegri þjónustu, nauðsynlegum aðgerðum, nema vel innan þeirra marka sem ásættanlegt er talið út frá heilsufarslegum og faglegum sjónarmiðum. Þannig er ástandið ekki í dag. Það þarf að setja stóraukinn kraft í að vinna upp biðlistana (Gripið fram í.)og vinna upp ástandið sem er tilfinnanlegast í dag sem er fyrir utan biðlistana einfaldlega hversu lestaðar stofnanirnar eru, sérstaklega Landspítalinn, og yfirfullur, á því verður að vinna. Landspítalinn upplýsti okkur meðal annars í umfjöllun um þetta mál að þeir væru í sjálfu sér alveg tilbúnir með plönin og hugmyndirnar um hvernig þeir gætu gert verulegt skurk í því að vinna hraðar niður þessa biðlista en þó er verið að gera núna. Vissulega hafa aðeins verið settir í það fjármunir, en það þarf meira til.

Það sem ósköp einfaldlega þyrfti að gera er að gera Landspítalanum, Sjúkrahúsinu á Akureyri og eftir atvikum fleiri stofnunum — þar gætu komið við sögu Sjúkrahúsið á Akranesi, Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja — kleift að skipta með sér verkum og vinna saman að því að vinna upp þessa hala. Það eru til dæmis skurðstofur á Suðurnesjum sem hægt er að opna með tiltölulega litlum tilfæringum og hægt væri að setja upp teymi sem gerði þar aðgerðir jafnvel um helgar. Það kostar vaktavinnu og laun, en það væri alveg hægt og við höfum mannskapinn til þess, að mati Landspítalans, að gera miklu stærra átak í að vinna okkur út úr þessari stöðu, en það þarf fjármuni og vilja til.

Það ættum við núna að einhenda okkur í að gera til þess að þegar þar að kemur, að þetta nýja fyrirkomulag gengur í gildi og réttur manna stofnast til þess eftir atvikum að sækja um að sækja sér þessa þjónustu yfir landamæri, þá sé ástandið í heilbrigðiskerfinu á Íslandi orðið svo gott að við höfum engar áhyggjur af því að það gerist í ríkum mæli og einhverjir miklir peningar fara að flæða út úr kerfinu í þá átt, því að auðvitað eigum við að vinna upp þessa biðlista hér og nýta okkar fjárfestingu, mannafla og búnað til þess frekar en að fara að borga fyrir það í útlöndum.



[16:43]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Málið sem við ræðum, sjúkratryggingar og lyfjalög og heilbrigðisþjónusta yfir landamæri, er mál sem maður er óhjákvæmilega hlynntur þegar maður rétt rennir yfir það. Síðan flækist málið pínu ef maður skoðar það nánar vegna ábendinga sem hafa komið frá aðilum sem þekkja til þess. Í þeim felst helst að með því að íslenska ríkið greiði fyrir aðgerðir sem eru framkvæmdar erlendis minnki það fé frá íslenska ríkinu sem fari til heilbrigðiskerfisins á Íslandi. Það sé alla vega hætt við því. Á þetta var bent og þótti mér það hið áhugaverðasta vandamál. Þó verð ég að taka undir það með hv. 4. þm. Norðaust., Steingrími J. Sigfússyni, að breytingartillagan sem kemur frá hv. velferðarnefnd er mjög til bóta og ég fæ ekki betur séð en hún komi til móts við þær áhyggjur með fullnægjandi hætti og því er um mjög farsæla lendingu að ræða á þessu áhugaverða máli.

Mér finnst líka alveg þess virði að ígrunda við svona tilefni hlutverk ríkisins og einkaaðila í heilbrigðismálum almenn, eins og hv. þingmaður kom ágætlega inn á. Það er auðvitað þannig, hvort sem fólki líkar betur eða verr, þegar kemur að heilbrigðismálum að þar þarf alltaf að forgangsraða peningum og þar af leiðandi að einhverju leyti að forgangsraða lífum. Það er auðvitað það sem gerir málaflokkinn afskaplega erfiðan og eðlilega umdeildan.

Mér finnst það áhugaverð skilaboð sem við eigum að taka til okkar að þetta sé hluti af fjórfrelsinu í EES og þetta sé hluti af EES, að við þurfum í kjölfarið að velta þessari spurningu fyrir okkur. Mér finnst það reyndar holl spurning. Ég óttast hana ekki vitund, hvað þá umræðu um hana, hins vegar þykir mér algjörlega tilefni til að velta þessu fyrir sér.

Að því sögðu ætla ég ekki að halda langa ræðu heldur langaði mig að drepa aðeins á það að þetta væri hið áhugaverðasta mál og sömuleiðis að ég sé fram á það að óbreyttu að styðja málið með breytingartillögum hv. velferðarnefndar, sem ég tel að hafi tekið á málinu með miklum glæsibrag. Að svo stöddu er ekki mikið meira um þetta mál að segja sem var ekki tíundað af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni svo ég lýk máli mínu.



[16:46]
Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Þetta eru áhugaverðar og þarfar umræður. Ég get tekið undir með þeim ræðumönnum sem hér hafa talað að okkur ber náttúrlega fyrst og síðast að gæta að því að þeir fjármunir sem þurfa að fara í heilbrigðiskerfið fari þangað. Hins vegar munum við sjálfsagt oftar en ekki takast á um það hvenær eitthvað er nægjanlegt og hvenær ekki.

Mig langar aðeins persónulega, virðulegi forseti, að ræða þetta mál af því að ég var framsögumaður í málinu. Ég er mjög sátt við þá tillögu sem okkur tókst að ná sameiginlega í velferðarnefnd en engu að síður langar mig að velta upp nokkrum sjónarmiðum.

Í fyrsta lagi erum við í EES-samstarfi og við erum sömuleiðis með tillögu inni til aðildar að Evrópusambandinu og hvort sem hún hefur verið dregin til baka eður ei, þá vorum við einu sinni á þeirri vegferð. Þess vegna er þetta meðal annars komið inn á okkar borð, vegna samningsins um EES. Það er stundum sagt að þegar við Íslendingar tökum upp EES-tilskipanir séum við kaþólskari en páfinn í því. Það má vel vera að svo sé í ýmsum málum, en ég held samt að oftar en ekki reynum við að skoða þær með tilliti til þess hvað kemur samfélagi okkar best hverju sinni. Kannski erum við í sumum málum kaþólskari en páfinn en öðrum ekki. Þegar ég segi kaþólskari en páfinn þá á ég við þegar við tökum upp reglurnar frá EES nær óbreyttar og aðlögum þær ekki að samfélagi okkar. Ég nefni eitt dæmi sem er gamalt og gott, fráveitumál fyrir árið 2005 þegar öll sveitarfélög áttu að vera búin að aðlaga fráveitumál sín að kröfum sem gerðar voru á stöðum í Evrópu sem eru víðs fjarri landfræðilegri stöðu Íslands. Þá tókum við upp þær EES-tilskipanir hráar og vorum kaþólskari en páfinn og allt hans embættisfólk, enda erum við enn þá að vinna úr fráveitumálum hjá ýmsum sveitarfélögum í þessu ágæta landi. Þannig að það er ýmislegt í þessu. Ég er því mjög glöð að við skulum vinna með öðrum hætti þegar kemur að einstaka EES-tilskipunum og ekki taka þær upp þegjandi og hljóðalaust eins og þær koma frá þessu annars ágæta sambandi.

Í þessu tilviki er fyrst og síðast um rétt sjúklings að ræða. Hver er réttur hans til þess að sækja sér heilbrigðisþjónustu yfir landamæri ef þess gerist þörf?

Við ræðum hér að við séum í vanda með heilbrigðiskerfið og það er hverju orði sannara. En við erum búin að vera það ótrúlega lengi og við höfum kannski ekki alltaf átt færustu sérfræðinga til þess að vinna að ýmsum aðgerðum sem nauðsynlegar hafa verið til þess að fólk fengi bót meina sinna og þurft að senda einstaklinga utan til lækninga. Það hefur verið af hinu góða.

Mig langar að líta á þetta ekki bara sem ógn við kerfið okkar heldur líka sem tækifæri. Þetta þýðir að hingað geta líka komið sjúklingar erlendis frá til þess að fá aðstoð í íslensku heilbrigðiskerfi vegna þess að þrátt fyrir allt er íslenskt heilbrigðiskerfi þokkalega vel statt miðað við mörg önnur heilbrigðiskerfi í heiminum. Það hafa verið gerðir samningar og menn koma hingað í ýmsar aðgerðir vegna þess að ekki er hægt að veita þær í þeirra eigin heimalandi. Þarna eru því líka tækifæri fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu, eins og fram kom í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, til þess að nýta hvort tveggja tækjakost og þjálfun heilbrigðisstarfsfólks okkar í aðgerðum sem sumar hverjar eru mjög sérhæfðar og þarfnast kannski fleiri aðgerða til þess að ná flugi, ef má þannig að orði komast. Ég vildi gjarnan að við horfðum til þess að bæði getur þetta ógnað kerfinu, en getur líka veitt því tækifæri. Okkur hættir stundum til að mínu mati að festast í því að verja kerfið í staðinn fyrir að það geti hugsanlega opnast og hægt sé að nýta fleiri tækifæri en blasa kannski við á hverju og einu augnabliki þegar manni er mikið niðri fyrir.

Við töluðum um biðlista. Það hefur verið rætt um að aðgerðum mætti jafnvel útvista til annarra sjúkrahúsa en Landspítalans þar sem bæði mannafli og tæki eru til. Það er vel. Við skulum heldur ekki gleyma að hér eru sjálfstætt starfandi læknar sem geta líka tekið við og þeir eru innan heilbrigðiskerfisins og þeim er greitt innan heilbrigðiskerfisins. Tökum dæmi: Það geta ekki allar ristilspeglanir farið fram á Landspítalanum. Þær eru framkvæmdar í Mjódd meðal annars og af sjálfstætt starfandi læknum, en hluti sjúkratrygginga er hátt í 92%, sjúklingurinn sjálfur greiðir brotabrot, innan við 10%, ef hann fer til slíks aðila. Sömu sögu er að segja ef maður fer í aðgerð á hné eða beinaðgerð á fótum eins og ýmsar konur fara í til þess að láta lagfæra á sér stór bein sem ganga út úr tám, þá er hægt að fá það gert hjá sjálfstætt starfandi læknum en sjúkratryggingar taka að hluta til þátt í því. Það er því möguleiki innan kerfisins. Okkur er að mínu mati svolítið tamt að líta á Landspítalann sem alfa og omega allrar heilbrigðisþjónustu í landinu, en svo á ekki að vera. Það er fjöldinn allur af fleiri sjúkrahúsum vítt og breitt um landið sem geta tekið við verkefnum og unnið á biðlistum sem bæði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir nefndu.

Ég held að með því að líta þannig á að í þessu felist jafnt ógnir sem tækifæri, styrkleikar og veikleikar, ef við getum orðað það svo, þá sé hægt að horfa til þess sem okkar frábæra heilbrigðisstarfsfólk getur tekið að sér, ef það er ekki eingöngu tímaskortur sem ræður för við biðlista heldur líka að ekki liggi fyrir aukið fjármagn, og þá sé hægt að horfa á þetta sem ákveðin tækifæri. Ég er ekki að tala um, virðulegur forseti, að almennt eigum við að markaðsvæða heilbrigðiskerfið og heilbrigðisstarfsmenn á Íslandi með því að það eigi að fara að selja sig erlendis með einum eða öðrum hætti, en við eigum engu að síður að horfa á þetta sem tækifæri, því hér starfar frábært fólk. Til þess að við getum byggt upp heilbrigt og flott heilbrigðiskerfi í margþættu og flóknu umhverfi tækni og mannauðs, þá vonast ég til þess að okkur takist að líta á þetta sem tækifæri fyrir heilbrigðisstarfsfólk okkar til þess að sinna enn frekar þjálfun í aðgerðum og nýta betur mannauð og tæki.