145. löggjafarþing — 77. fundur
 17. feb. 2016.
störf þingsins.

[15:04]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli þingheims á bleika skattinum svokallaða. Hann er þannig að sama vara, nákvæmlega sama vara, kostar mjög oft mun meira ef hún er ætluð og markaðssett fyrir konur en ef hún er ætluð karlmönnum. Það sem er ætlað konum kostar heilt yfir um 7% meira en oft er munurinn mun meiri. Þetta er það sem framleiðendur og sölumenn setja á, sem er kallaður skattur en eru auðvitað álögur þessara aðila á það sem konur kaupa frekar en karlar.

Þetta er fjöldinn allur af vörum. Þetta eru barnavörur, leikföng og fatnaður fyrir börn; það sem er ætlað fyrir stelpur er dýrara en það sem er ætlað fyrir drengi. Svo eru líka vörur sem eru ætlaðar fyrir okkur fullorðna fólkið. Þá er ég ekki að tala um að konur velji dýrari merki en karlar, ég er bara að tala um nákvæmlega sömu vöruna sem framleiðendur hafa ákveðið að markaðssetja á hærra verði fyrir konur en karla og rukka þá konurnar um meira.

Neytendavitundin er auðvitað mikilvæg. Einhver gæti sagt að neytendur ættu ekki að láta bjóða sér þetta, konur ættu ekki að láta bjóða sér að borga hærra verð. En eins og við vitum þá er oft ekkert val í því. Það er ekki bara hægt að setja ábyrgðina á konur sem neytendur þarna, því að leikreglurnar sjálfar eru bjagaðar og fólki þessi munur kannski ókunnur.

Tvennt þarf að koma til til þess að breyta þessu. Við þurfum að auka neytendavitund, svo þurfum við raunverulegar aðgerðir stjórnvalda. Við þurfum verðlagseftirlit og við þurfum neytendavernd (Forseti hringir.) og við þurfum að koma þessum upplýsingum til neytenda.



[15:06]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Reglulega berast okkur og samfélaginu öllu tíðindi af því, mjög sorgleg tíðindi, að feðrum, yfirleitt feðrum, er meinað að hitta börnin sín; jafnvel árum saman fá þeir ekki tækifæri til að hitta börnin sín. Það stendur alveg skýrt í barnalögum að báðir foreldrar hafa rétt á því að umgangast börnin sín og börnin hafa rétt á því, og það er lykilatriði, að umgangast báða foreldra. Foreldrum ber reyndar skylda til að umgangast börnin sín.

Mig langar að freista þess að setja þessi mál á dagskrá hér í þinginu vegna þess að við höfum mjög oft, blessunarlega, skiljanlega og nauðsynlega, talað um kynbundið ofbeldi. Mér finnst þessar tálmanir, þessar hindranir á rétti barna og feðra til að umgangast hvert annað, ekki vera annað en það, kynbundið ofbeldi. Mér finnst mjög mikilvægt að við förum að ræða þessi mál undir þeim hatti. Blessunarlega höfum við ákveðið að grípa til alls konar aðgerða gegn ýmiss konar kynbundnu ofbeldi og reyna að útrýma því. Mér finnst mikilvægt að við setjum þessa tegund af ofbeldi, þar sem feðrum er meinað að hitta börnin sín, undir nákvæmlega þann sama hatt. Þetta er ekkert annað en það. Þetta er ofbeldi sem beinist aðallega gegn feðrum og eins og svo oft er með kynbundið ofbeldi þá bitnar þetta ofbeldi á börnunum. Það vill svo til að þetta er algjörlega skýrt í barnalögum.

Samfélagið á að hætta að tipla á tánum í kringum þessi dæmi. Það er oft sagt að þetta séu flókin dæmi, það sé erfitt að fara inn í þau o.s.frv. Vissulega eru þau oft flókin, en hins vegar verður að horfast (Forseti hringir.) í augu við það grundvallaratriði að þetta er ofbeldi, (Forseti hringir.) þetta er brot á réttindum barna og yfirleitt feðra og við verðum að taka á þessu sem slíku.



[15:09]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin hefur forklúðrað málefnum ferðamanna en það er ekki að spyrja að verkgleði hennar þegar kemur að lögum um rammaáætlun. Nú kemur í ljós að ríkisstjórnin hefur í miðjum leik ákveðið að breyta starfsreglum verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

Hún hóf í upphafi þessa kjörtímabils að vinna að flokkun sérstakra virkjunarkosta sem nutu sérstakrar aðdáunar ríkisstjórnarinnar. Síðan byrjaði hún í mars á síðasta ári að flokka 28 virkjunarkosti og er væntanlega komin vel á veg með þá vinnu sína. En þá ber svo við að ríkisstjórnin vill, að beiðni Landsvirkjunar, breyta reglunum á þann veg að hægt sé að sækja um lítið breytta virkjunarkosti sem búið er að afgreiða í verndarflokk rammaáætlunar.

Þetta er svo greinilega ekki í anda laganna um rammaáætlun og er siðlaust með öllu og við það verður ekki unað. Þetta er í senn ólöglegt og siðlaust. Það verður að segjast eins og er að ríkisstjórninni er ekki treystandi fyrir málaflokki náttúruverndar. Það á ekki að vera hlutverk virkjunarfyrirtækja að ákveða eftir hvaða leikreglum virkjunarkostir eru vegnir og metnir. Það er hlutverk þjóðarinnar og fulltrúa hennar að ákveða það. Það er gert með reglum sem settar eru hér á Alþingi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:10]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Í gær bárust okkur þau gleðitíðindi að sýrlensku fjölskyldunni sem dvalist hefur hér á landi síðan á síðasta ári var veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Við fengum að sjá í fréttum gærdagsins gleðina og léttinn sem fjölskyldan upplifði þegar henni var tilkynnt þessi niðurstaða, en eins og flestum er kunnugt stóð til að vísa þeim úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Það voru samt ekki allar fréttir gærdagsins hvað varðar hælisleitendur jafn gleðilega. Hér á ég við þær fréttir að til stendur að vísa úr landi Nígeríumanninum Martin Omolu sem dvalið hefur hér í fjögur ár, sem er sá tími sem hann hefur mátt þola að bíða eftir niðurstöðu í máli sínu. Hann er ekki einn um að vera í þessari hörmulegu stöðu þar sem tveimur öðrum hælisleitendum, þeim Eze Okafor, sem einnig er Nígeríumaður og hefur dvalið hér í fjögur ár, og Christian Boadi, sem er Ganamaður og hefur verið hér í þrjú ár, hefur verið synjað um dvalarleyfi. Standa þeir frammi fyrir brottvísun vegna Dyflinnarreglugerðarinnar þrátt fyrir að hafa bráðabirgðadvalarleyfi fram í júní. Enginn fyrirvari var gefinn, bara eitt símtal og þeim er hent úr landi. Það þarf að vera traust gagnvart stofnunum og framkvæmd í þessum málaflokki. Nú er ekkert traust til staðar. Lög og reglur og framkvæmd sem byggjast á mannúð og ábyrgð eru það sem þessi mál eiga að snúast um.

Margir spyrja sig hvort ákvarðanir stjórnvalda um að veita leyfi eða ekki ráðist fyrst og fremst af því hversu mikil viðbrögð mál fái í fjölmiðlum og frá almenningi. Framkvæmdin virðist tilviljanakennd og háð geðþótta. Þeir sem eru svo heppnir að um mál þeirra er fjallað í fjölmiðlum og á Facebook-síðum eiga miklu meiri möguleika en aðrir og ekki spillir að vera fyrir með fjölskyldumyndir í fjölmiðlum. Stjórnvöld verða að hysja upp um sig og breyta aðferðafræði í þessum málum og leggja fram frumvarp um ný útlendingalög strax þar sem stendur til að bæta úr þessu. Við eigum að byggja það á mannúð og víðsýni gagnvart öllum en ekki bara sumum og sýna þjóðinni það í verki. Og hættum, herra forseti, að taka svona hræðilegar ákvarðanir eins og teknar voru í gær. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:12]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Nú hafa tæplega 78 þúsund manns krafist með undirskrift sinni aukins fjármagns til heilbrigðiskerfisins. Stjórnvöld hljóta að bregðast við því kalli. En hvert á að beina fjármagninu? Hvaða þætti heilbrigðiskerfisins eigum við að styrkja? Hvernig vilja þeir sem skrifa undir í nafni endurreisnar sjá endurreist heilbrigðiskerfi?

Ég er ekki hrifin af því í hvaða átt heilbrigðiskerfið hefur þróast á sumum sviðum. Á undanförnum árum hefur oft komið fram í könnunum að við Íslendingar viljum að heilbrigðiskerfi okkar sé rekið fyrir opinbert fé og að mestu í opinberum stofnunum. Landlæknir hefur bent á að meiri hluti lækna sem starfa á Landspítalanum starfi einnig á einkastofum úti í bæ og að það samkrull sé orðið það mikið að það skaði Landspítalann.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir skrifaði á dögunum ágætan pistil í Stundina og bendir þar á að markmið um að heilsugæslan verði fyrsti viðkomustaður sjúklinga og að Landspítalinn verði háskólasjúkrahús, miðstöð sérhæfðrar læknisþjónustu, séu brýnir almannahagsmunir. Þróun sérgreinalæknaþjónustu utan sjúkrahúsa hafi hins vegar grafið undan þessum markmiðum. Einkarekin heilbrigðisþjónusta hefur aukist á kostnað opinberrar þjónustu. Einkarekin sérgreinalæknaþjónusta utan sjúkrahúsa hefur haft betur þegar kemur að opinberu fjármagni. Samningar við sérgreinalækna gera ráð fyrir magnaukningu og fjölgun aldraðra er tekin þar til greina á meðan Landspítalinn fær ekki fjármagn til að mæta fjölgun sjúklinga. Og nú leita heimilislæknar út með stuðningi stjórnvalda.

Ég vil því spyrja aftur, herra forseti: Hvert ætlum við að beina fjármagninu og hvernig viljum við og fólkið í landinu sjá heilbrigðiskerfið þróast?



[15:14]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka heils hugar undir það sem hæstv. þm. Guðmundur Steingrímsson sagði áðan um kynbundið ofbeldi gagnvart feðrum sem ekki fá að hitta börnin sín. Ég tek heils hugar undir það.

Ég ætla að ræða ræðu hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur frá því í gær þar sem hún ræddi í störfum þingsins og í sjónvarpsviðtali um hættulega ferðamannastaði. Ég vil koma fram leiðréttingu varðandi það. Ég vil ekki gera lítið úr þeirri hættu sem ferðamönnum stafar af náttúrunni. Það er ekki nóg að við höldum vöku okkar í þeim málum, heldur verðum við að láta verkin tala og ég vil klárlega stefna þangað í samstarfi við ferðaþjónustuna og sveitarfélög í landinu.

Mig langar að vitna í ræðu hæstv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur. Þar segir hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Ég vil taka upp þráðinn í dag um öryggismál ferðamanna á Íslandi. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem ég geri það að umtalsefni hér. […] Hættan í Reynisfjöru hefur lengi verið öllum ljós. Þar hafa sex manneskjur dáið á fáum árum.“

Sem betur hefur þingmaðurinn ekki haft réttar upplýsingar um málið, en tveir ferðamenn hafa látið lífið í Reynisfjöru á umliðnum árum. Það er að sjálfsögðu tveimur of mikið. Fyrir níu árum lést kona í fjörunni þegar hún fór of nærri sjónum og fyrir tveimur vikum dó erlendur ferðamaður þrátt fyrir góðar aðstæður og er það slys til rannsóknar. Frá árinu 1942 hefur enginn látist í Reynisfjöru fyrir utan þessi tvö hörmulegu slys á síðustu árum.

Ég bendi líka á að rétt vestan við Reynisfjöru er lífhöfn íbúa og ferðaþjónustunnar í Vestmannaeyjum, Landeyjahöfn. Sú höfn er lokuð mánuðum saman á hverju ári og ekkert er gert til að leita að rót vandans. Á meðan sitja ferðaþjónustuaðilar í Vestmannaeyjum með tóm hótel, rútur og veitingastaði.

Virðulegi forseti. Það er stóralvarlegt mál að Eyjamenn geti ekki setið við sama borð og aðrir landsmenn þegar kemur að því að flytja ferðamenn til Eyja með stystri mögulegu siglingu frá Landeyjahöfn sem verður umsvifalaust að endurmeta og bæta svo nýtt skip sem ákall er um geti nýtt sér nýja höfn allt árið.



[15:17]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra á mánudaginn rakti ég það ófremdarástand sem er að skapast í málefnum ferðaþjónustunnar og er ekki hægt að orða það með neinum öðrum hætti.

Það er grafalvarlegt mál þegar við sjáum það mikla álag sem nú er að verða á innviði samfélagsins án þess að gjaldtaka komi í staðinn til að standa undir nauðsynlegum úrbótum á innviðum vegna fjölgunar ferðamanna.

Nú í janúar var fjöldi ferðamanna jafn mikill og í júnímánuði árið 2012. Við sjáum fréttir af alvarlegum slysum á fólki og fólki í lífshættu á fjölförnum ferðamannastöðum. Og álagið á löggæslu, á heilbrigðisþjónustu og á vegakerfið er með þeim hætti að ástandið er orðið grafalvarlegt.

Ef við ætlum að taka á móti 1,5 millj. ferðamanna á ári má líkja því við að hér sé að jafnaði í landinu um 70.000 manns til viðbótar við þá 330.000 sem hér búa. Það segir sig sjálft að 330 þúsund manna þjóð getur ekki búið til innviði fyrir 400 þúsund manna þjóð af eigin skattfé nema færa alvarlegar fórnir. Við þurfum þá að sætta okkur sjálf við lélegri heilbrigðisþjónustu og lélegra vegakerfi en við byggjum ella við.

Það þarf að finna leiðir til þess að þessir 70.000 manns sem eru hér á hverjum tíma leggi af mörkum í innviðafjárfestingu eins og eðlilegt er. Sagt er að ferðaþjónustan búi til svo mörg störf og að það séu svo miklar tekjur af henni. Allt er það rétt og þetta er mikilvæg og góð atvinnugrein. En allar aðrar atvinnugreinar skila hagnaði í þjóðarbúið. Einu skatttekjurnar af greininni í dag umfram tekjuskatt af fyrirtækjunum sem í henni starfa er virðisaukaskattur í neðra þrepi. Ef það væri fullnægjandi væri nóg fyrir okkur hin að greiða bara virðisaukaskatt í neðra þrepi og engan tekjuskatt.

En það þarf meira til og það er grundvallarvandamál (Forseti hringir.) sem við stöndum frammi fyrir núna sem stendur upp á greinina sjálfa að spila út frumkvæði um með hvaða hætti hægt er að auka gjaldtöku af ferðamönnum (Forseti hringir.) þannig að þetta leiði ekki til alvöru velferðartaps fyrir Íslendinga alla.



[15:19]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ræddi hér í störfunum þingsins í gær um húsnæðismál og vitnaði þar meðal annars í ágætisúttekt og greiningu frá Samtökum iðnaðarins sem telja mikla uppsafnaða þörf fyrir minni og ódýrari íbúðir til að sinna leigumarkaði og/eða til handa ungu fólki sem hyggur á fyrstu kaup. Hv. þm. Helgi Hjörvar greip þessi skilaboð á lofti og setti fram kenningu um að það væri mögulega lausnin á vanda sem væri of hátt vaxtastig, þ.e. að byggja þá bara minna, það væri svarið. Mér fannst athugasemdin býsna athyglisverð í samhengi við lánafyrirkomulag sem neytendur búa við á húsnæðismarkaði. Það má nefnilega snúa þessu við og spyrja hvort hið verðtryggða lánafyrirkomulag þar sem verðtryggingunni er bætt við höfuðstólinn og dreift á langan lánstíma, eða 40 ár, deyfi ekki kostnaðarvitund lántaka og hafi leitt til þess að fólk kaupi í raun og veru stærra og dýrara en forsendur eru til.

Svo má líka velta því fyrir sér hvort hugsunarháttur nýrrar kynslóðar sé ekki breyttur þegar kemur að húsnæði, fermetrum og þeim kostnaði sem það vill í raun setja í aukafermetra.

Um eitt erum við hv. þingmaður þó sammála; lánafyrirkomulaginu viljum við breyta og kalla verðtrygginguna sínu rétta nafni, nefnilega breytilega vexti þar sem lánveitandinn metur raunvextina og þann raunkostnað sem hann býður lántakanum. Í slíku lánaumhverfi er líklegra að lögmál framboðs og eftirspurnar á þessum markaði virki betur, að kostnaðarvitund fólks verði meiri þar sem kostnaður og gagnsæi kostnaðar liggur fyrir. Fólk tengir þá frekar kostnaðinn við hvern fermetra sem það fjárfestir í og fer varlegar í sakirnar í fyrstu fjárfestingu. Það sem skiptir öllu máli hér er að (Forseti hringir.) við náum sameiginlegum markmiðum, þ.e. að ná vaxtastigi niður.



[15:21]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil gera að umtalsefni þá nýbreytni hjá hæstv. innanríkisráðherra að leggja fram, að því er virðist til kynningar, þá hugmynd að færa hringveginn, þjóðveg 1, á Austfjörðum, og þá þannig að hann liggi lengri leiðina með fjörðunum en ekki úr Breiðdal upp á Hérað. Það er vel þekkt kunnugum að þarna er um ákaflega viðkvæmt mál að ræða innan fjórðungs. Um þetta hefur ekkert samráð verið haft við þingmenn kjördæmisins svo ég viti til og stendur kannski ekki til. Það sem gerir þetta enn þá viðkvæmara er að það er engin samgönguáætlun í gildi þannig að eðlilega fara menn að velta fyrir sér: Skyldi nú verða af þessu? Eru í því fólgin skilaboð um einhverja breytta forgangsröðun fjármuna, sem reyndar engir eru að heitið geti, til framkvæmda í vegamálum?

Ég hefði nú talið allt í lagi að bíða með það að hræra í þessu þangað til að minnsta kosti búið væri að ljúka vegi um Berufjarðarbotn og þangað til búið væri að sýna á spilin með samgönguáætlun, bæði til fjögurra ára og langtímaáætlun. Að því máli, herra forseti, er það auðvitað orðið alveg yfirgengilegt að við skulum þurfa að búa við það ástand að það er engin samþykkt samgönguáætlun í gildi og í raun komið tveggja ára gat í þeim efnum.

Samkvæmt lögum nr. 33/2008, um samgönguáætlun, hvílir skýr lagaskylda á þeim sem fer með samgöngumál hverju sinni að leggja slíka áætlun fram. Það er ekki hægt að orða það öðruvísi en það er og á mannamáli að ríkisstjórnin virðir ekki lög í landinu með því að gera ekki einu sinni tilraun til þess allt þetta þing að leggja nýja samgönguáætlun fyrir þingið. Það forsmánun og gengisfelling þessa málaflokks, fyrir nú utan hversu hörmulega litlum fjármunum er varið í þetta, samanber til dæmis það sem hagfræðingur Samtaka iðnaðarins talar um í dag, að innviðirnir rýrna núna hægt (Forseti hringir.) og bítandi. Það vantar 1% af vergri landsframleiðslu til þess að við höldum í horfinu í vegamálum, 22–24 milljarða á ári, bara til þess að við höldum í horfinu. Þvílíkt metnaðarleysi þessarar guðsvoluðu ríkisstjórnar í þessum málum.



[15:24]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Í Viðskiptablaðinu í dag (Gripið fram í.) er frétt um það að eign erlendra aðila í ríkisskuldabréfum jókst um 5 milljarða kr. í janúar. Þar kemur fram að erlendir aðilar áttu 24% ríkisskuldabréfa í lok janúar. Eign þeirra í ríkisskuldabréfum nam 208,5 milljörðum um síðustu mánaðamót og hafði þá aukist um 46 milljarða á einu ári.

Þessi þróun minnir ískyggilega á það sem gerðist hér í aðdraganda hrunsins 2008. Af hverju gerist þetta? Jú, þetta er vegna þess að Seðlabanki Íslands býður þessum aðilum til vaxtamunarveislu á fáheyrðum kjörum. Nú, þegar við blasir að það þarf að losa 200 milljarða í krónueignum í næsta mánuði á uppboði, verður maður að viðurkenna að maður skilur ekki alveg hvað mönnum gengur til; nú þegar kominn er upp skafl sem er um það bil þriðjungur af þeim sömu upphæðum og menn eru að reyna að losa, og er þáttur í að losa hér höft.

Það virðist sem vaxtastefna Seðlabankans sé orðin að sjálfstæðu efnahagslegu vandamáli. Hún er ekki bara vandamál fyrir fólk og fyrirtæki sem pínast hér í ofurvöxtum, heldur er hún, að þessu virtu, líka þáttur í því að grafa undan efnahagslegum stöðugleika. Það hlýtur að vera kominn tími til, fyrir menn í Seðlabanka Íslands, að virða fyrir sér afleiðingar þess sem þeir hafa verið að gera nú, þá fáheyrðu vaxtahækkun sem hér varð síðasta vor í kjölfar kjarasamninga, í hreinni panik og algerum óþarfa, og hefur orðið til þess að 50–60 milljarðar (Forseti hringir.) hafa komið inn í íslenskt efnahagslíf frá erlendum aðilum sem keypt hafa ríkisskuldabréf. Þeir munu hvorki spyrja um stund né stað þegar þeir rífa þá peninga út aftur og geta kippt fótunum undan krónunni.



[15:26]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Vestfirðir hafa lengi verið aftarlega á merinni varðandi afhendingaröryggi á rafmagni og hafa menn barist fyrir að fá hringtengingu rafmagns og ljósleiðara. Í dag eru framleidd um 10 megavött í Mjólkárvirkjun á Vestfjörðum og síðan verða menn að treysta á það að byggðalínan haldi. Oftar en ekki þarf að keyra dísilrafstöðvar þegar rafmagnið fer.

Lengi hefur verið í bígerð að skoða möguleika á að virkja Hvalá í Ófeigsfirði á Ströndum (Gripið fram í: Now you´re talking.) Nú er það verkefni í fullri vinnu og skoðun. Það verkefni er nota bene í nýtingarflokki, en önnur verkefni hefur núverandi ríkisstjórn verið að reyna að draga út úr verndarflokknum og verið að krukka í. Þessi virkjunarkostur er sem sagt í nýtingarflokki og mundi framleiða um 55 megavött og hafa gífurleg áhrif, bæði varðandi möguleika á hringtengingu rafmagns og til að hverfa frá notkun dísilstöðva og eins til að byggja upp iðnað sem nota mundi meiri orku en er í boði í dag. Þá er ég ekki að tala um stóriðju heldur smærri verkefni sem henta inn í það samfélag sem Vestfirðir eru þar sem þar er auðvitað ekki mikið landrými. Vestfirðingar vilja skilgreina sig sem stóriðjulaust svæði. Menn eru að skoða möguleika á hvar tengivirki ætti að vera og stendur þar upp á stjórnvöld að styðja þá vinnu, að fá niðurstöðu í því efni, því að það hefur staðið í mönnum (Gripið fram í.) hve mikill kostnaður yrði við að tengja orkuna sem framleidd yrði í Hvalá við núverandi kerfi. Nú er það í höndum stjórnvalda að hraða því verki.



[15:29]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Að þessu sinni ætla ég að gera að umtalsefni það sem birst hefur í nokkrum fjölmiðlum um kostnað krabbameinssjúkra sjúklinga hér á Íslandi til samanburðar við það sem gerist í nágrannalöndum okkar sem við viljum oft bera okkur saman við. Í tímariti Krafts, stuðningsfélags ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein, birtist grein eftir Jón Eggert Víðisson, stjórnarmann í úthlutunarnefnd samtakanna. Þar segir meðal annars að greiðsluþátttaka krabbameinsveikra hafi tvöfaldast frá árinu 1983. Það sé mikill munur á því í löndunum í kringum okkur. Jafnframt birtist viðtal í fjölmiðlum við Ragnheiði Guðmundsdóttur sem nýlega hefur greinst með krabbamein á lokastigi þar sem hún segir að það taki mjög á andlegu hliðina að hafa fjárhagsáhyggjur á sama tíma og barist er við lífshættulegan sjúkdóm.

Í tímariti Krafts er svo tekið dæmi af nokkrum Íslendingum sem voru svo heppnir að búa í útlöndum þegar þennan illvíga sjúkdóm bar að garði. Þar er gerður samanburður á því hvað þeir hefðu þurft að borga hér á Íslandi og hvað þeir borguðu í útlöndum. Þeir segja að í nágrannalöndunum hafi þeir nánast aldrei þurft að taka upp veskið. Jón Eggert lýsir því sem hann lenti í þegar hann bjó í Frakklandi þar sem hann þurfti aldrei að taka upp veskið og félagsráðgjafi sá um öll hans mál sem sneru að veikindum hans á meðan á þeim stóð. Síðan nefnir hann líka það sem við vitum, að krabbameinsmeðferð hefur í för með sér skerta starfsgetu í flestum tilfellum, að ekki sé talað um mjög háan lyfjakostnað.

Það sama kemur fram í reynslusögu Ragnheiðar Guðmundsdóttur sem birtist á bleikt.is. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Ragnheiðar bíður ærið verkefni næstu mánuðina, en auk álagsins sem fylgir því að takast á við þetta nýja hlutverk í lífinu fær hún kvíðaköst út af fjárhagsáhyggjum. Að hennar sögn er mjög kostnaðarsamt að veikjast alvarlega á Íslandi.“

Í lok greinarinnar (Forseti hringir.) kemur fram að nokkrir aðilar hafa opnað styrktarsjóð til þess að styrkja viðkomandi einstakling í þeirri baráttu sem fram undan er.

Virðulegi forseti. Viljum við Íslendingar hafa svona heilbrigðiskerfi á (Forseti hringir.) Íslandi? Er fólk ekki að kalla eftir (Forseti hringir.) breytingum á þessu með undirskriftasöfnuninni sem nú telur brátt 80.000 nöfn. Ég segi jú við því, virðulegi forseti.



[15:31]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið áhugaverð umræða um bleika skattinn sem hefur fengið mig til að hugsa enn og aftur um mátt neytenda, sérstaklega kvenna, í hagkerfinu. Ég hef verið að rifja upp bók sem ég las fyrir margt löngu um áhrif kvenna sem neytenda þar sem meðal annars var tekið dæmi um að konur hafa alveg ótrúlega mikil áhrif á það hvaða bíll er keyptur á heimilið. Karlarnir halda raunverulega að þeir séu að velja bílinn en það er vegna þess að konurnar láta karlana halda að þeir hafi tekið ákvörðunina.

Ég er ekki að segja að það séu ekki einhverjir karlar þarna úti, og hugsanlega líka hér inni miðað við skelfingarsvipinn á nokkrum hv. þingmönnum, sem raunverulega ráða því hvaða bíll er keyptur en mér finnst þetta skemmtilegt dæmi og heillandi að hugsa til þess hvað konur geta raunverulega gert sem neytendur, hvernig þær gætu raunverulega breytt heiminum.

Máttur neytenda í heild getur verið mjög mikill og við erum ekkert endilega að nýta hann vel á Íslandi. Kannski einstaka sinnum þegar Mjólkursamsalan gengur fram af okkur kaupum við Arla-vörur um hríð.

En ég hef verið að hugsa þetta í tengslum við sölu Arion banka á hlut í Símanum þar sem einhverjum vildarvinum var í rauninni seldur hann á lægra verði. Það sem gerir þetta mál sérlega grágruggugt í mínum huga er ekki síst að einhverjir yfirmenn blönduðust inn í þessi mjög svo vafasömu hlutabréfakaup. Af hverju ættu yfirmennirnir ekki að kaupa í opnu útboði eins og allir aðrir?

Það er líka áhugavert að það eru allt karlar sem eru þarna að skipta á milli sín einhverjum kökum.

Í gær hitti ég konu sem var svo misboðið út af þessu máli að hún hafði fyrir því að skipta um símafyrirtæki. Hún sagði að það væri mikið vesen en ef maður vildi raunverulega sýna viljann í verki yrði maður að gera svona.

Annars breytist ekki neitt og ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, þar sem ég stend hér: Hvað í fjáranum er ég enn þá að gera í viðskiptum við Símann?



[15:34]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í gær ræddi ég hér meðal annars um Borgunarmálið og Landsbankamálið. Ég sé að fjármálaráðherra er svolítið argur á fésbókarsíðu sinni í dag, m.a. væntanlega vegna ummæla sem hv. stjórnarandstöðuþingmenn hafa látið falla um þau mál og ýmis önnur. Tilraun til að kæfa málið tel ég vera í formi þess að Landsbankinn skilaði skýrslu til Bankasýslunnar upp á 120 blaðsíður sem barst okkur fjárlaganefndarmönnum seint í gær. Ég velti fyrir mér hver eigi að leggja það á sig að lesa hana en líklegast verður maður að gera það til að komast til botns í þessu leiðindamáli.

Það sem ég ætlaði að gera að umtalsefni hér í dag er holan vestur á Melum, holan þar sem við ætlum að reisa Hús íslenskra fræða. Guðrún Nordal hefur verið ötul við að halda því á lofti að við förum vel með þjóðararfinn okkar, höfum hann til sýnis og aðgengilegan bæði okkur Íslendingum og auðvitað ferðamönnum þar sem hún telur í ljósi aukins ferðamannastraums að til dæmis væri hægt að taka töluverða fjármuni þar inn og beina fólki í það sem tilheyrir grunninum okkar.

Á sama tíma vekur athygli að hæstv. forsætisráðherra skuli hafa meiri áhuga á að eyða væntanlega milljörðum, a.m.k. eru farnar einar 500 milljónir, í einhvern grjótgarð rétt hjá okkur en að leggja áherslu á að koma þessu mikilvæga verkefni af stað. Við getum gert það með ýmsum hætti, eins og við vinstri græn erum óþreytandi við að minna á. Tekjuöflunarmöguleikarnir eru gríðarlegir, m.a. í auðlindum okkar. Forgangsröðunin virðist vera ljós hjá hæstv. ráðherra. Hann er að vernda hér gamalt í staðinn fyrir að byggja upp nýtt, hvort sem það er Hús íslenskra fræða, Landspítali (Forseti hringir.) eða hvað annað það er. Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að það eru forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar.



[15:36]
Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Háskóli Íslands hefur kynnt ákvörðun um að færa íþróttakennaranám frá Laugarvatni til Reykjavíkur. Tvær skýrslur hafa verið unnar og þær draga upp of dökka mynd af stöðu háskólanáms á Laugarvatni. Helstu ástæður sem háskólinn færir fram eru fækkun nemenda og að dýrt sé að halda úti námi á Laugarvatni.

Augljóst er að ef meta á kostnað við að halda úti námi í hinum dreifðu byggðum og bera saman við kostnað á höfuðborgarsvæðinu mun allt nám færast á suðvesturhorn landsins. Þess vegna er óhjákvæmilegt að velta upp hlutverki Háskóla Íslands og hvort hann sé í raun fær um að halda starfseminni á landsbyggðinni. Þingmenn Suðurkjördæmis eru einhuga um að leita leiða til að halda náminu áfram á Laugarvatni. Horfa skal sérstaklega til fjárveitinga á undanförnum árum til náms sem kennt er utan höfuðborgarsvæðisins.

Þá er fækkun íþróttakennara í grunnnámi sambærileg við fækkun nemenda í grunnnámi í kennaradeild. Ljóst er að meginástæðan fyrir fækkuninni er breyting á lengd námsins úr þremur árum í fimm en ekki staðsetningin. Því er eðlilegt að ráðast í aðgerðir til að breyta og bæta fyrirkomulag námsins eins og gert var við leikskólakennaranám þegar aðsókn var sem slökust. Stjórnendur námsins hafa ekki fengið það tækifæri til að rétta úr kútnum og mæta nemendaþróuninni og ef þessi ákvörðun háskólans nær fram að ganga mun það hafa gríðarlegar afleiðingar fyrir samfélagið á Laugarvatni, Bláskógabyggð og menntaskólann. Þá er hún ekki einskorðuð við íþróttakennaranám heldur gefur tóninn fyrir það sem á eftir mun fylgja því að ef einangruð hagræðingarsjónarmið einstakra stofnana án tillits til heildarhagsmuna verða allsráðandi er ljóst að skammt mun verða í að allar menntastofnanir á landsbyggðinni leggist meira og minna af (Forseti hringir.) sem og önnur starfsemi ríkisins utan höfuðborgarsvæðisins. Það er því augljóst að þessi ákvörðun getur ekki eingöngu verið innri ákvörðun háskólans.