145. löggjafarþing — 77. fundur
 17. feb. 2016.
samstarf Íslands og Grænlands, fyrri umræða.
þáltill. ÖS o.fl., 23. mál. — Þskj. 23.

[16:30]
Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar sem miðar að því að efla samstarf Íslands og Grænlands. Ég flyt þessa þingsályktunartillögu með átta manna harðsnúnum hópi einvalaliðs hv. þingmanna, þeirra Unnar Brár Konráðsdóttur, Katrínar Jakobsdóttur, Óttars Proppés, Birgittu Jónsdóttur, Helga Hjörvars, Valgerðar Bjarnadóttur, Kristjáns L. Möllers og Páls Vals Björnssonar.

Markmið með þingsályktunartillögunni er fyrst og fremst að styrkja tengsl Íslands og okkar góða granna í vestri, Grænlands, bæði til ábata fyrir þá og líka fyrir okkur. Sömuleiðis til þess að stofna til gagnvirkrar miðlunar á upplýsingum og reynslu tveggja þjóða sem hafa um langt skeið alið aldur sinn upp undir heimskautinu.

Það vill svo til að önnur þessara þjóða hefur á sögulegum mælikvarða fyrir tiltölulega skömmu síðan orðið sér úti um sjálfstæði. Það er ekki svo langt síðan að Íslendingar öðluðust sjálfstæði. Hin þjóðin, Grænland, er á góðri leið með að feta sig til aukinnar sjálfstjórnar og að lokum til sjálfstæðis.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að við Íslendingar getum af reynslu okkar úr sjálfstæðisbaráttunni með auknu samstarfi á mörgum sviðum við Grænlendinga miðlað þeim af mikilvægri reynslu. Við höfum séð að Grænlendingar hafa tekið mjög afgerandi skref til sjálfstjórnar og skýrasta dæmið um það er auðvitað þjóðaratkvæðagreiðslan 2009 um sjálfstjórnarlögin sem 3/4 atkvæðisbærra manna í Grænlandi samþykktu.

Það má segja að þessi tillaga sé altæk. Hún tekur til aukinnar samvinnu við Grænlendinga svo að segja á öllum sviðum.

Megináhersla þingsályktunartillögunnar er þá kannski á fernt; á umhverfisvernd, á menningu og menntun og viðskipti og þjónustu. Það er sömuleiðis drepið á aðra hluti eins og samstarf á sviði fiskveiða og einnig á sviði samgangna og heilbrigðisþjónustu.

Í þessari tillögu er lagt til að Alþingi lýsi stuðningi við þau sögulegu skref sem okkar góða vina- og nágrannaþjóð hefur á síðustu áratugum tekið til aukinnar sjálfstjórnar og það er lagt til í 15 tölusettum liðum að tekið sé upp nánara samstarf við Grænland.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að drepa á í hraðri ferð þær tillögur sem hér er lýst:

Í fyrsta lagi er lagt til að unnið verði að því að gera samkomulag sem tryggi fullt tollfrelsi varðandi sölu á bæði varningi og þjónustu og jafnframt að rutt verði úr vegi öðrum hindrunum fyrir greiðum viðskiptum.

Í öðru lagi að örva tengsl á millum yngstu kynslóðanna, t.d. með sameiginlegum verkefnum á sviði leikskóla-, framhaldsskóla og reyndar líka allt upp á háskólastigið. Það er lagt til að Grænlandssjóður sem hefur lengi stutt samvinnu milli borgara og félagasamtaka í löndunum tveimur verði efldur til þess að greiða því förina.

Í þriðja lagi að auka samstarf háskóla landanna, t.d. með því að tryggja að háskólanemar geti fengið námskeið metin á milli háskóla beggja landa til lokaprófs og sömuleiðis að settur verði á stofn svolítill sjóður til þess að veita örvunarstyrki til sameiginlegra rannsóknarverkefna ungra fræðimanna þessara landa á sviði norðurslóða og jafnframt verði það hlutverk þessa sjóðs að gera kennurum við háskóla beggja landanna kleift að stunda kennslu um stundarsakir í hinu landinu.

Það er rétt að geta þess að frá því að tillagan var samin og fyrst flutt er kominn vísir að slíku samstarfi þar sem reyndar er farin sú leið, sem einnig er lögð til í útfærðri umfjöllun um þetta tiltekna atriði þingsályktunartillögunnar í greinargerð, að gera það í samvinnu við Færeyjar. Það er mjög jákvæð þróun.

Í fjórða lagi að koma á öflugu rannsóknasamstarfi milli umhverfisstofnunar Grænlands og íslenskra stofnana á sviði jökla, hafs, veðurfars, fiskstofna, umhverfis og raunar annarra fræðasviða sem segja má að tengist norðurslóðum.

Í fimmta lagi að bjóða til samstarfs á sviði sjávarútvegs í því augnamiði að auka afrakstur af sjávarauðlindum landanna.

Þá er rétt að geta þess að með greinargerð með tillögunni er bent á alveg stórmerka úttekt Íslenska sjávarklasans undir forustu Þórs Sigfússonar á grænlenskum sjávarútvegi. Þar kemur fram að þrátt fyrir að Grænlendingar hafi um langan aldur verið mjög framarlega á ýmsum sviðum sjávarútvegs er það eigi að síður staðreynd að Íslendingar hafa náð þannig tökum á vinnslu sinni og markaðssetningu að fyrir hvert kíló af sjávarafurðum sem Grænlendingar selja á markaði fá þeir töluvert minna en Íslendingar fyrir sams konar afurðir. Munurinn til dæmis á þorski nemur 123%, á grálúðu 78% og á úthafsrækju, þar sem segja má að Færeyingar séu markaðsráðandi, nemur 50%.

Ef það tækist í anda þessa liðar tillögunnar að auka virði grænlensks sjávarfangs til jafns við hið íslenska með samstarfi um þróun afurða, markaðssetningu og bætta meðferð á afla þá mundi það leiða til þess að grænlenskur sjávarútvegur fengi auknar tekjur sem samsvara nánast 3.000 millj. danskra króna. Til samanburðar er það nálægt þeim hlut sem danska landstjórnin greiðir til hinnar grænlensku. Þannig að ef hægt væri með samstarfi landanna tveggja að efla með þessum hætti það andvirði sem Grænlendingar ná úr hafinu mætti segja að þeir hefðu tekið stórt skref til aukinnar sjálfstjórnar í framtíðinni.

Í sjötta lagi er lagt til að stjórnvöldin beiti sér fyrir formlegu samkomulagi millum samtaka atvinnulífs landanna um tímabundið starfsnám hjá fyrirtækjum sem hafa hlutverki að gegna í þróun viðskipta millum þjóðanna.

Hér er óhjákvæmilegt að benda á hið frábæra frumkvæði sem sendiherra Íslands, sem raunar gegnir hlutverki ræðismanns í Nuuk, Pétur Ásgeirsson, hafði að því að koma á fót slíku samstarfi að tilhlutan forseta Íslands á sínum tíma og hefur leitt til þess að ungt grænlenskt fólk sem vinnur hjá fyrirtækjum sem tengjast samskiptum og viðskiptum við Ísland hefur komið hingað til náms um skamma hríð og aflað sér mikilvægrar starfsreynslu. Reynslan sýnir að þetta hefur leitt til mikilla og bættra tengsla á sviði fyrirtækjavensla sem aftur hefur leitt til greiðari viðskipta á millum þessara tveggja landa.

Í sjöunda lagi að taka frumkvæði að því að gera úttekt á mögulegri samvinnu á sviði læknis- og heilbrigðisþjónustu sem yrði síðan grundvöllur rammasamnings um stóreflt samstarf á því sviði.

Nú vek ég eftirtekt á því að sú ríkisstjórn sem ég sat í síðast gerði samkomulag árið 2009 sem hefur leitt af sér töluvert aukið samstarf á sviði heilbrigðisþjónustu milli landanna. Það er þannig að margir Grænlendingar þurfa að fara til Danmerkur til ýmissa flókinna aðgerða sem hægt væri að gera hér á landi og það liggur líka fyrir að landfræðilega er austurströndin einfaldlega þannig í sveit sett að héðan er best að sinna ýmissi þjónustu sem sá partur Grænlands sem er giska afskekktur þarf á að halda.

Í níunda lagi að efla samstarf og ráðgjöf á sviði vatnsaflsverkefna á Grænlandi. Íslendingar hafa raunar gegnt mikilvægu hlutverki við að hanna og byggja mannvirki á sviði vatnsaflsvirkjana.

Það eru miklar hugmyndir á Grænlandi um að nýta enn frekar stórar jökulelfir til þess að framleiða rafmagn og Grænlendingar sjálfir hafa auðvitað forræði yfir auðlindum sínum, en þar eru uppi hugmyndir t.d. um það í framtíðinni að framleiða rafmagn jafnvel úr vindi á jöklum norðarlega á austurströndinni. Sömuleiðis um svipaðar slóðir að framleiða mikið magn rafmagns úr vatnsafli sem forsjálir menn hafa hug á, partur af hinni grænlensku þjóð, að flytja til Evrópu og þá hugsanlega um streng sem lægi um Ísland og mundi þá tengjast streng frá Íslandi til Skotlands eða annarra Evrópulanda ef sátt og samningar tækjust um það í framtíðinni. Hér er um að ræða mikilvægt tækifæri fyrir báðar þjóðirnar.

Í tíunda lagi að undirbúa samkomulag um þjónustu við hugsanlega starfsemi á austurströnd Grænlands í tengslum við sjálfbæra auðlindanýtingu.

Sitt sýnist hverjum um ýmis áform sem þar hafa komið upp og vissulega er það svo að þau hafa ekki gengið eftir, hvorki er varðar olíunýtingu né heldur nýtingu annarra auðlinda í jörðu. En jafnvel þó að deilt sé um það þá eru það, eins og ég sagði áðan, Grænlendingar sjálfir sem hafa forráð yfir auðlindum sínum og ef svo færi að þeir mundu taka upp nýtingu auðlinda ýmissa á austurströndinni þá hafa þeir sjálfir sagt að best yrði að þjónusta slíka vinnslu af Íslandi. Það væri því til hagsbóta fyrir þjóðirnar báðar að skoða þetta og efla samstarfið á því sviði.

Í ellefta lagi að vinna að sameiginlegri framtíðarsýn um nýjar skipaleiðir á norðurslóðum og gera úttekt á ávinningum bæði Grænlands og Íslands af hinni svokölluðu miðleiðinni um norðurskautið.

Menn eru í dag að ræða tvenns konar leiðir yfir norðurskautið, þ.e. hina svokölluðu norðausturleið og síðan hina sem við þekkjum öllu betur og Rússar hafa verið að þróa. En hitt liggur alveg ljóst fyrir að miðað við spár mun fyrst verða íslaust á hinni svokölluðu miðleið sem liggur þvert yfir norðurskautið og þá eru það hafnir á Grænlandi og á Íslandi sem væru nokkuð rökréttur áfangi og áfangastöð áður en kemur alla leið til Evrópu að því er varðar flutninga frá Asíu til Evrópu.

Í tólfta lagi að efla samvinnu gegn loftslagsvánni og taka upp formlegt samstarf á sviði umhverfisverndar, ekki síst með tilliti til aukinnar umferðar á hafinu á millum Íslands og Grænlands. Það er lagt til í þessari þingsályktunartillögu að sérstaklega verði hugað að áhrifum aukinna vöruflutninga um Norður-Íshafið og vaxandi skipaumferðar á norðurslóðum.

Það liggur alveg ljóst fyrir að jafnvel þótt margir sjái það í hálfgerðum hillingum felur þetta líka í sér mjög marktækar ógnir gagnvart hreinleika sjávar ef um slys yrði að ræða til dæmis á stórum olíuskipum. Sömuleiðis liggur fyrir að það hefur stundum stappað nærri mannsköðum þegar stór kemmtiferðaskip hafa verið upp undir falljöklum á austurströndinni. Við þurfum líka, Íslendingar, að búa okkur undir að geta tekið til viðbragða fyrir hönd alþjóðasamfélagsins ef atburð af slíku tagi rekur að.

Í þrettánda lagi að efla á alla lund starfsemi Vestnorræna ráðsins í því skyni að styrkja enn frekar hin pólitísku, hin menningarlegu og hin viðskiptalegu tengsl Íslands, Færeyja og Grænlands.

Reyndar er tekið fram í hinni upphaflegu gerð þessarar þingsályktunartillögu að það skuli sérstaklega vinna að því að koma á föstum árlegum leiðtogafundi þessara þriggja þjóða. Þá ber þess að geta að annar flutningsmaður þessarar tillögu, hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, er formaður Vestnorræna ráðsins og hefur rifið þessi mál upp af miklum skörungsskap. Það er einmitt í hennar tíð sem nefndur leiðtogafundur virðist um það bil að öðlast fastan og formlegan sess árlega.

Í fjórtánda lagi að tryggja að aukið samstarf sé við Grænland og að það verði snar þáttur í því líka að efla samstarf milli íbúa á vesturhluta vestnorræna svæðisins.

Hér er til dæmis verið að horfa til þess að það er mikill samgangur á millum Grænlands og þess hluta norðursvæða Kanada sem liggja vestan Grænlands. Það má segja að þar sé um sama málsvæði að ræða og við þurfum líka að hafa auga á þessum svæðum vegna þess að samstarf við þá kann í framtíðinni að verða öllum til hagsbóta.

Í fimmtánda og síðasta lagi er hér lagt til að Alþingi vinni stefnumótun um málefni frumbyggja á heimskautasvæðum þar sem áherslan verði fyrst og fremst á að styðja aðkomu þeirra og áhrif þeirra að því er varðar málefni sem snerta þá með bæði beinum og óbeinum hætti.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið við að gera stuttlega grein fyrir þessari þingsályktunartillögu sem ég flyt með átta öðrum hv. þingmönnum. Hún samanstendur af 15 ítarlegum liðum þar sem hver tekur til sértæks afmarkaðs þáttar sem lagt er til að samstarfið verði grannskoðað og eflt. Ég er þeirrar skoðunar að eins og mál hafa þróast sé það skylda okkar og að við höfum af því mikinn ávinning að efla tengslin við Grænland á öllum sviðum.(Forseti hringir.)

Þetta er viðleitni okkar þingmanna sem höfum látið okkur málefni þessa samstarfs varða og þess vegna leggjum við fram þessa þingsályktunartillögu.



[16:46]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér til að taka að sjálfsögðu vel undir þessa þingsályktunartillögu sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra landsins, flytur og hefur haft forgang um og boðið okkur öðrum átta þingmönnum að vera á, sem við gerum auðvitað með glöðu geði. Tillagan er um að efla samstarf Íslands og Grænlands eins og hv. þingmaður hefur farið svo vel í gegnum og þau 15 atriði sem þar eru nefnd með ákaflega ítarlegri og vel fram settri greinargerð.

Tillagan er einfaldlega þessi, með leyfi forseta:

„Alþingi lýsir stuðningi við söguleg skref sem vina- og nágrannaþjóð Íslendinga á Grænlandi hefur á síðustu áratugum tekið til aukinnar sjálfstjórnar og felur ríkisstjórninni að efla tengsl og samvinnu við Grænland með því að …“ og svo eru talin upp 15 atriði um hvernig Alþingi geti lýst stuðningi við þetta verkefni og tekið að sér að koma þessum áformum í verk. Þetta eru 15 atriði og ég ætla að taka nokkur þeirra til umræðu í byrjun áður en ég kem að þeim þætti sem ég vildi gera að aðalumtalsefni, þ.e. samgöngum á milli landanna.

Í fyrsta lagi er það fullt tollfrelsi. Já, að sjálfsögðu. Við höfum beitt okkur fyrir og samþykkt meðal annars tillögu frá hv. þingmanni um fríverslunarsamning við Kína og nýlega hefur verið mælt fyrir tillögu um fríverslunarsamningi við Japan. Allt eru þetta leiðir í hinum nýja heimi um aukna fríverslun og flæði milli landa. Ég tek að sjálfsögðu undir þetta.

Síðan er nefnt að örva tengsl milli yngstu kynslóða þjóðanna. Virðulegi forseti. Má ég aðeins geta um mikið og gott verk Illuga Jökulssonar og þeirra í Skákfélaginu Hróknum (Gripið fram í: Hrafns.) — Hrafns Jökulssonar, fyrirgefið þið, um samskipti þar á milli sem er alveg aðdáunarvert. Má ég líka nefna einn hlut sem margir hugsa kannski ekki út í. Við bjóðum nú þegar grænlenskum börnum til Íslands til að læra sund. Íþróttakennarinn sjálfur dáist að þessu og nefnir það vegna þess að við þurfum að bjóða grænlenskum börnum hingað til okkar og þjálfa þau upp í sundmenntinni.

Hér er líka talað um aukið samstarf háskólanna, að sjálfsögðu er það mikið og gott verkefni.

Í fimmta lið er lagt til að bjóða til samstarfs á sviði sjávarútvegs í því augnamiði að auka afrakstur af sjávarauðlindum landanna. Ég hef nýlega átt fund með forstjóra og eiganda Brims þar sem hann kynnti fyrir okkur það sem hann er að gera á Grænlandi bæði hvað varðar fiskvinnslu sem er auðvitað alveg frábært, skapar vinnu, og varðandi veiðar. Það var mjög athyglisvert að hlusta á viðkomandi mann segja okkur fréttir af því hvernig fiskgengd er að aukast upp með vesturströnd Grænlands. Fleiri fyrirtæki eiga í samstarfi við Grænlendinga eins og Síldarvinnslan í Neskaupstað og fleiri aðilar, t.d. á sviði loðnu. Ég hef nýlega gert að umtalsefni nýja aflareglu í loðnu og gagnrýnt í tengslum við hana þann fjárskort sem Hafrannsóknastofnun býr við til rannsókna. Við verðum að hafa í huga að vegna loftslagsbreytinga og hlýnunar sjávar er mjög líklegt og margir telja að loðnan fari miklu norðar í kaldari sjó og verði miklu meira inni í lögsögu Grænlendinga en kannski áður var. Er þá ekki mikið og gott verk að samvinna sé um að fylgjast með þessum mikilvæga stofni þannig að um sjálfbærar veiðar verði að ræða?

Í sjötta lið er athyglisverður punktur, að beita sér fyrir samkomulagi milli samtaka atvinnulífs landanna. Nú er mér ekki kunnugt um hvernig það starf er rekið á Grænlandi en Samtök atvinnulífsins eru stór og öflug og með mikla starfsemi á Íslandi. Ég er nokkuð viss um að í samvinnu þarna á milli þá getum við stutt vel við Grænlendinga og komið ýmsu til leiðar.

Í sjöunda lið er talað um læknis- og heilbrigðisþjónustu. Má ég minna á, virðulegi forseti, að töluvert hefur verið um að sjúklingar hafi komið til Íslands frá Grænlandi? Ég veit þó ekki nákvæmlega í hve miklum mæli og hvað það eru margir Grænlendingar sem njóta læknis- og heilbrigðisþjónustu á Íslandi vegna þessarar samvinnu. En þetta er hlutur sem við getum boðið Grænlendingum, frændþjóð okkar, upp á í meira mæli og þar kemur flugið auðvitað mjög sterkt inn.

Þá kem ég að því sem ég vildi kannski gera helst að umtalsefni en það er ferðaþjónusta og samgöngur milli landanna. Ég vil segja það að ég fór einu sinni sem samgönguráðherra í ferð til Grænlands og það var athyglisvert að eiga samtal við Grænlendinga um þetta. Það var mjög athyglisvert að heyra að Grænlendingar vildu auka mjög möguleika á flugi milli Íslands og Grænlands. Hér er talað um að hafa þann möguleika í ferðaþjónustu okkar á Íslandi að bjóða upp á ferðir til Grænlands frá Íslandi, sama hvort það er frá Akureyri, Keflavík eða Reykjavíkurflugvelli. Það væri mjög mikilvægt innlegg og mundi nýtast okkur mjög vel ef ferðamenn sem vilja koma til Íslands og heimsækja okkur og skoða okkar fögru og fínu náttúru ættu líka möguleika á dagsferð eða tveggja daga ferð til Grænlands í meiri mæli en nú er.

Þá kemur upp ein spurning sem ég er þó ekkert voðalega undirbúinn til þess að spyrja um. Mig minnir að í umræðunni um aukið flug milli landannna hafi komið upp að ekki sé í gildi svokallaður loftferðasamningur milli Íslendinga og Grænlendinga. Mig minnir endilega að sagt hafi verið að það væri vegna þess að Danir vildu það ekki. Því langar mig að spyrja hv. þingmann, fyrrverandi utanríkisráðherra, en utanríkisráðuneytið fer með svona samninga, hvort að hann muni og geti sagt okkur frá hvort þetta sé rétt munað hjá mér og hvort einhverjar breytingar hafi orðið þar á eða hvort þetta sé kannski svolítið tog á milli Íslendinga og Dana frekar en Grænlendinga.

Það er mjög mikilvægt að hafa þetta í huga vegna þess að samgöngur eru jú undirstaða fyrir allt sem talað er um í þeim 15 liðum sem hér eru settir upp, aukin ferðatíðni og meiri möguleikar á flugi þar á milli. Það þarf auðvitað ekki að geta um að þegar maður talar við Grænlendinga þá kvarta þeir mest yfir hvað dýrt er að fljúga milli staða, sérstaklega þegar þeir geta ekki farið nema á fáa flugvelli og við tekur dýrt þyrluflug þar á milli.

Hér er svo rætt um aðra þætti eins og sjálfbæra auðlindanýtingu, skipaleiðir á norðurslóðum sem koma fyrr en seinna og um loftslagsvá, að taka upp aukið samstarf á því sviði og þar spilar auðvitað inn í það sem ég ræddi um fiskimið þessara tveggja landa.

Virðulegi forseti. Það segir í einum kafla greinargerðarinnar með tillögunni, með leyfi forseta:

„Þó að íslenska þjóðin og sú grænlenska hafi um langt skeið átt í margvíslegum jákvæðum samskiptum er tímabært að efla þau að miklum mun. Ísland á að sýna í verki að það vill ljá Grænlandi framtíðarinnar bæði ráð og dáð.“

Það skulu vera mín lokaorð að það ætti að vera keppikefli okkar á Alþingi að samþykkja þessa þingsályktunartillögu áður en þingi lýkur í lok maí þannig að ríkisstjórnin geti farið að vinna eftir því sem segir í tillögunni eins og hún er eða eitthvað breyttri í meðförum nefndarinnar til þess að efla bæði ráð og dáð milli landanna.



[16:54]
Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sem félagi 125 í Skákfélaginu Hróknum, sem hefur farið nokkrar skákferðir til Grænlands, þakka ég hv. þingmanni fyrir að rifja upp frumkvæði Hróksins undir forustu bæði Hrafns Jökulssonar forseta og varaforsetans Roberts Lagermans. Fimmtíu ferðir á þrettán árum. Ekki skulum við heldur gleyma frumkvæði KALAKS, vinafélags Grænlands og Íslands, sem hefur fengið hingað til lands hundruð grænlenskra skólabarna og kennt þeim að synda.

Hv. þingmaður spyr mig síðan út í flugsamgöngur og loftferðasamninginn. Það er alveg hárrétt hjá honum að árum sama var mikil stífni af hálfu danskra loftferðayfirvalda gegn því að gera slíkan samning. En sú góða ríkisstjórn sem ég sat í, ásamt hv. þingmanni og hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, fór í það mál af miklum þunga. Það tók langan tíma að ná slíkum samningum og bara að fá þá af stað. En þegar þeir loksins fóru af stað þá reyndist ekki erfitt að semja við Grænlendinga.

Á næstsíðasta degi ársins 2011 var skrifað undir nýjan loftferðasamning sem var gerður milli Íslands og Grænlands og hann heimilar flugsamgöngur á milli tíu áfangastaða á Íslandi og Grænlandi. Þessi samningur tekur til áætlunar- og fraktflugs millum ákveðinna staða á Grænlandi og Keflavíkur. En hafandi það í huga að sá ráðherra, utanríkisráðherra, sem gerði þann samning hafði áður verið byggðaráðherra þá gleymdist ekki landsbyggðin því að það var sérstaklega tekið fram að heimildin næði líka til Akureyrar og Egilsstaða. Þannig að millum þessara staða eru núna heimildir fyrir hendi.

Nú er Flugfélag Íslands með áætlunarflug til fleiri staða á Grænlandi en innan Íslands og fimmtungurinn af veltu Flugfélags Íslands kemur af Grænlandsfluginu. Þannig að hér er um gríðarlega mikilvæga stoð að ræða (Forseti hringir.) undir flugsamgöngum innan lands. Það herðir ekki síst á því að við eflum samstarfið. Mér finnst nú reyndar að á þessu sviði megi segja að við eigum þeim ákveðna skuld að gjalda sem við höfum þó verið að endurgreiða með því að búa til mjög stóran hóp nýrra farþega til Grænlands, farþega sem koma frá Evrópu.



[16:57]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vissi að ég kæmi ekki að tómum kofanum hjá hv. þingmanni hvað varðar loftferðasamninginn og það er ákaflega ánægjulegt að fá þessa upprifjun hér um þann samning sem gerður var í lok árs 2011.

Það er alveg hárrétt að það var hluti af því sem við töluðum um á þessum árum, þegar ég var samgönguráðherra, hve mikilvægt það væri fyrir Flugfélag Íslands að efla þetta samstarf.

Þegar Flugfélag Íslands er að efla flugflota sinn og breyta, koma með nýjar vélar, þá hef ég á tilfinningunni að þetta muni stóraukast. Við skulum hafa í huga að þetta er „win win“, skulum við segja, fyrir bæði Grænlendinga og Íslendinga. Það er gott fyrir okkur að geta boðið þeim ferðamönnum sem heimsækja okkur hvort sem er dagsferð eða lengri ferðir til Grænlands. Þar með getum við stækkað pakkann en ferðamenn vilja alltaf fá mjög mikið út úr ferðalagi sínu og vilja helst vera að skoða eitthvað nýtt allan sólarhringinn nema rétt til að hvíla sig fyrir næsta dag.

Ég fagna því líka — ég vissi að við á landsbyggðinni ættum hauk í horni hvað það varðar — að við loftferðasamninginn sem gerður var var hugað mjög vel að Akureyri og Egilsstöðum. Á Akureyri er lítið flugfélag sem heitir Norlandair og ég er alveg sannfærður um að þetta er stærra en fimmtungur í rekstri þar.

Það eitt sem við ræðum núna sýnir í hvað er að sækja. Það er beggja hagur að efla þessi tengsl eins og þessi þingsályktunartillaga segir til um.



[16:59]
Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefnir það sem hann kallar lítið flugfélag úr kjördæmi sínu staðsett á Akureyri, Norlandair. Þá er rétt að geta þess að á síðustu árum, eftir því sem áhugi manna hefur aukist á norðurslóðum, er orðin gríðarleg aukning í hvers konar rannsóknarvinnu, einkum að sumarlagi en þó allan ársins hring hin seinni ár.

Norlandair er það flugfélag sem sér nánast um flug á öllum þessum rannsóknarleiðöngrum. Þeir fara og lenda á jöklum og það er ferðamáti vísindamanna. Ég held að ég megi segja að það séu hundruð vísindamanna og gríðarlegt magn af tækjum og búnaði sem þetta flugfélag flytur á hverju ári til Grænlands og má segja að án þess væri staða rannsókna á Grænlandi, og reyndar líka á ýmsum svæðum þar um kring, því þeir fljúga alla leið yfir á austursvæði kanadíska frerans, ekki sú sem hún er, bara svo að það liggi alveg ljóst fyrir.

Við höfum mikið gagn af samvinnu og sambýli við Grænland á sviði flugsamgangna. Nú er flogið til Grænlands og ekki bara frá Íslandi heldur líka frá Danmörku. En Icelandair og Flugfélag Íslands eru engir aukvisar í markaðssetningu. Ef menn skoða hvaðan ferðamenn til Grænlands koma má heita að mikill meiri hluti þeirra sé fluttur til Grænlands í gegnum það port eða hlið sem Ísland er, þ.e. með Icelandair og síðan áfram með Flugfélagi Íslands til Grænlands; ekki frá Kaupmannahöfn.

Það er þess vegna sem Grænlendingar leggja svo mikla áherslu á að vinna þetta samstarf enn betur. Það sem við græðum á því er að ferðamenn eru í leit að nýjum og auknum upplifunum og það að geta boðið upp á Grænland — hvort heldur er dagsferðir á austurströndina eða tveggja til þriggja daga ferðir, eða jafnvel vikuferðir, eins og nú eru í boði, yfir á vesturströndina — eykur (Forseti hringir.) segulmagn Íslands því að þá geta menn í reynd slegið tvær flugur í einu höggi. Þeir geta farið til tveggja norðlægra landa í sömu ferðinni. Þetta er í stöðugum vexti til hagsbóta fyrir báðar þjóðirnar.



[17:01]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður nefnir hér og gerir að umtalsefni spurningu mína um flugið, sem báðir aðilar græða mjög á og fá mikið út úr.

Við höfum séð hvernig flug milli Íslands og Grænlands er að aukast hjá Flugfélagi Íslands. Og hvað gerist með nýjum vélum? Mér er ekki kunnugt um það. Ég hef ekki kynnt mér það, hvort þar verði aukning á eða öruggara flug eða hvernig við viljum hugsa það.

Eg vil nú kalla akureyska flugfélagið Norlandair lítið í samanburði við aðra en það er þó stórt á landsvísu. Ég hef séð undirbúning með vélar þar sem skíði eru sett undir til að lenda á jöklinum. Svo eru skíðin tekin upp þegar aftur er lent á malbikuðum völlum eins og á Akureyri.

Hv. þingmaður talaði um flutning á vísindatækjum og vísindamönnum til rannsókna á Grænlandi og það hef ég líka séð eigin augum, sem er aðdáunarvert. Það var jafnframt undrunarvert að sjá hve mikið af tækjum og tólum voru flutt með þessum litlu vélum, sem eru 20 manna vélar, til Grænlands og í þá starfsemi sem þar er.

Þess vegna gera þessi stuttu andsvör okkar hér, sem hafa snúið að samgönguþættinum, ekkert annað en að skjóta frekari stoðum undir að Alþingi Íslendinga eigi að sameinast um að samþykkja þessa þingsályktunartillögu í vetur þannig að hægt verði að byrja á því að vinna þetta enn frekar og á skipulagðan hátt eins og hér er lagt til.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.