145. löggjafarþing — 77. fundur
 17. feb. 2016.
auðkenning breytingartillagna, fyrri umræða.
þáltill. HHG o.fl., 424. mál. — Þskj. 622.

[17:42]
Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um auðkenningu breytingartillagna. Flutningsmenn eru sá sem hér stendur Helgi Hrafn Gunnarsson, hv. varaþm. Björn Leví Gunnarsson og hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir.

Tillagan er einföld. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis að setja reglur um að breytingartillögum annars vegar og frumvörpum til laga um breytingar á gildandi lögum hins vegar skuli fylgja rafrænt skjal sem sýni þau lög eða skjöl sem breyta skal í endanlegri mynd að auðkenndum þeim breytingum sem fyrirhugað er að gera.“

Markmið með þessari tillögu er að gera þingheimi sem og almenningi öllum hægara um vik að gera sér nákvæmlega ljósar þær breytingar sem lagafrumvörp til breytinga á gildandi lögum leggja til sem og þær breytingar sem lagðar eru til með breytingartillögum á Alþingi. Í þessu skyni er lagt til að samhliða breytingarfrumvörpum og -tillögum verði lagt fram rafrænt skjal þar sem þau lög eða skjöl sem fyrirhugað er að breyta verði sýnd með innfærðum breytingum með rekjanlegum hætti.

Heimild til að setja reglur um þessi atriði mætti sækja í 1. mgr. 37. gr. þingskapalaga. Gert er ráð fyrir að hið rafræna skjal með auðkenndum breytingum verði aðgengilegt á vef Alþingis við hlið viðkomandi breytingarfrumvarps eða -tillögu þannig að unnt verði að sjá með skýrum hætti nákvæmlega hvaða breytingar verða. Eins og staðan er nú er rannsókn á áhrifum breytingarfrumvarps torveld og tímafrek, enda getur þurft að rýna í fjölmörg atriði innan margra lagagreina til að sjá hver hin raunverulega breyting yrði. Auk þess að auka þægindi þeirra sem skoða og meta áhrif breytingarfrumvarpa mundi það fyrirkomulag sem hér er lagt til stórbæta umhverfi við kynningu á fyrirhuguðum lagabreytingum og þannig stuðla að auknu réttaröryggi.

Virðulegi forseti. Þessi tillaga er hluti af tilraunum mínum til að auðvelda almenningi aðgengi að því sem hér gengur á. Eins og ég sagði í ræðu nýlega þá tel ég vef Alþingis stórgóðan. Þegar maður er orðinn vanur því að nota hann þá er mjög auðvelt að finna hluti þar. En það er hins vegar líka þannig að fólk sem er ekki vant því að garfa í lagamáli og þingskjölum og því um líku villist og það áttar sig oft ekki á því hvað er í gangi hverju sinni.

Eitt sérstakt mál sem ég get tekið fyrir er nýleg afgreiðsla Alþingis á náttúruverndarlögum sem olli gríðarlegum misskilningi í samfélaginu, um hvað nákvæmlega væri verið að gera og hvenær, enda ekki skrýtið þar sem um var að ræða breytingartillögu á frumvarpi sem var breyting á öðrum lögum sem voru gömul og það átti að taka gildi seinna; einhvern veginn allt mjög flókið, jafnvel fyrir þingmenn ef þeir voru ekki vel inni í málinu, hvað þá almenning, og ekkert skrýtið að þá verði mikill misskilningur.

Þetta getur gerst og ekki þarf að vera um að ræða jafn stórt og viðamikið og umdeilt mál og náttúruverndarlög til. Við sem vinnum hér á hinu háa Alþingi könnumst öll við að frumvörp geta verið tormelt, þau geta krafist þess að maður sé með mörg skjöl opin á sama tíma og „innleiði“ þessar breytingar einhvern veginn sjálfur. Eins og flestir þingmenn kannast við þarf oft að fá aðstoð ritara eða nefndarritara við að búa til svokölluð „track changes-skjöl“ þar sem sést þá hverjar breytingarnar eru. Það er almennt auðveldara að átta sig á því sem verið er að breyta í þeim skjölum en með því að lesa línur á borð við þetta: 3. málsl. 12. gr. 8. gr. laga nr. „bla, bla, bla“ fellur brott eða breytist svona eða hinsegin.

Ég hygg að með því að hafa það einfaldlega að reglu hér á Alþingi að þegar breytingar eru lagðar til þá komi það strax skýrt fram á svokölluðu mannamáli, eða mannalagamáli skulum við segja, hvaða breytingar séu fyrirhugaðar, þannig að það sé allt mjög augljóst. Ég tel það bæta réttaröryggi að því leyti að almenningur ætti þá auðveldara með að fylgjast með því sem gengur hér á. Fjölmiðlar ættu ekki síður auðveldara með að segja frá málum þannig að ekki sé jafn mikil hætta á misskilningi. En eins og við þingmenn vitum þá getur misskilningur verið mjög erfiður viðureignar jafnvel þó að leiðréttingin sé einföld. Almennt er það þannig að fólk trúir því sem fjölmiðlar segja. Ef fyrsta sagan er röng eða misskilningur einhvers konar þá getur það reynst þrautin þyngri að leiðrétta það. Eðlilega.

Hluti af þeim vanda tengist því hvernig þingmál eru sett fram. Auðvitað er það allt samkvæmt ágætum hefðum og er í sjálfu sér ekkert vandamál fyrir fólk sem er vant þessu og hefur tíma fyrir þetta, en ég held þó að þetta mundi bæta til muna skilning almennings og fjölmiðla á þeim málum sem hér eru lögð fram til að breyta því sem þegar er eða öðrum málum sem er verið að leggja fram.

Mér þykir rétt að nefna einnig annað þingmál sem ég hef lagt fram, sem er tillaga um tölvutækt snið þingskjala. Það er ástæða fyrir því að ég hafði þetta í tveimur aðskildum tillögum og hún er sú að tölvutækt snið þingskjala er viðameira verkefni. Þar er um að ræða þá tillögu að þingskjöl séu lögð fram á tölvutæku sniði þannig að hægt sé að búa til hugbúnað til þess að meðhöndla efni þingskjala eins og málsgreinar, málsliði, kaflaskiptingar o.s.frv., að það sé hægt með tölvutækum hætti að fletta upp öllum tilvísunum, t.d. þegar vísað er í lög sem á að breyta eða vísað í hæstaréttardóm. Eins og er eru þingskjöl á þannig sniði að ekki er með góðu móti hægt að búa til slíkan hugbúnað. Slíkur hugbúnaður gæti til dæmis framkvæmt það sem hér er lagt til að verði gert.

Mér þótti hins vegar mikilvægt að leggja fram aðskilda tillögu til þingsályktunar um auðkenningu breytingartillagna vegna þess að ég sé ekki fram á að það að gera þingskjöl tölvutæk komist jafn hratt á, en sömuleiðis tel ég að þessa tillögu sé hægt að útfæra með frekar einföldum hætti sem hluta af almennu verklagi Alþingis án þess að þingskjöl verði tölvutæk. Það yrði auðvitað handavinna þar til skjölin væru orðin tölvutæk, en yrði hins vegar eðlilegur hluti af skjalavinnslu hér á Alþingi.

Þessi svokölluðu „track changes-skjöl“, sem þingmenn fá stundum aðstoðarmenn til að búa til eða búa til sjálfir eru oft gerð en þau eru ekki birt á vef Alþingis. Þau eru ekki aðgengileg almenningi, þau eru misjafnlega vel gerð auðvitað eins og gengur og gerist og aðferðafræðin við þau er kannski ögn misjöfn. Þá hygg ég einnig að hætta sé á tvíverknaði. Ég held að ef við tækjum saman þá vinnu sem nú þegar fer í að búa til „track changes-skjöl“ þá yrði það að vinna eftir þeirri reglu sem hér er lagt til ekki miklu tímafrekara en það sem þegar er gert, en ég hygg að í öllum stærri málum sækist alla vega einn þingmaður eða einn þingflokkur, eða hvernig sem það er, eftir því að slíkt „track changes-skjal“ sé búið til eða búi það til sjálfur án þess að nokkur annar viti af því.

Ég held enn fremur að ef Alþingi sæi einfaldlega um þetta sjálft gætu þingmenn sparað tíma sinn og líka tíma nefndarritara, sem ellegar væru að gera aftur eitthvað sem annar hefði gert, hvort sem um væri að ræða starfsmann flokks, þingflokks eða Alþingis eða hvað. Ég efast því um að það að innleiða þessa reglu mundi endilega valda mikilli aukavinnu ofan á það sem þegar er.

Í sjálfu sér er ekki meira að segja um þessa tillögu, virðulegi forseti. Mér þykir að lokum rétt að halda því til haga að þótt við alþingismenn verðum alltaf vanir því að vinna í þessu umhverfi — við venjumst alþingisvefnum og eins og fyrr greinir þykir mér hann mjög góður — þá er það ekki þannig fyrir hinn almenna borgara. Sömuleiðis er ekki hægt að ætlast til þess að allir almennir borgarar, sem hafa áhuga á einstaka málaflokkum eða jafnvel einstaka málum, komist inn í verklag við meðhöndlun þingskjala „á nóinu“ til þess að kynna sér eitt og eitt mál eða málaflokk eða kannski nokkur mál saman. Ef einhver hefur til dæmis sérstakan áhuga á húsnæðisfrumvörpunum þá er þar um stór mál að ræða og það mundi hjálpa borgaranum mjög mikið að hafa aðgengi að auðkenndum breytingartillögum.

Það er í raun ekki frá meiru að segja að þessu sinni, virðulegi forseti. Ég vona að þessi þingsályktunartillaga fái fulla meðferð þingsins og vænti þess að ef aðstæður væru hér eins og almenningur almennt telur að eigi að vera þá væri það ekki vandamál.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allsh.- og menntmn.