145. löggjafarþing — 78. fundur
 18. feb. 2016.
öryggismál ferðamanna.

[10:46]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil eiga orðastað við hæstv. innanríkisráðherra og ræða þann aðkallandi vanda sem okkur hefur orðið tíðrætt um nú í vikunni og lýtur að öryggismálum ferðamanna á Íslandi. Þetta er framhald umræðu sem hefur staðið núna um skeið þar sem yfirstjórn ferðamála í landinu, þó einkanlega ríkisstjórnin sem auðvitað ber frumábyrgð, hefur legið undir þungu ámæli fyrir aðgerðaleysi og ákveðið ráðaleysi í þessum málaflokki.

Við heyrum ítrekað fréttir af banaslysum í ferðaþjónustunni, nú síðast í Reynisfjöru þar sem níu manns hafa komist í bráðan lífsháska frá árinu 2007 og tveir hafa látist. Það verða drukknunarslys í Silfru á Þingvöllum, fólk er að farast í jökulsprungum og ítrekað að lenda í stórhættu á flughálum göngustígum í nálægð við stærstu vatnsföll landsins.

Svörin sem koma frá stjórnvöldum um aðgerðir til úrbóta hafa því miður ekki gert öllu meira en að vekja enn frekari ugg vegna þess að þau fjalla ekki efnislega um annað en að verið sé að vinna að málinu, bíða eftir áhættugreiningu og leggja drög að einu og öðru.

Samt vita allir að innviðirnir eru að kikna undan álagi og að öryggisþröskuldurinn er við það að bresta. Á vegum landsins hefur hættan stóraukist vegna mikillar umferðar ferðamanna sem bæði veldur sliti á vegum og hættu því að umferðarmenning ferðamanna er oft önnur en sú sem hér tíðkast.

Nú spyr ég hæstv. innanríkisráðherra sem hlýtur að hafa þungar áhyggjur af þessu: Hvenær er að vænta afgerandi tillagna frá ráðherranum um nauðsynlegar úrbætur í öryggismálum ferðamanna og þá ekki síst löggæslunni? Hverjar verða fyrstu aðgerðir og hvenær?



[10:48]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Upp úr miðju síðasta ári var í innanríkisráðuneytinu tekin sú ákvörðun að nauðsynlegt væri að líta sérstaklega til öryggismála ferðamála, til hlutverks innanríkisráðuneytisins í þeim efnum, til að kanna hvað innanríkisráðuneytið gæti gert til að huga sérstaklega að því hvernig mæta mætti þeim áskorunum sem hinn mikli fjöldi ferðamanna hefur í för með sér og færir svo sannarlega íslensku þjóðarbúi mjög miklar tekjur.

Við fengum síðla hausts niðurstöðu úr þeim vinnuhópi. Það var sérstaklega horft til löggæslunnar í þeim efnum. Þar kemur fram, sem við vissum auðvitað, að það þarf að gera töluvert mikið átak í löggæslumálum. Í framhaldi af því ákvað ráðuneytið að halda áfram með þær athuganir og gera áætlanir á þeim grundvelli sem þar birtist.

Það skiptir nefnilega máli að menn gefi sér tíma til að fara líka yfir áætlanirnar. Jafnvel þótt vandinn sé mikill á hverjum tíma og við reynum að bregðast við honum skiptir vönduð áætlanagerð gríðarlega miklu máli þegar við tökumst á við þá áskorun sem við erum hér að tala um. Ég vil alls ekki gera lítið úr því að áætlanagerð þurfi að vera vönduð og að til hennar þurfi að stofna af alvöru. Það höfum við gert og ég ítreka að það var gert á síðasta ári.

Svo finnst mér að menn verði að gæta sanngirni í málflutningi. Hafa ekki verulega auknir fjármunir verið settir í ferðamannastaði á undanförnum missirum? Vilja menn ekki fallast á það? Voru ekki settir auknir peningar í löggæsluna? Það hefur verið gert. Er ekki svo? Voru ekki enn fremur þær 1.800 milljónir sem voru ákveðnar á síðasta ári til aukins framlags í samgöngumálum ætlaðar sérstaklega vegna ferðamannastaða? Er það ekki svo?

Um leið og við gerum okkur grein fyrir ögruninni sem við stöndum frammi fyrir skulum við líka taka eftir því sem þó hefur verið gert. Við skulum gera það og gæta sannmælis í þeim málflutningi sem við berum fram.



[10:50]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel að við sem erum að ræða þetta hér gætum fullkomlega sannmælis í þessari umræðu. Ég spurði um aðgerðirnar, ég hef spurt í hvað þeir fjármunir sem ráðherra nefndi eru að fara. Að hvaða aðgerðum er unnið? Hver eru brýnustu verkefnin að mati ráðherrans?

Það kemur fram í máli hennar að menn eru sammála um aðgerðir. En hver eru verkin? Hvað hefur verið gert?

Auðvitað skal maður ekki gera lítið úr mikilvægi vandaðrar áætlanagerðar en það þarf líka að forgangsraða. Núna kalla ákveðnir staðir á brýnar úrbætur þar sem hættan hefur verið ljós í ár og áratugi. En það er ekkert farið að gerast.

Hvað er að gerast varðandi öryggismál ferðamanna í Reynisfjöru? Hvenær er von á því að gripið verði til afgerandi úrbóta þar?

Það er þetta sem málið snýst um, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, og ég óska eftir skýrari svörum frá ráðherranum um það hvaða athafnir, verk og gjörðir séu fram undan alveg á næstunni í framhaldi af því ástandi sem hefur skapast.



[10:51]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg skýrt að á þeim stöðum sem ríkið hefur sjálft eignarhald hljótum við að bera töluvert mikla ábyrgð, þ.e. ríkið, ekki satt? Í Reynisfjöru er reyndar um einkaland að ræða þannig að málið er með dálítið öðrum hætti þar. Eins og hv. þingmaður veit er vegna atburða þar og þeirrar hættu sem stöðugt er í Reynisfjöru vegna ótrúlegs fjölda ferðamanna sem hana sækir ákveðin neyðarráðstöfun í gangi.

Í mínum huga er alveg augljóst mál að þjóðvegakerfi landsins er þar sem mestan hættan knýr á. Þar er öll umferðin. Þar fara um bæði íslenskir og erlendir vegfarendur. Þar verðum við að gæta að öryggismálum og minn vilji er að þar sé gengið lengra. Það er minn vilji, bæði þegar litið er til öryggis á vegum og eins þegar litið er til þeirra framkvæmda sem hugsanlegt er að farið verði í, að sérstaklega verði litið til viðhalds á vegakerfinu. Þar er um stórkostlega stórt verkefni að ræða og mun taka okkur langan tíma að komast á það stig sem við helst viljum vera. (Forseti hringir.) En á því er verið að taka.