145. löggjafarþing — 78. fundur
 18. feb. 2016.
íþróttakennaranám á Laugarvatni.

[10:53]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Á fundi háskólaráðs í dag verður sennilega ákveðið að slá af háskólanám á Laugarvatni, færa nemendur til Reykjavíkur og um leið fækka opinberum störfum í Bláskógabyggð. Allir þingmenn kjördæmisins hafa mótmælt því sem virðist vera eindreginn vilji háskólaráðs, að flytja íþrótta- og heilsufræðinám frá Laugarvatni til Reykjavíkur. Í þingmannahópnum eru átta stjórnarþingmenn, hv. formaður menntamálanefndar og hæstv. byggðamálaráðherra þar á meðal. Þingmennirnir hafa allir lýst vilja sínum til að vinna að farsælli lausn sem gagnist nemendum, rekstri háskólans og þeirri byggð sem þjónustað hefur skólann í áratugi. Að okkar mati blasir við að ráðast þurfi í frekari greiningu á þeim tækifærum sem felast í námsumhverfinu á Laugarvatni áður en lokaákvörðun verður tekin.

Nemendum í kennaranámi hefur fækkað í öllum deildum eftir lengingu kennaranámsins og íþróttakennaranámið er engin undantekning en tækifærin á Laugarvatni felast í aukinni þörf fyrir fagmenn á sviði lýðheilsu.

Ég vil spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort hann hafi beitt sér fyrir því að háskólaráð fresti ákvörðun sinni á meðan sveitarfélagið, ráðuneytið og háskólinn vinni saman að frekari greiningu og kynningu á þeim tækifærum sem felast í námsumhverfinu á Laugarvatni. Telur hæstv. ráðherra það ásættanlegt að þjónusta Háskóla Íslands við landsbyggðina fari minnkandi og að eina háskólastofnunin á Suðurlandi sé lögð af án raunverulegra tilrauna til að sporna við fæti? Telur hæstv. ráðherra rök háskólans réttlætanleg og nægileg til að flytja nám og störf frá landsbyggðinni til Reykjavíkur með þessum hætti? Hefur málið verið rætt í hæstv. ríkisstjórn sem meira að segja vill kenna sig við Laugarvatn?



[10:55]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og vil segja í upphafi að ég hef ekki með neinum hætti beitt mér eða reynt að hafa áhrif á dagskrá háskólaráðsfunda, hvað þar er tekið fyrir eða hvenær. Ég tel reyndar að það væri ekki við hæfi að menntamálaráðherra, hvorki ég né nokkur annar, gerði það. Ég get haft mínar skoðanir á ýmsu sem háskólinn gerir en ég á ekki að hlutast til um dagskrá háskólaráðsins eða innri málefni skólans. Háskólinn nýtur mikils sjálfstæðis, það er varið með lögum, og hann þarf að taka ákvarðanir um sín innri málefni og bera ábyrgð á þeim. Reyndar hafði mér skilist að þessu máli hefði verið frestað nú þegar, frestað um einhverjar vikur að taka endanlega ákvörðun, en hv. þingmaður bendir á að málið sé til fyrirtöku í ráðinu í dag.

Hvað varðar rök háskólans og réttlætingu ætla ég ekki að leggja dóm á það. Ég held þó að allir séu sammála um að háskólinn hafi veigamikið hlutverk fyrir þjóðina alla, bæði höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina. Háskólinn er með ýmsa starfsemi sem nýtist um land allt, má alveg örugglega bæta við, og ég veit að háskólinn hefur metnað til að gera þetta sem best. Háskólinn verður þó að hafa svigrúm til að taka sínar ákvarðanir á sínum forsendum. Ég held að það gangi ekki að menntamálaráðherra beiti sér þar en það er alveg sjálfsagt og eðlilegt að hv. þingmenn bæði hafi skoðun á málinu og beiti sér. Það er alveg eðlilegt en hvað varðar ráðherra þarf auðvitað allt að vera innan marka laga.



[10:57]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er ekki bara um rekstrarmál Háskóla Íslands að ræða. Hér er um pólitískt mál að ræða, bæði menntapólitískt og byggðapólitískt. Það sem farið hefur verið fram á er að fresta þessari ákvörðun um eitt ár og leggja fjármagn til þess að greina betur stöðu skólans, hvernig mætti markaðssetja skólann og styrkja háskólaþorpið í Bláskógabyggð um leið. Ég minni á að hæstv. ríkisstjórn stóð að baki flutningi Fiskistofu til Akureyrar vegna byggðasjónarmiða. Það kostaði miklu fleiri milljónir en hér er farið fram á. Það er aðeins verið að fara fram á að fresta ákvörðun um eitt ár og gera raunverulega tilraun til að styrkja námið. Það er hvorki hægt að fara svona með deildina né samfélagið sem hefur þjónað skólanum. Þetta er pólitískt mál og það á að leysa það á pólitískum vettvangi en ekki eingöngu út frá rekstrartölum Háskóla Íslands.



[10:58]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessu. Háskólinn hefur sitt sjálfstæði og það er tryggt með lögum. Þar undir eru ekki bara rekstrarleg málefni skólans, það er líka stefna hans og áherslur. Það fyrirkomulag sem hann hefur komið sér upp er að ráðherrann sé ekki að hlutast til um einstakar ákvarðanir háskólaráðsins. Síðan er hitt alveg rétt að það skiptir máli og ég treysti því og trúi að háskólaráðið horfi til allra þeirra sjónarmiða sem hv. þingmaður lýsti hér.

Það að bera þetta hins vegar saman við flutning Fiskistofu finnst mér sýna að það skorti nokkuð upp á — ég tel með engum hætti hægt að bera þau tvö mál saman, virðulegi forseti, annars vegar þá löggjöf sem gildir um sjálfstæði Háskóla Íslands og síðan flutning á einstökum opinberum stofnunum. Mér finnst þetta algjörlega fráleitur samanburður en um leið lýsir hann nokkuð þessu máli, að menn geta ekki bæði átt kökuna og étið hana, annaðhvort eru lög um Háskóla Íslands og sjálfstæði hans þar með eða ekki. Ráðherra getur ekki labbað bara inn í stofnunina og hlutast þar til um dagskrá funda, hvenær (Forseti hringir.) þar eru teknar ákvarðanir o.s.frv., en ég ítreka að ég skil vel málið, ég skil vel stöðu þingmannanna og það er sjálfsagt að þeir beiti sér í málinu eins og þeir hafa gert nú þegar, virðulegi forseti.