145. löggjafarþing — 78. fundur
 18. feb. 2016.
sérstök umræða.

verðtrygging og afnám hennar.

[11:07]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í febrúar 2015 óskaði hv. 3. þm. Reykv. s., Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, eftir sérstakri umræðu við hæstv. forsætisráðherra um afnám verðtryggingar, en ekki var orðið við því. Hv. þingmaður, hinn sami, hefur lagt fram frumvarp um afnám verðtryggingar sem er 461. mál og liggur fyrir þinginu. Það hefur litið þannig út að hæstv. forsætisráðherra þori ekki að tala um þetta mál, heldur hefur hann beint fyrirspurninni til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem er yfir málaflokknum.

Það verður því að gera ráð fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra tali fyrir ríkisstjórnina í málaflokknum. Ég geri fastlega ráð fyrir því að hæstv. ríkisstjórn hafi rætt málið. En ég verð að segja fyrir mig að mér finnst þetta allt orðið hið vandræðalegasta mál, hvernig umræðan um þetta hefur þróast hér á þinginu, eða hefur öllu heldur ekki þróast.

Mér hefur alltaf fundist það svolítið skrýtin spurning hvort maður sé hlynntur verðtryggingu eða ekki. Mér finnst réttara að spyrja hvort maður sé hlynntur því að val um verðtryggð lán sé til staðar eða ekki. Sömuleiðis þykir mér umræðan í meginatriðum snúast um vexti og auðvitað verðbólgutilhneigingu krónunnar. En ég velti fyrir mér sjónarmiðum hæstv. ráðherra í þeim efnum og sér í lagi sjónarmiðum ríkisstjórnarinnar.

Ekkert bendir til þess, að mínu mati, að með afnámi eða banni á verðtryggingu mundu vextir lækka. Ég veit að til eru hugmyndir um slíkt, en sá sem hér stendur er ekki mjög trúaður á þær. Ég ber auðvitað fulla virðingu fyrir því að aðrir hafi önnur sjónarmið og ég vænti þess að þau komi fram í þessari umræðu, en mig langar sérstaklega að vita hvað hæstv. fjármálaráðherra finnst um það.

Núna borgar fólk sem er með óverðtryggð lán miklu hærri upphæðir en fólk sem er með verðtryggð lán, enda er verðbólga ekki mikil eins og er. En það getur breyst. Ef við tökum mið af sögunni þá kemur það til með að breytast með tímanum. Þess vegna eru verðtryggð lán jú til. Þau eru til þess að sparifjáreigendur og lánveitendur sjái sér nokkurn hag í því að lána til lengri tíma. En með krónu, sem hefur þessa sterku verðbólgutilhneigingu, er ekki hægt að gera langtímafjármálaskuldbindingar að mínu mati, til 40 ára eða svo, án þess að einhver tæki séu til að vega upp á móti verðbólgutilhneigingunni.

Þessi valkostur sem við búum við í dag heitir verðtrygging og er eðlilega umdeilt fyrirbæri og auðvitað sérstaklega og aðallega eftir hrun eða verðbólguskot. Vandinn er augljós að mínu mati, háir vextir verða áfram jafnvel án verðtryggingar. Fólk getur tekið óverðtryggt lán í dag. Það er í raun og veru ekkert sem hindrar fólk í að gera það nema háir vextir og í beinu framhaldi há greiðslubyrði.

Ég velti því stundum fyrir mér hvaða vandamál það er nákvæmlega sem fólk vill leysa með því að banna verðtryggingu. Ég sé ekki betur en að eitt val sé einfaldlega tekið burt, sem fólk ætti að geta hafnað ef valkosturinn er svona bölvanlegur til að byrja með.

Einhver sagði á sínum tíma og að mínu mati er svolítið til í því: Þjóðin gæti afnumið verðtryggingu sjálf með því að hætta að taka verðtryggð lán. Það gæti hún gert. En hún gerir það ekki vegna þess að þá er hún neydd til að taka lán sem eru óverðtryggð og þar af leiðandi með himinháum vöxtum, upp á 8% eða svo +/- 0,5. Mér finnst því verulega við hæfi, í ljósi kosningabaráttunnar 2013 og loforða Framsóknarflokksins, sem ég veit að hæstv. fjármálaráðherra tók ekki þátt í, að það komi hér fram á þinginu, í formi sérstakrar umræðu og umræðu um frumvarp hv. þingmanna Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur og Helga Hjörvars, hvert viðhorf þingmanna er til verðtryggingarinnar. Ég vona að við getum þá komið fram með þau sjónarmið sem talin eru réttlæta það að banna þetta fyrirbæri, verðtrygginguna.

Eins og ég sagði hér áður þá ber ég fulla virðingu fyrir þeim sem eru á móti þessum valkosti og telja hann efnahagslega skaðlegan. En þá þurfum við að ræða það hér og þá eiga hæstv. ráðherrar að ræða það við þá þingmenn sem óska eftir þeim umræðum.

Ég lít ekki svo á að maður sé ýmist hlynntur verðtryggingu eða ekki, heldur valkostinum. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann sé hlynntur valkostinum. Hvort ríkisstjórnin áformi að afnema eða takmarka verðtryggingu með einhverjum hætti. Og síðast en ekki síst spyr ég hvort hæstv. ráðherra muni styðja að umrætt frumvarp hv. þingmanna Samfylkingarinnar fái hér fulla meðferð þingsins.



[11:12]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að ræða þessi mál og vil segja hér í upphafi að mér finnst hv. þingmaður nálgast viðfangsefnið af yfirvegun. Ég fagna því að menn séu tilbúnir til að ræða þetta á þeim forsendum og með málefnalegum hætti.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er rætt um viljann til að afnema verðtryggingu af nýjum neytendalánum. Eins og menn þekkja var skipuð sérstök nefnd til að fara yfir það og skýrsla nefndarinnar liggur fyrir. Einn nefndarmaður skilaði séráliti sem ég ætla ekki að gera sérstaklega grein fyrir hér. Þetta er nokkuð þétt skýrsla. Hún fjallar um eðli verðtryggingarinnar. Í skýrslunni eru tillögur um það hvernig við getum þrengt að almennri notkun verðtryggingarinnar og hvers vegna það er æskilegt.

Hér gefst ekki svigrúm til að fara yfir öll efnisatriði skýrslunnar, en ég ætla hins vegar að nefna að í skýrslunni eru færð fyrir því mjög sterk rök að það fyrirkomulag sem við höfum haft á lánamarkaði, með jafn útbreiddri notkun verðtryggingar og raun ber vitni, hafi í för með sér vissa galla. Á bls. 15 í skýrslunni er sérstaklega talað um helstu galla verðtryggingar. Ég ætla að nefna hér nokkra punkta upp úr skýrslunni.

Rætt er um misvægi óverðtryggðra launa og verðtryggðra lána á verðbólgutímum, sem sagt að lánin rjúki upp og launin verði miklu seinni að taka við sér og jafnvel að eignaverð falli á sama tíma. Við þekkjum það frá 2009. Það hefur tekið langan tíma að finna nýtt jafnvægi í þessu. Nú eru eignir væntanlega almennt að komast upp fyrir verðbólguskotið. Laun hafa líka náð að vinna upp fallið í kaupmætti sem varð út af verðbólguskotinu, en þetta er einn af ókostunum. Það er hætta á yfirveðsetningu vegna þessa. Hver kannast ekki við það?

Við vorum með yfirveðsett heimili um allt samfélagið í kjölfar verðbólguskotsins sem kom. Það er ákveðinn freistnivandi til útlánaþenslu, þ.e. mjög löng jafngreiðsluverðtryggð lán gefa fólki tækifæri til að taka lán þar sem fólk er í raun ekki að greiða í hverjum mánuði alla vaxtabyrðina, heldur taka hana að hluta til að láni, sérstaklega við þær aðstæður að verðbólga rís aðeins. Það eru neikvæð áhrif á virkni peningastefnunnar eins og hér er rakið. Hér er ekki tími til að fara í öll þessi atriði, en þetta skiptir miklu máli.

Nefndin lagði til að við mundum sérstaklega skoða tvennt; annars vegar að hækka lágmarkstíma verðtryggðra lána úr fimm árum upp í tíu fyrir neytendalán. Það höfum við verið með til skoðunar. Við höfum fengið umsögn Seðlabankans sem veltir upp kostum og göllum þess að gera þetta, leggst ekki alfarið gegn þessu, en varar við því við ákveðnar aðstæður. Úr því erum við að vinna og við erum að byggja undir það að geta tekið ákvörðun um þessa tillögu.

Hin tillagan var síðan sú að við mundum taka af markaði 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán. Það sem við höfum verið að gera í ráðuneytinu er að afla upplýsinga um það hvaða áhrif það hefði á neytendur, þ.e. hversu hátt hlutfall þeirra sem hafa verið að taka þetta löng lán mundi ekki standast greiðslumat á 25 ára láni sem nefndin leggur til að við mundum vísa fólki í. Nú er ég ekki kominn með svör frá öllu fjármálakerfinu, en við erum komin með mjög marktæk gögn sem sýna að það geti verið þannig að allt að 40%, og jafnvel umfram það, þess fólks sem tekur 40 ára jafngreiðslulán mundi ekki standast greiðslumat á 25 ára láni. Hvaða fólk er það? Það er fólkið sem hefur minnst á milli handanna.

Nú verður að halda því til haga að í skýrslunni kom skýrt fram að þetta yrði krefjandi fyrir þennan hóp og að grípa yrði til mótvægisaðgerða. Það er úr þessu sem við erum að vinna. Í hve miklum mæli er í sjálfu sér hægt að grípa til mótvægisaðgerða? Ættum við mögulega að hafa þennan valkost áfram inni fyrir allra tekjulægsta fólkið? Varla viljum við gera breytingu sem á endanum leiðir ekki til annars en þess að eitt lánaformið fer út og ríkið þarf síðan að styðja við þann hóp sem helst notaði það lánaform með stórauknum bótagreiðslum? Ég held að það sé enginn að ræða um það (Forseti hringir.) í sjálfu sér.

Þetta er nokkuð flókið viðfangsefni og ég vísa í skýrsluna til dýpri skilnings á eðli verðtryggingarinnar og þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Ég tel að til mikils sé að vinna, að draga úr almennri notkun hennar, en það verður að gerast þannig við séum (Forseti hringir.) ekki að þrengja að þeim hópum sem minnst hafa á milli handanna og hafa verið að kjósa þennan valkost til þess að komast í eigin húsnæði.



[11:18]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að ræða verðtrygginguna í þingsal. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki séð sér fært að ræða verðtryggingu hér og þingmenn Framsóknarflokksins hafa gert hæstv. fjármálaráðherra að blóraböggli fyrir því að ekki sé hægt að efna kosningaloforð flokksins.

Verðtrygging fjárskuldbindinga er eitt af séreinkennum íslenska fjármálamarkaðarins. Víðtæk verðtrygging neytendalána þekkist ekki í neinu þróuðu hagkerfi sem hlýtur að segja sína sögu um hversu eftirsóknarverð verðtrygging í raun er. Við hljótum því að stefna að því að verðtryggingin verði afnumin og íslenskur lánamarkaður verði svipaður og í nágrannalöndum okkar.

Ég hef því, ásamt hv. þm. Helga Hjörvar, lagt fram frumvarp um bann við verðtryggingu neytendalána. Þetta er einfalt frumvarp og nær markmiðum sínum hratt og örugglega.

En það er auðvitað ekki eina færa leiðin að því markmiði að banna verðtryggingu. Það eru því nokkur vonbrigði að ríkisstjórnin aðhefst ekkert í málinu. Engin frumvörp eða skref tekin að því markmiði. Ég minni á skýr loforð í þessum efnum og væntingar fólks um breytingar. Verði ekkert aðhafst mun traust fólks á stjórnmálum enn minnka og vantrú vaxa.

Ég vil minna hæstv. fjármálaráðherra á að fjármálaráðuneytið hefur mótað þá stefnu að á árunum 2014–2017 skuli 60–90% af lánum ríkisins vera óverðtryggð og að af heildarskuldum ríkissjóðs skuli aðeins 23% vera verðtryggðar við árslok 2017. Ríkissjóður er sjálfur að færa sig úr verðtryggðum lánum í óverðtryggð. Það kemur ekki á óvart því rannsókn á vegum Lánamála ríkisins sýndi að ríkissjóður hafði sparað sér 35 milljarða króna á núvirði á árunum 2003–2014 með því að gefa frekar út óverðtryggð skuldabréf.

Ég vil að lokum minna hæstv. fjármálaráðherra á að ríkisstjórnin hefur (Forseti hringir.) framkvæmt almenna niðurfærslu á verðtryggðum húsnæðislánum. Þessi niðurfærsla kostaði 80 milljarða hið minnsta (Forseti hringir.) og er auðvitað fullkomið vantraust á hinu verðtryggða lánakerfi.



[11:20]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er nokkur skaði að hæstv. forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins skuli ekki vera hér til svara eða að minnsta kosti viðstaddur umræðuna, með fullri virðingu fyrir hæstv. fjármálaráðherra að sjálfsögðu, því að það var Framsóknarflokkurinn og ekki síst formaður hans sem lofaði afnámi verðtryggingar eftir kosningar. Ég var í kosningabaráttunni í Norðausturkjördæmi þar sem hæstv. forsætisráðherra er í framboði og man mjög vel að fjöldi fólks upplifði það þannig að þetta loforð þýddi að verðtrygging ætti bara að hverfa með öllu af yfirborði jarðar, bæði af þegar veittum lánum og nýjum. Þannig upplifði fólk þetta í stórum stíl og kaus út á það, rétt eins og það kaus út á það að 300–350 milljarðar af skuldum heimilanna mundu gufa upp daginn eftir að Framsókn yrði kosin til valda. (Gripið fram í: ESB líka.) Framsókn hefur auðvitað fundið lausn á þessu vandamáli. Hún er fólgin í því að finna sökudólg, blóraböggul, og það er hæstv. fjármálaráðherra. Það er oddviti samstarfsflokksins sem er skúrkurinn þegar framsóknarmenn tala um þetta hér eins og við höfum iðulega upplifað í þingsalnum. Þannig er ástandið á kærleiksheimilinu.

Varðandi verðtrygginguna er það að sjálfsögðu rétt og ein af niðurstöðum þessarar skýrslu að hið mikla umfang hennar í hagkerfinu er mikið böl og það er vandamál hvernig við vinnum okkur út úr því. Þess vegna höfum við sem höfum reynt að tala um þetta ábyrgt og forðast lýðskrumið lengi verið talsmenn þess að draga úr vægi verðtryggingarinnar eins og mögulegt væri, en það þarf að gera yfirvegað og skipulega.

Vandamálið í grunninn er samt ekki verðtryggingin og má þá skjóta mig fyrir að segja þetta. Vandamálið er hvað fjármagnið er dýrt á Íslandi, hvað það tekur mikið til sín, hvað það er óviðráðanlegt fyrir tekjulágt fólk að eignast húsnæði meðan vaxtastigið í landinu er svona rosalega hátt. Ef það er niðurstaðan að lánskjör á breytilegum vöxtum til styttri tíma eru óviðráðanleg hvað greiðslubyrði snertir fyrir stóran hluta landsmanna verðum við auðvitað að taka það alvarlega áður en við stígum einhver lítt yfirveguð skref í þessum efnum. Það er það sem þarf (Forseti hringir.) að takast á við á Íslandi, að hér séu í boði skikkanleg lánskjör sem ganga upp fyrir venjulegt fólk.



[11:23]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari umræðu um verðtrygginguna og þakka málshefjanda, hv. þm. Helga Hrafni, fyrir að taka þetta mál hér fyrir og hæstv. ráðherra fyrir innleggið. Hæstv. ráðherra fór mjög vel yfir skaðsemi verðbólgu og óstöðugleika sem kemur mjög vel fram í þeirri skýrslu sem verðtryggingarhópurinn skilaði. Það er mjög þétt skýrsla, ég tek undir það. Jafnframt kemur þar vel fram að þetta mikla umfang verðtryggingar í hagkerfinu veldur okkur vanda og er hluti af því að halda hér uppi háu verði á peningum. Það kemur jafnframt vel fram í þessari skýrslu.

Ég lít ekki svo á að við séum að banna eitt eða neitt. Við erum að breyta lánafyrirkomulagi, við erum að draga úr gríðarlegu umfangi verðtryggingar. Það er nauðsynlegt út frá hagstjórnarlegum sjónarmiðum. Og ekki bara það, við erum nýbúin að samþykkja lög um opinber fjármál og erum að tala um aga í stjórnsýslu og það þarf jafnframt að kalla fram aga í hagkerfinu. Aginn felst í því að verðtryggingin á að heita sínu rétta nafni. Hún á að heita vextir, þetta eru breytilegir vextir. Lánveitandinn verður að kostnaðarmeta þegar hann veitir lán og taka tillit til raunvaxta þannig að hann gefi þá upp kostnaðinn við að veita lánið og lántakinn viti hvaða kostnað hann er að takast á hendur og geti þá metið í hvað hann ætlar að nýta lánið. Þannig nær aginn út yfir allt þjóðfélagið.

Þetta er kannski kjarni máls í því hvers vegna nauðsynlegt (Forseti hringir.) er að breyta þessu lánafyrirkomulagi.



[11:25]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Kosningaloforðin fyrir síðustu kosningar um afnám verðtryggingar voru auðvitað allt of digurbarkaleg. Ég býst við að við munum ekki sjá svoleiðis loforð fyrir næstu kosningar vegna þess að auðvitað er málið flókið eins og m.a. þessi umræða sýnir.

Ég og við í Bjartri framtíð viljum að sjálfsögðu losna við verðtrygginguna. Við viljum ekki að lánamarkaðurinn á Íslandi sé verðtryggður. Verðtryggð lán eru mikil meinsemd og þau geta komið illilega aftan að lántakendum eins og sýndi sig í hruninu og þar fram eftir götunum.

En við höfum hins vegar sagt að við megum ekki missa fókusinn á grundvallarverkefnið sem er að styrkja grundvöll efnahagslífsins, gera hann þannig að boðið verði upp á lága vexti á húsnæðislánum. Núna metur markaðurinn það einfaldlega þannig að of mikil áhætta sé í íslensku efnahagslífi. Þess vegna er fjármagnið dýrt. Þetta sjáum við bara með því að skoða efnahagssöguna, hér verða ítrekað mjög stórar sveiflur í verðbólgu og verðtryggingin er einfaldlega leið markaðarins til þess að reyna að tryggja sig gegn því.

Hvert er hið raunverulega markmið? Viljum við ekki sjá á Íslandi þannig efnahagsumhverfi að við getum treyst því að hér verði óverðtryggð lán með kannski 2–3% vöxtum, sem er þó meira en í mörgum nágrannaríkjunum? Ef við teljum að þetta sé hægt — og við í Bjartri framtíð teljum að þetta sé t.d. hægt með því að ganga í myntsamstarf við Evrópu og höfum haldi því á lofti í þessari umræðu — þá eigum við að stefna að því marki. Þá verður verðtryggingin óþörf. Vægi hennar hefur verið að minnka á undanförnum árum með auknu framboði á óverðtryggðum lánum og það er mjög gott. En ég held að verðtryggingin hverfi ekki fyrr en við erum búin að ná markmiðinu um stöðugt efnahagslíf.



[11:28]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Þetta mál er búið að vera ansi vandræðalegt fyrir hæstv. ríkisstjórn, sérstaklega hæstv. forsætisráðherra fyrir að vilja ekki koma í þingsal og ræða þetta mál.

Verðtryggingin er nokkuð sem við á Íslandi höfum þurft að búa við í hálfa öld, ef ekki lengur. Verðtryggingin er þannig lagað séð ekki slæm í eðli sínu. Það virðist vera möguleiki í flestum löndum að vera með verðtryggð lán en þá er samt sem áður einnig möguleiki að vera með óverðtryggð lán. Vandamálið við íslenskt efnahagslíf er að það er ekki raunverulegur möguleiki að vera með óverðtryggð lán. Það er möguleiki á blaði en ekki raunverulegur möguleiki fyrir þá sem ætla að taka lánið.

Hins vegar er líka annað sem við þurfum að horfa á í þessu samhengi og það er gjaldmiðillinn. Íslenska krónan er agnarsmár gjaldmiðill sem reynir að berjast við jötna. Þeir sem vilja halda í þennan agnarsmáa gjaldmiðil þurfa að rökstyðja hvernig þeir ætla að gera það með þessari verðbólgu, með þessari verðtryggingu sem sumir hverjir vilja afnema, rökstyðja hvernig þeir hugsa sér efnahagslíf á Íslandi með þessu móti.

Það skiptir ekki máli hversu mikill agi er í fjármálum. Það skiptir ekki máli þótt það sé komið nýtt kerfi til að búa til fjárlög. Það sem skiptir máli er að við séum með gjaldmiðil sem virkar í alþjóðasamhengi, gjaldmiðil sem er einhvers virði þegar öllu er á botninn hvolft. Íslenska krónan, eins fallega og hún lítur út, og hugmyndin um hana virðist ekki neitt sérstaklega gjaldgeng. Hún virðist að miklu leyti vera rótin að þessum vanda öllum saman.



[11:30]
Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég hef í raun og veru aldrei almennilega áttað mig á því af hverju gerðar eru kröfur um að banna verðtryggingu. Hvað er verðtrygging? Þetta er auðvitað bara eitt form á breytilegum vöxtum, þetta er bara hlutlæga aðferðin, ekki spá. Þetta hefur auðvitað galla, verðtryggingin hefur galla, það er freistnivandi, að taka hærra lán en maður þarf o.s.frv.

Við tölum um að vandamálið sé dýrt fjármagn. Við erum alltaf að tala um afleiðingar, aldrei hvar orsökin liggur. Af hverju er lánsfé dýrt? Af hverju er verðbólga? Það eru tvö lykilatriði til að koma í veg fyrir slíkt (Gripið fram í.) — það er ekki ESB, nei, það er það að ríkisfjármálin séu í lagi og að hér sé vinnumarkaður sem semur ekki um kaup og kjör langt umfram það sem efnahagslegar forsendur eru til. Ef við komum þessu í lag, sem kannski er möguleiki núna, sýnist mér, væri enginn að ræða um verðtryggingu, ekki nokkur maður. Þetta er það sem við þurfum að átta okkur á, að þegar við komum því í lag taka menn kannski ekki þessi lán sjálfkrafa, það er óþarfi, nema kannski örlítill hópur sem ella gæti þá ekki fengið fyrirgreiðslu eða eignast íbúðarhúsnæði, þannig að þessi valmöguleiki sé þó fyrir hendi — en þetta form verður væntanlega ekki mikið notað.

En allt í einu erum við komin í umræðu um að banna hluti, tala um allt annað sem skiptir ekki máli. Við græðum ekkert á því. Tölum um grundvallaratriði.



[11:32]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Verðtryggingin varð ekki til af sjálfri sér og hún verður varla afnumin nema eitthvað komi í staðinn.

Hvað getur komið í staðinn fyrir verðtrygginguna? Jú, vextir geta komið í stað verðtryggingar. En þeir vextir þurfa að vera háir. Jafnvel nú þegar verðbólgan er í lágmarki eru óverðtryggðir vextir á milli 7 og 8%. Það eru mjög háir vextir. Eins og launakjör og lífskjör, matarverð og annað er hér á landi þá getur engin venjuleg manneskja ráðið við fasteignalán með yfir 7% vöxtum.

Mönnum hefur dottið í hug að banna verðtryggð lán sem eru lengri en 25 ár, sem sagt 40 ára lán sem hafa verið kölluð Íslandslán, en þau eru samt einu lánin sem margir ráða við að borga af. Vissulega eignast fólk ekki mikið í fasteigninni á fyrstu 15 árunum eða jafnvel eitthvað lengur. En það hefur öruggt húsnæði og það hefur fólk ekki ef það er á leigumarkaði í dag.

Ef verðbólgu er haldið í skefjum þá er verðtryggingin ekki til vandræða. En það leiðir til vandræða hve vextir eru háir hér á landi. Það er vegna krónunnar. Það er vegna þeirra kjara sem lánastofnanir fá, sem eru háir vextir. Og ef það er eitthvað annað en það þá er vaxtaokur hjá bönkum og þá þarf að finna leiðir til að leiðrétta það. Það er engin lækning að afnema verðtryggingu, en fólk á að hafa val. Menn eiga að hafa val um að taka verðtryggð lán eða óverðtryggð lán.

Stóra áskorunin, forseti, hlýtur hins vegar að vera að gera vaxtaumhverfið sambærilegt við það sem gerist í öðrum löndum hvort heldur er fyrir fólk eða fyrirtæki. Hvernig verður það gert? Það verður gert í samstarfi við aðrar þjóðir.



[11:34]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, ég held að hún sé löngu tímabær. Ef verðtryggingin er verðbólguhvetjandi verður verðbólgan meiri en ella og óvissan eykst og það má spyrja sig hvort verðbólgan lækki ef kerfið verður afnumið og verðtryggingin verði þá óþörf þannig að óvissan mundi minnka. Við hljótum líka að velta því fyrir okkur hvers vegna vaxtahækkanir Seðlabankans hafa svona lítil áhrif á neysluhegðun landans þrátt fyrir jafna greiðslubyrði verðtryggðra lána. Með því viðhöldum við verðbólgunni. Með þessum vítahring sífelldrar hækkunar Seðlabankans á vöxtum sem á að vera og hefur í gegnum tíðina verið tilraun til að sporna gegn verðbólgunni í gegnum allar miðlunarleiðir peningamálastefnunnar gerist það alltaf að fjármagnsinnflæði verður vegna vaxtamunarviðskipta, gengi krónunnar sveiflast, inn- og útflutningurinn skekkist og viðskiptahalli myndast, sem þarf svo að leiðréttast með gengisbreytingum sem á endanum koma fram í höfuðstól verðtryggðra lána. Þetta þekkjum við Íslendingar og höfum þekkt of lengi.

Mér fannst ágætt að heyra ráðherra segja að það væri verið að skoða hvaða leiðir er hægt að fara til að minnka vægi verðtryggðra lána. Það var líka áhugavert að heyra að 40% fólks hafa hugsanlega ekki tækifæri til að taka lán ef verðtryggingin verður algerlega afnumin. Ríkisstjórnin er að reyna að efla leigumarkaðinn með byggingu nýrra húsa sem eru samt ekki komin á koppinn og við þurfum að fjölga valkostum fyrir fólk sem vill kaupa sér húsnæði með óverðtryggðum lánum, með föstum vöxtum þannig að greiðslubyrðin sé viðráðanleg bæði ungu fólki og tekjulágu fólki. Það er ekki hægt að segja annað en að verðtryggingin viðhaldi óstöðugleika í íslensku hagkerfi. Hún hefur gríðarleg áhrif á stöðu heimila. Við verðum með öllum ráðum að finna einhverjar leiðir til að draga úr vægi hennar og, eins og hér kom fram, auka (Forseti hringir.) með því stöðugleika.



[11:37]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla í seinni ræðu minni að byrja á spurningu sem mér finnst afar góð: Af hverju ekki bara að hafa val? Val í dag er í raun og veru nauðung. Eins og komið hefur mjög skýrt fram er greiðslubyrði á óverðtryggðum lánum of þung fyrir mjög mikinn fjölda þannig að fólk neyðist til þess að taka á sig byrðar inn í framtíðina sem eru tvisvar sinnum dýrari en að taka óverðtryggð lán þótt þau séu með jafn háum vöxtum og eru í dag. Þetta er það sem veldur vandkvæðum í því að takast á við meginmarkmiðin í hagstjórn sem eru auðvitað stöðugleiki og lægri vextir.

Hver yrði afleiðingin af því að breyta, mér er illa við að segja banna, verðtryggingunni? Það verður áfram til neysluvísitala. Lánveitandinn verður áfram að horfa til raunvaxta. Neysluvísitala mun áfram mæla verðlagsbreytingar þannig að þegar lánveitandinn kostnaðarmetur lán sitt tekur hann tillit til raunvaxta. Það sem mun hins vegar breytast er að hann mun taka ábyrgð til jafns við lántakann á breytingum á verðlagi inn í framtíðina. Það er sanngjarnt. Það mun jafnframt verða til þess að slíkir óverðtryggðir vextir verða viðráðanlegir. Það mun hvetja stjórnvöld til að fara í mótvægisaðgerðir, framlengja séreignarsparnaðarstefnuna sem er afar skynsamleg. Þannig að til lengri tíma mun Seðlabankinn þurfa að hækka það eina stjórntæki sem hann hefur vegna þess að undirliggjandi 4–5% verðbólga yrði mögulega 11–14% ef hann hefðist ekki að. Við höfum verið með verðstöðugleika í tvö ár, hann er afar dýrmætur. Við höfum því tækifæri núna eftir þessa faglegu og vönduðu vinnu stjórnvalda með skýrslunni, með athugunum á því hvar ungt fólk er statt í dag (Forseti hringir.) með að taka fyrsta lán, til þess að breyta þessu kerfi.



[11:39]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu. Mér þykir hún mjög mikilvæg og verð að segja að ég hef aldrei skilið hvað sérstaklega framsóknarmenn eru að ræða um með að banna verðtryggingu. Mér finnst það fráleitt því að þetta er einkenni á vandamálinu en ekki orsök. Orsökin er auðvitað óstöðugleiki í hagstjórn og hátt vaxtastig bankanna af því að þeir ætla að tryggja sig. Þeir tryggja sitt fjármagn og munu alltaf gera það.

Mér fannst samt mjög áhugavert að heyra skoðun hv. þm. Willums Þórs Þórssonar um verðtrygginguna. Ég skil hvað hann er að fara, en af hverju eru þá óverðtryggðu vextirnir ekki þetta tæki? Við sjáum að þeir eru óraunhæfir. Þeir eru 7–8%. Af hverju virka þeir þá ekki eins og þingmaðurinn ræðir um þar sem lánveitandinn er samábyrgur fyrir láninu? Þetta eru allt of háir vextir. Fólk getur ekki tekið svona dýr lán eins og við vitum alveg.

Vandamálið er að við búum við óstöðugan gjaldmiðil. Hann er óstöðugur vegna þess að hann er lítill og verður auðveldlega fyrir miklum áhrifum frá utanaðkomandi þáttum. Við þurfum stöðugan gjaldmiðil, það er það sem þetta snýst um. Við þurfum jarðtengdan gjaldmiðil, hann þarf að hafa fast land undir fótum og íslensk efnahagsstjórn hefur ekki verið þessi jarðtenging svo lengi sem menn muna. Ég held að hún verði það ekki. Við verðum að læra af sögunni, við þurfum að tengja okkur við stærra batterí — og það er ESB.



[11:41]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Þótt ég hafi haft sérstakar mætur á ræðum hv. þm. Willums Þórs Þórssonar hefði ég gjarnan viljað fá fleiri framsóknarmenn með í umræðuna. Mig langar að velta upp spurningu: Hvað ef stjórnmálaflokkur færi í kosningabaráttu út í það fen að lofa lægri stýrivöxtum? Það er ástæða fyrir því að seðlabankar eru sjálfstæðir. Hún er sú að stjórnmálamenn vilja alltaf hafa vexti lægri. Þegar stjórnmálamenn lofa því að ætla að afnema verðtryggingu fæ ég ekki betur séð en að þeir séu að lofa mjög sambærilegum hlutum, þ.e. að fólk þurfi að borga minna af peningum til að lifa lífi sínu og eiga sitt húsnæði. Mér finnst að við eigum að ræða þetta mál af sömu ábyrgð og við ætlumst til þegar kemur að stýrivöxtum.

Auðvitað eru misjafnar skoðanir á því hvað sé orsök og hvað afleiðing í hagkerfinu almennt. Það á við um verðtryggingu og stýrivexti en það má alltaf leiða að því líkur að stjórnmálamenn muni komast að þeirri niðurstöðu og aðhyllast þær kenningar sem þeim tekst að rökstyðja með lægri vöxtum. Það verður alltaf þannig vegna þess að það eru fjárhagslegir hagsmunir kjósenda og í beinu kjölfari pólitískir hagsmunir stjórnmálamanna. Þess vegna verðum við að nálgast þetta umræðuefni af meiri ábyrgð en svo að lofa einfaldlega einhverju sem okkur langar að gefa fólki vegna þess að við eigum að vera svo góðir stjórnmálamenn.

Það sem mér finnst standa eftir við lok umræðunnar er rót vandans sem er enn til staðar. Við höfum óverðtryggð lán og vextirnir eru háir. Verðbólga er lág núna og hefur verið í einhvern tíma, vextirnir eru samt mjög háir. Það vandamál virðist ekki fara neitt. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hlakka til að sjá framvindu málsins en ég verð að segja að mér þykir rótin að vandanum ekki hafa komist nægilega til umræðu hér. Ég vona því að umræðan um málið verði (Forseti hringir.) ítarlegri og vænti þess í kjölfar framlagningar frumvarps hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur.



[11:43]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er vissulega rétt að það er mikilvægt að ræða hér rót vandans. Okkur hefur orðið eitthvað ágengt á undanförnum áratugum. Mér finnst til dæmis sjálfsagt að rifja upp að þegar ég var nýkominn í heiminn, ætli ég hafi ekki verið þriggja ára, fór verðbólgan yfir 20%. Hún fór ekki undir 20% fyrr en ég hafði náð 19 ára aldri. Frá því að ég var þriggja ára til 19 ára var hún stanslaust 20% og að jafnaði var hún miklu hærri, 40, 50, 60% verðbólga. Hún fór yfir 100% á einum tímapunkti. Þessir tímar eru tímarnir þegar verðtryggingin var tekin upp. Síðasti áratugur síðustu aldar og árin á þessari öld hafa einkennst af miklu minni verðbólgu en hún er samt enn of mikil og vextir þar af leiðandi enn of háir og allt rétt sem fram hefur komið hér, m.a. hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, að flest venjulegt launafólk er í strögli með að standa undir húsnæðislánum á þessu vaxtastigi. Þetta er bara svona.

Það sem við þurfum að gera sem samfélag er að byggja betur brýr milli þess sem stjórnvöld eru að gera annars vegar og vinnumarkaðurinn hins vegar og síðan er samspilið við það sem er að gerast í Seðlabankanum þannig að við náum betur tökum á þessu. Á þessu kjörtímabili hefur verðbólga verið lág, ekki bara vegna þess að það hefur gengið svo vel í þessu samstarfi, heldur ekki síður vegna þess að við höfum flutt inn verðhjöðnun. Það sem hefur gerst hér eru enn ákveðin einkenni þess sem við höfum haft um of langan tíma, að hlutirnir tala ekki nægilega vel saman. Við erum til dæmis að taka út að öllum líkindum meiri kaupmátt núna en innstæða er fyrir. Tekst okkur að ná mjúkri lendingu eftir það? Það verður mjög krefjandi verkefni. En þetta hangir allt á því að við störfum í anda nýrra laga um opinber fjármál til lengri tíma, (Forseti hringir.) að ríkisfjármálin styðji við stöðugt verðlag í landinu og að það sé traust milli vinnumarkaðar og stjórnvalda sem leiði fram ábyrga kjarasamninga og að við róum þannig sameiginlega öllum árum að meiri stöðugleika, minni verðbólgu og lægra vaxtastigi. Þetta er hægt að gera. Okkur hefur ekki tekist vel að gera þetta í gegnum tíðina en ég tel að við stöndum á vissum tímamótum núna með SALEK-samkomulagið og nýsamþykkt lög um opinber fjármál. (Forseti hringir.) Fram undan eru vonandi betri tímar fyrir ungu kynslóðina en þeir sem ég var að lýsa á árabilinu 1970–1990.