145. löggjafarþing — 79. fundur
 23. feb. 2016.
sérstök umræða.

aukin viðvera herliðs á Keflavíkurflugvelli.

[14:22]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég óskaði eftir sérstakri umræðu við hæstv. utanríkisráðherra um aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli því að okkur í Vinstri grænum finnst mikilvægt að á Alþingi fari fram opin umræða um öryggis- og varnarmál, stefnu stjórnvalda þegar kemur að varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Síðast en ekki síst er mikilvægt að ræða þessi mál í samhengi við aukna spennu í alþjóðamálum.

Fyrr í þessum mánuði voru fluttar fréttir í Stars and Stripes, sem er dagblað og vefrit Bandaríkjahers og gefið út af varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, um að fyrirhuguð væru aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli. Sótt hefur verið um fjárveitingu til að ráðast í breytingar á flugskýli fyrir um 2.700 millj. kr. Jafnframt kom fram í umræddri frétt að mögulega kynni þetta að verða fyrsta skrefið í átt að varanlegri viðveru Bandaríkjahers í Keflavík.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur reynt að gera lítið úr þessum fréttum og m.a. svarað fyrir málið í fjölmiðlum á þann hátt að ekki standi til að hér verði umsvif eins og áður en herinn fór. En það er þó ljóst að það er ansi breitt bil á milli herstöðvar með þúsundir hermanna og núverandi umsvifa. Við brottför hersins árið 2006 var gert samkomulag um framkvæmd núverandi varnarsamnings. Telur hæstv. utanríkisráðherra ef til vill ástæðu til að gera breytingar á því?

Það er ekkert leyndarmál að margir innan Bandaríkjahers eru þeirrar skoðunar að æskilegt væri að hafa meiri umsvif á Íslandi en nú eru. Bob Work, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, staðfesti það til að mynda í heimsókn hingað til lands í september á síðasta ári. Í því ljósi eru það að sjálfsögðu talsverð tíðindi að opinbert vefrit hersins skuli sérstaklega vekja athygli á þessum fregnum og tengja það hugleiðingum um aukna viðveru. Þótt íslenskir ráðamenn segi málið ekki fréttnæmt er greinilegt að einhverjum í Pentagon þykir svo vera. 2.700 millj. kr. eru mikið fé og er engin ástæða til að gera lítið úr þeirri upphæð.

Það er líka eðlilegt að skoða þessar áætlanir í samhengi við þann stóraukna viðbúnað sem Bandaríkjaher fyrirhugar í Evrópu. Bandaríkin, Rússland og Bretland eru öll að endurnýja kjarnorkuvopn sín. NATO-ríki vinna að uppsetningu eldflaugavarnarkerfa í Austur-Evrópu, sem augljóslega beinast gegn Rússum. Rússneski herinn hefur eflt viðbúnað í mörgum flotastöðva sinna og í nokkrum grannríkjum Rússlands hafa verið settar á legg hraðsveitir sem kalla má til með skömmum fyrirvara ef til átaka kemur.

Allt hnígur þetta því í sömu átt. Það er ákveðin spenna og vopnakapphlaup er hafið í Evrópu. Það eru alvarleg tíðindi. Markmiðið með hinum fyrirhuguðu breytingum á flugskýlunum á Miðnesheiði er að þau geti þjónustað enn stærri og öflugri kafbátaleitarflugvélar. Öflugri flugvélar leiða til þess að rússneskir kafbátar þurfa að vera enn hreyfanlegri á siglingum sínum. Hættan á stigmögnun vex með tilheyrandi hættu á slysum sem gætu haft hörmulegar afleiðingar í för með sér.

Hæstv. forseti. Við eigum að nálgast þetta mál af fullri alvöru en ekki yppa öxlum og láta eins og það snúist bara um tímabært viðhald á gamalli flugskemmu. Stjórnvöld og raunar allir stjórnmálaflokkar eiga að svara því hver vilji þeirra sé varðandi umsvif erlendra herja á Íslandi. Er það vilji hæstv. ráðherra að Bandaríkjaher byggi upp enn meiri aðstöðu en fyrir er, auki hér umsvif sín og viðveru?

Frá því að herstöðinni á Miðnesheiði var lokað árið 2006 höfum við horft upp á gríðarlega aukningu í almennu millilandaflugi um Keflavíkurflugvöll. Fer sú starfsemi saman við aukin hernaðarumsvif? Á sama hátt má spyrja sig varðandi orrustuflugsæfingar NATO-ríkja hér á landi sem kallaðar hafa verið loftrýmisgæsla: Hvernig samræmast lágflugsæfingar hagsmunum ferðaiðnaðarins, dýralífi og náttúruvernd?

Fyrir okkar leyti í Vinstri grænum svörum við því til að aukin hernaðarleg umsvif hér á landi þjóni ekki jákvæðum tilgangi og vinni raunar gegn öryggi þjóðarinnar. Að okkar mati eru framkvæmdir við hernaðarmannvirki á Miðnesheiði hrein tímaskekkja og að réttara væri að huga að uppsögn varnarsamningsins en að auka umsvif eða (Forseti hringir.) viðveru hersins í Keflavík.



[14:28]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu því að mikilvægt er að ræða öryggis- og varnarmál reglulega og út frá aðstæðum hverju sinni. Nú er það svo að margt hefur breyst í umhverfis- og öryggismálum í Evrópu frá því að varnarliðið hvarf héðan af landi brott haustið 2006. Hryðjuverkaógn hefur aukist, netárásir verða sífellt algengari og innlimun Rússlands á Krímskaga árið 2014 markaði í raun tímamót í sögu Evrópu, þegar landamærum var breytt með vopnavaldi í fyrsta skipti frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Þessi breytta mynd hefur haft sín áhrif hér á Íslandi og á norðanverðu Atlantshafi þar sem vart verður aukinna hernaðarumsvifa, hvort heldur er í lofti eða á legi.

Hér er sérstaklega spurt um aukna viðveru herliðs á Keflavíkurflugvelli. Hún hefur aukist nokkuð á undanförnum árum í takt við versnandi horfur í öryggismálum í okkar heimshluta. Frá árinu 2008 hefur farið fram á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli reglubundin loftrýmisgæsla af hálfu Atlantshafsbandalagsins. Hún fer fram þrisvar á ári og frá árinu 2017 stefnir í að hún verði fjórum sinnum á ári, sem var upphafleg ákvörðun NATO þegar herinn fór héðan 2006.

Þá hafa farið fram reglubundnar æfingar og viðkoma ýmiss konar flugvéla vegna rannsókna, eldsneytistöku eða viðhalds og viðgerða. Þá hefur orðið aukning í flugi kafbátaleitarvéla, ekki síst frá Bandaríkjunum en einnig frá Kanada á undanförnum tveimur til þremur árum, sem á rætur að rekja til aukinna hernaðarlegra umsvifa rússneska norðurflotans sem staðsettur er á Kólaskaga.

Kafbátar norðurflotans sækja í auknum mæli út á Atlantshafið og þykir, í ljósi breyttra öryggisaðstæðna í Evrópu, fyllsta ástæða til að fylgjast með ferðum þessara kafbáta, meðal annars frá Íslandi. Nú gegnir landfræðileg staða okkar, varnarsamningurinn við Bandaríkin og aðild að NATO og sú aðstaða sem er til staðar á öryggissvæðinu mikilvægu hlutverki í þessu samhengi.

Kafbátaleitarvélarnar sem notaðar eru og hafa undanfarið verið í fréttum kallast P-8. Þær eru að taka við af eldri gerð kafbátaleitarvéla sem nefndar voru P-3 og eru að úreldast. Til að hægt sé að koma þessum P-8 vélum inn í flugskýli Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli þarf að breyta gafli skýlisins og stækka hurðir. Enn fremur þarf að styrkja gólf skýlisins og mála aksturslínur. Af þeim sökum hefur bandaríski sjóherinn farið fram á rúmlega 21 millj. dollara eða 2,7 milljarða kr. fjárveitingu í varnarmálahluta fjárlaga fyrir árið 2017 sem Bandaríkjaforseti sendi nýlega til þingsins. Þeirri fjárveitingu er ætlað að standa straum af þeim breytingum sem hér hafa verið nefndar og gera þarf á skýlinu, auk þess að koma á fót þvottaaðstöðu fyrir vélarnar.

Ég hef fagnað því að Bandaríkjamenn vilji leggja til fjármuni til endurbóta á þessu flugskýli og tel það styrkja varnir landsins og NATO. Í þessu felst engin eðlisbreyting á viðveru herliðs á Keflavíkurflugvelli. Árið 2014 voru fimm til átta kafbátaleitarflugvélar hér í samtals 24 daga með 165 þátttakendum. Árið 2015 voru ein til fjórar kafbátaleitarvélar hér samtals fjórum sinnum á mismunandi tímum með alls 216 þátttakendum. Þessi aukna viðvera er vel innan ramma varnarsamningsins. Engin beiðni hefur borist frá bandarískum stjórnvöldum um staðbundna viðveru herliðs á Keflavíkurflugvelli og engar viðræður hafa átt sér stað um neitt slíkt.

Það er líka ástæða til að halda því til haga að flug rússneskra herflugvéla við Ísland hefur verið verulegt frá árinu 2006. Þannig hafa rússneskar hervélar flogið upp að Íslandi 48 sinnum á tímabilinu 2006–2015 með samtals 107 hervélum. Þar sem þær fljúga án þess að auðkenna sig getur það skapað hættu fyrir almenna flugumferð, ekki síst vegna mikillar flugumferðar milli Norður-Ameríku og Evrópu í námunda við landið. Eftirlit með loftrými Íslands og loftrýmisgæsla er því nauðsynleg í þessu tilliti.

Herra forseti. Varnarsamstarf okkar við Bandaríkin og innan Atlantshafsbandalagsins er sífellt í mótun og þarf að endurspegla landslag í öryggismálum hverju sinni. Því miður hefur sigið á ógæfuhliðina á undanförnum árum í heimshluta okkar. Ísland er ekki eyland að því leytinu til og við höfum okkar skyldur og ábyrgð sem bandalagsríki. Ég vil hins vegar árétta enn á ný að engar viðræður eiga sér stað um viðvarandi veru erlends herliðs á Íslandi.



[14:32]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir á þakkir skildar fyrir að taka þetta mál hér upp. Viðhorf sem hún túlkar þurfa að heyrast hér í þessum sölum. Ég er líka þeirrar skoðunar að hún hafi rétt fyrir sér þegar hún segir að vestan hafs sé vilji fyrir því, innan bandarísku stjórnsýslunnar, að hafa meiri umsvif hér. Ég tel að Bandaríkjamenn sjái eftir því og telji það ranga ákvörðun, sem tekin var að frumkvæði Donalds Rumsfelds varnarmálaráðherra á sínum tíma, að fara héðan. Við skulum ekki gleyma því hvernig sá viðskilnaður var. Íslendingar töldu þá að þeir ættu í samningaviðræðum við Bandaríkjamenn um það með hvaða hætti herinn færi þegar þeim barst bréf þar sem þeim var tilkynnt undanbragðalaust að hann væri farinn.

Ég vil hins vegar taka það skýrt fram að um þetta gilda alveg skýr ákvæði í þeim samkomulögum sem við höfum gert. Þær breytingar sem verið er að gera á Keflavíkurflugvelli rúmast algerlega innan þess viðauka sem gerður var við hinn tvíhliða varnarsamning millum Íslands og Bandaríkjanna árið 2006. Við búum við dálítið sérkennilega varnarstefnu sem helgast af því að við erum herlaus eyþjóð sem hvorki hefur vilja né burði til að halda úti eigin her. Það er þess vegna sem við höfum gengið frá varnar- og öryggismálum okkar með því að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og með alþjóðlegum samningum. Það sem er að gerast núna rúmast að mínu viti innan ramma þess.

Ég vil hins vegar segja það að ég tel að það pólitíska samkomulag sem líka var gert árið 2006 þurfi að skoða og uppfæra miðað við breyttar aðstæður vegna þess að að ýmsu leyti er það orðið úrelt í dag.



[14:34]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka sérstaklega fyrir þessa umræðu. Hún er mikilvæg. Þegar fréttin um þessar breytingar á Keflavíkurflugvelli fór af stað vakti hún mikla umræðu í samfélaginu sem bendir til þess að við þurfum að ræða þessi mál oftar hér á þingi og bara almennt.

Við Íslendingar tölum oft um að við séum herlaus þjóð og höfum verið alla tíð, en engu að síður var herlið með fasta viðveru á Íslandi í 40–50 ár. Mjög margir fögnuðu því þegar herinn fór og hafa fagnað því að við höfum getað búið við þær aðstæður að þurfa ekki að hafa her. Þess vegna held ég að það hafi komið illa við marga þegar þær fréttir heyrðust, sérstaklega í þessu formi, sem eins konar njósn úr herriti utan lands, að til stæðu miklar breytingar; eða gefið var í skyn að hér gæti verið upphaf að miklum breytingum. Það er ekki að ástæðulausu að við þurfum að taka umræðu um það vegna þess að þrátt fyrir það samkomulag sem gert var þegar Bandaríkjaher fór héðan, um loftrýmisgæslu og aðstöðu NATO á Keflavíkurflugvelli, þá skiptir mjög miklu máli að hér er ekki föst viðvera herliðs og mikilvægt að breið umræða skapist um þær breytingar sem eru gerðar. Herleysi Íslands er mikilvægt og stendur hjarta Íslendinga nær.

Það er sorglegt (Forseti hringir.) að horfa upp á aukna vígvæðingu í heiminum og við Íslendingar skulum vara okkur á því að láta draga okkur inn í það eins og við mögulega getum.



[14:37]
Hanna Birna Kristjánsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðuna en ítreka það sem ég hef áður sagt, að ég tel ekkert í umræddri ákvörðun Bandaríkjanna einni og sér, þ.e. um að bæta aðstöðu í flugskýli, hækka loft og styrkja gólf og fleira, benda til aukinna hernaðarlegra umsvifa hér á landi. Ég tek líka undir með utanríkisráðherra að við getum ekki tengt þá ákvörðun við neitt annað en eðlilegt og fyrirsjáanlegt viðhald og aðgerðir á svæðinu, auk þess sem komið hefur fram í umræðunni að þessi aðgerð og þessar athafnir Bandaríkjanna á svæðinu eru í fullu samræmi bæði við varnarsamninginn frá 1951 og viðaukann og viljayfirlýsinguna hjá ríkjunum báðum árið 2006 þegar herinn fór, sem breytti þó engu um þessa grunnstoð í íslenskum utanríkismálum og íslenskum varnarmálum, við eigum enn þá í öflugu og góðu varnarsamstarfi við Bandaríkin. Mér finnst stundum á umræðunni eins og það hafi horfið árið 2006, en það var auðvitað ekki þannig.

Þetta hefur ítrekað komið fram og kom fram á sérstökum fundi hv. utanríkismálanefndar sem við áttum með ráðherra og helstu ráðgjöfum okkar og sérfræðingum okkar á þessu sviði þar sem við áttum góða umræðu um þessi mál.

Það breytir þó engu um það að ég tek alveg undir það sem allir hafa sagt hér að það er sannarlega ástæða til að ræða stöðuna í öryggis- og varnarmálum, kannski vegna flests annars en umrædds flugskýlis, og þá staðreynd að ýmislegt bendir til þess, því miður, að efla þurfi þá vakt á heimsvísu. Ógnir við öryggi okkar eru einfaldlega fleiri. Þær eru einfaldlega flóknari í dag en þær voru og þær eru bæði fleiri og flóknari en við vildum að þær væru. Ísland er ekki undanskilið í því efni.

Þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir og þekkjum krefjast þess að mínu mati að við stöndum áfram dyggan vörð um samstarf við NATO-ríkin, að við stöndum áfram dyggan vörð um veru okkar í NATO og skynjum og vitum hversu mikilvægt það samstarf er fyrir okkur, og að við stöndum (Forseti hringir.) dyggan vörð og tryggjum áframhaldandi traustar stoðir undir það varnarsamstarf sem við höfum átt (Forseti hringir.) við Bandaríkin. Það kemur svo sem engum á óvart, virðulegur forseti, að það sé afstaða mín til málsins, en ég tel þetta tvær meginstoðirnar í utanríkisstefnu Íslands.



[14:39]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessar umræður. Nú hefur hæstv. utanríkisráðherra nokkuð vísað í varnarsamninginn og mig langar því að spyrja: Hvaða samning? Var gerður nýr samningur og hvar er hann aðgengilegur og hvað má mikið stækka umsvif Bandaríkjahers hérlendis áður en það fer út fyrir þennan samning? Það þarf náttúrlega öllum að vera ljóst að þeim varnarsamningi sem við höfðum við Bandaríkin var einhliða sagt upp af Bandaríkjamönnum árið 2006.

Mér finnst mikilvægt að það komi afgerandi og skýr yfirlýsing frá hæstv. utanríkisráðherra um að hér sé ekki verið að opna herstöðina að nýju. Ef maður gúglar Iceland US Navy fer maður inn á vefi eins og Stars and Stripes, Defence News og Navy News og þar kemur alls staðar fram að við séum að opna herstöðina að nýju, að það sé í undirbúningi og það séu meira að segja einhvers konar viðræður þar að lútandi. Mér finnst því mikilvægt að það komi hreinlega yfirlýsing frá utanríkisráðuneytinu um að svo sé ekki, eingöngu sé verið að byggja þvottahús.

Það er alveg ljóst að haft hefur verið samband við mig frá fréttamiðlum sem ég hef hreinlega ekki treyst mér til að svara um þetta mál af því að mér finnst það ekki nægilega afgerandi. Mér finnst mikið slegið úr þessum miklu umsvifum og ég vil fá algjörlega skýr og afdráttarlaus svör um hve mikið má stækka innan þessa samnings. Og hvar er samningurinn aðgengilegur?



[14:41]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að taka þetta mál upp. Það er sannarlega þarft og við þyrftum að eiga hér miklu dýpri umræðu um stöðu alþjóðamála og hlutverk Íslands eða stöðu í þeim efnum.

Ég er þeirrar skoðunar að Ísland eigi að hafa kjark og sjálfstæði til þess að meta algerlega sjálfstætt og á sínum forsendum hvort við kærum okkur um að Ísland og íslenskt yfirráðasvæði verði eitthvert peð eða hrókur á því skákborði stórveldanna, aðallega Rússlands annars vegar og Bandaríkjanna og nánustu fylgismanna þeirra innan NATO hins vegar, sem eru að tala sig upp í nýtt kalt stríð. Það eru hin verstu ótíðindi og við hljótum að harma að menn á báða bóga gíri sig upp í það og séu að hnykla vöðvana.

Fyrir okkur sem vopnlausa smáþjóð á norðlægum slóðum, og vonandi áfram friðelskandi, er fátt dapurlegra en að sjá þá tilburði þar sem menn tala fyrir auknum vígbúnaði og auknum umsvifum af þessu tagi í heimshluta okkar. Við eigum að láta það skýrt í ljós bæði í orði og verki að við höfum ekki áhuga á að Ísland verði notað í slíku stigmögnunarvígbúnaðarstríðsæsingartali.

Það er mjög alvarlegt og ekki síst fyrir samstarf á norðurslóðum þar sem við þurfum á að halda friðsamlegri og góðri samvinnu þessara aðila sem eiga aðild að norðurskautinu. Við horfum á þetta versna núna mánuð frá mánuði, missiri fyrir missiri, þangað til nánast er að verða brostinn samstarfsgrundvöllur milli Rússlands og annarra aðila innan heimskautaráðsins, í Evrópuráðinu, að hluta til í norrænu samstarfi og svo framvegis. Við erum að fara áratugi aftur í tímann með þessu áframhaldi.

Mér fundust ræður hæstv. utanríkisráðherra og formanns hv. utanríkismálanefndar vera eins og gamalt bergmál úr neðanjarðarhelli sem minnti mig ónotalega á umræðuna hérna fyrir 25–30 árum. NATO-aðildin, vondu Rússarnir, mikilvægi þess að við stöndum saman og öll sú klisja. Hvað hefur Ísland með það að gera? (Forseti hringir.) Ekki nokkurn skapaðan hlut. Við eigum að halda áfram að gleðjast yfir því að herinn var svo vinsamlegur að yfirgefa okkur hérna 2006.



[14:44]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að kalla eftir þessari mikilvægu umræðu um öryggis- og varnarmál. Í dag horfum við upp á breytta heimsmynd, bæði pólitískt og landfræðilega, og aukna hernaðarlega spennu í heiminum. Það er vaxandi hryðjuverkaógn með auknum áhrifum hryðjuverkasamtaka eins og Daesh og óstöðugleika í löndunum við Austur-Miðjarðarhaf og Norður-Afríku, ekki síst í tengslum við átökin í Sýrlandi, Írak og Líbíu sem hafa hrundið af stað öldu innflytjenda til nágrannasvæða og valdið víðtækum öryggisógnum í Miðausturlöndum.

Varnaráætlanir þurfa eðli málsins samkvæmt að vera í reglulegri endurskoðun og fjallar 5. gr. Atlantshafssáttmálans um að árás á eitt aðildarríki í NATO skuli talin árás á öll. Þetta er skýr og ófrávíkjanlegur þáttur NATO. Í því felst mikil trygging fyrir litla þjóð.

Þess má geta að NATO-þingið, þar sem ég er formaður Íslandsdeildar, samþykkti nýverið skýrslu um áskoranir og tækifæri á norðurslóðum sem undirstrikar aukið landfræðipólitískt mikilvægi svæðisins þar sem áhrif loftslagsbreytinga hafa meðal annars gert auðlindir þess aðgengilegri og opnað fyrir nýjar og mikilvægar siglingaleiðir.

Þá hefur Ísland verið leiðandi í málefnum er varða vinnu Atlantshafsbandalagsins um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325, um konur, frið og öryggi. Þar hefur mikið áunnist og eftirfylgni okkar og framlag hefur vissulega skipt máli, en dyggur stuðningur við málefnið á ráðherra- og leiðtogafundum hefur þó skipt sköpum. Það er hluti af varnarsamningi Íslands við Bandaríkjamenn frá 1951 að þeir komi hingað og sinni vörnum. Ef bandaríski herinn hefur áhuga á meiri háttar viðveru hér á landi þarf að ræða það við íslensk stjórnvöld og til þess hefur ekki komið.

Við sem samfélag þurfum að vera vakandi fyrir breytingum í (Forseti hringir.) alþjóðamálum og fagna ég því umræðu okkar hér í dag.



[14:46]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég hef ekki lesið mikið Stars and Stripes, ekki heldur Defence News, og enginn erlendur blaðamaður hefur hringt í mig til að spyrja mig álits á þessu. Hitt liggur alveg fyrir, að það þarf engar frekari yfirlýsingar frá hæstv. ríkisstjórn um þetta mál. Mér fannst hæstv. utanríkisráðherra gefa mjög skýlausa yfirlýsingu þegar hann sagði áðan að það lægi algjörlega skýrt fyrir að hann hefði hvorki átt í neinum viðræðum um að herinn kæmi hingað aftur né hefði þess verið óskað af neinum sem hann hefur átt viðræður við. Þá finnst mér að málið liggi algjörlega skýrt fyrir.

Hitt er alveg rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í kjarnyrtri ræðu áðan, það hafa orðið breytingar á alþjóðlegu umhverfi. Fyrir nokkrum árum töldu menn einfaldlega að það væri að bresta á með ævarandi friði millum Rússlands og Bandaríkjanna. Við sáum það árið 2008 þegar Medvedev forseti talaði beinlínis með þeim hætti að menn áttu bókstaflega von á því að það yrði sérstakt samstarf á millum NATO og Rússlands á næstu árum. Allt hefur þetta breyst. Við sjáum að umsvifin hafa líka breyst á norðurslóðum. Það er hárrétt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, við þurfum að gera það sem við getum til að koma í veg fyrir að norðurslóðir sem hafa verið lágspennusvæði breytist úr því og verði háspennusvæði. En við sjáum auðvitað að ýmsar þjóðir, Norðmenn, Danir og ekki síst Rússar, eru að byggja herstöðvar sem fikra sig æ lengra norður. Við þurfum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar.

Það breytir hins vegar ekki því að við höfum tekið þann kost að vera aðilar að stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins til þess að við yrðum varin ef til hins óhugsanlega kæmi. Það að vera í slíku samstarfi felur í sér réttindi en líka (Forseti hringir.) skyldur. Þær breytingar sem við erum að ræða hér sýnast mér rúmast næsta auðveldlega innan þess samkomulags sem gert var 2006.

Mig langar til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Stendur til að breyta með einhverjum hætti hinu pólitíska samkomulagi, (Forseti hringir.) m.a. til þess að það taki mið af ákveðnum breytingum sem hafa orðið hér á landi?



[14:49]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að sú hugsun sé orðuð upphátt í þessum sal að hæstv. utanríkisráðherra má ekki og á ekki í samskiptum við Bandaríkin fyrir hönd Ísland að haga sér eins og vængbrotinn vonbiðill sem er hvenær sem er tilbúinn að taka á móti dömunni sem hafnaði honum. Ég er heldur ekki að segja að hann sé að því, en það er mikilvægt að sú hugsun sé orðuð upphátt hér og það er gott að heyra að það er sameiginlegur skilningur á því að það eru aukin umsvif og að aukin vera herliðs á Keflavíkurflugvelli kalli á sérstaka umræðu hér í landinu, og kalli sérstaklega á sjálfstæða ákvörðun um það efni. Enn fremur er gríðarlega mikilvægt að við gerum Bandaríkjunum það ljóst að það er ekki þeirra að ákveða það. Það er ákvörðun sem er tekin hér á landinu. Ef tekin verður ákvörðun um að taka þátt í einhverju vígbúnaðarkapphlaupi þarf sú umræða að fara fram hér í landinu áður en það er gert. Ég er ekki hlynntur slíkri ákvörðun, svo það sé sagt.

Svo vil ég líka segja út af því sem hér hefur komið fram í umræðunni í dag að mér finnst mjög ofmælt að halda því fram að við eigum í einhverju sérstaklega góðu varnarsamstarfi við Bandaríkin. Ég lít ekki svo á að viðskilnaður Bandaríkjamanna við okkar land árið 2006 hafi verið góður eða til fyrirmyndar. Hann skildi eftir samfélag suður með sjó sem var í sárum, lamað, og skildi eftir gríðarlega mikið atvinnuleysi. Ég er ekki búinn að gleyma þeirri sögu allri. Menn verða að hafa algjörlega í huga í þessum efnum að það eru engar vinaþjóðir þegar kemur að hernaðarsamvinnu. Bandaríkjamenn eru ekki að hugsa um hagsmuni Íslendinga eða verja þá sérstaklega. Þeir gæta hagsmuna sinna og eingöngu sinna, alveg sama þó að Davíð hafi verið vinur Bush.



[14:51]
Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef haft áhyggjur af öryggis- og varnarmálum Íslands um nokkurt skeið, sérstaklega eftir árásir hryðjuverkasamtaka í Evrópu að undanförnu og einnig vegna hegðunar Rússa á alþjóðavettvangi sem ég vil alls ekki taka undir að sé einhver Rússafóbía þar sem maður horfir upp á að Rússar brjóta alþjóðalög og sáttmála, innlima Krímskaga með hervaldi og hafa hernaðarumsvif í Úkraínu. Auk þess er ótti við að tiltölulega nýfengið og langþráð sjálfstæði Eystrasaltslandanna, Eistlands, Lettlands og Litháens, verði ekki virt. Þetta eru áhyggjur sem má ekki gera lítið úr.

Ég hef einnig, eins og fleiri íslenskir stjórnmálamenn, verið ákafur talsmaður þess að hér á landi yrði sett á fót alþjóðleg leitar- og björgunarsveit, nú þegar skipaumferð norður af Íslandi hefur stóraukist og í kjölfar opnunar norðaustursiglingaleiðarinnar. Við munum horfa upp á stórkostlegar breytingar á skipaumferð á heimsvísu og því tel ég að leitar- og björgunarmiðstöð hér við land væri mjög nauðsynleg.

Eftir árásirnar á tvíburaturnana í Bandaríkjunum breyttist stöðumat Bandaríkjanna — það var á meðan Rússar voru okkur enn vinveittir — og þeir fóru frá Íslandi eins og öllum er kunnugt en nú stendur til að fara að framkvæma á ný á Keflavíkurflugvelli fyrir hönd bandaríska flotans til að stækka flugskýli. Ég fagna auknum varnarviðbúnaði hér á landi með öryggishagsmuni Íslendinga í fyrirrúmi.



[14:53]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eftir því sem ég fæ best séð frá fjölmiðlum um þetta mál tel ég þessa breytingu eina og sér ekki vera hættulega sem slíka en hún vekur hins vegar réttmætar spurningar og ég þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir að kalla til þessarar umræðu vegna þess að tortryggnin sem rís upp þegar þessi mál ber á góma og þegar svona fréttir berast er mjög réttmæt. Hún er ekki aðeins skiljanleg heldur er hún byggð á reynslu af veigamiklum mistökum í utanríkismálastefnu Bandaríkjanna, sérstaklega þegar Ísland hefur asnast með í þá vegferð. Ég bið virðulegan forseta að fyrirgefa orðbragðið en ég tel það við hæfi.

Eitt sorglegasta dæmið um spádóma sem hafa ræst var Íraksstríðið árið 2003 þar sem því var spáð að það mundi auka ógnina af hryðjuverkum til lengri tíma, sem er nákvæmlega það sem hefur gerst. Það er ekki hægt að segja að uppgangur ríkis íslams í Miðausturlöndum núna, sérstaklega Sýrlandi og norðurhluta Íraks, sé neitt annað en bein afleiðing af þeirri vondu ákvörðun sem Ísland tók þátt í og var ekki kölluð meiri háttar ákvörðun á þeim tíma.

Það er kaldhæðnislegt að síðar í þeirri umræðu sagði þáverandi hæstv. ráðherra að jafnvel þótt menn sæju ekki fyrir sér nákvæmlega hvaða ógn steðjaði að Íslandi gæti alltaf eitthvað hræðilegt gerst og þess vegna þyrftu menn að hafa varnir. En það voru ástæður. Ein var að við vorum með Bandaríkjaher og önnur að við studdum Íraksstríðið. Það er ekki sjálfkrafa aukning á öryggi að auka hervald. Meiri hernaðarviðbúnaður þýðir ekki sjálfkrafa að maður sé öruggari. Ákvarðanirnar skipta máli og þegar við lítum fram á veginn eigum við að reyna að læra af mistökum fortíðarinnar þegar við höfum tekið þátt í veigamiklum, sérstaklega fyrirséðum mistökum í utanríkismálastefnu Bandaríkjanna.

Þess vegna er þessi tortryggni algjörlega réttmæt, hún er algjörlega skiljanleg og hún er mikilvæg til þess að þegar fram líði stundir pössum við okkur betur þegar við tökum ákvarðanir í samfloti við vinaþjóðir okkar. (Gripið fram í: Hvað finnst þér um …?)



[14:55]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu sem og svör hæstv. ráðherra. Í henni kom fram ansi skýr greinarmunur á afstöðu flokka, bæði til alvarleika þessa máls sem og viðhorfsins til hernaðarumsvifa og viðveru hers á Íslandi. Mér finnst sérstakt að tala annars vegar um breytt landslag í heiminum frá árinu 2006 en vilja hins vegar ræða þetta flugskýlamál mjög þröngt eins og að þetta tengist ekki. Líkt og ég kom að í ræðu minni áðan held ég að þetta tengist alveg beint. Þetta er partur af breyttri heimsmynd og þetta er birtingarmyndin á Íslandi.

Mér finnst miður að heyra að hæstv. ráðherra vilji gefa í þegar kemur að loftrýmisgæslu vegna þess að ég tel að það sé í rauninni ekkert annað en æfingabúðir fyrir erlenda heri, við veitum þeim sem sagt þann aðgang hér á landi. Hins vegar tel ég alveg rétt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði, að Bandaríkin sjái eftir því að hafa farið héðan með allt sitt herlið og vilji koma hingað aftur.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, sem sagði að engar viðræður hefðu farið fram eða að Bandaríkin hefðu ekki beðið um að fá að koma hingað aftur, hvort það sé ekki alveg ljóst að ef að einhvers konar beiðni um þetta kemur muni hæstv. ráðherra gera grein fyrir því á Alþingi. Að mínu mati er lykilatriði að fram fari opin og upplýst umræða um þessi mál, hún fari ekki bara fram í hv. utanríkismálanefnd þar sem menn eru bundnir trúnaði (Forseti hringir.) vegna þess að þetta er mál af því tagi að íslenskur almenningur á rétt á að vita hvað er að gerast í því og hvaða afstöðu stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar hafa til þess.



[14:58]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég vil byrja á að segja að það er ekki rétt sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að ég hafi ekki tengt breytingarnar á flugskýlinu við breytingar í heiminum. Það er einmitt það sem ég sagði. Það eru nýjar, öflugri vélar sem þarf að vera hægt að hýsa í Keflavík vegna þess að þær eru að leita að kafbátum í kringum Ísland. Þannig er það bara, því miður, þannig að auðvitað tengist þetta þeirri heimsmynd.

Það að bandaríski herinn, flotinn, sé tilbúinn að kosta eða vilji kosta viðgerðir á þessu flugskýli, NATO-flugskýli nota bene svo því sé haldið til haga, finnst mér í rauninni jákvætt. Það lendir þá ekki á okkur.

Það er ekki búið að spyrja margra spurninga hér í dag en samt hafa nokkrar komið fram. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði hvort til stæði að breyta hinu pólitíska samkomulagi. Í langan tíma hafa staðið yfir viðræður um hvort þetta samkomulag sé nógu gott, nái akkúrat utan um það sem við erum að ræða í dag eða hvort við þurfum að uppfæra það með einhverjum hætti. Ég hef farið fram á það, og það hefur komið fram áður úr þessum ræðustól, að slíkar viðræður þurfa að eiga sér stað. Þetta er orðið tíu ára gamalt samkomulag sem var gert 2006 og það þarf klárlega að fara yfir það út frá þeirri breytingu sem hefur orðið og líka út frá vilja Íslendinga.

Varðandi spurningar um varnarsamninginn er hann einfaldlega á vef utanríkisráðuneytisins þannig að sá sem gúglar varnarsamning ætti að fá hann upp. Þar eru líka viðaukarnir og þar kemur fram allt um þetta mál, það er ekkert erfitt að finna það.

Ég hef marglýst því yfir að það eru engar viðræður í gangi um að varnarliðið komi aftur í Keflavík. Það eru engar viðræður um það og engar óskir hafa komið fram um varanlega viðveru hers á Íslandi. Ég get ekki sagt það miklu skýrar, það er ekki hægt. Menn geta svo reynt að snúa út úr því, ég hef ekki hugmynd um hvað mönnum dettur í hug með slíkt.

Það er rétt sem hefur komið fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, norðurskautið hefur verið mjög friðvænlegt fram að þessu og verður það vonandi áfram. Við leggjum mikla áherslu á að svo verði. Það eru (Forseti hringir.) einhver teikn á lofti, en þau eru ekki — ég ætla ekki að taka eins djúpt í árinni og hv. þingmaður gerði áðan. Síðan talar hv. þingmaður um klisjur. Gleymum því ekki að hv. þingmaður sat í fjögur ár í ríkisstjórn sem hefði getað breytt öllu þessu. (Gripið fram í.)