145. löggjafarþing — 80. fundur
 24. feb. 2016.
störf þingsins.

[15:03]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Réttur manna til að semja um kaup og kjör, samningsrétturinn, er bundinn í stjórnarskrá okkar og er lykilatriði í því að fólk geti sótt sér þá atvinnu sem það vill og barist fyrir bættum kjörum í þeirri atvinnu. Að undanförnu höfum við rætt talsvert um það hvernig við getum fellt samninga inn í einhvers konar ramma. Hér hefur mikið verið rætt um hið norræna vinnumarkaðsmódel sem sé líklegt til að skapa aukna sátt í samfélaginu og aukna sátt á vinnumarkaði, en á sama tíma höfum við séð þróun mála á innlendum vinnumarkaði sem vekur áhyggjur. Á síðustu dögum er það auðvitað þróun mála í Straumsvík sem hv. þingmenn hafa væntanlega fylgst með sem og almenningur í landinu, uppskipunarbannið núna í dag og hvernig yfirmenn reyndu að ganga þar í störf almennra starfsmanna sem síðan var talið verkfallsbrot. Þetta vekur auðvitað spurningar um þann aðila sem rekur álverið, Rio Tinto Alcan, sem á að baki langa og mjög skrautlega sögu þegar kemur að kjaradeilum. Þess er skemmst að minnast að sex mánaða vinnudeila stóð yfir í álveri félagsins í Kanada, svokölluðu Alma-álveri, þar sem 800 verkamönnum var ekki heimilað að mæta til vinnu í sex mánuði, gríðarlega hörð deila sem leystist sem betur fer á endanum. En það vekur auðvitað upp spurningar þegar skoðuð er ferilskrá þessa ágæta fyrirtækis að þar virðast vinnudeilur vera alveg gríðarlegar, mun harðari en gengur og gerist.

Ég vil nota tækifærið og heita á bæði stjórnvöld og aðila vinnumarkaðarins að tryggja að þetta verði ekki reglan á íslenskum vinnumarkaði, að hér verði gengið fram með þeim hætti að allt sé logandi, jafnvel ósagðar hótanir í loftinu um örlög viðkomandi vinnustaðar. Það má ekki verða reglan á íslenskum vinnumarkaði. Og við sem tölum í öðru (Forseti hringir.) orðinu um að við viljum sjá aukna sátt á íslenskum vinnumarkaði þurfum að huga að því í gjörðum okkar hvernig (Forseti hringir.) við ætlum að tryggja þá sátt. Þetta er stórmál fyrir íslenskan vinnumarkað (Forseti hringir.) hvernig þessi deila mun leysast, en auðvitað vona ég (Forseti hringir.) eins og aðrir að þar náist sættir.



[15:06]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir réttum þremur mánuðum lagði ég fram fyrirspurn til skriflegs svar til hæstv. heilbrigðisráðherra. Þar spyr ég hvort til standi að breyta rekstrarformi innan heilsugæslunnar eða annarra heilbrigðisstofnana og ef svo er, hvert sé markmiðið með breytingunni og hvort ráðherra hyggist bera breytinguna undir Alþingi. Ég spyr jafnframt hvort til standi að bjóða út rekstur á heilsugæslustöðvum eða öðrum heilbrigðisstofnunum.

Í þrjá mánuði hefur hæstv. ráðherra ekki látið svo lítið að sinna skyldu sinni að svara mér en hann svaraði mér í morgun með óbeinum hætti. Hann óskaði eftir því með mjög skömmum fyrirvara að fá að koma á fund velferðarnefndar, sem ég sem formaður gaf honum auðvitað tækifæri á að gera, og kynnir okkur að hann sé kominn með nýtt rekstrarlíkan, fjármögnunarlíkan, kröfugerð, varðandi útboð á heilsugæslu. Ég ætla ekki að dæma um þær aðgerðir, ég treysti mér ekki til þess á þessari stundu, en eitt veit ég, það á að bjóða út þrjár nýjar heilsugæslustöðvar. Því á ekki að fylgja neitt sérstakt fjármagn enda eiga sjúklingarnir að geta fært sig á milli heilsugæslustöðva, en 13 þús. manns vantar líka heimilislækni. Og það á að rúmast inni í þessum breytingum.

Nú er búið að fara þannig með heilsugæsluna. Af hverju er ekki hægt að setja inn nýtt fjármögnunarlíkan, kanna hvernig það virki og taka þá frekari ákvarðanir um rekstrarform?

Ég held að við í þessum sal þurfum að sammælast um að breyta lögum um Sjúkratryggingar Íslands þannig að Alþingi hafi um það að segja í hvaða átt heilbrigðiskerfið þróist og ekki sé hægt í skjóli laga að laumast á bak við þingið með breytingar sem þessar.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að gengið verði á ráðherra með svör. Það er eðlilegt að hann svari fyrirspurnum sem berast frá alþingismönnum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:08]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Geta skal þess sem vel er gert. Fram kemur í frétt frá ASÍ að vörukarfa ASÍ hefur lækkað í sjö verslunum frá tímabilinu september 2015 þar til nú í febrúar. Hún hefur reyndar lækkað misjafnlega mikið, mest hjá Hagkaupum, minna hjá öðrum samkeppnisaðilum.

Það er góður áfangi, en betur má ef duga skal vegna þess að mesta lækkunin á tímabilinu er 3,8% en íslenska krónan hefur styrkst um 8% síðustu 12 mánuði gagnvart helstu viðskiptamyntum. Það er samt vel af sér vikið vegna þess að það gerist þrátt fyrir vaxtastigið í landinu, sem er í boði Seðlabankans eins og allir vita. En það breytir ekki því að afkoma þessara verslunarfyrirtækja er gríðarlega góð og hún hefur batnað með hverju ári og einnig í fyrra.

En það leiðir hugann að því að það lækka ekki allar vörur og öll þjónusta á Íslandi þrátt fyrir ærin tilefni. Olíufatið er núna í 31–32 dollurum og hefur sjaldan verið lægra. Það er orðinn drjúgur tími síðan olíufélögin í landinu lækkuðu verð sitt. Þau hafa hins vegar beitt tilviljanakenndum afslætti þrátt fyrir að engin sé Eurovision og ekkert sé fótboltamótið. En það breytir ekki því að ég tel að það sé tilefni til þess nú strax að lækka olíu- og bensínverð á Íslandi.

Ég vil geta um eitt í viðbót, herra forseti. Það er að í síðustu verðbólgumælingu kom fram að flugfarmiðar höfðu hækkað og komið þar með í veg fyrir meiri lækkun á vísitölu en annars hefði orðið. En olíukostnaður Icelandair á síðasta starfsári lækkaði um 5,6 milljarða kr. Þeir eru með methagnað upp á 14 milljarða, (Forseti hringir.) og farmiðarnir hækka. Þarna er eitthvað að sem þarf að laga.



[15:11]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Í byrjun kjörtímabilsins fór fram atkvæðagreiðsla um tillögu þess efnis að bjóða bandaríska uppljóstraranum Edward Snowden ríkisborgararétt á Íslandi. Hún var felld, því miður segi ég því að það er sífellt að koma betur og betur í ljós hvers lags þjóðþrifaverk, það má eiginlega segja alþjóðþrifaverk, það var sem Edward Snowden vann þegar hann ljóstraði upp um njósnir bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar um borgara og stjórnvöld víða um heiminn. Wikileaks greindi frá því í gær að Bandaríkjamenn hleruðu fund aðalritara Sameinuðu þjóðanna og kanslara Þýskalands um loftslagsmál, einnig yfirmann Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, að auki Benjamíns Netanyahus, Berlusconis, Sarkozys og fleiri. Þeim var og er örugglega enn ekkert heilagt í þeim efnum.

Í ljósi þessa var fyndið að heyra formann utanríkismálanefndar Alþingis í umræðum um herinn í gær tala um það góða varnarsamstarf sem stjórnvöld á Íslandi á við yfirvöld í Bandaríkjunum. Það er í það minnsta ljóst að hernaðarsamstarfið er mun nánara Bandaríkjamegin en hjá hinum svokölluðu vinaþjóðum þeirra.

Ég vil segja: Tökum aftur upp mál Edwards Snowdens á Alþingi. Hann hefur ljóstrað upp um mál sem eiga erindi við alla heimsbyggðina. Bjóðum honum hæli á Íslandi. Verum land gagnsæis og borgaralegra réttinda, lýðræðislegra vinnubragða. Það væri jafnframt ánægjulegt í því samhengi ef þingmeirihlutinn mundi hleypa í gegnum þingið máli okkar í Bjartri framtíð um lagalega vernd uppljóstrara, sem við höfum flutt ásamt Pírötum á hverju ári núna um árabil. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:13]
Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að vekja athygli á fréttum undanfarna daga um fjárfestingar íslenskra banka og lífeyrissjóða erlendis í norskum skipaiðnaði og norskum olíuiðnaði, í Fáfni og Havila. Ég verð að lýsa yfir áhyggjum vegna þessarar stefnu eða þessarar útrásar íslenskra banka sem hafa verið reknir og settir aftur á stofn með stuðningi ríkissjóðs og eru núna reknir með beinni eða óbeinni ábyrgð ríkissjóðs, að það sé stefna þessara banka að fara í aðra útrás, að fjárfesta erlendis meðal annars. Meðan við erum í höftum, öll þjóðin, hafa bankarnir verið að fjárfesta fyrir marga milljarða erlendis og ekki dreift áhættu sinni heldur þjappað henni saman inn í einhvern geira sem við höfum ekkert mikið vit á, norskan olíuiðnað. Hvers vegna þurfa framkvæmdamenn í norskum olíuiðnaði að leita til Íslands eftir fjármagni? Er ekki eitthvað að? Eru ekki vextirnir lægri í Noregi? Það er verið að taka áhættu, það er eitthvað í ólagi og það er eitthvað mikið í ólagi þegar íslenskir lífeyrissjóðir í stórum stíl, í staðinn fyrir að dreifa áhættunni, þjappa henni saman inn í þennan geira sem þeir hafa örugglega ekkert vit á.

Ég vil eiginlega kalla eftir því að gerður verði sem fyrst nýr samningur við Íslandsbanka, sem er nú alfarið orðinn ríkisbanki, og honum verði sett eigendastefna sem takmarki mjög möguleika bankans til að fara í útrás til útlanda. Ég vil líka að íslenskir lífeyrissjóðir komi fram og lýsi því hver stefna þeirra er varðandi fjárfestingar í útlöndum.



[15:15]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar til þess að koma inn á skýrslu sem Ríkisendurskoðun lét frá sér í gær og í kjölfarið fylgdi áskorun margra félagasamtaka sem láta sig málefni barna og ungmenna varða.

Upphafið er svona í skýrslunni: „Stjórnvöld hafa ótvíræðar skyldur þegar kemur að geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga.“

Í lok síðasta árs biðu tæplega 400 börn eftir þjónustu Þroska- og hegðunarstöðvarinnar sem starfar á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en þjónar í raun öllu landinu. Þar af voru 120 á biðlista göngudeildar BUGL og 208 á biðlista eftir þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.

Það sem er alvarlegt í þessu máli er að biðtíminn getur orðið allt að eitt og hálft ár.

Ef við reiknum þetta eins og Ríkisendurskoðun gerir má gera ráð fyrir því að um 16.000 börn og unglingar hér á landi séu í þeirri stöðu að þau muni einhvern tíma þarfnast ítarþjónustu eða sérþjónustu vegna geðheilsuvanda. Ríkisendurskoðun metur það sem svo að hinn langi biðtími geti orðið til þess að vandinn verði miklu meiri og geti jafnvel leitt til þess að stór hópur barna og ungmenna endi sem öryrkjar.

Ríkisendurskoðun gagnrýnir að leiðsögn stjórnvalda skorti um skipulag. Ekki hefur verið lögð fram skýr leiðbeiningaráætlun eða stefna um hvernig eigi að koma til móts við þessa þjónustuþörf. Það er búið að gera fjölda úttekta, skýrslna, aðgerðaáætlana og alls konar skjöl sem samt sem áður hafa ekki náð fram að ganga. Það þarf að tryggja aðgang að þessari þjónustu óháð búsetu og koma í veg fyrir að á milli kerfa myndist einhver grá svæði. Þessi langi biðtími sem hefur einkennt geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga er óviðunandi.

Virðulegi forseti. Við þurfum að taka höndum saman og afgreiða geðheilbrigðisstefnu sem hér liggur fyrir. Ekki bara það heldur þurfum við að sjá til þess að henni verði framfylgt og biðtími styttur svo að þeirri stöðu (Forseti hringir.) sem allt of margar fjölskyldur þessa lands standa frammi fyrir, að fá ekki þjónustu svo vikum, mánuðum og árum skiptir, fari að ljúka.



[15:17]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Forseti. Forstjóri Landsvirkjunar segir frá því í fréttum vikunnar að hann sjái fyrir sér að innan skamms geti fyrirtækið farið að borga um 10–20 milljarða í arð af rekstri fyrirtækisins í ríkissjóð. Á móti sér hann fyrir sér að hægja á niðurgreiðslu skulda, sem hefur verið lögð töluverð áhersla á fram að þessu. Ef fréttir reynast réttar skuldar Landsvirkjun um 240 milljarða kr.

Forseti. Ég tel rétt að minna okkur á að Landsvirkjun er ríkisfyrirtæki með ríkisábyrgð og ef eitthvað stórkostlegt kemur upp á, t.d. ef virkjanir eyðileggjast vegna náttúruhamfara, eru það við, skattgreiðendur, sem borgum brúsann. Menn geta rifjað upp það sem gerðist við Kröflugosið og séð að það voru skattgreiðendur sem greiddu það tjón. En nú gengur Landsvirkjun vel og þá er lag að greiða niður skuldir.

Skuldir fyrirtækisins eru nú eins og eitt stykki Icesave, til þess að setja hlutina í samhengi. Alltaf þegar Landsvirkjun hefur framkvæmdir og virkjar er það gert með lánsfé, en það eru kannski góð lán, ég þekki það ekki nógu vel. En ég tel brýnast að fyrirtækið haldi áfram að borga niður skuldir og geri það hratt. Það er miklu brýnna en að borga 10–20 milljarða sem er bara eitthvað sem við vonumst til að eiga. Við eigum frekar að borga niður skuldirnar, segi ég.

Svo er það líka annað. Ef Landsvirkjun heldur áfram að virkja eykur fyrirtækið skuldir sínar enn frekar. Það eykur líka útstreymi gjaldeyris í formi afborgana af lánum.

Ég efast ekkert um góðan tilgang forstjóra Landsvirkjunar. En það er mikilvægt fyrir okkur í þessum sal að iðka langtímahugsun. (Forseti hringir.) Við eigum ekki að vera sífellt að pæla í því hvernig við höfum það aðeins betra í núinu heldur hvernig við sköpum bjartari framtíð fyrir krakkana okkar.



[15:20]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ríkisendurskoðun var að skila skýrslu um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga. Þar kemur meðal annars fram að sá langi biðtími sem hefur einkennt geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga sé óviðunandi. Ríkisendurskoðun segir að auk þess að ganga gegn lögbundnum skyldum ríkisins stefni þessi bið bæði langtímahagsmunum þess og velferð borgaranna í tvísýnu. Ef ekki er tekið á markvissan hátt á geðheilsuvanda barna og unglinga um leið og hans verður vart aukast til muna líkur þess að þungbærar og langvarandi afleiðingar, jafnvel örorka, komi síðar fram. Í skýrslunni segir enn fremur að stjórnvöld hafi ótvíræðar skyldur þegar kemur að geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga. Lög um heilbrigðisþjónustu, lög um réttindi sjúklinga, lög um málefni fatlaðs fólks og samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins tryggi börnum og unglingum rétt til eins fullkominnar heilbrigðisþjónustu og tök eru á að veita og feli stjórnvöldum þá skyldu að sjá þeim fyrir þeirri umönnun sem velferð þeirra krefst.

Það kemur fram að þörf barna og unglinga hér á landi fyrir ítar- og sérþjónustu hefur ekki verið metin, en gengið hefur verið út frá sambærilegri þjónustuþörf hér á landi og í öðrum löndum. Samkvæmt því megi reikna með að um 16 þús. börn og unglingar hér á landi séu í þeirri stöðu að þau muni einhvern tíma þarfnast ítar- eða sérþjónustu vegna geðheilsuvanda. Ríkisendurskoðandi telur að fari hluti þessa hóps á mis við þá þjónustu megi draga í efa að stjórnvöld standi við skuldbindingar sínar og viðunandi árangri sé náð. Bendir úttekt hans til þess að svo geti verið.

Ég hef margoft bent á það í ræðu og riti hversu alvarlegt ástandið er í þessum málaflokki. Það kemur fram í skýrslunni að frá árinu 2000 hafi verið gefnar út sjö skýrslur og aðgerðaáætlanir þar sem fram kemur að ófremdarástand ríki í þessum málaflokki. Sjö skýrslur og aðgerðaáætlanir, herra forseti, og hver er staðan? Hvað höfum við verið að gera í þessum málaflokki? Er ekki kominn tími til að láta verkin tala eða eigum við að bíða eftir enn einni skýrslunni?

Ráðumst að rót vandans og uppfyllum hinar ótvíræðu skyldur stjórnvalda. Við höfum tækifæri til þess núna, stjórnvöld og þingmenn.



[15:22]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þegar Norður-Kórea gerði tilraunasprengingu með kjarnorkuvopn í janúar síðastliðnum voru þjóðir heims fljótar að fordæma verknaðinn, eðlilega. Þegar sama þjóð skaut upp gervihnetti sem flestir líta á sem sönnun þess að þeir hafi getuna til að senda af stað langdrægar sprengjuflaugar var sá verknaður einnig fordæmdur, aftur eðlilega. Það er hins vegar umhugsunarefni að þegar Bandaríkjamenn gerðu tilraun í janúar með nýja gerð „lítilla kjarnorkusprengja“ í Nevada-eyðimörkinni heyrðust nálega engin andmæli frá alþjóðasamfélaginu. Aftur heyrðist lítið þegar Bandaríkjamenn gerðu fyrir nokkrum dögum tilraun með langdræga kjarnorkuflaug. Á sama tíma tilkynnir Rússlandsstjórn um víðtæka uppbyggingu á kjarnorkuvopnabúrum sínum. Breska ríkisstjórnin gerir á næstu mánuðum ráð fyrir að taka ákvörðun um endurnýjun sinna kjarnorkuvopna. Um kjarnorkuuppbyggingu kínverska hersins held ég að þurfi ekkert að fjölyrða.

Það er þó ekki svo að öllum ríkjum heims standi á sama um þessar fregnir, því að í fyrra kom saman vinnuhópur 123 ríkja Sameinuðu þjóðanna sem vilja finna leiðir til þess að banna og útrýma kjarnorkuvopnum. Ísland er hins vegar ekki í þessum hópi. Hvernig stendur á því? Eru íslenskir þingmenn kannski almennt hlynntir kjarnorkuvopnum? Ég held ekki. En þegar á hólminn er komið hefur Ísland hins vegar ítrekað skipað sér í hóp með kjarnorkuveldunum og Ísland hefur hreinlega greitt atkvæði gegn því að kjarnorkuvopn verði bönnuð eða við höfum í besta falli setið hjá.

Í nóvember síðastliðnum lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra um atkvæðagreiðslur Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og um afstöðu til kjarnorkuvopna. Mér hefur því miður ekkert svar borist við þeirri fyrirspurn.



[15:24]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það virðist vera svo að svört atvinnustarfsemi blómstri sem aldrei fyrr á íslenskum vinnumarkaði og þá sérstaklega á þenslusvæðinu á stór-höfuðborgarsvæðinu gagnvart ungu fólki og útlendingum og oftar en ekki í byggingargeiranum og í ferðaþjónustunni.

Stéttarfélögin hafa orðið vör við þetta og vaxandi brot á fólki og þessi brot eru að verða ósvífnari og alvarlegri en áður þekktist. Þetta er grafalvarleg þróun sem hætt er við að festist í sessi ef ekkert verður að gert. Það ýtir líka undir að samkeppnisaðstaða fyrirtækja veikist þegar svona lagað viðgengst á vinnumarkaði.

Við vitum að verkalýðshreyfingin er núna í átaki gagnvart þessari svörtu atvinnustarfsemi og margt ljótt hefur komið upp á yfirborðið sem er ólíðanlegt, hvernig farið er með launafólk sem þekkir kannski ekki rétt sinn eða er ekki í þeirri félagslegu stöðu að geta sótt rétt sinn. Þar á meðal eru dæmi um, eins og við heyrum í fréttum, að hreinlega hafi mansal viðgengist. Þau tilfelli eru trúlega ekki einu dæmin um slíkt. Það er náttúrlega óhugnanlegt að slíkt viðgangist á íslenskum vinnumarkaði.

Að mínu mati verður að gera meiri kröfur til verkkaupa en nú er. Ekki bara að verkkaupi beri ábyrgð á sínu launafólki heldur allri keðjunni niður úr. Það er orðið mjög algengt að það sé verkkaupi undir verkkaupa og koll af kolli og þetta er löng keðja og enginn telur sig bera ábyrgð á því þó að alls konar sóðaskapur (Forseti hringir.) viðgangist hjá einhverjum undirverktökum.

Ég tel að löggjafinn verði að móta löggjöfina út frá þessu og herða hegningu gagnvart því að brotið sé á íslensku verkafólki.



[15:26]
Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli á þeirri alvarlegu stöðu sem íslenskir þurrkfisksframleiðendur standa frammi fyrir núna. Hún stafar af því að heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað og það hefur í för með sér að land eins og Nígería, sem við höfum selt þurrkfisk til, þ.e. skreið, þurrkaða beinadálka og hausa, getur ekki lengur keypt af okkur því að þeir hafa komið sér upp gjaldeyrishöftum sem við þekkjum. Þar að auki hafa nígerísk stjórnvöld stórhækkað innflutningstolla á þurrkaða hausa og þetta veldur því að verð til seljenda hefur lækkað um allt að 40% en neytendur þurfa að greiða hærra verð fyrir vöruna á markaði.

Það eru um það bil 20 fyrirtæki hér á landi sem sérhæfa sig í því að þurrka fisk fyrir Nígeríumarkað og eru vítt og breitt um landið. Samkvæmt lauslegri samantekt er fjöldi ársverka við þessa starfsemi hér á landi um 450 og því til viðbótar koma síðan fyrirtæki sem hafa sérhæft sig í þjónustu við þennan iðnað með beinum eða óbeinum hætti. Þar má nefna tæknifræðinga, rafvirkja, málmiðnaðarmenn o.fl.

Flutningsaðilar, hvort heldur er á landi eða sjó, hafa einnig haft umtalsverða hagsmuni af þessari framleiðslu og má gera ráð fyrir að flutningsgjöld á útflutningnum einum saman séu á annan milljarð króna árlega en þá á eftir að leggja mat á innflutning.

Á síðasta ári voru flutt út um 24 þús. tonn af þurrkuðum afurðum til Nígeríu og á síðasta ári fluttu íslensk fyrirtæki sjávarafurðir þangað fyrir andvirði um 15 milljarða kr. Það er alveg ljóst að íslensk stjórnvöld þurfa að beita sér í því að opna þennan markað aftur því að ef hann lokast erum við í þeirri stöðu að hann getur verið glataður endanlega. Það er auðvitað mikill missir fyrir þjóðarbúið, hvernig sem á það er litið.



[15:29]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga og áskorun átta félagasamtaka sem vinna að þessum málum þar um og taka þau undir hvert orð í skýrslunni.

Það er augljóst að við tökum þessa áskorun alvarlega vegna þess að hér hafa fleiri hv. þingmenn rætt þetta mál, hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og hv. þm. Páll Valur Björnsson.

Um er að ræða viðvarandi skipulags- og kerfisvanda þannig að þrátt fyrir viðleitni stjórnvalda undanfarna áratugi til þess að bæta úr hefur það leitt til þess að meðal annars hafa safnast upp reglulega biðlistar þar sem við höfum reynt að takast á við þann vanda með reglubundnum átaksverkefnum.

Hér vantar samkvæmt skýrslunni mat á þjónustuþörfinni. Vísað er í erlendar rannsóknir og er áætlað að um 80% barna þurfi aldrei að leita út fyrir grunnþjónustuna, en þjónustustigin eru þrjú; grunn-, ítar- og sérþjónusta, og að um 16.000 börn og unglingar muni einhvern tíma þurfa á að halda ítar- eða sérþjónustu. Við árslok 2015 er biðlistinn eftir þeirri þjónustu samkvæmt skýrslunni 718 börn.

Það blasir auðvitað við samhæfingar- og skörunarvandi þar sem verkefnið er á borði fjölmargra aðila á ólíkum stjórnsýslu- og þjónustustigum. Þess vegna er kallað eftir skýrri leiðsögn stjórnvalda í þessum efnum, til þess að ná fram samhæfingu og samvinnu og skýrari verk- og ábyrgðarskiptingu þjónustuaðila.

Þingsályktunartillaga hæstv. heilbrigðisráðherra um stefnu- og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum er nú í vinnslu hv. velferðarnefndar og þar er tækifæri til að ráðast að rótum vandans og styrkja grunnþjónustuna sem bætir kerfið í heild og til lengri tíma.

Ríkisendurskoðun telur ástandið algjörlega óviðunandi og ég vil því, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, hvetja hv. velferðarnefnd til að skoða sérstaklega ítar- og sérþjónustu, bæði með kerfislausnina í huga en ekki síður hvort ekki þurfi samhliða átak til að útrýma óæskilegum biðtíma og biðlistum.



[15:32]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Á síðasta þingi lögðum við píratar fram þingmál er lýtur að jöfnu aðgengi að internetinu um land allt. Þá sögðu okkur þingmenn sem áttu sæti í nefnd stjórnarinnar að verið væri að móta tillögur með starfshópi. Síðan hefur margt gerst.

Mig langar að spyrja hv. þm. Pál Jóhann Pálsson hvort hann hafi ekki áhyggjur af því sem kemur fram í ályktun fulltrúa sveitarfélaganna á Austurlandi. Fulltrúar sveitarfélaga á Austurlandi mótmæla af miklum þunga því uppleggi sem Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi hefur verið kynnt af hálfu starfshóps um Ísland ljóstengt og varðar útdeilingu þeirra 500 millj. kr. sem ætlað er til þess verkefnis á fjárlögum.

Með því er verið að etja sveitarfélögum saman í einhvers konar uppboð um mjög takmarkaða fjármuni og í raun og veru velta ábyrgð á kostnaði við ljósleiðaravæðingu á Íslandi yfir á sveitarfélögin. Minni sveitarfélög, sem enga burði hafa til þátttöku í slíku kapphlaupi, munu sitja eftir og bilið á þjónustustigi í fjarskiptum meðal íbúa þessa lands mun vaxa enn frekar. Þessi farvegur gengur þvert á þær væntingar sem gefnar voru þegar starfshópurinn skilaði skýrslu sinni á vordögum 2015 og forsætisráðherra kynnti.

Þess er krafist að þessar tillögur verði þegar í stað teknar til endurskoðunar og jafnframt ítrekaður stuðningur við þær hugmyndir sem fram koma í áðurnefndri skýrslu, enda var verkefnið jafn mikið byggðamál og uppbygging háhraðafjarskiptaþjónustu á landsbyggðinni.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann geti ekki tekið undir það að þetta falli ekki undir jafnt aðgengi að internetinu, ef fara á í samkeppni um einhvern kvóta. Stendur til að laga þetta eða er þetta stefna ríkisstjórnarinnar?



[15:34]
Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu máli. Þetta er það mikið byggðamál að það er aldrei of mikið rætt í þessum sölum. Ég tek alveg undir áhyggjur sveitarstjórnarmanna á Austurlandi, en þetta er nú einu sinni þannig að þegar kemur að framkvæmdum og það loksins — og ég hefði haldið að hv. þingmaður fagnaði því að ríkisstjórnin væri loksins að setja fjármuni og hefja framkvæmdir á þessu mikilvæga máli frekar en að velta sér upp úr því hvernig hlutirnir eru gerðir. Ég er nærri viss um að það er alveg sama hver tillagan verður, og þess skal getið að starfshópurinn er ekki búinn að skila tillögum til ráðherra, en í dag er þetta unnið þannig að fjarskiptafélögin sækja til Fjarskiptasjóðs um styrki til þess að fjarskiptatengja staði á markaðsbrestssvæðum. Þetta árið munum við líklegast leggja til að sveitarfélög sæki um styrki til þess að leggja á sínum svæðum sem þýðir með öðrum orðum að við munum væntanlega leggja til að þessir takmörkuðu fjármunir verði veittir þannig að þeim verði dreift á þrjú, fjögur svæði, á norðvestur-, norðaustur- og suðursvæði, í hlutfalli við það hversu margir (Forseti hringir.) ótengdir staðir eru á hverjum stað. Við reynum að tryggja að þetta dreifist um allt landið, mest á þá staði sem eru verst staddir, en við getum svo lengi deilt um það hvar við eigum að byrja verkið. (Forseti hringir.) Mér finnst mest um vert að við erum að byrja þetta mikilvæga verk.



[15:36]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að gera að umtalsefni mál sem fellt var niður í dag eða í gær eftir sex ára málarekstur, mál sem byggt var á reglum Seðlabankans um gjaldeyrismál sem höfðu ekki þegar málið hófst lögskilið samþykki ráðherra. Þetta er Aserta-málið svokallaða þar sem saksóknari í málinu og þáverandi forstöðumaður Fjármálaeftirlitsins, Gunnar Andersen, hefja málið á blaðamannafundi þar sem þeir tilkynna að til standi að í samvinnu við Seðlabankann, efnahagsbrotadeild og Fjármálaeftirlitið að hefja rannsókn í þessu máli. Í ljós kom í máli Samherja, sem byggt var á sömu reglum um gjaldeyrismál, að ekki væri hægt að fylgja því eftir á nokkurn hátt af því reglurnar voru ekki í gildi.

Virðulegur forseti. Nú hafa fjórir ungir menn setið undir því í sex ár að ákveðið var að höfða mál á hendur þeim á grundvelli reglna um gjaldeyrismál sem höfðu ekki lögsamþykki ráðherra. Þeir voru nafngreindir fyrir sex árum, virðulegur forseti. Nú er málinu vísað frá eftir að þeir hafa verið sýknaðir, m.a. í héraðsdómi.

Það er algjörlega ljóst að í þessu máli var farið rangt af stað. Í þessu máli er réttur brotinn á einstaklingum.

Réttarríkið í tveimur málum, byggðum á þessum reglum Seðlabanka Íslands sem ekki höfðu lögskilið samþykki ráðherra, hafa kostað einstaklinga ekki aðeins mannorðið heldur fjármuni í sex ár, virðulegur forseti. (Forseti hringir.) Hver ætlar að axla ábyrgð á málatilbúnaði af þessu tagi? Er það Seðlabankinn, (Forseti hringir.) Fjármálaeftirlitið og ríkissaksóknari, eða hver ætlar að axla ábyrgð (Forseti hringir.) og sýna fólki og borgunum í landinu að svona er ekki farið með fólk? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)