145. löggjafarþing — 81. fundur
 29. feb. 2016.
verðtrygging búvörusamnings.

[15:05]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina nokkrum spurningum til hæstv. fjármálaráðherra vegna nýgerðra búvörusamninga. Fyrst er náttúrlega að minna á að það er athyglisvert að sjá hversu hraustleg verðtryggingarstjórn þessi ríkisstjórn er, því að tryggilegri verðtryggingarákvæði hafa ekki sést í nokkrum samningi sem ríkið gerir en í þeim sem hér liggur fyrir. Það hefur verið tekin ákvörðun, með þessum samningi, um gríðarleg útgjöld, nærri 200 milljarða kr., eða sem samsvarar fyrsta Icesave-samningnum sem ráðherra þessarar ríkisstjórnar gagnrýndu nú margir hverjir — þeir gagnrýndu skort á samráði í aðdraganda hans og vönduðum vinnubrögðum við samningsgerðina. Hér er búið að gera samning án nokkurs samráðs við ráðherraskipaða nefnd og átti að fjalla um búvörumálin sem var ekki einu sinni kölluð saman, án samráðs við Alþýðusamband Íslands. Hæstv. ráðherra hefur látið í veðri vaka að þessi samningur réttlætist af hagræðingu sem gert sé ráð fyrir í samningnum. Vandinn er sá að útgjöldin eru örugg í þessum samningi en hagræðingin er fugl í skógi og kemur ekki til fyrr en í fyrsta lagi eftir endurskoðunarákvæði samningsins og eftir atkvæðagreiðslu meðal bænda.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann telji mögulegt að réttlæta þennan samning, aðdraganda hans og vinnubrögðin. Hvernig stendur á því að honum finnst eðlilegt að ganga frá samningi af þessum toga, um útgjöld sem eru svona umtalsverð, án þess að eiga um það samráð við þingið, án þess að kalla (Forseti hringir.) fulltrúa launþega og fulltrúa starfsmanna í greininni að borðinu; gera hann einvörðungu milli ríkisstjórnarflokkanna og trúnaðarmanna ríkisstjórnarflokkanna innan Bændasamtakanna?



[15:08]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég held að betur hefði farið á því að þessari spurningu, um efnisleg atriði samningsins, væri beint til rétts ráðherra en ég skal ekki kveinka mér undan því að standa hér og ræða um málið.

Fyrst varðandi samráð við þingið þá veit þingmaðurinn auðvitað að þessir samningar eru gerðir með fyrirvara um samþykki Alþingis og þeir verða lagðir hér fyrir og ræddir á Alþingi. Varðandi hagræðinguna, sem nefnd er, að það sé ekkert fast í hendi, finnst mér þetta orðin dálítið skondin umræða. Það eru ekki mörg ár síðan þáverandi landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, stóð hér og þurfti að svara fyrir það að það væri svo mikil fækkun bænda í Flóanum sem leiddi af því að eignamenn úr Reykjavík væru að kaupa upp jarðirnar og kvótinn allur framseldur. Ég man eftir því að hafa setið hér í þingsal þegar hann sagði að íslenska kýrin keppti ekki við það að sofa út á sunnudögum.

Bændur seldu jarðir sínar, brugðu búi og kvótinn fór annað. Þannig hefur búum fækkað um mörg hundruð ár eftir ár á síðustu 20 árum. Allt bendir til þess að þeim muni halda áfram að fækka. Þegar við horfum á þá þróun annars vegar og veltum síðan fyrir okkur efnislegu inntaki samninganna við Evrópusambandið um tollamál, sem verða lagðir fyrir þingið, sjáum við að það sem er að gerast er framhald af þróun sem mun nýtast neytendum og mun líka nýtast bændum sem verða stærri, öflugri einingar sem geta framleitt matvæli með hagkvæmari hætti, holl, heilbrigð matvæli, en á sama tíma erum við að opna Ísland fyrir innflutningi á tilteknum hluta matvæla. Síðan er hellingur allur af matvælum sem kemur hér inn tollfrjálst.

Þetta heildarsamhengi verða menn að hafa í huga þegar rætt er um landbúnaðarmál (Forseti hringir.) og það er auðvitað til skammar fyrir menn að vera að bera þetta saman við Icesave-samninginn. Ég nenni ekki að taka umræðu sem er svona glórulaust vitlaus eins og að bera þennan samning saman við fyrsta Icesave-samninginn.



[15:10]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ráðherrann verður að horfast í augu við það að kostnaðurinn af þessum samningi er jafn mikill og hefði orðið af fyrsta Icesave-samningnum. Það getur vel verið að það sé óþægilegt fyrir hann, en það er staðreyndin.

Einokun Mjólkursamsölunnar er fest í sessi. Er það afsakanlegt og rökrétt út frá stefnu Sjálfstæðisflokksins? Innflutningsvernd er aukin. Það er rangt sem hæstv. ráðherra heldur hér fram. Það er verið að skrúfa klukkuna aftur til ársins 1995 í magntollunum. Vissulega var lagt upp með tiltekið umbótaverkefni af hálfu ráðherrans og sumra innan bændastéttarinnar, en við fyrsta andblæ hagsmunaafla, við fyrsta mótdræga kallið frá Kaupfélagi Skagfirðinga, hrukku menn til baka.

Samningurinn nú felur í sér kyrrstöðu, óbreytt ástand. Landsbankinn lýsir þessu sem frystingu. Alþýðusambandið segir: Stórkostleg glötuð tækifæri. (Forseti hringir.) Er hæstv. fjármálaráðherra einn um að sjá snilldina í þessum nýja Icesave-samningi?



[15:11]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það skemmtilega við Icesave-samlíkinguna er það að hv. þingmaður studdi þann samning sem hann segir að hafi verið svo glórulaust vitlaus, en sá sem hér stendur greiddi atkvæði gegn þeim samningi. Reyndar lagði ég síðan til að málið færi til þjóðarinnar, en hv. þingmaður greiddi atkvæði gegn því. Hann greiddi atkvæði gegn því. (ÁPÁ: Og hvor okkar er búinn að læra af fortíðinni?) — Það er auðvitað alveg kostulegt að menn skuli bera samning eins og þann sem hér er verið að ræða — sem kemur í beinu framhaldi af öðrum sambærilegum samningi sem var gerður í þeirri tíð sem hv. þingmaður sat í ríkisstjórn, samningi sem var efnislega í öllum aðalatriðum alveg sambærilegur þessum, sambærilegur samningunum sem giltu þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn — við það að setja mörg hundruð milljarða gjaldeyri til útlanda fyrir ekkert, fyrir ekki neitt, án þess að komi neitt gagngjald, bara til þess að kaupa sér frelsi, á sama tíma og menn sögðu að við þyrftum að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna til að losna við höftin. Það er alveg með ólíkindum að menn (Forseti hringir.) þori í þá umræðu. Við skulum endilega taka sérstaka umræðu um Icesave-samningana og landbúnaðarmálin, ég óska eftir því að fá að taka þátt í þeirri umræðu.