145. löggjafarþing — 81. fundur
 29. feb. 2016.
Hús íslenskra fræða.

[15:13]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég átti ágætan orðastað við hæstv. forsætisráðherra í september síðastliðnum um það sem nú er kallað „hola íslenskra fræða“. Ég spurði þá hæstv. ráðherra sérstaklega út í það mál því að hann tók það upp á sína arma, ef svo má segja, þegar tillaga hæstv. ráðherra um hátíðahöld vegna 100 ára afmælis fullveldisins lak út í fjölmiðla þann 1. apríl í fyrra þar sem greint var frá því að nýtt Hús íslenskra fræða yrði hluti af aðgerðum sem ráðist yrði í til að halda upp á 100 ára afmæli fullveldisins.

Okkur var kynnt tillagan um Hús íslenskra fræða. Síðan bárust okkur fregnir af því að hún hefði aldrei verið afgreidd út úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Aðrir þættir voru raunar líka í tillögunni, eins og til dæmis tillaga um nýja viðbyggingu við Alþingi og tillaga um framkvæmdir á Þingvöllum.

Ég spurði hæstv. ráðherra í september síðastliðnum hverju sætti að tillagan hefði horfið inn í svarthol þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Hæstv. ráðherra hafði hér uppi góð orð um að nú mundum við sameinast um að vinna málinu brautargengi.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað hefur gerst í málinu síðan í september? Það sem við höfum séð eru fjárveitingar til viðbyggingar Alþingis, en ekkert bólar á Húsi íslenskra fræða í fjárlögum. Ég þarf svo sem ekkert að minna hv. þingmenn á að það var hugsað sem framkvæmd fyrir rannsóknir og kennslu á íslenskum fræðum en líka fyrir sýningu á handritum okkar, eins merkasta menningararfs íslensku þjóðarinnar sem er á heimsminjaskrá UNESCO. En við erum enn bara með holuna.

Ég vona að það sé ekki bara af því að það vill svo til að holan er á Melunum að ekkert hefur gerst í málinu því að handritin eigum við öll. Öll þjóðin á þau. Það er til skammar að við vitum ekkert hvert stefnir í málinu.

Nú langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, sem tók vel í ósk mína um að við mundum finna einhverja lausn á málinu í september: Hvað (Forseti hringir.) líður vinnu við málið? Munum við fá að sjá einhverjar tillögur á þessu þingi sem munu vekja okkur von um að menningararfinum og rannsóknum á íslenskri tungu, bókmenntum og fræðum verði sinnt í nýju húsi?



[15:15]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Nú stendur yfir undirbúningsvinna vegna fjárlaga í samræmi við ný lög þar um og raunar líka vinna við langtímaáætlun í efnahagsmálum og fjármálum ríkisins.

Við, ráðherrar í ríkisstjórn og ekki hvað síst í ráðherranefnd, höfum rætt um ríkisfjármál og hin ýmsu mál sem verið hafa til skoðunar og verða til skoðunar áfram. Við erum auðvitað öll sammála um það, ráðherrarnir og vonandi þingmenn líka, að aðstæður hafi batnað til mikilla muna hér á landi á síðustu missirum og árum efnahagslega. Þar af leiðandi kunna að vera að skapast forsendur til þess að ráðast í hluti sem ekki var raunhæft fyrir ekki svo löngu síðan.

Á móti kemur að menn vilja ekki ýta undir þenslu. Menn vilja ekki að ríkið sé í miklum stórframkvæmdum á sama tíma og mikil fjárfesting er í einkageiranum og jafnvel skortur á iðnaðarmönnum. Það breytir þó ekki því að ég hef heyrt það á ráðherrum míns flokks og samstarfsflokksins, sem hv. þingmaður spurði sérstaklega um, að mikil jákvæðni er í garð þessa verkefnis og munu menn eflaust líta það áfram mjög jákvæðum augum í þeirri vinnu sem fram undan er.



[15:17]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að nýta mína mínútu hér í almennar umræður um efnahagsmál. Við vitum alveg nákvæmlega hvaða leið núverandi hæstv. ríkisstjórn valdi í þeim efnum og valdi að fara fremur í skattalækkanir en að fara í styrkingu innviða og halda áfram þeirri uppbyggingu sem hafin var undir lok síðasta kjörtímabils. Ég ætla ekki í umræðu um það.

Mér finnst það ekki nægjanlegt, herra forseti, að fá þau svör að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar líti málið jákvæðum augum. Auðvitað er það jákvætt svo langt sem það nær, en ég ímynda mér að hæstv. forsætisráðherra hljóti að geta gefið okkur skýrari svör um hvort til standi til dæmis að veita Happdrætti Háskóla Íslands, sem er reiðubúið með fjármuni í verkefnið, heimild til að nýta þá fjármuni þannig að hægt verði að hefja framkvæmdir næsta sumar. Það er hægur vandi að veita slíka heimild ef pólitískur vilji er til þess að standa almennilega að umgjörðinni fyrir íslensk fræði og handritin okkar, okkar merkasta menningararf. Þetta mál er orðið okkur til skammar. Hola íslenskra fræða er okkur til skammar og ég trúi ekki öðru en að hæstv. forsætisráðherra muni beita sér, (Forseti hringir.) eftir að hafa lagt þetta beinlínis til, þó að sú tillaga hafi horfið, (Forseti hringir.) fyrir því að hægt verði að hefja framkvæmdir á þessu ári.



[15:18]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst smáathugasemd um það sem hv. þingmaður ræddi í byrjun en sagðist þó ekki ætla að ræða, þ.e. stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

Það var nefnilega ekki svo að endalausar skattahækkanir síðustu ríkisstjórnar hefðu skilað meiri verðmætasköpun og meiri tekjum eins og ráð var fyrir gert. Þvert á móti drógu þær allan þrótt úr atvinnulífinu akkúrat þegar tækifæri var til þess að ná uppsveiflu á ný eftir verulega niðursveiflu.

Nú hefur breytt stefna í efnahagsmálum, meðal annars í skattamálum með jákvæðum hvötum, orðið til þess að tekjur ríkissjóðs hafa aukist til mikilla muna. Það skapar aukin tækifæri fyrir okkur til þess að ráðast í hin ýmsu verkefni.

Hvað varðar það tiltekna verkefni sem hv. þingmaður spyr um þá er ég, eins og ég gat um áðan, bjartsýnn á framgang þess. En að sjálfsögðu verður það skoðað í samhengi við önnur verkefni og ríkisfjármál almennt. (KJak: Hangir á samstarfsflokknum?)