145. löggjafarþing — 84. fundur
 2. mars 2016.
útlendingar, 1. umræða.
frv. meiri hl. allsh.- og menntmn., 560. mál (kærunefnd, fjölgun nefndarmanna). — Þskj. 897.

[16:58]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga sem er flutt hér af meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Eins og allir vita hafa málefni útlendinga og útlendingalöggjöfin verið mjög til umræðu í íslensku samfélagi sem og víðs vegar annars staðar í Evrópu og heiminum á undanförnum mánuðum.

Ráðherra innanríkismála hefur skipað þverpólitíska þingmannanefnd sem skilað hefur af sér heildstæðu frumvarpi um ný útlendingalög. Við bíðum þess nú að það mál líti dagsins ljós og komi hér í þingið. Engu að síður þótti okkur í meiri hlutanum í allsherjar- og menntamálanefnd nauðsynlegt að leggja fram þetta litla frumvarp sem þó er efnislega mjög mikilvægt.

Meginmarkmiðið með frumvarpinu er að tryggja sanngjarna og skilvirka málsmeðferð við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Verkefnið er greint í fjóra þætti: Í fyrsta lagi eru gerðar hér tillögur um breytingar á nefndarmönnum í kærunefnd útlendingamála. Nefndin var sett á fót á þessu kjörtímabili og við í meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar höfum fylgst með störfum nefndarinnar og teljum mjög mikilvægt að ráðast í þær breytingar sem hér eru lagðar til.

Í öðru lagi er lagt upp með að fjölga nefndarmönnum úr þremur í sjö og haga því þannig að varaformaður nefndarinnar verði skipaður í fullt starf, að bæði formanni og varaformanni verði heimilt að úrskurða einir í ákveðnum málum og að nefndin geti sjálf ákveðið hvort umsækjandi komi fyrir nefndina í stað þess að umsækjandi eigi rétt á því ef hann óskar eftir því.

Vissulega hefur nefndin staðið sig ágætlega en það er ljóst að álagið er það mikið á nefndinni að það er mikilvægt að við styrkjum lagagrundvöllinn undir störf nefndarinnar þannig að störfin verði enn skilvirkari. Meginmarkmið okkar er að umsóknir og afgreiðsla þeirra taki sem skemmstan tíma í kerfinu. Það er bæði gott gagnvart þeim sem sækja um og bíða eftir niðurstöðu að þurfa ekki að bíða allt of lengi, og eins fyrir okkur hér að kerfið sé skilvirkt þannig að við getum haldið því uppi og að það sé gert á sem hagkvæmastan hátt. Það er meginþunginn í málinu.

Í þriðja lagi leggjum við til að réttaráhrifum verði ekki frestað í málum þar sem ríki eru talin örugg upprunaríki og aðstæður umsækjanda eru þannig að augljóst er að ákvæði 44. og 41. mgr. 45. gr. laga um málefni útlendinga eiga ekki við. Í þeim ákvæðum er fjallað um flóttamannahugtakið. Hér er vissulega um að ræða mikla breytingu sem er stór en varðar þó ekki stóran hluta þeirra umsækjenda og umsókna sem okkur berast. Breytingunni er ætlað að tryggja að þeir einstaklingar sem sækja um en eiga augljóslega ekki heima inni í því neyðarkerfi sem hælisleitendakerfið er, fari aðrar leiðir.

Í frumvarpinu, sem þverpólitíska þingmannanefndin vann og er núna á lokasprettinum í ráðuneytinu, er verið að liðka mjög þær reglur sem kveða á um með hvaða hætti einstaklingar geta sótt hér um leyfi á öðrum grundvelli, þ.e. sótt um dvalar- og atvinnuleyfi. Þær reglur hafa verið allt of stífar hjá okkur. Við vitum að þeir einstaklingar sem ættu frekar að eiga leið þar í gegn eða alla vega reyna að fara þá leið, og eiga í raun ekki heima inni í þessu neyðarkerfi, taka talsverðan tíma inni í kerfinu. Þetta er tilraun meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar til að setja fram tillögu til að reyna að losa þann tappa úr kerfinu.

Í fjórða lagi leggjum við fram tillögu sem miðar að því að gera Útlendingastofnun kleift að sinna upplýsingaskyldu gagnvart hælisleitendum líkt og lögreglu í upphafi málsmeðferðar, en einnig er afnumin heimild Útlendingastofnunar til að taka ákvörðun án þess að taka viðtal við hælisleitanda. Það er breyting sem liðka á fyrir málsmeðferðinni og við teljum mikilvægt að taka hana strax til skoðunar í nefndinni.

Við leggjum til að gildistakan á þessu máli komi til framkvæmda strax. Fram kemur að um mál sem borist hafa kærunefnd útlendingamála fyrir gildistökuna en hafa ekki verið afgreidd gildi ákvæði laganna, þannig að það liggur alveg ljóst fyrir. Einnig er hér ákvæði til bráðabirgða um að núverandi nefndarmenn í kærunefndinni skuli halda skipun sinni út skipunartímann. Ráðherra skipar við gildistöku þessara laga fjóra nefndarmenn til viðbótar samkvæmt ákvæði 1. gr., þar með talið varaformann nefndarinnar. Núverandi varaformaður heldur skipan sinni sem slíkur þar til nýr varaformaður hefur verið skipaður í samræmi við ákvæði 1. gr.

Í heild sinni er þetta eins og ég sagði í upphafi, tilgangurinn með frumvarpinu er að tryggja sanngjarna og skilvirka málsmeðferð. Það er alveg ljóst að árið 2015 tvöfaldaðist fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd hér á landi miðað við árið á undan. Við sjáum ekki annað í kortunum en að sú tala fari enn upp á þessu ári vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa, sérstaklega vegna málefna Sýrlands. Við þurfum að vera meðvituð um að við þurfum alltaf að hafa augun á boltanum og fylgjast með og grípa til þeirra ráða sem við getum til að styrkja löggjöfina, auka skilvirkni og reyna að koma hlutunum fyrir þannig að málin taki ekki allt of langan tíma í kerfinu. Það er það sem við getum sammælst um í meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.

Flutningsmenn að þessu máli eru, auk mín, hv. þingmenn Róbert Marshall, Líneik Anna Sævarsdóttir, Karl Garðarsson, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Haraldur Einarsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.



[17:06]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir framsögu með þessu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga. Ég vil líka þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir að semja frumvarpið og flytja það í þinginu.

Eins og kom skýrt fram í framsöguræðunni er meginmarkmið frumvarpsins að tryggja sanngjarna og skilvirka málsmeðferð og ég held að það sé alveg hárrétt, sem hv. þingmaður sagði, að við megum, vegna þess ástands sem er í heiminum, búast við auknum fjölda umsækjenda sem sækir um hæli á komandi árum. Ég vil taka undir að ég held að það sé alveg rétt að við þurfum að styrkja og hraða málsmeðferðinni.

En ég vil spyrja hv. þingmann hvort í hennar huga sé ekki örugglega verið að fjölga í nefndinni til þess einmitt að hægt sé að tryggja að málsmeðferðin verði góð og auðvitað hraðari en nú er en að það sé ekki tilgangurinn að hægt sé að skófla fólki hraðar úr landi en nú er, þ.e. að fjölgunin verði einungis til þess að hægt sé að keyra hælisumsóknirnar hraðar í gegn, hvort ekki þurfi að leggja áherslu á það sem varðar sanngjarna meðferð.



[17:08]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið, sem er mjög mikilvægt. Það er mikilvægt að það komi skýrt fram hér, að við ætlum okkur að halda hlutunum þannig að málsmeðferðin sé sanngjörn. Þegar við settum kærunefndina á fót — við keyrðum þau mál í gegnum allsherjarnefnd og fórum yfir það hvernig við töldum best á þeim tíma að koma málum fyrir varðandi kærunefndina þá vorum við með þau sjónarmið efst á blaði og erum enn. En það er alltaf þannig, þegar maður er að búa til nýtt kerfi eins og þessa nýju kærunefnd, að maður þarf að vera ófeiminn við að segja: Heyrðu, þetta tókst vel hjá okkur, en aðrir hlutir ekki nógu vel.

Við þurfum að útfæra löggjöfina enn frekar að fenginni reynslu og líka í ljósi þess að mun meira álag er á nefndinni en við gerðum ráð fyrir fyrir örfáum mánuðum þegar við vorum að lögfesta þessi ákvæði og nefndin tók til starfa.

Það er mikilvægt að við áttum okkur á því að þær þjóðir sem við berum okkur helst saman við og horfum til varðandi löggjöfina eru að breyta útlendingalögunum sínum nokkrum sinnum á ári. Það er þannig sem við verðum að horfa á hlutina, þegar við erum í ástandi sem þessu, sem er í raun fordæmalaust hröð þróun í málaflokknum, að við séum með opin augun og alltaf klár í að grípa til aðgerða og skoða lögin þegar það á við.



[17:09]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar að koma hér upp í þetta síðara andsvar til þess eins að ítreka að ég tel gríðarlega mikilvægt að fjölgunin í nefndinni verði aldrei til þess að einvörðungu sé hægt að keyra málin hraðar í gegn, til að halda því sjónarmiði til haga og hafa sagt það héðan úr þessum ræðustól að ég tel það algjört grundvallaratriði að þetta verði til að styrkja málsmeðferðina og tryggja að hún verði sanngjörn þó svo að kerfið hér heima verði fyrir auknu álagi.



[17:10]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ísland er réttarríki og við viljum taka mið af þeim reglum og sjónarmiðum sem gilda í réttarríki. Við berum virðingu fyrir mannréttindum fólks, sama hvaðan það kemur, og þurfum auðvitað að gæta að því í þessum málum sem og öðrum að málsmeðferðarreglur séu í lagi og viðmið haldi. Það er svo sannarlega það sem við ætlum okkur og það vakir ekkert annað fyrir allsherjar- og menntamálanefnd en að styrkja löggjöfina og reyna að koma hlutunum þannig fyrir að framkvæmdin verði skilvirk og jafnframt sanngjörn.



[17:11]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil þakka fyrir þetta mál sem ég held að sé að mörgu leyti afar brýnt. Það liggur á að efla starfsemi kærunefndar útlendingamála þar sem meðferðartíðnin hefur ekki verið viðunandi. Auk þess eru þau markmið mjög verðug að styðja við vandaða málsmeðferð og auka málshraða á fyrsta stjórnsýslustigi.

Breytt fyrirkomulag á því hvernig ríki teljast til öruggra upprunaríkja er einnig þáttur sem fjallað er um hér. Sú sem hér stendur hafði á sínum tíma efasemdir um að slíkur listi ætti yfirleitt rétt á sér en þær breytingar sem lagðar eru til á því fyrirkomulagi sem þegar er fyrir hendi eru til góðs. Að því leytinu til tel ég frumvarpið vera til bóta.

Mig langar þó í örstuttri ræðu minni að hvetja til þess að frumvarp það sem var afhent hæstv. innanríkisráðherra nú á haustþingi fari að líta dagsins ljós. Ég held að þetta verði að teljast óviðunandi þegar kominn er marsmánuður og um er að ræða þingmál sem er komið fram með svo óvenjulegum hætti, þ.e. þetta er aðferð við að útbúa frumvarp sem við höfum því miður ekki viðhaft í nægilega ríkum mæli í þinginu.

Í ljósi þess hversu viðkvæmur, víðtækur og mikilvægur þessi málaflokkur er var ákveðið að fara af stað með þverpólitíska þingmannanefnd til að gera nýtt frumvarp til útlendingalaga. Ég og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, sem er formaður allsherjar- og menntamálanefndar, sitjum í þeirri þingmannanefnd, sem hefur lokið störfum, ásamt öðrum þingmönnum frá öllum flokkum sem eiga sæti á Alþingi.

Vinnan hefur í raun og veru verið ótrúlega samstillt og samhent. En ekki verður við það unað að nefndin skili af sér til ráðherra í nóvember og nú sé kominn mars og við sjáum málið ekki enn þá í þinginu.

Ég tel að við verðum að kalla eftir því að ráðherra komi með málið til þingsins eins og gert var ráð fyrir. Ella tel ég koma til álita, ef einhverjar þær hindranir eru fyrir hendi í ríkisstjórn eða í Stjórnarráðinu, að þingmannanefndin flytji málið sjálf. Málið var af okkar hendi fullbúið. Það var unnið í gríðarlega víðtæku samráði við mjög marga aðila, við ráðuneytin sem koma að málinu, við háskólaumhverfið, við hagsmunaaðila, við grasrótarhreyfingar og mannréttindasamtök sem láta sig þennan mikilvæga málaflokk varða. Það væri þinginu til verulegs sóma ef okkur tækist að ljúka við þetta mál.

Nú er kominn mars, eins og alþjóð er kunnugt, og þá fer náttúrlega fljótlega að sneyðast um tíma. Við erum að tala um þingmál sem er bæði viðamikið og varðar mikilvæga mannréttindaþætti og þyrfti þess vegna að fá viðhlítandi meðferð á Alþingi og nægan tíma.

Ég held að við sem höfum verið á Alþingi lengur en eitt kjörtímabil vitum að öll mál af þessari stærðargráðu og þyngdarflokki, ef ég má orða það sem svo, eiga greiðari leið á öllum þingum en kosningavetri. Ég held að í því ljósi sé okkur það mjög mikilvægt að koma málinu í gegnum þingið þinginu til sóma og einnig ráðherra málaflokksins og ríkisstjórninni, en síðast en ekki síst til þess að búa um þennan viðkvæma málaflokk með sómasamlegri hætti en við höfum gert hingað til.

Við verðum þess vör í fréttum nánast á hverjum degi, bæði fréttum af því sem alþjóðasamfélagið glímir við, sem Evrópa glímir við, sem Ísland glímir við en ekki síður í pólitískri umræðu, bæði alþjóðaumræðunni og umræðunni hér heima, að það er mikilvægt að ná utan um þennan málaflokk af varfærni og skynsemi þar sem við náum að stilla saman strengi sem byggja á mannúð, mannskilningi og virðingu fyrir fjölbreytileika íbúa jarðarinnar og skilningi á því að við hér á landi, eins og í öðrum siðuðum ríkjum, öxlum okkar hlut í því að takast á við verkefni samtímans sem munu væntanlega verða stærri eftir því sem árin líða inn í þessa krefjandi öld.

Það var fyrst og fremst framlag mitt til umræðunnar að hvetja til þess að málið færi að koma til umfjöllunar. Ég hef átt orðastað við hæstv. ráðherra í ræðustól Alþingis og hvatt til þess og verð ekki annars vör en að það sé bæði vilji og skilningur hæstv. ráðherra til þess að málið komi til þingsins. Ég hef ekki heyrt neinn hreyfa andmælum við þeim áformum. Ég hef ekki heyrt neinn efast um að það sé bæði rétt og tímabært að málið fái þinglega meðferð.

Í ljósi þess að ekki er ásættanlegt að sú mikla vinna sem þar var innt af hendi verði flysjuð niður í mörg lítil þingmál eða í eitt lítið þingmál og stóra málið verði síðan látið lenda í útideyfu sá ég mig knúna til að nefna stöðu málsins. Ég vonast til þess að við náum á þessu þingi að ljúka því stóra máli vegna þess að málaflokkurinn þarf sannarlega á því að halda.



[17:19]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við heldur viðkvæmt mál. Eins og sumir hafa kannski tekið eftir er ég eini nefndarmaður hv. allsherjar- og menntamálanefndar sem er ekki með á málinu. Það er ástæða fyrir því. Hún er sú að ég hef áhyggjur af því að þetta sé ekki rétt leið.

Fyrst vil ég nefna að í dag er krísa í málefnum hælisleitenda og flóttamanna, ekki síst í Evrópu. Það er ekki bara umdeilt hvort eigi yfirhöfuð að stíga þau skref að huga að réttindum hælisleitenda og flóttamanna heldur er einnig umdeilt hvernig beri að framkvæma það. Ég tel þetta mál vera dæmi um það. Ég trúi því staðfastlega að öllum sem leggja frumvarpið fram gangi gott eitt til, að þessir ágætu hv. þingmenn séu að reyna að huga sem best að réttindum og hagsmunum hælisleitenda og flóttamanna. Hins vegar hef ég áhyggjur af áhrifum frumvarpsins og langar að tíunda þær af þeim sökum að veruleikinn á gólfinu, eins og maður segir, er oft mjög frábrugðinn því sem við sjáum hér á hinu háa Alþingi og í stjórnsýslunni, svo sem innanríkisráðuneytinu eða Útlendingastofnun. Það er undirliggjandi ótti í þessum málaflokki. Það er óttinn við flóðið, flóðið af fólki sem hingað mun flæða í milljónavís og ganga af einhverju dauðu hér á Íslandi, ef ekki efnahagnum, þá menningunni eða tungunni eða hverju sem er.

Mig langar að benda á að það eru 500 milljón manns í Evrópusambandinu og við erum í EES. Þessar 500 milljónir mega koma hingað og búa hér ef þeim sýnist. Þeir þurfa að skrá sig, en þurfa í rauninni ekki neitt sérstakt leyfi til þess. Þeir þurfa einungis að láta vita að þeir séu hér og fara í gegnum einhverja pappírsvinnu en þeir mega vera hér. Allir Grikkir, allir sem eru með grískan ríkisborgararétt, mega flytja hingað ef þeim sýnist, ef þeim dettur það í hug mega þeir það. 500 milljón manns. Yfir 7% mannkyns, yfir 7% dýrategundarinnar sem við tilheyrum mega flytja til Íslands í dag.

Hvar er flóðið? Það er ekki hérna. Ástæðan er sú að þetta ágæta fólk, þessar 500 milljónir, mega flytja í önnur ríki þessa 500 milljón manna Evrópusambands. Þegar EES var samþykkt áttu að flykkjast hingað Ítalir í milljónatali. Hvar eru allir Ítalirnir? Þeir eru ekki hérna. Jú, þeir mega flytja hingað ef þeir vilja en þeir hafa ekki kosið að koma hingað. Auðvitað eru misjafnar ástæður fyrir því hvers vegna fólk vill búa þar sem það býr eða flytja þangað sem það vill flytja.

Núna á Evrópa við að stríða mjög alvarlegan vanda í sambandi við flóttamenn og hælisleitendur sem er fjöldinn. En ástæða vandans er fyrst og fremst sú að einungis einstaka lönd hafa tekið þessu fólki opnum örmum. Það þýðir að allt álagið fer þangað. Fólkið fer til Þýskalands og Svíþjóðar. Í Þýskalandi eru um 80 milljón manns, í Svíþjóð eru um 9 milljón manns. Ef allt þetta fólk gæti farið óhindrað um 500 milljón manna markaðssvæði trúi ég því að þessi krísa yrði leyst á örfáum árum. Auðvitað yrðu einhverjar samfélagsbreytingar, auðvitað yrðu einhverjar menningarbreytingar. Eðlilega og sem betur fer. Þær eru jákvæðar til lengri tíma eins og saga fjölmenningarsamfélaga sýnir hvað best að mínu mati, svo sem Bandaríkjanna og Kanada og fleiri ríkja.

Þegar kemur að þessum málaflokki hér þá höfum við alltaf áhyggjur af þessu flóði af fólki sem muni koma hingað. Auðvitað getur það gerst ef við tökum rangar ákvarðanir. Ég vil meina að rangar ákvarðanir séu þær að reisa fleiri veggi og meiri hindranir í þessum málaflokki. Þvert á móti eigum við að hvetja samstarfslönd okkar og vinaþjóðir — og óvinaþjóðir ef út í það er farið, ef við eigum nokkrar slíkar — til að taka niður girðingar og hindranir. Það er mín afstaða. Auðvitað þarf að standa rétt að málum, það skiptir gríðarlegu máli.

Eins og ég hef nefnt áður trúi ég því staðfastlega að öllum gangi gott eitt til sem leggja frumvarpið fram en mig langar til að tíunda áhyggjur sem ég hef í sambandi við það. Ein er sú að ég hef verulegar áhyggjur af því að formaður hv. kærunefndar hafi vald til að úrskurða í málum einn og sér, hvað þá að varaformanni sé það einnig heimilt, samkvæmt ákveðnum forsendum sem frumvarpið gefur, svo sem eins og að ríkið sé á öruggum lista, mál sé bersýnilega tilhæfulaust eða hvaðeina. Ég trúi því ekki að þessi verkfæri sem við höfum, þ.e. hugtakið „bersýnilega tilhæfulaus umsókn“ og „listi yfir örugg ríki“ séu nógu góð tól. Ég held ekki að þau virki eins og er og þess vegna líður mér illa með að færa þetta mikla vald í hendur svo fárra. Miklu frekar mundi ég vilja gera meira til að gera kærunefndinni kleift að vinna að öllum málum hratt og örugglega með einfaldlega fleira fólki og meiri tíma. Það þýðir að sjálfsögðu meira fjármagn. Það er ekkert hægt að gera af viti í þessum málaflokki að mínu mati án aukins fjármagns. Þannig að ég hef miklar áhyggjur af því.

Sömuleiðis tel ég það gríðarlega afturför að taka burt rétt umsækjenda til að mæta á fund nefndarinnar. Ég átta mig fullkomlega á því að það taki tíma en ég tel það vera með mikilvægari réttindum þessara umsækjenda, að geta farið og hitt þetta fólk og talað við það og lýst sínu ástandi og aðstæðum sínum milliliðalaust. Það hryggir mig að þennan rétt eigi að taka burt þótt ég skilji að auðvitað gangi fólki vel til sem leggur það til.

Ég er í grundvallaratriðum á móti lista yfir örugg ríki. Ég tel hann einungis þjóna því hlutverki að taka mál ekki til nógu mikillar umfjöllunar. Ég held að ein afleiðingin af þessum lista yfir örugg ríki sé að fólkið sem tekur þessar ákvarðanir stytti sér leið. Ég sé ekki hvað þessi listi á að gera annað og þess vegna er ég í grundvallaratriðum á móti honum. Ég tel breytinguna sem er lögð til í frumvarpinu ekki til bóta. Ég tel hana festa hugmyndina í sessi. Það er þvert á þá stefnu sem ég vil fara í.

Þá hef ég enn fremur verulegar áhyggjur af því að sett sé í lög að réttaráhrifum verði ekki frestað. Ég tel einsýnt að það eigi alltaf að vera mögulegt að fresta réttaráhrifum. Aftur: Ég skil rökstuðninginn og ég ber virðingu fyrir markmiðinu sem fólk er að reyna að ná, þ.e. að bæta réttarstöðu og hagsmuni þessara umsækjenda. Ég tel bara ekki að þetta sé leiðin til þess. Ég tel að það eigi alltaf að vera hægt að fresta réttaráhrifum.

Ég er með öðrum orðum einfaldlega ekki sammála því sem kemur fram í upphafi greinargerðar, að frumvarpið leiði af sér sanngjarnari og skilvirkari málsmeðferð, þótt ég skilji að það sé tilgangurinn og beri virðingu fyrir því að það sé tilgangurinn. Ég ber ómælda virðingu fyrir því. Auðvitað gengur flutningsmönnum gott eitt til en ég er bara ekki sammála þeim um að þetta sé rétt leið.

Nú fær frumvarpið umfjöllun í hv. allsherjar- og menntamálanefnd þar sem við getum tekið þessa umræðu með ytri aðilum og ég hlakka mikið til að gera það. En samt ekki, því að ég býst við að sú umræða verði mjög þung. Málaflokkurinn er mjög þungur og um er að ræða ofboðslega mikilvæga hagsmuni og réttindi ofboðslega margs fólks.

Að svo stöddu ætla ég ekki að lengja mál mitt um þetta frumvarp en vil bara ítreka að ég ber mikla virðingu fyrir því að fólk vilji gera vel. En það er ekki nóg að vilja vel. Við þurfum líka að vita nákvæmlega hvað við erum að gera. Ég tel að það sé ekki tilfellið þegar kemur að þessu frumvarpi.



[17:28]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er viðkvæmt mál. Ég held að við getum öll verið sammála um það. Það er ekki óskastaða okkar sem sitjum í allsherjar- og menntamálanefnd að flytja þetta mál, alla vega get ég talað fyrir mig og ég held að ég geti talað fyrir flesta nefndarmenn, vegna þess að við bundum auðvitað vonir við það eins og farið var inn á áðan að stóra frumvarpið frá þverpólitísku þingmannanefndinni yrði komið til þingsins. Það áttu allir von á að það yrði í það minnsta komið inn og við þyrftum ekki að standa í því að taka þessa þætti út úr því, því þeir eru hluti af því stóra og viðamikla starfi sem unnið var í málinu. Og þegar mál er svo langt komið eins og í því tilfelli, nánast tilbúið í nóvember, skyldi maður ætla að það væri einfalt fyrir ráðherra að klára það á tiltölulega skömmum tíma.

Ég held að það sé alveg ljóst að ef ráðherra kemur ekki með frumvarpið hér inn mjög fljótlega þá mun ég styðja þá hugmynd að þingmannanefndin flytji málið. Eins og hér hefur komið fram var samráðið gríðarlega mikið og víðtækt. Þetta er viðkvæmur og viðamikill málaflokkur. Við þurfum að gefa okkur tíma til þess að ræða hann í þingsal og þetta er alls ekki gott í ljósi þess ástands sem mér finnst vera að koma upp í samfélaginu. Því miður finnst mér vera aukin rasismahugsun og ég tel að það eigi ekki að fara með svona mál inn í næstu kosningar. Við þurfum að afgreiða málið á þessu þingi og ná utan um þennan málaflokk. Það verður aldrei hægt að gera svo öllum líki, eins og sagt er stundum, því það eru auðvitað stór álitamál í þessu eins og hv. þingmaður á undan mér talaði um. Ég get tekið undir það, t.d. með listann yfir örugg ríki. Ég er afskaplega mótfallin þeirri hugsun. Við náðum ákveðnum árangri því að það átti að hafa hann í lögunum, hann átti að vera í ráðuneytinu, formlegur listi. Það verður ekki og það er í áttina, en ég er sammála því grundvallaratriði að svona listi á ekki að vera til.

Við erum auðvitað að fjalla um fólk, hælisleitendur eða flóttafólk, sem býr jafnvel við félagslega einangrun og er undir miklu andlegu álagi og í ljósi þess finnst mér ég hafa þurft að taka þátt í því að taka það skref sem hér er lagt til. Frumvarpið er ekki eins og ég hefði skrifað það, það er ekki eins og ég hefði viljað hafa það að öllu leyti, en þetta er ásættanlegt. Það þarf að fjölga í kærunefndinni, því miður fór það starf of hægt af stað, það þarf ekki að draga fjöður yfir það, það var svoleiðis, það voru erfiðleikar í upphafi starfs nefndarinnar. Það er kannski hluti af skýringunni, en það breytir því ekki að málum hefur fjölgað gríðarlega. Fjöldi þeirra margfaldast á milli ára. Það er auðvitað bara partur af heimsmyndinni sem við stöndum frammi fyrir. Þess vegna held ég að það sé í áttina að reyna að flýta málsmeðferð og veita auknar heimildir til formanns og varaformanns og ráða þá báða í fullt starf, annar er það nú þegar. Eitt af því sem skiptir held ég miklu máli er að fólk geti dreift ábyrgðinni og starfinu, og annar hvor þeirra þarf alltaf að sitja í þeim hóp sem vinnur með málin hvert fyrir sig. Ég held að þegar við verðum komin með sjö aðila, þetta verður auðvitað að vera oddatala, þá eigi þetta að geta farið af stað. Þess vegna þurfum við að láta málið ganga tiltölulega hratt hér í gegn. Það breytir því þó ekki að það væri ósköp gott að sjá til lands í stóra málinu og að ráðherra gæfi einhver önnur svör en að það sé bara alveg að koma á næstu dögum. Við erum búin að heyra það held ég nánast frá áramótum, þannig að það er eiginlega hætt að virka.

Frumvarpið er sex greinar og svo ákvæði til bráðabirgða. Í fyrsta lagi er fjallað um fjölgunina í nefndinni. Svo er fjallað um breytingu á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða þegar heilbrigðisástæðum er borið við. Okkur er væntanlega í fersku minni málin sem voru til afgreiðslu fyrir jólin og þingið afgreiddi, m.a. af því að nýtt frumvarp hefur ekki litið dagsins ljós og umgjörðin er ekki í lagi. Síðan er lagt til að réttaráhrifum verði ekki frestað í málum þar sem ríki eru talin örugg upprunaríki og aðstæður þannig að augljóst sé að ákvæði 44. gr. og 1. mgr. 45. gr. útlendingalaga eigi ekki við. Það er kannski þetta sem stendur í okkur mörgum. Ég tek undir með þingmanninum áðan að það var erfitt að sjá að Útlendingastofnun gæti afgreitt mál án þess að ræða við fólk. En heimild Útlendingastofnunar til þess að taka ákvörðun án þess að taka viðtöl við hælisleitanda er afnumin, bara svo það sé sagt, af því að mér fannst ég heyra í máli hv. þingmanns áðan að hann héldi að hægt væri að afgreiða mál án þess að taka viðtal. Það er ekki hægt. Mér finnst það skipta gríðarlega miklu máli, það eiga allir og þurfa allir að koma í viðtal. Það er ekki hægt að ýta neinum út af sakramentinu þess vegna. Hins vegar verður þetta væntanlega til þess að fólk verður flokkað eftir hugmyndafræðinni um örugg og ekki örugg ríki. Síðan á málsmeðferðin að taka í það mesta 90 daga. Það er auðvitað allt annað en hefur blasað við okkur undanfarin ár og við höfum heyrt af málum til margra ára í kerfinu sem er algjörlega óásættanlegt. Ég held að það eitt og sér sé afar mikilvægt.

Það er líka vert að geta þess að þrátt fyrir að aðila sé vísað úr landi þar sem hann er ekki talinn uppfylla þau skilyrði sem sett eru um alþjóðlega vernd þá getur hann rekið mál sitt erlendis frá og hann hefur talsmann á Íslandi. Það eitt og sér finnst mér líka skipta máli.

Í 3. gr. er lögð til sú breyting að ef umsókn um hæli er synjað á fyrsta stjórnsýslustigi þegar umsækjandi kemur frá ríki af þessum blessaða lista og umsóknin hefur verið metin tilhæfulaus þá er lagt að umsækjanda að fara úr landi eftir að niðurstaða liggur fyrir á fyrsta stjórnsýslustigi. En það breytir því ekki að ekki er slegið af neinum kröfum varðandi málsmeðferð og að kærufresturinn er 15 dagar.

Í 5. gr. er talað um að stefnt sé að því að kærunefndin hafi sams konar heimildir og Útlendingastofnun til þess að beita flýtimeðferð og forgangsraða málum. Ákvæði 2. mgr. er fellt niður með vísan til þess að því hafi ekki verið beitt í framkvæmd og til þess að árétta að ákvarðanir á fyrsta stjórnsýslustigi verða ekki teknar án þess að viðtal sé tekið við umsækjanda og rannsóknarskyldu stjórnvalda sé fullnægt.

Ég held að við höfum reynt að nálgast þetta eins vel og við gátum miðað við aðstæður og grundvallarhugsun okkar allra sem höfum þurft að fást við þessi mál er mannúðarsjónarmið. Það er líka mikilvægt fyrir okkur í orðræðunni að gera greinarmun, mér finnst það nokkuð áberandi að fólk ruglar því saman, þegar sótt er um alþjóðlega vernd, hvað það er að vera hælisleitandi eða flóttamaður eða kvótaflóttamaður. Mér finnst það ekki vera öllum ljóst. Mér finnst gjarnan þegar ég á samtal við fólk að það setji þetta allt undir einn hatt. Ég veit ekki alveg hvernig við eigum að upplýsa fólk um að þarna er greinarmunur.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Eins og ég segi þá er það hálfgert neyðarbrauð að þurfa að leggja fram þetta frumvarp af hálfu nefndarinnar. Ég hvet ráðherra til þess og fer eiginlega fram á það að hún sýni á stóru spilin og láti þingið ekki og þá aðila sem í kerfinu starfa og auðvitað þá sem þurfa að ná tali af kerfinu og fá þjónustu þess, bíða enn um sinn, heldur gefi okkur ádrátt um að hún sé að koma með frumvarpið inn í þingið, ég mundi allra helst vilja að það væri bara á næstu dögum.



[17:39]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp fyrst og fremst í þeim tilgangi að taka undir með þeim þingmönnum sem hafa auglýst eftir stóra frumvarpinu um útlendingamálin. Það hefur verið unnið á mjög merkilegan hátt sem er alveg til fyrirmyndar, í þverpólitískri samstöðu.

Frumvarpið liggur í ráðuneytinu og það er orðið svolítið undarlegt miðað við umfang málsins og miðað við samstöðuna sem ríkir um málið í þinginu að frumvarpið sé ekki komið. Ég vil því leggja á það þunga áherslu að frumvarpið komi hingað sem fyrst.

Það þótti mikilvægt að leggja fram þennan frumvarpsstubb um breytingar á lögum um útlendinga út af ákveðnum aðstæðum sem hafa komið upp varðandi málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd hér á landi. Það var bagalegt þegar fjallað var um þetta frumvarp í allsherjar- og menntamálanefnd að hafa ekki heildarmyndina fyrir framan sig.

Sú heildarmynd er auðvitað í frumvarpsdrögunum. Maður þurfti oft að minna sig á að í þessu frumvarpi erum við aðeins að tala um afmarkaðan þátt málsins og leggja til ákveðnar lagfæringar á vissu ferli sem er einn þáttur í heildarmálinu, sem er það hvernig við ætlum að standa okkur vel í því að taka á móti fólki sem vill búa hérna. Í því mikilvæga verkefni felst einfaldlega að marka þjóðinni, þessari lokuðu þjóð, lokaða þjóðfélagi hingað til, einhverja skynsamlega og metnaðarfulla stefnu í innflytjendamálum.

Svo ég taki það algjörlega skýrt fram eigum við að opna landið verulega. Ég held að það sé það sem þurfi að gera á 21. öldinni okkur sjálfum til góðs og eins svo að við stöndum okkur í samfélagi þjóðanna.

Hvað er verið að gera í þessu frumvarpi? Ég á ekki í miklum vandræðum með að standa að frumvarpinu, sérstaklega eftir að ákveðnar umdeildari greinar voru sniðnar af því og þeim vísað í stóru meðferðina. Í fyrstu setningu greinargerðarinnar segir að meginmarkmið frumvarpsins sé að tryggja sanngjarna og skilvirka málsmeðferð við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Það er það eina sem er verið að gera í frumvarpinu.

Ég er þeirrar skoðunar að gott sé að hafa meðferð umsókna um alþjóðlega vernd sem besta og skilvirkasta og sem mannúðlegasta og gagnsæjasta. Það er ýmislegt í frumvarpinu sem er til bóta í því efni, eins og að fjölga einfaldlega í kærunefnd um úrskurði í þessum málum.

Ég held að öllum sé greiði gerður ef þessar umsóknir eru afgreiddar á sem skilvirkastan hátt og það er líka mikil framför að ekki megi taka ákvörðun í þessum málum án þess að taka viðtal við hælisleitandann til dæmis.

Það er augljóst að maður hefur fyrirvara við lista um örugg ríki. Ég spurði þá gesti sem komu fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd hvaða gildi þessi listi hefði. Ég er sammála því að ekki eigi að binda hann í reglugerð. En auðvitað á svona listi ekki að vera næg ástæða til að synja einstaklingi um alþjóðlega vernd hér á landi, vegna þess að hann kemur frá landi sem telst öruggt í einhverjum skilningi. Það hlýtur bara að vera einn faktor sem er hafður í huga.

Mér finnst skýrt í frumvarpinu að þetta er hugsað svona. Umsóknin um alþjóðlega vernd verður að vera tilhæfulaus að öðru leyti eða að það þyki sýnt að hún sé tilhæfulaus að öðru leyti.

Ég sé ekki fyrir mér að við tökum umsóknum um alþjóðlega vernd sem sjálfsögðum hlut og að sá sem sækir um alþjóðlega vernd fái hana einfaldlega. Við verðum að standa okkur í því að bjóða fólki sem sækir um alþjóðlega vernd, hæli, þá aðstoð sem við viljum veita. Fólk kemur oft úr miklum hörmungum frá stríðshrjáðum svæðum. Við viljum væntanleg geta staðið okkur í því sem samfélag að taka á móti fólki og koma fólki á lappir aftur eftir miklar hörmungar.

Það eru í einhverjum skilningi takmörkuð gæði sem við getum boðið upp á hvað þetta varðar. Ég er eindreginn hvatamaður þess að við gefum í og reynum að setja sem mesta fjármuni í þetta og reynum að standa okkur. Við eigum langt í land með að standast samanburð við aðrar þjóðir sem standa sig vel í þeim efnum. Við eigum að taka á móti fólki sem þarf þessa aðstoð og þarf að koma undir sig fótunum í nýju og öruggara samfélagi.

En þegar við segjum að sumum sé hafnað um þetta vegna þess að umsókn um vernd er tilhæfulaus, vegna þess að af einhverjum ástæðum þyki sýnt að manneskjan hafi ekki verið hrjáð á neinn þann hátt að hún þurfi endilega aðstoð samfélagsins, þá finnst mér mikilvægt að þeirri manneskju sé bent á aðrar leiðir til þess að gerast virkur þátttakandi í samfélaginu.

Þá vantar einmitt hitt frumvarpið til hliðsjónar. Í því frumvarpi er verið að gera þær leiðir allar miklu opnari, að mér skilst, og miklu skilvirkari, að fólk geti komið hingað og fengið dvalarleyfi og atvinnuleyfi, sem er nú um stundir mjög flókið og setur fólki óþægilegar skorður.

Ég veit það fyrir víst að í því frumvarpi sem er væntanlegt í þingið og kemur sem fyrst er verið að gera þessar leiðir miklu opnari.

Ég sé þetta virka ágætlega saman, ef við erum með vandaða og skilvirka málsmeðferð þegar einhver sækir um hæli hér og alþjóðlega vernd og aðrar leiðir eru á sama tíma opnaðar og fólki beint í þá kanala ef það uppfyllir ekki skilyrði um alþjóðlega vernd.

Ég sagði áðan að í þessu frumvarpi er ekkert verið að segja hversu mörgum hælisleitendum eigi að taka á móti eða hversu opið landið eigi að vera í þeim efnum. Það er aðeins kveðið á um réttláta og sanngjarna málsmeðferð. Ég styð það.

En þegar kemur að þeirri spurningu hvað við eigum að gera mikið tel ég að við eigum að gefa verulega í og reyna að standa okkur í þessu. Við eigum að miða við önnur norræn ríki þegar kemur að þessu. Ég held hins vegar að við verðum að horfast í augu við það, Íslendingar, þetta samfélag, að við höfum verið mjög lokuð. Það hefur verið mjög erfitt flytja til Íslands.

Þetta hefur breyst eftir að við gerðumst þátttakendur í Evrópska efnahagssvæðinu. En það eru innlendar hindranir gagnvart öllum röddum um að opna landið betur. Það voru nýlega stofnaðir pólitískir flokkar sem hafa það að markmiði sínu að reyna að koma í veg fyrir að landið opnist frekar. Þau sjónarmið hafa heyrst í þingsal að við eigum afdráttarlaust að vísa fólki frá.

Þetta er ekkert sem heyrist í fyrsta skipti hér og nú. Þetta viðhorf hefur að mörgu leyti einkennt stefnu Íslendinga í útlendingamálum um áratuga skeið. Það er aðeins nýverið að við sjáum breytingar í þeim efnum.

Ég held að það verkefni að sannfæra þjóðina um að opna landið betur, sem mér finnst samt ríkja glettilega mikill einhugur um í þingsal, sé erfiðara en fólk áttar sig á. Ég held að þess vegna sé mikilvægt að fá stóra útlendingafrumvarpið hingað inn sem fyrst, í góðum tíma fyrir næstu kosningar, afgreiða það fyrir kosningar og eiga þessa samræðu hér inni og við þjóðina.

Svo held ég að Ísland þurfi að marka sér stefnu í innflytjendamálum eins og mörg þjóðfélög gera. Hvað teljum við skynsamlegt að margir búi hérna? Ég held að við horfum upp á tíðaranda sem er öðruvísi en sá sem ríkti á 20. öldinni. Ég held að á 21. öldinni verði miklu meiri fólksflutningar og miklu meiri krafa um að fólk geti búið þar sem það kýs að búa. Við þurfum að finna leiðir til þess að gera gott úr því, nýta það, Íslendingum til hagsbóta og framfara.

Ég sé ekkert í þessu frumvarpi sem kemur í veg fyrir að við tökum uppbyggileg framfaraskref í þeim málum í heild.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.