145. löggjafarþing — 84. fundur
 2. mars 2016.
skilyrðislaus grunnframfærsla, fyrri umræða.
þáltill. HallM o.fl., 354. mál (borgaralaun). — Þskj. 454.

[19:19]
Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um skilyrðislausa grunnframfærslu, eða borgaralaun. Flutningsmenn eru Halldóra Mogensen, Ásta Guðrún Helgadóttir og Birgitta Jónsdóttir. Mig langar aðeins að fara yfir mikilvægar staðreyndir áður en ég fer yfir ályktunina sjálfa.

Í fyrsta lagi hafa Píratar ekki lagt fram stefnu um borgaralaun. Með því að leggja fram þessa tillögu til þingsályktunar erum við að búa til forsendur til að kanna hvort það sé gerlegt og skynsamlegt að leggja fram stefnu um borgaralaun. Það er aldrei hægt að fara í stefnumótunarvinnu nema hafa allar forsendur til þess og þegar verið er að tala um grundvallarbreytingar á samfélaginu þá er nauðsynlegt að fá heildræna skoðun á orsökum og afleiðingum þess að taka þessa stefnu upp.

Mikil umræða hefur skapast um þessa leið, ekki bara á Íslandi heldur víða í þeim löndum sem við gjarnan lítum til í margvíslegu samhengi. Í júní stendur til að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss um hvort Svisslendingar ætli sér að taka upp borgaralaun. Þá hafa um 20 sveitarfélög í Hollandi ákveðið að kanna þessa leið og Finnar hafa jafnframt verið með nýlegar tilraunir með þessa leið til breytingar á samfélagsgerð. Ég hef ákaflega stuttan tíma en ég ætla að lesa upp helstu atriðin.

Alþingi ályktar að fela félags- og húsnæðismálaráðherra í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem kortleggi leiðir til að tryggja öllum borgurum landsins skilyrðislausa grunnframfærslu með það að markmiði að styrkja efnahagsleg og félagsleg réttindi fólks og útrýma fátækt. Starfshópurinn verði skipaður fimm einstaklingum sem hafi fagþekkingu á sviði efnahags- og félagsmála. Félags- og húsnæðismálaráðherra skipi formann hópsins.

Við störf sín hafi hópurinn ítarlegt samráð við Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, EAPN Ísland, Félag eldri borgara, Jafnréttisstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, Umboðsmann barna og Öryrkjabandalag Íslands, auk annarra aðila sem hann telur rétt að ræða við.

Verkefni starfshópsins verði að leita leiða til að tryggja öllum borgurum skilyrðislausa grunnframfærslu. Við þá vinnu fari fram:

a. mat á kostum og göllum ólíkra leiða að skilyrðislausri grunnframfærslu, m.a. með hliðsjón af núverandi almannatryggingakerfi og öðrum framfærslukerfum, flækjustigi þeirra, markmiðum og árangri og áhrifum þeirra á afkomu og kaupmátt ólíkra samfélagshópa,

b. samantekt á hugmyndum um grunnframfærslu og neysluviðmið sem komið hafa fram hér á landi og mat á kostum þeirra og göllum,

c. kostnaðargreining á mögulegum leiðum við upptöku skilyrðislausrar grunnframfærslu með hliðsjón af rekstrarkostnaði núverandi kerfis,

d. heildræn skoðun á áhrifum skilyrðislausrar grunnframfærslu á öll framfærslu- og skattkerfi ríkis og sveitarfélaga, þar á meðal afleidd áhrif á heilbrigðiskerfið, lögreglu-, dóms- og fangelsismál, menntakerfið o.fl., með sérstöku tilliti til mögulegs sparnaðar,

e. nákvæm útlistun allra opinberra bóta, launa, styrkja o.s.frv., sem gætu fallið brott við upptöku skilyrðislausrar grunnframfærslu,

f. skoðun á því hvernig vænlegast væri að fjármagna verkefnið,

g. mat á leiðum til að mæla samfélagsleg áhrif skilyrðislausrar grunnframfærslu við og eftir upptöku kerfisins,

h. mat á kostum og göllum breyttrar samfélagsgerðar sem vænta má að kerfið hefði í för með sér.

Við starfið verði litið til reynslu annarra ríkja þar sem gerðar hafa verið tilraunir með grunnframfærslu, þar á meðal með tilliti til sparnaðar sem hefur náðst með minnkuðu flækjustigi og minni rekstrarkostnaði og til kostnaðar sem hefur fallið til, sem og annarra samfélagslegra og efnahagslegra áhrifa. Þá verði leitað aðstoðar og leiðsagnar innlendra og erlendra sérfræðinga sem og hagsmunaaðila og hjálparsamtaka eftir þörfum.

Í greinargerðinni koma fram nokkur atriði sem mér finnst mikilvægt að tæpa á:

„Hugtökin velferð og mannréttindi fela í sér grundvallarmun, því velferð er ekki lagalegt hugtak og vísar ekki til mannréttinda í sjálfu sér, og hafa þarf hugfast að ríkinu ber skylda til að tryggja að tilteknum þörfum íbúa landsins sé mætt; ekki á grundvelli velferðar eða ölmusu, heldur á grundvelli lagalegs réttar.“

Fátækt á Íslandi er að miklu leyti afleiðing íslenskrar velferðarstefnu sem byggist á skilyrtri velferðarforsjá í formi lágmarksaðstoðar og áherslu á góðgerðarstarfsemi og ölmusu fyrir þá verst settu. Íslenska ríkið hefur í gegnum árin sett lög og reglugerðir sem veita fólki svo lágar bætur að upphæðirnar eru innan fátæktarmarka. Samkvæmt Hagstofu Íslands voru á árinu 2014 34.500 manns, eða 11,1% landsmanna, undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun.

Rannsóknir sem gerðar hafa verið á lífi og aðstæðum fátækra sýna mjög greinilega hversu alvarlegar afleiðingar fátækt hefur fyrir samfélagið í heild. Líf fátækra einkennist af miklu andlegu álagi, vanlíðan og niðurlægingu sem leiðir til skertrar sjálfsvirðingar, sorgar, kvíða og niðurbrots á andlegu og líkamlegu heilsufari. Fátækt stuðlar að því að einstaklingar, þar á meðal börn, heltast úr samfélagslestinni, glata samkeppnisfærni og njóta þar af leiðandi ekki þeirra tækifæra og gæða sem teljast sjálfsögð og eðlileg í samfélaginu. Niðurstöður sýna að börn sem fædd eru inn í fátæktaraðstæður eru í verulegri hættu á að fara út í lífið með brotna sjálfsmynd og upplifa sig sem annars flokks þegna. Ef markmiðið er að tryggja að allir borgarar landsins geti tekið virkan þátt í lýðræðislegu samfélagi verða efnahagsleg og félagsleg réttindi að eiga sama sess í lögum og borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Afleiðingar þess að útiloka frá þátttöku í samfélaginu umræddan hóp fólks sem býr við skert félagsleg réttindi munu verða okkur dýrkeyptar til lengri tíma. Óskasamfélag Íslendinga hlýtur að vera samfélag þar sem rík áhersla er lögð á mannréttindi, lýðræði og frelsi.

Skilyrðislaus grunnframfærsla er hugmynd að kerfi sem ætlað er að leysa almannatryggingakerfið af hólmi eða í það minnsta einfalda það verulega, gera það réttlátara og sömuleiðis uppræta ákveðinn innbyggðan ójöfnuð í samfélaginu. Þetta er framkvæmt með því að greiða hverjum og einum borgara fjárhæð frá ríkinu óháð atvinnu eða öðrum tekjum. Þessi upphæð er hugsuð sem grunnframfærsla til að tryggja þau efnahagslegu og félagslegu réttindi sem Ísland er samningsbundið til að tryggja samkvæmt alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Með öðrum orðum er þetta tegund af grunnframfærslu sem er frábrugðin þeirri skilyrtu grunnframfærslu sem notast er við í ýmsum löndum í Evrópu vegna þess að hún er:

1. greidd til einstaklinga fremur en heimila,

2. óháð öllum öðrum tekjum,

3. án kröfu um að einstaklingur hafi verið í vinnu áður eða sé viljugur að taka þá vinnu sem er í boði.

Nokkur ríki hafa gert tilraunir með skilyrðislausa grunnframfærslu. Í Norður-Ameríku voru á árunum 1968–1980 gerðar fimm mismunandi tilraunir á „Guaranteed Annual Income“ sem er tilbrigði af skilyrðislausri grunnframfærslu. Tilgangur tilraunanna var aðallega sá að rannsaka áhrif á vinnumarkaðinn. Fyrsta tilraunin átti sér stað í New Jersey og Pennsylvaníu á árunum 1968–1972 þar sem áhrif á borgarbúa voru skoðuð. Önnur tilraun var gerð í Gary, Indiana, til að kanna áhrif á einstæða foreldra. Þriðja tilraunin fór fram í Norður-Karólínu og Iowa til að rannsaka áhrifin á landsbyggðina. Fjórða tilraunin í Seattle-Denver var stærst og náði til mun stærri hóps íbúa. Tilraunin hét „Income Maintenance Experiment“. Seinasta tilraunin með GAI, sem var einnig sú frægasta, var nefnd MINCOME og átti sér stað í bænum Dauphin í Manitoba í Kanada á árunum 1974–1979.

Niðurstöður þessara mismunandi tilrauna þóttu koma á óvart þar sem lítil áhrif virtust vera á vinnumarkaðinn en töluverð áhrif voru á líkamlega og andlega heilsu fólks og tækifæri þess til menntunar. Þeir sem hættu að vinna eða minnkuðu vinnutíma voru aðallega konur sem kusu að verja meiri tíma í heimilið og börnin og ungt fólk sem kaus að mennta sig frekar og seinkaði þannig komu sinni á vinnumarkaðinn. Í Norður-Karólínu sýndu börn tilraunafjölskyldna bættan árangur í grunnskólaprófum. Í New Jersey var prófgögnum ekki safnað en jákvæð áhrif voru á skólagöngu barna þar sem mikið dró úr brottfalli. Í einni tilrauninni var mikil aukning á endurmenntun fullorðinna. Þessar niðurstöður þóttu frekar merkilegar í ljósi þess að fræðimenn hafa lengi talið nánast ómögulegt að hafa áhrif á prófárangur, brottfall eða menntunarákvarðanir með beinni íhlutun. Í tilrauninni í Indiana fundust jákvæð áhrif á fæðingarþyngd í þeim hópum sem voru í mestri áhættu. Niðurstöður í Manitoba-tilrauninni sýndu að sjúkrahúsinnlögnum fækkaði og þá sérstaklega innlögnum vegna slysa og meiðsla og geðsjúkdóma. Reiknaður sparnaður í heilbrigðiskerfinu var 8,5% á tímabilinu sem rannsóknin stóð yfir.

Í Alaska hófst árið 1977 vinnsla olíu úr stærstu olíulind sem hefur verið uppgötvuð í Norður-Ameríku. Skömmu síðar var gerð stjórnarskrárbreyting sem gerði ríkinu kleift að setja á fót sjóð sem nefnist „Alaska Permanent Fund“ þar sem settur er til hliðar hluti (að minnsta kosti 25%) af tekjum olíuvinnslunnar fyrir komandi kynslóðir. Þegar sjóðurinn var stofnaður var ætlunin að koma í veg fyrir að allar tekjur olíuframleiðslunnar lentu í höndum stjórnmálamanna þar sem óttast var að peningum yrði sóað. Alaska-sjóðurinn er fjárfestingasjóður með það að markmiði að hagnast um 5% á ári og eru þær fjármagnstekjur sem sjóðurinn fær greiddar út árlega til allra borgara Alaska. Þrátt fyrir að upphæðirnar séu ekki nægilega háar til að duga fyrir grunnframfærslu, 900 dollarar á hvern einstakling árið 2013, er Alaska-sjóðurinn ein birtingarmynd þess hvernig skilyrðislaus grunnframfærsla gæti verið útfærð.

Í Namibíu var byrjað að rannsaka áhrif skilyrðislausrar grunnframfærslu árið 2007 og stóð sú rannsókn yfir í tvö ár. Rannsóknin var gerð í litlu þorpi þar sem ríkti gríðarleg fátækt, glæpir voru tíðir og mikið atvinnuleysi. Þar var ákveðið að greiða öllum íbúum svæðisins (að undanskildum þeim sem höfðu náð 60 ára aldri og þá þegar fengu skilyrðislausar lífeyrisgreiðslur frá ríkinu) mánaðarlega upphæð sem næmi helmingi þeirrar upphæðar sem skilgreind var sem fátæktarmörk. Niðurstöður þessarar tilraunar voru margvíslegar en til að nefna þær helstu þá fækkaði tilkynntum glæpum til lögreglunnar um 36,5%, hlutfall vannærðra barna féll úr 42% niður í 10%, brottfall úr skólum minnkaði um 42%, atvinnuleysi fór úr 60% niður í 45% og atvinnuþátttaka jókst, meðaltekjur, að undanskildum styrknum, jukust um 29% og fjöldi nýrra fyrirtækja var stofnaður.

Nú hef ég ekki tíma til að lesa allt sem kemur fram í greinargerð, en þar er mikill hafsjór af fróðleik. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við skoðum hvort þau kerfi sem við höfum þróað, og eru orðin gríðarlega stór og umfangsmikil, séu mannúðleg. Við höfum heyrt hér í dag að fólk sem greinist með alvarlega sjúkdóma, eins og til dæmis krabbamein, þurfi að greiða mjög háar fjárhæðir í veikindum sínum. Við höfum heyrt það og ítrekað að bæði eldra fólk og fólk sem er í áhættuhópum um fátækt og þeir sem búa við veikindi lenda viðstöðulaust á veggjum í kerfi sem er orðið svo flókið að ekki er nokkur leið að greiða úr því. Mér finnst það þess virði að skoða og kanna þessa leið og fá í það minnsta allar tölulegar upplýsingar. Það er möguleiki að prófa svona kerfi einvörðungu fyrir þá sem þurfa að þiggja bætur. Það má gera tilraun með að prófa þetta í þorpum þar sem mikið atvinnuleysi er á Íslandi. Mér finnst alla vega, miðað við hvað maður sér margar brotalamir á núverandi kerfi, ekki bara nauðsynlegt heldur skylda að kanna aðrar leiðir. Miðað við það sem ég hef kynnt mér í kringum borgaralaun þá finnst mér það vel raunhæfur valkostur á tímum þar sem atvinnuleysi ungs fólks eykst víða í löndunum í kringum okkur og talið er að færri og færri þurfi að vinna út af tækniframförum. Hvað ætlum við að gera þá? Ætlum við að láta allt unga fólkið okkar vera á atvinnuleysisbótum eða ætlum við að búa til grunn að annars konar samfélagi þar sem fólk þarf ekki að lifa í stöðugum kvíða um framfærslu?



[19:33]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir ræðuna um þessa tillögu til þingsályktunar, sem hún mælti fyrir, um skilyrðislausa grunnframfærslu.

Á síðasta þingi bauð hv. 1. flutningsmaður tillögunnar, Halldóra Mogensen, mér að vera einn af meðflutningsmönnunum. Mér fannst málið áhugavert og gaf mér þess vegna talsverðan tíma til að lesa tillögutextann og greinargerðina ítarlega og hugsa málið vel. Ég er svo sannarlega sammála því sem segir í upphafi tillögutextans um það markmið að útrýma fátækt og styrkja efnahagsleg og félagsleg réttindi fólks. Það má segja að þau lykilorð í setningunni hafi verið kveikjan að því að ég gaf málinu tíma og fannst það ígrundunar virði.

Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég vildi ekki vera meðflutningsmaður. Mig langar að nota ræðutíma minn hér til að rekja hvað það var sem leiddi mig að þeirri niðurstöðu. Ég vona að úr því geti orðið punktar fyrir hv. velferðarnefnd til að hafa til hliðsjónar í vinnu sinni en eftir umræðurnar hér í dag verður tillögunni vísað til þeirrar nefndar.

Fyrst ber að nefna að ég er ósammála því sem kemur fram í greinargerðinni að fátækt á Íslandi sé afleiðing íslenskrar velferðarstefnu. Ekki er þar með sagt að ég sé ekki gagnrýnin á velferðarstefnuna sem hér hefur verið rekin, en ég er hins vegar þeirrar skoðunar að fátækt og misskipting væri mun meiri ef ekki væri fyrir þá velferðarstefnu sem við höfum haft og það velferðarkerfi sem við höfum byggt upp, sem og sterka verkalýðshreyfingu sem ég tel að skipti líka máli í því sambandi. En auðvitað er hægt að gera miklu betur. Það er nauðsynlegt að gera miklu betur. En ég er sem sagt skeptísk á að þetta sé leiðin.

Í stuttu máli má segja að ég sé sammála niðurstöðunni sem flutningsmenn tillögunnar komast að, þ.e. ég vil útrýma fátækt og styrkja efnahagslega og félagslega stöðu fólks, en það eru borgaralaunin, eins og þau eru rökstudd í greinargerðinni, sem ég er efins um; ég tel að þau séu ekki rétta leiðin. Ekki er þar með sagt að ég sé á móti því að ýmsir áhugaverðir punktar sem settir eru fram í tillögunni séu skoðaðir. Ég ætla ekki að draga í efa að það sé hverju samfélagi hollt að skoða það kerfi sem það er með. Það hlýtur að vera okkur hollt að skoða velferðarkerfið okkar, ég leggst alls ekki gegn því að farið verði í þá vinnu að skoða það.

Ég er hins vegar mjög efins um þann þátt þar sem talað er um skilyrðislausa grunnframfærslu án tillits til annarra launa. Það leiðir til þess að ríkið greiðir þá öllum jafnt, óháð getu fólks til að afla sér annarra tekna. Ég tel það einfaldlega ekki góða nýtingu á því fjármagni sem eitt samfélag hefur til ráðstöfunar hverju sinni. Nóg getum við nú þráttað um það hér í þessum sal hvernig afla eigi tekna til að reka samfélagið og svo aftur um það hvernig eigi að ráðstafa þeim.

Þó svo að hægt sé að spara einhvers staðar í samlegðaráhrifum af því að þurfa ekki að reka ákveðin kerfi þá mundi ég alla vega vilja sjá útreikninga sem sannfæra mig um eða sýna mér fram á betri afkomu fólks sem hefur ekki aðrar tekjur en grunnframfærsluna sér til framfærslu. Ég hef áhyggjur af því að ef kerfið yrði svona verði fólk sem hefur litla eða enga vinnugetu kerfislægt undirskipað í samfélaginu, vegna þess að það verður alltaf á hinni strípuðu grunnframfærslu meðan aðrir hafa tekjur, launatekjur, fjármagnstekjur, hvaða tekjur sem er, ofan á grunnframfærsluna.

Mig langar í því samhengi að minna á og rifja upp umræðuna sem var hér í þessum sal í tengslum við fjárlög ársins 2016. Þar ræddum við meðal annars um það hvort bætur til öryrkja og ellilífeyrisþega ættu að fylgja hækkunum og þróun lágmarkslauna. Nokkrir hv. þingmenn settu fram þá skoðun, og þar með talinn hæstv. fjármálaráðherra, að þeir teldu að lágmarkslaun ættu að vera hærri en bætur og færðu meðal annars sem rök fyrir því að annars væri hætta á því að fólk sæktist í að komast á bætur. Við gætum auðvitað komið í veg fyrir það að einhverjir sæki um það að fara á bætur sem ekki þurfa það ef allir fá greiddar bætur, en ég og fleiri hv. þingmenn færðum þá rök fyrir því að við teldum einmitt að ekki ætti að hafa það innskrifað í kerfið að fatlað fólk eða eldra fólk, svo að dæmi sé tekið, ætti að vera kerfislægt undirskipað öðrum. Það er í grunninn það sem mér finnst helst athugavert við tillöguna um skilyrðislausa grunnframfærslu.

Það er kannski einnar messu virði (Forseti hringir.) að skoða málið í hv. velferðarnefnd. Ég hlakka svo sannarlega til að sjá umsagnir sem koma (Forseti hringir.) um málið úr ólíkum áttum. Ég hlakka til að lesa þær og taka svo annan snúning á þetta mál hér við síðari umræðu.



[19:44]
Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Mig langar að ítreka að við erum einungis að fara í könnunarleiðangur um kerfið til að skoða þessa leið eða aðrar leiðir; það eru til margar útfærslur af borgaralaunum. Á sama tíma fylgjumst við mjög grannt með því hvernig til tekst í löndunum í kringum okkur. Einn af þeim fjöldamörgu grasrótarhópum sem eru í samsteypunni Podemos á Spáni er til dæmis grunnborgaralaunaflokkur. Það er mikil gerjun og mikið verið að skoða þessa hluti í Evrópu og við erum bara að hefja þá vegferð að kanna hvað er gerlegt.

Ég er hjartanlega ósammála hv. þingmanni sem hér hefur rætt um þessa leið og veit að enginn sem stendur að þessari tillögu mundi nokkurn tíma vilja standa að því að gera kjör þeirra sem minnst mega sín verri. Aldrei. Ég held að við ættum að fagna því að fá tækifæri til að ræða þetta mál frekar í nefnd með þeim sem láta sig þessi mál varða, mismunandi stofnanir og félagasamtök. Ég fagna því að við fáum tækifæri til að ræða þessi mál frekar og hlakka til að ræða frekar við hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur um þessi mál. Við erum að brenna inni á tíma núna en ég hlakka til frekari samskipta og umræðna um borgaralaun.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til velfn.