145. löggjafarþing — 85. fundur
 9. mars 2016.
arðgreiðslur tryggingafélaganna.

[15:14]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Tryggingafélögin hafa hækkað iðgjöld en greiða sér út gríðarlegar fjárhæðir í arð. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvað honum finnist um þetta. Hefur fjármálaráðherra kannað hvort þetta samræmist lögum og reglum eða hvort hann geti gripið til einhverra ráðstafana vegna þessa framferðis tryggingafélaganna? Gengur það upp í huga fjármálaráðherra að gengið sé með þessum hætti um bótasjóðina? Eða telur ráðherrann ekki eðlilegt að gera þá kröfu að annaðhvort renni endurreikningar þeirra aftur til viðskiptavinanna í formi lækkaðra iðgjalda ellegar séu geymdir í sjóðunum til að mæta áföllum sem síðar kunna að verða?

Talandi um áföll: Hefur ríkisvaldið eða bankar þess eða fyrirtæki þurft að afskrifa fjárhæðir á síðustu árum af þessum félögum án þess að eiga nú endurkröfu þegar eignirnar þar eru endurmetnar með þessum hætti?

Enn spyr ég, virðulegur forseti: Hefur hæstv. fjármálaráðherra einhver tök á því að komast að þessu máli í gegnum eignarhald ríkisins, eignarhald banka á vegum ríkisins, Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, komist að aðalfundum eða stjórnum þessara félaga eða reynt með einum eða öðrum hætti að hafa áhrif í þá veru að menn greiði sér ekki út hagnað, sem er í tveimur af þremur tilfellum miklu meiri arður en samanlagður hagnaður síðasta árs, og láti þetta annaðhvort renna aftur til viðskiptavinanna ellegar sitja í bótasjóðunum og bíða þeirra áfalla sem við vitum að (Forseti hringir.) munu auðvitað verða í framtíðinni?



[15:17]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er mörgum spurningum beint til mín í tilefni af fréttum um tillögur stjórna vátryggingafélaganna um arðgreiðslur. Ég skal reyna að bregðast við þeim eins og ég best get. Mér finnst samt mikilvægt að segja fyrst þetta: Tryggingafélögin eru undir sömu sök seld og önnur atvinnustarfsemi á landinu þegar kemur að því að taka þátt í því með okkur, þinginu, vinnumarkaðnum í heild sinni, sveitarfélögunum, ríkisvaldinu, að endurheimta traust sem rofnaði hér á árunum 2008 og 2009 vegna hruns á fjármálamarkaði. Maður kallar einfaldlega eftir því að tillögur sem þaðan berast um rekstraráform, um það hvernig ráðstöfun hagnaðar eða eigna fer fram, séu í eðlilegum takti við það ákall sem við vitum að er enn í samfélaginu eftir þá atburði sem eru nýskeðir. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þingmanni að það hlýtur að hljóma illa í eyrum allra landsmanna að menn boði iðgjaldahækkanir en ætli á sama tíma að taka út arð sem er langt umfram hagnað síðastliðins árs. Þetta er fyrir mig eiginlega óskiljanlegt. En menn sitja þá bara uppi með skömmina af því.

Eftir því sem ég kemst næst, á grundvelli þeirra laga og reglna sem um þetta gilda og eftir samskipti ráðuneytisins við Fjármálaeftirlitið og eftir að hafa lesið yfirlýsingar Fjármálaeftirlitsins, eru í sjálfu sér ekki til staðar neinar lagaheimildir til að grípa inn í tillögur um arðgreiðslur. Ég held við þurfum líka að gæta þess að gera greinarmun á því þegar menn taka út (Forseti hringir.) arð sem er langt umfram hagnað og öðrum (Forseti hringir.) tilvikum þegar menn ráðstafa hagnaði síðasta árs. Ég skal koma að því í síðara svari mínu hvaða ráðstafanir við erum nýbúin að gera til þess að treysta (Forseti hringir.) langtímahagsmuni vátryggingataka.



[15:19]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þó að eigendurnir sitji sannarlega uppi með skömmina þá situr almenningur uppi með reikninginn. Við hljótum að leita allra leiða til að gera betur en það að átelja þetta framferði hér í ræðustól. Það getur ekki gengið, virðulegur forseti, að eitt árið komi ríkið að málefnum þessara félaga vegna þess að þau séu svo mikilvægar stofnanir í íslensku samfélagi að það verði að endurreisa þær, en síðan sé hægt að hola þær að innan skömmu seinna.

Mér skilst, virðulegur forseti, að 2 milljarðar af arðgreiðslum eins af þessum félögum séu fjármagnaðir með lántökum. Það er ekki verið að taka út arð sem er til í sjóði heldur er verið að slá lán út á framtíðina til þess að borga þetta út.

Ég spyr aftur hæstv. fjármálaráðherra: Eigum við hlut í einhverjum af þessum tryggingafélögum? Munum við beita okkur gegn þessum áformum á aðalfundi í því tryggingafélagi?



[15:20]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í því frumvarpi sem liggur fyrir þinginu eru fjölbreytt ákvæði sem ætlað er að tryggja langtímahagsmuni vátryggingataka og lúta sérstaklega að því að styrkja gjaldþol vátryggingafélaganna í landinu og auka eftirlit með starfsemi þeirra. Í þessari umræðu held ég að maður verði að gjalda varhuga við því sem hv. þingmaður sagði hér, að verið sé að hola félögin að innan vegna þess að í því liggur að það standi þá ekkert eftir nema skelin ein. Ég held að það sé of sterkt til orða tekið.

Eftir því sem Fjármálaeftirlitið hefur gefið út nú þegar þá eru vátryggingafélögin þrátt fyrir arðgreiðslurnar fjárhagslega sterkar stofnanir sem standa vel undir þeim skuldbindingum sem þær hafa tekið á sig. Það breytir því ekki að okkur er misboðið þegar menn ganga svona fram gagnvart neytendum og sérstaklega er það þannig þegar um er að ræða lögboðnar tryggingar, tryggingar sem við ákveðum með lögum að fólk þurfi að taka. (Forseti hringir.) Auðvitað setur það málið í sérstakt ljós.

Varðandi eignarhlut ríkisins þá er hann nýtilkominn í einu tryggingafélaganna, í Sjóvá. (Forseti hringir.) Ég þarf að glöggva mig betur á því hvernig farið verður með atkvæðisrétt ríkisins þar, þar sem við erum jú að afgreiða lög um það hvar þeim eignarhlut verður komið fyrir.