145. löggjafarþing — 87. fundur
 14. mars 2016.
bygging þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi.
fsp. HarB, 565. mál. — Þskj. 911.

[16:31]
Fyrirspyrjandi (Haraldur Benediktsson) (S):

Herra forseti. Stofnun og starfræksla þjóðgarða hér á landi er merkilegt framtak sem hefur víða orðið lyftistöng. Það hefur orðið lyftistöng á þeim svæðum sem þeir hafa verið stofnsettir og gera oft mikið fyrir þau byggðarlög þar sem aðsetur þeirra er og þar sem þjónustumiðstöðvar í þeirra þágu eru reistar og geta orðið til eflingar bæði á atvinnu- og menningarlífi viðkomandi héraða.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður 28. júní árið 2001 og er einn af þeim þjóðgörðum sem við höfum nú sameinast um að starfrækja. Undirbúningshópur var skipaður um byggingu þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi árið 2005. Í framhaldinu var efnt til samkeppni og kom fram vinningstillaga um byggingu eða útlit þjóðgarðsmiðstöðvar árið 2006.

Vinningstillagan var síðan fullbúin til útboðs árið 2008 og er gert ráð fyrir að kostnaður við bygginguna sé um 300 millj. kr.

Við þekkjum öll ástæður þess að á þeim tíma var horfið frá því að byggja þá þjóðgarðsmiðstöð sem þá var búið að hanna og undirbúa, en síðan er liðinn allnokkur tími og er tímabært að við förum að huga að næstu skrefum í uppbyggingu fyrir þjóðgarðinn Snæfellsjökul.

Það er mikilvægt að treysta rekstur þjóðgarðsins í sessi með því að við hefjum þær framkvæmdir sem við þurfum að hefja við þjóðgarðsmiðstöðina. Hún er ein og sér mjög mikilvæg, ekki síst vegna móttöku gesta, og að hún sé til fyrirmyndar. Hún er mikilvæg fyrir upplýsingagjöf almennt og ferðamál um Snæfellsnes og Vesturland allt. Fleiri ferðamenn koma nú og dveljast þar lengur en áður þannig að með byggingu þjóðgarðsmiðstöðvarinnar má ætla að fjárstreymi aukist, sem kemur íbúum til góða. Miðstöðin getur þess vegna orðið mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna.

Gestamiðstöð var opnuð á Hellnum árið 2004. Á fyrsta starfsári hennar komu um 4 þúsund gestir í heimsókn, árið 2014 komu ríflega 18 þúsund gestir og árið 2015 voru gestir hátt í 30 þúsund talsins. Á þessum tölum sést hversu gífurleg fjölgun hefur orðið á ferðamönnum á svæðinu.

Því leyfi ég mér, herra forseti, að spyrja hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra: Hvað líður áætlunum hennar um forgangsröðun í uppbyggingu þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi?



[16:34]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni kærlega fyrir fyrirspurnina.

Eins og fram kom í máli hans hefur margt breyst síðan árið 2008 og er að mörgu að hyggja nú þegar þjóðfélagið er ekki lengur í dróma. Segja má að þessi þjóðgarðsmiðstöð hafi orðið fyrir barðinu á því sem gerðist hér á þeim árum og hefur síðan legið í nokkrum dvala í átta ár.

Þjóðgarðurinn á Snæfellsnesi á sér langan aðdraganda. Mig langar að það komi hér fram að það var Eysteinn Jónsson sem leiddi umræðuna og bar fram tillögu í Náttúruverndarráði árið 1972, fyrir rúmum 40 árum síðan, um að þarna yrði stofnaður þjóðgarður. Síðan sér maður í skjölum frá ársþingum þess ágæta ráðs að stöðugt var verið að reyna að ýta verkefninu úr vör, þannig að svona lagað getur tekið langan tíma. Ályktað var um stofnun þjóðgarðs sem bar heitið Þjóðgarður undir Jökli.

Eins og fram kom var þjóðgarðurinn Snæfellsjökull stofnaður 28. júní árið 2001, þann ágæta júnídag. Ég hafði þá ánægju að vera viðstödd þá stofnun á Snæfellsnesi þann fyrirmyndardag. Þjóðgarðurinn var stofnaður til verndar sérstakri náttúru svæðisins og mjög mörgum og merkum sögulegum minjum.

Við vitum öll að á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á starfseminni þar sem annars staðar vegna mikillar og sívaxandi aukningar ferðamanna. Svo vitum við náttúrlega að þjóðgarðurinn er sérstakur að því leyti að hann er í umsjá Umhverfisstofnunar. Við eigum þrjá þjóðgarða; þjóðgarðinn á Snæfellsnesi, þjóðgarðinn á Þingvöllum, sem er undir umsjá forsætisráðuneytisins og Vatnajökulsþjóðgarð, sem heyrir beint undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið, eins og Umhverfisstofnun og þar með Snæfellsnesþjóðgarður.

Það er líka alveg rétt sem fram kom að haldin var samkeppni um þjóðgarðsmiðstöð þarna og var valin tillaga sem síðan hefur verið hönnuð og útfærð enn betur. Þess vegna liggur fyrir hönnun á húsi og skipulag á þessum stað, skammt fyrir ofan byggðina á Hellissandi. Ég tel að um það hafi verið góð samvinna við sveitarfélagið Snæfellsnes.

Ég vil segja það hér að forstöðumaður Umhverfisstofnunar og bæjarstjórinn í Snæfellsbæ komu til mín í ráðuneytið og brýndu mig og ráðuneytið til góðra verka varðandi þjóðgarðsmiðstöðina. Líkt og í öðrum þjóðgörðum vil ég virkilega koma á þessari þjóðgarðsmiðstöð. Ég hef barist fyrir þjóðgarðsmiðstöð á Kirkjubæjarklaustri. Hún er komin inn í fjárlög. Ég tel ekki síður að byggja eigi slíka miðstöð á Hellissandi.

Þetta er dálítið djörf bygging en passar afskaplega vel inn í umhverfið. Ég held að við verðum að keyra áfram þá byggingu sem fyrirhuguð er. Við vitum náttúrlega öll um þá perlu sem Snæfellsnesið er. Þar er einstök fegurð og saga, eins og nóbelskáldið lýsti vel; þar sem jökulinn ber við loft.

Ég endurtek að í ljósi þeirrar aukningar ferðamanna sem spáð er þá er brýnt að huga að skipulagi og reyna að dreifa ferðamannastraumnum með spennandi ferðamannaleiðum. Ég veit ekki betur en að nýlega hafi komið fram í erlendri könnun hvað Snæfellsnesið hafi upp á margt að bjóða og það sé virkilega eftirsóknarverður staður. Þá verðum við náttúrlega að vera tilbúin með innviðina.

Þess vegna mun ég reyna að ýta á það eins og ég mögulega get að haldið verði áfram með þessa miðstöð. Við höfum ýtt á það og spurst fyrir undanfarnar vikur. Kostnaðaráætlun liggur ekki alveg fyrir en talið er að miðstöðin kosti ekki meira en sú miðstöð sem við hyggjumst reisa á Kirkjubæjarklaustri. Mér finnst því eðlilegt að þessir tveir þjóðgarðar fylgist að varðandi þjónustumiðstöðvar. Við reynum að koma (Forseti hringir.) þjóðgarðsmiðstöðinni á Hellissandi af stað eins og gert hefur verið á Kirkjubæjarklaustri.



[16:40]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er nú sjaldgæft að hv. þm. Haraldur Benediktsson bíði átekta á hliðarlínu. En ég þakka honum fyrirspurnina og sömuleiðis hæstv. ráðherra svör hans.

Nú eru liðin rösklega 20 ár frá því að ég flutti tillögu sem umhverfisráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, sem að lokum var samþykkt og varð til þess að þessu langþráða verkefni mjög margra var loksins ýtt úr vör. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að enginn hreyfði þeirri hugmynd af jafn miklum skörungsskap og Eysteinn Jónsson, einn af glæsilegustu forustumönnum Framsóknarflokksins, og má kannski kalla hann upphafsmann náttúruverndar á Íslandi.

Síðan eru liðin ákaflega mörg ár. Mörg ár eru liðin frá því að þjóðgarðurinn var formlega settur á stofn og mörg ár eru frá því að menn ákváðu að ráðast í byggingu þjóðgarðsmiðstöðvarinnar á Hellissandi. Ég held að það sé engin tilviljun að henni var valinn þar staður. Sá sem barðist mest fyrir þjóðgarðsmiðstöðinni var Skúli Alexandersson fyrrverandi alþingismaður, sem er nýlátinn. Ég held að það væri minningu hans mjög til heiðurs að menn gerðu nú reka að því að koma þessu til framkvæmdar.

Það gleður mig eins og hæstv. ráðherra hefur lýst yfir að þjóðgarðsmiðstöðin og sú sem ráðherra hefur líka (Forseti hringir.) í sínu fóstri á Kirkjubæjarklaustri eigi að fylgjast að. Það skiptir miklu máli og það skiptir máli fyrir Snæfellsnes, (Forseti hringir.) fyrir ferðaþjónustu á Íslandi og fyrir náttúruna undir Jökli að við ráðumst í þetta hið allra fyrsta.



[16:41]
Fyrirspyrjandi (Haraldur Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil sömuleiðis þakka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir svör hennar.

Ég tek heils hugar undir með henni þar sem hún segir að mikilvægt sé að þessar þjóðgarðsmiðstöðvar verði byggðar upp samhliða, þ.e. miðstöðin á Kirkjubæjarklaustri og sú sem við ræðum hér um, þjóðgarðsmiðstöð Snæfellsjökuls á Hellissandi.

Hvort sem við horfum til allra innviða vegna ferðaþjónustu eða annarra þátta tel ég, eins og ég rakti í minni fyrri ræðu, að byggingin sé mikilvæg til þess að stuðla að eflingu ferðaþjónustu á Vesturlandi í heild sinni og starfsemi henni tengdri. Ég ítreka að Snæfellingar, það hógværa fólk, hefur beðið mjög þolinmótt núna í langan tíma eftir því að fá svör um það hvenær framkvæmdir við nefnda þjóðgarðsmiðstöð hefjist.

Á þeim tíma hafa líka aðrir innviðir styrkst og samfélagið sem betur fer líka eflst á öðrum sviðum. Það er núna á teikniborðinu og kemst vonandi fljótlega á þann rekspöl að tekin verði ákvörðun um frekari eflingu annarra innviða eins og fjarskipta og aukna útbreiðslu á rafstrengjum, þ.e. rafstrengjum í jörð. Það er því margt í gangi á þessu svæði sem styður við að við eigum að ráðast sem fyrst í að byggja þjóðgarðsmiðstöðina.

Ég ítreka þakkir mínar til ráðherrans og tel á þessari stundu mikilvægast af öllu að við getum sagt með nokkurri vissu að fyrirhugað sé að hefja framkvæmdir við þjóðgarðsmiðstöðina á Hellissandi sem fyrst.



[16:43]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég endurtek að það er ásetningur minn að leita leiða til þess að fjármagna þetta þarfa verkefni, en fjármagnið er ekki í höfn í þessum töluðum orðum. Leita ég nú bæði til hv. þingmanns og frummælanda hér að hann muni að styðja það eftir fremsta megni að við fáum fjármagn til verkefnisins. Ég veit að hann mun gera það.

Ég hef svo sem ekki miklu við þetta að bæta en við eigum að halda okkur við staðsetninguna, þarna eru ekki deilur um staðsetningu. Það búið að ákveða hana, þ.e. á safnasvæðinu á Hellissandi og ég mun ekki breyta því. Mér finnst þetta vera flott bygging, hún er náttúrlega nokkuð dýr, og svona aðeins 2007-módel. Það er búið að minnka hana aðeins með því að taka út fræðimannaíbúð sem var í byggingunni til þess að lækka kostnaðinn. En við sjáum ekki annað en að miðstöðin sé mjög samt sambærileg þeirri sem fyrirhuguð er á Klaustri og er eðlilegt að það verði þannig. Nú hvet ég alla til samhjálpar um að við finnum fjármagn og hefjumst sem allra fyrst handa svo verkefninu verði lokið á næstu tveimur árum.