145. löggjafarþing — 88. fundur
 15. mars 2016.
störf þingsins.

[13:31]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Í gær kom Bankasýsla ríkisins fyrir hv. fjárlaganefnd og staðfesti það sem fram kemur í bréfi sem stílað er á hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, að forsvarsmönnum bankans hafi ekki tekist að svara gagnrýni og að fagleg ásýnd bankans hafi beðið hnekki. Bankasýslan gerir þá kröfu á bankaráð Landsbankans að bregðast við með viðeigandi hætti.

Ég ætla ekki að ráða í það hér hvaða ráðstafanir bankaráðs eru viðeigandi svo traust megi endurheimta. Það er sannarlega vandmeðfarið, eins og segir í grein í Kjarnanum um þetta verkefni, en þar segir jafnframt að við stjórnmálamenn verðum líka að líta í eigin barm þegar kemur að uppbyggingu fjármálamarkaðarins. Þar segir jafnframt að þrátt fyrir að margt hafi tekist mjög vel, meðal annars við uppbyggingu Landsbankans, verðum við stjórnmálamenn að taka til okkar þá ábyrgð sem við berum á traustari ramma, jafnræði og lagaskyldum og opnu og gagnsæju söluferli á eignum og afskriftum skulda. Höfum við gert nóg eða gætt nægjanlega að þeim sjónarmiðum? Um það verðum við að spyrja okkur. Svar Kjarnans við því er: Nei.

Því miður er Borgunarmálið staðfesting á því. Það er augljóst að við verðum að læra og gera betur. Nýlegt dæmi um slíkt viðfangsefni og ábyrgð er sú lagalega umgjörð sem nauðsynlegt er að búa umsýslu fjár og eigna sem komið er til vegna stöðugleikaframlags fjármálafyrirtækja. Þar hefur hv. efnahags- og viðskiptanefnd lagt sig í líma við að tryggja skýra lagalega umgjörð og áréttar að þar skuli stofnað fyrirhugað félag undir fjármála- og efnahagsráðuneyti við fullnustu og sölu verðmæta sem leggi áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni þar sem ákvæði stjórnsýslu- og upplýsingalaga liggja til grundvallar og í fullu samræmi við 45. gr. laga um opinber fjármál. Sýnir það dæmi að við erum meðvituð um þá ábyrgð og viljum gera betur.



[13:33]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Á Íslandi er börnum mismunað í heilbrigðiskerfi okkar. Þeim er mismunað eftir því hvers konar sjúkdóma þau hafa, hvort þeir eru líkamlegir, sem kallað er, eða andlegir.

Ef barn meiðir sig eða fær sjúkdóm af slíku tagi er almenn heilsugæsla fyrir hendi í landinu og til staðar er stórglæsilegur barnaspítali með þjónustu að mörgu leyti á heimsmælikvarða.

Ef sjúkdómurinn er hins vegar af andlegu tagi, geðheilbrigðisvandi, er engin almenn heilsugæsla að heitið geti fyrir þessi börn. Það er ekki bráðaþjónusta í heilbrigðiskerfinu heldur bíða biðlistar þessara barna.

Það var enn staðfest á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun þegar farið var yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu við börn á Íslandi.

Það er ekki bara þannig að geðheilbrigðisþjónusta við börn á Íslandi sé ekki í lagi. Hún er í verulegu ólagi. Við hér í þinginu þurfum að taka saman höndum þvert á flokka og gera verulegar breytingar og beita okkur fyrir viðhorfsbreytingum í þessu efni.

En það var líka áréttað sem við vitum öll, að þessi mismunun er ekki bundin við börn í heilbrigðiskerfinu heldur er það þannig að í heilbrigðisþjónustu okkar almennt mismunum við fólki eftir því hvort það á við almenn heilbrigðisvandamál að stríða eða geðheilbrigðisvandamál.

Geðheilbrigðisþjónustan er einfaldlega miklu lakari en önnur heilbrigðisþjónusta í landinu. Það er (Forseti hringir.) okkur til vansa og á því verðum við að taka.



[13:35]
Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Nú fara fram umræður um það einu sinni enn hvar við eigum að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús. Auðvitað höldum við áfram þeim framkvæmdum sem stefnt hefur verið að og hafnar eru á Landspítalalóðinni. Við megum engan tíma missa því að það eru svo mörg ár og áratugir sem hafa farið í súginn hjá okkur. Annað er hreint glapræði.

En við eigum að hugsa stærra. Ég legg því til að við gerum hvort tveggja, að við byggjum og endurreisum eins og hægt er á Landspítalalóðinni og reynum að gera það á sem allra skemmstum tíma og förum að gera áætlanir strax um sjúkrahús sem á að taka við af LSH í framtíðinni. Þetta er algerlega tímabært og ekki nema skynsemi í því fólgin að byggja duglega undir helstu velferðarstoð þessa þjóðfélags, snúa af braut þar sem við erum annars flokks og koma okkur aftur í fremstu röð.

Núverandi ríkisstjórn hefur gefið hressilega í í heilbrigðismálum en kerfið er svo langt leitt að það nægir ekki. Við Íslendingar erum stórhuga og vorum það þegar við reistum Landspítalann árið 1930. Við ætlum að verða það á ný.

Mál númer eitt, tvö og þrjú núna er að koma allri þjónustu við bráðveika og bráðarannsóknum undir eitt þak eins fljótt og örugglega og hægt er. En við verðum að hugsa lengra eins og fleiri hv. þingmenn hafa talað um hér í þessum ræðustól og í fjölmiðlum. Við eigum að hugsa til framtíðar.

Við Íslendingar verðum að byggja annað sjúkrahús innan fárra áratuga. Það er skýr krafa almennings í landinu sem vill eyða meiru af opinberu fé í heilbrigðismál. Þjóðarbúið hefur sjaldan eða aldrei staðið betur. Við skulum taka höndum saman í þessu máli, hætta að karpa um þetta. Flest bendir til þess að hér verði þjóðfélag með aldurssamsetningu og kröfur um heilbrigðisþjónustu í framtíðinni sem við þurfum að mæta vel og vandlega.



[13:38]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar, eins og aðrir hafa gert í þessum þingsal, að vekja athygli á einu atriði í Borgunarmálinu. Mig langar að taka það til umræðu hverjir hinir raunverulegu hagsmunir í málinu eru. Hinir raunverulegu hagsmunir eru þeir að almenningur tapaði ekki bara verulegum fjármunum heldur ótrúlega miklum fjármunum, svo að hleypur á milljörðum króna.

Í bréfi Bankasýslunnar til bankaráðs Landsbankans kemur fram að hafi Landsbankinn athugasemdir við upplýsingagjöf af hálfu annarra aðila í tengslum við sölumeðferð á eignarhlut í Borgun eigi bankinn að leita réttar síns, ef hann telur tilefni til. Ég held nefnilega að hér sé einmitt komið það tilefni.

Ég bendi á grein sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins eftir hæstaréttarlögmanninn Hauk Örn Birgisson. Þar bendir hann á ákvæði í samningalögum, nr. 7/1936, sem heimila í vissum tilvikum endurskoðun á viðskiptum aðila, jafnvel ógildingu; að það sé með öðrum orðum hægt að ógilda þennan samning og ná þessum fjármunum til baka. Hann vísar í dómafordæmi þar sem Hæstiréttur hefur bent á að sé verðmætið margfalt meira en endurgjaldið sé hægt að færa rök fyrir því að samningagerðin hafi verið byggð á brostnum eða röngum forsendum, og hægt sé að ógilda hana á grundvelli 36. gr. samningalaga.

Ég tel einboðið að Landsbankinn höfði mál, geri það hið allra fyrsta. Ég vil líka hvetja Bankasýsluna, vegna þess að hún fer með eignarhlut ríkisins, til að hafa forgöngu í málinu, að höfðað verði dómsmál og allra leiða leitað (Forseti hringir.) til að ná þessum fjármunum aftur. Þó að kostnaður við dómsmál geti hlaupið á einhverjum milljónum þá eru það smámunir (Forseti hringir.) miðað við þá gríðarlegu hagsmuni sem hér eru í húfi fyrir almenning í landinu.



[13:40]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Efnahagsbati hér á Íslandi hefur verið meiri en hjá mörgum öðrum þjóðum sem glímt hafa við kreppu. Því ber að fagna og það ber ekki að vanmeta þátt ferðaþjónustunnar í þeim efnahagsbata, þ.e. þá miklu fjölgun ferðamanna sem hingað koma, bæði vegna öflugs starfs íslenskra ferðaþjónustuaðila, íslenskra stjórnvalda, sem fóru af stað með markaðsátak á sínum tíma, en líka vegna utanaðkomandi aðstæðna. Líklega hefur eldgosið í Eyjafjallajökli ekki síst þjónað sem auglýsing á Íslandi fremur en hindrun í því að hingað komi fólk.

Það er því dapurlegt að margir virðast líta á þessa þróun sem ekkert sérstaklega jákvæða, jafnvel með neikvæðum hætti. Hér á Alþingi lýsa menn jafnvel talsverðum áhyggjum af vexti ferðaþjónustunnar. En við þurfum ekki að hafa áhyggjur. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur ef við hefðum skýra sýn á það hvernig við ætluðum að standa að þætti stjórnvalda í því að byggja upp eðlilegt umhverfi fyrir þennan gríðarlega mikilvæga atvinnuveg þjóðarinnar.

Hér var á síðasta þingi hætt við og horfið frá hugmyndum um náttúrupassa sem ég fagna og var mjög andvíg og taldi stangast á við allar okkar hugmyndir um almannarétt í landinu. Þá var rætt um að vinna þyrfti að því að skapa þverpólitíska samstöðu um það hvernig við eigum að fjármagna og standa undir innviðauppbyggingu í ferðaþjónustu. Það var til dæmis rætt um hækkun gistináttagjalds sem er mjög lágt á Íslandi. Það var rætt um að því þyrfti að skipta milli ríkis og sveitarfélaga. Það var rætt um að jafnvel þyrfti að taka upp komugjöld á einhverjum hluta ársins og á móti styrkja innanlandsflugið til þess að það gæti haldið sér. Ýmsar leiðir komu upp til þess að hægt væri að standa myndarlega að uppbyggingu innviða ferðaþjónustunnar.

Í staðinn var farin sú leið að veita fjármuni á fjárlögum, of seint til að þeir gætu nýst, í uppbyggingarsjóð ferðamannastaða. Við horfum fram á enn eitt sumarið þar sem við sjáum fram á enn meiri fjölgun ferðamanna og við vitum ekki enn hver stefna stjórnvalda er önnur er sú sem kom fram í viðtali við hæstv. ráðherra í gær um að safna þurfi saman öllum aðilum að borðinu.

Ég spyr bara: Hversu stóru landi búum við í ef við erum enn á þeim stað (Forseti hringir.) að fara að safna öllum aðilum að borðinu, að við séum enn ekki tilbúin með áætlun í þessu máli?



[13:43]
Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Ég er sammála síðasta ræðumanni um að við eigum ekki að tala illa um ferðaþjónustuna. „Þegar allir horfa í sömu átt standa líkur til að hætta sé á ferðum.“ Þessi orð eru tekin upp úr athyglisverðri grein í Morgunblaðinu í morgun. Þar er viðtal við Gunnar Gunnarsson, forstöðumann áhættustýringar Creditinfo, sem bendir á hið augljósa, að margir séu að veðja á ferðaþjónustuna í dag. Hótel spretta upp eins og gorkúlur um land allt, þjónusta tengd ferðamennsku dreifir úr sér eins og lúpína.

Gunnar segir að slík hjarðhegðun geti kallað á áhættu sem menn verði að hafa í huga. Þegar markaðurinn fer allur í eina átt ber okkur að staldra við. Fyrir hrun var áhættan tengd lánum í erlendri mynt á meðan menn höfðu tekjur í íslenskum krónum. Núna er áhættan ekki síst tengd gríðarlegum vexti og uppbyggingu í ferðaþjónustu þó að það kunni að hljóma undarlega. Hér má til dæmis nefna gríðarlega mikla fjölgun hótela. Það þarf ekki annað en að fara í smágöngutúr um miðborgina til að sjá hvað er að gerast. Fjölgun ferðamanna er fagnaðarefni en hvað gerist og hver fær reikninginn að lokum ef illa fer í uppbyggingu?

Fyrir hrun var ekki nægilegur fókus á áhættuþættina. Það sama gildir núna. Forstöðumaður áhættustýringar Creditinfo segir að til dæmis verði að leggja mat á áhrif mögulegrar fækkunar ferðamanna á fasteignaverð hérlendis. Þar liggi áhætta, bæði hjá bönkum og lífeyrissjóðum. Það er full ástæða til að taka undir þessi orð, þeir sem starfa í ferðaþjónustunni, bankar, lífeyrissjóðir og aðrir verða að staldra við. Rauðu ljósin fara brátt að blikka ef menn halda svona áfram. Vonandi hafa menn lært eitthvað af því sem gerðist hér árið 2008. Setjum ekki öll eggin í sömu körfuna.



[13:45]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Hér hefur fengið að þrífast allt of lengi víðtækur ótti við að styggja ríkjandi öfl, hvort heldur það eru öfl á hinum frjálsa markaði eða ríkisvaldið.

Þessi ótti kom mjög skýrt fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og mikið var rætt um þetta í kjölfar hrunsins. Allt sem fólk hafði lagt traust sitt á til að tryggja að hér á landi væri upplýst lýðræðissamfélag hafði brugðist en ákveðið var að fara í víðtækar aðgerðir til að læra af reynslunni á mismunandi stigum samfélagsgerðar okkar.

En hvert erum við komin í þessari vegferð? Hvar er þetta nýja Ísland sem átti að rísa upp úr öskustónni? Mér sýnist að við séum komin nánast á nákvæmlega sama stað á svo mörgum sviðum og fyrir hrun. Viðvörunarljósin blikka ótt og títt og ég get ekki orða bundist.

Í gær birti Ketill Sigurjónsson meðal annars eftirfarandi á Orkublogginu sínu, með leyfi forseta:

„Það var athyglisvert að um mitt ár 2014 hafði samband við mig þaulreyndur framkvæmdastjóri hjá einu af stærstu íslensku fjármálafyrirtækjunum. Og sagði mér að forstjóri Norðuráls væri að hringja í stjórnendur fyrirtækisins og kvarta yfir samstarfi þeirra við mig. Þetta þótti mér auðvitað merkilegt, enda nokkuð undarlegt að fyrirtæki úti í bæ sé að skipta sér af einstaklingum með þessum hætti.

Það var svo í júní á liðnu ári, 2015, að einn af bankastjórunum í íslenska bankakerfinu hafði samband við mig. Og varaði mig við því að Norðurál væri að undirbúa herferð gegn mínum málflutningi. Og væri að reyna að ráða almannatengla til verksins. Og viðkomandi bætti við þessum skemmtilegu orðum: „Þeir ætla sér að eyðileggja þig“.

Þetta þótti mér líka fróðlegt að heyra. Því með þessu fékk ég í reynd staðfest að ég var að birta upplýsingar sem stóriðjan vill ekki að almenningur viti af. Hér er líka vert að minna á blekkingaleikinn sem átti sér stað árið 2009 og sýnir vel hversu sterkur áróður stóriðjunnar er. En nú var sem sagt orðið augljóst að ég var orðinn upplýsingabrunnur sem stóriðjan vildi kæfa.“

Virðulegi forseti. Inngrip stóriðjufyrirtækja á faglegar umfjallanir sem þeim hugnast ekki á ekki að líðast nú sem áður. Ég skora á þingmenn að beita sér fyrir því að hér fái að ríkja (Forseti hringir.) samfélag þar sem opin umræða fær að vera í friði.



[13:47]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að ég missti aðeins fótanna í umræðunni um Landspítalann fyrr á þessum fundi. Það sem margir héldu að væri kannski hefðbundið upphlaup af hálfu forsætisráðherra eins og hann er nú þekktur fyrir, að setja hvert málið á fætur öðru í uppnám reglulega með framgöngu sinni, virðist ekki hafa verið svo í þessu Landspítalamáli. Það hefur komið fram og kom fram hjá þingmanni Framsóknarflokksins í gær að þetta mál hefði verið til umræðu innan þingflokks Framsóknarflokksins, þ.e. að hætta við að byggja nýjan Landspítala við Hringbraut og byggja hann heldur einhvers staðar annars staðar, og um það væri full samstaða í þingflokknum. Þingflokkurinn stæði heill að baki forsætisráðherra sínum í þessu máli. Það hefur meira að segja gengið svo langt að forsætisráðherra hefur sett sig í samband við erlenda arkitektastofu sem segist vera tilbúin til að skreppa hingað yfir á eyjuna og hjálpa honum við að hanna nýjan spítala einhvers staðar. Þetta hefur ekki verið rætt í þingflokki Sjálfstæðisflokksins að öðru leyti en því, ef er að marka hæstv. heilbrigðisráðherra sem ég ætla bara að trúa hér og nú, að í gær hafi verið rætt að standa áfram að þeim ákvörðunum sem hafi verið teknar og lög hafi verið sett um á Alþingi um byggingu Landspítala. Þá kemur þingmaður Sjálfstæðisflokksins núna rétt áðan og leggur til að það verði byggðir tveir spítalar. Einhvers konar málamiðlun. Byggjum eitthvert smotterí við Hringbraut, klárum eitthvað þar, byggjum svo einhvers staðar annars staðar.

Það hefur komið fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að þetta mál hefur ekki verið rætt í ríkisstjórn, jafn mikilvægt og það nú er. Það eru fordæmi fyrir því hvernig afdrif slíkra mála hafa verið þegar mikilvæg mál eru ekki rædd í ríkisstjórn af hálfu forsætisráðherra.

Því spyr maður sig: Hefur náðst einhver málamiðlun? Það var ríkisstjórnarfundur í dag. Hafa menn náð einhverri málamiðlun um að byggja tvo spítala? Einn við Hringbraut og einn að vali Framsóknarflokksins? Hvers konar vitleysa er þetta að verða, virðulegi forseti? Þessi hringlandaháttur með Landspítalann og (Forseti hringir.) heilbrigðiskerfið í landinu er óboðlegur. Ég tek undir með hæstv. heilbrigðisráðherra sem sagði í fjölmiðlum í morgun, þetta er óboðlegt, og þetta ógnar heilbrigðiskerfinu í landinu.



[13:50]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að leiðrétta misskilning sem kemur oft upp þegar ákveðin tillaga er rædd sem er sú að ráðherrar sitji ekki jafnframt sem þingmenn. Þessu er oft ruglað saman við annað fyrirbæri sem er þegar ráðherrar eru ekki kjörnir fulltrúar yfir höfuð. Þetta kemur oft upp í umræðum í kringum samþykkta stefnu Pírata um samskipti ráðherra og Alþingis þar sem kemur fram að Píratar skuli ekki eiga aðild að ríkisstjórn þar sem ráðherra sitji jafnframt sem þingmenn. Sú gagnrýni hefur komið fram í samtölum, jafnvel við aðra þingmenn, og vissulega í opinberri umræðu að menn viti þá ekkert hverjir verði ráðherrar.

Mér þykir mikilvægt að hafa það alveg á hreinu að tillagan felur ekki í sér að þingmenn megi ekki verða ráðherrar, þeir mega bara ekki vera ráðherrar og þingmenn á sama tíma. Þannig að ef þingmaður ætlaði að vera ráðherra þyrfti hann að segja af sér þingmennsku og fá inn varamann í staðinn. Um það snýst hugmyndin. Hugmyndin snýst ekki um að fjarlægja allt lýðræðislegt umboð frá ríkisstjórninni.

Að því sögðu er fínt að fólk ræði þetta og jafnvel hugmyndir sem sumum finnst ágætar sem ganga enn þá lengra í aðskilnaði framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins, hugmyndir sem ég tel mjög mikilvægt að við ræðum og með það að markmiði að gera breytingar, vegna þess að samkrull löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins á Íslandi er ekki nógu gott. Þótt það sé engin galdralausn á öllum þeim vandamálum að ráðherrar þurfi að segja af sér þingmennsku meðan þeir eru ráðherrar væri það vissulega skref í rétta átt og mundi væntanlega, trúi ég og yfirþyrmandi meiri hluti Pírata, breyta í það minnsta svokallaðri dýnamík, eða þeirri menningu, sem ríkir í samskiptum milli þingflokks og ríkisstjórnar. Ég tel alla umræðu í þá veru mjög holla og mikilvæga og nauðsynlega til þess að við náum að bæta lýðræðið hér á landi.



[13:52]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ráðaleysi stjórnvalda í uppbyggingu innviða í landinu er algjört eins og heyra mátti á ráðherra ferðamála í Kastljósinu í gær. Fram undan er 40% aukning á fjölda ferðamanna til landsins. Greinin hefur aflað gjaldeyris svo hundruðum milljarða skiptir. Gjaldeyrir vegna ferðaþjónustunnar hefur aukist um 100 milljarða á síðustu tveimur árum. Stjórnvöld hafa sýnt algjört andvaraleysi að mínu mati og skilningsleysi varðandi fjármögnun innviða og á samgöngum almennt í landinu. Hvar er samgönguáætlunin? Hversu lengi á að bíða eftir samgönguáætlun? Það bólar ekkert á henni. Er hún ekki eitt af þeim verkfærum sem við þurfum til að byggja upp innviðina?

Í Kastljósinu í gær vísaði hæstv. ráðherra bara á aðra ráðherra þegar hann var spurður út í ýmis verkefni. Ráðherra ferðamála vísaði á fjármálaráðherra varðandi gjaldtöku af ferðamönnum. Varðandi svæðið í kringum Gullfoss var vísað á umhverfisráðherra. Síðan var vísað á einkaaðila varðandi til dæmis Reynisfjöru og Geysi.

Er þetta í lagi? Það er algjörlega óboðlegt að ríkisstjórn og ráðherra ferðamála sem hefur verið við völd í þrjú ár skuli ekki enn vera búin að koma sér niður á það hvernig eigi að rukka ferðamenn vegna innviðauppbyggingar og gjaldtöku af þeim og nota það fé til að byggja upp góða innviði í landinu. Það er ekki enn komin niðurstaða um hvernig eigi að vinna með ferðaþjónustunni sjálfri og sveitarfélögum í landinu að innviðauppbyggingu. Þessar afsakanir eru ekki boðlegar hjá hæstv. ráðherra ferðamála þremur árum eftir að hann tók við því embætti. Það eina sem hægt var að státa sig af í þessu viðtali var Stjórnstöð ferðamála, enn ein (Forseti hringir.) stofnunin sem enginn veit hvaða verkefni á að hafa. Það er ekki hægt að moka endalaust inn ferðamönnum án þess að landið láti á sjá og ímynd þess.



[13:54]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur þar sem hún talaði rétt áðan um þau áhrif sem fjölgun ferðamanna hefur á innviðauppbygginguna. Ég verð að taka undir það að ríkisstjórnin hefur ekki gert sitt besta þegar kemur að því að fjármagna uppbygginguna sem þarf til að taka á móti öllum þessum ferðamönnum.

Í fréttum í morgun kom fram að 48% fleiri erlendir ferðamenn hefðu slasast alvarlega eða látist í umferðarslysum á Íslandi miðað við árið á undan. Þetta var 68% aukning árið 2015 miðað við meðaltalið fimm ár þar á undan. Það er mjög margt sem við þurfum að laga hérlendis, m.a. að útrýma einbreiðum brúm, steypa almennilega vegi og gera umhverfið þannig að það sé ekki beinlínis hættulegt ferðamönnum. Við þurfum ekki að leita langt yfir skammt til að finna leiðir til að fjármagna þetta. Við erum með virðisaukaskatt. Erlendir ferðamenn greiða hann til dæmis af hótelgistingu sem er núna í lægra skattþrepi. Það væri hægt að hækka það í hærra skattþrep. Það eru mestmegnis ferðamenn sem nota hótelgistingu og gistirými.

Það er hægt að byrja að setja virðisaukaskatt á veiðileyfi. Sömuleiðis er enginn virðisaukaskattur af íþróttaviðburðum eða tónleikum þannig að þar eru tekjumöguleikar. Enn fremur er hægt að lækka endurgreiðslu á virðisaukaskatti til erlendra ferðamanna úr 15% niður í 12–13% eftir því hvernig því er háttað. Þá strax fengjum við meira fé inn í ríkissjóð sem væri komið beint frá ferðamönnum. Þetta snýst um að gera hlutina almennilega og ekki leita langt yfir skammt.



[13:56]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Nýliðinn febrúar var sá heitasti sem um getur frá því veðurmælingar hófust og var fimmti mánuðurinn í röð þar sem slegin voru hitamet. Þessar tölur eiga við um jörðina alla. Ef aðeins er horft til norðurhvelsins er hlýnun enn meiri. Sérfræðingur segir að þetta séu að öllum líkindum mestu hlýindi sem verið hafa á þessum slóðum síðustu þúsund árin. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru staðreynd og ég held að enginn deili um það lengur, alla vega er fólk ekki mikið að segja það upphátt. Þetta er svo grafalvarlegt að við getum einfaldlega ekki ýtt þessum vanda á undan okkur.

Það er mjög margt sem hver og einn getur gert og sem við getum gert sem þjóð, að ekki sé nú talað um alþjóðasamfélagið, en snýst kannski fyrst og fremst um að hver og einn líti í eigin barm. Eitt af því sem ég gæti nefnt er til dæmis að sóa minni mat. Við eigum í rauninni bara ekkert að vera að sóa mat.

Annað sem hefur verið svolítið í umræðunni eru plastflöskur. Hér á Íslandi erum við jafnvel að selja vatn í plastflöskum og drekka vatn úr plastflöskum. Við erum með hreint og gott vatn úti um allt land, beint úr krananum. Svo eru brögð að því líka að verið sé að selja saklausum ferðamönnum vatn í flöskum á þeirri forsendu að vatnið hérna sé ekki nógu gott. Mér finnst mjög mikilvægt að við komum þeim upplýsingum skýrt og skilmerkilega til okkar gesta sem eru orðnir fjölmargir að hér drekkum við bara vatn úr krananum. Ég get jafnvel séð viðskiptatækifæri í þessu. Ef ég væri ekki á þingi mundi ég hanna einhverja mjög flotta flösku sem mundi halda heitu og köldu sem ferðamenn mundu kaupa við komuna til landsins og vera með á sér í ferðinni og fylla á hana hér og þar. Mér finnst líka að við eigum að skoða það þegar við erum á fundum og ráðstefnum að vera ekki alltaf með þessar vatnsflöskur (Forseti hringir.) á borðum heldur eigum við að vera með könnur og glös. Þetta eru kannski ekki stór atriði en mjög einföld og eitthvað sem við getum byrjað á strax í dag.



[13:59]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Nú eru fimm ár liðin frá upphafi stríðsins í Sýrlandi. Eins og alltaf bera valdagráðugir leiðtogar sem meta líf almennings einskis langmesta ábyrgð á þeim skelfilegu þjáningum sem þeir kalla yfir saklaust fólk. Eins og alltaf eru þjáningar þeirra mestar sem berskjaldaðastir eru. Stríð leggja ekki aðeins líf barnanna í rúst. Þau eitra sálarlíf þeirra og ræna þau tækifærum til þroska og menntunar og leggja þannig framtíð þjóðarinnar allrar í rúst. Öll börn í heiminum eru börn okkar allra og á ábyrgð okkar allra. Engin siðleg persóna vill víkja sér undan því.

Stjórnmálamenn sem þrífast á lágkúru, fordómum, sundrungu og hatri eru langmesta ógnin við friðinn og lífið og lífsgæði fólks. Þeir leiða ógæfu, ofbeldi og dauða yfir samfélög og fjölskyldur og svipta börnin bernskunni og framtíðinni.

Gleymum ekki Hitler, Stalín, Maó og öðrum einræðisherrum illskunnar. Sýnum saklausum fórnarlömbum þeirra þá virðingu að læra af sögunni, því að það eru blikur á lofti. Stjórnmálamenn sem þrífast á þröngsýni og fordómum eru að ná árangri við að hræða allt of margt fólk til að styðja sig. Donald Trump í Bandaríkjunum og stuðningurinn sem flokkur Frauke Petry fær nú í Þýskalandi eru skýr dæmi um þá óhugnanlegu strauma. Eina móteitrið sem virkar á illskuna er mannúð og mannréttindi.

Herra forseti. Ég er enginn trúboði og tek enn síður undir með þeim sem halda því fram að trúarbrögð þeirra séu merkilegri en trú eða trúleysi annarra. En mér finnst kjarni málsins hafa verið vel orðaður af þeim sem margir hér á landi segjast mest taka mark á þegar hann sagði, með leyfi forseta: Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.

Og hann sagði: Það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.

Herra forseti. Það er ekki nóg að játa þessu. Við þurfum líka að breyta samkvæmt þessu.



[14:01]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það virðist vera orðið sjálfstætt og æðisérstakt vandamál að hæstv. forsætisráðherra virðist vera kominn með „fótósjopp“ í tölvuna sína og virðist verja dálítið miklum tíma í að hanna upp á eigin spýtur alls konar byggingar og hús og reyna að selja okkur hinum það að þetta séu skynsamlegar teikningar og skynsamleg skipulagning. Hæstv. forsætisráðherra er þegar búinn að kynna pælingar sínar af þessu tagi um spítalabyggingar í Efstaleiti og núna nýlega spítalabyggingar á Vífilsstöðum. Ég er líka með „fótósjopp“ í minni tölvu og get vel brokkað hér fram með alls konar teikningar þar sem ég lýsi því yfir að skynsamlegt væri að byggingarnar væru á Bessastaðatúninu, í Elliðaárdal, í Hvassahrauni eða hvar sem er. Það er ekkert mál — en ég kem hér upp til að vekja athygli á því að blessunarlega störfum við ekki svona í pólitík. Við tökum ekki veigamiklar ákvarðanir svona í pólitík.

Í þessu máli er búið að fara yfir það í 15 ár hvar spítalinn á að vera. Það er búið að gefa út að minnsta kosti fjórar mjög vandaðar greiningar á því hvar spítalinn verði best byggður. Í öllum þeim skýrslum hafa komið þær niðurstöður út frá fjölmörgum þáttum að spítalinn verði best hafður og byggður upp við Hringbraut. Og nú verða stjórnmálamenn og aðrir að láta af öllum hvötum sínum til að vera „besservisserar“ í þessu ferli og einfaldlega viðurkenna að greiningarnar hafa farið fram vegna þess að hagsmunamálið er stórt. Það ríkir neyðarástand í húsnæðismálum spítalans. Það þarf að drífa í þessu. Nú þurfum við að hætta að draga þetta ferli í efa og hefja, eins (Forseti hringir.) og raunar er hafið, byggingu nýs spítala við Hringbraut og svo koma því í kring að hæstv. forsætisráðherra fái annað forrit í tölvuna sína.



[14:03]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Forseti. Það vakti að vonum gríðarmikla athygli þegar lögreglan upplýsti um mansalið í Vík fyrir skömmu. Nú er komið í ljós og Kastljós greindi frá því í gær að íslenska ríkið og kerfið í kringum þessi mál gerði vont verra í allri málsmeðferð því að fórnarlömb mansalsins þurftu frá að hverfa aftur heim til yfirboðara og kvalara sinna því að ráðuneytið og allt stoðkerfið hérna brást algjörlega. Þetta er svo ömurlegt að ég næ ekki utan um þetta. Hvernig getum við brugðist svona fólki? Hvernig getum við með afskiptaleysi og seinagangi sent það aftur í þrældóm? Ég kalla eftir ábyrgð í þessu máli og ég vil fá að vita hver innan framkvæmdarvaldsins ætlar að axla hana.

En ég kem hérna upp til að fjalla um störf þingsins. Á dagskrá er þingsályktunartillaga frá iðnaðarráðherra um stefnu í nýfjárfestingum. Við í Bjartri framtíð lýsum miklum vonbrigðum með hana. Fyrir það fyrsta er hún óljós og óskýr. Hún leggur ekki til markmið og leiðir að settum markmiðum. Umsagnaraðilar skilja hana mjög ólíkt en meiri hlutinn sem er skipaður öllum gömlu flokkunum, Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Samfylkingunni og VG, leggur sinn skilning í stefnuna sem er sá að hér beri að styðja við orkufrekan iðnað umfram annan, það eigi að ívilna þannig fyrirtækjum sérstaklega umfram önnur fyrirtæki. Þessir flokkar leggja lykkju á leið sína til að sjá svo til að stefnan nái ekki yfir landið allt. Þeir undanskilja höfuðborgarsvæðið með öllu, það er eina svæðið sem á ekki að vera í þessari stefnu um nýfjárfestingar.

Við í Bjartri framtíð leggjum áherslu á að það á að styrkja allt umhverfi til nýfjárfestinga en það á að gera með almennum leiðum. Það á ekki að ívilna sumum en ekki öðrum. Ívilnanir eru þannig að (Forseti hringir.) það er alltaf einhver annar sem borgar og það eru önnur fyrirtæki og skattgreiðendur.