145. löggjafarþing — 88. fundur
 15. mars 2016.
um fundarstjórn.

svar við fyrirspurn.

[14:07]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég neyðist til að kveðja mér hljóðs undir þessum lið, fundarstjórn forseta, til að gera mjög alvarlegar athugasemdir við svar hæstv. fjármálaráðherra við 12 spurningum mínum í fyrirspurn til skriflegs svars sem ég lagði fram 26. janúar sl. sem fjallaði um söluferli á eignarhlut Landsbankans í Borgun. Meðal annars spurði ég út í ákvarðanir stjórnar Landsbankans. Síðan gerist það rétt fyrir lok þingfundar í gær að dreift var svari sem mér finnst algjörlega óboðlegt og fyrir neðan allar hellur. Eftir þennan langa tíma og frest ráðuneytisins er svarið sett upp með spurningunum mínum 12, nokkrum línum um lög varðandi Bankasýslu og fleira, síðan fæ ég tvö ljósrit, annars vegar fylgiskjal I um eitthvert bréf Bankasýslu til fjármála- og efnahagsráðherra og svo er hitt ljósritið (Forseti hringir.) nokkrar síður um Landsbankann.

Virðulegi forseti. Ég verð að gera mjög alvarlegar athugasemdir við þetta og beini því til forseta (Forseti hringir.) að réttur minn sem þingmanns, bæði samkvæmt stjórnarskrá og þingsköpum, verði virtur og þetta svar eða ímyndaða svar verði sent (Forseti hringir.) til fjármálaráðherra og þess krafist að það komi svar við spurningum mínum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[14:08]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Með bréfi til Bankasýslu ríkisins hef ég óskað eftir því að allt það sem varðar það mál sem spurt er um verði dregið fram í dagsljósið og um það upplýst.

Nú liggja viðbrögð Bankasýslunnar fyrir og við bíðum viðbragða frá stjórn Landsbankans.

Mér finnst aðalatriði þessa máls hér, sem mér finnst eðlilegt að og hef fullan skilning á að þingmaðurinn óski upplýsinga um, vera það að upplýsingarnar komi fram. Ég held að engum geti dulist hugur um að ég hef gert mitt ýtrasta til að fá fram upplýsingar um málið með því sem ég hef þegar beitt mér fyrir en þingmaðurinn verður að gæta þess að gera ekki sjálfan sig að aðalatriði málsins og einstakar spurningar, hvernig þær eru orðaðar o.s.frv.

Er ekki aðalmálið að allt verði dregið fram í dagsljósið sem varðar þetta tiltekna mál? (Forseti hringir.) Eða er það nákvæmt orðalag spurninga frá hv. þingmanni sem er orðið aðalatriðið?

Við skulum ekki snúa þessu máli algjörlega á hvolf. Málið er enn í skoðun og ég hlýt, eins og hv. þingmaður, (Forseti hringir.) að bíða eftir endanlegu svari frá bankaráði bankans til að komast betur að raun um hvernig í því liggur.



[14:10]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég mótmæli því að sá sem spurði spurninganna og fékk ljósrituð svör til baka, svör sem er hægt að finna á vefnum, í stað þess að fjármálaráðherra svari spurningunum eða komi að minnsta kosti með þær skýringar sem hann er að reyna að bera fram hérna í svarinu — ráðherra á ekki að bregðast svona við. Hvernig í ósköpunum datt ráðherranum í hug að láta senda þetta til þingsins í gær eins og það var? Eftir að kvartað hefur verið yfir því að svör hafi ekki borist í tvo mánuði er hent í þingið (Gripið fram í.) einhverjum ljósritum.

Virðulegi forseti. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum ráðherrans en bíð, eins og hann, spennt eftir að sjá hvað kemur (Forseti hringir.) út úr skoðuninni á Borgun og treysti því að hann muni ganga á eftir því eins og honum ber skylda til.



[14:12]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er ekki hissa á því að hv. þingmaður sé óánægður með svörin sem hann fær frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra.

Ég get tekið undir það sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði áðan. Ef hæstv. ráðherra vildi koma því á framfæri sem hann sagði úr ræðustól rétt áðan þá átti hann að skrifa það sem svar eða hafa samband við hv. þingmann og segja honum að hann sé ekki tilbúinn með svör við þessum einföldu spurningum sem eru skýrt orðaðar.

Auðvitað þurfa svör við þeim að berast til okkar. Við eigum ekki að þurfa að lesa þau út úr skýrslum, hvorki frá Landsbankanum né Bankasýslunni. Hæstv. ráðherra á að svara spurningum sem þingmenn bera fyrir hann.



[14:13]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir þá gagnrýni sem hér er komin fram. Fyrirspurn hv. þingmanns var lögð fram í lok janúar. Eftir sjö vikna bið er dreift í flýti rétt fyrir lok þingfundar í gær plaggi upp á þrjár málsgreinar plús tvö ljósrit úr opinberum gögnum. Þessar þrjár málsgreinar sem eiga að heita svar við sundurliðaðri 12 atriða fyrirspurn þingmannsins fjalla um formlega samskiptahætti eins og allir geta lesið af opinberum vefsíðum stjórnsýslunnar. En hin efnislegu svör sem lúta að verðmati, málsmeðferð og fleiru komu ekki fram. Þetta hjálpar ekki opinni umræðu, virðulegi forseti. Þetta er að sjálfsögðu ekki í anda gagnsæis. Það er ekki hægt að draga neina ályktun aðra en þá að ráðherrann veigri (Forseti hringir.) sér við að veita þessi svör opinberlega og ræða þau við þingið. En þetta (Forseti hringir.) er auðvitað algjörlega óásættanlegt (Forseti hringir.) með vísan til stjórnarskrárvarins réttar þingmanns til að krefjast svara. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[14:14]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Manni brá töluvert við að sjá þau svör sem hv. þm. Kristján L. Möller fékk við spurningum sínum. Honum voru send tvö ljósrit af opinberum skjölum eins og hér hefur komið fram.

Hver er réttur þingmanna og hvers vegna er hann ekki varinn af forseta þingsins? Hvers vegna er þessu hleypt hér í gegn, svona svarleysi?

Síðan, virðulegi forseti, versnar bara málið þegar hæstv. fjármálaráðherra kemur hingað upp og reynir að réttlæta þennan gjörning og segir að þingmaðurinn megi ekki fara að láta málið snúast um hann sjálfan.

Virðulegi forseti. Hann er að biðja um svör við fullkomlega eðlilegum spurningum um mál sem þarf að upplýsa. Ég hélt að það væri vilji ríkisstjórnarinnar og þess ráðherra sem sendi þessi tvö ljósrit til að upplýsa um þetta mál. Hvers vegna er það þá ekki gert eða komið hreint fram með það hvers vegna þingmanninum er ekki svarað? Þetta er bara dónaskapur. Og það hvernig svör hann fær frá (Forseti hringir.) ráðherranum, það er ekki boðlegt og forseti á að taka til varnar fyrir þingmenn.



[14:15]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Í hugum almennings snýst Borgunarmálið um hvort þar sé á ferðinni gróft spillingarmál og þar er um að ræða ríka fjárhagslega hagsmuni ríkisins. Hv. þm. Kristján L. Möller ber upp 12 spurningar til fjármálaráðherra. Fjármálaráðherra svarar bréfum sem varða sannarlega málið en svarar ekki spurningunum með beinum hætti og varar svo við því að hv. þingmaður fari að láta þetta snúast um sjálfan sig eða krefjast svara við akkúrat þessum spurningum. Það er það sem fyrirspurnir til ráðherra ganga út á, herra forseti. Herra forseti á að gæta þess að þeim sé svarað en ekki hent í okkur efni sem þessu. Hv. þingmaður spurði meðal annars: Hvar og hvenær voru eignarhlutir Landsbankans í Borgun hf. og Valitor hf. auglýstir til sölu? (Forseti hringir.) Það getur ekki verið flókið að svara svo beinni spurningu auk 11 annarra.



[14:17]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Forseti. Varðandi það sem var nefnt hér síðast í síðustu ræðu, lesin upp ein spurning — ef menn kynna sér svarið og fylgiskjöl þess er svarið að finna þar. (SII: Svaraðu …)Hluturinn var ekki — ef ég mætti aðeins halda áfram án þess að síðasti ræðumaður sé í samskiptum við mig hér — auglýstur til sölu. Það kemur fram í svarinu eins og menn sjá ef þeir hafa ekki í bræðiskasti sleppt því að lesa svarið. Það sem liggur núna fyrir er að ég hef sem ráðherra farið fram á að allt sem varðar sölu Landsbankans á hlutnum í Borgun verði dregið fram og upplýst. Þingmenn hafa verið með stjórn Bankasýslunnar og framkvæmdastjóra á fundum í fjárlaganefnd og fengið að rekja úr þeim garnirnar um allt það sem hægt er að fá upplýsingar um og snertir þau atriði sem hér er verið að spyrja um. (Forseti hringir.) Hættið nú þessu leikriti, hv. þingmenn, sem koma hér upp og láta sem það sé verið að reyna að draga dulu yfir þetta mál. Því er þveröfugt farið. Það er beinlínis búið að fara fram á að allt verði dregið fram og málið er enn í ferli. (Forseti hringir.) Lesið svo fylgigögnin vegna þess að þar er að finna upplýsingarnar sem menn þykjast vera að leita svara við.



[14:18]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að þeir sem hafa hlustað á hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar dragi þá ályktun að hér sé verið að setja einhvern leyndarhjúp yfir þetta mál. Því er akkúrat öfugt farið. Hverjir hafa haft forgöngu um að upplýsa um allt sem þarf að upplýsa um í þessu máli? Jú, það eru hv. þingmenn í fjárlaganefnd og hæstv. fjármálaráðherra. Ég hvet hv. þm. Kristján Möller til að kynna sér það sem fer fram á vettvangi hv. fjárlaganefndar. Nákvæmlega þau gögn sem koma fram í svarinu varpa ljósi á allt það sem hv. þingmaður er að spyrja um.

Ef hv. þingmaður þarf einhverjar fleiri upplýsingar er þingmaður fyrir Samfylkinguna í hv. fjárlaganefnd. Það að leggja hér mál upp með þessum hætti er fyrir neðan allar hellur. Ef einhverjar upplýsingar vantar fundum við reglulega með Bankasýslunni í hv. fjárlaganefnd (Forseti hringir.) til að upplýsa þetta mál. Það er gott ef hv. þingmenn Samfylkingarinnar vilja vera með okkur á þeirri vegferð. Við fögnum því.



[14:20]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er alveg ljóst að skoðanir eru mjög skiptar um það hvort upplýsingagjöf sé viðeigandi og viðunandi. Þingmenn upplifa oft að þeir hafi ekki fengið svör við fyrirspurnum sínum, það er alls ekki neitt nýtt. Þegar maður fær svör við fyrirspurnum er oft augljóst að ekki er reynt að svara á sem ýtrastan hátt. Ég held að það sé bara mjög mikilvægt að þingmaðurinn sem óskar eftir svörum og upplifir að hann hafi ekki fengið tilhlýðileg svör fái þá bara þau svör sem hann vantar. Ég legg líka til ef það eru fundir um þetta mál í fjárlaganefnd og öðrum nefndum séu þeir ávallt opnir og aðgengilegir öllum, hvort sem það eru þingmenn, almenningur eða blaðamenn.



[14:21]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að harma að menn bregðist hér við með bræðiskasti þegar embættisfærslur þeirra eru gagnrýndar. En ég kem hér upp, herra forseti, til að árétta að hæstv. forseti gæti þess að fyrirspurnum þingmanna til hæstv. ráðherra sé svarað. Þegar við leggjum fram ákveðnar fyrirspurnir á að sjálfsögðu að svara þeim en ekki leggja fram efni þar sem lesa má fram svarið með greiningu á efni þess. Tilgangur fyrirspurnanna er að þar sé beinum spurningum svarað. Síðan er það til fyrirmyndar þegar hæstv. ráðherrar birta bréf — þetta voru reyndar opinber bréf þannig að hv. þm. Kristján L. Möller gat nálgast og var búinn að nálgast þau með öðrum hætti — og skýrslur. Það er sjálfsagt mál. (Forseti hringir.) Ég árétta, hæstv. forseti: Viltu gæta hagsmuna okkar þingmanna hér þannig að hæstv. ráðherrar komist ekki hjá því að svara spurningum okkar.



[14:22]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Herra forseti. Svör hæstv. ráðherra eru ekki efnisleg. Það að vísa í fundargerðir og bréf eru ekki svör við fyrirspurn. Það er ágætisítarefni til að styðja efnisleg svör, ef upp á þau er boðið, en það er bara ekki gert í þessu tilviki. Að vísa til samræðna sem eiga sér stað í þingnefndum er ekki boðlegt heldur vegna þess að það kemur ekki í staðinn fyrir þingfund. Ef þingið vill, að viðstöddum 63 þingmönnum, taka mál til umræðu er ekki hægt að vísa til þess að málið hafi komið til tals í tiltekinni þingnefnd.

Þingið á að geta rætt mál utan við nefndir. Þetta Borgunarmál er þannig vaxið að um það hafa menn miklar skoðanir úti í samfélaginu og hér í þinginu. (Forseti hringir.) Þetta mál á auðvitað að ræða líka hér á opnum vettvangi í þingsal. Ég tek undir það, virðulegi forseti, það á að gæta hagsmuna þingmanna varðandi það að fá svör við spurningum.



[14:24]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki alveg hvað hv. þingmenn eru að biðja um hérna. Það hlýtur að vera eðlileg krafa til hv. þingmanna að þeir fylgist með því hvað er að gerast í þinginu. (Gripið fram í: Það er ekki hægt.) Hér kemur hv. þingmaður og segir: Lágmarkið er þá að fundir hv. fjárlaganefndar séu opnir öllum. Þeir voru opnir öllum.

Hv. þingmenn segja: Það vantar svör. Það kom skýrsla frá Landsbankanum með svörum við spurningum Bankasýslunnar upp á 126 síður. Ég renndi í gegnum spurningar hv. þingmanns. Ég gat ekki séð annað en að þetta væri allt saman í skýrslunni. Er eðlilegt að við gerum þá kröfu að við þurfum ekki að kannast við það hvað er að gerast í þinginu? Hv. fjárlaganefnd er búin að kryfja þetta mál. Hæstv. fjármálaráðherra hefur beitt sér í því að upplýsa um allt í þessu máli. Svo koma hv. þingmenn og þykjast ekkert vita af því og segja bara: Ég fæ ekki það sem ég vil nákvæmlega núna.

Er ekki alveg (Forseti hringir.) lágmarkið að hv. þingmenn fylgist aðeins með því hvað er að gerast hjá hv. Alþingi? Þessir fundir, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, eru galopnir.



[14:25]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kýs að fyrirgefa hæstv. fjármálaráðherra þau orð sem hann segir hér, að ég eigi að hætta að láta þetta mál snúast um mig sjálfan eða að ég hafi í bræðiskasti ekki lesið svarið eða að við þingmenn í salnum skulum hætta þessu leikriti.

Ég geri það vegna þess að mér hefur fundist hæstv. fjármálaráðherra, ólíkt ýmsum öðrum ráðherrum, oft sinna þingskyldum sínum við okkur þingmenn, líka sem ráðherra. En ég kalla beinlínis eftir því frá forseta hvort ég geti ekki treyst því að þetta algjörlega ófullkomna svar verði sent til fjármálaráðherra til baka og óskað eftir því að hann svari fyrirspurnunum lið fyrir lið án þess að svara með tveimur ljósritum sem ég gat séð á veraldarvefnum í gær. Þetta er ekkert svar. Þetta er ekki boðlegt.

Að mér læðist (Forseti hringir.) sá grunur að hér sé verið að fela óþægileg svör við þessum spurningum. Ég minni líka á að spurning mín til munnlegs svars hefur heldur ekki komið fram og er enn frestað og nú eru komnar fimm vikur fram yfir frest. Ég óska eftir því, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að fá úrskurð um þetta áður en þessari umræðu lýkur. Ég mun ekki sætta mig við þetta svar.



[14:27]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti hefur ekki skoðað þetta svar þannig að hann hyggst gefa sér einhvern frest í því.