145. löggjafarþing — 88. fundur
 15. mars 2016.
stefna um nýfjárfestingar, síðari umræða.
stjtill., 372. mál. — Þskj. 505, nál. m. brtt. 998, nál. 1008.

[19:21]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um stefnu um nýfjárfestingar. Það er frá meiri hluta atvinnuveganefndar.

Við fjölluðum ítarlega um málið og fengum á fund okkar Þórð Hilmarsson frá Íslandsstofu, fulltrúa frá Landsvirkjun, Samtökum iðnaðarins og Viðskiptaráði Íslands. Einnig bárust okkur umsagnir um málið frá Bandalagi háskólamanna, Byggðastofnun, Íslandsstofu, Landsvirkjun og Náttúruverndarsamtökum Íslands, sem einnig komu á fund nefndarinnar, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands og Viðskiptaráði.

Í tillögunni eru tilgreind verkefni sem lögð verði áhersla á til að efla nýfjárfestingu í íslensku atvinnulífi og að auki kemur fram að markaðs- og kynningarstarfsemi stjórnvalda taki mið af þeirri áherslu. Tilgangur þingsályktunartillögunnar er að tilgreina ákveðin viðmið sem endurspegli áherslu stjórnvalda hvað nýfjárfestingar varðar. Í athugasemdum með tillögunni kemur fram að með nýfjárfestingum sé átt við fjárfestingar sem auka fjölbreytni atvinnulífsins, koma með nýja þekkingu og tækni og efla samkeppnishæfni landsins. Þau nýmæli felast í tillögunni að stefnan beinist jafnt að innlendri fjárfestingu sem erlendri auk þess sem lögð er áhersla á aukna fjölbreytni og afleidda innlenda starfsemi.

Meiri hlutinn fagnar tillögunni og bendir á að flestir þeirra sem skiluðu umsögn til nefndarinnar lýstu ánægju með hana. Þó var bent á að orðalag tillögunnar sé fremur almennt og mögulega hætta á að fyrirheit hennar gangi ekki eftir. Meiri hlutinn telur mikilvægt að stefnunni verði fylgt skipulega eftir verði hún afgreidd frá þinginu og tekur undir ábendingar sem fram komu fyrir nefndinni um að oft nái fyrirheit ekki fram að ganga í stjórnsýslunni.

Meiri hlutinn hvetur til þess að samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins verði eflt með það fyrir augum að þáttur þeirra síðarnefndu við framkvæmd stefnumörkunar verði aukinn m.a. á vettvangi Íslandsstofu.

Við umfjöllun um málið kom fram að Ísland standi frammi fyrir miklum tækifærum hvað varðar fjárfestingar innlendra sem erlendra aðila á fjölbreyttu sviði atvinnulífsins. Meiri hlutinn fjallaði sérstaklega um landsbyggðina og stöðu hennar samanborið við þéttbýl svæði, t.d. á suðvesturhorninu. Meiri hlutinn telur mikilvægt að í stefnu stjórnvalda verði sérstaklega horft til uppbyggingar fjölbreyttra atvinnutækifæra á landsbyggðinni og telur það grunn að byggðafestu framtíðarinnar. Meiri hlutinn bendir m.a. á heimild stjórnvalda til að veita sérstakan byggðastuðning samkvæmt lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi, nr. 41/2015. Meiri hlutinn telur ljóst að t.d. sjávarútvegur og landbúnaður muni ekki að óbreyttu gegna því lykilhlutverki við að tryggja byggðafestu sem verið hefur undanfarna áratugi og því sé mikilvægt að skjóta fjölbreyttari stoðum undir þær greinar sem og aðrar. Samkvæmt byggðakorti ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, er heimilt að veita byggðaaðstoð á tilteknum svæðum hér á landi, þ.e. í Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmi. Meiri hlutinn leggur ríka áherslu á aukin atvinnutækifæri á landsbyggðinni og aðgerðir sem stuðli að byggðafestu vítt og breitt um landið. Telur meiri hlutinn vert að kanna fýsileika þess að taka upp annars konar byggðakort hér á landi eða innanlandsstefnu sem byggðist til að mynda á því að með aukinni fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu gæti stuðningur orðið meiri.

Þá bendir meiri hlutinn á að brýnt er að styrkja dreifikerfi raforku og efla flutningsgetu þess til að tryggja nægjanlegt framboð raforku um allt land. Fram hefur komið að fyrir utan Suðvesturland og hluta Norðausturlands eru takmarkaðir möguleikar til uppbyggingar á aðstöðu fyrir verkefni sem krefjast teljandi orku. Meiri hlutinn leggur því til að sérstaklega verði horft til þess að efla uppbyggingu innviða í dreifi- og flutningskerfi raforku.

Fram kom fyrir nefndinni að greina þyrfti á milli annars vegar orkuiðnaðar og hins vegar stóriðju. Með orkuiðnaði er almennt átt við fyrirtæki sem þurfa t.d. um 5–50 megavött fyrir rekstur sinn og var í því sambandi t.d. minnst á rafvæðingu hafna en allt að 10 megavött eru nauðsynleg fyrir stærri hafnir. Nægur aðgangur að orku gefur mikil tækifæri m.a. við að efla nýsköpun og þekkingariðnað á tækni- og vísindasviðinu. Glöggt dæmi um þetta eru áhugaverð verkefni sem hafa skapast á vettvangi Sjávarklasans í þróun á fullvinnslu afurða. Þá hefur fjölbreytt starfsemi, sem segja má að sé einstök á heimsmælikvarða, skapast í tengslum við orkuvinnslu í Auðlindagarðinum á Suðurnesjum.

Ýmis tækifæri liggja í upplýsingatækni hér á landi og er brýnt að mati meiri hlutans að stuðla að ódýrari gagnaflutningi milli Íslands og annarra landa þar sem verð á slíkum flutningi er 5–10 sinnum dýrari hér en í samkeppnislöndum. Til að lækka verðið þarf kaupendur að miklu flutningsmagni sem aftur leiðir til hagkvæmari rekstrar á flutningsleiðum. Meiri hlutinn hvetur því til þess að farið verði í sérstakt átak í samvinnu opinberra aðila og atvinnulífsins til að fá hingað til lands stórnotendur á þessu sviði. Samhliða því verður að stórefla innviði fjarskipta um land allt með aukinni útbreiðslu ljósleiðaratenginga. Stefna ber að því að 99,9% landsmanna hafi aðgang að tengingum sem eru a.m.k. 100 Mb/s.

Í tillögugreininni er gegnumgangandi vísun í þekkingariðnað og nýsköpun sem er sá iðnaður sem lýtur að því að skapa eitthvað nýtt eða bæta það sem þegar er til. Í stefnunni er t.d. lögð áhersla á nýfjárfestingar sem stuðla að aukinni fjölbreytni og afleiddri innlendri starfsemi, sem ýta undir vöxt alþjóðlega samkeppnishæfs þekkingariðnaðar og sem styðjast við nýjustu og bestu fáanlegu tækni og umhverfisviðmið. Jafnframt er talað um samstarf við íslensk fyrirtæki og fjárfestingar í íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum.

Mikilvægt er að markmið Íslands varðandi losun gróðurhúsalofttegunda séu höfð til hliðsjónar í uppbyggingu atvinnutækifæra í framtíðinni. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að Íslendingar hafa fleiri tækifæri en margar aðrar þjóðir til sjálfbærrar nýtingar endurnýjanlegra orkugjafa. Við stefnumörkun og ákvarðanatöku skal heildarmyndin um losun gróðurhúsalofttegunda höfð til hliðsjónar þegar kemur að uppbyggingu í atvinnulífi m.a. með tilliti til skuldbindinga Íslands á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í desember 2015. Meiri hlutinn leggur til viðbót við 4. tölulið 1. mgr. tillögugreinarinnar í þá veru að vísa til skuldbindinga Íslands á loftslagsráðstefnunni. Með þeirri skuldbindingu gengu íslensk stjórnvöld til liðs við framsæknustu þjóðir heims um minni losun gróðurhúsalofttegunda. Þessar skuldbindingar skulu hafðar að leiðarljósi við mat á umhverfislausnum nýrra fjárfestingarverkefna og fléttast inn í mat á nýjum fjárfestingarverkefnum. Það verður ekki gert öðruvísi en með því að skoða rækilega hvernig fyrirtæki leysa umhverfismál sín, einkum losun gróðurhúsalofttegunda, sem er inntak 4. töluliðar. Ef loftslagsliðurinn verður tekinn úr því rökrétta samhengi er hætt við að hann standi eftir sem innantóm orð. Hvað loftslagsmarkmiðin varðar og íslenskt atvinnulíf almennt telur meiri hlutinn að forðast eigi að stilla atvinnugreinum hverri upp á móti annarri. Nefna má sem dæmi að mikið er rætt um kolefnislosun stóriðju en benda má á óhjákvæmilega kolefnislosun vegna flutnings ferðamanna til og frá landinu.

Meiri hlutinn bendir á að sérstaða Íslands liggur m.a. í framleiðslu og dreifingu á grænni orku. Á öðrum sviðum er samkeppnisstaða Íslands erfiðari, svo sem hvað varðar samgöngur, fjölbreytta reynslu og viðeigandi menntun starfsfólks og er þar einkum átt við skort á iðn- og tæknimenntuðu fólki hér á landi. Mikilvægt er að sérstök áhersla verði lögð á þessa þætti við framkvæmd stefnunnar.

Líkt og framar er getið felast í tillögu þessari ákveðin viðmið sem endurspegla áherslu stjórnvalda hvað nýfjárfestingar snertir. Meiri hlutinn telur að stöðugt þurfi að leita eftir því að hér á landi verði sköpuð fjölbreytt starfstækifæri. Að mati meiri hlutans er það í samræmi við stefnuna að í framtíðinni verði einkum horft til iðnaðaruppbyggingar sem er smærri að umfangi en ef til vill hefur verið hingað til og sem krefst hæfilegrar orku. Meiri hlutinn leggur áherslu á að sköpuð séu skilyrði hér á landi til að ungu fólki bjóðist fjölbreytt og vel launuð störf.

Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir þingsins.

Lilja Rafney Magnúsdóttir ritar undir álit þetta með fyrirvara og leggur áherslu á mikilvægi þess að hraða allri uppbyggingu innviða hér á landi til að mæta kröfum nútímasamfélags um meiri verðmætasköpun, góð búsetuskilyrði og aukna möguleika til nýfjárfestinga. Enn fremur leggur hún ríka áherslu á þingsályktun um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi sem var samþykkt á Alþingi í mars 2012 með öllum greiddum atkvæðum, mikilvægi skapandi greina, nýsköpun, rannsóknir og þróun atvinnugreina, fjölbreytni og hvetjandi rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Páll Jóhann Pálsson ritar undir álit þetta með fyrirvara og leggur áherslu á að líta þurfi hnattrænt á loftslagsmál þegar tekin er ákvörðun um staðsetningu tiltekinnar starfsemi.

Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við 4. tölulið 1. mgr. tillögugreinarinnar bætist: m.a. með tilliti til skuldbindinga Íslands á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í desember 2015.

Undir álitið skrifa, eins og áður hefur komið fram, Lilja Rafney Magnúsdóttir, með fyrirvara, Páll Jóhann Pálsson, með fyrirvara, Jón Gunnarsson, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson, Kristján L. Möller, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir.

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vekja ákveðna athygli þegar svo stór hluti atvinnuveganefndar kemur sér saman um texta, svo róttækan texta í nefndaráliti sem raun ber vitni. Því ber að fagna. Það er auðvitað mikið ánægjuefni að við skulum í raun hafa svo sameiginlega sýn á framtíðina sem endurspeglast í nefndarálitinu. Hjá okkur var mikið til umræðu staða landsbyggðarinnar og möguleikar landsbyggðarinnar til að byggja sig upp á næstu árum og áratugum til að snúa við þeirri byggðaþróun sem við höfum orðið vitni að á síðastliðnum áratugum. Ég held að það sé sameiginlegt markmið okkar allra, eitthvað sem við getum sameinast um að sé mjög brýnt. Við sjáum vissulega víða tækifæri vera að skapast á landsbyggðinni. Við sjáum víða þær aðstæður vera að skapast að húsnæðismál eru farin að valda vandræðum, það þarf að fara að byggja nýtt íbúðarhúsnæði víða um land til að geta svarað þeirri þörf sem þegar er fyrir hendi.

Athygli vakti skoðanakönnun sem Viðskiptablaðið var með einhvern tímann í kringum áramótin, fljótlega eftir áramót, ef ég man rétt, þar sem ungt fólk var sérstaklega spurt hvort það gæti hugsað sér að búa úti á landi. Um 75% af ungu fólki sögðust geta hugsað sér að búa úti á landi, þ.e. ef ákveðin lífsgæði væru fyrir hendi. Þau lífsgæði þurfum við að skapa. Þær atvinnugreinar sem við höfum einkum horft til á síðustu árum og áratugum þegar kemur að því að skapa byggðafestu í landinu eru sjávarútvegur og landbúnaður. Með nýjum búskaparháttum og örri þróun í breytingu á búskaparháttum er alveg ljóst að landbúnaður mun ekki gegna því hlutverki að sama marki og verið hefur. Þróunin hefur verið mikil og hröð. Við getum bara séð það að á síðustu 15–20 árum hefur kúabúum fækkað úr 1.800 í 650. Sú þróun mun halda áfram. Þetta þýðir að færri jarðir verða í byggð. Það verða færri sem hafa beina atvinnu af landbúnaði, bæði í þeim byggðakjörnum sem byggjast upp í kringum landbúnað og í sveitum landsins.

Það sama á við í sjávarútvegi. Í sjávarútvegi er að innleiðast ný tækni í raun á hverjum tíma. Við Íslendingar höfum náð því að vera í forustuhlutverki í innleiðingu á nýrri tækni þegar kemur að verðmætasköpun í sjávarútvegi.

Á vef Sjávarklasans sem ég var að lesa um daginn kom fram að á Íslandi getum við reiknað með að hafa um 60% meiri verðmæti út úr hverjum þorski en frændur okkar Norðmenn, sem í dag eru farnir að horfa mjög til bæði þess fiskveiðistjórnarkerfis sem við höfum og einnig þeirrar vinnslutækni sem við beitum til að auka verðmætasköpun nú þegar þeir standa frammi fyrir lækkandi olíuverði.

Sú tækni sem verið er að innleiða í t.d. vinnslu á fiskflökum er byltingarkennd. Þetta mun leiða af sér að færri fiskvinnslur verða í landinu en eru í dag og þær verða stærri og afkastameiri og þær skapa meiri verðmæti. Það er út af fyrir sig mjög jákvæð þróun. En ef við ætlum ekki að horfa upp á það að þetta muni að stærstum hluta verða til þess að hafa áhrif á landsbyggðinni þá verðum við að bregðast við.

Þróun í ferðaþjónustu er okkur auðvitað mjög mikilvæg og skiptir gríðarlega miklu máli, ekki bara fyrir þjóðarbúið heldur líka fyrir einstök landsvæði og það jafnvel á ársgrundvelli sums staðar. Við sjáum í raun ekkert annað í pípunum þar en að sú aukning muni halda áfram. Auðvitað verður það markmið okkar allra að láta það ganga fram að aukningin muni skila sér meira um hinar dreifðu byggðir. En ég held að það sé óskhyggja ef einhverjir halda að það muni verða stóra tækifærið víða um land til að treysta byggðafestu. Auðvitað mun þetta hafa áhrif mjög víða, en víðast takmörkuð. Við getum séð fyrir okkur svæði kannski á Suðurlandi, Suðvesturlandi, jafnvel nær Vesturlandinu og jafnvel einhvers staðar fyrir norðan þar sem þetta mun skipta máli og mun auka byggðafestu á þeim svæðum og gefa fjölbreyttari tækifæri. En það mun eitthvað annað þurfa að koma til. Eftir því var kallað hjá umsagnaraðilum sem nefndin er að reyna að svara í nefndaráliti sínu.

Við leggjum mikla áherslu á uppbyggingu fjarskiptanetsins. Grundvöllur að uppbyggingu atvinnustarfsemi er að góður netaðgangur fáist sem víðast á landinu. Það markmið sem núverandi stjórnvöld hafa sett sér og sú vinna sem er komin í gang miðar að því að 99,9% heimila muni ná þeirri háhraðatengingu. Það verkefni er komið af stað og ekki annað að sjá en að því muni á fáum árum ljúka.

Annað er uppi á teningnum þegar kemur að raforkuframleiðslu og flutningskerfi raforku. Fyrir nefndina komu fulltrúar frá Landsvirkjun. Þeir bentu okkur á og það kom fram í máli þeirra að þeir geta að mjög litlu leyti svarað mörgum fyrirspurnum sem þeim berast í dag um afhendingu á raforku til smærri iðnaðar. Fram kom í máli þeirra, nefndin tekur undir það og er sammála því, að stóriðja eins og hún hefur verið orðuð, og þá erum við að tala um álver eða eitthvað í þeim stærðarflokki sem þarf jafnvel mörg hundruð megavött, jafnvel upp í 500–600 megavött, að það sé ekki það sem við þurfum að leggja áherslu á í dag. Það var nauðsynlegt á sínum tíma vegna þess að dýr uppbygging megindreifikerfis raforku hefði verið allt of dýr til að gera það með fáum og smáum kaupendum. Þessir stóru kaupendur gerðu okkur kleift að byggja upp megindreifikerfið, báru af því kostnað og við sjáum afleiðingar þess birtast í raforkureikningum landsmanna sem eru þeir lægstu í þeim löndum sem við berum okkur saman við og sennilega þeir lægstu í heimi. Það er vegna þess að stórnotendurnir greiddu niður þetta dýra dreifikerfi í stóru landi. En nú er öldin önnur. Með þessu hafa skapast tækifæri fyrir okkur til að horfa til fjölbreyttari og smærri rekstrar. Það hentar okkur mjög vel í byggðatengdu tilliti.

Því miður eru dæmi um það núna úti um land að fyrirtæki hafa sýnt áhuga á að byggja upp fjölbreyttari starfsemi en orðið frá að hverfa af því að þau fá ekki orku sem nemur kannski 10 eða 20 megavöttum. Það hefði einhverjum þótt sérstakt í landi sem hefur öll þau tækifæri til grænnar orkuframleiðslu að slík staða skuli vera uppi. Það er auðvitað algjörlega óþolandi ástand að byggðarlög, stór byggðasvæði úti um land, skuli búa við svona skert samkeppnisskilyrði þegar kemur að því að efla byggð með fjölbreyttari framleiðslu- og atvinnutækifærum. Það er ekki nema rétt hér á suðvesturhorninu og á Norðausturlandi í kringum Þeistareykjavirkjun sem er núna í byggingu við Mývatn og Kröfluvirkjun þar sem það er einhver möguleiki. Önnur landsvæði eru bara út undan. Þar erum við að tala um svæði sem eru í mikilli þörf fyrir að fá aukna fjölbreytni í atvinnustarfsemi sína til að treysta byggð.

Ég tel því að þetta sé algjört grundvallaratriði. Við tökumst gjarnan á hér í þinginu þegar kemur að því hvernig á að afla orku til þeirrar mikilvægu starfsemi. Það verður auðvitað til lítils að byggja upp öflugt dreifikerfi ef ekki verður til orka til að flytja eftir dreifikerfum. Það er annað mál sem við munum þurfa að taka fyrir hérna. Ég vona að við í atvinnuveganefnd séum að slá þann tón í þessu máli að við getum sest niður og átt sómasamlega og málefnalega umræðu um þetta mikilvæga atriði vegna þess að það verður að fylgja. Við verðum að sýna ábyrgð í því að skapa þær aðstæður í landinu. Það gerist ekki nema við náum saman um einhverja stefnu.

Nú er farið fram með hugmyndir um hálendisþjóðgarð. Það er vissulega áhugavert mál sem ég er algerlega tilbúinn að ljá eyra. En það þarf auðvitað að gerast á grundvelli málamiðlunar, málamiðlunar á milli náttúruverndar og nýtingar. Ég hef fulla trú á því, virðulegi forseti, að við getum náð saman um það mikilvæga mál. Það vill stundum bregða við að menn horfa sér nær þegar kemur að slíkum málum. Það er allt í lagi að fara í verkefni sem standa hjartanu nær eða þeirri byggð nær sem maður er frá. Við verðum að víkja frá slíkum hugsunarhætti og hugsa um heildina. Þannig hefði örugglega orðið meiri ágreiningur en raun ber vitni um uppbyggingu á stóriðju, ef hægt er að kalla það stóriðju á Bakka, að reisa þar kísilmálmver. Það er vissulega stóriðja, tugmegavatta framkvæmd ef horft er til raforkunnar. Það hefðu örugglega orðið um það meiri deilur ef ekki hefði verið fyrir það að menn voru að líta sér nær, voru tilbúnir að styðja það verkefni þar. Það væri líka ákveðinn ágreiningur, er ég alveg klár á, ef til stæði að byggja Hvalárvirkjun einhvers staðar annars staðar. En ég held að við getum náð sátt um þá virkjun vegna mikilvægis þess fyrir byggðina á Vestfjörðum. En Hvalárvirkjun er í jaðri friðlands á Vestfjörðum, á Ströndum, mjög viðkvæms friðlands. Fara þarf með línur frá þeirri virkjun yfir viðkvæm svæði. Þetta á við annars staðar á landinu líka. Við verðum að vera opin fyrir því að leita málamiðlunar í þessu alveg eins og við gerðum við vinnslu þessa máls þar sem við horfðum með skýrum hætti til allra þessara þátta.

Við erum öll sammála um það, virðulegur forseti, að okkur ber að leggja aukna áherslu á umhverfismálin. Okkur ber að leggja aukna áherslu á loftslagsmálin. Undir það höfum við skrifað. Um það erum við öll sammála að leggja okkar lóð á vogarskálarnar eins og hægt er í þeim efnum. Við erum fyrirmynd margra annarra þjóða þegar kemur að þessum mikilvæga málaflokki. Eða hvað? Við erum ekki að brenna olíu, gasi eða kolum til að kynda húsin okkar til að mynda, eða til að framleiða rafmagnið okkar. Í þessu felast mikil tækifæri eins og fram kemur í nefndaráliti okkar með þingsályktunartillögunni.

Ég var á ferðamálaráðstefnu í dag hjá Samtökum ferðaþjónustunnar og mjög áhugaverð erindi voru flutt þar. Mönnum var tíðrætt um þetta samspil sem við þurfum að taka svo mikið tillit til í framtíðinni. Ferðamenn sækja Ísland mest út af náttúru landsins og öllum þeim tilbrigðum sem hún býður upp á, hvort sem það er landslag eða norðurljós, og eflaust eru tækifæri til að efla þetta enn frekar. En gleymum því samt ekki í þeirri umræðu og tökum fullt tillit til þess hvernig við stöndum einmitt að orkuöflun okkar, hvernig við kyndum húsin okkar og hvernig við framleiðum rafmagnið. Það vekur ekki síður athygli ferðamanna. Þegar við tölum um hálendið og ásókn ferðamanna í þau víðerni, þá er það staðreynd, virðulegur forseti, að fleiri ferðamenn heimsóttu virkjanir okkar á síðasta ári, og skoðuðu þær af miklum áhuga, en fóru upp á hálendið. Það er líka áhugavert fyrir ferðafólk hvernig við stöndum að þessum málum. Við erum fyrirmynd annarra þjóða í þeim efnum. Okkur þingmönnum ber að haga máli okkar þannig að við tökum tillit til allra þessara hagsmuna en séum ekki með einstrengingshátt þegar kemur að öðrum þætti.

Þetta á líka við þegar rætt er um kolefnislosun atvinnugreina. Allt of oft dettum við í þann pytt að bera saman atvinnugreinar, að segja ferðaþjónustan frekar en iðnaður eða eitthvað slíkt. Af hverju þurfum við að fara þá leið? Af hverju horfum við bara ekki á hverja grein fyrir sig og hugsum með okkur: Hvernig getum við eflt þessa atvinnugrein jafnframt því að efla allar hinar til að styrkja stoðirnar undir íslensku samfélagi? Þannig eigum við að mínu mati að nálgast umræðuna. Þegar komið er að kolefnislosun atvinnugreina er alveg ljóst að flutningur á ferðamönnum til og frá landinu, í því felst meiri kolefnislosun en frá allri stóriðju í landinu. Það er aldrei nefnt í umræðunni af hálfu þeirra sem út frá náttúruvernd telja sig þurfa að leggjast gegn uppbyggingu í orkufrekum iðnaði. Er það þá kannski næst á dagskrá, ef þeir ná fullnaðarsigri á öðrum vængnum, að fara þá í eitthvað annað næst?

Það þarf að fjalla um þessi mál af ábyrgð og ég treysti því að við getum staðið undir þeirri ábyrgð. Við erum í mörgu tilliti á ákveðnum tímamótum í þessu. Umræðan hefur þroskast mikið og við erum miklu meðvitaðri um þær áherslur sem okkur ber að leggja inn í framtíðina í þessum málum. Ég treysti því að um það geti náðst samstaða, ekki bara hér á þingi heldur líka í samfélaginu.

Fjölmiðlar hafa auðvitað veigamiklu hlutverki að gegna þegar kemur að þessari umræðu. Allt of oft eru einfaldar fullyrðingar sem að mínu mati krefjast spurninga látnar fljóta inn í fjölmiðla án nokkurrar gagnrýni. Ég skal taka dæmi. Á blaðamannafundi sem Andri Snær Magnason og Björk Guðmundsdóttir héldu um loftslagsmál fyrir ekki svo löngu fullyrtu þau að hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra ætluðu sér að byggja 32 virkjanir uppi á hálendi landsins og ætluðu í raun, eins og það var orðað, að rústa hálendinu. (Gripið fram í.) — Nú fer þetta fyrir brjóstið á hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem vaknaði hér í hliðarsal og það kemur auðvitað við kauninn á honum þegar talað er um þetta með þessum hætti.

Var einhver einn blaðamaður á þeim blaðamannafundi, virðulegi forseti, sem lét sér detta í hug að spyrja einnar spurningar um hvort þetta væri rétt, hvar þetta væri að finna, hvar þessa stefnu væri að finna? Ekki einn. Ekki einn fjölmiðlamaður var þar, heldur var þetta tekið eins og heilagur sannleikur og birt þjóðinni og sagt frá því með þeim hætti.

Við hér á þinginu og þeir aðilar sem láta sig málið varða í samfélaginu, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir bera mikla ábyrgð, en þá er ábyrgðin ekki síður hjá fjölmiðlum landsins að stuðla að opinni og málefnalegri umræðu þegar kemur að þessu mikilvæga máli, sem ég held og ég er þeirrar skoðunar að skipti okkur grundvallarmáli þegar kemur að því að byggja landið okkar upp til framtíðar, skapa hér þau tækifæri fyrir ungt fólk, fyrir þau 75% ungs fólks sem geta hugsað sér að flytjast búferlum út á land, jafnvel til heimahaganna í mörgum tilfellum, og búa þar góðu lífi.

Dóttir mín er alin upp á mölinni. Hún fæddist reyndar í sveitinni meðan ég var bóndi fyrir norðan en hún flutti á Siglufjörð, eins og ég veit að sá sem nú er í forsetastóli þekkir vel, giftist meira að segja frænda hans, það er kannski aukaatriði. En það var heilmikið átak, heilmikil ákvörðun fyrir ungt fólk sem hefur kannski ekki kynnst þessu nema að litlu leyti, en ég get alveg sagt það í dag að reynslan er mjög góð.

Ég held að miklir kostir fylgi því að mörgu leyti að búa úti á landi og ala upp börn úti á landi, en það krefst þess að lífsgæðin séu fyrir hendi, að þar sé heilbrigðisþjónusta, þar séu fjarskipti, góðar samgöngur og menntunarmöguleikar, þannig að við getum boðið fólki góð skilyrði þegar kemur að þeim mikilvægu þáttum.

Þessi þingsályktunartillaga og sérstaklega nefndarálitið, virðulegi forseti, svara öllum þeim spurningum sem kunna að vakna í kringum það.



[19:51]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson talaði um hvað hann væri glaður yfir því hvað fólk væri sammála um þessa tillögu. Það er þannig að allir flokkar sem sæti eiga í atvinnuveganefnd eru á því nefndaráliti sem hv. þingmaður las upp áðan nema sú sem hér stendur. Ég skal játa að ég þurfti að lesa þingsályktunartillöguna mjög oft því að ég þurfti að átta mig á hvað í henni stæði því að hún er mjög almenn og mjög óljós og svona hingað og þangað og fjallar mikið um alþjóðageirann. En eftir því sem ég las hana oftar sá ég að alþjóðageirinn og þau fyrirtæki sem við þekkjum sem nefnd eru í tillögunni, eins og Marel, Actavis, Plain Vanilla og fleiri, áttu að fá brauðmolana af gnægtarborðinu. Það sem liggur fyrir er að nýfjárfestingin í orkufrekari iðnaði átti að nýtast alþjóðageiranum svo vel. Það er það sem ég les út úr tillögunni. Það vantar skýrar áherslur og markmið um hvað eigi nákvæmlega að gera.

Nefndarálitið hjá meiri hlutanum skýrir það auðvitað svolítið og leggur meiri áherslu á orkuna og segir að hana þurfi, svo hitt megi koma fram.

Mig langar að hamra á því að þetta er ástæðan fyrir því að ég er ekki með á álitinu (Forseti hringir.) og mér þykir miður að við ræðum ekki í þessum efnum, þ.e. nýfjárfestingum, um aðra hluti en þessa gamaldags stóriðju eða, fyrirgefið, orkufrekan iðnað.



[19:53]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst þegar ég heyri í hv. þingmanni að það sé einhver reginmisskilningur hér á ferð og bið hana helst um að lesa aðeins betur. Út frá því sem ég fór yfir í ræðu minni og sem ég las upp úr nefndarálitinu þá skil ég ekki hvernig hægt er að skilja það sem áherslur á orkufrekan iðnað. Við komum einmitt inn á greinarmuninn sem gerður er í þessu og mikilvægt er að gera sér grein fyrir því hvenær við tölum um stóriðju og hvenær tölum við um orkutengdan iðnað? Áherslan er lögð á orkutengdan iðnað. Við setjum mörkin við 5–50 megavött. Orkufrekur iðnaður eins og stóriðja, eins og við höfum skilgreint hana í þessum álverum sérstaklega og kísilmálmverksmiðjum, eru jafnvel nokkur hundruð megavött. Þarna liggur mikill munur. Ég fór sérstaklega inn á það að við værum ekki að horfa í þá átt. Það eru allir sammála um það. Við erum að horfa til nýsköpunar, til aukinnar fjölbreytni, þeirra tækifæra sem í því liggja. Það hentar ekki landsbyggðinni að taka á móti álverum í hvern fjörð. Ég hef til dæmis haft verulegar efasemdir uppi um byggingu álvers nálægt Skagaströnd. Ég held að það sé útilokað og bara vitleysa. Ég held að við eigum að fara í eitthvað allt annað þar, en við verðum að fara í eitthvað þar.

Virðulegur forseti. Ég hvet hv. þm. Björt Ólafsdóttur, sem átt hefur mjög gott samstarf með okkur í atvinnuveganefndinni, að kíkja aðeins betur á þetta. Ég veit ekki hvað þingsköp leyfa í þeim efnum, en ég vona að hún smelli sér á nefndarálitið með okkur hinum öllum og komi í liðið. Í því felst björt framtíð.



[19:55]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður smellir sér ekkert á svona álit eða þingsályktunartillögu sem manni líkar ekki. Það er stundum þannig að hlutirnir eru settir óskýrir fram til þess að geta svo sagt — og það er það sem ég óttast varðandi þessa tillögu, því að væntanlega verður hún samþykkt í þinginu og væntanlega með miklum meiri hluta af því að hér eru allir aðrir flokkar en Björt framtíð á blaði. Landsvirkjun vildi í umsögn sinni fá skýrar fram viðbætur við tillöguna, sér í lagi í athugasemdum sem lúta að nýfjárfestingum og málefnum tengdum orkuiðnaði. Meiri hlutinn brást við því og lýsti skilningi sínum á sérstöðu Íslands, sem tíunduð er í þingsályktunartillögunni, og leggur þar áherslu á að nýta þá orku sem hér er að finna og hægt er að virkja.

Þess vegna segi ég: Ég hef áhyggjur af því að ef sú tillaga sem hér liggur fyrir verður samþykkt geti hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórnin öll sagt: „Sjáið til, hér hefur þingið staðfest þingsályktunartillögu sem segir að til þess að við fáum fleiri fyrirtæki hingað til lands þurfum við meiri orku.“ Ég er ekki til í það eða að leggja nafn mitt við það og það mun ég aldrei gera. Þess vegna tel ég tillöguna varhugaverða.



[19:58]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort ég á að skilja orð hv. þingmanns þannig að hún sé andvíg því að aflað sé meiri orku í landinu. Hún sagði það beint að hún gæti ekki sett nafn sitt við að afla frekari orku. Það er nú eins og að berja hausnum við steininn að horfast ekki í augu við þann vanda sem er að skapast á þeim vettvangi miðað við þá almennu aukningu á raforkunotkun sem er að verða í landinu. Ég hef heyrt þennan fulltrúa þessa sama flokks tala um að við eigum að auka rafvæðingu í samgöngumálum hjá okkur, auka rafvæðingu bíla. Hvaðan á að koma orka í það? Og þannig get ég lengi talað. Eru menn á móti því að við tengjum hafnir landsins raforku þannig að skipaflotinn þurfi ekki að brenna dísilolíu þegar skipin eru í höfn, þ.e. að hægt sé að tengja þau við landrafmagn? Það er ekki hægt í dag. En það kostar upp í 10 megavött hjá stærstu höfnunum, sérstaklega þar sem skemmtiferðaskipin koma.

Ég held að menn þurfi nú aðeins að setjast niður og fara að gera upp við sig hlutina, hvernig þeir ætla að vera og horfa aðeins á staðreyndir máls og segja þá bara skýrt hvað þeir vilja.

Í nefndaráliti okkar við þingsályktunartillöguna segir, með leyfi forseta:

„Fram kom fyrir nefndinni að greina þyrfti á milli annars vegar orkuiðnaðar og hins vegar stóriðju. Með orkuiðnaði er almennt átt við fyrirtæki sem þurfa t.d. 5–50 megavött fyrir rekstur sinn og var í því sambandi t.d. minnst á rafvæðingu hafna, en allt að 10 megavött eru nauðsynleg fyrir stærri hafnir. Nægur aðgangur að orku gefur mikil tækifæri m.a. við að efla nýsköpun og þekkingariðnað á tækni- og vísindasviðinu.“

Glöggt dæmi um þetta eru áhugaverð verkefni sem sést hafa á vettvangi Sjávarklasans og á vettvangi auðlindagarðsins á Suðurnesjum.

Við þurfum orku til allra þessara verkefna hvort sem þau eru stór eða smá. Það er einfaldlega þannig. (Forseti hringir.) Ef við getum ekki flutt hana til þessara dreifðu byggða í fyrsta lagi verða þær bara út undan í byggðaþróun á næstu árum.



[20:00]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit minni hlutans sem samanstendur af mér sjálfri og þingflokki Bjartrar framtíðar sem sagt. Ég ætla að lesa það upp og fara svo aðeins yfir það.

Björt framtíð leggur mikla áherslu á að styrkja umhverfi til nýfjárfestinga á Íslandi og að slíkar aðgerðir séu almenns eðlis. Mikilvægt er að aðgerðir séu í anda sjálfbærni og langtímauppbyggingar og þar eru skapandi greinar mikilvægur þáttur sem ekki má verða út undan í stefnumótun sem þessari. Við stefnumörkun er mikilvægt að leggja upp með hvaða markmiðum á að ná fram. Því er mikilvægt að kynna og færa rök fyrir því hvernig stefna um nýfjárfestingar muni ná umræddum markmiðum. Til þess þarf að vera ljóst hvaða leiðir á að fara við innleiðingu stefnunnar. Verða aðgerðir hennar almenns eðlis eða sértækar? Hafa þær í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð eða sveitarfélög? Hvernig rímar nýfjárfestingastefnan við meginstoðir í íslensku mannlífi, umhverfi og efnahag? Er horft til jafnræðis, samkeppnissjónarmiða, náttúruverndar o.s.frv.?

Björt framtíð hafði frumkvæði að því á síðasta kjörtímabili að þingið samþykkti metnaðarfulla fjárfestingaráætlun. Í henni var fjármagn aukið verulega til samkeppnissjóða á sviði skapandi greina, í rannsóknir, nýsköpun og þróun og uppbyggingu græns iðnaðar. Þessi stefna byggðist á ítarlegum greiningum á sóknarfærum í nýfjárfestingum á Íslandi og lykilatriðið var að fjármagn fylgdi stefnunni. Því er ekki að heilsa í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir.

Minni hlutinn telur að í tillögunni skorti alveg að skýra hvað liggur fyrir. Af því leiðir að rökstuðningi er ábótavant. Flestir sem skiluðu umsögn til nefndarinnar voru jákvæðir fyrir því að efla nýfjárfestingar en gagnrýnt var að orðalag væri almennt auk þess sem talið var að skýrar tillögur skorti. Minni hlutinn telur ljóst að almennt orðalag tillögunnar leiði til þess að umsagnaraðilar skilji hana á ólíkan hátt.

Minni hlutinn bendir á að Viðskiptaráð fagnar því að alþjóðageiranum sé gert hærra undir höfði. Viðskiptaráð kýs að skilgreina alþjóðageirann á sama hátt og gert er í svonefndri McKinsey-skýrslu, þ.e. sem öll íslensk fyrirtæki sem starfa í alþjóðlegri samkeppni og byggja ekki starfsemi sína á nýtingu takmarkaðra náttúruauðlinda. Í þessu ljósi fagnar Viðskiptaráð tillögunni og hvetur stjórnvöld til að einbeita sér að því að skapa hagfelld almenn skilyrði fyrir fjárfestingu í öllum atvinnugreinum í stað þess að veita tilteknum atvinnugreinum eða fyrirtækjum forskot umfram aðra. Þetta er skilningur Viðskiptaráðs og þetta vill Viðskiptaráð sjá.

Í umsögn Byggðastofnunar er kallað eftir því að þingsályktunartillagan verði skýrari. Jafnframt er þar bent á skilgreiningar laga um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi, nr. 41/2015, en stofnunin telur þær ná yfir efni tillögunnar. Í þeim lögum er gert ráð fyrir því að einstök fyrirtæki fái ívilnanir umfram önnur.

Umsögn Landsvirkjunar og nefndarálit meiri hlutans eru allrar athygli verð. Landsvirkjun fagnar tillögunni og segist gjarnan vilja sjá viðbætur við tillöguna, sér í lagi í athugasemdum við hana, sem lúta að nýfjárfestingu og málefnum tengdum orkuiðnaði. Meiri hlutinn bregst við þessu með því að lýsa skilningi sínum á sérstöðu Íslands og leggur þar áherslu á að nýta þá orku sem hér er að finna og hægt er að virkja. Þar sem þingsályktunartillagan er óskýr koma fram skýrari línur og aðgerðir í áliti meiri hlutans.

Ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að það þykir mér ágætt. Ég vil að fólk tali skýrt. Það er fínt að meiri hlutinn geri það.

En þar ber hæst frekari stuðningur við orkufrekan iðnað á landsbyggðinni.

Minni hlutinn og við í Bjartri framtíð tökum heils hugar undir með meiri hlutanum um að mikilvægt sé að efla flutningskerfi raforku og að ljósleiðaravæða landið allt. En við viljum vekja athygli á því að þau brýnu mál eru nú þegar í vinnslu og ályktanir þar að lútandi hafa fyrir nokkru verið afgreiddar frá Alþingi.

Þeir flokkar sem standa að áliti meiri hlutans kjósa að einblína á landsbyggðina hvað stefnu um nýfjárfestingu varðar. Lagt er til að stuðst verði við byggðakort ESA um ívilnanir sem undanskilur höfuðborgarsvæðið með öllu. Meiri hlutinn bætir um betur og telur vert að kanna fýsileika þess að taka upp annars konar byggðakort hér á landi eða innanlandsstefnu sem byggist til að mynda á því að með aukinni fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu geti stuðningur orðið meiri. Björt framtíð telur nauðsynlegt að stefna um nýfjárfestingar eigi við um landið allt. Slík stefna þarf að styðja við allar byggðir landsins þar með talið höfuðborgarsvæðið. Til þess að ná tilætluðum áhrifum þarf stefnan um nýfjárfestingar að tryggja að aðgerðir séu almennar, ekki sé verið að veita sumum en ekki öðrum, og stuðli að sjálfbærri langtímauppbyggingu.

Þetta síðasta, virðulegi forseti, er ákveðið leiðarstef hjá okkur í Bjartri framtíð. Við vorum ein flokka sem vorum á móti og greiddum atkvæði gegn þeim rammasamningi sem Byggðastofnun vitnar í í umsögn sinni, nr. 41/2015, sem eru lög um ívilnanir til nýfjárfestinga, af því að okkar pólitík er sú að við viljum ekki sérhagsmuni. Við viljum ekki að fyrirtæki geti komið að máli við þingmenn og þeir styðji við ákveðin verkefni í kjördæmi sínu, eins og hefur því miður oft verið raunin. Núna hefur það verið fært svolítið inn í ráðuneytin líka og það er ágætt að það sé einhver umsagnarnefnd þar.

Okkar pólitík er sú að berjast fyrir því að hér séu almenn skilyrði, almenn skattaleg skilyrði til þess að nýfjárfesting og fyrirtæki geti þrifist og að það eigi ekki sumir að fá umfram aðra. Það er þannig, þrátt fyrir að margoft hafi verið sagt í þessum sal að ívilnanir kosti ekki neitt, að með ívilnunum er fyrirtækjum gefinn afsláttur af sköttum og gjöldum hjá ríki og sveitarfélögum og skattar og gjöld eru auðvitað notuð til einhvers. Það eru aðrir sem borga skatta og gjöld og það er notað til þess að byggja upp innviði, byggja upp t.d. raflínur, eins og við höfum rætt hér, byggja vegi. Þetta er það sem við gerum fyrir skattpeningana. Það að sumir þurfi ekki að vera með þýðir auðvitað aukinn kostnað fyrir aðra. Þá er það kostnaður fyrir þann aðila sem hefur borgað skattana sína. Það er því ekki hægt að segja að ívilnanir kosti ekki neitt.

Mér þótti mjög athyglisvert að umsagnaraðilar skilja þessa þingsályktunartillögu á mismunandi hátt. Það kemur mér þó ekki á óvart því að eins og ég sagði í andsvari áðan við hv. þm. Jón Gunnarsson þurfti ég sjálf að lesa tillöguna mjög oft til þess að ná utan um hana. En það teiknast upp fyrir manni hvað verið er að leggja upp með. Það finnst mér vera nýfjárfestingar í ákveðnum stórum iðnaði. Kenningin er sú að ef leyfðar eru ívilnanir í því njóti annað góðs af því í leiðinni. Það getur vel verið en ég er ósammála þeirri stefnumörkun og vil að við leggjum meiri áherslu á smærri fyrirtæki, skapandi greinar, þekkingariðnað. Ég vil ekki að þessi fyrirtæki komi einhvern veginn með í leiðinni, með því að við gefum þessum stærri, ég ætla ekki að segja stóriðju af því að ég veit að meiri hlutinn hefur tekið stóriðju út úr nefndaráliti sínu eða fjallar ekki um hana, en við erum samt að fjalla um orkufrekan iðnað. (Gripið fram í: Tengdan.) Orkutengdan eða orkufrekan iðnað. Ég vil aðrar áherslur.

Ég hef eiginlega farið yfir það sem ég vildi segja í ræðu minni um þessa tillögu til þingsályktunar. Nú erum við í atvinnuveganefnd að fjalla um tvö mál frá hæstv. iðnaðarráðherra, einungis tvö mál og þetta er annað málið. Eins og ég sé þetta hefði hún ekkert þurft að leggja þetta fram af því að þessi þingsályktunartillaga snýst um ívilnanir og hún er búin að koma í gegn rammalöggjöf um ívilnanir. Af hverju er verið að eyða tíma okkar í þetta? Kannski af því að það er ekkert annað sem liggur fyrir frá hæstv. ráðherra.

Það er alla vega ljóst, virðulegi forseti, að þau fyrirtæki sem eru nefnd í þingsályktunartillögunni sem dæmi um alþjóðageirann, sem eru Íslensk erfðagreining, Actavis, Nox Medical, Mentis Cura, Marel, Plain Vanilla, 66°N, eiga að fá að njóta með á einhvern hátt. Það er hugmyndin, að alþjóðageirinn njóti góðs af því að stærri orkutengd fyrirtæki, stærri fyrirtæki sem þurfa mikla orku, fái ívilnanir.

Mér finnst að það þurfi að segja þetta mjög skýrt svo að fólk skilji hvað er um að vera. Svo hefur meiri hlutinn gert það að verkum með áliti sínu, af því að þau hafa sett fókusinn algjörlega á landsbyggðina og lagt lykkju á leið sína til þess að útiloka höfuðborgarsvæðið, Stór-Reykjavíkursvæðið, út úr þessum pakka, þá er það alveg ljóst að með stefnu í nýfjárfestingum erum við ekkert að ræða t.d. fyrirtæki eins og Plain Vanilla sem er staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Við erum ekkert að ræða það. Það er ekki efni þessarar þingsályktunartillögu nema kannski óbeint, ef hagvöxtur bara … Ég vil fókus á þennan þekkingargeira.

Ég er svo oft í þessum þingsal miklu meiri hægri manneskja en nokkur sjálfstæðismaður hér inni, og það þykir mér athyglivert, af því að ég vil ekki sjá ívilnanir til sumra. Ég vil sjá almenn góð skattaleg skilyrði fyrir fyrirtæki svo að þau geti þrifist hérna. Þegar ég kom á þetta þing hélt ég að það væri eitthvað sem sjálfstæðismenn vildu en ég hef aldrei séð þá afgreiða neina tillögu í þá átt, ekki lögin sem við vorum að tala um áðan, um ívilnanir til nýfjárfestinga.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Við í Bjartri framtíð munum greiða atkvæði gegn þessari þingsályktunartillögu á þeim grundvelli sem ég hef farið yfir hér.



[20:14]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er að reyna að ná utan um skoðanir hv. þingmanns sem telur sig vera hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn þegar kemur að því að skapa góð skattaleg skilyrði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þó auðvitað í þessari ríkisstjórn sýnt að hann vinnur mjög í þá átt.

Það hefur til dæmis verið mjög mikilvægt fyrir alla verslun og þjónustu í landinu að fella hér niður öll vörugjöld og flesta tolla, svo dæmi sé tekið. Og að standa fyrir samningum sem landbúnaðarráðherra hefur gert við Evrópusambandið um aukinn aðgang að mörkuðum fyrir matvælaframleiðslu landsins, svo eitthvað sé nefnt.

Ég vil aðeins taka umræðu við hv. þingmann sem féll enn og aftur í þá gryfju sem ég var að reyna að vara við í ræðu minni áðan, að rangtúlka málin þegar kemur að umræðu um orkutengdan iðnað. Hún talaði ítrekað um orkufrekan iðnað.

Í nefndaráliti meiri hlutans er skýrt tekið á þessu. Við gerum einmitt þetta að sérstöku umtalsefni, virðulegur forseti, hversu mikilvægt það er að gera greinarmun á orkufrekum iðnaði og orkutengdum iðnaði. Við drögum mörkin einhvers staðar á 5–50 megavöttum, auðvitað eru þau matskennd. En í hinum tilfellunum erum við að tala um eitthvað sem er þá stærra en það, sem er þá orðinn orkufrekur iðnaður.

Ég vil fá hv. þingmann til að svara mér því hvort hún skilur þetta ekki á sama hátt og meiri hluti nefndarinnar, að við leggjum alls ekki áherslu á orkufrekan iðnað. Við leggjum (Forseti hringir.) áherslu á allt hitt, þekkingariðnaðinn, nýsköpunina, afleiddar greinar út úr grunnatvinnugreinum okkar. En allt þarf þetta orku og verður þar með orkutengdur iðnaður.



[20:16]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Ég get ekki annað en brosað út í annað af því að hv. þingmaður þekkir vel hvernig málið og umræður um það voru í hv. atvinnuveganefnd við vinnslu þessa nefndarálits. Ég ætla ekkert að fara út í það af því að það er eitthvað sem gerðist á fundum og mér finnst ekki mitt að segja frá því.

En ég var ósammála nefndarmönnum þar. Ég var ósammála meiri hluta hlutanum um þær áherslur sem áttu að fara í þetta meirihlutaálit og við vitum hvernig það var rætt. Svo endaði það kannski aðeins mildar, þetta nefndarálit meiri hlutans og það er gott. En ég segi bara að skoðanir mínar samræmast ekki þeim skoðunum sem mest bar á.

Ég ítreka enn og aftur að stefna um nýfjárfestingar er ofboðslega mikilvæg og það er svo mikið tækifæri til að lýsa nákvæmlega hvernig við ætlum að styðja við fjölbreyttan atvinnuveg, fjölbreytta þróun í því hvernig við byggjum upp allar stoðir hérna. Og ég varð fyrir miklum vonbrigðum með það að síðast á blaði voru skapandi greinar og það sem átti að fá að koma með.



[20:19]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Umræðan í nefndinni var mjög málefnaleg og góð. Það komu fram sjónarmið um að auka vægi loftslagsráðstefnunnar. Það náðist algjör samstaða um það, að við værum að fylgja eftir þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa mótað, meðal framsæknustu þjóða heims eins og við orðuðum það í nefndarálitinu. Ég held að umræðan hafi verið mjög málefnaleg og góð.

Það komu auðvitað fram drög að nefndaráliti og svo var skipst á skoðunum og við náðum saman, þ.e. fyrir utan Bjarta framtíð sem ég sakna að skuli ekki vera með okkur í þessari vegferð. Björt framtíð er að skapa sér einhverja sérstöðu í þessu máli sem mér finnst snúa að hluta að því sem hv. þingmaður ræddi áðan og mig langar að spyrja hana aðeins út úr. Það eru þessar ívilnanir.

Ég get að mörgu leyti tekið undir með þeim skoðunum sem hafa komið fram hjá hv. þingmanni um að skattumhverfi okkar eigi bara að vera það aðlaðandi að við þurfum ekki ívilnanir. Ég sakna þess að Björt framtíð skuli þá ekki hafa lagt fram hugmyndir sínar í tillögum í þeim efnum.

Hvernig skattumhverfi hjá fyrirtækjum, rekstrarumhverfi, vill Björt framtíð sjá til þess að skapa þær aðstæður að það þurfi ekki sérstakar ívilnanir? Það er ágætt að nefna Írland í þeim efnum sem hefur lengst þjóða í Evrópusambandinu gengið í því að vera með lágan skatt á atvinnurekstur. Þar er skattur á atvinnurekstur 12%. Það breytir því ekki að Írland er með einhvern stærsta ívilnunarpakka sem boðinn er. Enda laða þeir til sín fjölbreytta erlenda atvinnustarfsemi, hafa náð mestum árangri allra Evrópuþjóða í því. Þrátt fyrir þetta almenna skattumhverfi eru þeir með mjög sterka ívilnunarpakka.

Staðreyndir er sú, virðulegur forseti, að við erum í miklu samkeppnisumhverfi þegar kemur að því að laða (Forseti hringir.) fjölbreyttan iðnað til landsins. Nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar í því kemur frá iðnaðarráðherra, sem hún hefur greint frá, en það stendur til að hækka endurgreiðslur gagnvart kvikmyndagerð á Íslandi í 25%. Það er einmitt til þess að svara þessari samkeppni, að við stöndum framar öðrum þjóðum og verðum valin fyrir þennan mikilvæga vettvang í atvinnulífinu.



[20:21]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit alveg að við hv. þingmaður erum sammála um ýmislegt. Það sem við erum sammála um, ef ég skil hann rétt, er að best væri að ekki þyrfti veita neinar ívilnanir. Ég sakna þess að það komi þá ekki fram hjá þeim flokkum sem stjórna hér. Hv. þingmaður er formaður heillar nefndar á þessu þingi og ætti að geta beitt sér í þeim málum.

Það hefur komið skýrt fram að Björt framtíð vill til dæmis lækka tryggingagjald. Það eru engar nýjar fréttir. (JónG: Það er komin áætlun um það.)Áætlun er ekki það sama og að gera hlutina. Það þýðir ekkert að tala, það verður að gera hlutina. (Gripið fram í.)

Það þarf að einfalda alla umgjörð í kringum það að reka fyrirtæki á Íslandi. Það er til að mynda allt of dýrt að stofna félög. (Gripið fram í: Kennitöluflakk.) Kennitöluflakk, já, það væri þá ágætt að hæstv. iðnaðarráðherra mundi beita sér eitthvað í þessu kennitöluflakki en hún ætlar ekki að gera það. Ég sakna þess að það komi ekki einhverjar aðgerðir fram um það sem hv. þingmaður segist vera sammála mér um.

Ég vildi frekar sjá það en þennan ívilnunarpakka.



[20:23]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við fjöllum um þingsályktunartillögu um stefnu um nýfjárfestingar.

Hér hafa orðið ágætisumræður um þingsályktunartillöguna og sitt sýnist hverjum eins og gengur í þeim málum. Fram hefur komið að ágætissamstaða náðist í nefndinni um nefndarálitið með breytingartillögu, utan fulltrúa Bjartrar framtíðar eins og hv. þm. Björt Ólafsdóttir hefur gert grein fyrir.

Í nefndinni urðu vissulega miklar umræður um þingsályktunartillöguna sem ég held að sé það almennt orðuð að stærstu leyti að flestir geti tekið undir það sem þar kemur fram þó að alltaf megi segja að bæta megi við og ég lagði það til í nefndinni varðandi loftslagsmarkmiðin. Það náðist fram og erum við vinstri græn mjög ánægð með að hafa náð þeim fram. Í nefndarálitinu kemur fram svohljóðandi breytingartillaga:

Við 4. tölulið 1. mgr. tillögugreinarinnar bætist: m.a. með tilliti til skuldbindinga Íslands á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í desember 2015.

Ég tel það vera mjög ánægjulegt að tekið var vel í að bæta þessu við og því gerð ítarleg skil í nefndarálitinu, sem ég tel að geri vægi þingsályktunartillögunnar um nýfjárfestingar miklu meira en annars hefði verið.

Ég skrifa undir nefndarálitið vissulega með fyrirvara og tíunda fyrirvara mína í því eins og kemur fram þar, að ég leggi áherslu á mikilvægi þess að hraða allri uppbyggingu innviða í landinu til að mæta kröfum nútímasamfélags um meiri verðmætasköpun, góð búsetuskilyrði og aukna möguleika til nýfjárfestinga. Enn fremur legg ég ríka áherslu á þingsályktun um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi sem var samþykkt á Alþingi í mars 2012 með öllum greiddum atkvæðum, mikilvægi skapandi greina, nýsköpun, rannsóknir og þróun atvinnugreina, fjölbreytni og hvetjandi rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Ég vildi undirstrika þessi sjónarmið í stórum dráttum og áherslur okkar vinstri grænna varðandi atvinnuuppbyggingu og hvernig við sjáum fyrir okkur atvinnuuppbyggingu, nýfjárfestingar og aðkomu opinberra aðila að þeim, þ.e. hvernig við viljum sjá að sú þróun verði til framtíðar. Það er alveg hárrétt sem kemur fram í álitinu og kom fram í máli hv. þm. Jóns Gunnarssonar, formanns atvinnuveganefndar, að tími stóriðju er í raun og veru liðinn og við þurfum að horfa til annarra atvinnutækifæra, vissulega atvinnutækifæra sem nýta orku, það verður erfitt að komast hjá því, en eru miklu smærri orkunotendur en sá orkufreki iðnaður sem hefur vissulega verið sá iðnaður sem nýfjárfestingar umliðinna ára hafa snúist um og er tímabært að snúa af þeirri braut og horfa til umhverfisvænna minni orkunotenda og skapandi greina.

Skapandi greinar hafa verið drifkraftur í íslensku atvinnulífi í þó nokkuð langan tíma og þær greinar eru alltaf að eflast. Ég tel að við þurfum að horfa virkilega til þeirra í nýfjárfestingum í framtíðinni, að allt umhverfið, öll grunngerð samfélagsins sé þannig að möguleikar skapandi greina séu góðir, að möguleikar til uppbyggingar séu sem bestir.

Ég tel að allt sem kemur fram í þingsályktunartillögunni styðji við slíkt, en auðvitað er þetta allt undir því komið að fjármagn fylgi og aðgerðaáætlun stjórnvalda og fjárfestingaráætlun fylgi til framtíðar til stuðnings slíkri þingsályktunartillögu, því að hversu góð sem svona þingsályktunartillaga er þá hefur hún auðvitað ekki það vægi nema stjórnvöld fylgi henni virkilega eftir í verki með aðgerðaáætlun og fjármagni. Í því sambandi vil ég vekja athygli á þeirri fjárfestingaráætlun sem var samþykkt á síðasta kjörtímabili og var fjármögnuð. Þar var horft til öflugrar uppbyggingar í þjóðfélaginu, bæði hjá opinberum aðilum og einkaaðilum varðandi uppbyggingu í skapandi greinum og stuðning við nýsköpun og þekkingariðnað og í innviðauppbyggingu eins og samgöngum og öðru því um líku.

Ég vil líka vísa til græna hagkerfisins eins og ég nefndi í fyrirvara mínum. Þar lögðum við mikla áherslu á að efling græna hagkerfisins væri forgangsverkefni í atvinnustefnu íslenskra stjórnvalda. Ég tel það vera eitt sem núverandi stjórnvöld hafi ekki gert nein skil og þurfi virkilega að horfa til þess. Ég sé í sjálfu sér ekkert í þessari þingsályktunartillögu eins og hún liggur fyrir að verið sé að vinna gegn eflingu græna hagkerfisins en það hefði verið gott að sjá að menn hefðu sett það sérstaklega í forgang miðað við loftslagsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og þá skyldu sem hvílir á okkur sem byggjum þennan heim í dag að vinna að eflingu græns hagkerfis og sjálfbærni til að auka hagsæld í heiminum sem er auðvitað mjög brýnt.

Ég ætla að nefna nokkra punkta varðandi tillögurnar sem lágu undir í eflingu græna hagkerfisins í því sambandi og kem hér að tillögu um að vistvæn orkunýting verði skilgreind sem sérstakt áherslusvið í eigendastefnu opinberra orkufyrirtækja og verði þannig grundvallaratriði við val á orkukaupendum að uppfylltum kröfum um arðsemi.

Ég held áfram. Settur verði á fót grænn samkeppnissjóður sem deild í Tækniþróunarsjóði sem styrki verkefni á sviði umhverfisvænnar nýsköpunar með sérstöku tilliti til skilgreininga Sameinuðu þjóðanna.

Og áfram: Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins verði falið að vinna að stofnun og rekstri græns fjárfestingarsjóðs í samstarfi við innlenda og erlenda fjárfesta. Hlutverk sjóðsins verði að fjárfesta í umhverfistækni og umhverfisvænni starfsemi. Sem á nú vel við það mál sem við erum að fjalla um núna.

Efnt verði til fimm ára átaksverkefnis til að auka erlendar fjárfestingar í grænni atvinnustarfsemi, m.a. með því að nýta heimild í 15. gr. laga nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Við val á verkefnum verði skilgreiningar á grænum störfum lagðar til grundvallar. Átakið feli m.a. í sér hagræna greiningu á græna hagkerfinu á Íslandi, val áherslusviða, kortlagningu vænlegra fjárfesta, kynningu og markaðssetningu.

Undir þessu máli, um eflingu græna hagkerfisins, voru 48 tillögur, allt mjög góðar tillögur, sem eiga vel við og ég vænti þess að stjórnvöld horfi til þeirra tillagna við framkvæmd þessarar þingsályktunartillögu um nýfjárfestingar. Það er gífurlega mikilvægt að nýta sér þá vinnu sem innt var af hendi við gerð þeirrar þingsályktunartillögu, þar sem almenningur og sérfræðingar úr öllum áttum komu að þeirri vinnu sem var mjög góð, og samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum eins og ég nefndi.

Í fyrirvara mínum kem ég inn á kröfur um grunngerðina og innviðauppbyggingu í nútímasamfélagi. Rætt var svolítið um það í máli hv. þm. Bjartar Ólafsdóttur að of mikil áhersla væri lögð á atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, og eins og ég skildi hv. þingmann, kannski á kostnað höfuðborgarsvæðisins. En þannig er það nú bara í dag að stórhöfuðborgarsvæðið hefur gífurlegt forskot á landsbyggðina. Landsbyggðin er auðvitað margar byggðir. Þær eru náttúrlega ekki allar eins. Sumar þeirra, kannski á Eyjafjarðarsvæðinu, eru betur settar og í kringum það svæði sem nú er að byggjast upp í kringum Húsavík. En landsbyggðina vítt og breitt vantar þessa grunngerð og þá innviði til að eftirsóknarvert sé að koma inn á svæðin með nýfjárfestingar. Þess vegna þykir mér gott að sá vilji sé vel undirstrikaður sem kemur fram í þingsályktunartillögunni og er undirstrikaður mjög vel í nefndarálitinu að líta verði til innviðauppbyggingar og grunngerðar á landsbyggðinni svo að hægt sé að vera samkeppnisfær um tækifæri til að koma inn á svæðið með nýfjárfestingar.

Þá er að mínu mati og ég misskil ekki nefndarálitið þannig, eins og mér fannst hv. þm. Björt Ólafsdóttir gera, að við værum enn og aftur að tala um stóriðju í því sambandi þegar við tölum um iðnað eða atvinnustarfsemi sem nýtir minni orku. Þegar við tölum um orkufrekan iðnað erum við auðvitað að tala um stóriðju en þegar við tölum um minni orkunotendur erum við að horfa til, eins og nefnt hefur verið, 10 megavatta og kannski allt upp í 50 megavött. En það verður síðan allt að ráðast í framhaldinu hvernig þeir hlutir þróast. Við höfum verkfæri, rammaáætlun, sem flokkar í vernd, nýtingu og biðflokk. Við förum auðvitað aldrei nokkurn tíma að mínu mati út fyrir þann ramma sem við setjum okkur í þeim efnum.

Svo horft sé bara á innviðauppbygginguna — mér finnst í raun og veru vanta inn í þingsályktunartillöguna hvað við erum stödd aftarlega á merinni varðandi innviðauppbyggingu. Þá er ég að tala um t.d. flutningskerfi raforku í landinu sem er komið til ára sinna. Þó að endurnýjun sé í gangi þá gengur það bara allt of hægt. Þar þurfum við virkilega að hraða uppbyggingu. Og líka hvað varðar háhraðatengingar til að mæta fyrirtækjum sem vilja koma og setja á stofn fyrirtæki sem snúa að upplýsingaiðnaði og skapandi greinum. Allt þetta krefst góðra háhraðatenginga í landinu og öflugs flutningskerfis sem hefur líka öfluga flutningsgetu. Ekki má gleyma því.

Nýbúið er að halda fund á Ísafirði um stöðu og framtíðarhorfur raforkumála í þeim fjórðungi. Þar eru þau mál ekki í góðu lagi. Afhendingaröryggi rafmagns er slæmt, mikið af ótryggu rafmagni fer inn á svæðið til fyrirtækja og þarf að skerða það og keyra varaaflsstöðvar til að mæta því þegar ótryggt rafmagn, skerðanlegt rafmagn, er tekið af. Þess vegna er mjög mikilvægt að efla afhendingaröryggið þar, tryggja gott flutningskerfi og koma á hringtengingu. Þar hefur verið horft í virkjunarkost eins og Hvalá sem nota bene er í nýtingarflokki. Þar hafa menn verið að horfa til umhverfisvænnar uppbyggingar í afleiddum greinum, í auðlindum sem fyrirfinnast á svæðinu hvort sem það eru kalkþörungar sem hafa verið til umræðu í þeim efnum eða uppbyggingu í kringum laxeldi og afleiddar greinar bæði í sjávarútvegi og landbúnaði. En til að efla slíkar afleiddar greinar og uppbyggingu sem byggist á auðlindum þess svæðis þurfa innviðirnir að vera í lagi. Þess vegna ítreka ég enn og aftur að það er mjög slæmt hve stjórnvöld hafa dregið lappirnar varðandi innviðauppbyggingu, eins og samgöngur, og að enn skuli ekki liggja fyrir samgönguáætlun.

Við höfum fjölda greina sem krefjast ekki mikillar orku. Ég legg mikla áherslu á að horft sé líka til þeirra greina, skapandi greina, hvort sem við horfum til kvikmyndaframleiðslu, sem hefur nú aldeilis verið að auka við sig og fjölga störfum og skapa mikinn gjaldeyri, eða til fyrirtækja eins og CCP í þekkingariðnaði og önnur hliðstæð. Eða til tónlistarinnar. Á Íslandi hefur tónlistargeirinn verið að skapa mjög miklar gjaldeyristekjur. Hægt er að minnast á tónlistarhátíðina Iceland Airwaves sem hefur velt gífurlega háum fjárhæðum undanfarin ár og er gjaldeyrissköpun varðandi þá hátíð alltaf að aukast. Við eigum fullt af flottu tónlistarfólki sem hefur verið að gera góða hluti og hefur skilað miklum og bættum hag til þjóðarinnar og gjaldeyrissköpun. Til slíkra greina þurfum við að horfa þegar við horfum til nýfjárfestingarstefnu til framtíðar á Íslandi og allra þeirra greina sem ég nefndi og aðrar umhverfisvænar greinar sem eru með bestu fáanlegu tækni til að menga sem minnst.

Ég tel að þetta mál sé þannig vaxið að við, sem betur fer, höfum getað náð saman úr ólíkum áttum en gerum kannski grein fyrir ólíkum áherslum í máli okkar í umræðunni.

En að meginmarkmiði erum við samt að nálgast sama stað, sem ég held að sé mjög gott — kannski hvor sinn endinn á umhverfissinnum og stóriðjusinnum — að við teljum að tími stóriðjunnar sé liðinn og við verðum að horfa til annars konar atvinnustarfsemi og uppbyggingar á Íslandi til framtíðar.