145. löggjafarþing — 89. fundur
 16. mars 2016.
siðareglur fyrir alþingismenn, frh. síðari umræðu.
þáltill. EKG o.fl., 115. mál. — Þskj. 115, nál. 872, brtt. 873.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[16:11]

[16:05]
Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum atkvæði um þingsályktunartillögu sem breið samstaða er um í þinginu. Flutningsmenn hennar eru forsætisnefnd og formenn allra þingflokka. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd stendur öll að baki þessu þingmáli en nokkrar breytingar voru gerðar á því í meðförum nefndarinnar.

Þær reglur sem þingmenn setja sjálfum sér skerða ekki á nokkurn hátt frelsi þingmanna til að „fylgja samvizku sinnar sannfæringu“ en setja þingmönnum hins vegar ákveðin siðferðileg viðmið og auðvelda að kalla eftir upplýsingum um meint fjármála- og hagsmunatengsl án þess að vera sakaðir um að stunda aurkast þar með. Er til nokkurs unnið að komast upp úr slíku hjólfari eins og nýleg dæmi sanna.



[16:07]
Óttarr Proppé (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál sé komið til atkvæðagreiðslu. Það er löngu kominn tími til þess að Alþingi setji sér siðareglur. Ég vildi bara árétta að þetta eru ekki endalokin á þessu ferðalagi heldur einmitt upphafið. Siðareglur eru ekki lagabókstafur eins og við þekkjum venjulega, koma ekki í staðinn fyrir lagabókstafinn heldur er þetta ekki síst mikilvægt sem grundvöllur umræðu í framhaldinu.

Ég fagna því að Alþingi sé að gera þetta en mér finnst sorglegt að það skuli hafa tekið okkur svo mörg ár að ná saman um jafn sjálfsagðan hlut og að setja okkur siðareglur.



[16:07]
Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég þakka meðflutningsmönnum málflutninginn og meðnefndarmönnum mínum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir umræður um frumvarpið. Ég held að þetta sé sannarlega mikilvægt skref sem full ástæða er til að fagna og auðvitað hluti af stærri mynd í úrbótum á stjórnkerfi okkar og lýðræðiskerfi sem ráðist hefur verið í eftir efnahagshrunið 2008 þar sem settar hafa verið reglur um fjármál stjórnmálaflokka, fjármál stjórnmálamanna, siðareglur í stjórnsýslunni og nú siðareglur fyrir alþingismenn.

Ég vona að þær breytingar sem urðu á málinu í meðförum nefndarinnar séu til góðs og fagna því að þau deilumál sem kunna að rísa um þetta efni hafi loksins fundið farveg sem sé annar en hinar pólitísku þrætur í ræðustól.



[16:09]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég tek undir orð annarra og fagna því að til séu komnar siðareglur sem taka á æðimörgu, m.a. hátternisskyldum okkar þingmanna, um það hvernig við komum fram í þingsölum, hvernig við tölum hvert um annað og hvernig við tökum á málum í þessum sal, og ekki bara það heldur líka með hvaða hætti við sem þingmenn íhugum hvert og eitt með okkur hvernig við ætlum að fara eftir þeim reglum sem hér eru.

Siðareglur breyta engu um siðferði fólks en það er okkar, hvers og eins, að velta fyrir okkur með hvaða hætti við getum fylgt þeim reglum sem hér eru og eigum það við siðferði okkar, hvert og eitt. Ég fagna framkomu þessa frumvarps, virðulegur forseti, og held að það sé ástæða til að óska forseta til hamingju sem hefur leitt þessa vinnu.



[16:10]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég óska einnig virðulegum forseta til hamingju með að þetta mál sé komið til atkvæða. Þá vil ég einnig endurspegla þau ummæli sem komu frá hv. þm. Óttari Proppé um að þetta sé byrjunarstaður, ekki lokastaður. Það er mikilvægt að við höldum áfram að velta fyrir okkur málum eins og hagsmunum ráðherra og lögum sem kveða á um ráðherraábyrgð og því um líkt. Ég býst fastlega við að sú umræða haldi áfram en þetta er mjög góður grundvöllur til að eiga slík samtöl á einhverjum sameiginlegum skilningi sem við höfum öll. Það er mjög til bóta og mjög mikið gleðiefni að mínu mati.

Aftur þakka ég virðulegum forseta og óska honum til hamingju sem og þinginu öllu.



[16:11]
Þórunn Egilsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég óska okkur til hamingju með að hafa náð þessum áfanga en lýsi því jafnframt yfir að ég vona að guð og góðar vættir ásamt þessum reglum hjálpi okkur til að viðhafa góða mannasiði og sýna almenna kurteisi hér í þessum sal. (Gripið fram í: Hallelúja.)



Brtt. 873 samþ. með 47 shlj. atkv.

Tillgr., svo breytt, samþ. með 47 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Till., svo breytt, samþ. með 47 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁsF,  ÁstaH,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BVG,  BjÓ,  BP,  EKG,  ElH,  ELA,  FSigurj,  GÞÞ,  GStein,  GBS,  HBK,  HarB,  HE,  HHG,  HHj,  JMS,  KG,  KJak,  LRM,  LínS,  OH,  ÓÞ,  ÓP,  PVB,  PJP,  RR,  RM,  SÁA,  SII,  SigrM,  SIJ,  SJS,  SSv,  UBK,  VBj,  ValG,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞórE,  ÖJ.
16 þm. (ÁsmD,  BirgJ,  BN,  EyH,  HöskÞ,  IllG,  JónG,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  REÁ,  SDG,  SilG,  VigH,  ÞorS,  ÖS) fjarstaddir.