145. löggjafarþing — 93. fundur
 7. apríl 2016.
endurheimt trausts.

[11:51]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Hér erum við á algjörlega makalausum tímum þar sem við erum orðin að algjöru athlægi í alþjóðasamfélaginu, allt í boði núverandi valdhafa. 70% aðspurðra vildu að hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson segði af sér. 3% treysta næstkomandi hæstv. forsætisráðherra sem ráðherra í því ráðuneyti sem hann situr nú í.

Mig langar að spyrja í ljósi allra atburðanna og í ljósi þess að það er ekki snefill af auðmýkt — það hefur enginn beðist afsökunar, það hefur enginn komið fram fyrir þjóðina á þann veg að við getum hætt að upplifa okkur eins og við séum í einhverju fáránlegu Dario Fo leikriti. Nei, áfram skal halda og benda á einhvern annan en sjálfan sig. Ég skynja að það er nákvæmlega sama hugarfar og var þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var birt og sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins tjáðu sig á þann veg að þeir gætu ekki beðið eftir að þessi skýrsla hætti að þvælast fyrir.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra atvinnu- og sjávarútvegsmála hvort honum finnist nóg hafa verið gert til að endurheimta traust og trúnað gagnvart þjóðinni og alþjóðasamfélaginu. Mig langar til að spyrja hvort hæstv. ráðherra taki undir þær hótanir sem hæstv. fjármálaráðherra var með hér í gær gagnvart minni hlutanum um að ef við hleypum ekki í gegn öllum þingmálalista ríkisstjórnarinnar ætlið þið bara að hætta við að hætta við. (Gripið fram í: Það var aldrei sagt.)



[11:53]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er ekki siður minn að vitna til funda sem menn eiga með forsvarsmönnum flokka (Gripið fram í.) en ég get hins vegar sagt að á þeim fundi komu ekki fram neinar hótanir. Þetta var samtal um þá fordæmalausu stöðu sem við erum í. Það var mjög mikilvægt að eiga þann fund og ég þakka fyrir hann. Eins og við höfum lýst bíða mjög mörg stór mál (BirgJ: Hvaða mál?) sem við þurfum að leysa, mál sem við teljum að séu mun stærri þjóðarhagsmunir fyrir en að ganga nú til kosninga. Ég býst við að margir geti verið sammála okkur um það.

Er nóg að gert? Það eru auðvitað fordæmalausar aðstæður og hlutir sem hafa gerst í þessari viku. Forsætisráðherra hefur stigið til hliðar, við höfum ákveðið að ljúka þeim mikilvægu verkefnum sem þarf að ljúka og ganga síðan til kosninga. Er það nóg? Auðvitað þurfum við að gera meira. Það er löng hefð fyrir því, við getum í það minnsta sagt að það sé í það minnsta síðan árið 2008 að hér brast traust til stjórnmála, stjórnmálamanna, stjórnvalda, fjármálakerfisins. Mikið verk er enn óunnið. Það sem nú blasir við er að við þurfum að taka á því með hvaða hætti það gerist.

Við höfum meðal annars fengið mikla athygli á liðnum árum fyrir frábæra vinnu sem við höfum unnið. Við erum með mikla athygli fjölmiðla heimsins á okkur í dag. Við eigum auðvitað að nýta það tækifæri til að sýna fram á hvernig við höfum annars vegar komist í þá stöðu að vera langt komin með endurreisn þjóðfélagsins eftir að það hafði hrunið til grunna og hins vegar hvernig við ætlum að taka á þessum málum af mikilli skilvirkni og festu.



[11:55]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mér finnst ég ekki hafa fengið almennileg svör hér. Ég var ekki að vísa í samtal á milli flokkanna heldur það sem kom fram á blaðamannafundi ykkar í stiganum. Ég óska ykkur til hamingju með stigamannastjórnina.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra af hverju í ósköpunum hann telji að þessir flokkar séu hinir einu sem geti klárað afnám hafta. Telur hæstv. ráðherra virkilega að þið njótið trausts og trúnaðar til að klára þá vinnu? Af hverju geta ekki einhverjir aðrir flokkar gert það? Þetta hefur verið unnið í þverpólitískri samvinnu á þinginu, af hverju getur það þá ekki haldið áfram þó að þið séuð ekki með ykkar nöfn tengd við það?

Það er ekkert endilega í þágu þjóðarhagsmuna að nafn núverandi fjármálaráðherra sé tengt við þetta afnám, hvað þá þess forsætisráðherra sem nú hefur aðeins stigið til hliðar en ekki sagt af sér.



[11:56]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það eru fjölmörg mál sem við höfum verið að vinna að og eru langt komin sem er eðlilegt að við ljúkum. Það skiptir miklu máli fyrir samfélagið. Langstærsta málið er afnám hafta og mál sem tengjast þeim. Þar hefur verið unnin frábær vinna, bæði á grunni þess sem áður hefur verið unnið en ekki síst eftir að við settum mjög öflugt fólk til verka í þeim geira. Við komum inn með löggjöf sem samþykkt var á þinginu og höfum síðan unnið eftir því með skýrum hætti. (Gripið fram í.)Við fengum meðal annars erlenda sérfræðinga til að taka þátt í því. Hver er dómur þeirra? Þeir segja að þetta sé einstæður árangur, þetta sé árangur sem verði án efa skólabókardæmi um það hvernig eigi að fara út úr slíkum aðstæðum. Hér er ég að vitna í Lee Buchheit. (Gripið fram í.) Það er eðlilegt að við klárum þessi verkefni, þau eru langt komin, og setjum ekki þá óvissu upp í íslenskum stjórnmálum að ekki takist að ljúka þeim á tilskildum (BirgJ: Þið eruð óvissan.) tíma. (BirgJ: Þið eruð óvissan.)