145. löggjafarþing — 101. fundur
 19. apríl 2016.
sérstök umræða.

viðbrögð stjórnvalda við skattaskjólum.

[14:07]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að eiga þessa sérstöku umræðu um aðgerðir gegn skattaskjólum og viðbrögð stjórnvalda við þeim. Eins og við vitum sem höfum tekið þátt í umræðunni á Alþingi undanfarna daga og umræðunni í samfélaginu virðist hafa komið mörgum Íslendingum á óvart hversu mörg aflandsfélög í skattaskjólum eru tengd Íslendingum, ef marka má þær fréttir sem hafa borist okkur í gegnum Panama-skjölin. Mikið hefur verið rætt um eðli þessara félaga að undanförnu. Eins og kunnugt er snúast þau ekki eingöngu um að komast hjá skattgreiðslum heldur geta verið ýmsir aðrir kostir í því fyrir þá sem eiga eignir í slíkum aflandsfélögum og kannski fyrst og fremst þeir að það hvílir leynd yfir eignarhaldi og félögin eru staðsett í allt öðru regluverki en á við til dæmis á Íslandi. Þeir sem tala fyrir skattaskjólum úti í heimi, ef maður kynnir sér hina alþjóðlegu umræðu, benda sumir hverjir á, fylgjendur skattaskjóla, að þau geti verið liður í því að auka samkeppnishæfni vestrænna fyrirtækja, en þeir sem berjast gegn þessu, og það eru æ fleiri, segja að þetta grafi undan velferðarsamfélögunum, þetta grafi undan heilbrigðu atvinnulífi í heimalandinu.

Það eru æ fleiri á alþjóðlegum vettvangi sem hafa skorið upp herör gegn skattaskjólum. Barack Obama hefur gert það, OECD hefur gert það, Ísland hefur þar skrifað undir skuldbindingar um að berjast gegn skattaskjólum. Norræna ráðherranefndin hefur lýst þessu yfir. Og af hverju? Jú, af því að skattaskjólin snúast ekki aðeins um að koma sér hjá skattgreiðslum, þau snúast líka um að ekki allt atvinnulíf er látið lúta sömu reglum, sömu kröfum og það skekkir auðvitað líka samkeppnisstöðuna í heimalandinu.

Ég held að mjög mikilvægt sé að við reynum að ræða þessi mál á Alþingi, hvað við erum reiðubúin að gera og hvað við getum gert til að taka virkan þátt í þessari baráttu. OECD hefur sett fram áætlun sem er kölluð BEPS-aðgerðaáætlun og stendur það fyrir Base Erosion and Profit Shifting og snýr að aðgerðum gegn rýrnun skattstofns og tilfærslu hagnaðar. Þetta er mjög aðgerðamiðuð áætlun í mörgum aðgerðum. Ísland hefur skrifað undir að það vilji taka þátt í þessu. Hér hafa verið innleiddar CFC-reglur, hér hafa verið gerðir 44 upplýsingaskiptasamningar sem snúast um að flæði upplýsinga sé eðlilegra um fjármagnið.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í er hvort hann telur að þetta mál eigi að hljóta meiri forgang í stefnumótun stjórnvalda, aukinn forgang í ljósi mikillar umræðu á alþjóðavettvangi, hvort hann hyggst standa fyrir aðgerðum af hálfu stjórnvalda á innlendum vettvangi og hvaða aðgerðum stjórnvöld hafa tekið þátt í á alþjóðlegum vettvangi, hvað hæstv. ráðherra finnst um þá tillögu sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram um að við á Alþingi stöndum fyrir rannsókn á aflandsfélögum í eigu Íslendinga og skattaskjólum og tökum málið þannig upp á það plan sem til dæmis hefur verið boðað í Frakklandi af hálfu forseta Frakklands, François Hollandes, sem hefur sagt: Þetta mál er svo umfangsmikið að það er mikilvægt að við tökum á því, ekki einungis innan stofnanakerfisins heldur líka á hinum pólitíska vettvangi, því að almenningur þarf að geta treyst því að stjórnmálin ætli að takast á við þennan vanda.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvað hann telur að þurfi að gera, hvað sé hægt að gera til að breyta löggjöfinni. Nú hefur skattrannsóknarstjóri bent á að ýmislegt sé hægt að gera, t.d. gefa rýmri heimild til að áætla tekjur ef fullnægjandi gögn eru ekki lögð fram, þannig að embætti hafi í raun rýmri heimildir til að bregðast við því ef fullnægjandi gögnum er ekki skilað, að það séu jafnvel sett inn refsiákvæði ef fullnægjandi gögn eru ekki lögð fram, að fyrningartími endurákvörðunar sé lengdur og það sé líka sett refsiákvæði vegna ráðgjafarþjónustu í ljósi þess að aðilar sem nú veita ráðgjöf eða hafa milligöngu um stofnun aflandsfélaga kunni að gildandi lögum að bera refsiábyrgð. Hugsa má sér að það mætti skerpa á því ákvæði þannig að þessum ráðgjöfum verði gert skylt að skila skattrannsóknarstjóra upplýsingum um þá ráðgjöf sem þeir veita, en ekki bara að skattrannsóknarstjóri hafi núna heimild til að krefjast upplýsinga frá þeim.

Það liggur nefnilega fyrir að þó að margt hafi verið gert, bæði á alþjóðavettvangi og hér innan lands, er hægt að gera mun betur í því að berjast gegn þessu. Þar skiptir máli hvað við gerum heima og líka í alþjóðlegu samhengi. Ég held hins vegar að það sem mestu skipti í þessu sé að við fáum um það skýr, pólitísk skilaboð að Alþingi Íslendinga sé alvara í því að berjast gegn skattaskjólum, að Alþingi Íslendinga taki afstöðu, taki þessi mál til raunverulegrar (Forseti hringir.) umræðu og taki þannig raunverulegan þátt í þeirri umræðu sem á sér staða annars staðar á Vesturlöndum. Þetta snýst um það hvernig við rekum okkar vestrænu lýðræðis- og velferðarsamfélög.



[14:13]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að ræða þessi mál í þinginu og tek undir með hv. þingmanni um að þingið verður að sjálfsögðu að bregðast við því ákalli sem er skýrt um að stjórnvöld taki alvarlega þeim vanda sem um er að ræða, skattsvikunum, og hyggist bregðast við. Hér er lagt upp með þá spurningu hvað íslensk stjórnvöld hafi gert eða hyggist gera.

Það er mikilvægt að halda því til haga sem gert hefur verið nú þegar. Minnst var á OECD-staðalinn. Við erum meðal þeirra þjóða sem undirrituðu hann fyrst allra og verðum í hópi þeirra þjóða sem innleiðum hann fyrst allra í svokallaðri, á enskunni, Early Adopters Group.

Við höfum gert upplýsingaskiptasamninga, síðast í London 12. þessa mánaðar sem byggir á samstarfi Norðurlandanna um gerð slíkra samninga. Við höfum einnig tekið þátt í BEPS-áætluninni sem vísað var til þar sem áherslan er á að breyta reglum um milliverðlagningu og herða þær, lögfesta reglur um þunna eiginfjármögnun og uppfæra CFC-reglurnar sem jafnframt var vísað til.

Fyrr í þessum mánuði, 13. apríl, tóku fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins þátt í fundi í París á vegum vinnuhóps OECD, svokallaðs JITSIC-hóps, og þar voru teknar ákvarðanir um framhald þess samstarfs. Í fyrsta lagi verður útfærð sameiginleg aðgerðaáætlun þar sem verkefnið er að samstilla aðgerðir ríkjanna varðandi enn frekari upplýsingaöflun og í öðru lagi að vinna þétt saman með það að markmiði að hámarka þann ávinning sem fæst af samstarfinu og breyta eða beita gildandi löggjöf einstakra aðildarríkja til hins ýtrasta til að vinna að því markmiði. Það verður einnig skoðað að fara nýjar leiðir og brjóta upp vinnuhópana í smærri einingar til að vinnan geti gengið hraðar fyrir sig.

Loks var það áberandi á fundinum fyrr í þessum mánuði á vettvangi OECD að margir fundarmanna töldu vera ávinning í því að fara þá leið sem starfshópur lagði til á sínum tíma á Íslandi, starfshópur sem ég kom á laggirnar, þar sem ríkisskattstjóri, skattrannsóknarstjóri og fleiri aðilar úr stjórnkerfinu lögðu til frumvarp sem ég lagði á endanum inn til efnahags- og viðskiptanefndar.

Á þessu kjörtímabili höfum við verið mjög virk. Við höfum gengið frá aðild okkar að OECD-staðlinum. Við kláruðum nýverið fleiri upplýsingaskiptasamninga. Við höfum keypt gögnin sem skattrannsóknarstjóri hefur haft til meðferðar sem var einstök aðgerð. Það hefur vakið mikla athygli á alþjóðlegum vettvangi að Íslendingar skyldu hafa stigið það skref langt á undan mörgum öðrum. Þessi gögn eru til staðar og munu gagnast í vinnunni fram undan.

Frá því að þessi gögn komu úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu höfum við haft samband við helstu stofnanir á þessu sviði, boðið fram frekari stuðning og kallað eftir ábendingum um hvaðeina sem við getum gert á sviði löggjafar eða stjórnsýslu til að styðja frekar við rannsókn þessara mála og til að ná betur í höfn þeim markmiðum sem við höfum sameiginlega sett okkur, að uppræta skattsvik og þola þau ekki í íslensku samfélagi.

Þessi umræða er víðfeðm. Það hefur ekki farið mikið fyrir umræðunni um það á Íslandi að aflandsfélögin koma mjög víða við sögu. Það er til dæmis alveg öruggt að lífeyrissjóðum landsmanna er að einhverju marki varið í fjárfestingar sjóða sem eru skrásettir á lágskattasvæðum, svokölluðum aflandssvæðum. Það er nokkuð víst. Alþjóðlegir bankar eru vanir að setja upp sjóði sem eru markaðssettir fyrir lífeyriskerfin í hinum ýmsu löndum og eru á endanum skrásettir á svona svæðum.

Þannig eru margir lífeyrisþegar á Íslandi óbeinir eigendur að sparnaði sem er vistaður í þessu umhverfi. Hér er vakin athygli á því að það gæti verið sjálfstæður skaði af samkeppninni sem þessi svæði veita öðrum löndum, eins og Evrópusambandslöndunum. Það er alveg rétt en ég held að við ættum fyrst og fremst að beina sjónum að svikahröppunum, að því að ná í upplýsingarnar, uppræta leyndina og koma í veg fyrir skattsvikin. Síðan getum við dýpkað umræðuna og velt fyrir okkur hvernig Ísland getur staðsett sig í samfélagi þjóða þannig að við getum stundað heilbrigða samkeppni á heilbrigðum forsendum vegna þess að það er (Forseti hringir.) enginn að tala fyrir því í raun og veru að útiloka samkeppni ríkja í milli í tilefni af þeim upplýsingum sem hafa komið fram á aflandssvæðum þó að þau geti í vissum tilvikum verið skaðleg í sjálfu sér. Við höfum tekið til baka verulegan hluta ávinningsins af því að koma þessu þar fyrir með CFC-löggjöfinni.



[14:18]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er ekki mjög flókið. Við eigum einfaldlega að banna það að menn geymi fjármuni sína á þessum stöðum. Stjórnarráðið hefur fram að þessu haft efasemdir um að við gætum það vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, en nú er það yfirlýst af ESA að ekkert komi í veg fyrir að við bönnum þetta einfaldlega í okkar lögum. Það eigum við að gera. En við eigum líka að kosta kapps að ná öllum þeim upplýsingum sem við getum um þá sem hafa skotið sér undan sköttum og skyldum. Meðal annars eigum við náttúrlega að ná í þær upplýsingar inn í bankana okkar af því að það er bara þannig að upplýsingar um það hverjir sendu peninga út á þessar eyjar er að finna í bönkum okkar hér heima. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hann ætli ekki að beita sér fyrir því að menn sæki þær upplýsingar inn í bankakerfið.

Ég hlýt líka að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort honum finnist eðlilegt að hann sé í fyrirsvari fyrir þetta mál eftir það sem á undan er gengið. Hvort hann telji að það sé trúverðugt að hann standi í ræðustól Alþingis Íslendinga sem fjármála- og efnahagsráðherra og yfirmaður skatteftirlits í þessum málefnum eftir að upplýsingar sem hann sjálfan vörðuðu lágu ekki fyrir við síðustu alþingiskosningar og hvort hann sjái það ekki, sem augljóst má vera hverjum manni eftir það sem upp hefur komið í þessum málum, að óhjákvæmilegt er að rjúfa þing og ganga til kosninga þegar í stað þannig að þeir sem hér starfa geti sótt sér umboð og þann trúnað sem fyrirsvarsmenn í þessum málefnum þurfa að hafa beint frá kjósendum.



[14:20]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Skattalöggjöfin á að vera réttlát og ekki of íþyngjandi og síðan á fólk að greiða skatta á Íslandi ef það býr hér. Þetta á ekki að vera flókið. Þetta blasir við. Ég ætla ekki að gera neinum upp aðrar skoðanir í þessum efnum, en hins vegar verður ekki fram hjá því litið að maður hefur ríka ástæðu til að tortryggja stjórnarflokkana þegar kemur að þessum einföldu málum.

Í aðdraganda hrunsins var talað þannig, af hálfu stjórnarflokkanna, sem þá fóru með völdin á Íslandi, að hér væri bara einhvers konar partí. Svona hátterni var talað upp, að fara með auðinn til útlanda í aflandsfélög. Menn drógu lappirnar í því að setja nauðsynlega regluumgjörð og lagaumgjörð um þessa starfsemi alla til þess að reyna að tryggja að sköttum væri skilað. Það er ein ástæða tortryggninnar. Ég held að það sé hollt fyrir stjórnarflokkana að horfast í augu við þetta.

Svo er það sem hefur gerst á undanförnum vikum. Hvað gerðist hérna? Í fyrsta lagi þarf hæstv. fjármálaráðherra að útskýra kirfilega að allt sé á hreinu í hans málum áður en hann nýtur fulls trausts til þess að fara með þessi mál fyrir hönd þjóðarinnar. Svo er það hitt að þáverandi forsætisráðherra varð uppvís að því að geyma fjölskylduauð sinn í aflandsfélagi, í skattaskjóli. Af því tilefni voru aðrir þingmenn kallaðir þingmenn lágkúrunnar vegna þess að þeir vildu vekja máls á þessu, hvort þetta væri virkilega í lagi.

Hæstv. forseti leit svo á að það þyrfti ekki að ræða þetta hér í þingsal. Núverandi forsætisráðherra sagði þóttafullur að einhvers staðar þyrftu peningarnir að vera og að það væri flókið að eiga peninga á Íslandi. Öll þessi ummæli, sem voru þýdd á heimsins tungumál, eru auðvitað þannig að það er mjög eðlilegt (Forseti hringir.) að maður standi hérna og tortryggi það alveg frá dýpstu sálarrótum og spyrji hvort núverandi stjórnarflokkar telji þetta aðkallandi verkefni og á einhvern hátt alvarlegt (Forseti hringir.) að takast á við það að sumir vilja geyma peninginn sinn í skattaskjólum þar sem mjög auðvelt er að komast undan því að borga skatta.



[14:23]
Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um viðbrögð stjórnvalda við skattaskjólum og þær upplýsingar sem hér hafa þegar komið fram. Að mínu mati á Ísland að vera í fremstu röð ríkja í baráttunni gegn starfsemi skattaskjóla. Ekki síst í ljósi þess hve Ísland kemur víða við sögu í gögnum Mossack Fonseca. Leyndin sem skattaskjól bjóða fyrirtækjum upp á hefur verið misnotuð í margvíslegum tilgangi, t.d. til þess að komast hjá skatti, til að sneiða hjá reglum á fjármálamarkaði um flöggunar- og yfirtökuskyldu, til að falsa eigið fé fjármálastofnana og til að fela illa fengið fé.

Fjölþjóðleg fyrirtæki hafa notfært sér skattaskjól til að færa hagnað frá þeim ríkjum þar sem hin raunverulega starfsemi á sér stað til lágskattasvæða og þannig forðast að greiða skatta til samfélagsins.

Undanskot frá sköttum grafa undan velferð og jöfnuði í samfélaginu og því ætti það að vera forgangsmál stjórnvalda á öllum tímum, ekki síst í ljósi nýfenginna upplýsinga um umfang vandans, að berjast gegn starfsemi skattaskjóla.

Efnahags- og viðskiptanefnd hefur kallað til fundar við sig fulltrúa frá ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, Fjármálaeftirliti og Seðlabanka. Þessir fundir hafa verið opnir fjölmiðlum og þingmenn hafa fengið tækifæri til þess að spyrja spurninga, kynnast því hvaða sjónarmið þessar stofnanir eða talsmenn þeirra hafa til málsins og hvaða tækifæri eru til að gera lagabreytingar.

Nefndin hefur einnig fengið til sín fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og hefur boðið Samtökum fjármálafyrirtækja atvinnulífsins og endurskoðenda að senda sér minnisblöð um málefnið. Fundirnir og minnisblöðin hafa nýst til þess að upplýsa nefndarmenn um umfang vandans og hvaða úrræði mætti skoða nánar til að sporna við honum.

Sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar tel ég afar mikilvægt að nefndin haldi áfram að afla sér þekkingar á vandanum og mögulegum úrræðum. Ég tel víst að nefndarmenn muni vera fúsir til að vinna hratt að stjórnarfrumvörpum sem miða að því að (Forseti hringir.) hindra starfsemi skattaskjóla og jafnvel að nefndarmenn og nefndin hafi frumkvæði að því að flytja slík mál.



[14:25]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Við erum hérna komin til þess að ræða viðbrögð stjórnvalda gagnvart skattaskjólum. Það verður að segjast eins og er að undanfarnar tvær, þrjár vikur hafa viðbrögð stjórnvalda einmitt ekki verið sérstaklega skýr. Það er erfitt að eiga peninga á Íslandi. Einhvers staðar verða peningarnir að vera. Þetta minnir svolítið á Íslendingasögurnar eða biskupasögurnar gömlu. Það er ekki hægt að sjá að þjóðarleiðtogar okkar hafi komið skýrt og skilmerkilega fram eins og t.d. Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, sem sagði að bankar þyrftu að stunda samfélagslega ábyrga bankastarfsemi og það væri óboðlegt fyrir norska banka að vera í einhverju svona aflandsdóti.

Angela Merkel og François Hollande hafa bæði fagnað tilkomu Panama-skjalanna. Ekki hafa verið einhver sérstök viðbrögð frá fyrrverandi forsætisráðherra eða frá fjármálaráðherra um að það séu góðar fréttir að við séum komin með þetta upp á borð.

Þetta snýst ekki bara um skattsvik, að fólk sé að svíkja undan skatti. Við eigum ekki að taka þessa umræðu sem bara spurninguna um skattsvik eða ekki. Þetta snýst líka um siðferði og hvernig samfélag við viljum byggja og hvernig bankakerfið og hvernig samfélagið á að vera rekið.

Mér finnst hæstv. fjármálaráðherra einblína um of á skattsvikahliðina á þessu öllu saman, þegar ég held að mun betra væri að tala meira um siðferðið sem liggur þarna að baki og það siðrof sem varð árin fyrir hrun sem varð til þess að fólk stofnaði bankareikninga á aflandseyjum trekk í trekk.

Að lokum legg ég einnig til að hæstv. ríkisstjórn ákveði kjördag sem fyrst.



[14:28]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum aðgerðir stjórnvalda gegn skattaskjólum á innlendum og erlendum vettvangi, enda er það svo að fyrir tilstuðlan skattaskjóla verður Ísland árlega af 30–50 milljörðum kr. að sögn sérfræðinga og miðað við þær upplýsingar sem ég hef undir höndum. Þann 29. mars, fimm dögum áður en Wintris-þáttur Kastljóss var sýndur, skrifaði hæstv. ráðherra fjármála og efnahagsmála eftirfarandi á Facebook-síðu sína, með leyfi forseta:

„Það eiga allir að skila sínu til sameiginlegs rekstrar samfélagsins. Langflestir fylgja þessari sjálfsögðu reglu. Ég mun láta einskis ófreistað til að ná til hinna, sem fara á svig við lög og reglur og vilja fá frítt far með samborgurum sínum sem halda uppi lífsgæðunum á Íslandi.“

Ég velti fyrir mér og varpa þeirri spurningu til hæstv. ráðherra fjármála hvers vegna síðan þá, í tæpar þrjár vikur, hafi engar sérstakar ákvarðanir eða yfirlýsingar um sértækar aðgerðir í ljósi mála komið fram hjá hæstv. fjármálaráðherra um hvernig hann ætlar sér að láta einskis ófreistað til að ná til þeirra sem fara á svig við lög og reglur eins og hann orðaði það. Til hvaða aðgerða ætlar fjármálaráðherra að grípa við að reisa við fjárhagslegt orðspor Íslands og sýna í verki að við sem samfélag höfum engan áhuga á að vera heimsmeistarar í skattundanskotum? Hvaða skilaboð ætlar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að senda umheiminum þegar kemur að því að sýna að hér verði tekið af festu á þeim málum sem komið hafa upp tengd viðskiptahagsmunum Íslendinga í skattaskjóli?

Er hæstv. fjármálaráðherra sá sem best er til þess fallinn í ljósi stöðu sinnar til að lýsa því yfir og sýna í verki að Ísland umberi með engu móti skattundanskot til skattaskjóla af þeirri stærðargráðu sem Panama-skjölin hafa leitt í ljós? Ef einhvern tímann hefur verið þörf á því að sýna festu í viðbrögðum og aðgerðum þegar kemur að (Forseti hringir.) því að stórefla baráttu gegn skattaskjólum er það nú.

Ætlar hæstv. fjármálaráðherra að krefjast þess í ljósi yfirlýsinga sinna fyrir þremur vikum, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að standa hér fyrir sértækum aðgerðum (Forseti hringir.) í ljósi mála?



[14:30]
Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Það kom fram á opnum fundi hv. efnahags- og viðskiptanefndar í síðustu viku að skattrannsóknarstjóri telur að í þeim gögnum sem hann hefur séu um það bil 600 félög í hinum svokölluðu aflandslöndum sem tengjast um það bil 400 Íslendingum. Mér fannst áhugavert að heyra að af þessum 600 félögum tengdum 400 Íslendingum væru það einungis um 30 mál sem væru í sérstakri skoðun og að ákæra kynni að verða gefin út í einhverjum þeirra mála.

Þessar tölulegu upplýsingar eru vísbending um að í þessari umræðu er mikilvægt að velta því fyrir sér af hverju menn hafa leitað með félög sín til hinna svokölluðu aflandslanda. Þar eru ýmsar ástæður að baki. Í einhverjum tilfellum getur verið um einhvers konar skattaskjól að ræða. En í því sambandi er líka rétt að hafa í huga að til dæmis á árunum fyrir bankahrunið var fjármagnstekjuskattur ekki svo ýkja hár hér á Íslandi. Ég er ekki sjálf svo viss um að það hafi endilega verið ástæðan í þessum málum.

Dulið eignarhald, að menn hafi leitað eftir því að fela eignarhald og þar fram eftir götunum — í mörgum tilfellum er um lögmætar og málefnalegar ástæður að ræða. Mér finnst mikilvægt að menn hafi það í huga. Áður en gengið er í róttækar lagabreytingar með tilheyrandi boðum og bönnum, eins og mér heyrist menn hér vera að kalla eftir, (Forseti hringir.) þá held ég að það sé algjört grundvallaratriði að menn greini ástæður þess að menn hafa stofnað félög í aflandslöndum.



[14:33]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Orðstír Íslands hefur beðið hnekki og ásýnd Íslands er löskuð. Ástæðan er notkun íslenskra stjórnmálamanna á skattaskjólum og afhjúpun á eignum hæstv. ráðherra í slíkum skatta- og krónuskjólum til lengri eða skemmri tíma. Sá sem nýtir sér skattaskjól gerir það í ákveðnum tilgangi. Tilgangurinn er að leyna fjármunum og komast undan því að greiða skatta; komast hjá því að leggja sitt af mörkum til samfélagsins, svo sem í vegi, sjúkrahús, menntakerfi og löggæslu.

Notkun stjórnmálamanna á skattaskjólum gefur þá ímynd að þeir séu til í að láta aðra bera sinn hlut í ríkisrekstrinum. Á Íslandi á sú ímynd við um sjálfan fjármálaráðherrann. Segja má að afhjúpun Panama-skjalanna á leynimakki hæstvirtra ráðherra hafi verið eins konar vendipunktur í íslensku samfélagi. Almenningur mótmælti spillingunni og krafðist breytinga með fjölmennustu mótmælum í sögu landsins. Ég tek undir þá kröfu, herra forseti.

Við þurfum að rannsaka hverjir hafa nýtt sér skattaskjólin og komast að því hvað undanskotin hafi kostað íslenskt samfélag og velferðarkerfið með töpuðum skatttekjum. Við verðum að styrkja embætti skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra svo að þau geti sinnt hlutverki sínu hvað þetta varðar. Við eigum að vinna með öðrum þjóðum í baráttunni gegn notkun skattaskjóla og gegn skattundanskotum og smíða lög sem banna notkun skattaskjóla.

Herra forseti. Við verðum að ganga ákveðin til verks og koma í veg fyrir að notkun skattaskjóla haldi áfram að grafa undan samfélaginu, hvort sem er fjárhagslega eða siðferðislega.



[14:35]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa þörfu umræðu. Mér finnst áhugavert við þetta mál að það er ekki eins og við höfum ekki vitað af þessum raunveruleika, en þegar þúsundum skjala er lekið og það eru komin nöfn á eigendur þessara aflandsfélaga verður krafan um aðgerðir mjög sterk, aðkallandi og úti um allan heim. Ég verð að taka undir með sumum sem hafa talað hér, ég hef ekki haft á tilfinningunni að sú ríkisstjórn sem nú situr og sú sem sat hér fyrir tveimur vikum hafi mikinn áhuga á að uppræta skattsvik yfir höfuð. Ég kallaði eftir sérstakri umræðu um þetta mál. Ég sendi hæstv. atvinnuvegaráðherra fyrirspurn fyrir tveimur mánuðum, spurði einnar einfaldrar spurningar, þær voru reyndar tvær en þær voru einfaldar, um það hvað stjórnvöld hefðu gert til að sporna gegn kennitöluflakki eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum. Það eru tveir mánuðir síðan og ég hef ekki enn fengið svar. Hversu flókið er þetta? Þó að hæstv. fjármálaráðherra hafi komið í umræður um skattsvik og annað hefur mér ekki fundist hann tala mjög afgerandi í þeim málum.

Ég veit að við erum hér að ræða aflandsfélögin, en ég vil setja þetta allt undir sama hatt. Það skiptir ekki máli með hvaða hætti skattsvikin eiga sér stað. Stjórnvöld verða alltaf að setja þá stefnu að skattsvik séu ekki í boði. Þau eru ólíðandi. Hér leggur fólk sitt til samfélagsins og við gerum það öll sem eitt. Ég var að skoða framlög til skattrannsóknarstjóra. Hann fékk 290 milljónir árið 2013, 300 milljónir 2014, svo lækkuðu framlögin árið 2015 niður í 297 milljónir og hækkuðu aftur í 322 milljónir 2016. Mér sýnist hækkunin frá árinu 2013 varla hanga í launaþróunarvísitölu þannig að fyrir mér hafa (Forseti hringir.) stjórnvöld ekki sett þá stefnu og markað þá sýn að skattsvik séu með öllu ólíðandi. Mér finnst kominn tími til aðgerða af hálfu stjórnvalda.



[14:37]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Uppljóstrun Panama-skjalanna hefur kallað á alheimsviðbrögð. Það besta í þessu er gildislæg viðhorfsbreyting og samstillt átak á alþjóðavísu til þess að deila upplýsingum og gera aflandsfélögum ómögulegt að fela eignarhald og skjóta sér undan réttmætum sköttum. Ég fagna viðbrögðunum og ég fagna jafnframt viðbrögðunum í samfélagi okkar og nauðsynlegri viðhorfsbreytingu.

Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir þessa umræðu sem er hluti af því að fara í gegnum aðdragandann að aðgerðum sem verða að fylgja. Hæstv. ráðherra þakka ég greinargóða yfirferð yfir þau viðbrögð og aðgerðir sem íslensk stjórnvöld hafa farið í á undanförnum árum gegn slíkri starfsemi. Það verður að halda því til haga; OECD-staðall, CFC-reglur, upplýsingaskiptasamningar, einstök aðgerð í gagnakaupum o.s.frv.

Í heimi þar sem frjálst flæði fjármagns er talið æskilegt er eðli máls að peningar leiti til hávaxtasvæða eða lágskattasvæða. Leynd, ógagnsæi og skattundanskot eiga hins vegar ekki að líðast. Verkefnið er að afhjúpa leyndina þannig að slík félög geti ekki komist upp með að skjóta sér undan sköttum.

Nú hefur hv. efnahags- og viðskiptanefnd tekið frumkvæði í þessari vinnu og meðal annars haldið tvo opna og mjög gagnlega fundi með ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra og annan með Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Á þessum fundum og í framhaldinu hafa komið fram mjög gagnlegar ábendingar og tillögur sem nefndin getur unnið áfram og (Forseti hringir.) komið með aðgerðir til þess að styrkja löggjöf í baráttunni gegn slíkri starfsemi.



[14:40]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Undirliggjandi tónn í þessari umræðu kemur stundum fram, um það að skattaskjól séu á einhvern hátt lögmæt eða að það séu á einhvern hátt lögmætar ástæður fyrir því að vera með félög í skattaskjólum. Þá er stutt í röksemdafærslur um það að ríki eigi að keppa í skattalöggjöf. Ég skil rökin um að keppa í skattalöggjöf, en það er eitt að keppa við önnur ríki eins og Norðurlöndin og annað að keppa við ríki eins og Bresku Jómfrúreyjarnar. Annað er mögulegt, hitt er ekki mögulegt. Við munum aldrei sigra skattaskjól í samkeppni um skattalöggjöf nema með því að verða skattaskjól. Að því gefnu að við ætlum ekki að verða skattaskjól þá geri ég ráð fyrir því að sú samkeppni sé ekki möguleg, og þá eigum við ekki að leitast eftir henni.

Við eigum miklu frekar að reyna að finna leiðir til þess að koma í veg fyrir að fólk noti þessi skattaskjól yfir höfuð, vegna þess að, eins og hv. þm. Frosti Sigurjónsson kallar þau stundum, þau eru upplýsingasvarthol og það eitt og sér er vandamál. Óháð því í hvaða tilgangi menn eru að fara með félög sín til þessara staða þá eru þessi svæði upplýsingasvarthol. Það er erfitt að fá upplýsingar þar, ef það er mögulegt yfir höfuð. Það er eitt af stóru vandamálum við þau. Það þýðir að lögmætur tilgangur eins og eins aðila sem fer þangað með starfsemi hjálpar okkur ekki í baráttunni við þetta og getur ekki gert það. Þess vegna eigum við ekkert að vera að daðra við hugmyndir um samkeppni við svona ríki eða svona löggjöf.

Það er annar undirliggjandi tónn, sem fíllinn í herberginu, að mínu mati, en það er einfaldlega trúverðugleiki ríkisstjórnarinnar. Við verðum að halda til haga viðbrögðum sem komu upp. Hér voru nú aldeilis gífuryrðin látin fjúka á hinu háa Alþingi þegar mál hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra kom upp. Þá var talað um skítaleiðangur, virðulegi forseti. Það eru ekki mín orð. Það eru orð hæstv. utanríkisráðherra um þetta mál. Skítaleiðangur, virðulegi forseti. Fyrirgefið orðbragðið, mér finnst bara mikilvægt að halda þessu til haga. Það er orðræðan sem kom upp. Sú sama ríkisstjórn á að hafa trúverðugleika til þess að takast á við þessi mál. Ég held ekki, virðulegi forseti.



[14:42]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Hæstv. ráðherra talaði um að skattsvikin væru aðalmálið, hins vegar þyrfti að vera heilbrigð samkeppni á markaði í þessum málum eins og öðrum. En er eitthvað heilbrigt, hæstv. ráðherra, við skattaskjól þar sem við horfum á leynd og ógagnsæi eins og hefur verið bent á og allt annað regluverk en við höfum sjálf kosið að smíða okkur hér ásamt öðrum þeim ríkjum sem við vinnum með?

Um þessa leynd og ógagnsæi vil ég segja að baráttan gegn skattaskjólum snýst líka um þá baráttu. Ég get tekið undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa lýst vonbrigðum með viðbrögð, eða a.m.k. fyrstu viðbrögð, hv. þingmanna og hæstv. ráðherra núverandi stjórnarflokka þegar upp komst um Panama-skjölin.

Ég hefði kosið að fá viðbrögð á borð við þau sem við sáum t.d. hjá François Hollande sem ég vitnaði til áðan, sem sagði: Þetta er mikilvægt. Við þurfum að rannsaka það, því að tilvist skattaskjóla og aflandsfélaga er ógn við okkar kerfi, hvernig við byggjum okkar kerfi.

Það snýst ekki einungis um skattskil. Það snýst líka um regluverk og heilbrigða samkeppni, ekki óheilbrigða samkeppni.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra. Ég spurði hann sérstaklega áðan um tillögu okkar um rannsókn á aflandsfélögum og skattaskjólum, að Alþingi lýsi pólitískum vilja sínum og ráðist í slíka rannsókn. Hér hafa menn rætt mikið um þau mál sem á eftir að klára fyrir kosningar. Ég held að þetta sé eitt af málunum sem við eigum að klára, herra forseti, og að Alþingi ætti að taka það í sínar hendur og segja: Það er pólitískur vilji til að taka á þessum málum. Hann snýst ekki einungis um skattsvik sem slík, hann snýst líka um tilvist þessara félaga, því að það er umræðan sem á sér stað úti í hinum stóra heimi.

Okkur Íslendingum var kippt inn í þá umræðu með því að skyndilega varð þetta mál svo fjarskalega áþreifanlegt í sölum þingsins og í samfélaginu. (Forseti hringir.)

En trúverðugleiki Alþingis (Forseti hringir.) snýst um að við sýnum að við getum og ráðum við það sem samfélag að takast á þegar svona alvarleg mál koma upp.



[14:44]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er ítrekað vegið að trúverðugleika ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Ég hef rakið að löngu áður en þetta mál kom upp vorum við virk í alþjóðlegu samstarfi um að uppræta rót vandans, sem er upplýsingaskorturinn, með þátttöku okkar á vettvangi OECD og víðar. Við höfum sett fjármuni í að kaupa gögn af þeim toga á síðasta ári til þess að stofnanir okkar, sem hafa það sérstaka hlutverk að ná í skottið á svikurunum, hefðu tækin og tólin og stuðning stjórnvalda til að sinna hlutverki sínu. Þetta eru skýr merki um forgangsröðun ríkisstjórnar sem ætlar ekki að sætta sig við skattsvik. Þetta eru mál sem við vorum búin að afgreiða og grípa til löngu áður en þetta mál kom upp. Hafi menn ekki heyrt mig segja það hér þá hef ég margítrekað látið það koma fram í verkum, t.d. með samskiptum ráðuneytis míns við þær stofnanir sem vinna á þessu sviði, að við ætlum að nýta gögnin, öll tækifæri sem við getum haft og fengið til okkar til að sinna þeim hlutverkum betur.

Mér finnst menn slá dálítið úr og í varðandi það hvert verkefnið er. Menn vilja taka umræðuna á mjög breiðum grundvelli. Menn vilja setja á sömu hilluna þá sem hafa gert hreint fyrir sínum dyrum, hafa ekkert að fela, hafa fylgt íslenskum lögum og reglum og hina sem eru að fela sig og reyna að komast undan sanngjarnri skattlagningu. Þetta finnst mér ómerkilegt. Ég ætla að taka það fram.

Hér er spurt: Eigum við ekki að banna mönnum að geyma peninga eða vera með einhverja starfsemi á aflandssvæðum? Hvað haldið þið að það þýði að banna fólki sem af ásetningi svíkst undan og gefur ekki sitt upp? Hvað haldið þið að þýði að fara að banna það? Það er þegar bannað að gefa ekki upp skattana sína. Það er þegar bannað að gefa ekki upp tekjur og koma ekki til baka hingað með skattgreiðslur af svona starfsemi. Það er þegar bannað. Ég held að frekari bönn við því séu ekkert sérstaklega líkleg þegar við eigum við fólk sem af ásetningi kemur sér undan lögum.

Svo er ágætt í þessari breiðu umræðu sem menn hafa aðeins verið að efna til hér um samkeppni landa í (Forseti hringir.) skattamálum að minna á það að við erum fyrir ýmsa starfsemi ágætisskattaskjól. Eigum við að nefna kvikmyndaiðnaðinn þar sem við borgum 20% til baka (Forseti hringir.) af öllum innlendum kostnaði, stefnum (Forseti hringir.) að 25%, eða varanlegan afslátt af sköttum til stóriðjufyrirtækja (Forseti hringir.) sem var afgreiddur á síðasta ári o.s.frv.? Lönd verða áfram í samkeppni um skattamál. Aflandsmálin eru sérstakt viðfangsefni. Þar er alþjóðlega (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) samstarfið algerlega kjarnaatriði fyrir árangur okkar á því sviði. (Gripið fram í.)