145. löggjafarþing — 102. fundur
 20. apríl 2016.
um fundarstjórn.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga.

[16:00]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vekja athygli á því, af því að nú hef ég heyrt báða hv. formenn stjórnarflokkanna færast mjög undan þegar þeir eru spurðir um það hvort þeir séu reiðubúnir til þess að Alþingi láti fara fram rannsókn á aflandsfélögum í eigu Íslendinga, að fyrir Alþingi liggur tillaga frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði um að Alþingi skipi fimm manna nefnd sérfróðra aðila með sérþekkingu á alþjóðaviðskiptum og fjármálakerfinu og skattamálum.

Ég fæ ekki betur heyrt í svari hæstv. forsætisráðherra hér áðan sem og í svörum hæstv. fjármálaráðherra við ítrekuðum fyrirspurnum mínum um þetta mál að þeir færist undan, að þeir vilji ekki að Alþingi rannsaki þetta risavaxna mál sem aðrar vestrænar þjóðir eru í óða önn að taka upp og láta rannsaka en ekki forsvarsmenn íslensku ríkisstjórnarinnar.

Ég vil segja það undir þessum lið, fundarstjórn forseta, að mér finnst það ábyrgðarhluti ef forseti Alþingis gengur ekki í það að setja þetta mál á dagskrá þannig að hægt sé að taka afstöðu til þess. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)

Hér hefur verið rætt um að þingið eigi bara að halda áfram (Forseti hringir.) eins og eðlilegt er. Setjum þá mikilvæg mál á dagskrá sem snúast um málefni dagsins og sýnum að Alþingi sé reiðubúið að taka skýra afstöðu í þessu mikilvæga máli.



[16:01]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög nauðsynlegt að halda því til haga þegar spuninn hefst um það að ríkisstjórnin vilji ekki taka til rannsóknar þau mál sem hér um ræðir eins og Panama-skjölin eða önnur skattsvik sem eiga sér stað í okkar samfélagi, að þetta er auðvitað ekkert annað en dylgjur og spuni Það er ekki hægt að segja annað (Gripið fram í.) vegna þess að ítrekað hefur komið fram, virðulegi forseti, hjá forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar, bæði hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra, að þeir muni ekki gefa neitt eftir í þessum málum.

Við erum með stofnanir á vegum ríkisins sem sinna þessum málum. Það hefur komið fram að menn væru tilbúnir til að auka til þeirra fjármagn ef á þarf að halda til að taka betur á þessum málum.

En er það þannig, virðulegur forseti, að hv. þingmenn sem hér tala með þeim hætti sem hefur verið gert í dag treysti ekki þeim stofnunum til þess að fara með þau mál sem við skipum þeim til? Er það þannig að Alþingi þurfi að fara að taka yfir skattrannsóknir í landinu? Heyr á endemi.



[16:02]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Katrínu Jakobsdóttur, að það er lágmarkskrafa við þessar aðstæður að tillaga um rannsóknarnefnd verði tekin á dagskrá og Alþingi taki að minnsta kosti afstöðu til hennar. Ætlum við Íslendingar að fara í þann farveg með þessi mál eða einhvern annan?

Bretar, Frakkar og fleiri þjóðir hafa þegar ákveðið mjög víðtæka opinbera rannsókn. Ekki bara að skatturinn, skattrannsóknarstjóri eða skattstjóri sinni sínu, sem hann að sjálfsögðu gerir, heldur að jafnframt verði sérstök opinber rannsókn á umfangi málsins, á því t.d. hvort bankar, annaðhvort einkabankar eða að hluta til í eigu ríkisins, hafi sérstaklega verið að beita sér í þessu skyni. Það er rætt í Noregi, það er rætt í Svíþjóð, Bretlandi, Hollandi, Frakklandi.

Það er enginn að tala um að rannsóknarnefnd á vegum Alþingis, rannsóknarnefnd sérfróðra aðila, ekki þingmenn sjálfir, sem í þetta færi færi að rannsaka einstök skattalagabrot. (Forseti hringir.) Hv. þm. Jón Gunnarsson þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Þetta yrði rannsókn á umfangi málsins, mjög sambærileg við þá rannsókn sem fór fram á falli bankanna. Komi þar í ljós upplýsingar ganga þær sína leið (Forseti hringir.) til skattrannsóknarstjóra eða ríkisskattstjóra.

(Forseti hringir.) Þetta snýst um að taka málið föstum tökum og undanbrögðin eru undarleg.



[16:04]
Forseti (Kristján L. Möller):

Forseti vill líka taka föstum tökum á ræðutíma þingmanna.



[16:04]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ef við ætlum okkur að reyna að komast til botns í þessu máli eins og mér hefur virst á öllum stjórnmálaflokkum sem hafa síðustu tíu daga, tvær vikurnar, rætt þetta mál, þá held ég að það sé forgangsmál að samþykkja þá tillögu sem hér er lögð fram af Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Ég tel að það sé ákaflega mikilvægt að þetta sé kortlagt. Ég tel að við þurfum að sjá, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér áðan, hvert umfang þessa máls er. Hvað er hugsanlegt að stórum hluta sé komið fyrir í skattaskjólum? Er hugsanlegt að það sé af svipaðri stærðargráðu og gerist erlendis? Þá er líklegt að þetta kunni að vera 600–800 milljarðar. Við þurfum bara að vita þetta.

Ég rifja það síðan upp að hv. þingmenn Framsóknarflokksins fóru mjög sterklega fram á það á sínum tíma að það yrði gert opinskátt hverjir það eru sem eiga þessar kröfur. Ég tel sem Íslendingur og íslenskur borgari að það sé nauðsynlegt að ég og aðrir borgarar þessa lands fái að vita hvort það voru Íslendingar og íslensk fyrirtæki sem í gegnum skattaskjól (Forseti hringir.) áttu kröfur á íslensku bankana í stórum stíl eða gerðust jafnvel hrægammar og keyptu kröfur á hrakvirði. Þetta vil ég fá að vita. Ég treysti ríkinu fullkomlega til þess að standa fyrir slíkri rannsókn.



[16:06]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hygg að sumir þingmenn átti sig ekki á því að það mál sem hér er rætt um, þingsályktunartillaga Vinstri grænna, sú ágæta tillaga, er ekki lengur spurning um lögbrot; það er ekki bara spurning um það hvaða lögum er framfylgt eða hvaða lög eru brotin. Þetta er orðið hápólitískt mál af þeirri stærðargráðu að forsætisráðherra sagði reyndar af sér á endanum. En áður en hann gerði það voru varðhundar búnir að verja hann fram í rauðan dauðann og málsvörnin vitaskuld fráleit frá fyrsta degi. Þá liggur á að hið háa Alþingi og hæstv. ríkisstjórn og þingmenn meiri hlutans sýni að þeim sé alvara í því að takast á við þessi sjónarmið, ekki bara út frá einhverjum lögtæknilegu sjónarmiði heldur einnig pólitískt. Það skiptir máli. Það er þess vegna sem þessi tillaga, þessi ágæta tillaga Vinstri grænna, á að vera hér á dagskrá. Við eigum að ræða hana og við eigum ekkert að hætta að ræða þetta mál fyrr en við verðum komin til botns í því og ekki bara út frá lögtækni heldur pólitískt. Það skiptir máli, virðulegi forseti.



[16:07]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Einn aðallærdómurinn sem draga má af rannsóknarskýrslu Alþingis er sá að eftirlit stofnana, þar með talið Alþingis, brást. Við erum nú að sjá afleiðingarnar af því. Panama-skjölin eru afleiðingar af hruninu og ástæðan fyrir því að þau koma flatt upp á fólk er sú að við héldum að þetta væri búið. Mér þykir ekkert að því að ætlast til þess að stofnuð verði rannsóknarnefnd varðandi þetta mál. Mér þætti það sjálfsagt. Þetta er hluti af því að gera upp hrunið sem var, svo að því sé haldið á hreinu, sannarlega ekki mér að kenna heldur kannski frekar öðrum eldri þingmönnum hér; ekkert sérstaklega góð framtíð sem ég stend frammi fyrir á næstu áratugum. Takk kærlega fyrir, ég vil endilega fá rannsóknarnefnd til að skila rannsóknarskýrslu út af þessum Panama-skjölum, til þess einfaldlega að gera upp þetta bölvaða hrun.



[16:08]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er búið að leggja hér fram mjög skýrar spurningar til forsvarsmanna stjórnarflokkanna um það hvort þeir séu reiðubúnir að styðja tillögu um að Alþingi standi fyrir rannsókn sérfróðra aðila á þessu máli, aflandsfélögum í eigu Íslendinga. Eins og hv. þingmenn hafa talað, eða öllu heldur færst í þá átt smátt og smátt eftir því sem alvarleiki málsins hefur orðið þeim ljós, þá hefði ég talið að það ætti að vera auðsótt mál að fá það á dagskrá, en samt fást ekki skýr svör frá forustumönnum stjórnarflokkanna. Það að vilja ekki að Alþingi taki skýra afstöðu í þessu máli eru mjög alvarleg pólitísk skilaboð, herra forseti. Þess vegna verður þetta mál að komast á dagskrá og það verður að komast í afgreiðslu svo hv. þingmenn geti sýnt það með atkvæði sínu hvort þeir vilja það í alvöru að Alþingi taki myndarlega á þessu máli. Það útilokar svo sannarlega ekki að styðja okkar ágætu stofnanir sem standa að þessum málum.

Þetta er auðvitað mál sem hefur stórpólitískt vægi í efnahagslífi heimsins ef það hefur farið (Forseti hringir.) fram hjá hv. þingmönnum. Það er algjörlega til skammar ef Alþingi Íslendinga, þegar (Forseti hringir.) við höfum áttað okkur á því að hér hefur verið sett heimsmet (Forseti hringir.) í notkun aflandsfélaga eftir því sem vísbendingar benda (Forseti hringir.) til, ætlar ekki að taka af myndarskap á þessu máli. Það er algjörlega til skammar, herra forseti. Og ég vil ítreka (Forseti hringir.) þá kröfu að þetta mál komist á dagskrá næst þegar þing kemur saman. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[16:10]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta mál er ekki búið. Það er ekki þannig að þó að það verði til ný ríkisstjórn og einhverjir skipti um sæti og það sé komin ný forusta á ríkisstjórnina sé allt þetta mál þar með fyrir vind, þar með geti fólk bara sagt: Heyrðu, höldum bara áfram að vinna vinnuna okkar hérna, vegna þess að hér urðu stórkostleg alvarleg pólitísk tíðindi, tíðindi á heimsmælikvarða. Hér hefur komið fram frá forustu beggja ríkisstjórnarflokkanna að þeir telja að ekki þurfi að grípa til sérstakra ráðstafana af því tilefni, þeir telja svo ekki vera. Í ljósi alvarleika málsins geri ég um það skýra kröfu við forseta Alþingis að tillaga Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um sérstaka rannsóknarnefnd sem hæfir tilefninu verði sett á dagskrá þegar þing kemur saman á fimmtudaginn í næstu viku.



[16:11]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Þarf einhver að velkjast í vafa um að það sé vilji okkar allra að þessi mál komi öll upp á yfirborðið og það sem fyrst? Í hvaða orðum forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar liggur það? Þetta er bara ómerkilegur spuni sem á sér stað, óheiðarlegur málflutningur sem er allt of mikið stundaður hér í þingsal af hv. þingmönnum og er grunnurinn að því að virðing þingsins er ekki meiri en raun ber vitni.

Hér koma menn og kalla eftir því að þeir vilji vita hverjir kröfuhafarnir eru, vilji fá þann lista. Það sama fólk felldi slíka tillögu á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í: Ekki ég.) Felldi slíka tillögu. Hún fékk ekki fram að ganga, tillaga hv. þm. Lilju Mósesdóttur, var það? En nú er kallað eftir þessu. (Gripið fram í.) Það skín svo í gegn, virðulegur forseti, (Gripið fram í.) til hvers þessi málflutningur er, að reyna að villa og skapa ólgu. Auðvitað verður allt gert af hálfu hins opinbera, það hefur ítrekað komið fram í orðum hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann hefur farið yfir það hvernig við erum að taka þátt á alþjóðlegum vettvangi (Forseti hringir.) í því að með öðrum ríkjum að reyna að komast til botns í þessum málum, að reyna að uppræta þessi svokölluðu skattaskjól. Auðvitað verður ekkert slegið af í þeim efnum. Það stendur ekki til.



[16:12]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég held að við getum nú öll verið sammála um það að virðing þingsins er ekki dapurleg út af því sem hv. þm. Jón Gunnarsson sagði hér áðan. Nei, virðing Alþingis er ekki mikil út af því að ekki er hægt að finna leiðir til að sýna þverpólitíska samstöðu um mikilvæg mál eins og til dæmis það mál sem hér er til umræðu. Það væri eðlilegt, í ljósi þess sem hér hefur átt sér stað, að allir þingmenn mundu í það minnsta styðja það að málið færi á dagskrá þannig að við sæjum hver vilji Alþingis væri. Það að geta ekki gert svo einfaldan hlut eða framkvæma svo einfaldan hlut eins og að sýna vilja þingsins er meðal annars ástæðan fyrir því að virðing Alþingis hefur fallið. Fyrir því eru margar ástæður, meðal annars aðalfrétt allra helstu fjölmiðla heimsins fyrir um það bil tveimur vikum síðan.



[16:14]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ástæða þess að við erum að ræða þetta hér eru einfaldlega loðin svör og undanflæmingur forustumanna stjórnarflokkanna sem hafa fengið þær spurningar undanfarna daga og í dag að hluta til hvort þeir séu sammála því að með þessum hætti eða eftir atvikum einhverjum öðrum verði tryggt að fram fari rækileg opinber rannsókn á umfangi og eðli og afleiðingum þessarar aflandsstarfsemi þar sem Íslendingar virðast því miður ætla að flagga vafasömu heimsmeti. Hvers vegna í ósköpunum ættum við ekki að rannsaka þetta ofan í kjölinn og styðja um leið við embættin sem fara ofan í einstök mál frá þeim sjónarhóli hvort þar hafi verið haft rangt við? Þannig gerist þetta samhliða og hvort í tengslum við annað eins og rannsóknarnefnd Alþingis og síðan embætti sérstaks saksóknara unnu á sínum tíma. Nákvæmlega eins á að fara í þetta mál. Það er mjög tortryggilegt að menn séu með undanbrögð (Forseti hringir.) í þessum efnum. Þannig ég tek undir kröfur um að Alþingi sjálft taki afstöðu til þess hvað það vill gera í þessum efnum? Það verður auðvitað best gert með því að taka nefnda tillögu strax á dagskrá.



[16:15]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að mörgum hefur ekki þótt það tiltökumál að menn væru með félög í þessum skattaskjólum, í þessum upplýsingasvartholum. Menn hafa varið sig þegar þeim hefur fundist þeim vera brigslað um skattundanskot. Gott og vel. Það kemur bara í ljós að mjög mörgum finnst allt í lagi að eiga félög í þessum ríkjum.

Í þessum lið, um fundarstjórn forseta, eigum við ekki að vera með efnislega umræðu. Það er alveg rétt. Hér er verið að krefjast efnislegrar umræðu í tilteknu máli, máli sem er gert til að ræða það mál efnislega, þ.e. tillaga Vinstri grænna. Það er þess vegna sem við eigum að setja hana á dagskrá og ræða hana efnislega til þess að þurfa ekki að taka mínútuumræður efnislega um mál sem brennur á þjóðinni og þinginu öllu, eins og ætti að vera öllu heldur, frekar en vera alltaf að karpa um það í fundarstjórn hvort við eigum að ræða svona mál eða ekki.

Að sjálfsögðu eigum við að ræða þetta, það er deginum ljósara. Mér þykir fráleitt að stinga upp á því að það sé einhver óþarfi. Þetta er mál málanna í dag. Við eigum að ræða þetta. Tillagan liggur fyrir. Setjum þetta á dagskrá. ræðum hana. Útkljáum þetta í atkvæðagreiðslu og sjáum hvað setur.



[16:16]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra var mín ræða öll um það hvernig ætti að bregðast við þessu máli. Ég taldi þá að nauðsynlegt væri að kortleggja þetta mál og reyna að grafast fyrir um hversu stórt það væri. Sömuleiðis taldi ég koma til greina að banna Íslendingum að eiga reikninga í skattaparadísum sem ekki uppfylltu kröfur Vesturlanda og OECD um skil á reikningum og öðru slíku.

Varðandi tillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs finnst mér sjálfsagt að hún verði tekin á dagskrá við fyrstu hentugleika og þá eigi síðar en þegar þing kemur næst saman. Það er bara sjálfsagt mál. Ég hef metið hæstv. forsætisráðherra sem ég ber allnokkurt traust til með þeim hætti að það væri honum ekki á móti skapi. Ég tel að ef hæstv. ríkisstjórn vill ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna um framgang mála sem hún leggur áherslu á verði hún að koma til móts við stjórnarandstöðuna um mál sem hún leggur áherslu á. Ég tel, (Forseti hringir.) þó að ég sé ekki að minnsta kosti enn þá kominn í Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, að þetta sé eitt af forgangsmálunum.(Gripið fram í.)



[16:18]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það eykur ekki trúverðugleika ríkisstjórnarinnar hvað hún dregur lappirnar í þessu máli. Auðvitað á að taka á dagskrá tillögu Vinstri grænna um að fram fari opinber rannsókn á skattaskjólum og aðkomu Íslendinga að þeim málum. Þetta eru engin smáskattsvik hjá einhverju litlu fyrirtæki sem þarna áttu sér stað. Þetta eru grafalvarlegir hlutir sem lönd út um allan heim eru núna að vinna að af fullum krafti að koma böndum á. Við Íslendingar eigum að sýna gott fordæmi og taka þetta mál upp, taka það föstum tökum en fara ekki að vísa þessu út og suður og gera formanni efnahags- og viðskiptanefndar að verkefnisstjóra í þessu verkefni, mann sem er ekki með hreina áru í þessu máli, búinn að verja þetta í bak og fyrir og eiga svo að vera sá sem stýrir þessari vinnu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Það er auðvitað bara brandari. Auðvitað eigum við taka þetta föstum tökum (Forseti hringir.) og það væri útrétt hönd ríkisstjórnarinnar til stjórnarandstöðunnar og við mundum sameinast í þessu sjálfsagða máli og leggja fram tillöguna (Forseti hringir.) og afgreiða hana sem fyrst.



[16:19]
Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt að mínu mati það sem fram kom í máli hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar áðan að umræðan um þessi mál snýst ekki lengur um skattalagabrot eða hvort önnur lög hafi verið brotin yfir höfuð heldur er þetta orðið hápólitískt mál. Það er einmitt í því ljósi sem það er í hæsta máta undarlegt, í það minnsta að mínu viti, að tilteknir hv. þingmenn vilji beita sér fyrir því að Alþingi hlutist til um hlutverk sem á heima hjá framkvæmdarvaldinu. Það er bara eins og menn vilji ýta því til hliðar sem hefur verið grundvallaratriði í stjórnskipan Íslands, sem er þrískipting ríkisvaldsins. (Gripið fram í.) Það er rangt sem fram kom hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um að hér sé bara um að ræða þingsályktunartillögu um almenna rannsókn. Það kemur sérstaklega fram í tillögunni að þessi rannsókn gæti haft áhrif til endurákvörðunar skatta. (Forseti hringir.) Þar með er beinlínis verið að leggja til að Alþingi hlutist til um verkefni sem með sönnu og réttu eiga heima hjá (Forseti hringir.)framkvæmdarvaldinu.



[16:21]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég skil ekki þennan ótta við að taka málið á dagskrá og greiða atkvæða um það og þá kemur í ljós hér í þingsal hvort meiri hlutinn styðji þetta mál eða ekki. Mig langar líka að vekja athygli á því, forseti, að ég var að hlusta á fréttir frá löndunum í kringum okkur þar sem bankastjórar hafa verið kallaðir fyrir þingnefndir bæði í Noregi og Danmörku til þess að fá úr því skorið hvort þeir séu enn með slíka starfsemi sem hefur komið í ljós að er mjög víðtæk þar, en sérstaklega á Íslandi. Mér finnst þingið hér ekki hafa tekið á þessu máli nægilega föstum tökum. Við erum með stærstu fréttirnar í kringum þetta út af því að hneisan er mest hér og við gerum bara ekki neitt.



[16:22]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Samkvæmt skilgreiningu hv. þm. Sigríðar Andersen þá hefði þessi rannsókn hér ekki átt sér stað, Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir. Þetta eru átta bindi. Þau eru öll góð og öll mikilvæg. Þarna steig Alþingi nefnilega fram á grundvelli laga um rannsóknarnefndir. En í gær mælti hæstv. forseti þingsins fyrir einmitt slíku máli, þ.e. um rannsóknarnefndir á vettvangi og í nafni Alþingis Íslendinga. Þannig að það er vandræðalegt að þurfa að standa í slíku orðaskaki um grundvallaratriði við þingmenn Sjálfstæðisflokksins þegar um það er að ræða að víkja sér undan skýrri kröfu og réttu hlutverki Alþingis Íslendinga þegar svo alvarlegir hlutir eru uppi, sem er að taka málið upp á sína arma og leiða það til lykta. Það er alvarlegt að hv. þm. Sigríður Andersen talar hér greinilega fyrir því sem félagar hennar hugsa, (Forseti hringir.) að þetta komi okkur ekki við.



[16:23]
Forseti (Kristján L. Möller):

Forseti vill árétta það við þingmenn að menn noti fullt nafn þegar þingmenn eru ávarpaðir.



[16:23]
Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt sem hér kom fram hjá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur og hefði mátt árétta fyrr í þessari umræðu í dag undir liðnum um fundarstjórn forseta að hér í gær var einmitt mælt fyrir frumvarpi til laga um rannsóknarnefndir Alþingis. Það er sjálfsagt og eðlilegt að það fái framgang enda held ég að samstaða sé um það í þessum þingsal að málið sé brýnt og mikilvægt að vandað sé til verka þegar menn sammælast um að eðlilegt sé að Alþingi hlutist til um rannsóknir á málum, stórum hagsmunamálum þjóðarinnar.

Það má hins vegar velta því hvort til dæmis skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sem hér var veifað og kostaði á annan milljarð kr. ásamt fleiri skýrslum stuttu eftir hrun hafi þjónað tilgangi á þeim tíma. Það sama má segja um það mál sem hér er til umræðu. En það breytir því ekki allt að einu (Forseti hringir.) að í þeirri þingsályktunartillögu sem liggur fyrir er sérstaklega fjallað um það og áréttað að sú rannsókn eigi að vera grundvöllur og forsenda (Forseti hringir.) fyrir endurálagningu skatta. Það stenst ekki þrískiptingu ríkisvalds.