145. löggjafarþing — 102. fundur
 20. apríl 2016.
munnleg skýrsla menntmrh. um þjónustusamning við Ríkisútvarpið ohf., fjölmiðil í almannaþágu, ein umræða.

[16:25]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að hefja mál mitt á því að þakka virðulegum forseta fyrir að koma þessu mál á dagskrá. Ég hafði nefnt það í umræðum um Ríkisútvarpið á síðasta ári, í desember, að vel færi á því að mínu mati að þegar samningur milli menntamálaráðuneytisins og Ríkisútvarpsins lægi fyrir kæmi hann til þings svo að þingmenn hefðu tækifæri til þess að ræða hann.

Ég mun tæpa á helstu atriðum sem ég tel að skipti máli varðandi þennan samning, m.a. borið saman við síðustu samninga, en um leið horfa til þeirra almennu áhersluatriða sem hér birtast. Uppleggið er það að í þessum samningi skuli skilgreina nánar hlutverk skyldur og umfang starfsemi Ríkisútvarpsins við framkvæmd fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Í öðru lagi er samningnum ætlað að setja fram sérstök markmið sem snerta lýðræðis-, samfélags- og menningarhlutverk Ríkisútvarpsins. Í þriðja lagi er ætlunin að kveða á um fjármögnun Ríkisútvarpsins, upplýsingagjöf, miðlun o.s.frv.

Ég vil byrja á því að vekja athygli á þeim þætti sem snýr að framboði, þjónustu og umfangi starfsemi. Þar eru taldir upp þeir efnisflokkar sem getið er um í lögum sem skulu vera í dagskrá Ríkisútvarpsins. Ég vil í upphafi máls míns vekja athygli þingsins á því að tekið er fram í samningnum að dagskrá Ríkisútvarpsins skuli vera með sambærilegum hætti og umfangi og var árið 2015, að teknu tilliti til tekna og gjalda, þannig að dagskrárframboðið og þjónustan geti á samningstímanum dregist saman um allt að 10% miðað við framangreint ár. Vísa ég hér til umræðna sem voru á síðasta þingi um þá stöðu sem upp var komin þar sem útvarpsgjaldið var ákveðið 16.400 kr. með lögum.

Í þeirri umræðu sem snýr að framboði, þjónustu og umfangi starfseminnar vil ég sérstaklega vekja athygli á því, sem er nýmæli, að í þessum samningi er sérstaklega kveðið á um að Ríkisútvarpið skuli ávallt gæta að samkeppnissjónarmiðum. Það er sérstaklega tekið fram og það tel ég að sé til bóta.

Hvað varðar sérstök markmið með samningnum þá eru þau eftirtalin: Í fyrsta lagi menningarhlutverkið. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Ríkisútvarpið skal á gildistíma samningsins leggja aukna áherslu á innlenda dagskrárgerð og færa menningarefni framar í forgangsröðun í dagskrá.“

Annar þáttur, sem er mjög mikilvægur, er aukin kaup af sjálfstæðum framleiðendum. Í samningnum segir, virðulegi forseti, með yðar leyfi:

„Ríkisútvarpið skal styrkja og efla sjálfstæða sjónvarpsþátta-, kvikmynda- og heimildamyndagerð með því að gerast kaupandi eða meðframleiðandi að slíku efni. Á samningstímabilinu skal Ríkisútvarpið kaupa eða vera meðframleiðendur að leiknu sjónvarpsefni, kvikmyndum, heimildarmyndum og öðru dagskrárefni í miðlum Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið skal verja til þess að lágmarki 8% af heildartekjum á árinu 2016, 9% árið 2017, 10% árið 2018 og 11% árið 2019.“

Hér er um umtalsverða aukningu að ræða borið saman við það sem er í öðrum samningum. Legg ég áherslu á og vek athygli á að hér er um að ræða heildartekjur en ekki ríkisframlagið eins og áður var lagt til grundvallar varðandi þessa útreikninga.

Þá vek ég sérstaklega athygli á og fagna mjög, tel að það sé mikið framfaraskref, að innan Ríkisútvarpsins verður stofnuð sérstök eining undir nafninu RÚV-myndir. Hlutverk RÚV-mynda er að stuðla að auknu framboði á leiknu íslensku gæðaefni. Þessari einingu skal stýrt af sérstöku fagráði sem útvarpsstjóri skipar og ber því að starfa eftir gegnsæjum og faglegum starfsreglum. Ríkisútvarpið skuldbindur sig til þess að veita 200 millj. kr. hið minnsta til kaups eða meðframleiðslu á slíku efni í gegnum RÚV-myndir.

Einnig er í samningnum gert ráð fyrir aukinni áherslu á íslenskt efni fyrir börn. Síðan er lögð áhersla á að breyta forgangsröðun erlends sjónvarpsefnis, draga úr engilsaxnesku efni, en auka hlutfall sjónvarpsefnis frá Norðurlöndum og er getið um það í hundraðstölum. Lögð er áhersla á varðveislu og miðlun eldra efnis, þ.e. Gullkistu Ríkisútvarpsins, og lagt upp með að kostnaðargreind áætlun liggi fyrir um það hvernig þar skuli farið með.

Lýðræðishlutverk Ríkisútvarpsins er mikilvægt. Í samningnum eru ákvæði um fréttaþjónustuna sem er í sjálfu sér í góðu samræmi við fyrri samninga. Meðal annars litast þau af þeim kosningum sem fram undan eru, m.a. forsetakosningum; hvernig Ríkisútvarpið muni fjalla um slíkar kosningar, hvernig verði staðið að umfjöllun um stjórnmálaframbjóðendur og flokka og annað slíkt. Ég tel til bóta að það sé komið fram með nokkuð skýrum hætti og skýrari en áður hefur verið.

Hvað varðar aðgengismál þá skal Ríkisútvarpið leitast við að nýta sér tæknilegar lausnir til að tryggja aðgengi þeirra sem eru ófærir um að nýta sér þjónustu með hefðbundnum hætti. Þetta skiptir máli og er meðal annars horft til þeirrar nálgunar sem við sjáum á sambærilegum stöðum á Norðurlöndunum.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á lið 2.3.2 í samningnum sem er þjónusta við landsbyggðina. Þar er lagt upp með að leitast skuli við að halda áfram að efla fréttaflutning og dagskrárgerð af landsbyggðinni.

Hvað varðar öryggismál og almannahlutverk þá er það nýmæli að Ríkisútvarpið skuli starfa eftir öryggisstefnu. Útvarpsstjóri skal skipa öryggisnefnd sem ber ábyrgð á öryggismálum Ríkisútvarpsins. Hún skal að fengnu áliti og í samstarfi við almannavarnir og aðrar viðeigandi stofnanir útbúa öryggisstefnu Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið getur náð fram auknu samstarfi við aðrar stofnanir eins og almannavarnir og ríkislögreglustjóra um Neyðarlínu, þá getur Ríkisútvarpið samið um samstarf um hvað varðar framfylgni á öryggisstefnu Ríkisútvarpsins.

Hér er ákvæði um jafnan rétt karla og kvenna og málstefnu. Það er nýmæli í kaflanum um innra eftirlit og gæðamál, en um slíkt er kveðið á í lögum. Þar er núna farið nánar út í þá þætti. Þar er kveðið á um að stjórn Ríkisútvarpsins skuli setja sér starfsreglur. Gert er ráð fyrir því að settar séu siðareglur — og það hefur verið gert og unnið af starfsmönnum Ríkisútvarpsins — sem skuli gerðar aðgengilegar almenningi. Stjórn Ríkisútvarpsins skal setja reglur um innra eftirlit og gæðamál og þær skal birta fyrir 1. nóvember. Ég vil vekja sérstaka athygli, virðulegi forseti, á þeim þætti að allar lausar stöður skuli auglýstar og ráðið skuli í þær eftir opnu, faglegu og gagnsæju ráðningarferli, jafnframt skuli gætt að því að verktakar séu ráðnir í opnu, faglegu og gagnsæju ferli.

Hvað varðar fjármögnun þá skiptir máli að tekin eru af öll tvímæli um að lagt er upp með það fjármagn sem er tryggt til Ríkisútvarpsins miðað við árið 2016, að það lækki ekki að raunvirði á tímabilinu. Gangi þær forsendur ekki eftir, ef meiri hluti Alþingis hyggst víkja frá því, þá eru hér ákvæði sem er þannig að hvorum samningsaðila er heimilt að fara fram á að samningur verði tekinn upp ef forsendur breytast. Í því samhengi vil ég vekja sérstaka athygli á 3. kafla um fjármögnunina. Þar er fjallað um þær 175 millj. kr. sem árið 2016 var sérstaklega veitt til Ríkisútvarpsins til eflingar á leiknu íslensku sjónvarpsefni. Þar kemur fram að ef ekki verður áframhald á (Forseti hringir.) þeirri fjárveitingu þá fellur skuldbinding Ríkisútvarpsins um aukaframlag til leikins efnis niður.

Virðulegi forseti. Að öðru leyti hyggst ég ekki fara nánar ofan (Forseti hringir.) í þessa þætti. Ég bendi á að ég tel að þessi samningur sé mun ítarlegri en áður hefur verið og sé þar með líka betra stjórntæki fyrir starfsmenn Ríkisútvarpsins, útvarpsstjóra og stjórn til þess að vinna eftir.



[16:34]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú er loksins komin niðurstaða í viðræðum menntamálaráðuneytisins og Ríkisútvarpsins um þjónustusamning nokkrum mánuðum eftir að síðasti samningur rann út. Eins og fram kemur í bókun, sem þrír stjórnarmenn stofnunarinnar lögðu fram nýlega af þessu tilefni, er þessi samningur gerður í skugga verulegs niðurskurðar — og ég vil bæta við í skugga andstreymis og andróðurs sem þessi mikilvæga menningarstofnun og þessi mikilvægi fjölmiðill í almannaþágu hefur mátt sæta mörg undanfarin ár. Í þessum samningi birtist líka, eins og Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins hafa til að mynda bent á, augljóst misræmi milli þess lýðræðis- og menningarhlutverks sem stofnunin á að gegna í orði kveðnu og þeirra aðstæðna sem henni er gert að búa við til að rísa undir hlutverki sínu.

Um lýðræðishlutverkið segir í þessum samningi að Ríkisútvarpið eigi að gera fólki kleift að móta skoðanir sínar og draga ályktanir út frá réttum upplýsingum eftir því sem framast sé unnt hverju sinni. En eins og við höfum séð í atburðarás stjórnmálanna upp á síðkastið, á síðustu vikum, þá skiptir sjálfstæði og styrkur fjölmiðils öllu máli fyrir opna og lýðræðislega umræðu þegar mikið gengur á og er ómetanlegur styrkur í lýðræðissamfélagi, en því miður um leið vanþakkaður eiginleiki og ekki metinn að verðleikum. Það sjáum við í þeim árásum sem Ríkisútvarpið verður oft fyrir, meðal annars hér á þessum vettvangi, og hvernig ráðamenn reyna oft markvisst að sniðganga þennan fjölmiðil og taka sér þar með einhvers konar tyftunarvald yfir sjálfstæðum fjölmiðli.

Við skulum ekki gleyma þeirri ákvörðun stjórnarmeirihlutans í desember síðastliðnum að skerða útvarpsgjaldið, aðaltekjustofn Ríkisútvarpsins, annað árið í röð. Sú ákvörðun hefur orðið til þess að Ríkisútvarpið neyðist til að skera niður grunnstarfsemina um 213 milljónir á þessu ári. Er það niðurskurður sem kemur til viðbótar miklum niðurskurðaraðgerðum undanfarin ár þar sem höggvin hafa verið stór skörð í starfsmannahópinn, dagskrárgerðina og grunnþjónustuna. Enn sem fyrr er Ríkisútvarpið knúið til þess að höggva í sama knérunn, segja upp fólki og skera niður grunnþjónustu og dagskrárgerð til skaða fyrir hlutverk og virkni þessarar mikilvægu stofnunar, sem er útvörður lýðræðis og flaggskip hinnar opnu og upplýstu umræðu.

Samningurinn gerir ráð fyrir að dagskrárframboð og þjónusta geti á samningstímanum dregist saman um allt að 10% miðað við árið 2015. Þessi þjónustusamningur er þannig samningur um skerta þjónustu, eins og bent hefur verið á, og hann vegur að getu Ríkisútvarpsins til að reka öfluga fréttastofu og halda uppi öflugri dagskrárgerð. Það sem er kannski ekki síst mikilvægt, hann frestar löngu tímabærri skráningu og hagnýtingu á eldra efni Ríkisútvarpsins, en þar eru fólgin ómetanleg menningarverðmæti sem ég efast um að fólk almennt geri sér fulla grein fyrir hvers virði eru.

Í nafni jákvæðninnar má líka segja að í þessum samningi megi finna nokkur atriði til bóta. Ég vil til að mynda nefna að það skuli gengið út frá því að þjónustan við landsbyggðina skuli vera tryggð og kveðið á um að innheimt útvarpsgjald miðað við árið 2016 lækki ekki að raunvirði á samningstímanum. Fjallað er um sérstaka fjárveitingu upp á 175 milljónir, sem þegar hefur verið samþykkt á fjárlögum, til að efla leikið íslenskt sjónvarpsefni. Þannig má finna ljósa punkta í þessum þjónustusamningi og kannski segja að þetta sé einhvers konar varnarsigur.

Niðurstaðan er engu að síður sú að þessi þjónustusamningur, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, boðar ekki nýja tíma í rekstri Ríkisútvarpsins. Hann heldur í horfinu eftir langvarandi fjársvelti og andstreymi þessarar mikilvægu stofnunar sem allar kannanir sýna að almenningur vill standa vörð um og efla frekar. Þar gætum við gert betur.



[16:39]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra Illuga Gunnarssyni skýrsluna um þjónustusamning við Ríkisútvarpið fyrir árin 2016–2019. Framsóknarflokkur hefur alla tíð lagt áherslu á starfrækslu Ríkisútvarpsins. Í mínum huga hefur útvarpið mjög mikilvægu hlutverki að gegna í samfélagi okkar í dag. Stöðugt þarf þó að vera í gangi endurmat á áherslum og með því hvaða hætti hlutverkinu er best sinnt á hverjum tíma. Ég er ánægð með þær megináherslur sem birtast í þjónustusamningnum og það hversu ítarlegur hann er, sérstaklega áherslur á íslenskt gæðaefni fyrir börn, þjónustan við landsbyggðina, aðgengi að eldra efni og samstarf um öryggishlutverk, svo og áhersluna á innra eftirlit og ítarlegri ársskýrslur. Kveðið er á um að í allri starfsemi skuli gætt að samkeppnissjónarmiðum og að skýr áhersla verði lögð á menningar- og fræðsluhlutverkið, það fái forgang, þar á meðal áhersluna á íslenskt efni fyrir börn og langar mig að fara sérstaklega yfir nokkrar aðgerðir og viðmið sem snerta það verkefni. Þar er gert ráð fyrir að framleiðslukaup og meðframleiðsla á innlendu barnaefni með fjölbreyttu sniði verði aukin yfir samningstímann.

Lögð er áhersla á að þróa dagskrárefni til að efla læsi barna. Það er sérstaklega mikilvægt í dag, t.d. út frá möguleika tvítyngdra barna til að eiga jafna aðstöðu við að tileinka sér íslenskuna út frá jafnrétti til náms í víðu samhengi og þannig getur Ríkisútvarpið stutt við markmið Heimilis og skóla um betra læsi. Á tímabilinu skal bjóða upp á fræðsluefni á sviði vísinda og tækni sem ætlað er börnum og ungmennum. Þetta er hlutverk sem getur, ef vel er að staðið, stuðlað að því að þau markmið að auka áhuga á tækni og vísindum í samfélaginu almennt náist til lengri tíma litið. Aðgengi á vef Ríkisútvarpsins að barnaefni og safni skal aukið á tímabilinu og er það einn af mikilvægu þáttunum í þessu samhengi. En fleira er talið án þess að ég reki það hér. Þrátt fyrir að ég búi við þær aðstæður í fyrsta skipti á ævinni að á heimilinu eru ekki börn get ég ekki betur séð en við séum þegar farin að sjá þessar áherslur birtast í dagskrá Ríkisútvarpsins.

Að virku innra eftirliti og áherslu á gæðamál. Í þágu þess er gert ráð fyrir að stjórn Ríkisútvarpsins og starfsmenn þess setji sér ýmsar reglur og viðmið. Í mínum huga er innra eftirlit nauðsynlegt og sérstaklega mikilvægt í breytingarferlum. Innra eftirlit birtist í ýmsum myndum, t.d. setningu reglna um starfsemina, gildum og almennum leikreglum um hvernig markmiðum sé best náð. Þannig getur innra eftirlit aldrei orðið betra en sú vinna sem lögð er í að koma því á fót og viðhalda, en jafnframt stuðla að samheldni, jákvæðni og eftirfylgni allra sem koma að því og líkunum á því að markmiðið náist.

Í fyrsta sinn er kveðið á um að Ríkisútvarpið geti gegnt öryggishlutverki sínu í auknu samstarfi við aðrar stofnanir, svo sem almannavarnir, ríkislögreglustjóra eða Neyðarlínuna, ef það er hægt með sama eða lægri tilkostnaði. Ef svo ber undir ber Ríkisútvarpinu að hlutast til um að gengið verði til slíks samstarfs. Ég tel að á síðustu árum höfum við horft á ákveðin mistök við að tengja ekki betur saman þá aðila sem sinna öryggishlutverkinu og fannst mér það til dæmis koma í ljós á meðan á gosinu í Holuhrauni stóð að á þessum vettvangi væri hægt að gera miklu betur með skýrari verkferlum og betri tengingu upplýsinga. Þar hefur Ríkisútvarpið auðvitað lykilhlutverki að gegna. Við höfum góða upplýsingavefi og mælingar hjá stofnunum sem ekki er sérstaklega getið í þjónustusamningnum en ég tel að sé mikilvægt að horfa til í þessu samstarfi, svo sem Veðurstofuna og Vegagerðina og fleiri aðila.

Í þjónustusamningnum er ekki vikið frá þeirri kröfu að dreifing efnis nái til 99,8% heimila í landinu, en það er líka mikilvægt að heimild er til þess að semja við þriðja aðila um dreifingu á efni án þess að heimilin þurfi að leggja út í sérstakan kostnað vegna þess.

Þá er í samningnum gert ráð fyrir ítarlegri sundurliðun í ársreikningi á útgjöldum til einstakra liða í starfsemi RÚV og þetta ásamt árlegri greinargerð, þar sem greint er frá dagskrá og umfangi starfseminnar með ítarlegri hætti, tel ég víst að geti leitt til málefnalegrar umræðu um starfsemi RÚV bæði á Alþingi og í þjóðfélaginu öllu, auk þess sem það á að geta auðveldað forgangsröðun í starfseminni miðað við mismunandi hlutverk.

Þá fagna ég aukinni áherslu á notkun tæknilegra lausna til að koma til móts við þá sem ekki eru færir um að nýta sér hefðbundna fjölmiðlaþjónustu jafnframt því sem tekið skal tillit til aðgengis við kaup, framleiðslu og meðframleiðslu á öllu efni í dagskrá Ríkisútvarpsins.

Þegar á heildina er litið sé ég ekki betur en að þjónustusamningurinn leggi góðan grunn til þróunar öflugra Ríkisútvarps.



[16:46]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar aðeins að koma inn í þessa umræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna.

Ég verð að taka undir það með öðrum stjórnarandstæðingum að mér finnst þetta vera niðurskurðarþjónustusamningur. Það hefur komið fram hjá okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði þegar málefni RÚV hafa verið til umfjöllunar að við erum mjög ósátt við stefnu núverandi stjórnvalda og núverandi menntamálaráðherra þegar kemur að RÚV og hvernig haldið hefur verið á málum þar. Samningurinn er að sjálfsögðu ekki alslæmur, ekki frekar en aðrir samningar, en það breytir því þó ekki að í hann vantar fjármagn og okkur þykja framtíðarmarkmiðin frekar óljós.

Mig langar að byrja á að fara inn á fjárhagslegu hliðina því að hún hefur verið mjög mikið til umræðu. Við höfum orðið vör við að sá viðsnúningur sem hefur orðið í rekstri Ríkisútvarpsins hefur sýnt sig í verki. Það er búið að fækka fólki og það hefur sést á dagskránni, enda viðsnúningurinn gríðarlegur þegar hagnaður ársins er 80 millj. kr. fyrir skatta samanborið við 339 millj. kr. tap árið 2014. Það sér hver maður að það hlýtur að koma einhvers staðar fram, bæði í mannahaldi og eins í dagskrárgerð.

RÚV hefur selt byggingarréttinn, hann er ekki færður vegna fyrirvara í samningnum. Ef það hefði verið gert væri eigið fé 21,6% í staðinn fyrir 6,2%, en það er ágætt að varúðarráðstöfun sé hér höfð að leiðarljósi því að eftir samþykkt fjárlaganna fyrir árið 2016 og ekki síður eftir þennan þjónustusamning er ljóst að hagræða þarf í kringum 213 millj. kr. til að tryggja hallalausan rekstur þetta ár. Það þarf ekki að segja neinum hvað það þýðir í raun, dagskrárgerðin skerðist enn frekar og fólki fækkar meira.

Ég er alveg á því að RÚV eigi að sérhæfa sig og skera sig svolítið úr sem miðill en ég tel ekki miðað við það hlutverk sem honum er ætlað, m.a. að efla enn frekar innlenda dagskrárgerð, að það verði hægt þegar sá niðurskurður sem hér er boðaður heldur áfram út þetta tímabil. Við skulum ekki gleyma að það voru líka kjarasamningshækkanir hjá starfsfólki RÚV. Ef útvarpsgjaldið hefði haldist óbreytt hefði það skilað töluvert meiri fjármunum inn í reksturinn sem hefði skipt máli og komið þar á móti, sem ekki verður.

Yfirskuldsetninguna höfum við rætt oft og tíðum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um hana, ég veit að það hafa verið viðræður við LSR um þau mál: Hefur komið til skoðunar að ríkið eða ráðuneytið yfirtaki þessa skuld ásamt húseigninni að Efstaleiti 1?

Tíminn flýgur frá manni. Mig langar að segja í restina að ég er ánægð með að sjá að það á að tryggja starfsemina á landsbyggðinni. Ég hefði viljað sjá hana eflda enn frekar í staðinn fyrir að halda henni bara þar sem hún er. Það er mikil þörf á því að við heyrum að útvarpið sé virkilega útvarp allra landsmanna. Menn gera sitt besta miðað við þá fjármuni sem eru til verksins en þeir þurfa að vera meiri. Ég er ánægð með að leggja eigi aukna áherslu á íslenskt leikið efni, en tvöfalda á framlagið til leikins efnis, en forsendan er að útvarpsgjaldið lækki ekki að raunvirði, svo að það sé sagt, á samningstímanum. Það er mjög mikilvægt.

Krakka-RÚV er einstaklega vel heppnað og gott verkefni. Það er eitt af því sem á að reyna að efla. Ég vona svo sannarlega að það takist en ég hef efasemdir um að hægt verði að gera enn betur miðað við það sem RÚV stendur frammi fyrir eftir þennan samning.

Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa talað um Gullkistuna. Það er gríðarlega mikið efni sem við þurfum að koma yfir á varanlegt stafrænt form. Þetta er eitt af því sem hefur að gera með framtíðarsýnina, hér á að framkvæma kostnaðarmat og svo á að taka ákvörðun um hvort á að gera eitthvað við verkefnið. Ég held að alveg ljóst sé að við getum ekki látið hjá líða að taka þetta inn á einhvern hátt og varðveita þannig að framtíðarfólkið okkar hafi aðgang að efninu. Ég vona svo sannarlega að það verði sýnt í þeirri stefnumótun sem Ríkisútvarpið á að koma fram með á þessu ári, hvernig það eigi að þróast til framtíðar, (Forseti hringir.) að það verði inni. Og að Alþingi sjái sér fært að styðja almennilega (Forseti hringir.) við bakið á RÚV þannig að það geti starfað sómasamlega.



[16:51]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Í hinu breiða pólitíska samhengi eru auðvitað skiptar skoðanir um það yfir höfuð hvort ríkið eigi að reka fjölmiðil eða ekki. Það er vissulega áhugaverð umræða en ég held að við hljótum öll að geta verið sammála um að ef við ætlum að hafa ríkisútvarp, sjónvarp, ríkisfjölmiðil, þá sé ekkert vit í öðru en að gera það vel, annað er náttúrlega sóun á peningum. Mér finnst þessi þjónustusamningur bera því vitni að menn eru á þeirri skoðun og vilja setja sér metnaðarfull markmið. Hins vegar hefur ýmislegt gerst á þessu kjörtímabili og undanförnum árum sem gera mann tortrygginn gagnvart því hvort menn séu allir á sömu blaðsíðunni varðandi það hvort við getum myndað sátt um Ríkisútvarpið.

Það fyrsta sem var gert á kjörtímabilinu var að gera stjórnina aftur pólitíska. Mér fannst það skref aftur á bak. Mér fannst líka mjög slæmt að fyrst hún var gerð pólitísk skyldu ekki allir flokkar á Alþingi hafa fulltrúa í stjórninni, svo að það sé sagt strax í upphafi. Ég vona að þetta verði leiðrétt við næsta stjórnarkjör á Alþingi, sem mun eiga sér stað bráðlega. Það er alla vega lágmark að í stjórninni séu fulltrúar allra sjónarmiða á þingi fyrst hún er aftur orðin pólitísk.

Svo hefur mér fundist mjög slæmt hvernig hefur verið vegið að sjálfstæði stofnunarinnar en sjálfstæði stofnunarinnar er algjört lykilatriði í því að hún sé góð, held ég að mér sé óhætt að segja. Það hefur verið vegið að sjálfstæðinu með stöðugum hringlandahætti varðandi fjárveitingar til stofnunarinnar. Þetta er mjög slæmt. Þetta skapar einfaldlega það andrúmsloft að stjórnmálamenn í áhrifastöðum í þessum sal geta kerfisbundið vegið að sjálfstæði stofnunarinnar og þar með grafið undan henni. Það er algjört lykilatriði þegar kemur að ríkisreknum fjölmiðlum á Íslandi, og hvar annars staðar sem þeir kunna að vera, að það sé tryggur fjárhagslegur grundvöllur og hann sé markaður til margra ára og menn geti gengið að honum vísum, alla vega hvað varðar fjárveitingar frá hinu opinbera, og það sé ekki mikið verið að krukka í það. Þetta hefur ekki tekist á kjörtímabilinu, því göfuga markmiði hefur ekki verið náð.

Hins vegar eru vísbendingar um það í þjónustusamningnum að menn hafi séð ljósið í þessu. Þar er kveðið á um að fjárframlög til Ríkisútvarpsins skuli ekki lækka að raungildi miðað við þetta ár til 2019. Það er gott. Það er gott hvað varðar hinn fjárhagslega fyrirsjáanleika og stöðugleika sem þarna er fenginn en hins vegar er dökka hliðin á þessu að þarna er miðað við árið 2016, sem er auðvitað ár þar sem útvarpsgjaldið var lækkað. Það slær aðeins á metnaðinn í þjónustusamningnum. Hins vegar er þetta mjög mikilvægt og örugglega það mikilvægasta sem hver ríkisfjölmiðill getur fengið, þ.e. fyrirsjáanleiki í framlögum.

Það vakna spurningar þegar kemur að þessu. Það er talað um að framlögin frá ríkinu eigi ekki að lækka eða að útvarpsgjaldið eigi ekki að lækka að raunvirði. Ég geri ráð fyrir að það sé miðað við neysluvísitölu eða eitthvað slíkt en það koma aðrir þættir inn í. Það er til dæmis horft á það hvort framlög til annarra stofnana hækki eða lækki. Hvaða þýðingu hefur það í þessu samhengi? Hvaða þýðingu hafa væntanlegir eða hugsanlegir kjarasamningar sem verða gerðir á tímabilinu? Það er í sjálfu sér engin trygging í því fólgin fyrir Ríkisútvarpið að geta tekist á við óvænt útgjöld. En engu að síður er þetta jákvætt skref og vonandi heldur það. Vonandi verður fyrirsjáanleiki í framlögum til Ríkisútvarpsins á komandi árum svo ekki verði vegið að sjálfstæði stofnunarinnar með alls konar kænskubrögðum í þingsal og alls konar tilburðum til að minnka framlögin héðan.

Svo er líka annar óvissuþáttur hvað varðar fjármögnun sem er sérstakt framlag til efniskaupa, 175 millj. Eins og ég skil það er engin trygging fyrir því í þjónustusamningnum að það framlag haldi. Það er einstaklega slæmt fyrir sjálfstæða framleiðendur í landinu, kvikmyndaiðnaðinn, að geta ekki gengið að því sem vísu að þetta framlag verði árlegt út samningstímann. Óvissan er slæm í þessu eins og öðru.

Mér finnst samningurinn góður að forminu til. Það eru skýr markmið í honum. Ég held að hann sé gagnsær að því leyti að menn ættu að geta leitað í hann og athugað hvort þeir hafi náð markmiðunum, sem eru góð, um þjónustu við landsbyggðina, um lýðræðishlutverk Ríkisútvarpsins, um aðgengi allra, um Krakka-RÚV, sem hefur verið nefnt, og um ýmsa þjónustu sem við viljum að sé fyrir hendi.

Ég fagna sérstaklega að gefa eigi í varðandi kaup á innlendu efni og framleiðslu á leiknu íslensku efni. Ég held að þetta muni verða þróunin og það hefur verið þróunin í nágrannaríkjunum að hlutfall þessa þáttar í starfsemi ríkisfjölmiðla hefur stækkað mjög mikið og er í sumum löndum, að ég held, kominn í allt að 30% af heildarumfangi ríkisfjölmiðils. Þetta held ég að verði klárlega þróunin og blessunarlega. Við sjáum mjög metnaðarfulla þróun í nágrannalöndunum, eins og t.d. í Danmörku þar sem danska ríkissjónvarpið framleiðir mjög flott efni sem er keypt á heimsvísu. Vonandi nær Ríkissjónvarpið líka að festa sig í sessi sem framleiðandi og kaupandi á metnaðarfullu og góðu íslensku efni. Það er án efa hárrétt stefnumörkun.

Svo aðeins um Gullkistu RÚV. Þetta er ágætisnafn vegna þess að í gömlu efni sem Ríkisútvarpið á og hefur safnast upp í gegnum tíðina er fólginn fjársjóður. Þarna hef ég smá áhyggjur. Í þjónustusamningnum er aðeins kveðið á um að gera eigi einhvers konar kostnaðarmat á því hvað það kostar að varðveita allt þetta efni og koma því á stafrænt form. Ég held að menn séu svolítið að fresta vandanum. Ég held að það blasi við (Forseti hringir.) ógnarstórt verkefni og tíminn er óvinur okkar í því. Þetta efni er að skemmast (Forseti hringir.) og það yrði hryllilegt fyrir menningararfleifð landsins ef það mundi gerast. Ég held að menn þurfi að mynda þverpólitíska samstöðu um að gefa í og koma þessum fjársjóði, (Forseti hringir.) gullkistunni, í stafrænt skjól.



[17:00]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir það tækifæri sem við þingmenn fáum til að ræða þennan þjónustusamning. Þessi samningur er merkilegur fyrir margra hluta sakir og heyrir mjög til framfara fyrir okkur, bæði okkur sem hér störfum og eins þá sem nýta sér þjónustu RÚV og starfa hjá RÚV, til þess að skilja og fara yfir og átta okkur á því hvert markmið stofnunarinnar á að vera þannig að við sjáum hér með hvaða hætti hlutverk, skyldur og umfang starfsemi Ríkisútvarpsins verði framkvæmd í raun. Það er mikilvægt, þegar við erum að setja mikla fjármuni skattgreiðenda í verkefni, að við vitum hvað við ætlum okkur með því. Hvað er það sem við ætlum okkur að fá fyrir þá fjármuni, hvað er það sem skattgreiðendur eru í raun að kaupa? Þessi samningur segir okkur það. Það er mikilvægt og það er vel.

Það er ánægjulegt að sjá hversu djúpt er farið í hlutverkið í þessum samningi. Ég verð að segja að það er talsverður munur á þeim þjónustusamningi sem við hér ræðum og þeim hinum fyrri sem var í gildi. Við sjáum hér áherslur og stefnumótun um það hvernig stofnunin á að beita sér og er menningarhlutverkið þar efst á lista. Einnig er fjallað um almannavarnir sem við höfum oft rætt hér í þingsalnum, hvað felst í raun í hlutverki RÚV í almannavörnum. Hér er fjallað um það og gert ráð fyrir því að það sé fest enn frekar í sessi hvað nákvæmlega það er sem það hlutverk felur í sér og til hvers við getum ætlast af stofnuninni. Við sem búum í héruðum þar sem náttúruvá er yfirvofandi áttum okkur á mikilvægi þess að hafa stofnun sem þessa, en við eigum líka að geta gert kröfur um ákveðna þjónustu. Það er gott að hér sé leitast við að skilgreina það enn frekar.

Það er fleira sem telja má mikilvægustu punktana í þessum samningi. Margir hafa komið inn á það hlutverk sem Ríkisútvarpinu er ætlað að sinna gagnvart börnum. Það er sérstakt fagnaðarefni að ráðherra og stofnunin skuli leggja sérstaka áherslu á íslenskt efni fyrir börn, í ákvæði 2.1.3 í samningnum. Sumir gætu sagt að það ætti að leggja enn meiri fjármuni og enn meiri áherslu á efni fyrir börn. Við höfum stundum talað um það í þessum sal að mikil verðmæti séu í því fólgin að vera á fámennu málsvæði, að eiga lítið tungumál, og þess vegna eru auknar skyldur á okkur að vernda tunguna. Við gerum það best með því að sjá til þess að æska þessa lands alist upp við að heyra góða íslensku og fái tækifæri til þess að horfa á íslenska afþreyingu. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að þessi áhersla sé svo sterk í þessum samningi og algjörlega gert ljóst að þrátt fyrir að farið verði í niðurskurð á stofnuninni sé þetta atriði sem eigi að halda sér.

Þá er líka mjög mikilvægt, sem hér kemur fram, að auka eigi hlutfall norræns efnis í Ríkisútvarpinu. Við þekkjum það að áherslan á danska tungu, svo að hún sé tekin hér sérstaklega, hefur minnkað mjög í íslensku samfélagi. Við finnum það meðal annars í því alþjóðastarfi sem þingið tekur þátt í, það eru ekki mjög margir sem treysta sér til þess að nota danska tungu. Það er afturför. Meðan við ekki bjóðum upp á efni þar sem maður getur æft sig í því ágæta máli þá fer kunnáttunni aftur, maður þekkir það sjálfur. Þess vegna er þetta áhugaverð klausa í þessum samningi. Ég tel að við getum öll verið stolt af því að fjallað sé sérstaklega um það hér.

Talsvert hefur verið talað um Gullkistu Ríkisútvarpsins, en til framtíðar litið er gríðarlega mikilvægt að hér sé verið að festa það í sessi með hvaða hætti eigi að fara í að varðveita hljóðritanir, filmur, myndefni og aðrar sögulegar minjar sem hafa vissulega mikla þýðingu fyrir þjóðina okkar. Allir sem hafa verið að horfa á RÚV á þessu ári og sjá gömlu gullmolana sem verið er að sýna hafa áhuga á að sjá meira. Þess vegna er það mikið fagnaðarefni að verið sé að tryggja varðveisluna og vonandi að í framtíðinni verði hægt að fletta upp hvaða frétt sem er og hvaða áramótaskaupi sem er og kynna sér hver tíðarandinn var á hverjum tíma.

Heilt yfir er þessi samningur mikið fagnaðarefni. Við eigum öll að vera ánægð með að verið sé að stíga þetta skref, að skýra enn frekar hlutverk RÚV og til hvers er ætlast til framtíðar. Það kemur svolítið á óvart hér í umræðunni að menn séu óánægðir og hafi búist við því að við sæjum samning þar sem stórauknum fjármunum væri lofað inn í reksturinn. Ég held að það sé alls ekki hlutverk ráðherra né stofnunarinnar við gerð þjónustusamnings sem þessa að vera með slík fyrirheit. Þvert á móti. Verkefnið er að skilgreina hvert markmiðið með rekstrinum eigi að vera, hvaða þjónustu verið sé að kaupa og hvaða áherslum eigi að sinna í þeim störfum. Það var verkefnið við gerð þessa samnings. Það tel ég að hafi tekist sérstaklega vel hjá ráðherra og stofnuninni. Það verður spennandi og skemmtilegt að fylgjast með því hvernig þetta gengur allt saman á samningstímanum.



[17:06]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er að sjálfsögðu ánægjulegt að komin sé niðurstaða í viðræður um þjónustusamning RÚV þremur mánuðum eftir að síðasti samningur rann út. Samningurinn er ekki alslæmur, þó það nú væri. Hið góða við samninginn hefur þegar verið rakið í ræðum annarra hv. þingmanna sem töluðu á undan mér og því hyggst ég einungis taka undir orð þeirra í stað þess að endurtaka þau.

Það eru nokkur atriði í samningnum, forseti, sem ég óska eftir að hæstv. ráðherra geri betur grein fyrir svo að hægt sé að fyrirbyggja misskilning og mér finnst vert að vekja athygli á. Ég spyr hvað átt sé við nákvæmlega hér, með leyfi forseta:

„Í þágu gæða og fagmennsku er einnig gert ráð fyrir að starfsfólk Ríkisútvarpsins starfi eftir siðareglum og að fréttareglur fréttastofu verði uppfærðar. Jafnframt er kveðið sérstaklega á um hlutleysisskyldu fréttastofu og að ólík sjónarmið komi fram.“

Mig langar að vita hvort eitthvað í fyrri störfum fréttastofu kalli á slíkar áherslur, forseti. Af hverju er tekið sérstaklega fram að allt efni sem ætlað sé börnum og ungmennum sé óhlutlægt, sé óháð stjórnmálalegum, hugmyndafræðilegum og efnahagslegum hagsmunum? Er eitthvað sem kallar sérstaklega á þessar kvaðir, forseti? Eru þetta viðbrögð við einhverjum sérstökum tilvikum?

Ég hef áhyggjur af RÚV og er með sanni ekki sú eina sem hefur áhyggjur af þeirri aðför að tjáningarfrelsinu sem endurspeglast í siðareglum RÚV. Því til útskýringar langar mig að vísa í orð blaðamannsins Jakobs Bjarnars Grétarssonar, með leyfi forseta:

„Ég er ekki viss um að fólk átti sig á því í hverju gagnrýnin á þessar glórulausu siðareglur RÚV felst. Margir falla sjálfkrafa í einhvern meðvirkni- og varnargír þegar RÚV er annars vegar. Og það sé nú bara gott að blaðamenn séu kurteisir og hlutlausir.

Starfsfólk RÚV er ekkert endilega rétta fólkið til að teljast marktækt um þessa skelfingu; þessa sem félagar þeirra skrúfuðu saman. Kerfið funkerar þannig að það gerir fólk samdauna sér og það á við í þessu sem öðru.

Aukinheldur: Þetta er ekki einkamál þeirra. Þetta snýst ekki um hvort einhver hafi skrúfað niður í skoðanaríkum Helga Seljan, sem verið er að gera hvað sem hann segir, eða að við verðum af pistlum Eiríks Guðmundssonar sem mér persónulega finnst afleitt. Hér er talsvert miklu meira í húfi.

„Starfsfólk, sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og dagskrárgerð tekur ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þ. á m. á samfélagsmiðlum.“

Ýmis önnur ákvæði þarna eru hin undarlegustu, en þetta hefur vakið mesta athygli því að það virðist hreinlega stangast á við stjórnarskrá. Það er mikill munur á því að beina slíkum tilmælum til starfsmanna, að því gefnu að forsendur séu réttar, og svo því að skrá þær í formlegar siðareglur.

Hlutleysi getur ekki falist í því að berja niður skoðanir eða krefjast þess að fólk pukrist með þær. Ég skelfist hreinlega fólk sem hugsar, eða hugsar bara alls ekki neitt, eftir slíkum leiðum. Grundvallaratriði, ef það á að vera snefill af viti í þessari umræðu, er að menn kunni að gera greinarmun á persónulegum skoðunum blaðamanna og svo faglegum vinnubrögðum. Mönnum ber að finna gagnrýni sinni stað í fréttum og umfjöllun en ekki í einhverju sem til dæmis var sagt einhvern tíma á Facebook.

Marklaus gagnrýni, sem byggir á ranghugmyndum og vanþekkingu, er gerð gild; þeir sem eru í vanda fara alltaf fyrst í það að gera fréttamennskuna tortryggilega. Nú er það hægur leikur.“

Mér finnst þetta mjög hættuleg þróun. Mér finnst óþægileg þessi krafa frá ráðuneytinu um siðareglur og hvernig þeim var háttað. Kannski út af því sem kemur fram í því sem ég vitnaði í í fyrri ræðu minni og er tengt við siðareglurnar. Mig langar að spyrja hæstv. menntamálaráðherra, sem ég veit að er víðsýnn maður, hvort honum finnist þetta ekki háskaleg vegferð.

Mig langar líka að koma aðeins inn á hið stafræna sjálf RÚV og þau vonbrigði sem ég fundið fyrir, að ekki sé settur meiri þungi í að byggja þetta stafræna sjálf upp, hvort sem það er stafræn hlið vefs og fréttaþjónustu Ríkisútvarpsins, sem þó hefur margt gott verið gert í nýverið, og síðan að ekki eigi að nýta sér það sem býr í Gullkistunni. Það er hreinlega dapurlegt og það er stórhættulegt menningararfleifðinni að slá því á frest. Nú þegar hefur mikið glatast af menningarsögu okkar sem var geymd hjá RÚV út af því að það hreinlega skemmdist. Ég er áhyggjufull yfir því að ekki eigi að gefa í og mig langar að vita af hverju ekki er lögð meiri áhersla á það.

Ég hef átt í samræðum við hæstv. ráðherra um mikilvægi Gullkistunnar og stafræna þjónustu hjá RÚV. Mér hefur alltaf heyrst að við værum sammála, þannig að það kemur mér svolítið á óvart að ráðherra, sem hefur mikinn áhuga á menningu og er ráðherra menningar, skuli ekki leggja meiri áherslu á að varðveita okkar gömlu menningu betur.

Mig langar líka að benda þeim sem hafa áhuga á að kynna sér ólík sjónarmið varðandi þennan samning að kynna sér ályktun frá Hollvinum Ríkisútvarpsins sem mér finnst mikilvægt að halda til haga. Ég hef því miður ekki tíma til að rekja hana hér, en það má finna hana á Facebook-síðu félagsins. Hvet ég sem flesta sem unna Ríkisútvarpinu til að láta sig þau málefni varða í gegnum Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins.



[17:13]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst í þessari umræðu þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir að koma með inn í þingið þjónustusamning við Ríkisútvarpið í fyrsta sinn. Ég held að það sé mjög mikilvægt að umræða um þjónustusamning fari fram í þingsal og hér sé mörkuð afstaða til hans og hæstv. ráðherra heyri hana. Ég held að þetta sé líka mikilvægt til að losa Ríkisútvarpið úr þeirri úlfakreppu stjórnmálalegra átaka sem hefur einkennt umgjörðina um það þetta kjörtímabil. Við verðum að tala um hlutina eins og þeir eru. Ríkisútvarpið hefur búið við skipulegt einelti af hálfu afla innan ríkisstjórnarflokkanna. Ég ætla ekki að setja hæstv. menntamálaráðherra í þann hóp og ég ætla ekki að setja alla stjórnarþingmenn í þann hóp, en ráðandi öfl í flokkunum hafa komið fram með algjörlega óásættanlegum hætti gagnvart Ríkisútvarpinu. Nú þegar Ríkisútvarpið hefur leikið lykilhlutverk í því með okkur að upplýsa um fjárhagsupplýsingar ráðamanna sem leynt áttu að fara þá sjáum við enn betur en nokkru sinni áður mikilvægi frjálsrar og öflugrar fjölmiðlunar í landinu og hversu óhemju mikilvægt er að standa vörð um Ríkisútvarpið. Ég þykist kenna í ræðum talsmanna stjórnarflokkanna í fyrri hluta þessarar umræðu annan tón, allt annan tón í garð Ríkisútvarpsins en gætt hefur í umræðum undanfarin ár. Ég ætla að leyfa að mér að vona að það boði gott og að þau öfl sem hafa einbeitt sér að hatursherferðinni gegn Ríkisútvarpinu innan stjórnarflokkanna hafi nú verið snúin niður. Ég ætla að leyfa mér að vona það.

Í umræðunni hefur aðeins verið fjallað um siðareglurnar og umgjörð þeirra og vil ég leggja áherslu á það að Ríkisútvarpið fái vernd fyrir umræðu af því tagi sem hefur verið ráðandi í stjórnmálalífinu á undanförnum árum í framtíðinni. Leiðin til þess held ég að sé sú, eins og ég hef áður viðrað úr þessum ræðustól, að Ríkisútvarpinu verði búin alþjóðleg vernd, þ.e. að alþjóðlegar stofnanir eins og Danmarks Radio eða BBC, sérfræðingar þaðan, sitji með Ríkisútvarpinu og útbúi með því siðareglur en votti jafnframt að það verklag sem Ríkisútvarpið hefur í heiðri sé í samræmi við alþjóðlega viðurkennda staðla og hlutleysiskröfur og verji þannig í reynd Ríkisútvarpið fyrir andlegu ofbeldi eins og það hefur mátt sæta af öflum innan stjórnarflokkanna á undanförnum árum.

Virðulegi forseti. Ég legg áherslu að þessi samningur er til vitnis um þann aðdáunarverða metnað og nýbreytni sem við höfum séð í dagskrárgerð Ríkisútvarpsins á undanförnum missirum, skýra stefnu sem ég held að sé mjög mikilvæg. Má kannski benda aðallega á þrjá þætti, eins og hér hefur mikið verið fjallað um; innlenda leikna dagskrárgerð, dagskrárgerð fyrir börn, sem er auðvitað forsenda máltöku barna sem búa í allt öðru alþjóðlegu stafrænu umhverfi en börn bjuggu í fyrir tíu árum síðan, svo ekki sé farið lengra aftur í tímann, og í þriðja lagi fréttaflutningur af landsbyggðinni. Það er mjög mikilvægt að undirstrika varðandi umgjörð fjármála Ríkisútvarpsins, þar sem við höfum í stjórnarandstöðunni stutt við hæstv. fjármálaráðherra gegn tregðulögmálsöflum í hans eigin stjórnarflokkum, að það liggur í augum uppi að fjármögnunin dugar ekki til að finna þessum áhersluatriðum fullnægjandi endurspeglun í dagskránni í framtíðinni. Við sjáum fram á verulegan samdrátt í dagskrá á næstu árum og þetta kemur best í ljós í þjónustusamningnum þegar vísað er til skilyrta framlagsins upp á 175 milljónir, með öðrum orðum er einskiptis skilyrt framlag skilgreint þannig í samningnum að ef það falli niður þá detti niður skyldur Ríkisútvarpsins til leikinnar dagskrárgerðar. Ekkert sýnir betur að núverandi fjárhagsumgjörð er ekki sjálfbær.

Ég vil þess vegna hvetja hæstv. menntamálaráðherra áfram til dáða í því að styðja við þessa fjárhagsumgjörð að öðru leyti. Við skulum styðja hann í að fjármagna rekstrarramma fyrir Ríkisútvarpið sem gerir því kleift að sinna þessum mikilvægu verkefnum. Ég held að stofnunin hafi sýnt eindreginn áhuga á að taka á allri óráðsíu í rekstri og laga allt sem aflaga hefur farið. Það er engin leið að hafa nokkuð upp á stofnunina að klaga lengur.



[17:19]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum þjónustusamning hæstv. ráðherra og Ríkisútvarpsins ohf. um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu fyrir árin 2016–2019. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta yfirlit og tækifærið sem við fáum hér til að ræða þennan mikilvæga samning. Ég ætla að rýna og ræða samninginn í samhengi við lögin og draga fram það sem er markvert í honum. Hann er þó það viðamikill og margt jákvætt sem hægt er tala um, eins og komið hefur fram í ræðum margra hv. þingmanna, að það verður að tína það helsta til.

Í 2. gr. laga um Ríkisútvarpið er fjallað um eignarhald og samning um fjölmiðlun í almannaþágu. Á grundvelli þeirrar lagagreinar er þessi samningur gerður. Þar segir meðal annars að í samningi skuli nánar kveðið á um markmið, hlutverk, skyldur og umfang starfseminnar samkvæmt 1. og 3. gr. laganna. Í honum skuli einnig kveða á um fjármögnun fjölmiðlunar í almannaþágu á öllu samningstímabilinu.

Ég vil segja um fjármögnun að samkvæmt 14. gr. laganna er fjármögnun tryggð og fullt samræmi þar, en það er nýmæli í samningum að fjármagnið skuli halda raunvirði sínu á tímabilinu miðað við árið 2016. Það er mjög jákvætt og umfram lagalegar kvaðir og finnst mér það styrkur í samningnum.

Í lagarammanum eru forsendur samningsins nokkuð skýrt afmarkaðar, mikilvægar forsendur slíkrar samningsgerðar. Í 1. gr. laganna er fjallað um hlutverk Ríkisútvarpsins og segir að markmið þess sé að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni. Einnig segir að Ríkisútvarpinu sé falin framkvæmd eins og nánar sé kveðið á um í lögunum.

Ég vildi draga fram að vissulega eru markmiðin og hlutverkið háleitt en um leið er þetta mjög huglægt og ekkert óeðlilegt að á hinum pólitíska vettvangi skapist oft umræða sem tengist álitamálum um umfjöllun, hlutverkið er þannig séð krefjandi og víðtækt. Í slíkum samningi reynir á efnisval, framsetningu efnis og upplýsingagjöf, miðlun og tegund miðlunar og ekki síst framkvæmdina og hvernig henni er háttað. Þar ber að taka tillit til þeirra hræringa og breytinga sem eru á þessum markaði.

Þess má sjá stað í 3. gr. laganna sem fjallar ítarlega um hlutverkið og skyldurnar, almannaþáguhlutverkið, lýðræðishlutverkið, menningarhlutverkið og faglega starfshætti, kröfur okkar um faglega starfshætti. Í lögunum er lögð áhersla á hið almenna hlutverk miðlunar til allra landsmanna óháð búsetu, að dreifa skuli efni með a.m.k. tveimur hljóðvarpsdagskrám og einni sjónvarpsdagskrá og síðan er það öryggishlutverkið. Þar er jafnframt kveðið á um varðveislu efnis með áherslu á sögulegt og menningarlegt gildi.

Efnisvalið í samningnum er nokkuð vel tilgreint. Þar skulu vera á dagskrá fréttir og fréttaskýringar, lista- og menningarþættir og efni fyrir börn og ungmenni. Ég ætla að fagna því sérstaklega hversu mikil áhersla er á efni fyrir börn og fjölskylduefni í samningnum.

Í öðru lagi ætla ég að ræða lýðræðishlutverkið og hvernig skuli staðið að því í lögunum. Það er nokkuð niðurnjörvað í grundvallarreglum umfram það sem kveðið er á um í samningnum sjálfum, en hlutlægniþáttinn held ég að ég verði að draga fram hér. Í samningnum er í fyrsta sinn gert ráð fyrir virku innra eftirliti og áherslu á gæðamál, sem er mjög athyglisvert þar sem stjórn Ríkisútvarpsins er gert að setja reglur sem kveða á um slíkt eftirlit með hlutleysis- og sanngirnisskyldu. Ég held að mjög markvert skref sé tekið hér.

Varðandi menningarhlutverkið vil ég segja að það er auðvitað margt undir þar; tungan, sagan, arfleifðin og náttúran. Mér finnst mikilvægt í samningnum að áhersla er á aukið samstarf við Kvikmyndamiðstöð og sjálfstæða framleiðendur við gerð íslensks leikins myndefnis.

Þegar við hugum að lýðræðislegu hlutverki og starfsháttum er ekki annað hægt að segja en að veruleg viðleitni sé sýnd í samningnum til að mæta þeirri lögbundnu kröfu. Þar má nefna siðareglur starfsfólks Ríkisútvarpsins sem eru að fyrirmynd danska ríkissjónvarpsins. Jafnframt er kveðið skýrt á um virkt innra gæðaeftirlit sem ég kom inn á áðan.

Tíminn flýgur frá mér. Ég ætla að tiltaka þá liði sem er vert að nefna, eins og RÚV-myndir. Dagskrárgerð á landsbyggð er efld og tryggð og varðveisla og miðlun eldra efnis og hvet ég hæstv. ráðherra til að klára það mál eins og kveðið er á um í samningnum.

Ég vil segja í lokin að ég hef reynt að rýna þennan samning út frá lagaskyldu um markmið og hlutverk. Ég fagna þeim nýmælum sem hér er að finna, sem eru til þess fallin að Ríkisútvarpið verði áfram fært um að rækja hlutverk sitt (Forseti hringir.) sem sjálfstæður, óháður og faglegur miðill.



[17:26]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þjónustusamning hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra við Ríkisútvarpið til ársins 2019. Þessi þjónustusamningur er því miður niðurskurðarsamningur þar sem hæstv. ráðherra mennta- og menningarmála ákveður að draga úr fjárveitingum til almannafjölmiðilsins sem er í eigu almennings og í þjónustu almennings. Það er sorglegt svo að ekki sé meira sagt, sér í lagi á tímum þegar brýn nauðsyn er á upplýstri og vandaðri samfélagsumræðu og fréttaflutningi.

Virðulegi forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að búið er að ákveða fjárveitingar til Ríkisútvarpsins í fjárlögum fyrir árið, en í þeim þjónustusamningi sem við ræðum um er því ekki einu sinni lýst yfir af hálfu ráðherra að hann hafi vilja til eða áhuga á að tryggja aukna fjármögnun til almenna fjölmiðilsins. Það hefði hæstv. ráðherra getað gert og sýnt um leið í áherslum sínum í samningnum að andstaða hans, sem hann lýsti yfir við lækkun nefskatts RÚV til handa, hefði verið raunveruleg andstaða, að hann stæði raunverulega með almannafjölmiðlinum og mundi berjast fyrir tryggri fjármögnun.

Það eru önnur atriði sem ég tel gagnrýnisverð í þjónustusamningi ráðherra við Ríkisútvarpið. Það er meðal annars hvernig stjórnmálamenn og þar með hæstv. ráðherra sjálfur hafa beintengt þjónustusamninginn við nýjar siðareglur fyrir fréttamenn og fréttastofu. Það tel ég afar varhugavert. Allra heilbrigðast væri að pólitískt skipuð stjórn og framkvæmdastjórn, og/eða aðrir yfirmenn Ríkisútvarpsins á borð við ráðherra sjálfan, hefðu engin afskipti af siðareglum fréttamanna. Bið ég þá frekar um að félagar í Félagi fréttamanna fengju sjálfir að semja sínar eigin siðareglur og best væri, ef ég má leggja til hugmynd inn í það verkferli, að helstu sérfræðingar í siðfræði og fjölmiðlun kæmu þar að.

Annað atriði sem ég vil vekja athygli á og tel því miður ekki nógu gott í þessum þjónustusamningi er að í honum eru eyrnamerktar heilar 175 milljónir til sjálfstæðrar framleiðslu á sjónvarpsefni eða til útvistunar á framleiðslu. Eðlilega mótmæltu allir framkvæmdastjórar Ríkisútvarpsins þessari ákvörðun ráðherrans. Enda þó að það sé góð ákvörðun að styðja við innlenda sjónvarps- og kvikmyndagerð þá er það mín skoðun að það eigi að koma úr öðrum fjárlagaliðum en í skilyrtri einskiptisgreiðslu. Hefði ekki verið betra að styðja betur við sjónvarpsframleiðslu Ríkisútvarpsins sem unnin er af hálfu starfsfólksins sem þar vinnur og er einn mikilvægasti vinnustaður fólks sem vinnur við sjónvarpsgerð? Hvað þýðir þetta varðandi starfsöryggi fólksins sem vinnur við framleiðslu hjá sjónvarpinu?

Að lokum vil ég nefna það sem mér finnst jákvætt í þessum þjónustusamningi og það er áherslan á íslenskt efni fyrir börn. Eins og við vitum flest þá er yfirheiti þeirrar þjónustu Krakka-RÚV. Þar tel ég vera stigin afar mikilvæg skref til að tryggja börnum og unglingum val á úrvalssjónvarpsefni. Það er framtíðarákvörðun sem ég tel að útvarpsstjóri eigi mestan heiður af og þakka ég honum vel fyrir þær áherslur og að standa vörð um þær. Það eru líka fleiri sem eiga þakkir skilið, það er starfsfólk Ríkisútvarpsins. Það á miklar þakkir skilið fyrir þrautseigju og dugnað á niðurskurðar- og uppsagnartímum í tíð núverandi ríkisstjórnar; fyrir að hafa staðist þær atlögur sem hafa beinst að þeim úr öllum áttum frá stjórnarþingmönnum.

Starfsfólk RÚV: Ég þakka ykkur kærlega fyrir að bera borð okkar úrvalsfjölmiðlun við erfið starfsskilyrði. Vonandi sjáum við betri tíma fyrir Ríkisútvarpið í nálægri framtíð.



[17:30]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir að færa okkur skýrslu um þennan samning og gefa okkur tækifæri til að ræða hann. Ég fagna þessum samningi mjög. Hann tryggir það hvernig framkvæmdarvaldið hyggst framkvæma og fylgja eftir þeim lögum og þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið hér á Alþingi og hvernig þeim fjármunum sem þingið hefur veitt í þetta verður forgangsraðað út frá þeim skilyrðum sem þingið setti með þeim fjárveitingum.

Það góða við þennan samning miðað við fyrri samninga er að hann eykur gagnsæið í því hvernig fjármunir skattgreiðenda eru nýttir og hvernig Ríkisútvarpið mun sinna hlutverki sínu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það liggi á borðunum hvernig verja eigi þeim fjármunum skattgreiðenda sem Alþingi ákveður að verja í hvern málaflokk fyrir sig, að eigandinn hafi eitthvað um það að segja hvernig stofnanir þess og fyrirtæki nýta þá fjármuni. Það er mjög gott. Ég fagna því sérstaklega hvernig innra eftirlit og gæði eru tryggð, en það er svolítið falið í hendur fyrirtækisins sjálfs og starfsmannanna að útfæra það.

Hér hefur mikið verið rætt um að ekki sé nægt fjármagn til að sinna þessum hlutverkum. Það er auðvitað Alþingis að ákveða hversu mikið fjármagn fer til stofnunarinnar og í ákveðna þætti eftir atvikum. En mér sýnist að Ríkisútvarpinu hafi tekist vel til að undanförnu í að efla starfsemi sína og mynda meiri sátt um dagskrárgerð og sinn rekstur, það hefur verið gert með því að efnisframleiðsla hefur verið að færast til sjálfstæðra framleiðenda og með því að aukin áhersla hefur verið lögð á leikið efni og á efni fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Það hefur tekist þrátt fyrir, eins og menn hafa viljað láta, að fjármagn hafi dregist saman — ég held reyndar að það hafi kannski aukist örlítið.

Með því að leggja jafn skýrar áherslur og hér er gert og skilgreina starfsemina er hægt að ná markmiðunum og nýta fjármagnið betur. Ég held að þessi samningur sé góður til þess. Við þurfum svo að taka umræðuna annars staðar um það hvernig fyrirkomulag við viljum hafa á ríkisfjölmiðlinum okkar.



[17:33]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka þakkir mínar til yðar fyrir að taka þetta mál á dagskrá og jafnframt þakka hv. þingmönnum fyrir þátttökuna í umræðunum sem ég tel að hafi verið gagnlegar og skerpt á ýmsum þeim þáttum sem tekið er á í þessum samningi.

Ég vil fyrst taka fyrir þann þátt umræðunnar sem hefur snúið að fjármögnun Ríkisútvarpsins. Ég held að nauðsynlegt sé að hafa mjög í huga að það fyrirkomulag sem við höfum með lögum um fjármagn til Ríkisútvarpsins er þannig að fjárveitingavald Alþingis liggur til grundvallar. Það er ekki hægt í samningi sem þessum að taka fram fyrir hendurnar á Alþingi. Þar af leiðandi er ekki hægt að hafa meiri tryggingar en þær að leggja upp með þau ákvæði sem þegar eru í lögum um Ríkisútvarpið hvað varðar upphæð útvarpsgjaldsins, sem er 16.400 kr., og það er þá lagt til grundvallar. Síðan eru ákvæði um að þetta haldi gildi sínu, en um leið líka ákvæði um að ef það gerist ekki þurfi að taka samninginn upp og skoða þær skyldur og þau verkefni sem Ríkisútvarpinu er falið að leysa í ljósi þess ef fjármagnið er minna, eða meira eftir atvikum, heldur en gert var ráð fyrir við gerð þessa samnings.

Það má ekki gleyma því og það er ekki hægt til dæmis, eins og ég heyrði í umræðunni, að kalla eftir því að ráðherra sýni vilja sinn eða að gert sé ráð fyrir auknu fjármagni eða þetta sé einhvers konar viljayfirlýsing um meira fé eða fjármagn til Ríkisútvarpsins. Það er fráleit nálgun að mínu mati, virðulegi forseti, ég verð að leyfa mér að segja það, vegna þess að hér er um að ræða samning sem er grundvallaður á lögum og vilja fjárveitingavaldsins, Alþingis, um hversu miklum fjármunum skuli varið til Ríkisútvarpsins. Framkvæmdarvaldið getur ekki tekið fram fyrri hendurnar á fjárveitingavaldinu í þeim efnum, það er augljóst. Þetta vildi ég segja þar sem ýmsu því sem snýr að fjármögnuninni, bæði hvað varðar verðtryggingarákvæði, útvarpsgjaldið sjálft og síðan það sérstaka framlag sem Alþingi ákvað með lögum að mundi renna til Ríkisútvarpsins, 175 milljónirnar, fylgdi lýsing af hálfu þingsins en ekki frá mér sem ráðherra. Það er Alþingi sem ákveður að það eigi að beina þessu í ákveðinn þátt starfseminnar. Þess vegna er þannig haldið á varðandi þennan þáttinn, þ.e. þessar 175 milljónir, að ef Alþingi ákveður að framlengja það ekki er eðlilegt að dregið sé úr þeim þættinum sem Alþingi sjálft hafði ætlað þá fjármuni til. Þannig er það hugsað, virðulegi forseti. Fjárveitingavaldið er að sjálfsögðu hjá þinginu.

Þetta aftur á móti opnar á aðra umræðu sem ég held að sé ágætt að taka, að skoða t.d. það fyrirkomulag sem Danir hafa varðandi fjármögnun á danska ríkisútvarpinu, hvernig það er gert. Við gætum velt því fyrir okkur hvort við viljum í framtíðinni taka upp svipað fyrirkomulag og þar er.

Annað atriði sem kom fram og ég vil gera að umræðu og hefur verið nokkuð í umræðu á opinberum vettvangi snýr að siðareglum og setningu siðareglna. — Fyrirgefðu, virðulegi forseti, ég vil skjóta einu inn áður ég kem að þeim, það snýr að umræðunni um Gullkistuna. Það er ekki verið að slá einu eða neinu á frest þar. Þar er aðeins verið að viðurkenna að í þessum samningi er ekki hægt að útdeila fjármunum umfram þá fjármuni sem liggja fyrir af hálfu Alþingis og það sem lagt var upp með, að gerð sé áætlun um það hvað kostar að færa þennan menningararf yfir á stafrænt form. Síðan þarf að taka sérstaka ákvörðun á grundvelli þess mats. Það er ekki metnaðarleysi eða frestun á verkefninu heldur er einfaldlega verið að beina því í þann farveg sem eðlilegur er.

Hvað varðar siðareglur og annað sem til mín var beint sérstaklega og hver ástæðan var fyrir því og af hverju talað var um hlutleysi varðandi fréttir fyrir börn eða almennt fréttastofuna, þá vil ég segja að það er eðlilegt í ljósi ákvæði laga um hlutleysi og hlutlægni Ríkisútvarpsins að kveðið sé á um það í samningnum. Það hefur verið gert þannig í gegnum tíðina. Ég vitna til samningsins sem gerður var 24. maí 2011 en þar er tekið fram sérstaklega varðandi fréttir og tengt dagskrárefni að gæta eigi sanngirni og hlutlægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð og að lýðræðislegar grundvallarreglur, mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana skuli haldið í heiðri o.s.frv.

Þetta er ekki skrifað af einhverju sérstöku tilefni, það er bara eðlilegt að það sé tekið fram með þessum hætti í svona þjónustusamningi, rétt eins og við gerum í þeim samningi sem undirritaður var 5. apríl nýverið.

Það er vissulega nýbreytni hvað varðar barnaefni að boðið er upp á sérstakar barnafréttir. Að sjálfsögðu hljóta að gilda sömu reglur um þær fréttir og annað fréttatengt efni Ríkisútvarpsins, eðlilega.

Hvað varðar siðareglurnar vil ég segja þetta, virðulegi forseti. Það hefur komið skýrt fram að það var útvarpsstjóri sem hafði haustið 2014 frumkvæði að því að þessar reglur yrðu unnar. Hann lagði það til sérstaklega að starfsfólkið mundi vinna reglurnar. Það er starfsfólkið sjálft sem leggur grunn að þeim og horfir þá meðal annars til þeirra reglna sem gilda um almannaútvarp annars staðar á Norðurlöndunum og í Bretlandi. Mér er kunnugt um að fenginn var fjöldi sérfræðinga að verkinu og kallað var eftir meðal annars fyrirlesurum og sérfræðingum frá Siðfræðistofnun og öðrum til að aðstoða starfsmennina við vinnuna.

Mér hefur fundist nokkuð miður hvernig um þetta hefur verið rætt og algjörlega fráleitt að gera því skóna að þetta sé að sérstakri kröfu minni eða eftir forskrift frá menntamálaráðherra. Hér eru starfsmenn Ríkisútvarpsins að vinna mjög þarfa vinnu sem á að fagna þar sem þeir leggja upp með siðareglur sem eru í samræmi við það sem gerist hjá öðrum almannaútvörpum í löndunum í kringum okkur og við berum okkur saman við.

Siðareglurnar tóku síðan gildi 22. mars síðastliðinn. Þá vil ég benda á að þessi samningur var undirritaður 5. apríl. Ég hef ekki heyrt neitt annað en að ágæt sátt sé um siðareglurnar og þær séu einmitt í samræmi við það sem menn þekkja í löndunum í kringum okkur. Þess vegna hefur mér fundist svolítið sérstakt að heyra umræðuna um þær og hefur fundist það nokkuð miður, af því að ég tel að um mjög merkilegt og jákvætt framtak starfsmanna Ríkisútvarpsins sé að ræða.

Að lokum vil ég segja og taka undir það sem hér hefur verið sagt um að stjórn Ríkisútvarpsins og starfsmenn hafa unnið mjög gott starf á undanförnum missirum við að ná tökum á erfiðum rekstri, vissulega. Ég tel að sú nýbreytni og þær áherslur sem hafa verið á undanförnum missirum og birtast síðan í þessum þjónustusamningi, áherslur á menningarhlutverk (Forseti hringir.) Ríkisútvarpsins, áhersla á efni fyrir börn og ungmenni, áhersla á það að kaupa efni eða fá efni frá utanaðkomandi aðilum, frá sjálfstætt starfandi framleiðendum, sé allt til að efla (Forseti hringir.) Ríkisútvarpið, efnisgerð þess og alla þá þætti sem Ríkisútvarpinu er ætlað að standa við samkvæmt lögum.