145. löggjafarþing — 103. fundur
 28. apríl 2016.
um fundarstjórn.

kosningar í haust.

[11:36]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er óhjákvæmilegt að halda áfram þeirri umræðu sem hófst í morgun um þinghaldið og framgang þess, ekki síst eftir að þingmaður Framsóknarflokksins, Þorsteinn Sæmundsson, kallaði hér af aftasta bekknum fram í að kosningar gætu verið í apríl 2017. Þingmaðurinn er fulltrúi Framsóknarflokksins í forsætisnefnd og það vekur auðvitað enn á ný þær spurningar hvort það sé raunverulega fyrirætlun ríkisstjórnarinnar að drepa málum á dreif og reyna að fresta kosningum fyrst fram á haustið og síðan fram á vorið og hvort yfirlýsing fjármálaráðherra um að kosið verði í haust og það verði síðasta þingið á þessu kjörtímabili haldi eða haldi ekki.



[11:37]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ekki að furða að tortryggni sé ríkjandi í samfélaginu og traust á stjórnmálunum sé á undanhaldi þegar svo einföld spurning sem sú hvenær verði kosið og hver séu þessi miklu forgangsmál er eitthvað sem vex þessari nýju ríkisstjórn hreins borðs í stjórnmálum svo mikið í augum að henni er algerlega fyrirmunað að tala skýrt í þeim efnum. Þegar fjármálaráðherra er að svara stjórnarandstöðunni, bæði í fundarstjórn forseta og í fyrirspurnatíma, heyrist gjammað hér af bekkjum að það eigi að kjósa í apríl 2017. Og hver er það? Það er þingmaður Framsóknarflokksins sem er í forsætisnefnd. Það er þingmaður Framsóknarflokksins í forsætisnefnd sem telur það vera til þess að lyfta stemningunni að gefa í skyn, með réttu eða röngu, að ekki standi til að efna loforð fjármálaráðherra og forsætisráðherra um kosningar í haust. (Forseti hringir.) Er það furða þó að við köllum eftir því, forseti, að hér sé talað skýrar og það liggi algerlega fyrir hver áformin eru?



[11:38]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mér finnst í svörum hæstv. fjármálaráðherra svolítið eins og þessi ákvörðun að flýta kosningum hafi einhvern veginn dottið af himnum ofan eða menn hafi misst þetta út úr sér. Það varð mikil ólga í samfélaginu og ríkisstjórnin brást við því, við stöðu hæstv. forsætisráðherra sem var náttúrlega mjög slæm, og ákveður að flýta kosningum. Hún ætlar samt að klára allan málalistann í staðinn fyrir að setja bara kjördag, fara í kosningar og haft það fram yfir alla hina flokkana að geta þá sagt: Við erum tilbúin með mál, þetta eru mikilvæg mál sem við viljum klára, ef þið kjósið okkur klárum við þau. Vera í rauninni með tilbúinn loforðalista og stefnumál í næstu kosningar. (Forseti hringir.) Ég er orðin frekar ringluð í þessu. Það liggur fyrir að við munum aldrei klára einhver 70 mál, mismerkileg og sum hver nokkuð ómerkileg og skrýtin ef ég á bara að segja alveg eins og er. Það væri gott ef stjórnvöld töluðu skýrt í þessu máli.



[11:40]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil biðjast velvirðingar á því að ég er ekki að ræða fundarstjórn forseta en mér finnst ég knúinn til þess að ræða þetta á svipuðum nótum og hér hefur verið gert. Hér tala menn um að full ástæða sé til að gera eitthvað af því að einhver hv. þingmaður kallar úr sal. Er mönnum fullkomin alvara? Ég vek athygli á því, af því að menn tala um traust á þinginu: Á þessu þingi er búið að ræða fundarstjórn forseta í 21 og hálfa stund. Rúmlega 21 klst. Þetta eru tveggja mínútna ræður.

Menn skulu að minnsta kosti ekki halda því fram að þeir séu að auka traust á þinginu með því að ganga fram með þessum hætti. Þetta er helmingi lengri tími en hefur verið að meðaltali 2003–2013. Þetta eru upplýsingar frá skrifstofu þingsins.



[11:41]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er mikilvægt að halda því til haga að það var Bjarni Benediktsson sem boðaði til kosninga. Það var Bjarni Benediktsson sem ætlaði að stytta kjörtímabilið um eitt þing. Það var ekki minni hlutinn og ekki fólkið úti á Austurvelli sem sagði það. Fólkið úti á Austurvelli kallaði eftir kosningum strax. Við höfum fylgt því eftir, minni hlutinn á þingi. Þegar meldingar koma svo úr báðum stjórnarflokkum um að nægjanlegt sé að kjósa næsta vor, þegar búið er að láta þau orð falla af hálfu hæstv. ráðherra að hér eigi að kjósa fyrr, er ekki óeðlilegt að við spyrjum okkur þegar ekki fæst uppgefin dagsetning: Er eitthvað að marka það? Það á að stytta þingið en samt á að þjappa málaskránni saman og taka allt fyrir meira og minna á vori, mál sem ekki hafa komið fram, mál sem jafnvel er ekki búið að semja, og afgreiða á þessu þingi. Það er auðvitað mjög óeðlilegt. Traustið (Forseti hringir.) á þinginu er ekki falið í því að þeir ráðherrar sem eiga félög á aflandseyjum fari fyrir þinghaldinu.



[11:43]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar ekki er búið að negla niður kjördag, bara búið að segja við okkur að kosningar verði einhvern tíma í haust, er eðlilegt að menn fyllist tortryggni þegar kallað er af þingbekkjunum að ekki verði kosið fyrr en næsta vor. (Gripið fram í.) Það ýtir undir vantraust. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, hvaða hugsun býr að baki að koma ekki bara fram með dagsetninguna? Það sem býr þar að baki er að menn vilja geta veifað því fyrir framan okkur eins og dulu að klára þurfi hér einhver ákveðin mál, og hafa völdin sín megin. Menn eru nefnilega svo hallærislegir og litlir í þessum sal að þeir þurfa að hafa valdið sín megin. Um það snýst þetta. (ÁsF: Þú þekkir þetta.) Virðulegi forseti. Ég hef aldrei veifað kjördegi framan í nokkurn mann. Það hef ég aldrei gert, hv. þm. Ásmundur Friðriksson. Það gera hins vegar þingmenn stjórnarmegin í þessum sal. Þetta er ekki boðlegt. Þessu þarf að breyta og þið þurfið að segja okkur hvenær á að kjósa.



[11:44]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Úr því að hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni þykir ámælisvert að ég skuli taka alvarlega frammíköll hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar, fulltrúa í forsætisnefnd Alþingis, er sjálfsagt að biðjast velvirðingar á því. En um virðinguna og starfið hér vil ég segja að ég sagði fyrr á fundinum að ekki væri búið að skrifa ýmis þau mál sem eru á málalista ríkisstjórnarinnar. Allt það starf sem hæstv. fjármálaráðherra talaði um áðan hefur einfaldlega ekki verið unnið.

Til marks um virðingu ríkisstjórnarinnar boðar hún heildarendurskoðun á almannatryggingum, framfærslukerfi tugþúsunda Íslendinga. Í síðustu viku var fyrsti fundur um samningu lagafrumvarps um þetta efni boðaður í velferðarráðuneytinu — fyrsti fundur um að fara að skoða hvernig ætti að skrifa lög um heildarendurskoðun á framfærslu tugþúsunda Íslendinga. Þetta eru vinnubrögðin. Þau eru auðvitað engin. Þau eru leiktjöld til að reyna að fresta því óumflýjanlega, (Forseti hringir.) að þurfa að mæta dómi kjósenda.



[11:45]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Forustumenn ríkisstjórnarinnar sögðu, ég held að það sé rétt með farið hjá mér að það hafi verið formaður Sjálfstæðisflokksins sem sagði það hér fyrir einhverjum vikum síðan, að tekið yrði eitt þing aftan af kjörtímabilinu. Eitt þing, það er þá 146. þing, en það á að hefjast annan þriðjudag í september. Það hlýtur að þýða, af því að ég vil nú enn þá reyna, að minnsta kosti stundum, að taka mark á forustumönnum þessarar ríkisstjórnar. Þó svo að við vitum náttúrlega að þeir lofuðu kosningum um umsóknaraðild að Evrópusambandinu og sviku það þá ætla ég enn að vona að hægt sé að treysta þeim. Það þýðir að það kemur ekkert þing saman annan þriðjudag í september, það verður að kjósa ekki síðar en þann dag. Við vitum svo hvenær þingið á að koma saman. (Forseti hringir.) Við hljótum að krefjast svara við þessu, forseti.



[11:47]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að á sama tíma og hv. þingmenn kalla hér fram og tala um að það þurfi að auka virðingu þingsins koma þeir hér upp og kalla samþingsmenn sína hallærislega og litla. Hver hv. þingmaður verður að eiga það við sig. Ég held að allir sem að málinu koma séu sammála um að nauðsynlegt sé að klára ákveðin mál og fara síðan að kjósa. Ef þau mál eru gölluð, ekki nógu vel unnin, þá er náttúrlega mikilvægt að við förum í það og menn bendi á það og annaðhvort gerum við úrbætur á þeim eða í versta falli segjum að við getum ekki klárað þau. En eitt er alveg víst, við erum ekki að vinna að þjóðarhag með því að taka hér þátt og misnota liðinn fundarstjórn forseta. Það er algerlega ljóst. Ég bið hv. þingmenn að hugsa um þjóðarhag vegna þess að það er hagur þjóðarinnar að við klárum mikilvæg mál áður en við förum að kjósa. Það er öllum ljóst sem þau mál skoða. (SSv: Nýja skógræktarstofnun.)



[11:48]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega augljóst eins og kom fram fyrr í dag að ríkisstjórnin er á undanhaldi. Hún er að reyna að skipuleggja það undanhald með því að fresta kosningum fram í október og hafa loðin svör og er augljóslega að gæla við þá hugmynd að geta frestað kosningum enn lengur. Það er ekki að ástæðulausu sem stjórnarandstaðan efast um þau loforð og hefur illa grun um að það standi jafnvel ekki til að standa við þau.

Eins og hér kom fram þá talaði hæstv. fjármálaráðherra um að stytta kjörtímabilið um eitt þing. Það þýðir auðvitað að ekki er hægt að fresta kosningum lengur en fram í fyrstu viku september. Ríkisfjármálaáætlun þarf að leggja fram. Það væri eitthvað sem væri kannski hægt að ná samkomulagi um að mínu viti, án þess að ég tali fyrir hönd nokkurs nema sjálfrar mín, ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna um að leggja hana fram, (Forseti hringir.) kynna hana svo að áherslurnar í fjármálunum sjáist fyrir haustið, rjúfa síðan þing og efna til kosninga. (Forseti hringir.) Það eru engin önnur verkefni sem þetta þing þarf að leysa því að allt sem hér hefur verið talið upp væri betur komið í höndum annarra en ríkisstjórnarinnar.



[11:50]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Fjaðrirnar fjúka af þessari ríkisstjórn hver af annarri og eru nú ekki orðnar margar eftir. Samt tala hv. þingmenn þannig að þessi ríkisstjórn og verkefni hennar séu svo mikilvæg og það gangi bara ekki upp annað en að hún fái að ljúka sínum verkefnalista. Þessu trúir auðvitað enginn heilvita maður nema kannski — ég efast um að hv. þingmenn í meiri hlutanum trúi þessu sjálfir. En þetta er keyrt áfram. Og talandi um trúverðugleika: Þegar hv. þingmenn í stjórnarmeirihlutanum eru sífellt að kalla fram í að það eigi bara að kjósa næsta vor, hvernig í ósköpunum er þá hægt að treysta að menn ætli að standa við það að kjósa í haust eins og hæstv. ráðherrar hafa gefið út? Það er ekki traust ríkjandi þegar skilaboðin eru svona þvers og kruss í þessum málum. Það ríkir bara ekkert traust í þessum efnum. Því er heldur ekkert að treysta að undir stjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins fari fram rannsókn á skattaskjólum, aflandsfélögum og aðkomu (Forseti hringir.) Íslendinga að þeim málum. Það treystir ekki nokkur einasti maður því að þessi ríkisstjórn sé þess umkomin að bera ábyrgð (Forseti hringir.) á slíkri rannsókn. Það þarf sjálfstæða, opinbera rannsókn en ekki undir stjórn þeirra aðila sem hafa haft mikla aðkomu að þessum málum sjálfir.



[11:52]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Mér finnst mikilvægt í þessu samtali að við vörpum fram fleiri spurningum sem lúta að kjördeginum. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort hafin sé vinna sem lýtur að lagabreytingum á þingskapalögum og kosningalögum sem til koma, vegna þess að augljóslega mun þetta nýja þing verða seinna á ferð en ber samkvæmt lögum og fjárlagafrumvarp, samkvæmt því sem forseti segir okkur, verða lagt fram í október. Er þessi undirbúningur hafinn? Og auk þess vil ég spyrja forseta hvort undirbúningur sé hafinn varðandi kjósendur erlendis sem þurfa þá að kæra sig inn á kjörskrá, það þarf að láta vita hvenær kjörskrá opnar o.s.frv., sums staðar er um að ræða langa fresti sem fólk þarf að vita nákvæmlega hvernig eru, sendiráð okkar og ræðisskrifstofur úti um allan heim þurfa að undirbúa kosningar. Þetta er fordæmalaus tími, við erum að tala um að kjósa hér utan (Forseti hringir.) hefðbundins tíma í fyrsta skipti frá haustinu 1979. (Forseti hringir.) Ég spyr hvort forseti og skrifstofa Alþingis sé farin að undirbúa þær breytingar sem þarf að gera á umbúnaði.



[11:53]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil harðlega mótmæla því að ég sé að misnota þennan dagskrárlið um fundarstjórn forseta þegar ég geng eftir því að forustumenn þessarar ríkisstjórnar standi við þau loforð sem þeir gefa og kalla eftir því að staðið sé við þau. Það er ekki að misnota þennan dagskrárlið. Hvenær á annars að koma því á framfæri?

Krafa fólksins í þessu landi er sú að það verði kosið strax. Það er líka mín krafa, virðulegi forseti, (Gripið fram í.) að kosið verði strax. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Er hægt að stoppa menn sem gjamma fram í þegar ég er að tala? Er það ekki að misnota aðstöðu sína í þingsalnum? (Gripið fram í.)

(Forseti (ÞórE): Forseti biður um ró í þingsalinn og biður þingmenn um að gefa …)

Virðulegi forseti. Ég kalla enn eftir því að formaður Sjálfstæðisflokksins standi við orð sín og geri það sem hann hlýtur að verða að gera til að standa við þau, sem er að segja okkur að hér verði kosið ekki síðar en fyrstu vikuna í september vegna þess að fella eigi niður eitt þing og það hefjist annan þriðjudag í september. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:55]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kom hérna upp og upplýsti okkur um það að að hans mati væri ekki mark takandi á hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni. Það vill þannig til að við hin hlustum þegar þingmenn kalla fram í að mögulega verði ekki kosið fyrr en næsta vor. Hvers vegna gerum við það? Vegna þess að menn hafa ákveðið að svara ekki spurningunni um kjördag með neinni dagsetningu. Hvers vegna gera menn það? Gera menn það ekki vegna þess að þeir vilja sýna hverjir hafa völdin? Ef það kallast ekki að misnota vald sitt veit ég ekki hvað felst í því. Hér fara menn illa með vald.

Hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, gerir sjálfan sig að ómerkingi þegar hann kemur og dregur í land með það að hafa sjálfur fullyrt og sagt (Forseti hringir.) að eitt löggjafarþing yrði klippt af þessu kjörtímabili, því þá yrði kosið í september. Á núna að draga í land með það? Ætla þingmenn hér inni að gera hann að ómerkingi?



[11:56]
Róbert Marshall (Bf):

Frú forseti. Ég sagði áðan undir þessum lið að ríkisstjórnin væri að hrökklast frá völdum. Þá mótmælti hæstv. forsætisráðherra því.

Ég velti fyrir mér eftir þau orðaskipti sem ég átti við hann úr þessum ræðustól hver sé eiginlega skilningur Sjálfstæðisflokksins á því af hverju það eigi að kjósa í haust. Af hverju komst ríkisstjórnin að þeirri niðurstöðu? Hver er söguskýringin ef hún er ekki sú að í kjölfar fjölmennustu mótmæla Íslandssögunnar sé ríkisstjórnin að hrökklast frá völdum?

Í annan stað vil ég segja að auðvitað er búið að skrifa ræðurnar sem verða fluttar í haust af talsmönnum ríkisstjórnarinnar og búið að hanna þá atburðarás. Það verður að sjálfsögðu stjórnarandstöðunni að kenna af hverju menn þurfa að fresta kosningum fram á vor. Það verður vegna þess að stjórnarandstaðan var ekki tilbúin til þess að vinna að þeim fjölmörgu góðu málum sem ríkisstjórnin þurfti að klára fyrir kosningarnar.

Þetta er svo fyrirsjáanlegt sem frekast getur orðið. Það þarf ekki annað en að setja fram eitthvert (Forseti hringir.) afspyrnuvont mál, t.d. að eyðileggja Lánasjóð íslenskra námsmanna, láta stjórnarandstöðuna böðlast hérna og þá geta menn haldið áfram fram á vor 2017. Það er atburðarásin sem menn hafa hannað hérna og eru búnir að sjá fyrir sér.



[11:58]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hinn illi grunur í þessu máli er nákvæmlega sá sem hv. þingmaður Róbert Marshall kom inn á rétt í þessu. Svo virðist sem verið sé að hanna atburðarás til þess að ríkisstjórnin geti hengt kosningasvik sín, svikin við loforðið um kosningar í haust, á stjórnarandstöðuna. Það er leikritið sem verið er að hanna. Það er því miður ástæðan, að því er virðist, fyrir því að ekki er hægt að gefa upp dagsetningu og menn eru á harðahlaupum undan loforði sem aldrei var gefið stjórnarandstöðunni, takið eftir því, það var gefið almenningi. Það var gefið almenningi og það er gagnvart almenningi sem ríkisstjórnin þarf að standa við það loforð fyrst og fremst. Hlutverk stjórnarandstöðunnar er auðvitað að knýja á um að staðið verði við orðin. Ríkisstjórnin er að reyna að flýja hinn óumflýjanleg dóm kjósenda (Forseti hringir.) þessa lands yfir vanhæfinu og spillingunni sem nú hefur komið í ljós innan raða ríkisstjórnarinnar þar sem þriðjungurinn tengist eða tengdist fyrir fáeinum vikum aflandsfélögum og skattaskjólum. Það er staðreynd. Það er það sem menn eru að reyna að forðast núna.



[11:59]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Þetta er auðvitað alveg makalaus málflutningur að hlusta á. Algjörlega makalaus. Það er með ólíkindum að þetta fólk telji það vera til framdráttar sjálfu sér í pólitík og Alþingi að viðhafa svona málflutning, óheiðarlegan fram úr hófi, (Gripið fram í.) eins og þeirra er nú von og vísa svo sem, og með mikilli vanvirðingu fyrir þingið og störfin hér.

En ætli það geti verið að hv. þm. Róbert Marshall hafi hitt naglann svolítið á höfuðið áðan þegar hann var undir rós farinn að hóta okkur því að það mál sem er að koma fram um breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna færi ekki í gegn, það væri málið sem við ætluðum að kenna stjórnarandstöðunni um í haust?

Í þessu felst auðvitað sú dulbúna hótun og beina hótun sem hér hefur ítrekað komið fram í málflutningi hv. þingmanna minni hlutans á þingi að þeir ætli ekki að hleypa neinum málum í gegn. Sum þeirra hafa gengið svo langt að segja: Við hleypum engum málum í gegn. Það verður engin umræða hér.

Þau eru að sýna það með verkum sínum, þessir einn, tveir, þrír, fjórir, fimm, sex þingmenn stjórnarandstöðunnar sem hér eru í þingsal núna til að halda þessu málþófi uppi. (Forseti hringir.) Bullandi málþófi, mjög ósmekklegu og ómálefnalegu. En það gæti kannski verið einmitt ástæðan, þessi dulbúna hótun. Þau ætla ekki að hleypa neinu áfram.

(Forseti hringir.) Ætlum við að fara í kosningar við þær aðstæður að svo ómálefnaleg og ódrengileg umræða eigi sér stað til að halda þinginu í gíslingu? (Forseti hringir.)Nei við látum ekki stilla okkur upp við vegg. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Við höfum lofað kjósendum því að það verði kosið í haust, en það byggir auðvitað á því að þingið hefji málefnalega vinnu (Gripið fram í.) og komi sér að störfum.



[12:01]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það þarf kannski að stafa þetta ofan í hv. þm. Jón Gunnarsson. Við treystum ykkur ekki. (Gripið fram í: Múrmeldýrið.)

Þið hafið áður sagst ætla að halda kosningar (Gripið fram í.) og þið hafið ekki gert það. Það er bara staðan sem blasir við. Hv. þingmaður verður að þola það að hér sé fólk sem hefur aðrar skoðanir en hann og sem dregur í efa að þetta loforð muni standa. Það er vegna þess að það er ástæða fyrir því. Það er slæm reynsla.

Hvenær áttu kosningarnar um Evrópusambandið að fara fram? Hverju var lofað í þeim efnum? Af hverju hefur ekki verið staðið við það loforð? (Gripið fram í: … gegn þjóðaratkvæðagreiðslu.) Hvenær fór það fram?(Gripið fram í: Þið fellduð …)

Þjóðin treystir ekki þessum flokkum. Það sýna skoðanakannanir (Gripið fram í.) og við treystum ykkur ekki. Þess vegna viljum við fá að vita hvenær á að gera þetta. (Gripið fram í: Þú ert svo heiðarlegur.) (Forseti hringir.)

Ja. (Forseti hringir.) Mér finnst þetta bara makalaus málflutningur hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni sem kemur hérna trekk í trekk upp og sakar fólk um óheiðarleika (Forseti hringir.) eins og hann sé einhvern veginn handhafi sannleikans í öllum málum. Það er ekki einu sinni rökstutt með neinum hætti. (Forseti hringir.) Kemur hérna, margstyrktur af verktökum og útgerðarfyrirtækjum, berst fyrir hagsmunum þeirra fram og til baka (Gripið fram í.) aftur og aftur. Sakar alla aðra en sjálfan sig um óheiðarleika. (Gripið fram í: Kæri Jón.) Þú átt bara að undirbúa framboð á Sikiley.



[12:03]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þessi ríkisstjórn er rúin öllu trausti. Menn verða bara að fara að horfast í augu við það. Þegar hv. þm. Jón Gunnarsson kemur hérna upp verður maður enn þá sterkari í trúnni á að menn ætli að svíkja þau loforð sem þeir gáfu þjóðinni, nota bene, þjóðinni, við erum ekki að tala um stjórnarandstöðuna, að kjósa í haust. Menn ætla að þröngva áfram öllum þeim málum sem þeir hafa ætlað sér að koma í gegn fyrir kosningar í apríl 2017, nú á að þjappa þessu saman í eitt gott skot og kýla þetta í gegn á þessum tíma. En hlutirnir gerast ekki þannig. Við verðum að horfast í augu við að það er ekki hægt að búa við svona ótrúverðugleika lengur. Það er ekki hægt að draga okkur í stjórnarandstöðunni fram og til baka í trausti þess að það sé verið að drepa málum á dreif (Forseti hringir.) og beina sjónum að einhverju öðru en vandamálinu sjálfu, sem er ríkisstjórn rúin öllu trausti.



[12:05]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég má nú til með að standa upp vegna þessarar orrahríðar sem staðið hefur hérna í einn og hálfan klukkutíma. Ég verð að segja eins og er að ég tek undir með þjóðinni og mér er misboðið hvernig þingmenn eyða tíma þingsins í tilefnislaust röfl um það sem búið er að tala um í nokkrar vikur á þinginu. Það er búið að segja að það eigi að kjósa í haust. Það verður auðvitað staðið við það. (LRM: Hvað margir ætla að standa við það?) Ég hugsa bara að allir ætli að gera það. (Gripið fram í.) En ætli vantraustið sé ekki líka gagnkvæmt, þegar menn vilja ekki minnast á hvaða dagur það er vegna þess að þá verður nú fyrst tekið í handbremsuna og ekkert gengur. Ég held að við þurfum öll að líta í eigin barm og horfa til þess að við þurfum að ljúka þeim störfum sem við ætlum að gera, hvert og eitt, og láta störf þingsins ganga þannig að hægt verði að boða til kosninga í haust, í lok október eins og talað hefur verið um, og standa við það. Hluti af því að standa við það er að minni hlutinn taki þátt í því líka. (Forseti hringir.) (LRM: Klára öll góðu málin hjá ríkisstjórninni.) Já, (LRM: 76 mál.) ekki að eyða tímanum í þessa vitleysu.



[12:06]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Sumir mega taka undir og tala fyrir þjóðina, aðrir mega það ekki. Stjórnarandstöðunni er það ekki heimilt samkvæmt sumum stjórnarþingmönnum hér inni og var flutt um það eldræða áðan af hv. þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins að hér væri ekki hægt að tala fyrir hönd þjóðarinnar. Hæstv. fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, boðaði til kosninga, hann lofaði þjóðinni kosningum, hann lofaði ekki okkur stjórnarandstöðunni kosningum, hann lofaði þjóðinni. Hann ætlaði að stytta þingið um eitt kjörtímabil. Það eru praktísk mál, eitt þing. Það þarf að undirbúa þing, það þarf að undirbúa fólk erlendis, það er ýmislegt sem þarf að gera ef ráðherrann ætlar að standa við það loforð. En hann hefur ekki haft manndóm í sér til að segja að hann ætli að gera það og hefur ekki sagt okkur hvenær eigi að kjósa. Það skiptir máli. Annan þriðjudag í september á þing að hefjast samkvæmt þingsköpum. Þingsköpum hefur ekki verið breytt. Það hefur ekki verið boðað að breyta eigi þeim. (Forseti hringir.) Ráðherra þarf þá líka að segja okkur að hann hyggist gera það, (Forseti hringir.) boða til breytinga á þingsköpum til að hægt sé að hefja þing seinna, til að hægt sé að leggja fram fjárlagafrumvarp seinna og mæla fyrir því o.s.frv. (Forseti hringir.) Það hefur ekki verið gert, hvað þá hugað að fólki sem er erlendis og þarf langan fyrirvara.