145. löggjafarþing — 103. fundur
 28. apríl 2016.
stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára, síðari umræða.
stjtill., 338. mál. — Þskj. 405, nál. 1184, brtt. 1185.

[14:13]
Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að hafa brugðist skjótt og vel við og hafa lagt kapp á að þessi tillaga yrði tilbúin sem fyrst. Að einhverju leyti hefur ákveðnum aðgerðum hennar þegar verið hrint í framkvæmd. Við vorum nokkrir þingmenn úr nokkrum flokkum sem lögðum þetta til fyrr á kjörtímabilinu með þingsályktunartillögu og það væri mjög ánægjulegt ef við næðum að samþykkja tillöguna á þessu þingi.

Í tillögunni eru lögð fram meginmarkmið í geðheilbrigðisstefnu sem eru aukin vellíðan og betri geðheilsa landsmanna og virkari samfélagsþátttaka einstaklinga sem glíma við geðraskanir til skemmri eða lengri tíma óháð búsetu þeirra. Þá eru undirmarkmið um samþætta og samfellda þjónustu við einstaklinga með geðraskanir, um að uppeldisskilyrði barna stuðli að vellíðan þeirra og að fólki verði ekki mismunað á grundvelli geðheilsu. Þá eru taldar upp 18 aðgerðir og fjármunirnir sem varið er í þetta á yfirstandandi ári og næstu þremur árum eru 562 millj. kr. Þetta er góð byrjun en mun meira fjármagn þarf að koma til, eins og ég mun koma að í niðurlagsorðum mínum. Þessar 18 aðgerðir eru mjög góðar. Ég ætla aðeins að fara yfir þær á eftir.

Velferðarnefnd gerir takmarkaðar breytingar á þessari aðgerðaáætlun en kemur með ýmsar ábendingar í mjög ítarlegu nefndaráliti sem fylgir þingsályktunartillögunni. Það er 11 síður, en þess ber að geta að nefndin gaf sér góðan tíma til umfjöllunar, enda komu gríðarlega margar umsagnir um málið. Við vildum hitta umsagnaraðila og fjalla um athugasemdir þeirra í nefndaráliti af því að við töldum athugasemdirnar í langflestum tilfellum góðar og förum við yfir hvernig við sjáum annaðhvort að hægt sé að rúma þær innan áætlunarinnar eða að líta þurfi til þeirra til lengri tíma litið.

Á síðastliðnum árum hefur orðið mikil vakning í umræðu um geðheilsbrigðismál. Þar ber fyrst og fremst að þakka notendahópum, samtökum fólks sem hefur glímt við geðraskanir af ýmsu tagi eða sem eru aðstandendur fólks með geðraskanir. Það eru þeir hópar sem hafa vakið upp umræðuna um mikilvægi geðheilbrigðismála, að það þurfi bætta þjónustu, breytt viðhorf og að við þurfum að huga miklu betur að því sem samfélag.

Nú er það svo að hlutfall þeirra fjármuna í heilbrigðisþjónustu sem fer til geðheilbrigðismála er ekki í neinu samræmi við það hversu hátt hlutfall þeirra sem leita á náðir heilbrigðisþjónustunnar gerir það vegna ýmissa geðrænna vandamála. Það er þannig með okkur manneskjurnar að við erum andi og efni og það eru fleiri og fleiri rannsóknir sem benda til þess að andleg vanlíðan hafi áhrif á líkamlega kvilla. Það á að grípa nógu vel inn í og vera með fordómalaust samfélag þar sem við skömmumst okkar ekki fyrir að líða illa andlega heldur lítum á það sem hvern annan kvilla og lítum á það sem sjálfsagðan hlut að leita okkur aðstoðar og fáum hana á viðráðanlegu verði eða gjaldfrjálsa. Það er mikilvægt að koma á slíkri stefnubreytingu í samfélaginu. Ég tel að sú stefnubreyting sé að verða en við eigum enn þá þó nokkuð í land. Þetta eru mál sem varða okkur öll. Við þekkjum það öll út frá persónulegri reynslu okkar eða einhverra sem standa okkur nærri að andleg vellíðan, geðheilbrigði, gott geðheilbrigði er grundvöllur að því að vera fúnkerandi einstaklingur í samfélaginu og að geta verið til staðar fyrir aðra sem og sjálfum sér og öðrum til gagns. Þetta er gríðarlega mikilvægur málaflokkur og eins og ég segi vil ég endurtaka þakkir mínar til hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að hafa farið af stað í verkefnið af fullum krafti.

Ég ætla að telja upp þau verkefni sem hér eru þótt það sé svolítil upptalning. Undir markmiðinu um samfellda og samþætta þjónustu er aðgerð um að bundið verði í lög að ríki og sveitarfélög geri með sér samstarfssamning um útfærslu samþættrar þjónustu við einstaklinga með geðraskanir og þar verði meðal annars áskilið að sett verði á fót geðheilsuteymi í samstarfi við heilbrigðisþjónustu og sveitarfélög. Svo er lagt til að þjónusta sálfræðinga standi til boða á heilsugæslustöðvum og heilbrigðisstofnunum sem sinna heilsugæslu í samræmi við samsetningu og stærð þjónustusvæða.

Þá er verkefni sem heitir „Tölum um börnin“/Fjölskyldubrúin sem á að innleiða innan velferðarþjónustunnar, sem er þá heilbrigðis-, félags- og menntakerfið. Þetta er mikilvægt verkefni til þess að draga úr því að geðheilsuvandi flytjist milli kynslóða, því að þegar fullorðinn einstaklingur er veikur þá hafi þau veikindi mjög mikil áhrif á líf barnsins og möguleika þess til þroska. Ég fékk sent myndband um daginn sem er inni á heimasíðu Geðverndar um hver eigi að hjálpa Jesper. Þar er sagt í formi klippimyndar frá litlum dreng en móðir hans er alkóhólisti og með geðrænan vanda. Þau búa tvö systkinin með henni á heimilinu og þetta hvílir á þeim eins og mara. Hann fer í leikskólann og það er auðvitað í nærumhverfi barnanna þar sem börnum er veitt þjónusta sem við þurfum að vera sérstaklega vakandi fyrir líðan þeirra og þekkja einkenni þess þegar börn takast á við hluti og ábyrgð sem ekkert barn á að þurfa að bera. Það er okkar allra sem samfélags að taka ábyrgð þegar foreldrarnir eru í þeirri stöðu að þau eru ófær um það. Það þarf að hjálpa foreldrunum, en það þarf líka að líta sérstaklega til barnanna og aðstoða þau, því að annars er mjög mikil hætta á að geðheilsuvandi flytjist milli kynslóða og rannsóknir sýna hvernig hægt er að draga úr þeirri hættu með markvissri vinnu og stuðningi við börnin.

Það er einmitt eitt af verkefnunum að koma á reglubundinni fræðslu um geðheilsu og geðraskanir fyrir starfsfólk í félags- og heilbrigðisþjónustu og þjálfun í einfaldri íhlutun. Þá er lögð til efld þjónusta á göngudeild BUGL. Það á að setja á fót starfshóp sem kanni hvort fjarþjónusta geti nýst til að veita fólki meðferð vegna geðraskana. Hér á landi í hinum dreifðari byggðum er oft miklu takmarkaðra aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu í heimabyggð og það á ekki að mismuna fólki eftir búsetu í þessu frekar en öðru.

Lagt er til að byggð verði upp þekking á hjúkrunarheimilum til að veita öldruðu fólki með geðheilsuvanda þjónustu.

Níunda verkefnið gengur út á að mæta uppsafnaðri þörf geðfatlaðs fólks fyrir húsnæði og þjónustu og svo komum við að kafla um geðrækt og forvarnir. Þar er lagt til að sett verði á fót þverfaglegt teymi í nærumhverfi sem sinni fræðslu, þjálfun, ráðgjöf og stuðningi við foreldra og fjölskyldur. Lagt er til að settur verði á fót starfshópur til að gera tillögur um geðræktarstarf í skólum. Svo er tillaga um að skimað verði fyrir kvíða, þunglyndi og áhrifum áfalla meðal barna í efstu bekkjum grunnskóla og veittur verði viðeigandi stuðningur eða meðferð ef viðkomandi telst í áhættuhópi. Inn í áætlunina er felld tillaga frá hv. þm. Karli Garðarssyni sem var með sérstaka þingsályktunartillögu um skimun meðal barna vegna kvíða, depurðar og þunglyndis.

Síðan lagt til að sett verði fram áætlun um innleiðingu gagnrýndra aðferða til að draga úr sjálfsvígum ungmenna.

Það er kafli um fordóma og mismunun og þar eru fimm aðgerðir: Að fundnar verði árangursríkar leiðir til að minnka fordóma í garð fólks með geðraskanir, að settar verði fram leiðbeiningar fyrir fjölmiðla um hvernig unnt er að fjalla um geðheilbrigðismál án þess að alið sé á fordómum, að ríki og sveitarfélög ráði fólk sem hefur lent utan vinnumarkaðar vegna langvinnra geðraskana til starfa í stofnunum sínum og að í reglubundinni heilsufarsskoðun hælisleitenda verði lagt mat á geðheilsu þeirra.

Að lokum tel ég hér aðgerð um þekkingu starfsfólks í geðheilbrigðisþjónustu og réttindum sjúklinga til túlkaþjónustu. Það þarf að auka þekkingu á réttindum til túlkaþjónustu.

Þetta eru þær 18 aðgerðir sem lagðar eru til og við styðjum allar aðgerðirnar en erum með nokkrar breytingartillögur sem ég ætla að fara yfir. Í hinu ítarlega nefndaráliti fjöllum við um þjónustu fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta, en við fengum umsögn frá Félagi heyrnarlausra þar sem bent er á að sá hópur sem var fyrir nokkrum áratugum tekinn út af heimilum sínum, jafnvel við fjögurra ára aldur, og settur á heimavistarskóla, fékk ekki að læra táknmál þrátt fyrir að vera heyrnarlaus eða alvarlega heyrnarskertur og átti að læra hefðbundið tungumál, hafi í raun og veru verið sviptur samvistum við fjölskyldu sína eða eðlilegu uppeldi hjá fjölskyldum sínum og sviptir tungumáli. Þetta eru gríðarlegir glæpir gagnvart þessu fólki, fyrir utan að mörg börn sem þarna voru vistuð máttu sæta ofbeldi af ýmsu tagi. Okkur var bent á að í raun hafi þörfum þessa fólks fyrir geðheilbrigðisþjónustu ekki verið mætt almennilega. Það ber líka að geta þess að sumt af fólkinu hefur sjálft orðið foreldrar og þyrfti aðstoð til að takast á við foreldrahlutverkið þar sem það hefur ekki alist upp í eðlilegu fjölskylduformi og eðlilegum samskiptum við foreldra sína.

Við í nefndinni töldum að við yrðum að bregðast við þessum athugasemdum því að það er nóg komið. Nú verðum við að mæta fólki og reyna að veita því þá aðstoð sem möguleg er. Í lið A.2, þar sem talað er um geðheilsuteymi í samstarfi heilbrigðisþjónustu og sveitarfélaga, leggjum við til að eitt af þessum teymum sérhæfi sig í þjónustu við heyrnarlausa og heyrnarskerta einstaklinga sem reiða sig á íslenskt táknmál til samskipta og glíma við geðröskun. Það er mikilvægt því að þau bentu líka á varðandi það að vera alltaf með túlk sem millilið að ef verið er að túlka fyrir einstakling sem ekki skilur döff menningu og ekki kann táknmál þá getur orðið í misskilningur á milli í persónulegum og viðkvæmum málum, þannig að sú líðan og tilfinningar sem fólk er að tjá túlkist ekki nægilega vel á milli. Það sé því mikilvægt að þeir sem veita slíka þjónustu hafi færni í notkun táknmáls og geti talað beint við viðkomandi einstakling. Þetta getum við öll ímyndað okkur. Ef við værum sjálf að fara til geðlæknis eða sálfræðings eða heimilislæknis og þyrftum að eiga öll samskipti við þá aðila í gegnum túlk frá öðru menningarsvæði gæti margt brenglast þar á milli. Í þeim málum er mjög mikilvægt þegar fólk þarf einstaklingsmiðaða þjónustu að sá sem veitir hana skilji tungumál og menningarheim fólks. Við leggjum til breytingu þarna og jafnframt í réttindum til túlkunar, að ekki verði eingöngu tekið mið af rétti til túlkaþjónustu fyrir innflytjendur heldur líka fyrir heyrnarlaust og heyrnarskert fólk.

Það var umræða um fanga og skort á geðheilbrigðisþjónustu við fanga. Mjög hátt hlutfall fanga á Íslandi eru með ADHD og á við ýmsan geðheilsuvanda að stríða og mikilvægt er að við mætum því. Við lítum svo á að í geðheilsuteymum eigi að líta sérstaklega til fanga. Núna þegar verið er að breyta lögum og fangavist hefur í mörgum tilvikum verið stytt með aukinni áherslu á áfangaheimili er líka mikilvægt að auka geðheilbrigðisþjónustu við þá sem eru að ljúka afplánun og undirbúa sig fyrir fulla þátttöku í samfélaginu. Þetta kemur inn á þá stefnubreytingu sem við verðum að gera í refsimálum á Íslandi með aukinni áherslu á betrun, því að það er oft þannig að í fangelsum endar fólk sem hefur ekki fengið viðeigandi þjónustu og aðstoð sem full þörf hefði verið á, jafnvel allt frá barnæsku. Það er samfélagslegt vandamál að við hjálpum ekki fólki þegar þörf er á.

Það á að fjölga sálfræðingum innan heilsugæslunnar. Það var mikil ánægja með það og lögð rík áhersla á það fyrir nefndinni að gera þyrfti enn betur í þeim efnum og að fjölgun sálfræðinga með snemmtæku inngripi væri ein besta aðgerð í bættu geðheilbrigði þjóðar. Var vísað þar mjög til Bretlands sem hefur verið framarlega í geðheilbrigðismálum þar sem fjölgun sálfræðinga í heilsugæslunni og aukið aðgengi að hugrænni atferlismeðferð og slíku hefur skilað gríðarlega góðum árangri. Það voru ekki eingöngu sálfræðingar sem bentu á þetta heldur einnig aðrar fagstéttir, ekki síst geðlæknar, að fjölgun sálfræðinga og aðgengi að ódýrri eða gjaldfrjálsri sálfræðiþjónustu væri gríðarlega mikilvæg. Við tökum heils hugar undir þetta.

Ég vil nota tækifærið og harma það að sálfræðiþjónusta komi ekki í auknum mæli inn í greiðsluþátttöku sem nú er verið að leggja fram frumvarp um í þinginu af hálfu hæstv. heilbrigðisráðherra. Svo vil ég minna á að við erum nokkrir þingmenn sem leggjum fram þingsályktunartillögu um gjaldfrjálsa þjónustu sálfræðinga í framhaldsskólum. Tilraunir með þetta hafa verið gerðar í Verkmenntaskólanum á Akureyri með mjög góðum árangri. Ungmenni í dag búa í mjög flóknum veruleika með miklu áreiti og miklum væntingum og það er mikið ákall eftir því úr hópi ungs fólks að fá aukið aðgengi að þjónustu sálfræðinga og fleiri fagstétta á því sviði.

Þá var einnig bent á að þeir sem sinna geðrænum málum og andlegri vellíðan væru ekki eingöngu sálfræðingar heldur fjölmargar aðrar stéttir, svo sem félagsráðgjafar, fjölskylduráðgjafar og fleiri slíkir. Tekið er til þess í tillögunni að fjölga eigi sálfræðingum og síðan einnig að fá inn í þessi teymi fjölbreyttari flóru fagstétta. Það er einmitt í þeim punkti, þegar það koma saman einstaklingar með ólíkan vinkil á vandann og ólíka reynslu og sýn, sem besti árangurinn næst. Við hvetjum til þess að haldið verði áfram á þeirri braut.

Mikið var rætt um biðlista og eflingu geðheilbrigðisþjónustu við börn. Gagnrýnt var að ekki væri talað nógu mikið um börn í áætluninni. Ég verð samt að viðurkenna að ég er ekki alveg sammála því. Ég tel að lagðar séu til aðgerðir sem einmitt beinist að því að auka þjónustu við börn og meðvitund um líðan barna og nauðsyn á snemmtækum inngripum.

En það eru ekki aðeins notendahópar og faghópar sem gagnrýna biðlista heldur skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu á meðan við vorum með þessa áætlun til umsagnar um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga, annað og þriðja þjónustustig. Ég ætla ekki að rekja mjög náið það sem fram kemur þar, nema að þar er mjög gagnrýnt að ekki sé skilgreindur tími um viðunandi lengd á bið barna eftir þjónustu. Börn bíða mjög lengi eftir þjónustu og mörg þeirra meira en ár. Það er mjög hátt hlutfall af lífi barns eða bernskunni. Við vitum að í lífi okkar fullorðna fólksins getur bið eftir nauðsyn verið dálítið erfið, en þetta getur dregið úr þroska barna eða haft neikvæð áhrif á þroska barna og virkilega eyðilagt fyrir þeim mikilvægt æviskeið. Það þarf því að skilgreina viðunandi biðtíma fyrir börn eftir geðheilbrigðisþjónustu. Svo er talað mikið um samræmingu á þjónustustigunum, að verkaskiptingin sé ekki nógu skýr, að ábyrgðin sé ekki alltaf skýr og börn geti auðveldlega fallið á milli kerfa.

Ég vil líka taka fram að mér finnst hæstv. heilbrigðisráðherra hafa sýnt góða viðleitni í geðheilbrigðismálum þótt ég vilji að hann geri betur. Hann ákvað í árslok 2015 að leggja til 45 millj. kr. til að efla þjónustu á BUGL og stytta biðtímann. Það er gott að halda því til haga að þótt það dugi ekki nema skammt mun það samt sem áður skipta sköpum fyrir fjölda barna.

Þá er það skimun og snemmtæk íhlutun. Það var mikið rætt um skimun í nefndinni og voru deildar meiningar um hvenær hún ætti að fara fram og hverjir ættu að framkvæma hana. Bent var á að í raun ætti að vera með skimun fyrir foreldrana í mæðraeftirliti og ungbarnavernd. Þar væri oft rót vandans, það gengi illa í upphafi og því þyrfti að koma snemma inn. Svo væru börn á leikskólum og síðan væru hjúkrunarfræðingar með almennar skoðanir í 1., 4. og 7. bekk. Það var almennt mál að slíkt væri of seint að gera í allra efstu bekkjum grunnskóla.

Svo komu líka frá Þroska- og hegðunarmiðstöð, sem heyrir undir heilsugæsluna, athugasemdir um að þetta væri mjög víðtækt inngrip, að það væri mjög umfangsmikil aðgerð og umdeilanleg að fara með öll börn í skimun. Ef við færum í prógramm eins og Bretar um 1.001 dag, sem er barnið frá getnaði upp til tveggja ára aldurs, þetta gríðarlega mikilvæga mótunarskeið einstaklingsins, og einblíndum betur á það og gripum inn í í augljósum áhættuhópum mundum við ná betri árangri.

Við í nefndinni tökum undir að við eigum að beina sjónum okkar að yngsta aldurshópnum í auknum mæli en við vildum ekki falla frá skimuninni, það var nokkur samstaða um hana. Við gerum hins vegar þá breytingu að við tökum út orðin „í efstu bekkjum grunnskóla.“ Þá verður skimað fyrir kvíða, þunglyndi og áhrifum áfalla meðal barna og veittur viðeigandi stuðningur eða meðferð ef viðkomandi telst í áhættuhópi. Við segjum að meta þurfi betur hvar við náum bestum árangri og þessi aðgerð gagnast börnunum sem best. Við breytum líka framkvæmdaliðnum, orðalagi. Þar bendum við á að beitt verði gagnrýndum aðferðum við að skima fyrir kvíða, depurð og þunglyndi og áhrifum áfalla meðal barna. Þeim börnum sem á þurfa að halda verði eftir nákvæma greiningu veitt meðferð í samræmi við klínískar leiðbeiningar og gagnrýndar aðferðir.

Sálfræðingafélagið lagði mikla áherslu á að við töluðum um klínískar leiðbeiningar og gagnrýndar aðferðir þegar við værum að tala um meðferð. Við verðum í fæstum tilvikum við þeim athugasemdum þeirra, enda lítum við svo á að heilbrigðisþjónusta sem veitt er sé veitt í samræmi við klínískar leiðbeiningar og gagnrýndar aðferðir. Það er grundvöllurinn í heilbrigðisþjónustu. Það er gengið út frá því en við setjum það þarna inn til að hnykkja á því að þegar farið er í svona víðtækt inngrip verðum við líka að vera með almennileg viðbrögð ef börn þurfa á þjónustu að halda. Þá verði það að vera í samræmi við klínískar leiðbeiningar og gagnrýndar aðferðir en ekki einhver kattarþvottur, því að þá er það ekki til neins.

Við fjöllum líka um hælisleitendur. Það er aðgerð fyrir þá og við bendum á að ekki sé nægilegt að það sé einungis við komuna til landsins heldur komi oft vandkvæði í ljós nokkrum mánuðum eftir að fólk kemur til landsins og það þurfi að vera áframhaldandi eftirlit.

Þá erum við komin að ADHD og einhverfu. Það var mjög gagnrýnt að ekki væri talað sérstaklega um það í áætluninni. Ég tek heils hugar undir það. En við bendum á að við fengum þær upplýsingar að starfshópur er að hefja störf sem á að fara yfir umgjörðina varðandi þjónustumeðferð og stuðning við börn sem glíma við frávik eða aðra erfiðleika í hegðun eða glíma við mikla vanlíðan og þetta varðar sérstaklega ADHD. Starfshópurinn á að skila niðurstöðu í september og við segjum að mikilvægt sé að hópurinn ljúki störfum sem fyrst og í kjölfarið verði tillögum hans fylgt eftir, enda sé það mat nefndarinnar að brýnt sé að gera nauðsynlegar úrbætur í þjónustu við börn með ADHD.

Svo ræðum við um hæfingu og endurhæfingu og mikilvægi þess að bæta enn frekari í hæfingu og endurhæfingu og fjölga þeim, því að geðheilbrigðisvandi sé ein helsta orsök í nýgengi örorku hér á landi.

Í niðurlaginu tökum við undir ábendingar frá Ríkisendurskoðun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga og leggjum til að brugðist verði við þeim. Það þurfi að skýra verksvið þjónustustiga, auka samráð og samvinnu innan þjónustukerfisins í heild og skilgreina ásættanlegan biðtíma fyrir börn.

Við segjum að þetta sé mjög gott fyrsta skref, en við teljum að enn sé mikið verk fyrir höndum áður en þessum málaflokki verður mörkuð fullnægjandi stefna.

Í þeirri vinnu sem fram undan er telur nefndin að velferðarráðuneytið þurfi að taka afstöðu til þess að fjölga sálfræðingum frekar en gert er ráð fyrir í tillögunni, sem að mati nefndarinnar er lykilatriði í skimun og snemmtækri íhlutun. Þá er brýnt að ráðuneytið taki afstöðu til athugasemda umsagnaraðila og bregðist við þeim á viðeigandi hátt. Enn fremur þarf að tryggja eftirfylgni með markmiðum þingsályktunartillögunnar og huga strax að nýrri aðgerðaáætlun sem taki við að fjórum árum liðnum. Í nýrri aðgerðaáætlun er mikilvægt að mótuð verði heildstæð stefna með vel skilgreindum markmiðum og að endurskoðaðar verði fjárveitingar til málaflokksins sem að mati nefndarinnar hafa verið of lágar.

Allir í nefndinni standa að nefndarálitinu en hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Við í nefndinni styðjum tillöguna og erum ánægð með hana sem fyrsta skref, en eins og lesa má af nefndarálitinu teljum við mikla (Forseti hringir.) vinnu fram undan til að koma málaflokknum í viðunandi horf hér á landi.



[14:44]
Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni, formanni velferðarnefndar, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir yfirferðina. Aðeins við að lesa tillöguna, af því að við lifum nú einu sinni í svona hraðadýrkandi skyndilausnasamfélagi þar sem tilvera barna og unglinga hefur verið markaðsvædd, þá finnst mér tónninn vera svolítið sá að það eigi að grípa inn í en ekki að fyrirbyggja. Mér finnst vanta í heildina í tillögunni þann tón að vera til staðar og byrgja brunninn frekar en að eyða orkunni, tímanum og peningunum í það þegar maður er fallinn ofan í.

Eitt finnst mér kannski aðeins vanta almennt um málið. Við þurfum að rannsaka meira hagi fólks því að ekki getur það verið eðlilegt, og kannski er eitthvað í samfélagsgerð okkar sem er þess valdandi, að öryrkjum fjölgar mjög á geðrænu sviði. Er kannski eitthvað að í samfélaginu sem við þurfum einmitt að rannsaka og skoða, sérstaklega hjá börnum og unglingum? Um þau börn og unglinga er mikið til af upplýsingum, t.d. í riti sem kemur út á hverju ári sem heitir Ungt fólk og er mjög gagnlegt rit. Ég hvet þingmanninn náttúrlega til að skoða það, það er mjög gagnlegt. En ég held að við verðum að vera svolítið meira í því að kanna hagi fólks í dag til að geta eytt orku, tíma og peningum meira í það að fyrirbyggja frekar en að vera alltaf að bregðast við.



[14:45]
Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og ég tek bara undir það. Við eigum að leggja meira í að fyrirbyggja. Ég vil samt meina að í þessu sé verið að leggja til að auka geðræktarstarf í skólum, að grípa fyrr inn í. Það að grípa fyrr inn í er líka forvörn í sjálfu sér. UNICEF hefur verið sérstaklega á vaktinni fyrir börn, auk umboðsmanns barna, Barnaheilla og Barnaverndarstofu. En þá er það þannig að efnislegar aðstæður barna skipta miklu máli. Þess vegna erum við mörg í þessu samfélagi sem viljum berjast fyrir jöfnuði og félagslegu réttlæti því að það eykur á vellíðan fólks þegar bilið fer að breikka. Sum börn lifa í einhvers konar gósenveruleika en önnur lifa við það að foreldrar þeirra eiga erfitt með að fæða þau og klæða og geta aldrei boðið þeim upp á hinn markaðsvædda veruleika sem hin börnin búa við. Þó að hann sé ekki endilega eftirsóknarverður þá myndast vanlíðan, kvíði og allra handa tilfinningar.

Svo er það auðvitað þannig að okkur foreldrum eru mislagðar hendur í uppeldinu. Við göngum í gegnum erfiðleikatímabil sem hafa áhrif á börnin okkar. Því vil ég sem jafnaðarmaður nota tækifærið og segja að þegar við búum í samfélagi þar sem við deilum kjörum og þar sem við njótum góðrar gjaldfrjálsrar almannaþjónustu þá erum við líka í forvörnum til þess að skapa betri líðan borgaranna í landinu.



[14:48]
Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svörin.

Þingsályktunartillagan felur í sér eina spurningu — mér er annt um öll þau mál sem koma frá ríkinu, því stjórnsýslustigi — sem er einhver skuldbinding fyrir sveitarfélögin. Það má svolítið lesa í það að þar sé verið að setja einhverjar skuldbindingar eða jafnvel fjárhagslegar kvaðir á sveitarfélögin.

Hv. þingmaður nefndi vakningu um geðheilbrigðismál. Það er alveg rétt. Það varð ofboðslega mikil vakning um vandann, mjög mikil vakning um vandann sem blasir við, en ég held að ekki sé mikil vakning hins vegar um það af hverju vandinn stafar. Ég held að það vanti svolítið inn í tillöguna.

Af því að þingmaðurinn vék að greiningum þá er það einhvern veginn þannig, held ég, að menn bíða fyrst mjög lengi eftir greiningum, það þekki ég sjálfur starfandi í grunnskóla, menn bíða jafnvel í ár eða eitt og hálft ár, því miður, svo þegar greiningin liggur fyrir þá er vandinn fundinn og leystur. Þá á bara að taka eitthvert annað skref. Kerfið er svolítið þannig uppbyggt að þegar greiningin liggur fyrir þá er málið búið. Það vantar að leysa það.

Hér sem dæmi kemur fram í kafla B á bls. 4, með leyfi forseta:

„B.2 Settur verði á fót starfshópur til að gera tillögur um geðræktarstarf í skólum.“

Þetta eitt og sér er til staðar nú þegar. Við erum með námskrá í lífsleikni. Það er eitthvað sem við getum notað. Nær væri til dæmis að setja peninginn í það, nota orku, krafta, tíma og peninga í það sem við erum þegar að gera. Við erum með sérgrein sem heitir lífsleikni þar sem verið er að kenna mjög margt af því sem fjallað er um hér.

„B.3 Skimað verði fyrir kvíða, þunglyndi og áföllum …“.

Það er gert. Það er til mjög mikið af upplýsingum um það. En svo gerist ekkert þegar niðurstaðan liggur fyrir. Þar stoppar kerfið alltaf einhvern veginn. Það þarf að gera meira í því í þessari þingsályktunartillögu, að nýta krafta, orku, tíma og peninga meira í það.



[14:50]
Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ábendingarnar.

Varðandi greiningar, ég held reyndar að það sé með ýmsu móti því að fjölmargir einstaklingar sem fá greiningar fá einhvers konar meðferð en það hefur auðvitað verið gagnrýnt mjög hér á landi, ekki síst af ADHD-samtökunum, að aðgengi sé að lyfjum en lítið að annars konar þjónustu. Svo hafa lyf vegna ADHD — gríðarlegir fordómar eru í garð þeirra lyfja í samfélaginu sem hafa reynst mjög erfiðir fyrir þá sem í raun og veru þurfa nauðsynlega á þeim að halda af því að sum af þeim lyfjum eru líka notuð af fíklum, en það á ekki að vera vandamál þeirra sem reiða sig á þau til að geta lifað eðlilegu lífi.

Varðandi geðræktarstarf í skólum þá kemur einmitt fram hér að það er heilsueflandi í leik- og grunnskóla og framhaldsskóla og mikið starf er í gangi. Það þarf kannski líka að meta hvað gagnast best. Allt það góða starf sem á sér stað í skólunum — fara þarf svolítið markvisst í það að miðla þekkingu um hvað gagnast best.

Nú þekki ég þetta best sem leikmaður, en ég sem foreldri lít svo á að einmitt í gegnum hrunið hafi grunnskólarnir og leikskólarnir verið í lykilhlutverki varðandi það að tryggja börnum öryggi og vellíðan. Ég er alltaf jafn þakklát þegar ég sé hvað er í raun verið að vinna með líðan barna, samskipti barna og að þroska þau í samskiptum hvert við annað. Ég tel að við séum að fá upp nýjar kynslóðir sem eru með miklu meiri tilfinningaþroska en mín kynslóð hafði og (Forseti hringir.) það sé ekki síst að þakka mjög markvissu starfi í skólum landsins (Forseti hringir.) og tengist einnig innleiðingu barnasáttmálans hér á landi.



[14:52]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. og formanni hv. velferðarnefndar, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir ræðuna þar sem hún fór gríðarlega vel yfir þessa tillögu til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Hún fór einnig vel yfir þær breytingartillögur sem hv. velferðarnefnd leggur til. Ég tel að þær séu allar mjög til bóta og þétti, ef svo má að orði komast, enn frekar þessa aðgerðaáætlun og geri hana enn betri.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem vék nú reyndar aðeins að því í ræðu sinni, enn frekar út í það hvort hv. þingmaður sé mér sammála eða hver sýn hennar sé á það hvort ekki dragi dálítið bitið samt úr þessari annars ágætu þingsályktunartillögu eða veiki hana að í frumvarpi hæstv. heilbrigðisráðherra um hámark á greiðslum til heilbrigðismála sé sálfræðiþjónustan ekki inni, og hvort það væri ekki meiri samkvæmni í því, ef við erum að fara að samþykkja þessa þingsályktunartillögu sem ég tel að við séum að fara að gera, að styrkja einmitt þennan hluta í frumvarpi heilbrigðisráðherra með því að Alþingi tæki til dæmis þá ákvörðun að setja inn peninga til að koma megi sálfræðiþjónustunni þar inn undir greiðsluþakið, alla vega að einhverju marki. Hvort við (Forseti hringir.) þurfum ekki að taka þessi mál dálítið saman.



[14:55]
Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir andsvarið.

Ég tel og held að við séum langflest hér á landi sammála því að stórefla þurfi aðgengi fólks að sálfræðiþjónustu. Ég vil segja: Ég tel þau skref sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur tekið í því skynsamleg, þ.e. að byrja með slíkt í heilsugæslunni eins og hann hefur gert í áherslum sínum. Ég er ánægð með að hann byrji þau skref þar. Ég hefði viljað sjá þau stærri, það dreg ég ekki dul á, en ég tel skynsamlegt að byrja með þjónustuna í heilsugæslunni.

Varðandi greiðsluþátttökuna þá verður að líta til sálfræðiþjónustunnar. Þetta er viðkvæmt því að þjónustan yrði hár útgjaldaliður. Mikil þörf er fyrir slíka þjónustu sem fólk borgar úr eigin vasa í dag, ef það hefur þá efni á því yfir höfuð. Það er mismunun þarna. Það er auðvitað fjöldi fólks sem hefur ekki efni á að leita sér nauðsynlegrar þjónustu.

Ofan á það langar mig að segja að — nú gleymdi ég, hæstv. forseti, hvað ég ætlaði að segja. Ég er búin að tala svo mikið hérna í dag.

En það er sem sagt mismunun í því hverjir geta leitað sér sálfræðiþjónustu. Já — og svo er í boði ýmis þjónusta á vegum SÁÁ, á vegum Rauða krossins, á vegum fleiri aðila sem er gjaldfrjáls eða ódýrari. En það er bara mikill frumskógur fyrir fólk (Forseti hringir.) og mjög mikil hætta á að út af kostnaði og takmörkuðu aðgengi fái fólk ekki viðeigandi þjónustu.



[14:57]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið.

Ég vil einnig taka undir það að ég er líka sammála hæstv. heilbrigðisráðherra að það sé gott fyrsta skref að koma með sálfræðiþjónustuna inn á heilsugæslustöðvarnar.

En mig langar að ítreka það sjónarmið mitt að ég tel mjög mikilvægt að sálfræðikostnaður verði tekinn með inn í það greiðsluþak sem sjúklingar eiga að bera samkvæmt frumvarpi hæstv. heilbrigðisráðherra.

Mig langar að beina því til hv. þingmanns, sem er formaður hv. velferðarnefndar, að þegar nefndin fer að fjalla um það frumvarp verði höfð hliðsjón af þessu. Það er í það minnsta mín skoðun að það mundi styrkja góða og ég held framsækna aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum ef sálfræðiþátturinn yrði styrktur enn frekar með auknum framlögum úr ríkissjóði. Mig langar því að beina því til nefndarinnar að hún skoði það sérstaklega til að ná betri samfellu og þéttari stefnu í þessu máli.



[14:59]
Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ábendingarnar og við ræðum það einmitt í niðurlaginu að við teljum að það þurfi að gera mun betur en lagt er upp með þó að við fögnum því sem þó gert er.

Nú er það svo að greiðsluþátttakan, sem sagt breyting á greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu er í umsagnarferli til 1. maí að mig minnir. Ég er svo sannfærð um að þar munum við fá mjög miklar ábendingar um þann alvarlega skort. Verið er að taka inn þjálfunina í það greiðsluþátttökukerfi en þar er ekki verið að taka inn sálfræðiþjónustu eða aðra slíka fagþjónustu vegna andlegrar heilsu. Það er mjög alvarleg brotalöm í íslensku heilbrigðiskerfi.

Með því að hafa þetta kerfi svona þá erum við svolítið að segja: Geðheilbrigðismál eru bara persónuleg vandamál hvers einstaklings. Á meðan líkamlegir kvillar eru eitthvað sem við greiðum fyrir úr sameiginlegum sjóðum að miklu leyti þó að greiðsluþátttakan sé of há, þá erum við í raun og veru að gefa þau skilaboð að ef fólki líður illa og býr við skert gæði út af andlegri vanlíðan þá sé það eiginlega persónulegt vandamál sem það verði að finna út úr einhvern veginn sjálft.

En þannig er það auðvitað ekki því að geðheilbrigðismál eru heilbrigðismál eins og hver önnur og eru oft rótin að líkamlegum kvillum. Við þurfum að breyta þessu kerfi þannig að við getum öll fengið nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, okkur að kostnaðarlausu eða á sem viðráðanlegasta verði.



[15:01]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég kem fyrst og fremst hér til að fagna því að við séum þó komin á þennan stað að vera hér með til síðari umræðu og afgreiðslu í framhaldinu fyrstu áætlunina, stefnumótun og aðgerðaáætlun, í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Ég þakka formanni velferðarnefndar og framsögumanni okkar, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir framsögu hennar og ég get stytt mál mitt með því að vísa til margs af því sem hún sagði hér, en vil engu að síður leggja orð í belg um nokkur atriði.

Það fyrsta sem ég tel að við skulum ekki gera lítið úr er mikilvægi þess að halda áfram að þróa umfjöllun um þessi mál þannig að þau komist betur upp á yfirborðið. Að við gerum allt sem í okkar valdi stendur, þar á meðal hér á Alþingi og af hálfu stjórnvalda, til þess að umræða um þessi mál, allt sem snýr að geðheilbrigði, geðrænum vanda, geðröskunum og geðrænum kvillum, sé rætt upplýst, fordómalaust og á hjálplegan hátt og til stuðnings því fólki sem við þennan vanda glímir en ekki öfugt, eins og því miður hefur stundum verið. Það er alveg gríðarlega mikilvægt og vissulega gleðst maður yfir því þegar maður sér vísbendingar um að aðeins séum við nú að þokast í rétta átt í þessum efnum. Á þessu ári og undanfarna mánuði og missiri hefur til dæmis aðeins borið á því að ungt fólk er orðið kjarkmeira og kemur fram af miklum hetjuskap og lýsir glímu sinni við vandamál af þessu tagi í staðinn fyrir að loka það inni. Það er ákaflega mikilvægt þannig að í samfélaginu öllu, á vinnustöðum, í skólum og innan fjölskyldna og annars staðar, sé hægt að takast á við þetta á farsælan hátt.

Þetta er útbreiddur hluti af veruleika okkar, lífi okkar, og tengist velflestum ef ekki eiginlega öllum fjölskyldum í landinu á einhvern hátt og á einhverju æviskeiði, að einhverjir eiga við erfiðleika á andlegu sviði að glíma. Ég tek hjartanlega undir það. Þess vegna er aðgreining geðheilsu og annarrar líkamlegrar heilsu mjög skaðleg ef hún á ásamt með öðru þátt í að menn meðhöndla þessi vandamál á annan hátt, ég segi ekki beinlínis að þau teljist annars flokks en þó er það þannig upp að vissu marki. Það er vont að senda slík skilaboð að kostnaður sem lendir á einstaklingum vegna þess að þeir eiga við þessa tegund heilsuvanda að stríða sé síður endurgreiddur og borinn sameiginlega af samfélaginu en ef um líkamlegan heilsubrest er að ræða.

Að þessu sögðu var líka ánægjulegt að verða vitni að því starfi velferðarnefndar, hversu gríðarlegur áhugi er þrátt fyrir allt á þessum málum úti í samfélaginu, meðal fagstétta, og satt best að segja frumkvæði í þeim efnum sem þeir hv. þingmenn sem hreyfðu upphaflega við málinu hér á þingi 2013–2014 eiga þakkir skildar fyrir. Því til marks er upphafsblaðsíða nefndarálits velferðarnefndar, eða fyrsta eina og hálfa blaðsíðan í nefndarálitinu, því að þar er að líta einhvern myndarlegasta lista sem ég hef, næstum að segja, séð af þessu tagi þar sem er óhemjumikill fjöldi gesta, fagfólks og alls konar gesta úr öllum áttum, sem kom fyrir nefndina, enda varði nefndin verulegum tíma í þetta mál, og síðan ítarlegar umsagnir frá um 40 aðilum, ef ég man rétt. Mjög margir láta sig þessi mál varða, sem betur fer.

Um afurðina hér, þ.e. tillöguna eins og hún kom fram upphaflega og með breytingum þeim sem velferðarnefnd leggur til á stefnunni og aðgerðaáætluninni, vil ég segja að í sjálfu sér er hún þegar farin að hafa áhrif, eins og kunnugt er. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur barist fyrir áherslum í fjárlagagerð sem ríma við megináherslur þessarar þó ósamþykktu aðgerðaáætlunar á sviði stefnumótunar og aðgerða varðandi geðheilbrigði. Hún er örugglega líka farin að hafa áhrif að sínu leyti á umræðuna og hún hefur greinilega ýtt við fjölmörgum fagaðilum og aðilum sem koma með einum eða öðrum hætti að þessum málum, samanber þann áhuga sem fram kom í starfi nefndarinnar í umsögnum og svo framvegis.

Það er þó að sjálfsögðu ekki þannig að þetta sé gallalaus eða fullkomin áætlun. Í reynd er hér miklu meira um að ræða aðgerðaáætlun til næstu fjögurra ára á þessu sviði en eiginlega heildstæða stefnumótun. Það er best að bara viðurkenna það og segja það eins og það er. Ef menn taka sjálfa tillöguna og skoða hana er það í raun og veru þannig að hún hefst á örstuttum inngangi þar sem markmið geðheilbrigðisstefnunnar eru skilgreind og undirmarkmið í örfáum línum og síðan kemur aðgerðaáætlunin sjálf. Á þetta var bent bæði af gestum og í umsögnum og það er alveg rétt að þessari vinnu þarf að fylgja eftir og vonandi, við næstu endurskoðun þessarar áætlunar, verður stefnumótunarkaflinn og heildstæð stefnumótun, yfirsýn yfir málaflokkinn, orðin miklu betur þætt saman við þær beinu aðgerðir sem menn síðan ætla að grípa til, kaflaskipt á hverjum tíma. Þar þarf tvímælalaust að halda áfram og gera betur.

Við ræddum þetta í velferðarnefnd en það voru auðvitað engin tök á því tímans og aðstæðna vegna að við gætum lagt í grundvallarvinnu af þessu tagi enda þarf þar að kalla fagaðila með til skrafs og ráðagerða. Slík heildarstefnumótun þarf að fæðast í víðtæku samstarfi aðila. Enda er það nú einn útgangspunktur aðgerðanna á þessu sviði að færa alla saman að borðinu og samþætta, svo sem eins og með samstarfssamningi sem ríki og sveitarfélög geri með sér. Má í því samhengi einnig benda á áherslur Ríkisendurskoðunar hvað varðar geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga.

Við fengum vandaðar umsagnir og gestakomur frá Félagi heyrnarlausra og þeim sem vinna með þeirra mál. Það er skemmst frá því að segja að nefndin tók undir þær athugasemdir og leggur til breytingar, samanber 1. tölulið, stafliði a og b, og 6. tölulið, breytingartillögur skjalsins, stafliði a, b og c, þar sem við tökum undir og leggjum til að tekið verði af skarið varðandi þá sérstöðu sem heyrnarlausir og heyrnarskertir búa við að þessu leyti. Það verður að horfa til þeirrar sérstöðu þegar þjónustan við þá er veitt. Það þarf sérhæfingu, sérhæft teymi, til að tryggja að þeir fái fullnægjandi greiningu, meðferð og aðstoð. Það gildir líka um þá þeirra sérstöðu að því leyti að íslenska táknmálið, þeirra móðurmál, er jafn rétthátt íslensku. Það höfum við sem betur fer leitt í lög og gerðum á síðasta kjörtímabili ásamt fleiri góðum hlutum, svo það sé nú nefnt. En það leggur líka stjórnvöldum skyldur á herðar að standa undir því að hafa gert íslenskt táknmál að móðurmáli þeirra.

Varðandi geðheilbrigðisþjónustu við fanga var það rætt og skoðað. Við lítum svo á að það sé að sjálfsögðu innifalið í tillögunni, þ.e. sem sérhæfð geðheilsuteymi í samstarfi við heilbrigðisþjónustu og sveitarfélög. Þar eru sérstaklega nefndir sem mögulegir samstarfsaðilar fyrir utan heilbrigðisstofnanir, sveitarfélögin og Samband íslenskra sveitarfélaga, Fangelsismálastofnun og notendasamtök. Það er alveg ljóst að þar erum við með það undir þótt vel megi segja að það kæmi alveg til greina að fjalla ítarlegar og meira aðskilið um þá stöðu sem fangar eru í og þurfa svo sannarlega á sínum stuðningi að halda.

Fjölgun sálfræðinga, sem hér hefur þegar verið rætt um og nefnt, eru fyrstu skrefin stigin í sambandi við að efla sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum. Það er að sjálfsögðu mjög jákvætt og tímabært. Það þarf að gera miklu víðar, svo sem eins og í skólunum og framhaldsskólunum, eins og líka hefur verið nefnt. Það er líka rétt ábending sem nefndin fékk að menn mega ekki nálgast málið með því að þar með sé öll mönnun tryggð eða séð fyrir öllum þörfum í þessum efnum því að fjölgun sálfræðinga breytir auðvitað ekki þörfinni fyrir teymisvinnu og aðkomu margra fleiri aðila, fleiri fagstétta. Á það ber að leggja áherslu um leið en því er að sjálfsögðu fagnað að sálfræðingum fjölgi og að aðgangur landsmanna að slíkri þjónustu verði auðveldari og greiðari.

Ég verð líka að taka undir það sem hér hefur verið rætt og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir nefndi að það á að taka það til alvarlegrar skoðunar hvort ekki sé löngu tímabært að hætta þessari aðgreiningu á kostnaði sem lendir á notendum sálfræðiþjónustu. Eins og staðan er í dag er alveg augljóst mál að efnahagur veldur gríðarlegri mismunun. Það er einfaldlega þannig að klukkustund hjá sálfræðingi sem seld er á taxta kostar um 15 þús. kr. Það er augljóst mál að þeir sem þurfa á slíkri aðstoð að halda vikulega eða jafnvel oftar reiða ekki allir auðveldlega fram þá fjármuni. Það er líka sá skavanki á þessu máli að þarna er aðgreining mismunandi heilsuvandamála áfram til staðar.

Varðandi biðlistana og þjónustu við börn og unglinga horfumst við í augu við mjög alvarlega stöðu og höfum lengi gert það þó að vissulega sé aðeins verið að sýna lit núna á að vinna niður hina löngu biðlista. Það er alveg ómögulegt að á allra viðkvæmasta tíma þegar þörfin fyrir snemmbæra aðstoð og íhlutun er hvað brýnust, þegar vandamálin gera vart við sig og koma upp á unga aldri, sem þau gera auðvitað í langflestum tilvikum — ég hygg að rannsóknir og tölfræði sýni að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem á annað borð glíma við geðraskanir eða geðræn vandamál einhvern tíma á ævinni, finni fyrir því strax í barndómi eða á unglingsárum. Þá er líka alveg ljóst að það getur haft gríðarlega mikið að segja að menn fái viðhlítandi aðstoð fyrir það sem eftir er af lífshlaupi viðkomandi einstaklings. Þá er ekki ásættanlegt að biðtími eftir þjónustu til dæmis barna- og unglingageðdeildar sé um ár, níu til átján mánuðir, og svo og svo langur tími líði eftir greiningu eða aðstoð hjá Þroska- og hegðunarstöð eða greiningarmiðstöð.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar kom inn í þessa vinnu og var mjög gagnlegt fyrir nefndina að fá hana. Við höfðum þá að vísu ekki orðið mikinn tíma til að taka í eins ríkum mæli mið af henni og mögulega hefði mátt gera. Engu að síður var gagnlegt að fá hana fram. Hún er með mjög skýrar ábendingar, sérstaklega um skipulag, stjórnsýslu og utanumhald í málaflokknum og um hvað þurfi að skýra í þeim efnum. Það held ég að allir séu sammála um. Að einhverju leyti má segja að verið sé að reyna að takast á við það með því að leggja kvaðir á menn um aukið samstarf og samstarfssamninga og byggja upp þverfagleg teymi og annað í þeim dúr, en þjónustan er auðvitað mjög dreifð og veitt af mörgum aðilum og á mismunandi stigum. Þannig verður það eðli málsins samkvæmt að vera upp að vissu marki því að hér er um mjög flókið samspil þátta heilbrigðiskerfisins að ræða við starfsemi annars staðar, í skólum, á vinnustöðum, í fangelsum, stöðu mála inni á heimilunum og svo framvegis. Það verður ekki allt keyrt í eitthvert eitt skipulag í þeim efnum. Þá kalla allar aðstæður á samvinnu og gott skipulag.

Varðandi snemmskimun og snemmtæka íhlutun leggjum við áherslu á það og að skimað eða leitað verði eftir þessum vandamálum tímanlega. Það var margt athyglisvert og lærdómsríkt sem fram kom í umfjöllun um þessi mál í nefndinni og hjá þeim gestum sem komu fyrir nefndina. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að margt kom mér á óvart sem ég hafði kannski aldrei hugsað út í, eins og það að jafn einfaldur hlutur og að færast milli skólastiga getur hér verið þó nokkur þáttur; það óöryggi sem það getur skapað fyrir barn að færast úr tiltölulega vernduðu umhverfi leikskólans þar sem haldið er tiltölulega þétt utan um börnin í fámennum hópum, upp í grunnskólann og síðan úr grunnskólanum upp í framhaldsskólann, getur verið eitt af því sem veldur ójafnvægi og óstöðugleika í lífi barna og ungmenna og jafnvel fara vandamál að skjóta upp kollinum sem eru tengd kvíða, þunglyndi og svo framvegis. Það er því afar mikilvægt að bregðast tímanlega við og taka á málunum.

Varðandi ADHD bentu margir á að þar væri ekki fjallað um málið í samræmi við stærð þess og alvarleika. Þar var á það bent af umsagnaraðilum að ADHD, sem telst að sjálfsögðu geðröskun, geðrænt vandamál — að um 5% barna í landinu greinast með slíkt. Þá aftur komum við að biðlistunum. Staðan undir lok árs 2015 var sú að um 400 börn voru á biðlistum eftir ADHD greiningu hjá Þroska- og hegðunarstöð og 390 börn á biðlista eftir einhverri greiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Það eru því miður engar smáræðistölur þegar um er að ræða um 4.000–4.500 börn í hverjum árgangi í grunnskólanum. Þá sjáum við að um er að ræða ískyggilega stóran hóp í hverjum árgangi sem er geymdur á biðlistum eftir því að fá greiningu á sínum vanda, sem er mikilvægt fyrsta skref.

Það er svo allt rétt sem á var bent og fram hefur komið, að það er ekki nóg að menn fái greiningu, það verður að vera alveg ljóst hvað tekur við. Til dæmis er ekki nóg að heilsugæslan sé opin fyrir fólk og að þar séu ráðnir inn sálfræðingar og menn geti fengið sína fyrstu aðstoð með því að snúa sér þangað, þannig að heilsugæslan standi undir nafni sem fyrsta viðkomustöð kerfisins, það verður líka að vera ljóst hvað gerist í framhaldinu. Vandinn leysist ekki með einni komu á heilsugæslustöð eða með því að fá greiningu hjá Þroska- og hegðunarstöð eða Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Það á bara að vera fyrsta skrefið í því sem við tekur.

En það var líka upplýst að heilbrigðisráðherra hefur ákveðið og kannski þegar sett á fót starfshóp um þjónustu við börn með ADHD. Þeim hópi er ætlað viðamikið verkefni. Að einhverju leyti bíður málið eftir því að því starfi ljúki. Það verður þá vonandi hægt að taka það af fullum þunga með í næstu umferð. Það er afar brýnt að þessu starfi verði sinnt af kostgæfni og það dagi hvergi uppi. Það þarf að marka sérstaka stefnu og áætlun sem horfir sérstaklega til þessa hóps og barna og unglinga með þessi eða önnur tengd vandamál eða hliðstæð og vinna svo að því að stytta biðlistana og auka og efla þessa þjónustu.

Að lokum vil ég taka undir það sem þegar hefur verið sagt. Ræðumaður lítur svo á að hér sé um mjög mikilvægt fyrsta skref að ræða til umbóta á þessu sviði en langt í frá einhvern endanlegan sannleik. Að síðustu vil ég nefna að ég held að við Íslendingar þurfum að taka það mjög alvarlega til skoðunar ekki bara hvað við verjum litlum opinberum fjármunum til heilbrigðismála, (Forseti hringir.) og hvort sjúklingar bera mikinn kostnað, heldur líka hversu lágt hlutfall þess lága hlutfalls af vergri landsframleiðslu sem fer til heilbrigðismála á Íslandi fer til geðheilbrigðismála.



[15:22]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka flutningsmanni tillögunnar og velferðarnefnd fyrir að hafa unnið þetta mál og mér finnst frábært að lesa nefndarálitið, sjá alla gestina sem hafa komið, ítarlegt nefndarálit þar sem er farið vel yfir athugasemdir og rökstutt af hverju nefndin hefur tekið tillit til þeirra eða ekki og þetta er unnið þvert á flokka. Mér finnst þetta frábært starf. Þetta er flott og við getum sagt gott fyrsta skref í tilraun til að móta geðheilbrigðisáætlun. Það er í rauninni alveg ótrúlegt að við séum með þetta í höndunum árið 2016, ekki komin lengra.

Ég hefði gjarnan viljað sjá og það væri auðvelt að segja að maður mundi vilja sjá stærra og meira plan, en ég held að ef okkur tekst að framfylgja þessu þá séum við í raun strax komin vel á veg og í rétta átt. Eins og kemur fram hérna er talað um að það þurfi að sjálfsögðu að gera nýtt plan þegar þar að kemur.

Ég held að það hafi líka verið gott að skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga kom út, mjög áhugaverð skýrsla og þarft innlegg í umræðuna. Hún sýnir svo ekki verður um villst að við getum ekki setið með hendur í skauti. Við höfum ekki staðið okkur í þessum málaflokki, ég upplifi það að minnsta kosti þannig.

Önnur tillaga sem hefur verið lögð fram sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er fyrsti flutningsmaður að, ef ég man rétt, varðaði sálfræðinga í framhaldsskóla sem ég held að sé mjög brýnt. Mér finnst rétt að impra á því að mér finnst svolítið einkennilegt ef það er þjónusta sem skólarnir eigi að greiða. Það ætti að vera þjónusta sem ríkið greiddi því staða framhaldsskólanna er þannig að það er örugglega ekki einn einasti framhaldsskóli sem hefur raunverulega efni á því að vera með sálfræðinga í vinnu. En ég veit að reynslan til dæmis í Verkmenntaskólanum á Akureyri hefur verið mjög góð og þar vilja menn halda þessu áfram. Svona ætti þetta að vera í öllum framhaldsskólum.

Ég tek undir með hv. flutningsmanni að það er gott að tilgreint sé í tillögunni, þar sem talað er um sálfræðimeðferðir, að þá er átt við gagnrýndar meðferðir með klínískum leiðbeiningum. Það skiptir máli. Hér er líka vísað til Bretlands. Það er mjög áhugavert það sem er í gangi þar, virkilega. Ég held að við ættum að skoða það alvarlega. Þar er verið að beita hugrænni atferlismeðferð á kannski vægari sjúkdóma þar sem það er hægt með mjög góðum árangri. Þegar við horfum upp á að geðraskanir eru algengasta ástæða örorku á Íslandi og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin spáir því að árið 2030 verði þunglyndi í 1. sæti yfir heilsufarsógnir í heiminum, er þetta vandamál af slíkri stærðargráðu að það verður að grípa til öflugra aðgerða. Ég er mjög spennt að fylgjast með því sem Bretar eru að gera og sé að nefndin hefur að einhverju leyti kynnt sér það og vísar í það.

Ég veit ekki hvort velferðarnefnd hefur tekið skýrslu Ríkisendurskoðunar til umfjöllunar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að fylgja þeim málum eftir og þeim ábendingum sem koma þar fram. Það var fjallað um hana á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eins og er tilfellið með allar skýrslur Ríkisendurskoðunar, en þær eiga síðan mjög margar erindi í fagnefndir. Þarna eru mjög mikilvægar ábendingar. Þó að þetta komi kannski ekki endilega inn í þetta mál, þá vil ég halda því á lofti að velferðarnefnd, sem hefur reyndar í nógu að snúast, ég veit það, eða sú sem tekur við á nýju þingi fylgi þessu máli eftir. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt.

Mér finnst áhugavert að lesa hérna um skimanir og það er svo ánægjulegt að sjá hvað nefndin hefur greinilega lagst í málið, fengið marga gesti, vegið og metið. Ég er í rauninni sammála því sem fram kemur í nefndaráliti og þeirri niðurstöðu sem nefndarmenn hafa komist að eftir að hafa heyrt rök með eða á móti. Ég vil þakka fyrir þessa mjög svo góðu vinnu og mun á meðan ég sit á þingi leggja mitt af mörkum til þess að veita hæstv. heilbrigðisráðherra það aðhald sem til þarf til að þessi stefna verði innleidd og það verði gert vel.



[15:27]
Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þingmanni, Brynhildi Pétursdóttur, fyrir jákvæða ræðu hennar og hrós til velferðarnefndar. Ég tek undir það að velferðarnefnd vann vel að þessu máli. Það má líka segja um þá nefnd að þar er almennt mjög gaman og gott að vinna. Þótt við séum ekki alltaf sammála þá vinnum við yfirleitt með það að leiðarljósi að reyna að finna sameiginlega niðurstöðu ef mögulegt er. Það er jákvætt og gott af því við erum jú fulltrúar fyrir ólíka kjósendur og það er best þegar hægt er að finna leið sem allir geta sætt sig við.

Nú að geðheilbrigðismálum. Ég kem aðallega hér upp til að ræða um skýrslu Ríkisendurskoðunar. Nú er það svo að hún kemur út áður en við skilum nefndarálitinu og það er mjög jákvætt. Hver og einn nefndarmaður kynnti sér efni hennar, en þá kemur einmitt upp þessi vandi að skýrslurnar fara til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og þá þarf velferðarnefnd að vega og meta: Eigum við að kalla aftur til Ríkisendurskoðun? Eigum við að kalla aftur til ráðuneytið ef það hefur áður mætt og komið? Þessi verkaskipting er umhugsunarefni af því að það er nóg að gera, okkur berst mikið efni inn í nefndirnar sem við þurfum að kynna okkur og vinna með. Stundum er hætta á að þessar skýrslur fari fyrir ofan garð og neðan í þeim nefndum sem fjalla um viðkomandi málefnasvið. Ég skal játa það að ég var ekki búin að sjá hvernig umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrsluna var háttað. (Forseti hringir.) Hvert er álit þingmannsins á þessu fyrirkomulagi?



[15:30]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ástæðan fyrir því að á sínum tíma var ákveðið að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mundi taka fyrir allar skýrslur Ríkisendurskoðunar er að þær féllu sumar hverjar á milli og fengu enga umfjöllun. Ég er svo sem alveg hlynnt því og ég er mjög ánægð með það fyrirkomulag sem hefur verið í nefndinni, þar sem mér finnst við einmitt vinna mjög vel saman þvert á flokka og komumst yfirleitt að góðri niðurstöðu, um það með hvaða hætti við mundum taka skýrslurnar fyrir, að fá Ríkisendurskoðun til okkar og svo hlutaðeigandi ráðuneyti og stofnanir. Oft er umfjöllunin mjög góð. Það var mjög góð umfjöllun um þessa skýrslu. Það sem vakir fyrir okkur er ekki síst að sýna að hér er þingið, fulltrúar úr öllum flokkum, að ræða um skýrsluna. Ráðuneytinu ber að bregðast við. Við erum svolítið að spyrja: Hvað ætlið þið að gera? og vera þetta aðhald.

Ég veit að í einhverjum tilfellum hefur fjárlaganefnd tekið fyrir skýrslu í raun svolítið upp á sitt eindæmi og sagt: Hér er skýrsla sem varðar fjárhagslegt málefni. Við viljum ræða hana. Gott ef Ríkisendurskoðun kom ekki á þann fund, kannski var það tvíverknaður. En hitt væri þá að halda sameiginlega fundi og það held ég að gæti jafnvel orðið of mikið. Kannski eru einmitt þær skýrslur sem eru svona „pjúra“ fagnefndarskýrslur ekkert svo margar. En af því að þetta mál er svo mikilvægt og stórt og betra að sem flestir þingmenn séu vel inni í því og geti spurt ráðuneyti, skýrsluhöfunda og landlæknisembættið og þá sem koma að, þá finnst mér ekkert óeðlilegt að nefndir kalli aðila aftur fyrir. Ég held við höfum einhvern tímann verið með sameiginlegan fund, mig minnir það, en mér finnst mjög mikilvægt að ein nefnd taki að minnsta kosti allar skýrslurnar, af því að þetta var vandamál, og það er stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og allir eiga fulltrúa þar. Síðan höfum við stundum vakið athygli þingnefnda á einstaka málum, þá kannski helst (Forseti hringir.) velferðarnefnd og allsherjar- og menntamálanefnd.



[15:32]
Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það var svo á síðasta kjörtímabili að forseti sendi skýrslurnar til mismunandi nefnda. Ég man að við tókum upp það verklag í þáverandi félags- og tryggingamálanefnd að allar þær skýrslur sem við fengum tókum við til umfjöllunar og skiluðum áliti af einhverju tagi. Ef við vorum ánægð þá sögðum við það o.s.frv., en samt sem áður skiluðum við áliti svo þess sæi stað í þingskjölum að Alþingi hefði kynnt sér allar skýrslurnar og sett sig inn í þær. Ég er alveg sammála því að það er fínt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé með þetta í sínum ranni, en mér finnst samt sem áður eins og margar af þessum skýrslum fari fram hjá okkur. Ég hef líka efasemdir um að sömu aðilar séu kallaðir fyrir mismunandi nefndir. Það á alveg rétt á sér í einhverjum tilfellum, en það verður svolítið ankannalegt. Í þessari skýrslu er verið að gagnrýna það að landlæknisembættið hafi ekki tekið að sér ákveðið hlutverk með ákveðnum hætti, þannig að þetta er sannarlega stjórnsýsla sem er ekki að virka sem skyldi, þó síðan sé bent á annað af hálfu ráðuneytisins, þar er annar skilningur á þessu. Mér fannst í raun og veru í þessari skýrslu að ráðuneytið brygðist kannski ekki við með nógu afgerandi hætti. Það var svolítið látið í veðri vaka að þetta væri allt á réttri leið. Það var ekki mjög handfast hvernig ætti að taka á þessu. En það er kannski tilefni fyrir nefndina að taka skýrsluna fyrir þó að það verði ekki fyrr en í haust þegar verða minni (Forseti hringir.) umsvif í nefndinni.



[15:34]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek algjörlega undir þetta. Þessi sjónarmið hafi einmitt verið rædd í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að fá skýrsluna frá Ríkisendurskoðun sem er í raun eftirlitsstofnun Alþingis. Ég mundi vilja sjá meira af því að við værum að ræða skýrslurnar í þingsal og eins og t.d. þessa skýrslu og værum þá með ráðherra til svara, vegna þess að þegar við erum að taka skýrslurnar fyrir erum við að tala við embættismennina, ráðherra ber síðan ábyrgð á sínu ráðuneyti og aðgerðum sem á að grípa til. Mér finnst við gera í rauninni of lítið af því í þessu eftirlitsstarfi sem fer fram í þingnefndum að kalla ráðherra til okkar til að geta spurt út í og þar fram eftir götunum. En ég mundi halda að umræða um að minnsta kosti mikilvægustu skýrslur Ríkisendurskoðunar ætti hreinlega heima í þingsal líka. Þá gætu allir tekið þátt, þá væru það ekki bara þeir sem sitja í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem eru vel inni í þeim málum. Þannig er það. Ég er sammála.

En það var eitt sem ég gleymdi áðan, ég ætla bara að benda á það, sem varðar þessa umræddu skýrslu. Það var kostnaðurinn. Ríkisendurskoðun reiknaði út kostnaðinn vegna þessa málaflokks frá 2010–2014. Það sem vakti athygli mína var að það er um milljarður sem fer í umönnunargreiðslur en 3,2 millj. kr. eru vegna samninga við sjálfstætt starfandi sálfræðinga 3,2 millj. kr. á þessum árum. Það er svo mikilvægt fyrir okkur að fá þessar upplýsingar og gera síðan eitthvað við þær. Þess vegna vil ég að allir þingmenn séu meðvitaðir um þessar skýrslur, lesi þær og við séum síðan með til að móta stefnu, því við erum oftar en ekki sammála um hlutina.



[15:36]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er við hæfi í umræðu um nefndarálit velferðarnefndar um fyrstu marktæku áætlun stjórnvalda um umbætur í geðheilbrigðisstefnu að hér sé allt með kyrrum kjörum, óvenju rólegt og þægilegt andrúmsloft. Þeir sem tala eru að megninu til sammála þrátt fyrir að umræðuefnið geti stundum og hafi kallað á annars konar viðbrögð en þau rólegheit sem ríkja í salnum við umræðu um þetta merka mál og nefndarálit.

Virðulegur forseti. Að öllu gríni slepptu ætla ég að byrja á því að þakka nefndarmönnum, samnefndarmönnum mínum í velferðarnefnd fyrir þá vinnu sem innt var af hendi við þetta mál og að það hafi tekist með samstilltu átaki að nefndin skilaði sameinuð nefndaráliti í þessu mikilvæga máli. Þetta eru fyrstu marktæku skrefin í áætlun stjórnvalda um umbætur í geðheilbrigðisþjónustu og eru þau löngu tímabær. Oftar en ekki og enn í dag er rætt um geðheilbrigðismál og það virkar stundum sem það gæti töluverðra fordóma í garð fólks sem á við geðheilsuvandamál að stríða. Oftar en ekki er það feimnismál, sem er miður vegna þess að þá sækja þeir síður til læknis sem eru hrjáðir af einhverjum slíkum kvillum er tilheyra geðheilbrigði okkar.

Það sem mér finnst markverðast í þessu fyrir utan þjónustuna í heild sinni og það sem ég ætla að taka á er að nefndin skerpir á í þjónustu fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta. Í nefndarálitinu er gert ráð fyrir sérhæfðu geðheilsuteymi fyrir þann hóp. Það er mikilvægt að lögð sé áhersla á það í því sérhæfða teymi að þar sé heilbrigðisstarfsfólk sem talar táknmál, skilur táknmál og getur haft samskipti á því tungumáli því að bein tengsl í samskiptum heilbrigðisteymis og sjúklings hljóta að vera grunnatriði til þess að ná árangri, það ætti enginn milliliður að vera þar. Það er því brýnt að í slíku teymi sé fagfólk sem hefur tök á og talar táknmál, það sem við gerðum að jafngildu máli og íslenskuna hér ekkert alls fyrir löngu. Mér finnst ástæða, eins og öðrum, til að nefna þetta sérstaklega og leggja á það ríka áherslu.

Það er líka afar mikilvægt, eins og fram kemur í nefndarálitinu og í áætluninni, að gert er ráð fyrir að fjölga sálfræðingum á heilsugæslustöðum og heilbrigðisstofnunum. Það hlýtur samhliða að þýða, í það minnsta að mínum skilningi, að þegar einstaklingur kemur á heilsugæslustöðina, mætir þverfaglegu teymi þar sem er sálfræðingur til að ræða þann vanda sem við blasir og umræddur einstaklingur, hvort sem hann er barn, unglingur eða fullorðinn, þarf að leita áfram í víðtækara úrræði, að innan þess greiðsluþátttökukerfis sem nú hefur verið lagt fram, og er til umsagnar og verður tekið fyrir í velferðarnefnd þegar umsagnarfrestur er liðinn, gildi það sem þar stendur, að hafi einstaklingurinn farið á heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað og fengið vísun þaðan á sérfræðing eigi það jafnt við um sálfræðinga og geðlækna sem aðra sérfræðinga í öðrum sjúkdómum. Ég leyfi mér að horfa á þetta í samhengi. Sitjandi í þessari ágætu nefnd mun ég að minnsta kosti beita mér fyrir því að þessi skilningur minn sé sá hinn sami og gildi af hálfu ráðherrans þegar hann leggur fram þetta frumvarp, því að þar kemur mjög skýrt fram að fyrsti viðkomustaðurinn sé heilsugæslan og fari vísun þaðan áfram sé hún fyrir þann sem fær þá þjónustu ekki háð þeim greiðslum sem hún er í dag. Ég held að ástæða sé til að taka þetta fram hér og nú til að skerpa á því sem síðar kemur til meðferðar nefndarinnar.

Það er mikilvægt í ljósi þess að við erum með umræðu um bæði skimun og snemmtæka íhlutun og með umræðu um biðlista og eflingu geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn að horfa til þess að í einu og sama sveitarfélaginu er væntanlega að finna heilsugæslu, leikskóla og grunnskóla og þessir þrír aðilar geta spilað saman þegar þarf að finna börn sem einhverra hluta vegna eru kvíðin, hvort sem þau eru innan tveggja ára aldurs eða komin á leikskóla. Það þarf að vera samspil milli stofnana sem fást við börn og unglinga og vinna með þeim frá degi til dags. Þær þurfa að geta talað saman og bent á þá þætti sem hugsanlega þyrfti að skoða og menn eru ræða í þessu nefndaráliti sem skimun og snemmtæka íhlutun. Allt upp að sex ára aldri fara börn í heilbrigðiseftirlit og síðan tekur skólinn við. Það ætti að vera auðvelt um vik fyrir okkur í því þétta samfélagi sem við búum í að finna þau börn sem glíma við vanda sem snýr að geðheilsu þeirra, til að geta beitt snemmtækri íhlutun. Þá hlýtur að vera grundvallaratriði, hér sem endranær, að það er ekki nægjanlegt að greina vandann heldur verða að vera til einhver úrræði sem viðkomandi aðila er beint í og haldið utan um hann. Það er grundvallaratriði í þessum sjúkdómum sem hér heyra undir sem og öllum öðrum.

Þegar við ræðum geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga hljótum við að þurfa að hafa sérhæft teymi einstaklinga vegna þess að sú þjónusta sem þeir aðilar þurfa á að halda kann að vera með allt öðrum hætti en þegar um fullorðið fólk er að ræða sem greinist hugsanlega seint í aldursstiga. Ég segi stundum að eins lengi og elstu menn muna hefur verið biðlisti á BUGL og eftir þjónustu á barna- og unglingageðdeildinni, sem skammstöfuð er BUGL. En við gætum hugsanlega með snemmtækri íhlutun komið í veg fyrir allan þann fjölda sem þarf að sækja þangað og væntanlega þjónustað þau börn og þá unglinga eins vel og við getum í nærumhverfi þeirra og veitt þeim þau úrræði sem tiltæk eru til að gera þeim lífið bærilegra í því samfélagi sem þau lifa og hrærast í. Það að taka einstaklinga alltaf úr umferð og setja þá sér er kannski sísta lausnin á vandkvæðum þeirra og horfa þarf til þess í þverfaglegu teymi hvað nærsamfélagið getur gert til að draga úr kvíða og vanlíðan og veita börnum og unglingum aðstoð og úrræði.

Oftar en ekki þegar við ræðum um þverfaglegt teymi teljum við og treystum því að allir skynji hvað í því felst og að áherslan verði lögð á fyrsta stigi heilbrigðisþjónustunnar, í heilsugæslunni, að það sé alltaf þverfaglegt teymi sem getur tekið við einstaklingnum og beint honum í úrræði sem hugsanlega skarast innan heilbrigðisstéttanna sem og innan skólasamfélagsins, til þess að sá sem glímir við vandann fái lausn mála sinna en ekki að það skipti meginmáli hver innan kerfisins veiti þjónustuna.

Virðulegur forseti. Hér inni og í nefndarálitinu er smákafli sem heitir Leiðbeiningar fyrir fjölmiðla. Nefndin var sammála um að hvorki ríkisvaldið né nefndin sjálf gæti haft eftirlit með eða gefið fjölmiðlum skýr skilaboð um það á hvaða hátt þeir ættu að fjalla um þetta. En hins vegar hefur það vakið furðu, og ég ætla að segja það upphátt, að fjölmiðlar hafa stundum tilgreint í fréttaflutningi að um sé að ræða mann eða konu með geðræn vandamál eða um sé að ræða mann eða konu af erlendum uppruna, en við tölum ekki um að hann hafi verið frá Ísafirði eða Siglufirði eða Akureyri eða Akranesi, nei. Ekki heldur hvort hann hefur verið hjartveikur eða með krabbamein eða botnlanginn kannski tekinn úr honum morguninn áður, nei. En okkur finnst ástæða til að nefna í fjölmiðlum að einstaklingurinn eigi við geðræn vandamál að stríða og sé jafnvel af asískum uppruna.

Þetta gerir ekkert annað en ala á fordómum og er algjörlega fáránlegt. Ef það má ekki segja þetta upphátt við fjölmiðla erum við illa stödd.

Það vekur stundum furðu mína að við Íslendingar, þessi fámenna, sterka, vel gerða þjóð, skulum vera með allar þessar greiningar. Ég held við sláum heimsmet í greiningum, ég er eiginlega alveg viss um það, í hvers kyns greiningum. Mér finnst ástæða til að skoða hvað í veröldinni veldur því að börn, unglingar og síðan fullorðnir eru hér með greiningar og oftar á lyfjum vegna greininga en nokkurs staðar annars staðar í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Er það fólgið í því af því við höfum ekki haft þverfaglegt teymi til að þjónusta einstaklingana í nærumhverfinu og það hefur verið einfaldast að setja einstaklinga á lyf til að róa þá eða draga úr þessu eða draga úr hinu? Ég veit ekki af hverju, hvers konar lyf það eru eða hvað en mér finnst það áhyggjuefni. Við eigum að velta því fyrir okkur hvers vegna þetta er svona hjá okkur.

Engu að síður fagna ég því átaki sem á að fara í með skipun starfshóps sem mun skoða hvers konar þjónustu við getum veitt börnum sem eru til dæmis með ADHD og að aukin verði áherslan á þann þátt sem og annan með þverfaglegri aðstoð við börn og unglinga og fullorðið fólk í því nærsamfélagi sem það býr í hverju sinni.

Virðulegur forseti. Fyrst og síðast fagna ég því að þessi skref séu stigin og að þessi þingsályktunartillaga skuli liggja frammi sem vonandi, og ekkert vonandi, sem verður fylgt eftir af hálfu þingmanna með fullri reisn, að ráðherra, heilbrigðisstofnanir og heilbrigðissamfélagið sinni þessu og taki tillit. Það þarf líka að segja að hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherrar í náinni framtíð þurfa allir að átta sig á því að þetta kallar á aukið fjármagn. Til þess verða menn að horfa.