145. löggjafarþing — 104. fundur
 29. apríl 2016.
stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára, frh. síðari umræðu.
stjtill., 338. mál. — Þskj. 405, nál. 1184, brtt. 1185.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:14]

[11:07]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er mikið gleðiefni að við séum hér að fara að greiða atkvæði um þingsályktunartillögu sem felur í sér geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlun með fjármagni til fjögurra ára. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir sköruglega framgöngu í að láta móta þessa áætlun. Ég þakka velferðarnefnd fyrir frábæra vinnu en ekki síst öllum þeim tugum umsagnaraðila og gesta sem lögðu málinu lið. Á síðustu árum hefur orðið mikil vakning í umræðu um geðheilbrigðismál og mikilvægi þeirra og það að þetta er miklu algengara, að við glímum við andlega krankleika, en almennt hefur fengið að koma fram í umræðunni þangað til á allra síðustu árum.

Þetta er fyrsta skrefið og svo sannarlega mikilvægt en á næstu árum þurfum við að stíga mun djarfari skref og ég vonast til að samstarfið á Alþingi um þau skref verði jafn gott og um þetta fyrsta.



[11:08]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég fagna því að við séum komin á þann stað að samþykkja fyrstu stefnumörkun og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum. Við sem að þessu unnum í velferðarnefnd erum sammála um að þetta sé gott fyrsta skref en það þarf auðvitað meira til. Fjármunir þurfa að fylgja þessum aðgerðum á komandi missirum í heilsugæslunni og framhaldsskólunum þar sem ráðnir verða sálfræðingar til að byggja upp öflug, þverfagleg teymi og þar fram eftir götunum. Ég vil svo beina því til hæstv. ráðherra að þessi stefna verði, ja, kannski ekki strax en mjög fljótlega sett í endurskoðun þannig að innan tveggja ára liggi fyrir drög að næstu fjögurra ára áætlun og komi fyrir þingið þar sem búið verði að styrkja stefnumótunarþáttinn í pakkanum þannig að hér sé ekki fyrst og fremst um að ræða aðgerðaáætlun til tiltekins tíma heldur líka heildstæða stefnumótun. Það væri æskilegt að færa þetta í þann farveg að með reglubundnum hætti væri slík stefna og aðgerðaáætlun uppfærð á tveggja ára fresti og að við hefðum alltaf framan við okkur gilda fjögurra ára áætlun á þessu sviði.



[11:09]
Elín Hirst (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sérstaklega að við erum að afgreiða þetta mál hér í dag, þakka heilbrigðisráðherra líka fyrir aðkomu hans að málinu. Að mínum dómi verðum við að taka í faðminn og hjálpa þeim börnum og ungmennum sem eiga við geðraskanir að stríða en sá hópur fer því miður stækkandi með hverju árinu. Við verðum að halda fast utan um þessi mál hér á landi og ekki láta deigan síga. Þrátt fyrir að þetta sé gott fyrsta skref verður þetta að vera upphafið að einhverju meiru vegna þess að við viljum komast til botns í þessum vanda og við viljum að börnunum okkar hér á landi líði vel, ekki bara líkamlega heldur líka andlega. Ég hvet allan þingheim til að styðja þetta mál.



[11:11]
Páll Valur Björnsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað um þetta gleðilega fyrsta skref í áætlun og stefnu í geðheilbrigðismálum. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að hafa lagt málið fram. Eins og hefur komið fram er þetta fyrsta skref og mjög mikilvægt fyrsta skref.

Eins og fram kom í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem gefin var út í febrúar um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga er pottur brotinn í þessum málum. Við þurfum aldeilis að spýta í lófana til að takast á við geðheilbrigðismál á Íslandi.

Eins og komið hefur fram hafa um 38% þeirra sem eru á örorku lent á henni vegna andlegra veikinda þannig að til mikils er að vinna. Við eigum ekki að hugsa mikið um hvað við leggjum mikinn pening í þetta því að þetta er fjárfesting. Peningar sem eru lagðir inn í geðheilbrigðismál strax á fyrstu stigum skila sér margfalt til baka, það hafa rannsóknir sýnt.



[11:12]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við göngum innan tíðar til atkvæða um fyrstu marktæku áætlun stjórnvalda um umbætur í geðheilbrigðisþjónustu og ég fagna þeim áfanga. Mig langar að leggja sérstaka áherslu á tvo þætti í þessu, annars vegar að í nefndarálitinu er lögð áhersla á að sérhæft, þverfaglegt heilsuteymi fyrir þá sem eru heyrnarlausir og heyrnarskertir og hins vegar að tungumálið táknmál verði nýtt í þessu sérhæfða heilsuteymi. Það tel ég afar mikilvægt í því verkefni sem hér liggur fyrir sem og þá áherslu sem lögð er á að koma til móts við börn og unglinga sem eiga við geðræn vandamál að stríða með snemmtækri íhlutun vegna þess að kerfið okkar, heilsugæslan, félagsþjónustan og skólar, er í öllum færum til þess að gera svo hafi það til þess fjármagn.

Ég skora á þingheim allan að veita þessu máli brautargengi.



[11:13]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er afar ánægjulegt að sjá fyrstu geðheilbrigðisstefnuna til lengri tíma líta dagsins ljós. Ég vil við það tilefni þakka velferðarnefnd sérstaklega fyrir vel unnin störf og ekki síður formanni velferðarnefndar, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, sem var í rauninni upphafsmaður þessa máls með flutningi þingsályktunartillögu sem stefnan byggir hér á.

Þessi vinna sýnir okkur, það er ágætt að hafa það í huga, að þrátt fyrir allt getur þingið náð saman um mjög góð mál sem þetta. Það er ánægjulegt og gott. Við höfum núna einhvern grunn til að byggja á. Þetta er vissulega fyrsta skrefið, en þessi grunnur gefur þeim góða stöðu sem vilja fylgjast með, ýta á hluti, veita stjórnvöldum aðhald og grunn til að byggja á frekari ákvarðanir.

Ég tek undir þau orð sem komu fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar áðan að það sé nauðsynlegt að endurskoða þessa stefnu innan eins til tveggja ára. Hann mæltist til þess að sá sem hér stendur (Forseti hringir.) gerði það og ég vænti þá öflugs stuðnings hv. þingmanns [Hlátur í þingsal.] við það verkefni. Kærar þakkir. (Gripið fram í.)



Brtt. 1185,1–6 samþ. með 42 shlj. atkv.

Tillgr., svo breytt, samþ. með 42 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Till., svo breytt, samþ. með 42 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BP,  EKG,  ElH,  ELA,  FSigurj,  HBK,  HarB,  HE,  HHG,  HBH,  JMS,  JónG,  KG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LínS,  OH,  ÓÞ,  PVB,  PJP,  RR,  SÁA,  SII,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  UBK,  VBj,  ValG,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE,  ÖS.
21 þm. (ÁsmD,  ÁstaH,  BirgJ,  BjarnB,  BjÓ,  BN,  EyH,  GÞÞ,  GStein,  GBS,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  ÓP,  REÁ,  RM,  SigrM,  SIJ,  VigH,  VilÁ,  ÖJ) fjarstaddur.