145. löggjafarþing — 105. fundur
 2. maí 2016.
fjölgun vistvænna bifreiða.

[15:17]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í stefnumótun stjórnvalda varðandi það að fjölga vistvænum bílum. Ég ætla að tala bara um nýorkubíla, bíla sem brenna ekki jarðefnaeldsneyti heldur geta notað metan eða rafmagn. Ég var með skriflega fyrirspurn um þetta í fyrra og fékk svar sem mér fannst ekki nógu gott. Þar er vísað í einhver markmið sem voru sett 2007 og 2008 og einhvern rammasamning 2014 en lítið talað um hvað þessi stjórnvöld hafa hugsað sér að gera. Einnig er talað um útboð fyrir ráðherrabifreiðar sem var auglýst í nóvember 2011.

Vissulega eru ívilnanir í gangi og sumir af þessum nýorkubílum eru dýrari. Þó er það alls ekki algilt. Þeir eru einnig til af öllum stærðum og gerðum þannig að það á ekki að vera nein afsökun. Ef ráðherra eða ríkisstofnun þarf jeppa eða fjórhjóladrifinn bíl eru þeir einnig til sem nýorkubílar. Ég velti fyrir mér hvernig ríkið ætlar að ganga á undan með góðu fordæmi. Í dag er það eiginlega þannig að stofnunum er í sjálfsvald sett hvernig bifreiðar þær kaupa.

Í Hollandi tala menn raunverulega um að árið 2025 verði ekki fluttir inn til landsins bílar sem brenna jarðefnaeldsneyti. Við erum á Íslandi sem við getum rafbílavætt á örfáum árum.

Hvar er stefnan? Það er hún sem ég kalla eftir hér. Að horfa upp á að ráðherrar kaupi sér núna nýja bensínbíla finnst mér alveg út í hött og ég kalla eftir skýrri stefnu. Ég get aftur sett fram skriflega fyrirspurn en ég vil freista þess að fá svör frá hæstv. umhverfisráðherra um stefnu ríkisstjórnarinnar þegar kemur að nýorkubílum.

Hvernig ætlar hún að rafbílavæða landið? Hvernig ætlar hún að tryggja að það verði fleiri bílar sem nota metan og aðra endurnýjanlega orkugjafa?



[15:20]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina og jafnframt þann áhuga sem er hér á loftslagsmálum. Ég tel að þau séu mál málanna, hvort sem það er hér á landi eða annars staðar, og rafbílavæðing er vissulega mjög stór hluti varðandi það. Það er rétt sem þingmaðurinn hélt fram, við ættum að geta gert það auðveldlegar en margir aðrir þar sem við eigum okkar vistvænu orku og loftslagsvænt rafmagn.

Ég kynnti sóknaráætlun í loftslagsmálum. Þar er einmitt rafbílavæðingin einn stærsti liðurinn. Það er verið að vinna að þessu og ef þingmaðurinn kýs að senda fyrirspurn fær hún nákvæmlega að vita hvernig vinnan stendur, en ég get fullvissað hana um að síðast í morgun vorum við að ræða innan ráðuneytisins um rafbílavæðinguna. Ég held að ég hafi sagt áður úr þessum stól varðandi rafbílavæðingu að það hafi komið okkur svolítið á óvart varðandi hleðslustöðvar að hægt væri að koma þeim fyrir í fjölbýlishúsum. Við skoðuðum það meðal annars við endurskoðun á byggingarreglugerð svo ég upplýsi þingmenn um það. Menn voru með nokkrar áhyggjur af brunavarnamálum ef það væri gert þannig að það ylli töfum og við þurftum að skoða það og erum að skoða það betur.

Það sem við ætluðum sérstaklega að gera varðandi sóknaráætlun var að koma á svokölluðum hraðhleðslustöðvum vítt og breitt um landið, reyna að hringvæða hringveginn með hleðslustöðvum þannig að menn gætu ekki bara notað slíka bíla innan borgarmarkanna, þ.e. á suðvesturhorninu, heldur um allt land.



[15:22]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er mjög jákvætt að heyra að allt sé í gangi. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að rafbílar nái ekki 1% af flotanum eins og staðan er í dag sem er mjög lágt hlutfall. Oft er talað um að auka þurfi innviðina fyrir þessa bíla eins og með rafhleðslustöðvum, metanstöðvum og öðru. Það er svolítið hvort kemur á undan, hænan eða eggið. Þarna verður það að haldast í hendur og í rauninni finnst mér að hið opinbera eigi ekki að vera hrætt við að gera stofnunum skylt að kaupa nýorkubíla. Um leið og bílarnir eru komnir út á göturnar verður einhver til að selja þeim rafmagn eða metan eða hvað það er. Við megum ekki vera hrædd þó að núna séu ekki komnar rafhleðslustöðvar um allt land. Eins og ráðherra sagði réttilega er verið að vinna í því og það skiptir auðvitað máli.

Ég ætla að leyfa mér að vera jákvæð og vona að þetta sé allt á blússandi ferð hjá hæstv. ráðherra.



[15:23]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég hef litlu við þetta að bæta öðru en því að mér finnst rétt að stjórnvöld séu fyrst og fremst í að örva fólk til dáða. Maður á að leggja enn þá meiri áherslu á það fremur en að ríkið sé að framkvæma allt.

En það er líka unnið hörðum höndum varðandi þetta í sjávarútveginum og þar á lofti eru ýmis góð teikn. Það er verið að skoða hvernig hægt sé að rafvæða hann líka, ekki síst hafnirnar. Það kostar reyndar heilmikið en það er unnið mjög mikið að sjálfbærri nýtingu og vernd hafsins.

Ég vil benda á að á Þingvöllum er einmitt verið að koma upp rafhleðslustöð á kostnað okkar í þjóðgarðinum. Við erum þar að stíga ákveðið skref. Ég vona að aðrir sigli í kjölfarið og komi upp hleðslustöðvum. Það örvar fólk líka til að kaupa sér rafbíla þegar það veit að það getur ferðast um allt land og (Forseti hringir.) fengið hleðslu hvar sem er.