145. löggjafarþing — 105. fundur
 2. maí 2016.
Fell í Suðursveit og Jökulsárlón.
fsp. SÞÁ, 725. mál. — Þskj. 1174.

[16:20]
Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Síðustu daga og vikur hefur verið töluverð umræða um stöðu jarðarinnar Fells í Suðursveit og fyrirhugaðrar sölu á henni.

Ástæðan er vitaskuld lega jarðarinnar þar sem austari bakki Jökulsárlóns tilheyrir jörðinni Felli en vestari bakki lónsins er þjóðlenda í eigu ríkisins.

Jökulsárlón er ein helsta náttúruperla okkar Íslendinga og gríðarlega vinsæll viðkomustaður ferðamanna.

Það segir sína sögu um mikilvægi svæðisins að Jökulsárlón hefur verið á náttúruminjaskrá síðan 1974. Lónið er einstakt sökum legu sinnar nálægt sjó og hinna tilkomumiklu ísjaka sem liggja iðulega á lóninu og rekur til sjávar.

Lífríki lónsins hefur hins vegar lítið verið rannsakað, en ólíkt öðrum íslenskum jökullónum er Jökulsárlón kvikt af lífi enda nálægðin við hafið mikil. Þá eru Breiðamerkursandur og Jökulsárlón afar hentugir staðir til að rannsaka jökla og jöklasögu, segja vísindamenn.

Eignarhald á þessu landi er því mikið hagsmunamál vegna ferðamannaiðnaðarins en þó enn frekar vegna náttúruverndar. Nú er kjörið tækifæri fyrir ríkið að stíga inn og eignast allt landið umhverfis Jökulsárlón.

Umhverfisverndarsamtökin Landvernd hafa til að mynda bent á að ef Jökulsárlón og Breiðamerkursandur væru í eigu þjóðarinnar og hluti af þjóðgarði, væru komnar forsendur til þess að hafa þar landvörslu á heilsársgrundvelli, vernda og vakta svæðið og jafnframt fræða og mennta gesti um einstaka náttúru og lífríki svæðisins.

Ég vil því spyrja hæstv. umhverfisráðherra: Telur hún koma til greina út frá náttúruverndarsjónarmiði að ríkið kaupi jörðina Fell í Suðursveit sem er við Jökulsárlón eða taki hana eignarnámi og greiði fyrir eignarnámsbætur? Útlit er fyrir að jörðin verði boðin upp.

Það er rétt að taka það fram að frá því að þessi fyrirspurn var lögð fram hefur sýslumaðurinn á Suðurlandi tekið ákvörðun um að setja jörðina á sölu á almennum markaði og hætta við uppboðsleiðina, en ég tel það ekki breyta megininntaki spurningar minnar. Það stendur eftir.

Hins vegar vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hver er afstaða ráðherra til þeirrar hugmyndar að Jökulsárlón verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði?



[16:24]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina. Almennt vil ég segja um spurningarnar að það er vitaskuld mikilvægt varðandi þetta náttúrufarslega mikilvæga og sérstæða landsvæði, sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir ferðaþjónustu okkar, að ekki séu uppi deilur og ósamstaða sem bitnar á svæðinu og þeirri þjónustu sem þar þarf að veita.

Því miður hefur ekki verið hægt að ráðast í nauðsynlega uppbyggingu á þessu svæði undanfarin ár þrátt fyrir atbeina sveitarstjórnar og fyrirliggjandi deiliskipulag.

Jökulsárlón er reyndar að mestu leyti í eigu ríkisins, að hluta til sem þjóðlenda og og líka að nokkru öðru leyti í eigu ríkisins. Sá hluti sem er í einkaeigu er austan megin við þjóðlendumörkin. Skipulagning svæðisins skiptir þess vegna miklu máli, að hún sé heildstæð til þess að vernda náttúru þess til framtíðar og tryggja að nýtingin verði sjálfbær, örugg og rýri á engan hátt náttúrugæði.

Því er eðlilegt að ríkið í samstarfi við sveitarfélagið Hornafjörð og eftir atvikum landeigendur skoði gaumgæfilega hvernig best verði staðið að því. Það er jafnframt forsenda þess að öflug og sjálfbær ferðatengd atvinnustarfsemi geti blómstrað á svæðinu til framtíðar.

Eins og hv. þingmaður gat um liggur jörðin Fell að austanverðu Jökulsárlóni. Jökulsárlónið sjálft er hins vegar að langmestu leyti í ríkiseigu, en land bæði norðan og vestan lónsins er þjóðlendur. Það liggja fyrir alveg skýr, afmörkuð landamerki milli jarðarinnar Fells og þjóðlendanna.

Jökulsárlón er á náttúruminjaskrá enda býr svæðið yfir einstakri náttúru. Samkvæmt ákvæðum í nýju náttúruverndarlögunum hefur ríkið forkaupsrétt á þeim jörðum sem eru á náttúruminjaskrá. Það ákvæði er sett fram í 37. gr. náttúruverndarlaga, nr. 60/2013.

Það er því einboðið að ef til þess kemur út frá náttúruverndarsjónarmiðum þá verði það skoðað til hlítar hvort beita eigi forkaupsréttarákvæði laganna, komi til þess að jörðin Fell í Suðursveit verði seld. Það er rétt að hafa í huga að það eru fordæmi fyrir því að því ákvæði hafi verið beitt við sölu eigna á náttúruminjaskrá.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, í samráði við önnur hlutaðeigandi ráðuneyti, mun þó taka það til efnislegrar skoðunar hvort það leggi til að þessum forkaupsréttarheimildum á grundvelli laganna verði beitt, komi til þess að jörðin verði seld.

Hins vegar er spurt hvort til greina komi að taka jörðina eignarnámi. Það er allt annað ferli innan náttúruverndarlaganna sem kveður á um slíkar heimildir ríkisvaldsins og tengist áformum um friðlýsingu ef ekki næst samkomulag við landeigendur. Slík vinna hefur ekki farið fram á þessu svæði og hefur því ekki komið til neinnar skoðunar á því.

Mér finnst það mjög áhugaverð framtíðarsýn að Jökulsárlón verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Þær viðræður hafa þegar átt sér stað varðandi þann hluta lónsins sem er innan þjóðlendunnar sem ég skýrði frá hér áðan, þ.e. að vestanverðu. Jafnframt hefur bráðnun jökla á undanförnum árum orðið til þess að hluti Jökulsárlóns að norðanverðu er væntanlega þegar innan markalínu þjóðgarðsins vegna þess að lónið hefur verið að stækka.

Í því samhengi vil ég nefna að í samtali og samráði við mennta- og menningarmálaráðherra hefur verið hafin vinna við skoðun á því hvort ekki sé rétt að tilnefna Vatnajökulsþjóðgarð á heimsminjaskrá UNESCO eins og hér hefur verið greint frá, vegna þessara einstæðu náttúruminja. Hluti þess er að skoða hvort hugsanlega þurfi að stækka þjóðgarðinn, m.a. með tilliti til þess að tengja hann til sjávar.

Hins vegar er rétt að benda á að samkvæmt lögum um Vatnajökulsþjóðgarð er ekki skilyrt að land innan hans skuli vera í eigu ríkisins heldur er heimild til að leita samninga við aðra landeigendur.



[16:28]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Varðandi það mál sem er til umfjöllunar er mikilvægt að undirstrika þau ákvæði sem til eru í náttúruverndarlögum, þ.e. annars vegar ákvæði um forkaupsrétt og hins vegar þau ákvæði sem lúta að eignarnámi, þegar um er að ræða, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, einhvers konar ágreining varðandi friðlýsingarferli.

Mig langar að biðja hæstv. ráðherra í seinna svari sínu að reifa það með einhverjum hætti, ef hún hefur til þess tíma, hvort til greina komi að skoða fleiri svæði sem eru í hálfgerðu uppnámi á landinu og eru í einkaeigu en eru hátt skrifuð á náttúruminjaskrá, ef svo má segja, eru jafnvel friðlýst en í hálfgerðu uppnámi að því er varðar sinnu og umgengni o.s.frv., hvort til greina komi að beita eignarnámsákvæðum og þá með viðeigandi eignarnámsbótum sem kæmu í staðinn. Ég vil nefna til dæmis svæðið í kringum Geysi í Haukadal og fleiri því um lík.



[16:30]
Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna fyrirspurn hv. þingmanns og fagna jafnframt þeim samhug, held ég, sem ríkir í þinginu. Það er áhugavert að heyra þann samhljóm sem hér er um að það sé ekki góðs viti ef allar helstu náttúruperlur landsins lenda í einkaeigu. Og einnig, sem ég vissi reyndar ekki, að það sé forkaupsréttur sem hægt er að nýta sér. Þess vegna er maður kannski aðeins rólegri með það.

Ég vil fagna þeim samhug sem hér er og því hvað menn í þessum sal eru samtaka í málinu og líta þetta sömu augum.



[16:31]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka umræðuna. Eins og hefur verið rakið velkist enginn Íslendingur í vafa um náttúruverndargildi svæðisins í kringum Jökulsárlón. Mér finnst því að það liggi ljóst fyrir út frá þessari umræðu að eðlilegt sé að stefna að því að land jarðarinnar Fells verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði og farið verði í þá vinnu sem til þarf alveg óháð því máli sem nú er í gangi varðandi hugsanlega sölu jarðarinnar. En komi til sölunnar verði að sama skapi látið reyna á ákvæði náttúruverndarlaga um forkaupsrétt. Það má ekki gerast að menn tapi tækifærinu ef það býðst til að sameina jörðina Fell þjóðlendunni (Forseti hringir.) og Vatnajökulsþjóðgarði.



[16:32]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. umhverfisráðherra mjög jákvæðar undirtektir við þeirri málaleitan sem kom fram í máli hv. framsögumanns Steinunnar Þóru Árnadóttur. Ég tel einboðið að ef jörðin Fell kemur á markað þá nýti ríkið sér forkaupsrétt. Eins og ráðherra sagði eru mörg dæmi um það. Ég keypti á sínum tíma sem umhverfisráðherra 2/3 Látrabjargs, fyrir hönd ríkisins, á 800 þús. kr. árið 1994, sem þættu reyfarakaup í dag. Var þó harðlega deilt á þau kaup, einkum úr mínum flokki, Alþýðuflokknum. En það er nú önnur saga.

Mér líst líka alveg stórkostlega vel á þá hugmynd sem hæstv. ráðherra reifar hér, að stækka þjóðgarðinn til sjávar og að því gerðu að freista þess með hæstv. menntamálaráðherra að koma þjóðgarðinum á heimsminjaskrá. Þess vegna finnst mér að það eitt og sér verðskuldi að hæstv. ráðherra skoði það ef jörðin kemur ekki á markað að (Forseti hringir.) eignarnámsákvæði náttúruverndarlaga verði beitt til þess og vel hægt að rökstyðja það.



[16:34]
Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni um þessa fyrirspurn, sem og hæstv. ráðherra fyrir svör hennar. Það hefur náttúrlega komið berlega í ljós í þessari stuttu umræðu að þetta mál er langt frá því að vera einhvern veginn flokkspólitískt. Þetta er einmitt dæmi um mál sem ég tel að hægt sé að ná mjög góðri og breiðri þverpólitískri sátt í.

Mér finnst gott að heyra það sem hæstv. ráðherra sagði, að ríkið hafi forkaupsrétt, og tel raunar einboðið að ef eða þegar landið verður selt þá noti ríkið þann forkaupsrétt sinn og ég vil þar brýna hæstv. ráðherra enn frekar til góðra starfa í því. Ég held einmitt, líkt og ég sagði áðan, að nú sé tækifæri til þess að ríkið stígi inn og eignist allt landið umhverfis Jökulsárlón. Ég vil líka fagna því hvað hæstv. ráðherra tók í raun jákvætt í það að Jökulsárlón verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Ég tel reyndar að ef koma á landinu á heimsminjaskrá UNESCO sé enn brýnna en áður að ríkið eigi allt landið sem er þar í kring. Ég held að það mundi gefa svæðinu meiri vigt og auðveldara fyrir ríkið að hafa áhrif á landið þar.

Að lokum vil ég árétta þá stefnu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem er mjög skýr, en hún er sú að náttúruperlur (Forseti hringir.) eigi að vera almannaeign eftir því sem við verður komið og væri kannski gaman að beina þeirri aukaspurningu til hæstv. ráðherra í lokin hver sýn hennar sé á það.



[16:36]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Já, ég tek sannarlega undir með fyrirspyrjanda að þetta hafi verið ánægjulegar umræður og einkar jákvæðar. Við skynjum að við höfum tækifæri til inngripa, en ég er ekki fjármálaráðherra og alltaf þarf maður að sækja fé.

Til að svara síðustu spurningunni sem hv. þingmaður setti fram þá get ég persónulega verið algjörlega sammála því að helstu náttúruperlur okkar þurfi kannski að vera í eigu ríkisins til að við getum gengið um þær með þeim hætti sem verður að ganga um þær og til að geta haft það allt í réttu lagi. Og það varðar meðal annars það stórkostlega og viðkvæma svæði sem við erum að fjalla um, að okkur finnst umgengnin þar ekki vera í nógu góðu lagi, og það er kannski það alversta. Því að fyrst og fremst, eins og hér hefur komið fram hjá öllum, er það þessi samhljómur og samhugur þegar kemur að náttúruperlum okkar. Við Íslendingar viljum ekki hvorki gagnvart okkur sjálfum né erlendum ferðamönnum sýna okkar helstu staði í niðurníðslu. Á því verður að taka.

Við höfum hlustað í dag á hæstv. fjármálaráðherra, hjarta hans slær einnig mjög til náttúrunnar eins og við höfum skynjað. Við skulum bara öll treysta á það að málið leysist farsællega.