145. löggjafarþing — 107. fundur
 3. maí 2016.
störf þingsins.

[13:32]
Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Stuðningur við ríkisstjórnina og báða ríkisstjórnarflokkana eykst samkvæmt könnun Gallup sem birt var í gærkvöldi. Það þarf ekki að koma á óvart í ljósi þess efnahagsárangurs sem náðst hefur á yfirstandandi kjörtímabili. Fjármálastefna og fjármálaáætlun sem verða til umræðu á eftir staðfesta þau risaskref sem tekin hafa verið og það góðæri sem hér er. Ef menn vilja ekki hlusta á stjórnvöld og telja allt ómögulegt sem frá þeim kemur skulum við vitna í nýja hagspá ASÍ. Alþýðusambandið spáir samfelldum hagvexti hérlendis í átta ár, hann verði 4,9% á þessu ári sem er einn mesti hagvöxtur í vestrænu ríki og að jafnaði 3,8% á næsta og þarnæsta ári. Þetta helst í hendur við lítið atvinnuleysi og verðbólgu sem er undir 2%. Hagur heimilanna hefur batnað og ASÍ telur að einkaneysla muni vaxa um 6% á þessu ári sem er það mesta frá 2007. Því má bæta við að hvergi í Evrópu er jafn mikill tekjujöfnuður og á Íslandi samkvæmt nýjum tölum frá Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins.

Við þurfum ekki að líta lengra en til Reykjavíkur til að sjá hvað mun gerast ef Samfylkingin, Vinstri grænir, Björt framtíð og Píratar komast til valda. Rekstur borgarinnar er í fullkomnum ólestri. Þannig var rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar á síðasta ári 12 milljörðum kr. lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Niðurstaðan er neikvæð um tæpa 5 milljarða en gert hafði verið ráð fyrir um 7,3 milljarða kr. afgangi.

Þetta er einstakt afrek stjórnarandstöðuflokkanna. Slakur rekstur er síðan afsakaður með því að borgin þurfi að standa við skuldbindingar. Almenningur þarf líka að standa við sínar skuldbindingar, hvort sem það eru lán eða annað.

Í næstu alþingiskosningum verður kosið á milli flokka sem sýna ráðdeild og ábyrgð í fjármálum og þeirra sem kunna ekki að fara með fjármuni. Kjósendur eru sem betur fer (Forseti hringir.) skynsamir. Þeir munu varast vinstri slysin. [Kliður í þingsal.]



[13:34]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Undanfarna þingfundi höfum við rætt um skattaskjól og aflandsfélög. Ég vil segja það að sú umræða hefur verið afar gagnleg og uppbyggileg. Við höfum rætt um að meta umfang og áhrif af starfsemi slíkra félaga og úrræði og tillögur til úrbóta. Í gær ræddum við síðan róttækari tillögu sem snýr að því að beita ríki sem bjóða upp á slík skattaskjól viðskiptaþvingunum. Það er nú gjarnan með svona róttækari tillögur að þær draga fram ýtrustu sjónarmið, en markmiðin eru auðvitað þau sömu, að uppræta notkun aflandsfélaga og þá iðju að koma peningum í skjól undan sköttum. Nú er verið að vinna að samantekt í hv. efnahags- og viðskiptanefnd af opnum fundum með skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra, Seðlabanka og Fjármálaeftirliti, og draga fram tillögur að úrbótum sem komu fram á þeim fundum. Mér finnst mikilvægt að koma að þessu vegna þess að í öllu pólitísku umróti liðinna vikna og þeirri umfjöllun um Panama-lekann sem hefur svo sannarlega hrist upp í samfélagi okkar hefur þingið brugðist við með öflugum og faglegum hætti. Nú er það auðvitað verkefni að vinna úr þessari umræðu, gögnum og tillögum og samhæfa aðgerðir.

Þess vegna er mjög ánægjulegt að nú hefur hæstv. ríkisstjórn brugðist við og ákveðið að tillögu hæstv. fjármálaráðherra að skipa sérstakan starfshóp sem hefur það meginverkefni að gera tillögur að breytingum á lögum, reglugerðum og verklagsreglum og það í samvinnu við embætti skattyfirvalda.

Ég lít svo á að sú vinna og tillögur og umræða sem hefur átt sér stað í þinginu um þessi mál og þetta skref hæstv. ríkisstjórnar muni hraða raunverulegum úrbótum á vettvangi löggjafans.



[13:36]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú er mikið rætt um framboð og því fylgja þá eðlilega umræður um eftirspurn. Þeir sem hyggja á framboð telja klárlega vera eftirspurn eftir kröftum þeirra og það er í flestum tilvikum gott. Í samtölum mínum við fólk, almenning í landinu, þjóðina sem er kölluð finn ég fyrir mikilli eftirspurn eftir uppbyggilegu og jákvæðu samtali sem leiðir okkur fram á veginn og styrkir okkur sem samfélag.

Hæstv. forseti. Ég ætla því að leyfa mér að vera á jákvæðum nótum hér í dag og benda á hagspá Alþýðusambands Íslands. Þar kemur fram að kaupmáttur heimilanna hefur vaxið mikið og svo ég vitni í orð Hennýjar Hinz, hagfræðings ASÍ, með leyfi forseta:

„Já, þetta er mjög kraftmikill vöxtur. Það jákvæða er að hann virðist byggður á traustum grunni. Enn sem komið er byggir hann á bættri fjárhagsstöðu. Við sjáum ekki enn merki um að skuldsetning sé að aukast.“

Hæstv. forseti. Þetta eru verulega góð tíðindi fyrir heimilin í landinu og hefði verið gaman ef forustumenn ASÍ hefðu haft tök á að minnast á þau við hátíðarhöldin 1. maí. Það skiptir máli hve mikið við fáum fyrir kaupið okkar.

Innihald þessarar spár á svo sannarlega erindi við okkur öll því að þar er spáð nærri 5% hagvexti í ár og 3,8% hagvexti að jafnaði næstu tvö árin. Þá er áfram spáð lágri verðbólgu. En spáin á líka erindi við okkur því að hún bendir einnig á atriði sem við verðum að standa vörð um og hópa sem við þurfum að verja. Reyndin er sú til dæmis að staða fólks á leigumarkaði er mjög þröng. Mikil hækkun fasteignaverðs hvetur mjög til þess að byggðar verði nægilega margar íbúðir til að hér rjúki ekki fasteignaverð upp úr öllu valdi. Það er því gríðarlega mikilvægt að við náum samstöðu um afgreiðslu húsnæðisfrumvarpa sem nú liggja fyrir þinginu.

Hæstv. forseti. Þessari góðu stöðu fylgja miklar áskoranir því að tryggja þarf að hagstjórn næstu ára viðhaldi efnahagslegum stöðugleika. Það er því ánægjulegt að hér á eftir verður lögð fram glæsileg fjármálastefna og fjármálaáætlun til næstu fimm ára sem fela það í sér að hægt verður að búa enn betur í haginn fyrir komandi kynslóðir.



[13:38]
Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Samgönguáætlun til ársins 2018 er nú til meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem ég á sæti. Undanfarna daga og vikur höfum við rætt við Vegagerðina, sveitarstjórnarmenn víða um landið og fleiri um samgöngumál sem eru auðvitað einhver mikilvægustu mál sem við þurfum að fást við á hinu háa Alþingi og undirstaða þess að hér sé umferðaröryggi, byggðaþróun og hagvöxtur eins og við viljum sjá í þessu landi. Ljóst er að það þarf að gera stórfelldar endurbætur á samgöngukerfi landsins og verja það frekari skemmdum.

Samtök atvinnulífsins hafa hvatt ríkið til að taka upp samstarf við einkaaðila um fjármögnun samgöngumannvirkja og telja einnig að smærri verkefni eins og það að fækka einbreiðum brúm geti hentað mjög vel í slíku samstarfi, sem kallast á ensku, með leyfi forseta, „public-private partnership“. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins er einnig mjög áfram um þessa hugmynd og bendir á að þjóðirnar í kringum okkur svo sem Norðmenn hafi nýtt sér svokallað PPP-samstarf ríkis og einkaaðila á sviði innviðafjárfestinga sem hafi heppnast afar vel.

Við hljótum því að spyrja okkur hvort við Íslendingar séum allt of aftarlega á merinni þegar kemur að því að nýta okkur aðferðafræði við uppbyggingu nauðsynlegra innviða, hvort við séum föst í gömlum sporum sem við þurfum að stíga út úr.

Hvalfjarðargöngin eru auðvitað skýrt dæmi um stórt verkefni af þessu tagi sem heppnaðist mjög vel og eðlilegt og heilbrigt samstarf einka- og ríkisaðila um slíkar framkvæmdir getur skilað þjóðarbúinu mjög góðu, og góðu fyrir okkur öll, landsmenn.



[13:41]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Forseti. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi það að Íslendingar sæki sér menntun erlendis frá? Þykir mönnum það góð hugmynd eða vond? Einhver mundi ætla að svarið lægi í augum uppi, maður skyldi ætla að það væri góð hugmynd, gott og mikilvægt mál fyrir íslenskt hagkerfi að við styddum við námsmenn erlendis svo þeir kæmu síðan heim reynslunni og þekkingunni ríkari, gerðu þannig íslenskt samfélag auðugra, víðsýnna og fjölbreyttara. Maður skyldi ætla að fólk væri almennt sammála um þetta.

En ég velti fyrir mér stefnu ríkisstjórnarinnar og hvernig hún og hæstv. menntamálaráðherra sjá þessi mál fyrir sér því að undir hans stjórn hefur LÍN dregið niður lánaþakið til námsmanna erlendis um tugi prósenta. Þetta er gert að því er virðist, að minnsta kosti núna, út frá afar hæpnum forsendum, afar hæpnum heimildum sem við höfum fengið fregnir af frá nemendum og skólum erlendis að standast ekki.

Fyrirtækið Analytica sem vann málið fyrir LÍN núna síðast segir í viðtali við RÚV að heimildir sínar sem liggja til grundvallar síðustu lækkun virki trúverðugar. Þurfa þær ekki að vera réttar? Er það ekki lágmarkskrafa? SÍNE, Samband íslenskra námsmanna erlendis, hefur ítrekað reynt að fá svör frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um þessi efni. Það hefur lagt fram gögn sem sýna að forsendur ráðgjafarfyrirtækisins, sem væntanlega hefur fengið einhverjar milljónir fyrir vinnu sína, eru ekki réttar en SÍNE fær ekki svo mikið sem eitt svar. Hæstv. ráðherra virðir sambandið ekki viðlits. Maður hlýtur að velta fyrir sér fyrir hvern sá ágæti maður vinnur, námsmenn eða einhverja aðra.

Að lokum velti ég fyrir mér, af því að nú er komið sumar, hvað sé að frétta af Stjórnstöð ferðamála. Það verður fróðlegt að ræða það og fá að heyra af því í sölum þingsins áfram.



[13:43]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í síðustu viku féllu um 50 manns að talið er í loftárás á sjúkrahús á vegum Lækna án landamæra í borginni Aleppó í Sýrlandi. Þessi árás sem sýrlenski stjórnarherinn stóð fyrir er hörmulegur stríðsglæpur. Árásir á sjúkrastofnanir eru einhver alvarlegasti stríðsglæpur sem hægt er að drýgja samkvæmt alþjóðalögum.

Því miður var ekki um einstæðan atburð að ræða. Alþjóðahjálparstofnanir hafa bent á að allir stríðsaðilar í borgarastyrjöldinni hafi framkvæmt slíkar árásir. Þannig hafi á árinu 2015 verið ráðist 94 sinnum á sjúkrahús sem tengjast Læknum án landamæra í landinu. Í mörgum tilvikum var um svokallaðar tvöfaldar árásir að ræða þar sem fyrst er skotið sprengju og svo er önnur látin fylgja til að granda því fólki sem mætir á vettvang til að reyna að bjarga slösuðum.

Síðasta hálfa árið hefur her Sádí-Arabíu þrisvar sinnum varpað sprengjum á sjúkrahús í Jemen. Ráðist hefur verið á spítala í Suður-Súdan og starfsfólk myrt. Í október á síðasta ári drap Bandaríkjaher meira en 40 manns í árás á sjúkrahús í Kunduz í Afganistan og lagði þar í rúst eina tæknisjúkrahús sinnar tegundar í norðanverðu landinu. Þessar fregnir ber allar að sama brunni. Virðing fyrir alþjóðalögum fer þverrandi og sífellt fleiri stríðsaðilar telja heilbrigðisstarfsfólk lögmæt skotmörk í hernaði.

Ég vil nota þennan vettvang til að hvetja hæstv. utanríkisráðherra til að andæfa þessari þróun á alþjóðavettvangi og hvet þingheim allan til að láta sig málið varða.



[13:46]
Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Í gær hófust strandveiðar í blíðskaparveðri í flestum fjórðungum og alls staðar var fullur sjór af fiski. Í morgun var hvasst á Suðurnesjum þegar smábátar héldu til veiða út í hvítfyssandi öldurnar, brenndir af þeirri staðreynd að brælur síðustu tvö vor kostuðu svæðið 200 tonna minni úthlutun á þessu ári.

Kerfið var fyrst sett upp þannig að með svæðaskiptingu væri komið í veg fyrir að þrálátar brælur á einu svæði yrðu til þess að potturinn yrði ekki veiddur á öðru svæði, en í dag er greinilega breytt áhersla. Við getum farið í excel-leik og tekið síðustu fjögur ár í stað síðustu tveggja, eins og embættismenn virðast hafa gert. Meðalafli á svæði D sem nær frá Borgarfirði að vestan og að Hornafirði að austan síðustu fjögur ár var 1.418 tonn og mest voru veidd 1.550 tonn en úthlutun á þessu ári er 1.300 tonn. Júlíafli í fyrra var 450 tonn en úthlutun á þessu ári er 195 tonn. Í ágúst í fyrra var aflinn 177 tonn en í ár er úthlutun 130 tonn. Meðalafli á bát var minnstur á svæði D árið 2015, þ.e. 171 tonn, meðan hann var um 300 tonn og upp í 400 tonn á hinum svæðunum. Meðalveiði á bát var einnig minnst á svæði D, 11,3 tonn, á meðan hún var 12,6 og upp í 15,8 tonn á öðrum svæðum.

Þrátt fyrir miklu meiri fiskigengd og 400 tonna aukningu á strandveiðipotti eru í nýrri úthlutun tekin 200 tonn á svæði D og áfram gert ráð fyrir 11,3 tonna meðalveiði á bát en 15,1 og upp í 15,8 tonn á hinum svæðunum. Svo virðist sem enn séu bláeygðir stjórnmálamenn að stimpla inn hráar tölur sem excel-glaðir embættismenn leggja á þeirra borð.



[13:48]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. 1. maí var haldinn hátíðlegur á sunnudaginn og var þar eðlilega minnst 100 ára sögu verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Samstaða í 100 ár — sókn til nýrra sigra, var slagorð dagsins og gleðilegt að íslensk alþýða gat fagnað mörgum sigrum á síðustu 100 árum og á trúlega eftir að fagna mörgum á næstu árum. En einkunnarorð 1. maí sem lengst hafa lifað í mínum huga eru: Frelsi, jafnrétti og bræðralag. Það var kallað eftir réttlæti í samfélaginu um síðustu helgi og við tökum undir það.

Jafn falleg og þessi orð eru hvert og eitt eða sem markmið og sýn á betra líf þá velti ég fyrir mér hvernig okkur hafi tekist að láta þau rætast.

Virðulegi forseti. Við heyrum af því á hverjum degi að fyrirtæki og einstaklingar feli peninga í aflandsfélögum. Íslensku bankarnir stofnuðu aflandsfélögin og áttu félögin á lager þegar fólk kom í bankann og bað um ráðleggingar eða fjárstýringu. Það voru bankarnir sem fluttu fjármunina í skattaparadísir og földu fyrir skattinum og ráku fleyg í samfélagið, opnuðu svöðusár sem er enn ógróið.

Sem betur fer tóku ekki allir þátt í þeirri svörtu vinnu bankanna og stóðu heiðarlega að sínum málum. En daglega birtast fréttir í fjölmiðlum af fólki sem fékk afskrifaða milljarðatugi í bankahruninu en hefur flutt inn milljarða til að kaupa hér fyrirtæki og koma sér fyrir á ný. Þetta fé hefur verið flutt til landsins í gegnum 20%-leið Seðlabankans en enginn þarf að gera grein fyrir því hvaðan það fé kemur og þetta fólk hefur notið sérkjara umfram okkur hin.

Þegar ég velti fyrir mér fallegum orðum sem við öll höfum notað við hátíðleg tækifæri, frelsi, jafnrétti og bræðralag, spyr ég hvort við lifum í þannig samfélagi. Ef við viljum sátt í samfélaginu verða bankarnir að gera viðeigandi yfirvöldum grein fyrir því hvað þeir stofnuðu mörg aflandsfélög, hverjir eignuðust þau og hvað bankarnir fluttu mikið fé af landi brott í þessi félög. Ég spyr: Þarf Seðlabankinn ekki að fá svör frá þeim sem fengu milljarðaafskriftir skulda sinna, fá svör við þeirri spurningu hvernig þeir hafi eignast (Forseti hringir.) milljarða í skattaskjólum og flutt þá til landsins á 20%-reglu bankans og skekkt alla samkeppni í landinu? Ég bíð eftir þeim svörum. (Forseti hringir.) Fyrr verður ekki hægt að tala um jafnrétti og bræðralag í þessu landi.



[13:50]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að taka undir það sem hv. þm. Björt Ólafsdóttir sagði áðan, ég er mjög hugsi yfir stöðu íslenskra námsmanna hérlendis. Nú er verið að lækka framfærslu námslána um allt að 30% á einu bretti sem þýðir að námsmaður sem fékk 1.000 evrur á mánuði er núna kominn niður í 700 evrur á mánuði. Þetta er allt of mikil lækkun sem kemur allt of hratt.

Við erum ekki komin með nýjustu tölur frá LÍN en svo virðist sem íslenskir námsmenn fari í minna mæli til útlanda en áður. Aldrei áður á tíu ára tímabili hafa verið jafn fáir íslenskir námsmenn við nám erlendis.

Milli áranna 2012 og 2013 og námsárin 2013–2014 fækkaði námsmönnum erlendis um 258, úr 2.333 niður í 2.075. Á sama tíma sjáum við að íslenskir námsmenn fá í sífellt meira mæli styrki frá til dæmis danska ríkinu. Mér finnst það mjög varhugaverð þróun. Við sjáum að þau námslán sem boðið er upp á hér eru einfaldlega ekki samkeppnishæf. Þau gera það að verkum að íslenskir námsmenn sjá sér ekki fært að stunda nám erlendis.

Þegar maður lítur á tölurnar eru um 2.000 manns á íslenskum námslánum erlendis meðan 900 eða 1.000 íslenskir námsmenn eru á dönskum námslánum í Danmörku. Þetta er náttúrlega mjög alvarleg þróun og eitthvað sem við þurfum virkilega að athuga.

Síðast þegar ég vissi vorum við hætt með Garðsstyrkinn. Það gerðist þegar við fengum fullveldið 1918. En það virðist vera að koma aftur. Það er mikill áfellisdómur fyrir þessa ríkisstjórn að hún skuli hafa leyft þessari þróun að halda svona áfram. Síðast þegar ég vissi var allt í blússandi góðæri og ekkert hrun nýskriðið yfir.



[13:52]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Opinber hlutafélög voru leidd hér í lög árið 2006. Tilgangurinn átti að vera sá að bæta aðgengi almennings og annarra að upplýsingum um hlutafélögin. Ohf.-formið hefur að mestu verið notað þegar ríkisstofnunum hefur verið breytt í opinber hlutafélög. Þeirri breytingu fylgir meðal annars að stjórnsýslulög, þ.e. lög um upplýsingaskyldu og lög um réttindi opinberra starfsmanna, hætta að gilda um viðkomandi stofnun. Gagnrýnt hefur verið að ohf.-væðingin á ríkisfyrirtækjum geti bitnað á réttindum starfsmanna og minnkað gegnsæi í rekstrinum. Dæmi um opinber hlutafélög eru: Isavia, Rarik, Ríkisútvarpið, Orkubú Vestfjarða, Matís og Lánasjóður sveitarfélaga. (VigH: Íslandspóstur.)

Í dag mun Alþingi afgreiða tillögur um stjórn RÚV sem endurspegla styrk þingflokka Alþingis. Fyrirkomulag gagnvart skipun í stjórn annarra ohf.-ríkisfyrirtækja er mismunandi. Ég kalla því eftir því að fjármálaráðherra geri þinginu grein fyrir því hvernig hann hyggst skipa í stjórn Orkubús Vestfjarða, sem heldur aðalfund sinn 12. maí næstkomandi. Verður leitað til annarra flokka varðandi tilnefningar í stjórn eða munu stjórnarflokkarnir eingöngu skipa sitt fólk?

Mér finnst mjög mikilvægt að stjórnir ohf.-fyrirtækja séu lýðræðislega skipaðar og að ferlið sé gegnsætt. Ég vil líka vekja athygli á að ákvarðanir stjórnar Orkubús Vestfjarða hafa sætt mikilli gagnrýni og þingflokkar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hafa farið fram á úttekt Ríkisendurskoðunar á tilteknum þáttum í stjórn Orkubús Vestfjarða. Eftirlitsskylda Alþingis með góðum stjórnsýsluháttum á ekki að hverfa þó að um opinber hlutafélög sé að ræða. Því er mikilvægt að opinber hlutafélög gegni sínu hlutverki þannig að allt sé uppi á borðinu og (Forseti hringir.) góðir stjórnsýsluhættir viðhafðir.



[13:55]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er svo uppörvandi að fylgjast með umræðunni þessa dagana vegna þess að okkur gengur vel á Íslandi. Við höfum verið heppin og fengið góð spil á höndina. En það er ekki nóg að fá góð spil, t.d. eins og vöxt ferðaþjónustunnar og makrílgöngur við landið. Það verður að spila skynsamlega úr þeim. Ég verð að segja að ríkisstjórnin hefur spilað vel úr sínum spilum. Það sést vel á öllum efnahagslegum mælikvörðum.

Í gær þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni hlustaði ég á viðtal við Henný Hinz, hagfræðing ASÍ. Hún sagði að kaupmáttur heimilanna hefði vaxið mikið og hagvöxturinn virtist byggður á traustum grunni. Alþýðusamband Íslands metur stöðuna sem svo að einkaneyslan muni aukast áfram vegna bættrar fjárhagsstöðu heimilanna. Sambandið spáir nærri 5% hagvexti í ár og 3,8% hagvexti að jafnaði næstu tvö árin. Verðbólgu er spáð lágri í ár og 6% vexti í einkaneyslu.

Við þekkjum góðæri og höfum vonandi lært eitthvað af hruninu, þ.e. að ganga hægt um gleðinnar dyr. Afar mikilvægt er nú að stjórnvöld nái því að viðhalda þeim efnahagslega stöðugleika sem náðst hefur síðustu ár. Leiðrétting húsnæðislána hefur haft afar jákvæð áhrif á skuldastöðu heimilanna og áætlun um afnám hafta hefur verið vel tekið. Hvort tveggja hefur haft góð áhrif á þjóðarbúið. Við skulum því halda því til haga.

Tekjujöfnuður hefur aldrei verið meiri á Íslandi en árið 2014 en þá bjó ekkert Evrópuríki við jafn mikinn tekjujöfnuð og á Íslandi samkvæmt tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.

Hæstv. forseti. Þó að allt gangi vel nú um stundir verðum við að hafa það hugfast að hlúa betur að þeim sem minna mega sín og halda áfram að byggja upp mikilvæga innviði samfélagsins, eins og heilbrigðiskerfið. Sú áhersla endurspeglast berlega í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2018–2021 en þar sjáum við um 19% hækkun á þeim liðum sem falla undir heilbrigðismál.

Við hljótum að geta samglaðst yfir þeim góðu fréttum.



[13:57]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég sat fund efnahags- og viðskiptanefndar um daginn þar sem hluti peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands kom í heimsókn með seðlabankastjóra í forgrunni.

Þeim fundi er ágætlega lýst í lítilli grein á visir.is sem heitir „Starfsviðtali klúðrað“. Þar kemur fram að seðlabankastjóri hafi verið krafinn svara á fundinum af nefndarmönnum um það hvers vegna Seðlabankinn hefur ofáætlað verðbólgu hér á landi nú í nokkur missiri, hvers vegna húsnæðiskostnaður er reiknaður inn í vísitölu hér en hvergi annars staðar í OECD-ríkjunum, hvers vegna stýrivextir hér á Íslandi eru 5,75%, eða í raun 6,5% ef marka má erlendar auglýsingar Seðlabankans, á meðan þeir eru -0,25% í Svíþjóð. Þessi lönd, Ísland og Svíþjóð, búa við svipaða verðbólguþróun, þ.e. ef hún er eins mæld, þ.e. án húsnæðiskostnaðar.

Í stuttu máli sagt varð fátt um svör hjá þeim ágæta seðlabankastjóra sem við höfum, nema þegar hann var spurður hvers vegna margir málsmetandi hagfræðingar væru ósammála peningamálastefnu Seðlabankans, af hverju þeir væru ósammála því að stýrivextir væru svona háir. Þá sagði hann: Ja, við erum bara einfaldlega ósammála þessum mönnum og viljum gjarnan taka við þá debatt.

Nú vil ég hvetja hv. efnahags- og viðskiptanefnd til þess að boða til opins fundar þar sem málsmetandi hagfræðingar eins og Ólafur Margeirsson, Jón Daníelsson, Marinó G. Njálsson og fleiri geta verið í símaviðtali við seðlabankastjóra þannig að þeir geti tekið þennan debatt í áheyrn þjóðarinnar.

Ég held að það væri mjög fróðlegt fyrir allan almenning (Forseti hringir.) og það væri kjörið tækifæri fyrir seðlabankastjóra til þess að útskýra fyrir þjóðinni (Forseti hringir.) það sem hann ekki getur útskýrt fyrir okkur alþingismönnum, þ.e. hvers vegna (Forseti hringir.) stýrivextir Seðlabankans eru með þeim hætti sem þeir eru.



[13:59]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið mjög áhugaverð umræða. En vakið hefur athygli ný þjóðhagsspá frá hagdeild Alþýðusambands Íslands fyrir næstu tvö árin þar sem eru mjög gleðilegar tölur. Þar er gert ráð fyrir meiri hagvexti en við höfum séð í spám að undanförnu. Því ber að fagna. Það er alveg ljóst að fjárfestingar eru að aukast og útflutningstekjur okkar eru að aukast. Það er ljóst að bjart er fram undan í íslensku efnahagslífi og nú er það okkar sem hér sitjum að halda vel á spilunum þannig að við í þinginu mótum þær leikreglur sem atvinnulífið og við öll spilum eftir og að við reynum að einfalda umhverfi þeirra fyrirtækja sem eru að reyna að hasla sér völl og við reynum að halda betur utan um þá stóru atvinnugrein sem fer sífellt stækkandi sem er ferðaþjónusta. Auðvitað höfum við öll séð hversu mikilvægt það er að vera með skýrar leikreglur, t.d. hvað varðar gjaldtöku á ferðamannastöðum o.s.frv.

Mig langar aðeins að koma inn á fund allsherjar- og menntamálanefndar í morgun þar sem við fengum fulltrúa frá stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna, SÍNE og menntamálaráðuneytisins til að ræða aðeins við okkur um þær breytingar sem hafa verið ræddar hér fyrr í dag varðandi námslán til íslenskra nema sem stunda nám erlendis. Unnin hefur verið mikil greiningarvinna til að reyna að komast að því hver raunframfærsluþörfin er eftir löndum. Það er stjórn LÍN sem tekur þá ákvörðun að vinna þetta mat og aðferðafræðin er ákveðin þar. Við fórum ágætlega yfir þetta í nefndinni í morgun. Það er ljóst að með þetta eins og önnur mannanna verk er alltaf eitthvað sem við þurfum að skoða betur. En stjórnin ákvað að fara þessa leið og nú höfum við fengið útskýringar á því hvernig tölurnar eru fundnar út. Við þurfum svo að fylgjast með því í framhaldinu hvernig brugðist verður við þeim athugasemdum sem nú hafa litið dagsins ljós varðandi niðurstöður af þeirri könnun. En það er alveg ljóst að lána á til framfærslu, raunframfærslu.



[14:02]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Í dag, 3. maí, er alþjóðadagur fjölmiðlafrelsis. Það er því miður staðreynd að Ísland er á hraðri niðurleið á lista Transparency International sem metur spillingu í einstökum löndum. Ísland er í 19. sæti og langt á eftir öðrum Norðurlandaþjóðum á lista um frelsi fjölmiðla sem var gefinn út í aðdraganda þessa dags.

Frjálsir og óháðir og öflugir fjölmiðlar sem standa vörð um hagsmuni almennings eru bráðnauðsynlegir til þess að tryggja gagnsæi og aðhald gagnvart stjórnvöldum og koma þannig í veg fyrir spillingu. Atburðir síðustu vikna sýna svo ekki verður um villst hversu mikilvægt það er. Vald fjármálamanna, sem hafa mjög mikla hagsmuni af skoðanamyndun og ákvörðunum stjórnmálamanna yfir áhrifamiklum fjölmiðlum á Íslandi, er mikið áhyggjuefni. Eitt öflugasta dagblað landsins er í eigu fólks sem hefur auðgast mjög mikið í krafti réttar til að nýta sameiginlega sjávarauðlind þjóðarinnar. Miklir hagsmunir eru þar af því að mæla gegn því að gjald fyrir þau afnot verði endurskoðuð í þágu almennings.

Samtök atvinnugreinar sem fær mjög mikinn stuðning af almannafé og nýtur mikillar verndar hafa efni á að gefa út blað sem er dreift út um allt land þar sem rekinn er massífur áróður fyrir sérhagsmunum. Almenningur virðist því látinn kosta þá sérhagsmunagæslu.

Það er lykilatriði fyrir almannahagsmuni, íslenskt samfélag og lýðræði í landinu að hafa burðugan ríkisfjölmiðil sem er hollur almenningi og engum öðrum, óháður sérhagsmunaöflum og varinn fyrir afskiptum pólitíkusa. (Gripið fram í.)

Það er mikið áhyggjuefni að sjá hvernig stjórnmálamenn, sem eru að gjamma hér fram í núna, herra forseti, hafa reynt að vega að RÚV. Þjóðin verður að hafa vit á því að standa vörð um þessa mikilvægu stofnun. Þetta snýst um almannahagsmuni, virkt lýðræði, gagnsæi hvað varðar meðferð valds og almannafjár og varnir gegn spillingu og sérhagsmunapoti sem hefur aldeilis komið hér fram á síðustu dögum og vikum. Þar hafa æðstu menn þjóðarinnar staðið fremst í flokki.

Irina Bokova, forstjóri UNESCO, sagði í ávarpi í tilefni dagsins, með leyfi forseta:

„Á tímum upplausnar og breytinga um allan heim hefur þörfin fyrir hágæðaupplýsingar (Forseti hringir.) aldrei verið meiri. […] Allt þetta krefst þess að skapaður sé góður jarðvegur svo fjölmiðlafrelsi þrífist (Forseti hringir.) og að það kerfi virki sem tryggir rétt fólks til upplýsinga.“

Stöndum vörð um RÚV og stöndum vörð um fjölmiðlafrelsi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[14:04]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég hef velt því mikið fyrir mér undanfarið hvað við séum nákvæmlega að gera hér á Alþingi. Nú hefur ekki farið fram hjá okkur frekar en öðrum að íslensk stjórnmál eru í gríðarlegri kreppu í kjölfar Panama-skjalanna og afsögn fyrrverandi forsætisráðherra. Við finnum það alls staðar í samfélaginu að traust á íslenskum stjórnmálum er á algerum botni. Við sjáum það í skoðanakönnunum sem sýna fylgi sveiflast á milli einhverra stjórnmálaflokka að stærsti hópurinn, 40–50%, treystir sér ekki til að styðja neinn þessara flokka. Þetta er auðvitað pólitísk krísa. Á Alþingi erum við fyrst og fremst að rífast um það hvort mitt lið sé betra en þitt lið. Hvort stjórnin sé ekki alveg frábær af því að hér mælist hagvöxtur, sem er auðvitað ekki síst í krafti aukinnar ferðamennsku og lágs olíuverðs, eða að stjórnarandstaðan sé svo fullkomlega frábær vegna þess að hún sé hlutfallslega minna í Panama-skjölunum eða ég veit ekki hvað.

Nú er liðinn heill mánuður frá því að segja má að Alþingi hafi fengið séns. Ríkisstjórnarflokkarnir ákváðu að halda áfram við stjórnvölinn til þess að bjarga þjóðhagslega mikilvægum málum. En við erum enn þá eiginlega að bíða eftir því að sjá á hvað á að leggja áherslu. Í samfélaginu er verið að tala endalaust um heilbrigðismál, um málefni ungs fólks, um framtíðina, t.d. í tengslum við möguleika til náms og LÍN. Ég sakna slíkrar umræðu hér. Umræðan um aflandsfélög er mjög jákvæð og við eigum auðvitað að halda henni (Forseti hringir.) áfram, en ef Alþingi á að auka traust sitt (Forseti hringir.) eigum við að sýna lit í þeim málum (Forseti hringir.) sem fólk er almennt að hugsa um. Og vel á minnst, nú er að koma sumar. Hvað er að gerast í ferðamálunum hjá okkur?