145. löggjafarþing — 108. fundur
 4. maí 2016.
breytingar á útlánareglum LÍN.

[15:31]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er á svipuðum nótum og tveir síðustu hv. þingmenn. Ég vil aðeins minna hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra á það hve veik krónan var. Hún féll, manstu, haustið 2008 og það hafði áhrif á kjör námsmanna erlendis. (Menntmrh.: … lánið …) Menntun hvers einstaklings er honum afar verðmæt og verður ekki frá honum tekin. Menntun er verðmæt, bæði fyrir einstaklinga og samfélagið í heild. Þess vegna er alvarlegt mál ef færri fara til náms hér á landi en þess óska. Eftir síðustu ákvarðanir Lánasjóðs íslenskra námsmanna eru einmitt uppi efasemdir um jafnrétti til náms og menn spyrja hvort menntun sé orðin eins konar munaður sem standi í sumum tilfellum aðeins þeim efnameiri til boða.

Fulltrúar stjórnar Sambands íslenskra námsmanna erlendis skrifuðu um málið í Fréttablaðið á dögunum. Þeir fullyrða að með ákvörðun LÍN um breytingar á úthlutunarreglum eigi ekki einu sinni að gefa núverandi námsmönnum erlendis tækifæri til að klára nám sitt áður en skerðingin nær til lánanna. Þeir nefna dæmi af nemanda í London sem sér fram á að þurfa að hætta í námi til að koma heim og vinna fyrir þeim peningum sem hann hefur fengið lánaða nú þegar. Annar nemandi í London sér fram á að þurfa að taka lán á miklu hærri vöxtum hjá nýja einkarekna lánasjóðnum eigi hann að geta klárað gráðuna sína. Læknanemi í Slóvakíu sér fram á að þurfa að nota skert framfærslulán upp í skólagjöldin þar sem þak er á því hversu mikið LÍN lánar fyrir skólagjöldum.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvað hann segi um fullyrðingar fulltrúa í stjórn Sambands íslenskra námsmanna erlendis. Telur hann (Forseti hringir.) að þeir fari með rangt mál? Rengir hann þau dæmi sem fulltrúarnir nefna?



[15:33]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna tók þá ákvörðun að gefnu tilefni að kalla til utanaðkomandi aðila til að fara yfir og rannsaka hver væri framfærslukostnaður í mismunandi löndum — af því að hann er mjög mismunandi. (Gripið fram í.) Stefnan er skýr, sú að lána í samræmi við framfærslukostnað. Þess vegna hafði í sumum löndum verið lánað undir framfærslukostnaði og þá var bætt þar úr. Það var gert í einu skrefi. Það er stefnan. Ég reikna með að hv. þingmaður sem nú er í framboði til forustu fyrir jafnaðarmannaflokkinn sé mér sammála um að það eigi að nýta peningana og fjármuni skattgreiðenda sem best til að tryggja jöfnuð þannig að við lánum í samræmi við framfærslukostnaðinn í hverju landi. Varla er hv. þingmaður þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að það eigi að vera einhver mismunur þar á.

Þá stöndum við eftir með deilu um það hvort þetta séu rétt gögn eða ekki. Að sjálfsögðu erum við alltaf opin og til viðtals um gögnin, tilbúin að hlusta á allar röksemdir um þau. Ef menn geta með sannfærandi og rökstuddum hætti sýnt fram á að það standi einhvers staðar öðruvísi af sér en menn ætla í þessum gögnum taka menn að sjálfsögðu tillit til þess. Nema hvað?

En ég ætla að hv. þingmaður, forustumaður í jafnaðarmannaflokki á Íslandi, sé mér sammála um að við eigum að nota fjármunina til að ná fram sem mestum jöfnuði þannig að við lánum í samræmi við framfærsluþörfina. Er einhver önnur stefna möguleg, virðulegi forseti?



[15:35]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Okkur greinir greinilega á um hvaða áhrif þessar breytingar á útlánareglunum hjá LÍN hafa á kjör námsmanna. Við jafnaðarmenn viljum jafnrétti til náms, við jafnaðarmenn viljum ekki að menntun sé munaðarvara og einungis fyrir þá sem betur standa í samfélaginu. Það er það sem verður að tryggja. Auðvitað hljótum við að gera kröfu til þess að niðurstaðan sé að tryggt sé jafnrétti til náms og að menntun sem er mikilvæg fyrir einstaklingana, líf þeirra og stöðu í samfélaginu, og auk þess fyrir okkur öll í samfélaginu sem heild, sé ekki bara fyrir þá sem eiga ríka foreldra sem geta haldið þeim uppi í námi erlendis.

Það er óásættanlegt og það er sú krafa sem við jafnaðarmenn gerum til menntastefnu á Íslandi.



[15:36]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þá er hv. þingmaður væntanlega sammála mér um að það hefur skipt máli í nýjum úthlutunarreglum að nýta aukið svigrúm til að hækka lán vegna barneigna, að hækka framfærsluhlutfallið hér á landi úr 90% í 92% sem gagnast auðvitað stærstum hópi námsmanna. Við hv. þingmaður hljótum að geta verið sammála um að þetta skipti máli.

Áður hafði frítekjumarkið verið hækkað úr 750 þús. kr. upp í 930 þús. kr. fyrir skólaárið 2014–2015 og af hálfu stjórnar lánasjóðsins hefur verið gripið til ýmissa annarra aðgerða til að tryggja hag lánasjóðsins, til að tryggja að hann haldi áfram að geta sinnt hlutverki sínu.

Ég er ekki sannfærður um að að það sé t.d. mikil jafnaðarhugsun að lána upp undir 209% umfram reiknaða framfærslu. Er ekki betra að nýta þá takmörkuðu fjármuni sem við höfum þannig að þeir elti sem best framfærslugrunninn og nýtist sem flestum, að ekki sé sums staðar lánað umtalsvert yfir framfærslunni og annars staðar undir henni?

Hvernig má það vera, virðulegi forseti, að menn geti haft þá skoðun að það sé eitthvert réttlætismál (Forseti hringir.) að lána sums staðar langt yfir framfærslu og annars staðar undir? Eigum við ekki að reyna að jafna þetta og nýta fjármunina þannig að sem flestir eigi sem best tækifæri til að stunda nám bæði heima á Íslandi og erlendis?