145. löggjafarþing — 109. fundur
 10. maí 2016.
einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni.

[13:36]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú liggja fyrir þau áform hæstv. heilbrigðisráðherra um að bjóða út rekstur þriggja heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Við hæstv. ráðherra höfum áður átt orðastað um þessi mál. Eins og ráðherra er kunnugt hef ég lagt fram nokkrar spurningar um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu almennt því að það eru margar spurningar sem vakna þegar svona stór ákvörðun er tekin. Til að mynda hefur hæstv. ráðherra sagt að ekki verði greiddur arður út úr þessum einkareknu heilsugæslustöðvum. Við vitum hins vegar að úr þeim tveimur einkareknu heilsugæslustöðvum sem nú þegar eru á höfuðborgarsvæðinu er greiddur arður. Ég hef lagt fram skriflega fyrirspurn til ráðherra og spurt eftir þessu. Svarið var að algjörlega sambærilegar kröfur væru gerðar til allra stöðva og ég spyr þá: Þýðir það að arður sé greiddur út eða ekki greiddur, herra forseti? Hæstv. ráðherra hefur sagt í öðru svari við fyrirspurn frá mér að ekki sé eftirlit með arðgreiðslum út úr samningum sem hið opinbera gerir við aðila sem veita einkarekna heilbrigðisþjónustu. Allt vekur þetta fleiri spurningar en það svarar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um þetta í ljósi þess að þessi áform eru afar umdeild og við höfum skoðanakannanir sem sýna að stór meiri hluti almennings telur eðlilegt að heilbrigðisþjónustan sé fyrst og fremst rekin af hinu opinbera, ekki bara fyrir opinbert fé heldur rekin af hinu opinbera, og þetta hefur verið sýnt fram á í rannsóknum. Skoðanakönnun sem Rúnar Vilhjálmsson hefur vitnað í sýnir að um 80% landsmanna eru þessarar skoðunar þannig að þetta er mjög umdeild ákvörðun sem hæstv. ráðherra er að taka. Ég vil spyrja hvort hann sé ekki sammála mér um það, þrátt fyrir að hæstv. ráðherra hafi ýmsar heimildir innan síns lagaramma, að eðlilegt sé að svona ákvarðanir sem snúast um grundvallarbreytingu í heilbrigðisþjónustunni, fari fyrir Alþingi, að Alþingi fái tækifæri til að leggja mat á þetta (Forseti hringir.) og greiða um það atkvæði þannig að hæstv. ráðherra hafi skýran vilja Alþingis á bak við sig.



[13:38]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Við höfum nú rætt þetta efni áður undir mismunandi ljóskerjum. Það sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni er rekstur þriggja nýrra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu sem allir eru í grunninn sammála um að þurfi að vera. Deilan og þrasið snýst um rekstrarformið, hvort þetta eigi að vera í útboði. Eins og kröfulýsingin er gerð fyrir útboðið þá er gert ráð fyrir því að opinber stofnun geti rekið stöðvarnar eða félag í meirihlutaeigu heilbrigðisstarfsmanna. Það er boðið upp á það. Ég reikna með því að við fáum einhver tilboð í þann rekstur. Meginatriðið er og það sem meginmáli skiptir er að kröfulýsingin mun gilda um rekstur allra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu og sama greiðslufyrirkomulag fyrir þær sömuleiðis.

Þetta hefur ekki verið svona og við höfum verið með rekstur Lágmúlastöðvarinnar og Salastöðvarinnar í einkarekstri. Mér vitanlega fór sú umræða ekkert inn í þingsali þegar það var gert. Samningurinn við Salastöðina, sem er afspyrnu vel rekin og góð starfsemi, var og hefur verið endurnýjaður burt séð frá pólitískum áherslum. Að mínu mati og mati fagfólks í kerfinu er kallað eftir meiri sveigjanleika í rekstrarformi heilsugæslustöðvarinnar. Það er verið að mæta þeim óskum og við skulum sjá hvort það skili okkur ekki því, eins og m.a. forsvarsmenn heimilislækna hafa haldið fram, að það verði endurnýjun og sérstaklega að yngra fólk, sem hefur kosið sér starfsgrundvöll (Forseti hringir.) erlendis, sæki í það að koma hingað heim.



[13:40]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég heyri það á hæstv. ráðherra, og þakka honum fyrir svörin, að hann telur ekki að þetta mál eigi að fara fyrir þingið þó að fram hafi komið í máli hans, sem rétt er og ég er sammála um, að hér sé um grundvallarbreytingu að ræða.

Það er verið að ræða grundvallarbreytingar á því hvernig eigi að reka heilsugæsluna. Það er verið að taka upp algjörlega nýtt kerfi. Þó að það sé svo og það er alveg rétt að hæstv. ráðherra hafi heimildir til þess að taka þessa ákvörðun, þá tel ég að það væri mun eðlilegra og lýðræðislegra að Alþingi fengi tækifæri til að ræða þetta, m.a. út frá því sem ég ræddi áðan að þetta er umdeilt í samfélaginu og mörgum spurningum er ósvarað, til að mynda um arðgreiðslurnar sem ég kom inn á áðan.

Ég spyr því hæstv. ráðherra, ef þetta er stefnumál hæstv. ráðherra og þar með hans flokks, Sjálfstæðisflokksins, og það er stutt í kosningar, hvort þá sé ekki bara eðlilegt að setja málið í dóm kjósenda og Sjálfstæðisflokkurinn geri það bara að sínu kosningamáli að breyta þessu kerfi svona ef ekki er vilji til þess að (Forseti hringir.) fara með það inn á þing. Því að annaðhvort þarf Alþingi eða almenningur að koma að þessari ákvörðun og leggja mat á hana.



[13:42]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Í fjárlögum er heimild til þess að fjölga heilsugæslustöðvum. Rekstrarfyrirkomulagið er ekki löggjafarmál, greiðslufyrirkomulag í heilbrigðisþjónustunni er ekki löggjafarmál, kröfulýsing og skilgreining á þeim kröfum sem gerðar eru faglega um rekstur heilsugæslustöðva er ekki löggjafarmál. Þetta eru allt saman verkefni sem löggjöfin hefur vistað í stjórnsýslunni. (KJak: … pólitískt.) Auðvitað er þetta pólitískt, sú umræða á að fara fram hér og það hefur ekki staðið á þeim sem hér stendur að taka þá umræðu pólitískt, en ákvörðunin er í löggjöfinni falin framkvæmdarvaldinu. Um það hefur ekki verið ágreiningur í þessum sölum í háa herrans tíð eins og ég var að nefna bæði varðandi Lágmúlastöðina og Salastöðina sem er einkarekin heilsugæslustöð. Líftími þeirra spannar allt hið pólitíska litróf (Forseti hringir.) og ég átta mig þess vegna ekki á því hvers vegna verið er að gera þetta stóra mál úr þessu núna. Þetta fyrirkomulag er fyrir hendi í heilsugæslunni í dag og hefur reynst mjög vel.