145. löggjafarþing — 110. fundur
 12. maí 2016.
almennar íbúðir, 2. umræða.
stjfrv., 435. mál (heildarlög). — Þskj. 643, nál. 1266, brtt. 1267.

[11:12]
Frsm. velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um almennar íbúðir. Allir hv. þingmenn hv. velferðarnefndar standa saman að nefndarálitinu. Áður en ég held áfram máli mínu langar mig að þakka öllum hv. þingmönnum velferðarnefndar fyrir mikla og góða vinnu þar sem unnið var að þessu áliti. Auk þessa vil ég þakka nefndarritara velferðarnefndar fyrir mikil og góð störf við vinnslu málsins. Við vinnslu málsins bárust margar umsagnir og auk þess fékk nefndin til sín gesti á nokkuð marga fundi.

Ég ætla í þessari 30 mínútna ræðu minni að fara yfir helstu atriði nefndarálitsins, en ég mun eingöngu fara ítarlega yfir hluta þess þar sem nefndarálitið er afar langt. Í mörgum tilvikum mun ég vísa beint til nefndarálits á þskj. 1266 og í breytingartillögur á þskj. 1267.

Virðulegur forseti. Frumvarpi um almennar íbúðir er ætlað að leggja grunn að nýju leiguíbúðakerfi. Meginmarkmið þess eru aukið framboð leiguhúsnæðis og að húsnæðiskostnaður fólks verði í samræmi við greiðslugetu. Miðað var við að það tæki til fólks í tveimur lægstu tekjufimmtungunum. Fyrst ber að nefna að í vinnu við mótun húsnæðisstefnu í aðdraganda framlagningar frumvarpsins var lagt til grundvallar að leiga yrði jafnan ekki umfram 20–25% af tekjum. Töldu nefndarmenn æskilegt að þetta markmið kæmi fram í lögunum og lögðu því til viðbót við það efni í fyrri málslið 1. mgr. 1. gr.

Frumvarpið er eitt af þeim frumvörpum sem voru mótframlag ríkisstjórnarinnar til kjarasamninga síðastliðið vor sem varð m.a. til að kjarasamningar tókust. Innan hv. velferðarnefndar er annað frumvarp sem snýr að kjarasamningunum, en það er frumvarp um húsnæðisbætur. Mikilvægt er að það verði afgreitt sem fyrst út úr nefndinni til að markmið húsnæðismálanna nái fram að ganga.

Í 2. gr. frumvarpsins er fjallað um skilgreiningar. Þær snúast m.a. um breytingar á nafni frumvarpsins sem var almennar íbúðir, en lagt er til að rætt verði frekar um almennar félagsíbúðir. Lagt er til að í stað þess að nota hugtakið „almennt íbúðafélag“ verði þessi íbúðafélög nefnd húsnæðissjálfseignarstofnanir. Einnig er vert að nefna að hugtakið „áfangi“ var fellt út úr skilgreiningakaflanum þar sem áfangaskiptingin er felld brott úr lögunum, m.a. til að stuðla að meiri félagslegri blöndun í kerfinu.

Engar breytingar voru gerðar á 3. gr. frumvarpsins og því erum við komin í 4. gr. sem fjallar um almennt íbúðafélag. Þar kom ríkisskattstjóri með ábendingar er vörðuðu samþykktir eða skipulagsskrá almenns íbúðafélags. Nefndin brást við þeim athugasemdum og gerði breytingartillögur þar um. Auk þess er ákvæði þar sem fjallað er um hvernig fara skuli með rekstrarafgang almennra íbúðafélaga. Leggja nefndarmenn til að liðurinn falli brott. Nefndarmönnum finnst æskilegt að félögin hafi meira svigrúm til nýtingar rekstrarafgangs og þannig sé m.a. hægt að nýta hann til að jafna út leigu.

Fjallað er um stofnun félags og samþykktir í 5. gr. Þar er m.a. kveðið á um stofnun og stofnfé almennra íbúðafélaga, hvaða atriði skuli hafa í samþykktum eða skipulagsskrá félaganna, aðild að almennum íbúðafélögum, hvernig fara skuli með fyrirkomulag félagsfunda og hvernig skuli ráðstafa eignum félags séu þær umfram skuldir verði því slitið. Nefndarmenn leggja til að ýmis ákvæði greinarinnar falli brott, verða m.a. við athugasemdum ríkisskattstjóra um upptalningu á atriðum í samþykktum eða skipulagsskrá, og leggja til breytingar um félagsfundi þar sem íbúðafélögin eru sjálfseignarstofnanir en þær hafa ekki félagsmenn og því enga félagsfundi. Æðsta vald þeirra er sjálfstæðar stjórnir og því fellur þetta ákvæði laganna brott.

Aðrar breytingar á 5. gr. og þeim greinum sem á undan henni koma skýra sig sjálfar í nefndaráliti og þeim breytingartillögum sem greint var frá í upphafi ræðunnar. Þær breytingar sem gerðar eru á 6. gr., um félagsstjórn og framkvæmdastjóra, og á 7. gr., um störf stjórnar, má jafnframt finna í umræddum þingskjölum sem vitnað var til að framan.

Í 8. gr. er fjallað um fulltrúaráð. Þar er m.a. lögð fram sú breyting að ekki er hægt að mæla fyrir um val á fulltrúaráði almenns íbúðafélags á aðalfundi félagsins enda er um að ræða sjálfseignarstofnanir sem hafa hvorki félagsmenn né félagsfundi. Telur nefndin eðlilegra að almennt íbúðafélag ákveði í samþykktum sínum eða skipulagsskrá hvernig val á fulltrúaráði fari fram. Nefndarmönnum fannst þó mikilvægt að tryggja aðkomu íbúa að stjórnun íbúðafélaganna og leggur því til að minnst þriðjungur fulltrúaráðsmanna skuli vera úr hópi leigjenda sé þess kostur. Jafnframt er fjallað um hvernig fulltrúaráð kýs stjórn og síðan skal það ákveðið nánar í samþykktum eða skipulagsskrá hvernig vali á leigjendum í fulltrúaráð verði háttað.

Fjallað er um framkvæmdasjóð í 9. gr. og um ársreikninga og endurskoðun í 10. gr. Þar er m.a. kveðið á um að almenn íbúðafélög skuli halda framkvæmdasjóð til að standa undir viðhaldi og nauðsynlegum endurbótum á almennum íbúðum og fasteignum þeirra. Gert er ráð fyrir að öll leiga af almennum íbúðum renni í sjóðinn að frátöldum greiðslum af lánum, rekstrarkostnaði og greiðslum í Húsnæðismálasjóð. Nefndin telur þó æskilegt að almenn íbúðafélög hafi meira svigrúm við nýtingu leigutekna þannig að þær megi t.d. nýta til að jafna leigu milli íbúa eða styrkja eigið fé. Eftir ábendingar sem bárust nefndinni um nauðsyn þess að hafa sérstaka sjóði til að standa undir viðhaldi og endurbótum leggur nefndin til þær breytingar að í stað framkvæmdasjóðs verði kveðið á um viðhaldssjóð sem skuli standa undir eðlilegu viðhaldi og nauðsynlegum endurbótum á almennum íbúðum og fasteignum sem þær tilheyra.

Aðrar breytingar á 8.–10. gr. skýra sig sjálfar í nefndaráliti og breytingartillögum sem getið var um að framan.

Virðulegur forseti. Þá erum við komin að veigamiklu atriði, en það er 12. gr. sem fjallar um stofnframlög, tekju- og eignamörk. Í 1. mgr. er ákvæði um hverjir geta fengið stofnframlög en það eru samkvæmt frumvarpi m.a. sveitarfélög vegna íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga og leigufélög í þeirra eigu, hafi þau verið starfandi við gildistöku laganna. Nefndin leggur til að heimildirnar verði ekki takmarkaðar við íbúðarhúsnæði á vegum sveitarfélaga eða að leigufélög hafi verið starfandi við gildistöku laganna, enda telur nefndin sveitarfélögum og lögaðilum á þeirra vegum treystandi til að halda utan um almennar íbúðir.

Í lok 1. mgr. er vísað til leigufélaga sem uppfylla skilyrði 23. gr. Nefndin leggur til að fram komi strax í málsgreininni um hvers konar lögaðila sé að ræða fremur en að vísað sé til 23. gr. Það er gert því skyni að ákvæðið verði sem aðgengilegast. Nefndin telur að í sérstökum tilvikum geti það þjónað markmiðum laganna að uppbygging almennra íbúða sé á vegum annars konar lögaðila en greinir í 1. mgr. 12. gr. Það gæti t.d. átt við ef húsnæðissamvinnufélag vildi hafa almennar íbúðir í leigufélagi á sínum vegum eða ef sveitarfélag vildi byggja upp almennar íbúðir í félagi við aðra. Nefndin leggur því til að veita megi stofnframlög til annarra með sérstöku samþykki ráðherra.

3. mgr. fellur brott þar sem áfangaskiptingin er tekin út úr lögunum, m.a. til að stuðla að félagslegri blöndun í kerfinu.

Í 4. mgr. kemur fram að óheimilt sé að veita stofnframlag vegna íbúðarhúsnæðis sem hefur verið keypt áður en sótt er um stofnframlag. Nefndinni var bent á að íbúðir sem kæmu til sölu seldust oft hratt og því gæti þurft að hafa snarar hendur við kaup. Erfitt gæti reynst að ganga ávallt frá umsókn um stofnframlag í tæka tíð. Með hliðsjón af ábendingunni leggur nefndin til að unnt verði að leggja fram umsókn allt að fjórum vikum frá kaupum. Sá sem kaupir íbúð án þess að hafa fengið samþykki við umsókn um stofnframlag ber þó vitaskuld áhættu af því að honum verði synjað um stofnframlag.

Í 4. mgr. koma einnig fram fyrirmæli sem eiga við þegar andvirði almennrar íbúðar er nýtt til kaupa á öðru íbúðarhúsnæði. Nefndin leggur til ögn breytta framsetningu til að skýra að þau eigi við þótt andvirðið sé notað til að kaupa dýrari íbúð, en ekki aðeins fleiri íbúðir, og að þau eigi við um byggingu íbúðar en ekki aðeins kaup.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tilteknar greiðslur í framkvæmdasjóð og Húsnæðismálasjóð og endurgreiðslur stofnframlaga, þegar við á, hefjist þegar lán af almennri íbúð hafa verið greidd upp. Bent var á að auðvelt væri að komast hjá þeim með því að taka lán til mjög langs tíma og framlengja þau eða endurfjármagna ítrekað. Til að taka fyrir það leggur nefndin til að sett verði hámark á lánstímann. Á grundvelli upplýsinga sem nefndin aflaði sér um hver lánstími þyrfti að vera til að leiga yrði að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna leigjenda leggur nefndin til að hámarkið verði 50 ár.

Í 5. og 6. mgr. eru tilgreind tekju- og eignamörk leigjenda almennra íbúða við upphaf leigu. Nefndin leggur til að örlítil reikningsskekkja í 5. mgr. verði leiðrétt og að viðmiðin verði uppfærð vegna verðlagsbreytinga. Nefndin leggur einnig til að orðinu „samanlögð“ verði skotið fremst í 6. mgr. til að skýra að átt sé við samanlagða hreina eign beggja aðila eða allra leigjenda, ef tveir eða fleiri leigja almenna íbúð saman, en ekki eign hvers og eins.

Auk þess eru ákvæði sem falla brott og vísa ég þar í nefndarálit og þær breytingartillögur sem greint er frá að framan í ræðu minni.

Í 13. gr. er fjallað um stofnframlög ríkis vegna almennra íbúða. Þar leggur nefndin til að reynist endanlegt stofnvirði hærra en umsókn gerði ráð fyrir miðist stofnframlög við áætlað stofnvirði. Í því felst einnig aukinn hvati fyrir umsækjendur til að vanda til verka við áætlun stofnvirðis og halda kostnaði innan áætlana. Mikilvægt er að taka fram að nefndinni bárust útreikningar sem sýndu að nauðsynlegt væri að koma sérstaklega á móts við þá leigjendur sem verst stæðu ef leiga þeirra ætti að jafnaði ekki að vera umfram fjórðung tekna. Því leggur nefndin til að heimilt verði að veita allt að 4% viðbótarframlag vegna íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga og íbúðarhúsnæðis sem ætlað er námsmönnum eða öryrkjum. Þar sem um sérstakan stuðning er að ræða leggur nefndin til að framlagið verði ekki endurgreitt eftir uppgreiðslu lána.

Fram kom fyrir nefndinni að sums staðar á landsbyggðinni væri skortur á leiguhúsnæði sem erfiðlega gengi að mæta því að ekki fengjust lán. Það ætti einkum við þar sem velta með fasteignir væri lítil eða markaðsverð verulega lægra en byggingarkostnaður og lánveitendur því tregir til að veita fasteignaveðlán. Í verstu tilvikunum gæti jafnvel reynst ómögulegt að fjármagna leiguíbúðir þrátt fyrir 30% stofnframlag frá ríki og sveitarfélögum. Í ljósi þessara ábendinga leggur nefndin til að Íbúðalánasjóði verði heimilt að veita allt að 6 prósentustiga viðbótarframlag á svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði á því að fá fjármögnun á almennum markaði. Um undantekningarheimild er að ræða sem nefndin gerir ráð fyrir að verði aðeins nýtt þegar ætla verður að 30% stofnframlag dugi ekki til. Nefndin leggur til hliðstæða breytingu á 16. gr. um stofnframlög sveitarfélaga. Heimildirnar verða þó sjálfstæðar. Ríki og sveitarfélagi verður þannig hvoru um sig heimilt að veita viðbótarframlag, hvort sem hinn aðilinn gerir það eður ei. Nefndin leggur þó til að sá munur verði á heimildunum að ekki megi krefjast endurgreiðslu á viðbótarframlagi ríkis eftir uppgreiðslu lána. Í því felst sérstakur byggðastuðningur frá ríki.

Nokkrir umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar gagnrýndu að helmingur stofnframlags ríkis, sem væri í formi beins framlags, skyldi greiddur út þegar við samþykkt umsóknar því að í því fælist aukin áhætta fyrir ríkið og hætta á misnotkun. Svipuð gagnrýni kom fram varðandi stofnframlög sveitarfélaga. Á móti kom fram að fyrirkomulagið auðveldaði fjármögnun almennra íbúða og drægi úr þörf á dýrum brúarlánum sem ætti að skila sér í lægri leigu. Hvað varðar mögulega misnotkun bendir nefndin á að Íbúðalánasjóði er falið eftirlit með eigendum almennra íbúða og að misnotkunin geti varðað refsingu. Nefndin leggur því ekki til breytingar að þessu leyti.

Auk þess segir að stofnframlag í formi vaxtaniðurgreiðslu hefjist þegar almenn íbúð hefur verið tekin í notkun. Nefndin leggur til að hún hefjist fremur þegar afborgun af láni hefst, enda tilgangur hennar að létta á greiðslubyrði lána.

Samkvæmt greininni er heimilt er að setja það sem skilyrði fyrir stofnframlagi ríkis að það verði endurgreitt þegar lán af almennri íbúð hefur verið greitt upp. Hliðstætt ákvæði varðandi stofnframlög sveitarfélaga er í frumvarpinu. Ákvæðin sættu nokkurri gagnrýni. Bent var á að samkvæmt núgildandi 37. gr. laga um húsnæðismál væri veittur óafturkræfur stuðningur með niðurgreiddum vöxtum. Töldu sumir stofnframlög fela í sér minni stuðning, eða jafnvel engan stuðning, væri gerð krafa um endurgreiðslu þeirra. Nefndin bendir á að í frumvarpinu sé ekki gert ráð fyrir því að krafa um endurgreiðslu stofnframlaga beri vexti fyrr en frá þeim degi sem hún er sett fram, sem er líklegt að verði ekki fyrr en að liðnum áratugum frá afhendingu framlaganna. Einnig er gert ráð fyrir því að hluti framlaga kunni að vera greiddur þegar við samþykkt umsóknar og að endurgreiðslukröfur komi aftar í veðröð en lán af íbúð. Hvort tveggja felur í sér aukna áhættu ríkis og sveitarfélaga í því skyni að lækka fjármagnskostnað umsækjanda. Stofnframlög fela því í sér talsverðan stuðning þótt þau beri að endurgreiða.

Þá erum við komin að 15. gr. og þar segir m.a. að Íbúðalánasjóði verið heimilt að líta til byggðasjónarmiða við mat á umsóknum um stofnframlög. Getur það t.d. átt við ef skortur er á leiguhúsnæði sem stæði atvinnuuppbyggingu í byggðarlaginu fyrir þrifum. Byggðasjónarmið koma einnig til skoðunar við mat á því hvort veita beri viðbótarframlag vegna íbúða á svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði á því að fá fjármögnun á almennum markaði.

Í 16. gr. er fjallað um stofnframlög sveitarfélaga, en þau geta m.a. falist í lækkun eða niðurfellingu á gjöldum sem umsækjanda um stofnframlag ber að standa skil á til sveitarfélags vegna byggingar eða kaupa á almennum íbúðum. Nefndin leggur til að ákvæðið verði gert afdráttarlausara með því að fram komi að stofnframlagið geti falist í beinu framlagi, úthlutun lóða eða lækkun eða niðurfellingu á gjöldum sem umsækjanda ber að standa skil á til sveitarfélagsins vegna íbúðanna. Í greininni er kveðið á um heimild til að greiða helming stofnframlags sveitarfélags við samþykkt umsóknar. Frumvarpið gerir þó ráð fyrir að sveitarfélag samþykki umsókn áður en Íbúðalánasjóður fjallar um hana og að samþykki sveitarfélags falli niður synji Íbúðalánasjóður umsókn. Það væri óheppilegt ef sveitarfélag hefði þegar veitt helming stofnframlags ef Íbúðalánasjóður hafnaði svo umsókn. Nefndin leggur því til að fyrri helmingur stofnframlags sveitarfélags greiðist ekki fyrr en við samþykkt Íbúðalánasjóðs á umsókn um stofnframlag ríkisins.

Auk þess eru önnur ákvæði í greininni sem nefndarmenn leggja til að falli brott. Þau eru skýrð í nefndaráliti og þeim breytingartillögum sem gerð var grein fyrir framar í framsögu.

17. gr. fjallar um endurgreiðslu stofnframlaga, veð og kvaðir. Nefndin leggur til nokkrar breytingar á þessari grein til að greina vel á milli endurgreiðsla eftir því hvort þær stafa af því að íbúð sé færð úr almenna íbúðakerfinu eða því að lán vegna hennar hafi verið greidd upp, og skýra hvernig endurgreiðslu skuli háttað í hvoru tilviki.

Í greininni er undanþága frá endurgreiðslu stofnframlags við sölu almennrar íbúðar ef andvirðið er notað til kaupa á íbúðarhúsnæði sem nota á í sama tilgangi. Nefndin leggur til að undanþágunni verði settur árs rammi og að skýrt verði að hún nái til byggingar íbúðarhúsnæðis en ekki aðeins til kaupa. Nefndin leggur einnig til að eigendum verði með samþykki Íbúðalánasjóðs heimilt að færa sérstakt stofnframlagabókhald og gera þá aðeins upp stofnframlög með reglulegu millibili en ekki þegar í stað vegna hverrar seldrar íbúðar. Hagræði getur verið af því ef um er að ræða lögaðila sem heldur utan um mikinn fjölda íbúða og byggir eða kaupir og selur íbúðir reglulega. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji nánari reglur um bókhaldið, þar á meðal um hvenær uppgjör skuli fara fram og vexti af endurgreiðslukröfum.

Jafnframt segir að endurgreiðsla á stofnframlagi ríkisins skuli renna í ríkissjóð en endurgreiðsla á stofnframlagi sveitarfélags til viðkomandi sveitarfélags. Endurgreiðslur skuli nýta til veitingar frekari stofnframlaga sé þörf á fleiri almennum íbúðum. Nefndin fellst á að rök séu fyrir því að endurgreidd stofnframlög sveitarfélags renni til viðkomandi sveitarfélags, enda nýtast þau þá við áframhaldandi uppbyggingu á almennum íbúðum í því sveitarfélagi. Aftur á móti leggur nefndin til að endurgreidd stofnframlög ríkis renni til Húsnæðismálasjóðs fremur en í ríkissjóð. Með því móti má flýta talsvert fyrir uppbyggingu félagsauðs í Húsnæðismálasjóði.

Nefndin leggur til að upphafsorð 4. mgr., um að stofnframlag skuli endurgreitt að fullu, falli brott. Endurgreiðslur kunna að vera minni en stofnframlög því að endurgreiðslur miðast við áætlað söluverð íbúðar en stofnframlög við kostnaðarverð. Kostnaðarverð kann að vera hærra en söluverð, einkum á svæðum þar sem byggingarkostnaður er hærri en markaðsverð.

Jafnframt kemur það fram að krafa um endurgreiðslu stofnframlaga skuli tryggð með veði í hlutaðeigandi íbúð og koma í veðröð næst á eftir lánum af henni. Lagt var til að krafan nyti lögveðs í því skyni að lágmarka áhættu ríkis og sveitarfélaga og draga úr umsýslu vegna veðleyfa, ellegar að krafan kæmi fremst í veðröð. Það yki á móti áhættu lánveitanda og þar af leiðandi líklega fjármagnskostnað, en sá kostnaður rynni að líkindum út í leiguverð. Breytingin ynni þannig gegn því markmiði frumvarpsins að lækka leigu. Nefndin leggur því ekki til breytingar í þessa veru.

Auk þess er mælt fyrir þinglýsingu kvaðar á íbúð við veitingu stofnframlags. Bent var á að þegar stofnframlög væru veitt til nýbygginga væru engar íbúðir til staðar. Nefndin leggur því til að mælt verði fyrir um þinglýsingu á fasteign fremur en íbúð. Þinglýsingin getur þá eftir atvikum tekið til lóðar fremur en tilbúinnar íbúðar.

18. gr. um almennar íbúðir er breytt á þann veg að árétta að þrátt fyrir að lögð sé áhersla á hagkvæmni megi ekki slá af kröfum tímans um sómasamlegt húsnæði og hafa verði í huga framtíðarþarfir, svo sem vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar. Nánar er kveðið á um atriði er varða 18. gr. í nefndaráliti og breytingartillögum sem greint var frá að framan.

19. gr. fjallar um ákvörðun leigufjárhæðar. Í frumvarpinu er miðað við að leiga fyrir almennar íbúðir miðist við áfanga. Þetta fyrirkomulag fékk á sig talsverða og veigamikla gagnrýni. Með því yrði erfiðara að stuðla að félagslegri blöndun innan áfangakerfisins. Það sættu nefndarmennirnir sig ekki við og tóku því út áfangana og reyna þar með að stuðla að meiri félagslegri blöndun innan þessa kerfis.

Í greininni er jafnframt fjallað um hvort heimila ætti eigendum almennra íbúða að innheimta markaðsleigu ef leigjendur færu yfir tekju- eða eignamörk sem sett eru fram í frumvarpinu. Fyrir því standa þau rök að markmið frumvarpsins er að styðja við tekjulægra fólk. Leggur nefndin því til að heimilt verði að reikna álag á leigu ef leigjandi er umfram tekju- eða eignaviðmið í samfellt þrjú ár eftir nánari reglum sem ráðherra setur í reglugerð. Gert er ráð fyrir að miðað verði við tiltekið hlutfall tekna eða eigna umfram viðmiðin sem tilgreind eru þannig að jaðaráhrif af hækkuninni verði ekki of mikil. Heimildin krefst þess að eigendur almennra íbúða geti aflað upplýsinga um tekjur og eignir leigjenda. Nefndin leggur því til að þeim verði heimilt að krefjast afrita síðustu þriggja skattframtala leigjenda. Nánar er kveðið á um þessi atriði í því nefndaráliti og þeim breytingartillögum sem greint var frá hér að framan.

20. gr. fjallar um úthlutun almennra íbúða, að þeim skuli úthlutað af eiganda þeirra. Víða er það svo að félög og stofnanir fela félagsþjónustu sveitarfélaga að annast úthlutun á félagslegu húsnæði í sinni eigu. Nefndin telur ekki tilefni til að hrófla við því og leggur því til að eiganda verði heimilt að semja við viðkomandi sveitarfélag um að annast úthlutunina. Auk þessa segir að leigjendur sem hafa fengið íbúð úthlutað en vegna breyttra aðstæðna hafa þörf fyrir annars konar íbúð skuli eiga forgang við úthlutun slíkrar íbúðar hjá sama eiganda. Þótt það sé alla jafna eðlilegt telur nefndin að sérstakar aðstæður kunni að réttlæta frávik. Nefndin leggur því til að orðunum „að jafnaði“ verði skotið inn í málsliðinn. Í sömu málsgrein segir að við úthlutun almennra íbúða skuli stuðla að fjölbreyttri samsetningu íbúa og félagslegri blöndun. Félagsstofnun stúdenta taldi óvíst hvort áskilnaðurinn væri samræmanlegur starfsemi sinni, enda þjónustaði hann aðeins einn þjóðfélagshóp, stúdenta við Háskóla Íslands. Nefndin telur þessa afmörkun á skjólstæðingum Félagsstofnunar stúdenta ekki kalla á breytingu á ákvæðinu, enda bakgrunnur stúdenta við Háskóla Íslands misjafn.

Í greininni segir jafnframt að heimilt sé að leigja almenna íbúð tímabundið leigjanda sem er yfir tekju- og eignamörkum frumvarpsins. Nefndin leggur til að þá megi krefjast markaðsleigu, enda ekki tilgangur frumvarpsins að niðurgreiða leigu efnameira fólks.

Virðulegur forseti. Þá er komið að 22. gr. sem fjallar um íbúðarhúsnæði á vegum sveitarfélaga og annarra félaga. Þar eru lagðar til ýmiss konar breytingar og er greint frá þeim í nefndaráliti og breytingartillögum.

Í 23. gr. sem fjallar um félög, önnur en þau sem eru í eigu sveitarfélaga, eru jafnframt lagðar til breytingar á ákvæðum, m.a. að sum þeirra falli brott. Eins og með 22. gr. vísa ég í nefndarálit og breytingartillögur.

Hvað varðar Húsnæðismálasjóð, sem fjallað er um í 24. gr., er lagt til að frumvarpinu verði vísað aftur til hv. velferðarnefndar að þessari umræðu lokinni, en þar munu nefndarmenn fara yfir þau ákvæði er snúa að sjóðnum. Í 3. umr. um málið mun ég ræða ítarlega um hlutverk Húsnæðismálasjóðs og það sem viðkemur honum.

Að lokum eru kaflar sem fjalla um eftirlit, gildistöku þessara laga, breytingar á öðrum lögum og ákvæði til bráðabirgða. Þar vísa ég eins og oft áður í þessari framsögu minni í nefndarálit á þskj. 1266 og breytingartillögur á þskj. 1267. Eins og að framan segir er lagt til að málið fari aftur til hv. velferðarnefndar að umræðu lokinni.

Mig langar í lokin að minnast á það og þakka enn og aftur fyrir mikla og góða vinnu hv. þingmanna í hv. velferðarnefnd og þakka nefndarritara velferðarnefndar fyrir gríðarlega mikla vinnu. Það hefur verið verulega góð samstaða milli allra nefndarmanna um að koma þessu máli í gegn og allir hafa lagt mikið af mörkum við það. Eins áður hefur komið fram er frumvarpið samofið öðru frumvarpi sem fjallar um húsnæðisbætur. Til að markmið ríkisstjórnarinnar um að leigjendur greiði ekki meira en 20–25% af tekjum í leigu er mikilvægt að bæði þetta frumvarp sem fjallar um almennar félagsíbúðir og frumvarp um húsnæðisbætur nái fram að ganga, því að markmið þeirra er að ná því fram að ekki fari meira en um 20–25% af ráðstöfunartekjum einstaklinga í leigugreiðslur. Því er mikilvægt að frumvarp um húsnæðisbætur verði afgreitt fljótt og vel út úr velferðarnefnd. Ég hef enga trú á öðru en að svo verði miðað við þá góðu samvinnu sem ríkt hefur í nefndinni hingað til.

Ég fagna því sérstaklega að við náum ákveðnum áföngum varðandi byggðasjónarmið með frumvarpinu og að við veitingu stofnframlaga sé m.a. horft til byggðasjónarmiða. Þar sjáum við m.a. hærri stofnstyrki til ákveðinna svæða sem ég tel mjög mikilvægt því að við vitum að þörf fyrir leiguhúsnæði er víða mikil á landsbyggðinni.

Ég er komin að lokum þessarar framsögu. Elsa Lára Arnardóttir, sá hv. þingmaður sem hér stendur, hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins, en rita undir álit þetta samkvæmt 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, Elsa Lára Arnardóttir, framsögumaður málsins, Ásmundur Friðriksson, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Páll Valur Björnsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Unnur Brá Konráðsdóttir.



[11:41]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég taka undir og fagna því að velferðarnefnd skuli hafa lokið þessari vinnu og það er líka fagnaðarefni að nefndin öll stendur að baki þessum breytingartillögum. Ég verð þó líka að segja, virðulegi forseti, að það er kannski dæmi um frumvarpið sem slíkt að það er dálítið fátítt að svo miklar breytingartillögur komi fram um frumvarp frá ráðherra. Mér sýnist að hv. velferðarnefnd sé hreinlega að skrifa nýtt frumvarp. Meira að segja er fyrirsögninni er breytt, það er dálítið sjaldgæft, þannig að lítið stendur eftir af upphaflegu áformunum. En sjónarmiðin sem hér hafa komið fram í málamiðlun milli fulltrúa allra flokka eru kannski virðingarverð. Það eru nokkur atriði sem mig langar að spyrja út í.

Hv. þingmaður hefur verið iðin við það á þessu kjörtímabili undir liðnum störf þingsins, að tala um verðtrygginguna og afnám hennar. Það var aðalkosningaloforð Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar og ég held að Framsóknarflokkurinn hafi fengið mikið af sínu fylgi út á það loforð. Því spyr ég hv. þingmann: Hvar stendur loforðið um verðtryggingu og afnám hennar, eins og Framsóknarflokkurinn lofaði? Öll þau góðu áform sem hér eru sett fram verða smituð af verðtryggðum lánum og ákveðnum grunni sem þar er. Ég minni hv. þingmann líka á það sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala oft um, þ.e. stýrivexti Seðlabankans sem þeim finnast allt of háir og hafa áhrif á allt.

En spurning mín til hv. þingmanns er: Hvað líður frumvarpi um afnám verðtryggingar? Hvar strandar það mál?



[11:43]
Frsm. velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir andsvarið þó að það snúist nú ekki almennt séð um félagsíbúðir. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, gerðar hafa verið gríðarlega miklar breytingar á því frumvarpi sem hér um ræðir. Það sýnir bara hvað þingið er valdamikið að þingmenn geta verulega sett mark sitt á frumvörp sem koma til vinnslu. En af því hv. þingmaður spyr um afnám verðtryggingar þá er unnið að tillögum um verðtryggingarmálin í ráðherranefnd þar sem verið er að endurskoða fjármálakerfið í heild sinni. Meðal annars er verið að skoða úrræði fyrir fyrstu kaupendur. Þar undir liggja málefni verðtryggingarinnar.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir að ég hef verið iðin við að ræða um mikilvægi afnáms verðtryggingar í þingsal og þar til við sjáum tillögur sem ég get mögulega sætt mig við í þeim efnum held ég áfram að ræða mikilvægi þess að við förum í afnám verðtryggingar á neytendalánum. Ég mun halda áfram að ræða það í þingsal þar til ég sé frumvörp þess efnis.



[11:44]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Litlu er ég nær um vinnu við afnám verðtryggingar vegna þess að málið er búið að vera í ráðherranefnd alla tíð, allt þetta kjörtímabil, það sem liðið er af því. Nú segir hv. þingmaður að ráðherranefnd fjalli um málið.

Fram hefur komið í máli hæstv. fjármálaráðherra, sem mér skilst að sé verkstjórinn í þeirri vinnu og eigi að vinna þá vinnu, að ekki standi til af hans hálfu að koma fram með frumvarp um afnám verðtryggingar það sem eftir lifir þessa kjörtímabils. Það er ekki nóg að koma hér og ræða þetta í störfum þingsins. Framsóknarflokkurinn er að svíkja þetta aðalkosningaloforð sitt og kemur ekki fram með neina tillögu í þeim efnum. Það er það sem stendur upp úr. Ég trúi því ekki að Framsóknarflokkurinn ætli að láta það gerast að engar tillögur komi fram í þessum efnum.



[11:45]
Frsm. velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan er unnið að tillögum er varða verðtrygginguna í ráðherranefnd. Það hefur tekið gríðarlega langan tíma. Vandað er til verks. Framsóknarflokkurinn hefur ekki svikið neitt í þeim efnum. Markmiðin eru mjög skýr, unnið er að málefnum verðtryggingarinnar í ráðherranefnd og þess beðið að þau komi fram í þinginu.



[11:46]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Framsóknarflokkurinn hefur ekki náð markmiði sínu varðandi verðtrygginguna; það mál er í nefnd. Flokkurinn hefur heldur ekki náð markmiðum sínum varðandi húsnæðisbætur; það mál er líka í nefnd en er að vísu komið hér inn í þingið.

Hér sjáum við loksins margboðað frumvarp unnið af velferðarnefnd um almennar íbúðir. Það mál tók þrjú ár. Hvað er það sem dvelur þennan langa orm Framsóknarflokksins? Jú, það er misklíð á stjórnarheimilinu, það er Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur móast gegn þessu máli. Hvað veldur því að þetta mál, sem við höfum öll beðið eftir, er þó komið svona langt? Það er mjög einföld skýring á því. Þetta mál er komið á þetta vinnslustig vegna þess að stjórnarandstaðan hefur verið einbeitt í því að tosa málið áfram með tilstyrk verkalýðshreyfingarinnar. Það er ekki Sjálfstæðisflokknum eða Framsóknarflokknum að þakka að málið er komið á þetta stig, það er stjórnarandstaðan sem hefur náð því á þennan punkt í dag.

Það sem vekur mér síðan undrun er að sjá að þetta er allt annað frumvarp en kom inn í þingið. Ég man ekki til þess að hafa séð frumvarp koma fram sem unnið er af þinginu og fyrir liggja breytingartillögur á tíu síðum. Ég held að Framsóknarflokkurinn megi þakka hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar, ekki síst Steingrími J. Sigfússyni og Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir þær gagngeru og góðu endurbætur sem eru á málinu. Það breytir ekki hinu, herra forseti, að þó að ég fagni þessu máli þá óttast ég hvernig það tekur á vandamálinu sem fyrir er.

Samkvæmt stefnunni sem þetta frumvarp byggir á á að setja 1.500 millj. kr. í verkið í fjögur ár, en það þýðir um það bil 400 leiguíbúðir á ári. Það er góðra gjalda vert. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Telur hún að 400 íbúðir á ári í fjögur ár leysi þann vanda sem við er að glíma á leigumarkaðnum?



[11:48]
Frsm. velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði í framsögu minni varðandi þetta nefndarálit þá eiga allir hv. þingmenn í velferðarnefnd þakkir skildar fyrir mikla og góða vinnu við frumvarpið. Það á bæði við um þingmenn stjórnarmeirihlutans og jafnframt um hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar. Hv. þingmaður talar um að þessi frumvörp hafi verið lengi á leiðinni. Þessi ríkisstjórn hefur verið við völd í tæplega þrjú ár, en það má heldur ekki gleyma því að þingflokkur hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar var að mig minnir í sjö ár í ríkisstjórn og það bólaði ekki á þessum leigumarkaðsmálum þann tíma. Ég bið hv. þingmann því um að líta aðeins í eigin barm þegar hann setur fram gagnrýni um seinagang í þessum málum.



[11:50]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera athugasemdir við athyglissvið þingmanna sem sitja í þessum sal og fyrirspurnum er beint til, en ég spurði hv. þingmann spurningar og hún notaði ekki nema helminginn af tíma sínum til að svara. Mætti ég biðja hv. þingmann um að svara spurningunni sem ég spurði hana um sem var málefnaleg og einlæg. Hún var þessi: Telur hv. þingmaður að sú stefna sem frumvarpið hvílir á og lögin ef af verður, 400 íbúðir í fjögur ár, svari vandanum og sé líklegt til þess að leysa hann? Ég tel alls ekki svo vera, ég tel að það vanti miklu meiri peninga í þetta.

Hitt breytir engu, herra forseti, að Framsóknarflokkurinn hafði fjögur meginmál varðandi úrbætur í húsnæðismálum og hefur ekki uppfyllt neitt þeirra að hámarki, ekki eitt einasta. Hann lofaði 300 milljörðum í niðurfærslu á höfuðstól, hann komst í 72 milljarða. (Forseti hringir.) Svo gæti maður lengi talið. Hér er verið að draga Framsóknarflokkinn að landi af stjórnarandstöðunni og ASÍ. Hann hefur engu komið til leiðar fyrir eigin vélarafli, það er hin beiska staðreynd. (Forseti hringir.) En ég fagna því samt að málið er komið hingað og skal hvenær sem er taka þann flokk í minn náðarfaðm og reyna að hjálpa honum til réttrar leiðar.



[11:51]
Frsm. velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal með glöðu geði svara andsvari hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Hann spyr hvort 400 íbúðir séu nóg. Svar mitt er: 400 íbúðir á ári, 2.300 íbúðir eins og þetta umrædda frumvarp kveður á um, er veigamikið skref. Ég tel það mun meira og stærra skref en það að vera í ríkisstjórn í sjö ár og vera ekki með uppbyggingu á einni einustu íbúð. Þannig ég tel þetta sé mikil framför í uppbyggingu á leigumarkaði en við höfum séð í langan tíma.



[11:52]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni, talsmanni velferðarnefndar, fyrir framsöguna en vil gera athugasemdir við eitt sem hún lagði nokkra áherslu á í máli sínu, sérstaklega í lok ræðunnar, það er að annað frumvarp um húsnæðisbætur sem nú er til skoðunar í velferðarnefnd, sé á einhvern hátt óaðskiljanlegur hluti þessa frumvarps. Efnislega liggur málið ekki þannig fyrir. Mér er að vísu ljóst að ríkisstjórnin gaf aðilum vinnumarkaðarins fyrirheit um bæði átak í byggingu félagslegra leiguíbúða og um að auka stuðning við leigjendur. En ef staðreyndir málsins eru skoðaðar hefur stuðningur við leigjendur á næstu missirum ekkert með þetta nýja fyrirkomulag að gera vegna þess að það flytur ekki nokkur maður, eða a.m.k. algjörlega sárafáir, inn í íbúð næstu missirin sem byggð verður á grundvelli þessa nýja fyrirkomulags. Það er ljóst. Stuðningur við leigjendur frá og með deginum í dag, og þótt fyrr hefði verið, og næstu missirin, verður til leigjenda sem búa í því húsnæði sem fyrir er eða í öðru leiguhúsnæði, vegna þess að ekki verða byggðar nýjar íbúðir á einum degi á grundvelli þessa kerfis jafnvel þótt það verði að lögum fyrir sumarið. Það mun taka einhver missiri að hrinda slíkum áformum í framkvæmd og/eða hefja undirbúning að því að ný félög, nýstofnuð eða önnur, geti keypt notað húsnæði í þetta kerfi, sem iðulega væri þá húsnæði sem leigjendur byggju í hvort sem er.

Ef þetta er skoðað efnislega á að aðgreina það að stuðningur við leigjendur hefur sitt sjálfstæða gildi alveg óháð því hvort þetta frumvarp verður samþykkt eða ekki og öfugt. Að sjálfsögðu hefur það gildi að drífa þetta frumvarp í gegn til þess að menn geti hafist handa, en það er rangt að stilla málinu þannig upp að það hafi ekki gildi að afgreiða frumvarpið þó að niðurstaðan með húsaleigubæturnar kunni að verða einhver önnur og í raun og veru (Forseti hringir.) öfugt.



[11:54]
Frsm. velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir andsvarið, sem var kannski meira ábending um og við það sem ég sagði í framsögu minni. Samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar við aðila vinnumarkaðarins ASÍ og þá, liggja tvö frumvörp undir því samkomulagi, annað þeirra er það frumvarp sem við erum með til umræðu hér og hitt frumvarpið er frumvarp um húsnæðisbætur. Það er mjög mikilvægt að mínu mati að það frumvarp nái fram að ganga þar sem það felur í sér aukinn stuðning við aðila á leigumarkaði. Því finnst mér afar mikilvægt að nefndin haldi áfram þeirri góðu samvinnu sem verið hefur hingað til og reyni að leggja sitt af mörkum til að afgreiða frumvarp um húsnæðisbætur úr nefndinni því að þar eru ýmis ákvæði sem ekki eru til staðar í núverandi húsaleigulögum um breytingar varðandi stuðning við fjölskyldur.

Eins og ég segi vona ég bara að samstaða verði innan hv. velferðarnefndar um að klára það frumvarp eins vel og við höfum klárað þetta. Það er langt komið. Öllum gestakomum vegna málsins er lokið. Næsta skref er að taka umræðu um málið og reyna að byrja á nefndaráliti vegna þess.



[11:56]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér er alveg ljóst að menn vilja nota tenginguna við kjarasamninga til að þrýsta á um afgreiðslu þessara mála. Eins og ég tók fram þá skil ég hana, hún er til staðar. En efnislega breytir það engu um að málin eru svona vaxin eins og ég fór yfir. Það getur enginn mótmælt því. Það er þannig að það mun taka einhver missiri að byggja fyrstu íbúðirnar í hinu nýja fyrirkomulagi og áfram verða leigjendur í landinu búandi í leiguhúsnæði. Það er líka þannig með upptöku húsnæðisbótanna, kerfisbreytingu yfir í fyrirkomulag húsnæðisbóta, að það mun taka að lágmarki hálft ár eftir lögfestingu lagaákvæðanna að hrinda því kerfi í framkvæmd, ég tala nú ekki um hjá einhverjum nýjum framkvæmdaraðila.

Vilji menn gera eitthvað fyrir leigjendur er það sjálfstætt mál og ég hef margbent á það í umræðum um þetta í allan vetur að nærtækast væri að hækka húsaleigubætur í bili og útbúa þá hækkun þannig að hún rímaði svo vel við (Forseti hringir.) niðurstöðuna sem kann að verða þegar húsnæðisbæturnar koma til sögunnar.



[11:57]
Frsm. velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talar um að það muni auðvitað taka tíma að byggja húsnæði samkvæmt nýjum lögum um almennar félagsíbúðir. En mig langar að benda á og nýta það tækifæri hér í þessu stutta andsvari að greina frá því að lögin taka jafnframt til þess að hægt er að kaupa notað húsnæði og setja inn í þetta fyrirkomulag.

Mig langar bara að ítreka það enn og aftur að mikilvægt er að góð samstaða verði um frumvarp um húsnæðisbætur í hv. velferðarnefnd. Það væri afar ánægjulegt ef við gætum séð það nefndarálit vegna þess frumvarps sem lítur dagsins ljós núna á næstu örfáu dögum eða vikum.



[11:58]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við í Samfylkingunni stöndum heils hugar að afgreiðslu þessa máls og fögnum því að það sé loks að verða að veruleika. Í ræðu minni ætla ég í fyrsta lagi að fara yfir húsnæðisstefnu Samfylkingarinnar, í öðru lagi vinnulag nefndarinnar við vinnslu málsins, í þriðja lagi mikilvægustu breytingarnar, í fjórða lagi þau atriði sem skoða þarf nánar á milli umræðna og í fimmta lagi þau atriði sem ég er ekki fyllilega sátt við þó að ég láti það yfir mig ganga á þessu stigi málsins.

Samfylkingin er nátengd verkalýðshreyfingunni í sögunni og hafa húsnæðismál alltaf verið þar ofarlega á baugi. Við vitum að húsnæðismál eru ekki bara stórt efnahagsmál heldur stærsta velferðarmálið sem lýtur að húsnæðisöryggi landsmanna. Við teljum því að hið opinbera þurfi að vera með virka innkomu á húsnæðismarkaði til þess að ná þeim markmiðum að tryggja húsnæðisöryggi fyrir alla landsmenn.

Á árunum 2007–2009 var Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra og stóð að fjölgun leiguíbúða á niðurgreiddum vöxtum. Í ríkisstjórninni sem Jóhanna Sigurðardóttir leiddi svo á árunum eftir hrun voru þeir hv. þm. Árni Páll Árnason og hv. þm. Guðbjartur Hannesson félagsmálaráðherrar. Þeir voru með mikla húsnæðisvinnu í gangi. Niðurstöðurnar úr þeirri vinnu komu fram í tillöguformi árið 2011. Fara þurfti í frekari vinnu á grundvelli þeirra, en þar var lagður grunnurinn að þeirri stefnu sem sátt var um við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga, um eflingu almenns leigumarkaðar með uppbyggingu félaga án hagnaðarsjónarmiða og nýtt kerfi húsnæðisstuðnings í formi húsnæðisbóta þar sem sameina átti vaxtabætur og húsaleigubætur í eitt kerfi.

Þessi ríkisstjórn hefur, eins og fram hefur komið í umræðunni, verið við völd í þrjú ár. Nú loksins, fimm árum eftir að þessar tillögur litu dagsins ljós, eru þær að verða að veruleika m.a. í þessu frumvarpi. Þetta er stórt og mikið frumvarp og við höfum lagt í það mikla vinnu. Ég ætla aðeins að fara yfir vinnulagið svo fólk átti sig á umfangi þess.

Við fengum eins og alltaf í upphafi kynningu frá ráðuneytinu á málinu. Svo kölluðum við til okkar á fund þá umsagnaraðila sem sent höfðu inn umsagnir. Þeir voru allmargir. Þá óskuðum við eftir viðbrögðum ráðuneytisins við umsögnum og fengum þau og sendum í kjölfarið fjöldann allan af mjög ítarlegum spurningum til ráðuneytisins varðandi atriði sem við þurftum að skoða nánar. Þá var það þannig að Analytica uppfærði útreikninga sína því að það voru gallar í þeim.

Síðan vil ég taka fram að fulltrúar frá Félagsbústöðum, Félagsstofnun stúdenta og Íbúðalánasjóði lögðu okkur mikið lið með því að stilla upp hvaða forsendur þyrftu að vera í lagi til þess að breytt kerfi kæmi betur út fyrir þá sem leigja, eins og t.d. hjá Félagsstofnun stúdenta og Félagsbústöðum. Kann ég þeim kærar þakkir fyrir þá vinnu sem þau lögðu á sig fyrir okkur endurgjaldslaust og alla þá fundi sem þau voru tilbúin til þess að mæta á og stuðla að því að kerfið yrði sem best úr garði gert. Þegar við höfðum farið yfir það allt saman lögðum við til fjöldann allan af breytingartillögum. Þær eru nú hérna 34 talsins, langflestar til bóta þó að ég sé ekki sátt við tvær þeirra.

Þá vil ég þakka framsögumanni málsins fyrir mjög ötula vinnu. Hún hefur verið vakin og sofin yfir þessu máli sem og öll nefndin og hafa nefndarmenn lagt sig alla fram um að ná sátt og bæta málið þannig að við stuðluðum að því að byggja hér upp öflugan leigumarkað og tryggja húsnæðisöryggi allra. Ég vil líka þakka nefndarritaranum sem lagt hefur á sig gríðarlega og ákaflega vandaða vinnu, og ítreka að að sjálfsögðu bera nefndarmenn ábyrgð á öllu því sem aflaga kann að hafa farið í vinnunni. En þetta var gríðarlega mikil vinna, eins og gefur að skilja þegar verið er að gera svo miklar breytingar.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um þær breytingar sem ég tel vera mikilvægastar til að bæta málið. Það eru ekki tæknilegu úrvinnsluatriðin heldur atriði sem lúta að húsnæðispólitíkinni í málinu. Þar tel ég vera aukinn sveigjanleika um félagsform. Frumvarpið gerði ráð fyrir því að það væru eingöngu sérstakar sjálfseignarstofnanir sem fengið gætu stofnframlög, en við opnum á það að sveitarfélögin geti stofnað félög, einkahlutafélög eða önnur sem eru þeirra félög, til þess að auka sveigjanleikann fyrir þau. Þarna er undanþága þar sem ráðherra getur veitt sérstaka heimild ef t.d. húsnæðissamvinnufélög vilja stofna dótturfélög fyrir leigufélög. Við teljum að með því séum við að auka líkurnar á því að sterkir aðilar á fasteignamarkaði muni að taka þátt af meira afli í verkefninu og íbúðum fjölgi frekar. En að sjálfsögðu eru kröfurnar þær sömu og þetta er eingöngu til þeirra félaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða.

Markmiðið með frumvarpinu var að leiga yrði ekki hærri en sem næmi 20–25% af tekjum, en það kom hvergi fram í frumvarpinu og við setjum það inn í lagatextann að það sé markmiðið með því. Það styrkir stöðu þeirra sem eiga að búa í þessu húsnæði og greiða leigu að þau viðmið séu í lagatextanum. Þá geta breytingar í húsnæðisbótakerfinu líka tekið mið af því á hverjum tíma.

Svo breytum við ákvörðunum um leigu. Það verður meira svigrúm til að lækka leiguna ef félögin eru í færum til þess. Þá er hægt að jafna henni á milli svæða þannig að dýrari svæði verða ekki hlutfallslega jafn dýr í útleigu af því að hægt er að jafna leiguna á milli mismunandi eininga innan sjálfseignarstofnananna. Það er gert til þess að auka félagslega blöndun og reyna að tryggja betur að húsnæði sem þetta verði ekki bara byggt á ódýrustu svæðunum.

Þá bættum við viðbótarframlagi við vegna byggðasjónarmiða sem ég ætla ekki að ræða hérna sérstaklega, sem er gott ákvæði, en við leggjum líka til viðbótarstofnframlag upp á 4% frá ríkinu vegna húsnæðis á vegum sveitarfélaga, húsnæðis fyrir námsmenn og húsnæðis fyrir öryrkja. Það eru viðbrögð við umsögnum og vinnu þeirra aðila sem ég taldi upp áðan, frá Félagsbústöðum, Félagsstofnun stúdenta og Íbúðalánasjóði, og útreikningum frá þeim. Við teljum mikilvægt að hafa þetta inni til að tryggja að markmiðið um 20–25% af tekjum í leigugreiðslur nái fram að ganga.

Þá gerðum við breytingar á Húsnæðismálasjóði þannig að stofnframlög frá ríkinu verða ekki greidd beint í ríkissjóð heldur í Húsnæðismálasjóð. Það er til þess að efla sjóðinn fyrr þó að þetta sé nú langtímasjónarmið, en það mun líka valda því að ekki munu líða 40–50 ár þangað til greiðslur fara að koma inn í sjóðinn. Samkvæmt frumvarpinu hefði það tekið enn lengri tíma, en ef einhverjir fá stofnframlög og breyta síðan tilgangi þeirra félaga sem þau eru byggð í verða þeir að endurgreiða stofnframlögin. Þá renna þau inn í Húsnæðismálasjóð. Markmiðið er Húsnæðismálasjóður verði sjálfbær og að ríkið veiti stofnframlög sín úr honum. En það er nú áratugi fram í tímann og kannski geta barnabörnin mín eða barnabarnabörnin mín hugsað hlýlega til okkar fyrir að hafa búið til gott kerfi. En ég vona að þetta kerfi verði þá orðið öflugt og til fyrirmyndar í samfélagi þar sem við viljum að allir búi í góðu húsnæði og njóti húsnæðisöryggis.

Varðandi Húsnæðismálasjóð þá komum við að dálitlum vanda í frumvarpinu því að danska kerfið „almene boliger“ er fyrirmynd að þessu kerfi. Þar fá félögin stofnframlög en greiða þau ekki til baka, en þau greiða þau síðar óbeint til baka inn í Húsnæðismálasjóð. Vegna skuldaþaks sveitarfélaganna vildu sveitarfélögin að þau gætu veitt þessi stofnframlög sem lán, sem bera þá ekki vexti í 40–50 ár en fara svo að bera vexti þegar greiða á af þeim eftir að uppgreiðslu annarra lána sem hvíla á fasteignunum hefur verið lokið. Með því móti geta sveitarfélögin eignfært þetta stofnframlag. Það hefur þá ekki áhrif á skuldaþak þeirra. Ríkið telur eðlilegt að tryggja sína hagsmuni líka, þannig að nú er heimild til að krefjast þess að allt verði greitt til baka. Það verður þá að koma fram þegar stofnframlagið er veitt hvort endurgreiðslu muni verða krafist. Verði það gert munu félögin greiða til baka stofnframlagið þegar þar að kemur, en að því loknu munu þau halda áfram að greiða í Húsnæðismálasjóð. Það er m.a. gert til þess að þessi félög fari ekki að safna upp of miklu eigið fé, heldur sé ýtt undir áframhaldandi uppbyggingu í kerfinu. Við bjuggum þarna til ákveðið millistig og tíminn verður að leiða í ljós hvort því fyrirkomulagi þurfi kannski að breyta.

Sveitarfélögin vildu tryggja hagsmuni sína með því að stofnframlögin væru ekki lán á 2. veðrétti heldur lögveð. Alþýðusamband Íslands og fleiri bentu á að ef um lögveð væri að ræða mundu aðrir fjármögnunaraðilar húsnæðisins líta svo á að áhættan af lánveitingu yrði meiri fyrir þá. Það mundi gera vaxtakjörin ófýsilegri og vinna gegn markmiðum frumvarpsins. Við gerðum því ekki breytingar í átt til lögveðs. Í upphafi komu áhyggjur af því að með því að eignfæra framlögin hjá sveitarfélögunum þyrfti að skuldfæra þau hjá félögunum og þar af leiðandi yrði eigið fé nánast ekkert í félögunum þegar þau hæfu starfsemi sína. Það eitt og sér mundi hafa neikvæð áhrif á fjármögnunarkjör. Þetta þarf nefndin að skoða á milli umræðna, en Alþýðusamband Íslands hefur bent á að hægt sé að hafa framlögin með víkjandi láni þannig að sveitarfélögin geti eignfært þau, en sjálfseignarstofnanirnar sem eiga að byggja íbúðirnar geti fært þessi framlög inn í sinn eigin fjárgrunn. Það er verkefni sem bíður okkar á milli umræðna og við ræðum það betur við 3. umr. þegar í ljós kemur hvaða niðurstöðu við náum.

Mig langar að lokum að fara yfir þau þrjú atriði sem ég mundi vilja sjá með öðrum hætti. Ég ákvað þó að vera ekki með fyrirvara á nefndarálitinu því að ég tel að nefndin hafi unnið gríðarlega vel saman, við þurftum að miðla málum til þess að sameiginlegri niðurstöðu og ég ætla að virða þá málamiðlun. Ég ætla hér að lýsa því sem ég hefði viljað sjá framkvæmt með öðrum hætti.

Í fyrsta lagi er það nafnið, Almennar íbúðir. Á Íslandi búum við við þá blekkingu að við teljum að það sé til eitthvað sem heitir almennur leigumarkaður. Svo er varla. Það er enginn frjáls markaður fyrir leigu nema í mjög bágborinni mynd. Við erum með stóru félögin sem eru drifin án hagnaðarsjónarmiða. Þar eru húsnæðissamvinnufélögin, húsnæði á vegum sveitarfélaga, Félagsstofnun stúdenta, Byggingafélag námsmanna, Brynja, hússjóður Öryrkjabandalagsins. Þetta eru stór félög sem mynda í raun hinn raunverulega almenna leigumarkað því að þau eru traust, þau eru ekki rekin með hagnaðarsjónarmiði heldur eru þau rekin með langtímamarkmið í huga. Síðan eru örfá félög á hinum frjálsa markaði. Við vitum ekkert hvað þau ætla að vera. Gamma og Heimavellir eru þar stærst, félög sem ekki hafa starfað lengi og eru fjárfestingarfélög fyrst og fremst. Við vitum ekki hvenær þeim hentar að selja eignir sínar. Síðan erum við auðvitað með fjöldamarga einstaklinga sem leigja út íbúðir í sinni eigu og er það vel, og oft á mjög hagstæðum kjörum, en það er í undantekningartilfellum að fólk búi við húsnæðisöryggi í slíku húsnæði því að maður veit aldrei hvenær eigandanum hentar að segja upp leigusamningnum til þess að nota húsnæðið í öðrum tilgangi eða selja það. Mér finnst að það hefði verið miklu eðlilegra að kalla þetta bara almennar íbúðir. Mér er farið með tímanum farið að þykja vænna og vænna um það nafn, en þarna var skotið inn forskeytinu „félags-“ við íbúðir. Ég er félagshyggjukona, ég er sósíalisti, ég er mjög hrifin af öllu félagslegu. En Íslendingar nota yfirleitt félag eða félagslegt ef það tengist húsnæði til þess að merkja það ákveðnum hóp. En húsnæði er ekki félagslegt í eðli sínu. Aðstæður fólks eru mismunandi á mismunandi tímum. Það þarf mismunandi stuðning í samræmi við það. Þar af leiðandi hefði ég viljað sjá nafnið óbreytt og er sammála hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra og Alþýðusambandi Íslands um að þetta er fyrirmyndarnafn.

Þá er það annað atriði sem var rætt í nefndinni. Samkvæmt frumvarpinu voru tekju- og eignamörk, maður þarf að vera undir ákveðnum tekju- og eignamörkum til þess að komast inn í kerfið. Það er miðað við tvo lægstu tekjufimmtungana. Síðan þegar maður er kominn inn í kerfið má maður bara búa þar óháð því hverjar tekjur manns og eignir verða. Mér finnst það jákvætt því að það ýtir undir félagslega blöndun, en síðan er líklegt að eftir því sem efnahagur vænkast, fólk eldist, þ.e. kannski kemur þarna inn ungt fólk á tiltölulega lágum tekjum og svo eldist það og börnum fjölgar, hagur vænkast, og þá fer fólk í annars konar húsnæði, þannig að ég held að þetta sé ekki vandamál. En það var vilji til þess innan nefndarinnar að breyta því og við fundum leið til þess að breyta þessu örlítið þannig að maður má sannarlega búa áfram í húsnæðinu, en ef maður er með tekjur yfir tekjuviðmiðunum í þrjú almanaksár má reikna ákveðið álag á leiguna. Við tökum fram að það á að vera hófstillt þannig að það verði ekki miklir og snöggir jaðarskattar af þeirri breytingu. Mér finnst útfærslan á breytingunni góð þó að ég hefði viljað sjá þetta án breytinga.

Að lokum á svo að setja 1.500 millj. kr. inn í þetta kerfi í fjögur ár. Sagt er í frumvarpinu að þetta séu 480 íbúðir á ári miðað við 1.500 milljarða. Það verða færri íbúðir vegna breyttra forsenda við útreikninga, hvort það nær 400 íbúðum eða 420 skal ég ósagt látið. Fyrir liggur að þetta verða aldrei meira en 1.600 íbúðir og 1.500 millj. kr. á ári í fjögur ár duga ekki fyrir 2.400 íbúðum, þó að í texta í frumvarpinu sé látið að því liggja að þetta eigi að verða 2.400 íbúðir. Þetta er alls ekki nóg af íbúðum. En þegar kerfið er komið á laggirnar hef ég alla trú á því að þetta verði gott kerfi sem muni lifa hér til framtíðar. Þá er alltaf hægt að bæta fjármunum í það. Fyrir því munum við í Samfylkingunni beita okkur.



[12:18]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil eins og félagar mínir í velferðarnefnd lýsa ánægju með vinnu nefndarinnar að þessu mikilvæga frumvarpi. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum að sjálfsögðu í samræmi við okkar stað í hinu pólitíska litrófi mjög hlynnt því að byggt sé upp kerfi félagslegra lausna í húsnæðismálum og höfum lagt það til og barist fyrir því ásamt með því að tekið sé á vanda ungs fólks sem þarf að komast yfir sitt fyrsta íbúðarhúsnæði. Það er grundvöllur okkar stefnu þannig að af sjálfu leiðir að við tókum vel á móti þessu frumvarpi og vorum tilbúin til að vinna að því þegar það loksins birtist eftir næstum heil þrjú ár í setu þessarar ríkisstjórnar og mikil fyrirheit.

Eins og málsskjölin bera með sér lagði velferðarnefnd gríðarlega vinnu í þetta mál og stjórnarandstaðan lét þar ekki sitt eftir liggja. Það má sjá í nefndarálitinu, mjög ítarlegu nefndaráliti, og í breytingartillöguskjali sem liggur nú við að sæti tíðindum því að þar er breytt nánast hverri einustu grein frumvarpsins og allmargar þeirra endursamdar. Breytingartillöguskjalið er upp á tíundu blaðsíðu og það endurspeglar þá miklu og nákvæmu vinnu sem nefndin fór í gegnum í þessu máli og reyndist þörf á, því að ég held að blasað hafi við, eins og ég fullyrti reyndar í 1. umr., að óbreytt hefði frumvarpið algerlega misst marks og ekki náð tilgangi sínum. Það var þegar ljóst af þeirri staðreynd að stóru starfandi byggingaraðilarnir sem eru með félagslegt húsnæði innan sinna vébanda í dag sáu sér tæpast fært að taka þátt í kerfinu nema á því yrðu gerðar grundvallarbreytingar miðað við frumvarpið. Það hefur velferðarnefnd gert.

Markmið frumvarpsins eru að sjálfsögðu góð og veitir ekki af, eins og ástandið á fasteignamarkaði og í húsnæðismálum landsmanna er, að auka framboðið á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum fyrir tekjulægri hluta samfélagsins. Ástandið í húsnæðismálum landsmanna kallar á sérstaka umræðu og ég ætla ekki að eyða tímanum í það hér, þótt mér finnist á köflum að Alþingi hafi eytt meiri tíma í aðra minna mikilvæga hluti en þennan gríðarlega stóra málaflokk og hversu afdrifaríkur hann er fyrir þróun samfélagsins. Það að þessi mál séu í ólestri, viðvarandi ólestri, árum saman heftir auðvitað eðlilegan framgang og þróun íslensks samfélags. Það á sinn þátt í því að ungu fólki finnst ekki nógu spennandi að veðja á framtíðina í þessu landi. Þannig mætti lengi telja.

Þetta vandamál er uppi bæði á höfuðborgarsvæðinu auðvitað í stórum stíl og í helsta þéttbýlinu á suðvesturhorninu, en líka á landsbyggðinni en í annarri mynd eða í öðru samhengi. Það er húsnæðisvandi vítt og breitt um Ísland, en hann er af ólíkum ástæðum. Á höfuðborgarsvæðinu er vandinn fyrst og fremst skortur á húsnæði, uppspenntur markaður og allt of hátt verð. Á landsbyggðinni eru aðstæðurnar hins vegar þannig að fasteignaverð er svo lágt og langt á eftir stofnkostnaðarverði húsnæðis að menn veigra sér við að byggja nýtt húsnæði og taka áhættuna af þeim mikla mun sem er á milli stofnkostnaðarins, byggingarkostnaðarins, og endursölu á markaði. Það leiðir til þess að í fjölmörgum byggðum landsins þar sem sárvantar húsnæði og eru uppbyggingar- og þróunarmöguleikar gerist ekki neitt vegna þess að ekkert húsnæði er í boði. Hér í þéttbýlinu veldur þetta því að aðstæður ungs fólks og tekjulægra fólks eru gjörsamlega óboðlegar hvað varðar húsnæðisöflun og húsnæðiskostnað.

Allt sem má verða til þess að lina eitthvað þennan vanda, eins og ég bind vonir við að þetta mál geri, reynir maður að sjálfsögðu að hjálpa til við. Hafandi sagt það, herra forseti, þá held ég að einhverjir sem eru að hnýta í Alþingi þessa dagana og vikurnar og tala um óboðleg vinnubrögð mættu aðeins setjast yfir það hvernig þingið hefur tekið á þessu risavaxna máli. Hverju er verið að skila hér í þverpólitískri samstöðu í mjög viðkvæmu máli (Gripið fram í: Heyr, heyr.) þar sem meira að segja stjórnarflokkarnir sjálfir voru verulega ósamstiga eins og við vitum? Við höfum náð að leiða fram með mikilli vinnu, gríðarlegri vinnu, í velferðarnefnd breiða pólitíska samstöðu á bak við þetta mál. Þetta mega menn nú hafa í huga þegar þeir eru að hnýta í okkur hér. (Gripið fram í: Nákvæmlega.)

Þá að þeim breytingum sem eru veigamestar í þessu frumvarpi. Í fyrsta lagi tel ég mjög mikilvægt að við nálguðumst málið út frá þeim sjónarhóli að gera stórum og sterkum starfandi félögum á félagslegum húsnæðismarkaði kleift að koma sér fyrir í hinu nýja kerfi. Við gerðum nauðsynlegar breytingar til þess. Vegna þess að hver átti að byggja í þessu kerfi ef Félagsbústaðir í Reykjavík, Félagsstofnun stúdenta, Brynja – hússjóður Öryrkjabandalagsins og aðrir slíkir hefðu ekki séð sér það fært? Það hafði vissulega sterk áhrif á vinnuna, a.m.k. á þann sem hér talar, að þannig yrði að búa um þetta að við gætum nýtt okkur í framhaldinu styrk þeirra aðila sem við þó eigum og eru sæmilega sterkir. Meðal annars af þeim sökum vikum við til hliðar hugsuninni um að gera upp hvern byggingaráfanga sjálfstætt og láta leiguna þar standa alveg undir hverjum og einum áfanga innan hvers árs eins og hugsun frumvarpsins var. Það hefði steindrepið þetta því að þessir kostir voru ekki boðlegir fyrir stór og breið félög með stórt íbúðasafn og langa sögu að baki, að hluta til afskrifað húsnæði, og svo þau sjónarmið að standa vörð um félagslega blöndun og að jafna leigu eftir atvikum þannig að hún sé sæmilega sanngjörn í samræmi við það húsnæði sem í boði er.

Við breyttum ákvæðum um svokallaðan framkvæmdasjóð húsnæðissjálfseignarstofnana, sem hér eftir verða væntanlega kallaðar svo, í viðhaldssjóð. Við erum sammála því að rétt sé að mæla fyrir um það að félögin eigi að leggja reglubundið til hliðar fyrir viðhaldi og endurbótum. En við teljum ekki hyggilegt að þau eigi að láta nánast allt sitt eigið fé liggja lokað inni í slíkum sjóð. Þau þurfa sjálf að eflast líka. Þess vegna held ég að þetta sé góð breyting sem geri kerfið sjálfbærara en ella.

Það tengist við þá grundvallarbreytingu sem við fengum ríkisstjórn til að fallast á, að stofnframlög ríkisins viðhaldast innan kerfisins um aldur og ævi. Þegar þau koma til endurgreiðslu að upphaflegu fjármögnunarlánunum uppgreiddum ganga þau í Húsnæðismálasjóð. Þar byggist því upp mikill félagsauður og styrkur fyrir kerfið. Hann byggist fyrr upp en ella svo munar 15–20 árum. Í staðinn fyrir að ríkið fái í fyllingu tímans stofnframlögin endurgreidd beint til sín og eftir atvikum haldi áfram að gefa út ný vilyrði fyrir stofnframlögum þá færist þetta inn í að kerfið sjálft byggist upp og verði sjálfbært.

Við gerðum breytingar sem tengjast auðvitað mjög þeim markmiðum frumvarpsins að leiguverð eða húsnæðiskostnaður verði að jafnaði ekki umfram fimmtung til fjórðung af tekjum þeirra sem í hlut eiga. Það er eitt af markmiðum þessarar aðgerðar. Við viljum færa það inn í lögin sjálf þannig að það liggi skýrt fyrir. En við horfumst í augu við það að mjög tæpt er að þessi markmið náist. Að frumvarpinu óbreyttu hefði þau ekki gert það. Á grundvelli þess reikniverks sem fylgdi frumvarpinu frá ráðuneytinu og unnið var af félaginu Analytica þá voru þau markmið ekki í sjónmáli. Það er alveg ljóst að leigan hefði orðið 30–40%, ef ekki meira, af ráðstöfun þeirra tekjulægri innan hópsins ef lánin hefðu aðeins verið til 30 ára, tala nú ekki um það, og ef ekki hefði mátt með einhverjum hætti búa betur að hinum tekjulægri innan hópsins.

Við höfum þar af leiðandi gengið frá þessu og leggjum til að ramminn utan um lánstímann, þau 70% sem tekin verða til þess að fjármagna það sem upp á vantar eftir að stofnframlög hafa komið, verði til 50 ára. Með því tel ég að við séum meira og minna að ákveða að stofnfjármögnunin verði ekki greidd til baka nema á 50 árum því að menn muni, jafnvel þótt þeir taki styttri lán, augljóslega sjá sér hag í því í mörgum tilvikum að framlengja þau og nota 50 árin til að greiða þau upp. Það hefur gríðarleg áhrif á leiguna til lækkunar.

Í öðru lagi gerum við þá breytingu að við setjum í raun aftur inn tillögu sem var í vinnunni en féll fyrir borð, að heimilt sé að bæta við 4% stofnframlagi frá ríkinu þegar verið er að byggja fyrir hina tekjulágu innan sveitarfélaganna, námsmenn og öryrkja. Og, sem er mjög mikilvægt, þessi viðbót er óafturkræf. Hún er beint framlag sem þar af leiðandi kemur mönnum til góða og er mjög verðmæt vegna þess að þeir fjármunir koma strax við byggingu eða kaup íbúðarinnar og ekki þarf að taka lán fyrir þeim, enga vexti að borga af þeim og þau verða aldrei aftur krafin.

Svipað á við um þær ráðstafanir sem við gerum í frumvarpinu til að opna möguleika fyrir að þetta nýtist mönnum á landsbyggðinni, á þeim svæðum þar sem mestir eru erfiðleikarnir. Þeir eru þar sem vantar húsnæði og það er ótrúlega víða, satt best að segja. Jafnvel í byggðarlögum sem hafa verið þekkt í fjölmiðlum fyrir að eiga við vanda að stríða þá vantar samt húsnæði af ástæðum sem eru fjölmargar, m.a. þær að það hefur nánast ekkert verið byggt í 30 ár á mörgum svæðum á landinu. Það er ásókn í að eiga þar sumarhús og eitthvað af húsnæðinu teppist þannig. Það er samkeppni við vaxandi ferðamennsku sem leggur undir sig eitthvað af þessu húsnæði. En aðalástæðan er auðvitað sú að það er svo mikil áhætta að byggja með fullum kostnaði íbúð og taka lán fyrir henni eða ganga í ábyrgðir fyrir henni ef um væri að ræða byggingaraðila eða sveitarfélag, vitandi það að markaðsverð er kannski helmingurinn af stofnverðinu, að menn leggja ekki í það og fjármögnun er að sjálfsögðu erfið og dýr við þær aðstæður. Þess vegna leggjum við til að ríkinu sé heimilt að bæta allt að 6% við sitt stofnframlag og sveitarfélögunum 4% við sitt á svæðum þar sem svona háttar til, það vantar leiguhúsnæði, lítið er byggt, erfiðleikar við fjármögnun og aðstæður á fasteignamarkaði svona snúnar.

Sömuleiðis er það sett inn að Íbúðalánasjóður hefur heimild til að líta sérstaklega til byggðasjónarmiða þegar hann velur úr umsóknum og forgangsraðar því hverjir skuli fá ef fleiri sækja um en fjármunir eru til. Þá erum við með í huga t.d. byggðarlög þar sem augljóslega er í farvatninu atvinnuuppbygging og mun skorta verulega húsnæði á næstu árum en enginn treystir sér til að byggja það nema hann fái til þess einhvern svona stuðning, þannig að það hefti ekki möguleika byggðarlaga. Tökum sem dæmi aðstæður eins og á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem núna er ánægjulega mikil uppbygging í kringum fiskeldi og vantar húsnæði. Þá er það þjóðhagslega, félagslega og byggðarlega skynsamlegt að líta til þess.

Má ég þá minna á að þessar breytingar skipta miklu máli í sambandi við að reyna að halda inni markmiðunum um að leigutekjurnar fari ekki yfir fimmtung til fjórðung af tekjum. Fleira er í reynd gert af okkar hálfu til að reyna að tryggja það, svo sem eins og að fallast ekki á óskir sveitarfélaganna um að stofnframlögin verði lögð við eða á veðrétti framan við grunnlán íbúðanna. Það mundi þyngja fyrir fjármögnuninni og þess vegna verða sveitarfélögin og ríkið að leggja sitt af mörkum í þeim efnum og bíða þolinmóð með stofnframlögin á öðrum veðrétti og vaxtalaust þangað til upphaflegu lánin hafa verið greidd upp. Það er í reynd hinn eiginlegi stuðningur vegna þess að úr því að niðurstaðan varð sú að stofnframlögin væru ekki framlög heldur í eðli sínu víkjandi lán, víkjandi vaxtalaust lán eða lán á 2. veðrétti án vaxta, er stuðningurinn í reynd fyrst og fremst fólginn í því að þau eru reidd fram sem fjármunir eða ígildi þeirra af hálfu sveitarfélagsins í formi lóða eða gjaldaafslátta. Þau lækka þar af leiðandi það sem þarf að fjármagna og taka að láni niður í 70% eða jafnvel meira og þau bíða þolinmóð án vaxta á meðan hin lánin eru greidd upp. Það þarf ekki nema að hámarki 70% veðsetningu miðað við verðmæti viðkomandi eignar sem verið er að byggja eða kaupa. Þetta ætti að létta félögunum mjög róðurinn við fjármögnun og tryggja betri kjör en ella.

Hafandi þó sagt það er alveg ljóst að ný félög án verulegs beins eiginfjárframlags frá eiganda munu þurfa að hafa verulega fyrir því að fá fjármögnun og komast af stað. Staða þegar starfandi gróinna félaga er að sjálfsögðu miklu sterkari í þessum efnum. Eins og við erum að gera breytingar í þeirra þágu á frumvarpinu þá er ég orðinn bjartsýnn á að þeim muni standa til boða tiltölulega hagstæð fjármögnun á sínum hlut í byggingu í þessu nýja kerfi og er það vel.

Þá vil ég nefna 18. gr. frumvarpsins sem ég var mjög ósáttur við eins og hún kom fram og gerði strax við 1. umr. alvarlegar athugasemdir við. Þar var lögð rík áhersla á ýtrustu hagkvæmni en síðan talað um að íbúðirnar þyrftu að vera svona ásættanlegar fyrir þá sem í þeim ættu að búa. Það var lítill metnaður í því orðalagi. Ég gat ekki sætt mig við það og lýsti því strax yfir í velferðarnefnd að ég mundi aldrei samþykkja þetta svona. Það skal ekki verða á Íslandi árið 2016 að við förum að veita verulegan afslátt af gæðum þess húsnæðis sem hið opinbera ætlar að aðstoða tekjulágt fólk í landinu við að komast inn í. Það skal ekki verða. Þess vegna hentum við út öllu sem gat vísað í áttina að einhverjum slíkum afsláttarhugsunarhætti og settum inn að íbúðirnar skyldu uppfylla þarfir tímans og horfa líka til framtíðarnýtingar. Erum við þá sérstaklega með breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar í huga, þ.e. að íbúðirnar aðrar en þær sem byggðar eru fyrir námsmenn á afmörkuðu æviskeiði skuli taka mið af því að þjóðin er að eldast og að við viljum að menn geti elst í sínu húsnæði og búið heima hjá sér og fengið aðstoð þangað ef þeir þurfa á henni að halda. Þannig skal það verða. Þar eru á ferðinni mjög góðar breytingar og afar skýr stefnumörkun af hálfu Alþingis.

Síðan er það auðvitað fjölmargt fleira, virðulegur forseti, sem mætti tína til. Sú grundvallarbreyting að stofnframlög ríkisins gangi inn í Húsnæðismálasjóð og byggi hann upp er mjög mikilvægt. Í staðinn varð það okkar niðurstaða að henda út einhverju umsýslugjaldi sem yrði rukkað inn upp á 100 kr. á fermetra í íbúð og lækka þann hluta af leigutekjum félaganna eftir að þau hafa greitt upp lán og stofnfé eða stofnframlög sem áður áttu að ganga að uppistöðu til inn í Húsnæðismálasjóð eða tveir þriðju hlutar niður í 40%. Það þýðir að félögin eflast líka sjálf þegar þau eru komin inn á það æviskeið að þau hafa borgað niður fyrstu fjárfestingar sínar og eru farin að njóta góðs af því að vera með afskrifað húsnæði eða skuldlítið húsnæði sem færir þeim tekjur af að leigja út.

Það er mikilvægt að báðir aðilar verði sjálfbærir í kerfinu, félögin og Húsnæðismálasjóður. Þannig þarf það að vera. Það er ekki skynsamlegt að haga því þannig að t.d. Húsnæðismálasjóðurinn einn byggist upp en rekstraraðilar íbúðanna, eigendurnir, séu á brauðfótum. Þess vegna held ég að þarna séum við að leggja til breytingu sem sé mjög til bóta.

Vonandi verður það svo að nú verða byggðar í framhaldinu á næstu árum nokkur þúsund íbúðir og það lagar ástandið eitthvað örlítið, óviðunandi ástand, á fasteignamarkaði eða í húsnæðimálum vítt og breitt í landinu. Það er þó því miður þannig að t.d. eins og fasteignaverð er orðið á höfuðborgarsvæðinu er erfitt um vik. Við rákum okkur náttúrlega rækilega á það þegar í ljós kom að fermetraverð sem menn lögðu til grundvallar útreikningunum var fullkomlega óraunhæft, um 274 þús. kr. á fermetra í 50 fermetra íbúð á höfuðborgarsvæðinu þegar rauntölurnar eru nær 400 þús. kr. Það munar nú um minna en hvort íbúðin kostar 14 millj. kr. eða 20 millj. kr., ekki satt? Þess vegna eru markmiðin um að fimmtungur til fjórðungur af tekjum dugi mjög tæp þrátt fyrir þær breytingar sem við erum að gera. En við verðum að vona hið besta.

Nú er það þannig að enginn maður mun flytja inn í nýbyggða íbúð á grundvelli almennra félagsíbúða fyrr en árin 2018, 2019 í besta lagi. Þetta kemur því ekki í þeim skilningi til með að hafa mikil áhrif inn á markaðinn fyrr en eftir tvö, þrjú ár. Það verður ríkisstjórnin líka að bíta í sitt súra epli með. Það þýðir ekkert að horfa fram hjá staðreyndunum í því. Því miður hefur frekar dregið úr íbúðarbyggingum en hitt vegna þess að 37. gr. laga um húsnæðismál hefur ekki verið virkjuð með því að leggja fjármuni til hliðar til að veita vaxtaniðurgreidd lán.

Engu að síður vona ég að hér sé lagður grunnur að kerfi sem í fyllingu tímans muni gagnast Íslandi vel og sérstaklega tekjulágu fólki sem býr við þröngan kost í þeim efnum. Það er mikið á sig leggjandi fyrir það.

Þess vegna er ég stoltur af þeim breytingum sem við erum hér að leggja til, ánægður með vinnuna í velferðarnefnd, og vona að maður (Forseti hringir.) eigi eftir að minnast þess með hlýhug síðar meir að hafa átt þátt í því að koma þessu af stað.



[12:39]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér við 2. umr. nefndarálit um frumvarp til laga um almennar íbúðir. Eins og aðrir nefndarmenn í velferðarnefnd vil ég leggja á það áherslu að þrátt fyrir að ekki væru allir á eitt sáttir þegar umrætt frumvarp kom fram hefur nefndarmönnum tekist með bæði mikilli vinnu, mikilli samvinnu og málamiðlun, að klára þetta verkefni og koma því inn til Alþingis í 2. umr. í því formi sem það er. Ég vil líka leyfa mér, virðulegur forseti, að nefna ritara nefndarinnar, Gunnlaug Helgason, sem hefur verið vakinn og sofinn yfir þeim breytingum sem hér eru, komið með miklar og góðar athugasemdir og með sína lögfræðimenntun leitt okkur oft á réttari braut en við vorum kannski á í upphafi. Það er nefnilega þannig að án þeirra sem starfa með okkur í þinginu þá ávinnst harla lítið. Þannig að mér þykir ástæða til að taka þetta fram.

Það er í raun merkilegt að það skuli hafa tekist þverpólitísk sátt um jafn stórt og viðamikið mál og þetta. Ég vil taka undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, það væri ágætt ef þeir sem eru úti á akrinum og halda að hér sé ekkert vel gert, íhuguðu stundum þau stóru orð sem látin eru falla um þessa stofnun. Þessi vinna velferðarnefndar og fulltrúa allra hinna ólíku flokka sem þar eiga sæti sýnir svart á hvítu að ef viljinn er fyrir hendi þá er hægt að vinna vel.

Virðulegur forseti. Frumvarpinu er ætlað að leggja grunn að nýju leiguíbúðakerfi og á að taka til þeirra sem tekjulægri eru. Leigan á að líka að vera í samræmi við þau tekju- og eignaviðmið sem þeir sem inn í slíkt kerfi fara uppfylla. Það er afar mikilvægt, eins og hér var rætt, að það húsnæði sem byggt verður með þeim hætti sem hér er lagt til uppfylli almennar kröfur um hönnun, að hér sé ekki verið að ráðast í byggingu lélegri íbúða en hjá öðrum sem byggja sínar íbúðir. Ég vil leggja áherslu á það og er ánægð með þær breytingar sem urðu á 18. gr. frumvarpsins.

Vert er líka að minnast á það strax í upphafi að ég tel að sú breyting sem nefndin gerði á frumvarpinu þess eðlis að aðrir en sjálfseignarstofnanir geti komið inn sem aðilar að byggingu íbúða af þessu tagi sé af hinu góða. Þekking og hagur þeirra félaga sem hafa starfað í þessum geira og í svokölluðum „non profit“ farvegi er tryggður með því að veita þeim heimild í frumvarpinu til þess að koma hér inn. Þar getum við nefnt Félagsbústaði, við getum nefnt stúdentaíbúðirnar, við getum nefnt Brynju. Í frumvarpinu er líka rætt um að húsnæðissamvinnufélög, sem við afgreiddum ágætt frumvarp um fyrr á þessu þingi, geti komið inn á sama hátt og fengið stofnframlag og unnið með sveitarfélögum. Ég tel ástæðu til að nefna þetta vegna þess að þetta mun skipta máli.

Ég vara líka við of mikilli bjartsýni, virðulegur forseti, vegna þess að það er ekkert að fara að gerast í dag eða á morgun. En hér er komin heimild fyrir sveitarfélög og ríki til þess að veita 30% stofnframlag til félaga sem vilja fara inn á þennan vettvang og byggja húsnæði sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru og uppfyllir þau viðmið sem við höfum sett fyrir þá sem þar eiga að búa.

Það verður samt að viðurkennast, virðulegur forseti, að þetta nýyrði sem til varð, heildarskilgreiningin, að hér yrði til eitthvað sem héti húsnæðissjálfseignarstofnun, er nú pínulítill tungubrjótur, en skammstöfunin hses, sem maður segir „háses“, er strax miklu þjálli í munni og festist vonandi frekar við þetta form. Þannig að í stað þess að segja þetta nýyrði, húsnæðissjálfseignarstofnun, segjum við einfaldlega háses og ætti það að vera þjálla og þægilegra.

Í frumvarpinu er farið inn á stjórnir, inn á fulltrúaráð, framkvæmdasjóð og annað í þeim dúr, það er af hinu góða. Inn í þetta var sett ákvæði um kynjahlutfall í félagsstjórn. Það er dálítið merkilegt, virðulegur forseti, að við skulum enn þá þurfa að hafa það á oddinum þegar við skoðum frumvörp að kynjahlutfallið eigi að vera 40/60 og helst 50/50, þegar það er alveg skýrt í lögum hvernig stjórnir eigi að vera skipaðar, og að við þurfum samt að setja það inn sérstaklega vegna þess að það er ekki tiltekið. Það er algjörlega ljóst, virðulegur forseti, að á meðan það er ekki tiltekið þá er ekki tekið tillit til kynja.

Það er líka vert að nefna að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í fulltrúaráðinu sitji fulltrúar þeirra sem búa í húsnæðinu. Ég held að það sé vel. Síðan eru hér ýmiss konar tilmæli um það hvernig stjórn og fulltrúaráð eiga að starfa og hverjir megi verða framkvæmdastjórar o.s.frv., og ég held að það sé allt af hinu góða.

Virðulegur forseti. Varðandi þá breytingu sem gerð er hér um áfangaskiptinguna í 19. gr. eins og hún var í frumvarpinu um ákvörðun leigufjárhæðar, þá skiptir afar miklu máli að hses geti horft á sínar eignir hvar svo sem þær eru staðsettar, segjum á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem er á Grandanum eða í Miðbænum eða Austurbænum eða hvar sem er, og leigufjárhæðin sé sú sama og hægt sé að færa þetta til, þannig að þegar byggt er nýtt hús á einhverjum sérstökum stað þá verði leigufjárhæðin hærri. Ég tel þetta afar mikilvægt, virðulegur forseti, ef meginmarkmiðin sem sett eru fram í markmiðssetningu frumvarpsins eiga að nást fram. Kerfið er fyrir þá sem eru tekjulægri og þá þarf að vera jöfn leigugreiðsla og ekki ójafnvægi á milli leigufjárhæða eftir því hvar íbúðin er staðsett. Ég tek dæmi af höfuðborgarsvæðinu þar sem þekkt er að leiguverð á einum stað er hærra en á öðrum. Við hugsum þetta frumvarp ekki þannig að íbúðir af þessum toga fyrir tekjulægri verði á einhverjum sérstökum stöðum. Það á að dreifa þeim vítt og breitt um bæjarfélögin hvar svo sem þau eru staðsett á landinu.

Þá komum við að öðru sem líka hefur verið gert að umtalsefni og ég fyrir mitt leyti gat ekki fallist á. Ég vil þakka samnefndarmönnum mínum fyrir að taka þátt í þeirri breytingartillögu sem hér er gerð og tengist leigufjárhæð. Þegar maður fer inn í húsnæði sem hér er verið að ræða um eru sett ákveðin tekju- og eignaviðmið og út frá því er leigufjárhæðin ákveðin. Síðar ef einstaklingurinn kemst í hærri tekjuhóp, fær umtalsvert hærri tekjur en inngangan í kerfið segir til um, var uppi sú hugsun að viðkomandi ætti að geta búið í íbúðinni ef hann kysi svo án þess að leigufjárhæðin hækkaði. Í mínum huga var þá forsendan fyrir því sem stóð í markmiðssetningunni í upphafi brostin, að kerfið væri byggt fyrir þá sem væru tekjulægri. Því er komin inn breyting og ég þakka enn og aftur samnefndarmönnum mínum fyrir og það er dæmi um þá málamiðlun sem nefndarmenn komust að í vinnu við frumvarpið og gerir að verkum að við afgreiðum það út. Nefndin leggur til í 19. gr. að hækki tekjur viðkomandi einstaklings og umframtekju- og eignamörk eru samfelld í um þrjú ár, hafi ráðherra heimild til að reikna álag á leigu. Ég held að þetta sé ágætismálamiðlun. Menn hafa talað um að þetta kallist félagsleg blöndun. Það er fínt ef við getum almennt veitt því brautargengi með einum eða öðrum hætti, en að þeir sem hærri hafa tekjurnar borgi þar af leiðandi hærra verð.

Virðulegur forseti. Það skiptir líka máli að nefna varðandi þá sem ætla í átak af þeim toga sem hér er, í samvinnu við sveitarfélög og ríki, að fyrir verður að liggja samþykki sveitarfélagsins fyrir sínum 12% áður en ríkið veitir samþykki sitt fyrir sínum 18%, svo það sé ljóst. Ríkið getur aldrei eitt og sér ákveðið 18% framlag ef sveitarfélögin gera það ekki. Grundvöllurinn er að sveitarfélögin samþykki fyrst og ríkið kemur þar á eftir. Hins vegar verður það þannig að þegar umsóknir um framlag til ríkisins berast, og í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Íbúðalánasjóður annist þær umsóknir, þarf að sjálfsögðu að meta áður en framlag ríkisins er veitt hvar mesta þörfin er fyrir uppbyggingu slíkra íbúða og afgreiða ríkisframlagið, stofnframlagið, með það að leiðarljósi. Þetta verður aldrei þannig að manni detti bara í hug að það væri gott að gera þetta, án þess að fyrir liggi mat um hvar þörfin er brýnust fyrir fjármagnið.

Ég tel líka ástæðu til að nefna það sem aðrir hafa nefnt að í frumvarpinu og þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir eru tillögur um 4% aukastofnframlag og allt upp í 6% aukastofnframlag þegar kemur að ákveðnum þáttum eins og íbúðum fyrir námsmenn og öryrkja og þeim svæðum þar sem er mikil eftirspurn eftir húsnæði, en fáir leggja í að byggja vegna þess sérkennilega ástands sem ríkir á fasteignamarkaði vítt og breitt um landið þar sem byggingarkostnaðurinn er miklu hærri en sem nemur í raun endursölu slíks húsnæðis. Ég held að þar sé byggðasjónarmiðið vel varið og það muni skipta máli.

Það var líka vel til fundið og gott og í raun grundvallarbreyting á afstöðu ríkisins, eða kannski ekki grundvallarbreyting, varðandi stofnframlögin sem eiga að vera endurkræf eða sem heimilt er að krefjast endurgreiðslu á, að ríkið fyrir sitt leyti féllst á að 18% framlagið yrði greitt í Húsnæðismálasjóð í stað ríkissjóðs til þess að auka sjálfbærni sjóðsins hið fyrsta. Þá munu sveitarfélögin hugsanlega velta fyrir sér þegar kemur að endurgreiðslu stofnframlags hvernig þau fara með þá ósk eða þá beiðni.

Ég ætla að láta hjá líða í augnablikinu og í þessari ræðu, virðulegur forseti, mun sjálfsagt koma að því þegar við ræðum frumvarpið við 3. umr., að ræða það ítarlega, en fram hefur komið athugasemd frá Alþýðusambandi Íslands þess eðlis að ef sveitarfélögin eignfæra stofnframlagið sem og ríkið eignfæri stofnframlagið, þá sé ekki hægt að eignfæra það í hses ef við getum kallað það svo, og þá verður kannski erfiðara fyrir það fyrirtæki að sækja sér lán á góðum kjörum. Ég vil taka undir það, virðulegur forseti, þótt ég sé ekki þar með að segja að ég ætli að fallast á þessa athugasemd Alþýðusambands Íslands, að nefndin taki málið inn á milli 2. og 3. umr. og skoði þetta. Grundvallaratriðið hér og nú er að frumvarpið, með þeim breytingum sem hafa verið gerðar á því, nái fram að ganga og verði að lögum og hægt sé að fara að vinna eftir því. Þess vegna þarf að útkljá og skoða þessa athugasemd frá ASÍ sem, virðulegur forseti, kemur reyndar frekar seint. Hér hefur verið rætt um að þetta frumvarp hefði nú átt að koma fram fyrir fjórum árum og jafnvel fimm árum eða guð má vita hvenær, og svo þegar búið er að prenta nefndarálitið þá kemur þessi athugasemd ASÍ á síðustu metrunum um eignfært stofnframlag sveitarfélaga og ríkis. En við munum skoða það.

Virðulegur forseti. Menn hafa í umræðunni í dag meira að segja leyft sér að ræða það að þetta eða hitt sé hinum eða þessum að þakka, á ég ekki við hv. nefndarmenn, og þetta frumvarp verði að lögum fyrir tilstilli stjórnarandstöðunnar. Með fullri virðingu fyrir frábærum samherjum í velferðarnefnd í stjórnarandstöðunni, þá er sú umræða að við stjórnarliðar — því þessum spjótum hefur oftar en ekki verið beint að Sjálfstæðisflokknum og fulltrúum hans í nefndinni — höfum ekki unnið af heilindum í þessu verkefni og viljað koma í veg fyrir það, alger fjarstæða. Sú staða að frumvarpið er fram komið með þeim breytingartillögum sem hér eru er vegna samvinnu nefndarmanna í velferðarnefnd. Ég vil leyfa mér að segja eins og hv. 4. þm. — nei, nú ætla ég ekki að segja það, virðulegur forseti, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að ég ætla að vera bara örlítið ánægð með að hafa tekið þátt í að vinna þetta verkefni í því formi sem við í velferðarnefnd skilum hér inn.



[12:57]
Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska nefndinni og framsögumanni hennar, hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, og formanni nefndarinnar, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, til hamingju með þetta frumvarp. Ég ætla ekki að fara í efnisatriði frumvarpsins heldur að spyrja hv. þingmann, sem fór reyndar úr salnum, út í fyrirsögn frumvarpsins, en þingmaðurinn er farinn. Ég vil spyrja hv. þingmann (RR: Ég er hér.) hvers vegna menn leggja til þá breytingartillögu að þetta muni heita frumvarp til laga um almennar félagsíbúðir. Hvers vegna leggja menn til að það hafi það heiti?



[12:58]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég taldi að hv. 1. þm. Norðaust. væri bara mættur í ræðu. En spurningin sem hann beinir til mín er: Af hverju heita þetta almennar félagsíbúðir? Svarið er að almennar íbúðir eru almennar íbúðir. Það eru ekki sérstaklega íbúðir sem byggðar eru samkvæmt því kerfi sem hér er lagt upp með. Þetta er félagslegar íbúðir. Þær eru beintengdar hugmyndinni um verkamannabústaðina forðum. Nefndin féllst á það og það er þessi margrædda málamiðlun, hv. 1. þm. Norðaust., að kalla þetta almennar félagsíbúðir á sama hátt og við þurftum að nefna það sem kallað var almenn íbúðafélög en við köllum nú húsnæðissjálfseignarstofnun, skammstafað hses. Það var ástæðan fyrir því að kalla þetta almennar félagsíbúðir, þ.e. til þess að skilgreina nákvæmlega hvað felst í markmiðum frumvarpsins.



[12:59]
Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Þetta dugar mér nú ekki sem nógu gott svar. Mér finnst þetta vera stöðlun eða yfirlýsing Sjálfstæðisflokksins, mér finnst þetta svona ekki hljóma nógu vel. Ég skil ekki hvernig almennar íbúðir og félagsíbúðir geta farið saman. Annaðhvort eru þetta félagsíbúðir eða almennar íbúðir. Eru félagsíbúðir ekki almennar eins og hvað annað? Ég vil fá nánari skýringu frá hv. þingmanni á því hvers vegna þær þurfa að heita almennar félagsíbúðir. Af hverju heita þær ekki bara almennar íbúðir, bara fyrir almenning, eins og annað sem við gerum? Af hverju heitir þetta þá ekki bara félagsíbúðir? Af hverju breyta menn þessu ekki í það?



[13:00]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú gott að geta komið hér og sagt að þetta er ekki að tillögu sjálfstæðismanna eingöngu, þó að þeir hafi haft skoðun á því að frumvarpið ætti ekki að heita frumvarp til laga um almennar íbúðir, heldur var annar ágætur íslenskufræðingur í nefndinni, hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, sem ræddi það nokkuð oft að það heiti gæti ekki gengið vegna þess að þetta væri annars konar form á íbúðum en almennar íbúðir sem byggðar eru í blokk á frjálsum markaði og fólk kaupir eða leigir. Þess vegna var hugmyndin sú að aðgreina og skilgreina þyrfti nákvæmlega í hverju þessar íbúðir væru fólgnar. Fram komu ýmsar hugmyndir, m.a. almennar stofnframlagaíbúðir. Það er ljótt. Ekki var hægt að kalla þetta almennar íbúðir vegna þess að almennar leiguíbúðir eru líka á frjálsum markaði og heyra ekki undir það kerfi sem hér er á ferðinni. (HBH: Af hverju ekki bara almennar íbúðir?) Hv. fyrirspyrjandi spyr: Af hverju ekki bara almennar íbúðir? Það er vegna þess að gerður er greinarmunur á því formi sem hér er og öðru formi, þ.e. verið er að byggja leiguíbúðir fyrir tekjulægra fólk, en venjulegar almennar íbúðir eru byggðar á frjálsum markaði. Þetta er niðurstaða nefndarinnar, almennar félagslegar íbúðir, og íbúðafélögin sem eiga þær kallast húsnæðissjálfseignarstofnanir, skammstafað hses.