145. löggjafarþing — 111. fundur
 17. maí 2016.
barnabætur.

[13:41]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Í viðtali við hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra nýverið komu fram áhyggjur hennar af lækkandi fæðingartíðni á Íslandi. Það er hárrétt. Við Íslendingar höfum notið þeirrar sérstöðu meðal Evrópuþjóða að fjölga okkur með náttúrulegum hætti. Norðurlöndin hafa staðið sig einkar vel á Evrópuvísu einmitt vegna þess öfluga velferðarkerfis sem við höfum í kringum barnafjölskyldur, fæðingarorlof, gjaldlága leikskóla og barnabætur.

Í fjármálaáætlun hæstv. fjármálaráðherra, sem er stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum til næstu fimm ára, kemur fram að skerða eigi barnabætur þannig að þeir tekjulægstu fái hærri barnabætur en það lítur allt út fyrir að barnabætur fólks með lægri meðaltekjur fari lækkandi. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé líklegt til að auka vilja fólks til að vilja ala upp börn á Íslandi þegar dregið er úr stuðningi við barnafjölskyldur með þessum hætti. Og þá vil ég einnig spyrja hæstv. félagsmálaráðherra sem hefur lýst yfir vilja til að hækka fæðingarorlofsþakið í 500 þús. kr. og boðað frumvarp sem á að vera í forgangi núna vegna komandi kosninga í október, hvenær við megum eiga von á því frumvarpi og hvort ekki standi til að hækka þakið í fæðingarorlofi í 500 þús. kr. Það eru sem sagt þessar tvær spurningar sem ég beini til hæstv. ráðherra: Er heppilegt að lækka barnabætur hjá millitekjufólki þegar dregur úr (Forseti hringir.) fæðingartíðni? Og hyggst hún hækka fæðingarorlofið, þakið, í 500 þús. kr.?



[13:44]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir fyrirspurnina. Það hefur sýnt sig og er eitthvað sem við höfum verið að fylgjast með að fæðingum hefur fækkað. Það er að mínu mati ein af afleiðingum hrunsins, þeirri kreppu sem heimilin fóru í gegnum í framhaldi af bankahruninu. Við höfum séð þegar við horfum til reynslu annarra þjóða sem hafa farið í gegnum mikla efnahagserfiðleika, að þá dregur úr fæðingum, eins og t.d. í Bandaríkjunum eftir kreppuna miklu í kringum 1930 og svo aftur í olíukrísunni í kringum 1970. Þetta er nokkuð sem hefur sýnt sig að gerist ekki bara hér heldur víða annars staðar. Það sem virðist skipta mestu máli varðandi fjölda fæðinga eru efnahagslegar aðstæður fjölskyldna þannig að ég held að ég geti þar með fært ágætisrök fyrir því að sú forgangsröðun ríkisstjórnarinnar að leggja áherslu á uppbyggingu atvinnulífsins, að tryggja að fólk fái góð og vel launuð störf, ætti einmitt að skila sér í því að fólk treysti sér aftur til þess að stofna heimili og eignast börn.

Það má svo sem færa það líka yfir á það sem hv. þingmaður nefndi varðandi barnabæturnar, að fyrri ríkisstjórn lagði mikla áherslu á að hækka barnabætur en það er ekki hægt að sjá að það hafi verið beint samband þar á milli. Það er fyrst og fremst að tryggja að fólk hafi vinnu og fái góð laun sem er undirstaðan fyrir frekari ákvarðanir sem fólk tekur varðandi framtíð sína.

Varðandi breytingu á fæðingarorlofskerfinu er rétt sem hv. þingmaður segir, það liggur fyrir að ég hef í hyggju að leggja fram frumvörp sem grundvallast á þeim tillögum sem komu frá nefnd á mínum vegum sem fyrrverandi hv. þm. Birkir Jón Jónsson stýrði varðandi breytingar á fæðingarorlofskerfinu, auk þess sem líka (Forseti hringir.) er gert ráð fyrir ákveðnum fjármunum samkvæmt ríkisfjármálaáætlun í hækkun fæðingarorlofsins.



[13:46]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það var nú svo tveimur til þremur árum eftir hrun að aldrei fæddust jafn mörg börn á Íslandi og einmitt á þeim árum, þannig að það er ekki eingöngu efnahagssveiflan þó að hún hafi sannarlega áhrif. En það var svo að fæðingarorlofið sætti skerðingum í hruninu. Við náðum á okkar síðasta löggjafarþingi að hækka þakið í fæðingarorlofi um 50 þús. kr. Núverandi ríkisstjórn hefur hækkað þakið um 20 þús. kr. sem er nánast ekki neitt. Fæðingarorlofsþakið hefur ekki hækkað síðan 1. janúar 2014.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur lýst því yfir að hún vilji hækka fæðingarorlofið í 500 þús. kr. á mánuði. Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Styður hún það að við samþykkjum þann þátt frumvarps okkar samfylkingarfólks úr velferðarnefnd þar sem við leggjum einmitt til að þakið verði hækkað í 500 þús. kr.? Við gætum gert það með mjög lítilli vinnu og lögfesta það frá og með 1. júní (Forseti hringir.) eða 1. júlí, barnafjölskyldum til bóta. Mundi hæstv. ráðherra styðja það? Ætlar hún í raun og veru að hækka fæðingarorlofsþakið?



[13:48]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný fyrir spurninguna frá hv. þingmanni. Það liggur fyrir að í ríkisfjármálaáætluninni er lagt til ákveðið fjármagn þar, auk þess sem ákveðnir fyrirvarar í áætluninni snúa að annars vegar fæðingarorlofinu og hins vegar breytingum á almannatryggingum. Ekki er nauðsynlegt að fara í lagabreytingar til að hækka þakið á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, hins vegar er nauðsynlegt að hafa fé og ríkisstjórnin er að tryggja það.

Hvað varðar breytingar eins og ég nefndi varðandi þær tillögur sem nefndin á mínum vegum kom með sem krefjast lagabreytinga er annars vegar lengingin á fæðingarorlofinu upp í tólf mánuði og hins vegar að verið er að bregðast við því sem við sáum við skerðinguna á fæðingarorlofskerfinu, að það voru tekjulægri feðurnir sem voru síður líklegir til að taka fæðingarorlofið. Ég vil þá aftur tengja við fyrra svar mitt, þ.e. óvissa varðandi atvinnulífið, (Forseti hringir.) efnahagsleg óvissa sem gerir að verkum að er helsta ástæðan fyrir því að fólk dregur (Forseti hringir.) að taka fæðingarorlof eða eignast börn. Og á því höfum við svo sannarlega tekið.