145. löggjafarþing — 111. fundur
 17. maí 2016.
virðisaukaskattur, 1. umræða.
frv. atvinnuvn., 758. mál (veltumörk skattskyldu og fjárhæðarmörk uppgjörstímabila). — Þskj. 1265.

[20:43]
Frsm. atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga frá atvinnuveganefnd um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, um veltumörk skattskyldu og fjárhæðarmörk uppgjörstímabila.

Breytingarnar taka til lágmarksfjárhæða í virðisaukaskattskerfinu. Í 1. gr. er talað um að upphæðin fari úr 1 milljón í 2 milljónir. Í 2. gr. er viðmiðunarfjárhæðin 3 milljónir færð í 4 milljónir.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til tvenns konar breytingar á ákvæðum virðisaukaskattslaga sem er einkum ætlað að minnka álag á skattyfirvöld og draga úr reglubyrði smærri aðila með aukna skilvirkni fyrir augum.

Aukinn straumur ferðamanna til Íslands kallar á að skattkerfið og skattaframkvæmd sé endurskoðuð. Um síðustu áramót tóku gildi ýmsar breytingar á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem leiddu til þess að skattskyldusvið þeirra var útvíkkað og nær það nú í auknum mæli yfir starfsemi ferðaþjónustufyrirtækja. Aukin eftirspurn eftir ferðaþjónustu af ýmsu tagi hefur leitt til þess að aðilum sem veita ferðamönnum þjónustu, t.d. með sölu á svokallaðri heimagistingu, hefur fjölgað umtalsvert. Umfang rekstrarins er hins vegar í mörgum tilvikum tiltölulega lítið. Umstang skattyfirvalda í kringum smáa rekstraraðila er almennt kostnaðarsamt og skatttekjur af þeim takmarkaðar.

Ég vísa síðan til frekari yfirferðar í greinargerðinni um bæði veltumörk og lengd uppgjörstímabila.

Við umfjöllun um svokallað heimagistingarmál eða mál um heimagistingu sem við vorum að fjalla um áðan kom upp álitaefni. Eins og það var lagt fram var miðað við að einkaaðilar sem færu í að leigja út herbergi, íbúðir eða sumarbústaði til að skapa sér viðbótartekjur af eignum sínum gætu gert það að hámarki í 90 daga á hverju ári. Eftir fund okkar með m.a. ríkisskattstjóra áttuðu nefndarmenn sig á því að þau viðmiðunarmörk sem miðað er við í lögum um virðisaukaskatt, 1 milljón, dygðu skammt til að þessi einfaldi rekstur yrði gegnsær eins og stefnt er að. Við getum gefið okkur að einhver sem ætlar að leigja út tvö herbergi hjá sér eða íbúð, leigir það fyrir einhverja upphæð í allt að 90 daga, er mjög fljótt kominn upp í þessa 1 milljón og er þar með kominn samkvæmt þeim lögum sem eru í gildi í virðisaukaskattsskylda starfsemi sem flækir mjög málið og hefði örugglega leitt það af sér að áfram hefðu margir reynt að stunda þessa starfsemi í skjóli, þ.e. að til þess að flækja ekki umfangið má reikna með að þetta hefði legið undir yfirborðinu.

Eftir viðræður okkar við fulltrúa fjármálaráðuneytisins og ríkisskattstjóra varð að samkomulagi að breyta viðmiðunarmörkunum. Fulltrúar ríkisskattstjóra sögðu reyndar að það mundi einfalda mjög allt eftirlit af þeirra hálfu með þessari starfsemi sem við fórum yfir áðan, en bara allri annarri starfsemi af svipuðum toga, starfsemi þar sem einstaklingar skapa sér smáaukatekjur. Þess vegna var ákveðið að fara þessa leið. Við gerum okkur grein fyrir því að það er ekki samkvæmt hefðinni að slík tillaga sé flutt af atvinnuveganefnd til breytingar á skattalögum, en eftir viðræður okkar við formann efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, sem að öllu jöfnu fer með þetta mál, og við fjármálaráðuneytið var ákveðið að fara þessa einföldu leið af því að um þetta er víðtæk sátt í nefndinni og þverpólitísk sátt hjá þeim þingmönnum sem við höfum rætt þetta við. Það mun hraða málsmeðferðinni í gegnum þingið að fara þessa leið.

Þetta er alveg örugglega heilmikið framfaraskref, ekki síst þegar kemur að skatteftirlitinu. Viðmiðunin er hækkuð upp í 2 milljónir sem þýðir að skapi einstaklingar sér viðbótartekjur af eignum sínum með vinnu sinni upp að þeim mörkum greiða þeir af þeim fjármagnstekjuskatt en þurfa ekki að vera með þær í virðisaukaskattsskyldri starfsemi. Ég ítreka að hjá ríkisskattstjóra kom fram að þetta mundi einfalda allt umfang hans í skatteftirliti almennt, ekki bara með þeirri starfsemi sem þessi hugmynd kviknaði í kringum.

Ég mæli því fyrir hönd atvinnuveganefndar fyrir þessu máli, virðulegur forseti, og legg til að því verði vísað til hv. atvinnuveganefndar.



[20:49]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég er búinn að mæra formann atvinnuveganefndar nóg á þessum degi og sömuleiðis þá sem hér hafa talað af hálfu hv. atvinnuveganefndar. Ég verð hins vegar að bæta við enn einni rós hróss í hnappagat hans. Ég tel að það sé virkilega gott fordæmi hjá honum að seilast með þessum hætti yfir á verksvið efnahags- og viðskiptanefndar og leggja hér fram mál sem að öllu eðlilegu hefði átt að vera innan verksviðs hennar. Málið er hins vegar þannig vaxið, og er það jákvætt, að ég tel að það mundi mjög horfa til heilla ef hv. þingmaður beitti sér fyrir því að fleiri af verkefnum efnahags- og viðskiptanefndar yrðu færð yfir til hans. Mér sýnist að þar ríki sú eindrægni og sá friður um mál af þessu tagi að þar sé hugsanlega besta leiðin til að ná fram umdeildum málum.

Ég ætla í öllum aðalatriðum að lýsa yfir stuðningi við þetta mál. Ég tel að nefndin hafi sýnt mjög jákvætt frumkvæði í störfum sínum sem tengjast þessum málaflokki og sér stað bæði í þessu frumvarpi og því sem við ræddum áðan. Ég tel að margir kostir fylgi þeim leiðum sem nefndin hefur lagt til og tek undir það sem hefur komið fram bæði hjá þeim sem talaði áðan og eins hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, að þetta mun að öllum líkindum leiða til þess að miklu auðveldara verði fyrir skattyfirvöld að ráðast til atlögu við þau tiltölulega umfangsmiklu undanbrögð frá skatti sem enn er að finna í þessum geira ferðaþjónustu. Við vitum öll af því sem höfum einhverja nasasjón af þróun síðustu ára.

Þær athugasemdir sem ég vil gera við þetta eru tvenns konar. Ég ætla ekki að fjölyrða um hina fyrri en hún er efnislega sú sama og ég gerði við samsvarandi ákvæði í því frumvarpi sem við ræddum hér áður, þ.e. ég kom þar fram með ábendingu um að hv. nefnd kynnti sér milli 2. og 3. umr. hvort ekki væri vilji fyrir því í hennar röðum að vísitölutengja viðmiðunarupphæðina, 2 milljónirnar. Það er fyrri ábendingin.

Hin síðari er sú að ég tók eftir því að hv. formaður nefndarinnar og framsögumaður þessa máls sagði á einum stað í sínu máli þegar kom að því að reifa veltumörkin að þingheimur gæti sjálfur kynnt sér það sem segði í greinargerð með þessu frumvarpi að því er varðaði veltumörk. Þegar maður gerir það kemur í ljós að ef Norðurlöndin eru frátekin eru veltumörkin í flestum löndum töluvert hærri en þær 2 milljónir sem hér er staðnæmst við. Ég er þeirrar skoðunar að menn eigi, fyrst þeir á annað borð leggja í þetta ferðalag, að vera frjálslyndir í þessum efnum. Ég hefði kosið að sjá þessa upphæð hærri. Fyrst menn eru á annað borð að fara þessa leið hefði ég talið að nefndin hefði átt að staðnæmast hugsanlega við 3–4 milljónir, ég tala nú ekki um ef niðurstaðan verður sú að vísitölutengja ekki veltumörkin. Við vitum að ef svo verður ekki lækka þau að raungildi með tímanum og við þær lyktir málsins tel ég eiginlega einboðið að þessi upphæð verði hækkuð.

Það hefur komið fram að fyrra málið verður rætt í nefnd milli 2. og 3. umr. Hér er þetta mál við 1. umr. þannig að ég beini því til hv. formanns atvinnuveganefndar, Jóns Gunnarssonar, hvort hann sé ekki í anda þeirrar miklu sáttar sem hann hefur nú gerst forgöngumaður um á þessu þingi, og brá öðrum öðruvísi við þegar sá ágæti formaður átti í hlut, að taka þetta til vinnslu og kanna hvort ekki sé grundvöllur að sátt milli hv. atvinnuveganefndar, sérstaklega formanns hennar, og 4. þm. Reykv. n. í þessu mikilvæga máli.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.