145. löggjafarþing — 112. fundur
 18. maí 2016.
störf þingsins.

[15:03]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í dag eru liðin nákvæmlega 40 ár frá samþykkt laga um jafnrétti kvenna og karla. Í lögunum var tekið fram að tilgangur þeirra væri að stuðla að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Lögin beindust fyrst og fremst að stöðu kynjanna á vinnumarkaði, ekki síst hvað varðaði launajafnrétti. Einnig voru ákvæði um jafnréttisfræðslu í skólum og kveðið var á um að auglýsendum væri óheimilt að birta auglýsingar sem orðið gætu öðru kyninu til minnkunar eða lítilsvirðingar.

Á þessum tímamótum er rétt að minnast þess að þótt 40 ár séu frá setningu þessara laga eru enn til staðir í heiminum sem ekki veita konum rétt á jafnri stöðu á við karlmenn. 52 ríki eru ekki með jafnrétti í sinni stjórnarskrá líkt og kveðið er á um í 65. gr. íslensku stjórnarskrárinnar. 26 ríki veita kynjunum ekki jafna stöðu þegar kemur að erfðarétti og 60% af þeim sem skortir grunnmenntun í heiminum, á borð við lesskilning, eru konur. Kynbundið ofbeldi er stórkostlegt vandamál um heim allan. Sums staðar tíðkast enn að gifta barnungar stúlkur eldri karlmönnum. Konur eru víðast hvar í minni hluta þegar kemur að stjórnun fyrirtækja, þær eru í minni hluta í flestöllum ef ekki öllum þjóðþingum heims og svo mætti lengi telja — árið 2016.

Hluti utanríkismálanefndar Alþingis heimsótti japanska þingið fyrir skömmu. Á nánast öllum fundum var að frumkvæði gestgjafanna rætt um jafnrétti en japanska ríkisstjórnin leggur nú áherslu á að bæta jafnrétti í landinu. Jafnrétti snýst nefnilega ekki bara um mannréttindi fólks, heldur hefur jafnrétti afar jákvæð efnahagsleg og samfélagsleg áhrif.

Íslendingar hafa náð árangri á sviði jafnréttis. Við getum miðlað af reynslunni og haldið áfram að vera góð fyrirmynd fyrir þjóðir sem eru skemmra á veg komnar en við, en við megum samt sem áður ekki sofna á verðinum.

Dagur sem þessi minnir okkur á það.



[15:05]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar aðeins að víkja að nýrri skýrslu Öryrkjabandalagsins vegna greiðsluþátttökufrumvarpsins sem hefur verið til umfjöllunar í þinginu og styður kannski það sem ég hef haldið hér fram og er vert að vekja athygli á. Ég held að þingheimur verði að skoða vel sinn hug áður en það frumvarp verður samþykkt óbreytt.

Það felur í sér að kostnaður þeirra 15% sjúkratryggðra sem nota heilbrigðisþjónustuna mest, átta sinnum eða oftar á ári, lækkar. Þau 85% sem nota þjónustuna minna, einu sinni til sjö sinnum á ári, borga mismuninn. Ríkissjóður sparar á þessu einar 46 millj. kr. sem út af fyrir sig er ástæðuefni til að hafa áhyggjur af í þessu sambandi því að þetta bitnar á þeim sem minna mega sín, þ.e. öldruðum og öryrkjum sem nota læknisþjónustuna og borga um 503 millj. kr. meira eftir breytinguna, þ.e. sá hópur sem er ekki mjög reglubundið hjá lækni.

Kostnaður við heimsóknir til sérfræðilækna eykst verulega hjá þeim hópum sem hafa lága framfærslu og fer úr í kringum 50% í 67%, sem er miklu meira en margur getur ráðið við. Það eru rannsóknir m.a. frá Rúnari Vilhjálmssyni frá árinu 2015 þar sem kemur fram að tæp 22% fresta komu til læknis vegna þess að það kostar of mikið. Hverjir eru það sem fresta? Það eru einna helst þeir sem höllum fæti standa í samfélaginu, m.a. öryrkjar.

Svo er til viðbótar að lyfjakostnaðurinn, sparnaðurinn þar hefur ekki runnið til notanda, eins og svo margt annað sem við höfum séð í fréttum undanfarna daga að skilar sér ekki til neytenda.

Virðulegi forseti. Við þingmenn þurfum að hugsa okkur um áður en þetta frumvarp verður samþykkt. (Forseti hringir.) Viljum við standa vörð um það fólk sem höllum fæti stendur í samfélaginu?



[15:08]
Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í dag eru 40 ár frá því að fyrstu lög um jafnrétti á Íslandi voru samþykkt. Þó höfðu áður verið samþykkt atriði sem hluti af öðrum lögum, eins og ákvæði um almennan launajöfnuð kvenna og karla árið 1961, en opinberir starfsmenn voru fyrsta starfsstéttin sem hlaut lögverndað launajafnrétti árið 1954. Það er frekar sorglegt til þess að hugsa hversu langt er liðið frá lagasetningu um launajöfnuð og að við skulum samt ekki vera komin lengra með málið.

Íslenskar konur hafa verið mjög samhentar þegar kemur að því að þoka jafnréttismálum áfram. En núna er markmiðið sett hærra og er mikilvægt að kynin komi saman til að vinna að jafnréttismálum, hagsmunamálum sem varða báða aðila, og að flestir séu með í átakinu HeForShe sem UN Women á Íslandi og aðilar víða í heiminum standa að.

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja alla karlmenn til þátttöku. Það er ekki einungis efnahagslegt mál að kynin standi jöfn heldur einnig samfélagslegt. Það snýr líka að því að karlmenn fái tækifæri til að sinna öllu því sem er þeim hugleikið án fyrir fram mótaðra kynjahlutverka. Það er ekkert samfélagslega samþykkt nema við leyfum það. Við skulum ekki láta önnur 40 ár líða áður en við náum árangrinum sem við stefnum að.



[15:09]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það eru tvær nýlegar fréttir, ekki beint tengdar, og þó, sem verða til þess að ég tek til máls í dag. Önnur fréttin er sú að samkvæmt verðlagsvakt ASÍ hafa þeir ágætu menn og konur fundið út að íslensk verslun hefur ekki skilað til neytenda þeim tollalækkunum sem urðu á fatnaði og skóm um síðustu áramót. Þetta kemur í viðbót við það sem áður hefur komið fram, m.a. í ræðum þess sem hér stendur, að verslunin hefur heldur ekki staðið skil á því að íslenska krónan hefur styrkst. Þess er skemmst að minnast að síðustu tólf mánuði hefur íslenska krónan styrkst að meðaltali um 6% gagnvart helstu viðskiptamyntum.

Þessar staðreyndir sýna fram á lítið siðferðisþrek hjá verslunarmönnum, að þeir skuli seilast í það sem ríkið lætur eftir í stað þess að skila því til neytenda. Það er satt að segja forkastanlegt að það hafi ekki gerst.

Hin fréttin sem er þessu tengd, og þó kannski ekki, er sú að þegar Hagar hf., sem er eitt stærsta fyrirtæki í verslun á Íslandi, skilaði ársreikningum um daginn kom í ljós að fyrirtækið er nánast skuldlaust eftir fimm ára starfsemi. Til fyrirtækisins var stofnað árið 2011 með endurskipulagningu sem kostaði bankakerfið í kringum 35–40 milljarða kr., síðan selt dugmiklum mönnum sem í samstarfi við lífeyrissjóðina, þ.e. sjóði íslenskra erfiðismanna, reistu fyrirtækið upp með þessum hætti. Nú er það sem sagt orðið skuldlaust eða skuldlítið eftir fimm ára starf.

Þessi þróun er í boði lífeyrissjóða landsmanna. Nú held ég að menn ættu að hugsa sig verulega vel um, sérstaklega þeir sem sitja í stjórnum fyrirtækja fyrir hönd lífeyrissjóða, (Forseti hringir.) eða að lífeyrissjóðir fái menn í stjórn í samræmi við sitt eignarhald til að hægt sé að koma böndum á þessi mál á Íslandi.



[15:12]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í morgun voru fulltrúar atvinnuveganefndar á fundi fjárlaganefndar þar sem farið var yfir ríkisfjármálaáætlun. Þar sat atvinnuvegaráðherra fyrir svörum en undir hann falla m.a. byggðamál og ræddum við ýmislegt, t.d. jöfnun flutningskostnaðar. Því verkefni var komið á árið 2011 hjá síðustu ríkisstjórn þar sem útflutningsfyrirtæki fá möguleika á að sækja um jöfnun flutningskostnaðar til að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja sem eru langt frá útflutningshöfn. Þessi sjóður er um 175 milljónir í dag og hefur ekki verið nýttur til fulls. Í því sambandi hef ég talað fyrir því að haldið verði áfram að vinna með þetta verkefni og sjóðurinn eins og hann er núna nýttur til fulls og horft til þess að jafna flutningskostnað til þeirra íbúa landsins sem búa fjærst mesta þéttbýliskjarnanum á höfuðborgarsvæðinu en þurfa að sækja þangað ýmis aðföng sem kostar mikið að flytja. Fólk sem býr á landsbyggðinni þekkir það, hvort sem það er eitthvað sem tilheyrir byggingu húsnæðis eða bara varningur inn á heimilið er flutningskostnaður gífurlega hár. Þetta á líka við um smásöluverslun úti á landi sem situr uppi með mjög mikinn flutningskostnað sem kemur fram í vöruverði. Verslunin Bónus hefur jafnað þennan flutningskostnað sjálf innbyrðis en litlu verslanirnar búa við þennan mikla ójöfnuð.

Ég tel mjög brýnt verkefni að útfæra hugsun varðandi jöfnun flutningskostnaðar sem útflutningsfyrirtækin hafa notið til þessa, að það sé fært (Forseti hringir.) yfir á þá íbúa og þau fyrirtæki og smásöluverslanir sem eru fjærst stórhöfuðborgarsvæðinu, sem margir þurfa að sækja þjónustu sína til.



[15:14]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar til að gera að umfjöllunarefni frétt sem landlæknir setti á heimasíðu sína fyrir stuttu síðan og snýr að rétti ljósmæðra til að ávísa getnaðarvarnarlyfjum. Nú er það þannig í sumum löndum sem við berum okkur saman við, annars staðar á Norðurlöndum t.d., að þar hafa ljósmæður rétt til að ávísa getnaðarvarnarlyfjum og jafnvel hjúkrunarfræðingar líka. Hér var flutt frumvarp á löggjafarþingi 2011 og 2012 þar sem átti að festa þennan ávísunarrétt í sessi fyrir bæði hjúkrunarfræðinga og ljósmæður, en það dagaði uppi. Nú kallar landlæknir eftir því að farið verði í þessar breytingar og embættið hefur í raun kallað eftir þessu allt frá árinu 2008. Mér finnst stundum þegar við erum að horfa á heilbrigðiskerfið, jú, vissulega vantar meiri peninga í kerfið, en mér finnst við kannski ekki horfa á það hvernig við getum fengið meira fyrir þá fjármuni sem við setjum í kerfið. Það má líka spyrja, miðað við þær ótrúlega vel menntuðu heilbrigðisstarfsstéttir sem við höfum, hvort við nýtum þær nógu vel. Nýtum við sjúkraþjálfara, næringarfræðinga, sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga, ljósmæður, eins vel og við gætum? Ef ég fæ í bakið þarf ég endilega og fara og tala við heimilislækninn? Korter með sjúkraþjálfara gæti kannski komið mér lengra.

Þannig að ég kasta þessu fram. Ég hef lagt fram skriflega fyrirspurn til heilbrigðisráðherra varðandi þetta mál því að mér finnst svo einboðið að ráðast í þessar aðgerðir og hlusta á landlækni sem ég hef mætur á. Mér finnst hann mæla af skynsemi gjarnan og hugsa virkilega um það hvernig við getum bætt þjónustuna og fengið meira fyrir það fjármagn sem við setjum í kerfið.



[15:16]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil gera málefni útlendinga að umtalsefni í þessum dagskrárlið í dag. Ástæðan er tvíþætt. Annars vegar er það vegna þess að málefni útlendinga eru á dagskrá þingsins þessa dagana, ný útlendingalög eru til að mynda til umfjöllunar í þingnefnd. Hins vegar er það vegna þess að enn og aftur lesum við í fjölmiðlum um fjölskyldu sem send er úr landi vegna þess að hún fær ekki hæli hér. Nú er um að ræða Dega-fjölskylduna sem kom hingað frá Albaníu í fyrra. Reyndin er sú að einstaka mál vekja athygli í fjölmiðlum og kalla á viðbrögð þar sem gengið er í það að reyna að bjarga fólki um að fá að vera hérna áfram án þess þó að tekið sé á hinum kerfislæga grunni sem gerir það að verkum að fólki er vísað í burtu.

Ísland er í raun lokað land fyrir þá útlendinga sem koma hingað frá löndum utan hins Evrópska efnahagssvæðis þrátt fyrir það t.d. að hér vanti fólk til starfa. Á þessu eru þó tvær undantekningar og það er þegar um er að ræða sérhæfða starfsmenn og íþróttafólk og svo útlendinga sem koma hingað til starfa tímabundið í gegnum starfsmannaleigur og hafa oft mjög takmörkuð réttindi hér á landi.

Að óbreyttu munu ný útlendingalög ekki breyta öllu fyrir fólk í sömu stöðu og Dega-fjölskyldan, en ef saga þessarar fjölskyldu og annarra sem hefur verið vísað frá Íslandi hefur snert við okkur (Forseti hringir.) vil ég minna á að núna er einmitt lag til þess að gera breytingar á útlendingalögunum svo að hingað geti fleiri komið og fengið að dvelja í okkar ágæta landi.



[15:18]
Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna segir að niðurstaða um mat á nothæfisstuðli Reykjavíkurflugvallar sem fram kemur í skýrslu verkfræðistofunnar Eflu sé rangt og að ekki sé reiknað með bremsuskilyrðum. Það kemur fram í frétt Morgunblaðsins í fyrradag. Nothæfisstuðullinn sé ekki reiknaður út í samræmi við verklag Alþjóðaflugmálastofnunar. En Ísland er aðili að henni og ber samkvæmt því að fylgja þeim reglum sem gilda um og samþykktar hafa verið um útreikning á nothæfisstuðli flugvalla.

Eftir ítarlega athugun öryggisnefndarinnar og með vísan í gögn sem hún fékk á grundvelli upplýsingalaga um samskipti Eflu og Isavia er niðurstaðan sú að útreikningur nothæfisstuðulsins á 06/24-brautarinnar er rangur og alvarlegasta villan í skýrslu Eflu er að ekki er reiknað með bremsuskilyrðum á flugbrautunum. Alþjóð veit að Reykjavíkurflugvöllur gegnir margháttuðu hlutverki. Öryggi flugfarþega og áhafna á að vera í algjöru fyrirrúmi og þegar slys og alvarlega sjúkdóma ber að er afar mikilvægt að eiga þess kost að komast fljótt og öruggt undir réttar læknishendur. Fólk á líf sitt undir því. Braut 06/24, svokölluð neyðarbraut, hefur gert það að verkum að litlar vélar sem nýttar eru í sjúkraflug hafa lent við skilyrði sem ekki er hægt að lenda þeim í á öðrum brautum. Það hefur aukið öryggi til muna og skiptir okkur öll máli.

Héraðsdómur hefur kveðið upp þann dóm að loka eigi þeirri braut að viðlögðum dagsektum upp á 1 millj. kr. og hefur innanríkisráðuneytið áfrýjað dómnum.

Það er grafalvarleg staða ef skýrslur sem miða að því að meta flugöryggi með tilliti til lendingarskilyrða eru unnar út frá röngum forsendum. Með leyfi forseta, vitna ég hér til (Forseti hringir.) orða Ingvars Tryggvasonar, flugstjóra og formanns öryggisnefndar: (Forseti hringir.)

„Það er grundvallaratriði að úrvinnsla er varðar (Forseti hringir.) flugöryggismál sé unnin með lögmætum og óvefengjanlegum hætti.“



[15:21]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil gera svokallaðan spekileka að umtalsefni hér undir þessum lið í dag. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hafa tæplega 8 þús. fleiri Íslendingar flutt úr landi en til þess frá árinu 2009. Þetta er að gerast þrátt fyrir að hagtölur sýni mikla uppsveiflu. Blaðamaður Kjarnans fer í gegnum þessa hluti í pistli fyrir skömmu. Þar rekst hann á þann vegg sem við alþingismenn í þessum sal höfum líka rekist á í okkar störfum, að það eru ekki til upplýsingar um það hvaða fólk það er sem er að fara frá landinu eða hvaða fólk það er sem kemur til landsins. Hverjar eru bakgrunnsbreytur þessara Íslendinga? Er þetta fólk sem er menntað á einhverjum ákveðnum sviðum frekar en öðrum? Ég hef staðið hér í þessum stól og spurt hæstv. heilbrigðisráðherra og haft áhyggjur af því að unglæknar séu að fara utan í stórum stíl. Hann hefur svarað mér á þá leið að hann viti það ekki af því að við höfum ekki tölur um það. Hagstofan greinir þetta ekki. Það er mjög vont fyrir okkur í allri áætlanagerð og í öllu stöðumati sem við þurfum stanslaust að vera að taka í þessum sal og í þessari vinnu að vita ekki hvað er um að vera. Þarna verður að bæta úr. Við verðum að hafa upplýsingar svo að við vitum um hvað við erum að tala, svo að við getum áætlað af einhverju viti.



[15:23]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í dag eru 40 ár frá því að fyrstu jafnréttislögin voru samþykkt. Síðan þá hafa þau verið endurskoðuð fjórum sinnum með nýjum áherslum, nýjum málefnum og nýjum leiðum. Margt hefur áunnist en af nógu er enn að taka.

Í því ljósi er það fagnaðarefni að í gær lagði hv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttir fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára fyrir árin 2016–2019. Þetta er í sjötta sinn sem slík áætlun er lögð fram og er markmið hennar að tilgreina þau verkefni sem brýnust eru talin á sviði kynjajafnréttis.

Að mínu áliti er eitt af mikilvægustu verkefnunum fram undan að vinna að jafnara náms- og starfsvali kynjanna. Ég tel að þar liggi lykillinn að árangri á fjölmörgum öðrum sviðum til jafnréttis.

Þetta verkefni er sérstaklega hrópandi þessa dagana þegar nemendur á öllum skólastigum eru að velja sér námsleiðir fyrir næsta ár og næstu ár. Verkefnum sem ætlað er að stuðla að jafnara náms- og starfsvali falla undir mörg málefnasvið og eru á verksviði margra ólíkra aðila.

Ég tel því ákaflega mikilvægt að í tengslum við endurskoðun framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum verði sett skýr markmið í þeim efnum. Við gætum t.d. byrjað á því að setja okkur markmið um kynjahlutföll í ákveðnum greinum árið 2019. Hvernig væri að byrja á því að setja markmið varðandi kynjahlutfall innritaðra í kennaranám og nokkrar iðngreinar? Þá væri hægt að beita viðeigandi hvötum.

Í öllu falli er mikilvægt að hafa skýr markmið um mælanleg skref þegar (Forseti hringir.) fjöldi aðila þarf að vinna saman til þess að árangur náist.



[15:25]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Frá árinu 1976 höfum við Íslendingar talið okkur vera í forustusveit jafnréttismála en það ár samþykkti Alþingi lög um jafnrétti kvenna og karla, nr. 78/1976. Í dag eru því 40 ár síðan fyrstu lög um jafnrétti kynjanna voru samþykkt. Í ljósi þessa er áhugavert að rifja upp orð Gunnlaugs Finnssonar, fyrrum hv. þingmanns Framsóknar. Hann var þingmaður Vestfirðinga en samkvæmt núverandi kjördæmaskipan Norðvesturkjördæmis. Í umræðum um jafnréttislögin vakti hann máls á þeim launamun sem var á milli kynjanna. Með leyfi forseta langar mig að vitna í ræðu hans, en hann sagði:

„Mér finnst ástæða til þess líka að vekja athygli á því að þessi aðstöðumunur kvenna og karla í atvinnulífinu er e.t.v. mestur og verstur hjá því unga fólki sem að sumri til er að vinna fyrir sínum skólakostnaði. Þar kemur að sjálfsögðu margt til. Sumt af því er hefðbundið. Það er ekki tekið tillit til þess í úthlutunarreglum lánasjóða eða annarri fyrirgreiðslu, en það mun ekki óalgengt að sumartekjur stúlkna séu rétt um það bil helmingurinn af því sem sumartekjur pilta eru.“

Virðulegur forseti. Síðan þessi orð voru sögð hefur mikið vatn runnið til sjávar og margt breyst. Lögunum hefur verið breytt fjórum sinnum og þar hefur verið unnið með nýjar áherslur, ný málefni og nýjar leiðir. Þrátt fyrir það er enn þá of mikill munur á stöðu kynjanna og talið er að það sé allt að 20% launamunur enn til staðar á milli kynjanna. Það er of mikið og við verðum að halda áfram að finna leiðir til að vinna gegn þeim mismun. Ég vona að við Íslendingar verðum þeirrar gæfu aðnjótandi að ná að jafna þennan launamun sem allra fyrst.



[15:27]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Eins og flestir samþingmenn mínir hafa tekið eftir í gegnum tíðina er ég mikil áhugamanneskja um betri starfsumgjörð og styrkingu þingsins. Því miður er það svo að ég er búin að vera hér í sjö ár og hef ekki getað séð miklar framfarir þrátt fyrir að við höfum haft mörg tækifæri til að styrkja og efla þingið. Mig langaði því að velta því upp hvort öðrum þingmönnum fyndist ekki vera tilefni til að skoða það að fara að fordæmi Finna sem settu á fót framtíðarnefnd og hvort við ættum jafnvel að taka okkur það til fyrirmyndar. Ég tel jafnframt mjög mikilvægt að endurskoða nokkuð hvernig nefndirnar hér eru settar upp því að fjallað er um gerólík málefni í nefndunum. Ég sé fyrir mér Alþingi geta verið vettvang þar sem við getum unnið saman, þingmenn allra flokka, að málefnum er lúta að framtíð landsins, að langtímastefnumálum, að við hættum stöðugt að fókusera á næsta ár og gerum þá eins og hefur komið fram í ræðum þingmanna Framsóknarflokksins og byggjum á sögunni. Ef fólk hefði ekki haft langtímasýn fyrir 40 árum væru engar breytingar, þá væri kynjahlutfallið enn þá mjög skrýtið í landinu. Við verðum að hafa hugrekki til að taka stór skref. Við verðum að hafa hugrekki til að horfa inn í framtíðina og stefna þangað saman. Þingið er besti vettvangurinn til þess. Þar getum við þingmenn, sem erum fulltrúar fyrir alla landsmenn, komið saman að því að móta og skapa framtíðina. Því legg ég til að við skoðum af fullri alvöru að búa til framtíðarnefnd Alþingis.



[15:30]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í tilefni dagsins hafa nokkrir þingmenn stigið í pontu og talað um jafnréttismál. Það vakti athygli mína að hver einasti þeirra var kona. (Gripið fram í.) Það er kaldhæðnislegt að ákveðnu leyti. Það er líka dæmigert, því miður. Þess vegna langar mig ásamt þeim þingmönnum sem talað hafa á undan mér að vekja athygli á framtakinu HeForShe sem bendir á það mikilvæga atriði að jafnrétti verður ekki náð með því einu að konur berjist fyrir jafnrétti, karlmenn þurfa líka að berjast fyrir jafnrétti. Það er alveg eins og með réttindi samkynhneigðra, þeir gátu ekki öðlast jafnrétti einir síns liðs, það þurfti stuðning gagnkynhneigðra og fólks sem er öðruvísi en hið svokallaða norm í þeim efnum.

Jafnréttismál eru nefnilega ekki að mínu mati eingöngu spurning um kyn, tvö eða fleiri kyn. Jafnrétti er spurning um undirliggjandi prinsipp, alveg eins og réttindi samkynhneigðra eru ekki í sjálfu sér spurning um samkynhneigð, það er spurning um jafnrétti án tillits til kynhneigðar. Að sama skapi snýst jafnrétti um jafnrétti án tillits til kyns.

Það er lykilatriði að það sé nokkuð sem við komum á sem samfélag, ekki sem kyn heldur sem samfélag, að þar sé það undirliggjandi prinsipp sem við ætlum að taka upp. Ég vil líka leggja áherslu á að því markmiði verður ekki náð eingöngu með lagasetningu. Stundum þarf hana, gott og vel, en þeim markmiðum verður einungis náð með samþættu átaki og menningarlegri breytingu vegna þess að við viljum það sjálf sem einstaklingar, ekki sem þingmenn heldur sem einstaklingar, sem samfélag.

Í allri umræðu um jafnrétti og þrátt fyrir þá mjög góðu þróun sem þegar hefur átt sér stað verðum við að átta okkur á því að enn er margt að. Hvers vegna? Þessi málaflokkur hefur fengið mikla athygli í langan tíma. Allir eru í meginatriðum sammála. Hvað vantar? Það vantar það að við nálgumst málið sem menning, sem einstaklingar, hvernig við lítum á annað fólk, ekki bara út frá því hvaða lagasetningu við setjum.



[15:32]
Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Það mætti ætla að við hv. þm. Björt Ólafsdóttir hefðum sammælst um að ræða um spekilekann. Engar áhyggjur af spekilekanum? Þessi spurning var einmitt fyrirsögn í leiðara Kjarnans fyrir skömmu og ástæða til að staldra aðeins við. Hér er gott efnahagsástand, lítið atvinnuleysi og almennur uppgangur víða í samfélaginu. Þá og einmitt þá er ástæða til að meta stöðuna og setja okkur það markmið að gera enn betur. En samkvæmt tölum Hagstofunnar, eins og hv. þm. Björt Ólafsdóttir kom inn á, hafa tæplega 8 þús. fleiri einstaklingar, Íslendingar, flutt úr landi en til þess frá árinu 2009. Við erum fámennt samfélag og litlar breytingar hafa mikil áhrif, sérstaklega til lengri tíma. Á hátíðarstundum státum við okkur af frábærum skólum og hversu miklum fjármunum við verjum í skólakerfið sem hefur skapað okkur hagsæld. Þá veltum við því fyrir okkur: Er innstæða fyrir þessu?

Þegar uppgangur er í samfélaginu og fólk flyst úr landi er ástæða til að kanna menntun þeirra sem kjósa að flytja úr landi. Hvers vegna segi ég þetta? Getur verið að þessi uppgangur hér heima stuðli ekki að menntuðum störfum? Erum við að stuðla að ójafnvægi til lengri tíma? Því að á sama tíma fjölgar þeim sem stunda nám á háskólastigi.

Það er ekki bara kerfið sem þarf að breyta heldur þarfnast stefnan í hinu stóra samhengi endurskoðunar, þótt vissulega þurfi reglulega að endurmeta menntakerfi þjóðarinnar frá leikskóla og upp í háskóla. Menntakerfið miðar hins vegar að því að þeir sem inn í það fara verði háskólaprófessorar. Ef ekki, fara þeir að vinna.

Er menntakerfið okkar og -stefnan veikburða risi í samfélaginu? Erum við að stuðla að láglaunasamfélagi til lengri tíma þar sem ójöfnuður og misskipting eykst og láglaunastörfum fjölgar? Erum við of upptekin af því að skapa öryggi í menntakerfinu og gleymum þess vegna stefnunni? Til þess að ná fram samfélagsbreytingum er árangursríkast að breyta menntakerfinu og rétta menntastefnuna af, að stuðla að nýsköpunar- og tæknimenntun, að hefja verknám til vegs og virðingar. Spurningin sem ég ætla þá að skilja eftir á Alþingi er þessi: Byggir menntakerfið og menntastefnan á öryggi en ekki sköpun, sem leiðir til þess að það er spekileki úr samfélaginu sem ýtir þar af leiðandi undir ójöfnuð?



[15:34]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sagði í gær að hann liti á veiðigjöld sem sérstakan aukaskatt á landsbyggðina, sérstaklega á ákveðna staði þar sem þau legðust þungt á. Ég vil segja að veiðigjöldin eru þá kannski bara sérstakur skattur á Reykjavíkurkjördæmi norður sem er mesti útgerðarstaður landsins. Það er náttúrlega alger firra að taka svona til máls og gerir ekki annað en að ýta undir þann leiða ávana á þjóðþinginu að láta eins og það sé mikið bil á milli landsbyggðar og höfuðborgar. Ef það er bil á milli þéttbýlis og dreifbýlis í einhverju í þessu landi er það þegar kemur að atkvæðisrétti fólksins. Fólks sem býr norðan við Hvalfjarðargöngin hefur tvö og hálft atkvæði á við mig. Það er ójöfnuður. Ég er ekkert að gera það að sérstöku umtalsefni. En ráðherrann sagði líka að honum þætti veiðigjaldið of flókið og að finna þyrfti aðra aðferð til að reikna það út, ef hann vill þá láta borga eitthvað fyrir að nýta auðlindina, sem hlýtur að vera. Ég hef lausn á því. Við getum boðið og eigum að bjóða aflann út og við eigum að gera það í smáum skömmtum þangað til við erum búin að afnema þetta óréttláta kvótakerfi sem gerir það að verkum að lítill hópur auðmanna sópar til sín gróða á kostnað velferðarkerfisins, á kostnað okkar allra hinna. Síðan segir hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra: Af hverju eiga ekki aðrir að borga, eins og ferðaþjónustan eða raforkan? Auðvitað eiga þau að gera það líka. Landsvirkjun er farin að greiða arð og hyggst greiða meiri arð. Auðvitað eigum við að leggja gjöld á þá sem gera út á það að selja ferðir til að skoða íslenska náttúru. Auðvitað eigum við að gera það, virðulegi forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)