145. löggjafarþing — 116. fundur
 23. maí 2016.
samkeppnisstaða álfyrirtækja.

[15:16]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra ávarpaði ársfund Samáls þann 18. maí síðastliðinn þar sem hún lagði áherslu á að bæta samkeppnisstöðu álfyrirtækja á Íslandi. Þar sagði ráðherrann, með leyfi forseta:

„Í því skyni höfum við nýlega hafið greiningu sem felur meðal annars í sér skoðun á framtíðarfyrirkomulagi í orkuflutningum og samanburð á flutningskostnaði á raforku á Íslandi og í Noregi. Íslenskur áliðnaður er sem áður segir ein af megingrunnstoðum í efnahagslífi Íslands og því leggja stjórnvöld hér eftir sem hingað til áherslu á það að leggja sitt af mörkum til að leggja þeirri stoð samkeppnishæft og traust rekstrarumhverfi.“

Á þessum sama fundi kom fram, í kynningu KPMG, úttekt fyrirtækisins á evrópskum orkumarkaði. Þar kom fram að margt benti til þess að flutningur raforku til stóriðju í Noregi væri niðurgreiddur með óeðlilegum hætti af hinu opinbera. Af þessum sökum vil ég spyrja hæstv. iðnaðarráðherra: Vill iðnaðarráðherra að ríkið greiði niður flutning raforku til álveranna hér á Íslandi til að bæta samkeppnisstöðu þeirra gagnvart stóriðju í Noregi? Væri ekki nær að kanna hvort Norðmenn standi fyrir ólögmætum niðurgreiðslum á flutningi raforku eins og KPMG hefur bent á að vísbendingar séu um?



[15:18]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Þessari spurningu er fljótsvarað: Það er einmitt vegna þess misræmis sem er á milli flutningsverðs hér og í Noregi sem ákveðið var að hefja þessa greiningu. Þar getur hvort tveggja komið til, við þurfum, og það var ásetningur minn varðandi þessa atvinnugrein sem og aðrar, að tryggja að hún standi jafnfætis því sem er annars staðar. Á sama fundi, eins og þingmaðurinn bendir réttilega á, komu fram þær skoðanir ráðgjafa KPMG og ábendingar til álfyrirtækjanna, mundi ég halda, og íslenskra stjórnvalda að skoða hvort ríkisstyrkirnir sem viðhafðir eru í Noregi standist ríkisstyrkjareglur Evrópusambandsins. Það er einmitt liður í þessari skoðun.

Til að svara spurningu hv. þingmanns skýrt: Nei, það er ekki ætlun að fara að niðurgreiða hér með óeðlilegum hætti með einum eða neinum hætti heldur erum við að skoða stöðu þessara fyrirtækja almennt og samkeppnisstöðu þeirra. Að sjálfsögðu munum við taka þeim ábendingum sem fram komu á fundinum og skoða það með tilliti til þess.



[15:19]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Eftir stendur samt sem áður að hæstv. ráðherra talaði um að mikilvægt væri að bæta samkeppnisstöðu álfyrirtækja á Íslandi þó að, samkvæmt hennar orðum hér, ekki standi til að gera það með þeim hætti sem vitnað var til ef það kunni að orka tvímælis með einhverju móti.

Ég vil beina sjónum okkar að því að það hefur komið fram hér í þingsal og í fjölmiðlum að það er meiri eftirspurn eftir raforku frá stórnotendum en framboðið er. Það hefur einnig komið fram að ýmsir aðilar sem vilja byggja upp iðnaðarstarfsemi hér á landi eru tilbúnir til að greiða umtalsvert hærra verð en álverin eru að greiða.

Þess vegna vil ég spyrja: Af hverju ættu stjórnvöld að auka ívilnanir til að bæta samkeppnisstöðu álvera hér á Íslandi þegar aðilar bíða í röðum eftir að kaupa raforku á mun hærra verði fyrir mun umhverfisvænni starfsemi? Væri ekki nærtækara að ríkisstjórnin beitti sér beinlínis fyrir því að opinber orkufyrirtæki losuðu sig undan óhagkvæmum orkusölusamningum og semdu þess í stað við þá aðila sem ekki þurfa sérstaka meðgjöf eða afslætti af hálfu ríkisins og þar með almennings?



[15:20]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er almenn stefna þessarar ríkisstjórnar að tryggja atvinnulífinu öllu samkeppnishæft og helst betra umhverfi en tíðkast í löndunum sem við berum okkur saman við. Það á við um þennan iðnað eins og annan.

Það stendur ekki til að auka ívilnanir og vil ég leiðrétta hv. þingmann, það kom ekki fram í mínu máli. Það sem við erum að gera í þessari greiningu er að við erum að skoða samkeppnisumhverfi hér til samanburðar við það umhverfi sem sambærilegur iðnaður býr við annars staðar.

Síðan er það annað sem hv. þingmaður nefnir og það eru raforkusamningar og framboð og eftirspurn eftir raforku. Þeir samningar sem hér um ræðir eru gerðir til langs tíma og það er ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar sem það verklag var hafið að veita ívilnanir til stórframkvæmda. Ég minni á að á síðasta þingi hafði sú ríkisstjórn sem (Forseti hringir.) hv. þingmaður tilheyrði forgöngu um að veita sérstakar ívilnanir til ákveðins verkefnis á Norðurlandi sem við höfum haldið áfram. Þetta er því verklag sem þingmaðurinn ætti að þekkja ágætlega.