145. löggjafarþing — 119. fundur
 26. maí 2016.
sérstök umræða.

stefna í skattlagningu á bifreiðaeigendur.

[14:41]
Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Bifreiðaeigendur greiða mikla skatta hér á Íslandi. Það er alveg óumdeilt. Áætlaðar skatttekjur ríkissjóðs af ökutækjum og eldsneyti hefur verið um 37 milljarðar undanfarin ár. Það telur um 6% af heildarskatttekjum ríkissjóðs. Það sem einkennir þá skattbyrði er að skattarnir eru margir, þeir eru háir og þeir eru afar mismunandi eftir bíltegundum og eldsneytistegundum. Í stuttu máli er það þannig að á bensín og dísilolíu falla sex mismunandi skattar og gjöld, þ.e. almenn vörugjöld, sérstakt vörugjald, kolefnisgjald, flutningsjöfnunargjald og virðisaukaskattur. Menn hafa svo sem viðurkennt að réttmæti t.d. vörugjaldanna hefur falist í því að þeim er ætlað að standa undir innviðauppbyggingu á samgöngumannvirkjum, aðallega vegagerð.

Á bifreiðar falla svo fjórir mismunandi skattar og gjöld, bifreiðagjald, vörugjald, virðisaukaskattur og úrvinnslugjald, en með mjög misþungum hætti eftir bíltegundum. Vörugjöld á bifreiðar skiptast þannig í níu flokka miðað við koltvísýringsútblástur. Hæst geta vörugjöldin orðið 65% og ofan á það leggst síðan 24% virðisaukaskattur. Á síðasta kjörtímabili var mörgum af þessum sköttum breytt í nafni umhverfisins. Þá var t.d. skattur á bensín hækkaður langt umfram dísil með því að miða bifreiðagjöld og vörugjöld nær eingöngu við skráðan koltvísýringsútblástur og einnig voru vörugjöldin hækkuð, sérstaklega á bensínbíla. Það er hins vegar erfitt að greina með óyggjandi hætti magn CO2 í útblæstri bifreiða og þar með að ákvarða vörugjaldið. Við þekkjum það af fréttum af fölskum tölum bílframleiðenda erlendis að það getur verið erfitt.

Íslenskum almenningi hefur með þessum hætti markvisst verið stýrt til kaupa dísilbíla fremur en bensínbíla. Ég held að það sé alveg ótvírætt. Dísilbílar eru dýrari í innkaupum og þeir valda líka mengun sem er hættulegri heilsu manna. Þá vísa ég til köfnunarefnisoxíðs sem kallað hefur verið sótmengun. Það er ekki að ástæðulausu að stórborgir eru nú um mundir einmitt að leggja á ráðin um að banna alfarið dísilbíla í borgum. Í Evrópu hefur París haft forgöngu um það og fleiri borgir, eins og London, eru að skoða það.

Þá liggur fyrir að bifreiðagjöld og vörugjöld á bíla eru gjöld sem eru tengd koltvísýringsútblæstri og sögð vera í þágu umhverfisins. Staðreyndin er hins vegar sú að þeir bílar sem bera lægst gjöld eru með a.m.k. skaðlegustu mengunina út frá lýðheilsusjónarmiði.

Á síðasta kjörtímabili var líka tekin sú ákvörðun að veita skattaívilnunin fyrir innflutning á lífeldsneyti, sem sagt etanóli og jurtaolíu, með öðrum orðum hreinlega matvælum, til íblöndunar í bensín og dísil þegar jafnvel lágu fyrir þá þegar engin sérstaklega jákvæð umhverfisáhrif af slíkri íblöndun. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef aflað mér sýnist mér við núna vera að brenna í bílunum okkar mat sem gæti nært 100.000 manns á ári, ef við setjum það í samhengi við eitthvað sem við ættum líka að hafa áhyggjur af, sem er möguleg hungursneyð í heiminum.

Ég tel einsýnt að fyrir liggur að um gríðarlega neyslustýringu er að ræða. Það sem mér finnst líka einna verst við þá neyslustýringu er að hún tekur ekkert tillit til þess að menn vita aldrei hvaða lausnir eru í rauninni bestar eða verða ofan á í framtíðinni. Hafi menn t.d. áhyggjur af umhverfismálum, hvaða lausn er það sem kæmi umhverfinu helst til góða? Neyslustýring með þessum hætti hamlar þannig þróun og hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

Hvað veldur þessari aðför að bíleigendum og heimilunum í landinu? Er þessi mismunandi skattlagning réttlætanleg? Getur hæstv. fjármálaráðherra verið sammála mér um að einfalda þurfi alla þessa gjaldtöku, draga úr neyslustýringu, ekki síst þegar núverandi neyslustýring ýtir mönnum til kaupa á dýrari og meira mengandi bílum og stuðlar að innflutningi á dýrara eldsneyti?

Ég teldi réttast að sameina alla vörugjaldsflokkana (Forseti hringir.) í eitt vörugjald til einföldunar og til að draga úr óæskilegri neyslustýringu. (Forseti hringir.) Þar með væru menn lausir við viðmið á borð við þyngd og vélarstærð og óvissar stærðir eins og koltvísýringsútblásturinn og þyrftu ekki (Forseti hringir.) að reiða sig á tölur erlendra framleiðenda við ákvörðun skatta.



[14:46]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri hér til að ræða þessi mál. Í stuttu máli er megintilgangur stjórnvalda með skattheimtu af ökutækjum og eldsneyti tvíþættur. Það er, eins og fram hefur komið, annars vegar tekjuöflun fyrir ríkissjóð — þetta er drjúgt hlutfall af skatttekjum ríkissjóðs á síðasta ári, mér sýnist um 8% þegar allt er talið með og gert með það fyrir augum að fjármagna uppbyggingu samgöngumannvirkja — og hins vegar eru það umhverfissjónarmið. Því er ekki að neita að ákveðin neyslustýring er í þessu fólgin. Ætli það eigi ekki sögulega rætur í því að við höfum ekki ávallt haft gjaldeyri til að kaupa allt það sem okkur hefur dottið í hug að sækja annað.

Á undanförnum árum hafa margvíslegar breytingar verið lögfestar á sköttum vegna ökutækja og eldsneytis. Þá hafa komið fram á sjónarsviðið nýjar tegundir ökutækja og eldsneytis, og er ég að vísa í rafmagnsbíla, vetnisbíla, metanbíla, tengitvinnbíla, lífdísill hefur komið til sögunnar og í kjölfarið hafa gjarnan verið teknar upp undanþágur eða ívilnanir, oftast þó tímabundið, til að greiða fyrir aðgengi nýrrar tækni að þessum markaði.

Nú er svo komið að það verður ekki annað sagt en þetta sé orðinn talsverður frumskógur af ýmsum gjöldum og reglum. Málshefjandi vék að þessu, bifreiðagjald, vörugjald, virðisaukaskattur, úrvinnslugjald. Þetta eru gjöld sem eru lögð á ökutækin, en á eldsneytið er vörugjald, olíugjald, kílómetragjald, kolefnisgjald, flutningsjöfnunargjald og svo virðisaukaskattur. Með réttu má því segja að heildaryfirsýn á skattlagningu á ökutæki og eldsneyti reynist afar örðug vegna ýmiss konar undanþágna og ívilnana sem skekkir jafnvel samkeppnisstöðu milli atvinnugreina. Kveðið er á um skattlagningu á ökutæki og eldsneyti í sjö mismunandi lagabálkum og flækjustigið er orðið of hátt.

Nefnd hafa verið dæmi um að hagkvæmara geti verið að kaupa dýrari og þyngri bíl. Ég gæti nefnt fleiri dæmi. Bifreið með sömu vél, sömu grind, sama stýrishús og annan búnað getur lent í mismunandi gjaldflokkum vörugjalds allt eftir því hvort og hvaða yfirbygging er á grind hennar. Bíll sem er fluttur inn sem grindarbíll ber 0% vörugjald, en ef búið er að setja kassa á grindina þá ber hann 13% gjald. Þá getur eitt og annað í þessum efnum orkað tvímælis þá gjört er og það sem talið var rétt og satt einn daginn orðið úrelt og vitlaust þann næsta. Ég get sjálfur nefnt sem dæmi að maður hefur séð það í öðrum löndum hvernig virðisaukaskattsreglurnar geta komið einkennilega út. Við sjáum fínustu tegundir af dýrum jeppum til dæmis í Kaupmannahöfn með sérstakri grind og engin sæti aftur í vegna þess að þá geta menn verið á virðisaukaskattsbíl og verið á þessum fína bíl með tveimur sætum sem er framleiddur sem fimm manna bíll. Þetta hefur greinilega allt áhrif þegar upp er staðið á mannlega hegðun.

Hér erum við líka að ræða íblöndunarefni eldsneytis sem ekki er af jarðefnauppruna, jafnan undanþegin sköttum á eldsneyti með vísan til þess að þau séu kolvetnishlutlaus við brennslu. Hins vegar hafa komið fram ábendingar um að jarðefnaeldsneyti sé brennt við framleiðslu sumra íblöndunarefnanna og kolvetnishlutleysi þeirra því dregið í efa.

Um þetta allt vil ég bara segja samantekið: Ég hef talið fulla endurskoðunarþörf til staðar á núverandi löggjöf um skattlagningu bæði ökutækja og eldsneytis og þess vegna kom ég á fót starfshópi fyrr á árinu. Honum er ætlað að rannsaka núverandi skattkerfi og framkvæmd skattlagningar, gera tillögu að framtíðarstefnu stjórnvalda hvað skattlagninguna varðar og leggja til breytingar á gildandi löggjöf. Ég vænti þess að ég fái tillögur um mitt sumar. Stefnan er sú að stuðla að einföldu og skilvirku skattkerfi með jafnræði og gegnsæi að leiðarljósi þar sem stuðlað sé að orkusparnaði. Mér finnst það þurfi að vera hluti af stefnu okkar að sé dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og annarra skaðlegra efna eins langt og hægt er að ganga í þeim efnum, verði vægi skattlagningar á öflun og eigna ökutækja örlítið minnkað, það er uppleggið, og engu að síður að ríkissjóði verði tryggðar skatttekjur í eðlilegu samræmi við uppbyggingu og viðhalds samgöngumannvirkja.

Ætli ekki sé hægt að segja í framhaldi af þessu að öll þau dæmi sem við höfum fyrir framan okkur í dag sýni að þótt menn hafi með góðum hug verið að reyna að ívilna hinum og þessum þá séu dæmin orðin óskaplega skrýtin. Lágt ökugjald á vörubifreiðar er til dæmis til þess að efla þann þjónustuþátt í samfélaginu og gera mönnum auðveldara að koma sér upp atvinnutækjum, en munurinn á (Forseti hringir.) vörugjöldunum sem þar er um að ræða og þeim sem einstaklingar sitja uppi með er orðinn of æpandi, sem aftur leiðir til þess að menn fara þá að stofna hlutafélag um eigin bifreiðakaup og skatturinn eyðir miklu púðri í að elta þetta (Forseti hringir.) allt saman uppi til að ganga úr skugga um að rétt sé greint frá.



[14:52]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Það er alveg rétt sem hér hefur verið sagt að það er oft gott að staldra við og fara í gegnum skattafrumskóginn og mögulega grisja úr eða laga til og sameina flokka o.s.frv. Það er eitt verkefni, það er tiltektarverkefni sem ég held að allir sem setið hafa í Stjórnarráðinu þekki að einhverju leyti. En síðan er stóra verkefnið að vera með einhverja stefnu í þessum málaflokkum. Það er það sem skort hefur hér.

Við settum á laggirnar og unnum eftir stefnu á síðasta kjörtímabili. Það var orkuskiptaáætlun í samgöngum sem Græna orkan byggir á, en hún er klasasamstarf um orkuskiptaverkefni sem enn er í gangi. Hún á mikinn þátt í þeirri stefnumótun sem unnin var á síðasta kjörtímabili. Mér hefur þótt miður að heyra lítið um þá áætlun núna, það er einhvern veginn eins og við náum aldrei að láta svona verkefni sem fara af stað af einhverjum krafti lifa fram yfir ríkisstjórnarskipti.

Það eru engin trúarbrögð á ferðinni neins staðar. Það eru allir að reyna að nálgast þetta verkefni með raunsæjum hætti. Ég held að ef við settumst niður og reyndum að taka þetta verkefni alvarlega svona einu sinni gætum við farið að ná árangri eins og t.d. Norðmenn. Í Noregi voru tveir af hverjum þremur seldum nýjum bifreiðum í mars tvinn- eða rafbílar. Það er vegna þess að þeir hafa tekið ákvörðun um að beita gjalda- og skattkerfinu til þess að ná þeirri niðurstöðu.

Ef við viljum fara þá leið eigum við fyrirmyndir á því sviði. Það er hægt að gera þetta. Við höfum bara gefið í og dregið úr eftir því sem nýjar ríkisstjórnir koma. Því þurfum við að breyta.

Ég skil ekki heldur andstöðuna við skattlagningu á mengandi ökutæki eða mengandi iðnað, það er einhver sú skilvirkasta skattlagning sem fyrir finnst.

Enn og aftur (Forseti hringir.) hvet ég til þess að menn setjist nú niður og horfi á það sem gert hefur verið, þá stefnu sem mörkuð hefur verið, og reyni að vinna úr því einhverja almennilega framtíðarsýn.



[14:54]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er eðlilegt að skattar á bíla taki mið af umhverfinu, notkun á vegakerfi landsins og losun gróðurhúsalofttegunda. Fyrst og fremst hefur verið litið til vélarstærðar við álagningu innflutningsgjalda og þunga ökutækja við álagningu bifreiðagjalda. Á síðasta kjörtímabili voru stigin stór skref í þá átt að láta bifreiða- og vörugjöld endurspegla losun gróðurhúsalofttegunda. Eðlilegt er að vörugjöldin lækki áfram á neyslugranna bíla og að engin vörugjöld leggist á rafmagns- og tvinnbíla og að umhverfisvæn ökutæki almennt beri lægri vörugjöld og vask.

Eftir þær breytingar sem gerðar voru fyrir fimm árum, að vörugjöld á bíla tækju mið af útblæstri á koltvísýringi, hefur verð á minni og umhverfisvænum bílum lækkað en hækkað á stórum bensínhákum. Mér finnst mikilvægt að stjórnvöld fylgi eftir heildstæðri stefnu í skattlagningu bifreiða sem taki mið af því að auðvelda almenningi að endurnýja ökutæki sitt þannig að það sé umhverfisvænt. Í dag er það ekki á færi efnaminni fólks að fjárfesta í nýlegum umhverfisvænum bílum. Minnstu bílarnir sem eru á lægra verði henta ekki við erfiðar aðstæður, t.d. í snjóþunga víða á landsbyggðinni. Veruleikinn er sá að aðstæður og fjölskyldustærð krefjast oft stærri bíla sem eru dýrir. Tekjulægra fólk situr uppi með eldri bíla sem menga meira og nýtur ekki þeirra tækniframfara í þeim sparneytnu bílum sem eru komnir á markað í dag. Mér finnst mikilvægt að stjórnvöld vinni eftir heildarstefnumótun um skattlagningu ökutækja og eldsneytis þar sem horft verði til markmiða í loftslagsmálum, umhverfisvænni samgangna og vistvænni ökutækja.

Að lokum vil ég benda á að gjaldtaka af eldsneyti (Forseti hringir.) á að fara í það fyrst og fremst að bæta samgöngur í landinu.



[14:57]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari umræðu. Í samgöngum og ökutækjaframleiðslu er gríðarleg þróun um þessar mundir og hefur verið í nokkur ár. Þess vegna er bæði rétt og skylt að fara yfir þær reglur sem ríkið setur þegnum sínum um gjöld af ökutækjum. Þróunin sem orðið hefur í orkusparandi bensínvélum er til dæmis mjög athyglisverð. Það þótti gott í gamla daga þegar 100 hestöfl náðust út úr einum lítra sprengirýmis en sú tala er löngu sprungin og menn ná núna miklu fleiri hestöflum út úr einum lítra á sprengihreyfli bensínbíla.

Dísilbílavæðingin, sem hefur bæði verið hér og í Evrópu, er að mörgu leyti ofmat vegna þess að sótið sem fylgir útblæstrinum þar er stórhættulegt. Staðreyndin er sú að í borgarumferð má segja að þeir sem gangandi eru eða hjólandi séu útsettir fyrir sóti sem er svo fínt að það sest neðst ofan í lungu fólks og veldur þar stórskaða. Við þurfum því að horfa til ýmissa hluta þegar við erum að tala um gjaldtöku af ökutækjum, en að sjálfsögðu eigum við fyrst og fremst að horfa til einföldunar og við eigum að horfa til þess að hér á landi þar sem er nóg til af rafmagni eigum við náttúrlega að beina kaupum og endurnýjun á bílaflotanum í rafmagns- og tvinnbíla og spara líka með því gjaldeyri í innflutningi á eldsneyti. Að auki er til vansa að almenningssamgöngur skuli ekki nota rafmagn og metan meira en gert er í dag.

Það sem við þurfum að gera er að einfalda þetta kerfi og beina gjaldtökunni þannig að rafmagnsbílar og orkusparandi bílar beri minni gjöld en aðrir.



[14:59]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir orð málshefjanda um að flækjustigið sé ansi mikið í þessum geira. Það er ekki rétt stefna að stýra fólki í átt að dísilbílum. Það sem við eigum að gera, það sem okkur hefur mistekist að einhverju leyti, er að beina fólki í að kaupa umhverfisvæna bíla eða nýorkubíla, ef við viljum kalla það svo. Okkur gengur mjög hægt hvað það varðar og það eru mikil vonbrigði að sjá að ráðherrar ganga ekki fram með góðu fordæmi í opinberum innkaupum. Mér finnst það ámælisvert vegna þess að í fjármálaáætlun sem nýverið var lögð hér fram kemur fram það markmið að árið 2020 sé hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum 10%. Þá þurfum við að fara að spýta í lófana.

Ég hef ekki sömu áhyggjur og málshefjandi af þessari 5%-reglu um íblöndun lífdísilolíu í eldsneyti. Það hafa orðið breytingar þarna á. Það er farið að gera miklu meiri kröfur um það hvaðan þessi lífdísill kemur. Það eru sjálfbærniviðmið sem taka þarf tillit til og þar fram eftir götunum. Við skulum ekki gleyma því að þegar við erum að tala um þessi 5%, sem við höfum samt sem áður áhyggjur af, þá standa eftir 95% af jarðefnaeldsneyti. Við setjum ekkert spurningarmerki við það hvar olíuhreinsistöðin er, þar er engin sjálfbærnimæling, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) það er bara gæðaviðmið hvað það varðar.

Mig langar líka að benda öllum þeim sem er illa við að borga skatta á að kaupa rafbíla. Þá sleppa menn við toll, bensíngjald, sérstakt bensíngjald, kolefnisskatt og borga lægri bifreiðagjöld. Ég skil ekki af hverju allir sjálfstæðismenn keyra ekki um á rafbílum.



[15:01]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að þessi umræða er ívið áhugaverðari en ég bjóst við að hún yrði þegar ég sá hana á dagskránni. Mér þykja sum þessi vandamál sem hv. framsögumaður og hæstv. ráðherra nefna kjánaleg. Mér finnst þau vera einkenni þess að fólk reynir oft að setja reglur sem í fljótu bragði virðast mjög góðar en gleymir því að reglurnar sjálfar hafa áhrif á hegðun fólks og þar af leiðandi útkomuna og geta haft afleiðingar sem ekki voru upprunalegt markmið. Það þekkjum við svo sem af því að breyta hlutum í samfélaginu yfir höfuð.

En auðvitað er stór réttlæting fyrir hlutum eins og kolefnisgjaldi og því um líku sú að bensín og olía í víðu samhengi í samfélaginu er ákveðið vandamál, fíkn samfélagsins í þessi efni er vandamál. Hún er ekki bara loftslagsvandamál, hún er geo-pólitískt vandamál. Þegar við hugsum 100 ár fram í tímann eigum við að mínu mati að stefna að því að skipta út þessu efni fyrir annað sem er notað til þess að knýja áfram bíla og margt annað í samfélaginu líka. Það þýðir í stuttu máli rafbílavæðingu, til lengri tíma. Svo er hægt að fara milliskref með til dæmis metani eða einhverju því um líku. En til lengri tíma lít ég svo á að rafbílavæðing sé eina leiðin.

Það er mikilvægt að við höfum í huga að ekki er hægt að búast við því að það vandamál verði leyst á markaðsforsendum. Þar verðum við að stíga inn í með einhverjum hætti. Það getur þýtt skattlagningu á bensín og olíu. Það þarf ekki endilega að þýða að við notum þá aðferð fyrst og fremst heldur miklu frekar jákvæðar aðferðir gagnvart því að taka upp aðrar leiðir til að knýja ökutæki, svo sem rafmagn eða metan til skemmri tíma eða hvað sem er.

Mig langar að minnast á ræðu mína um fyrra umræðuefnið nú í dag, þegar kemur að einföldun skattkerfisins. Ég held að hægt væri að ná fram miklum bótum (Forseti hringir.) og einföldun í skattkerfinu með því að setja það í heild sinni fram á þann hátt að það sé auðveldara fyrir aðra en þá sem sérhæfa sig í tilteknum málaflokki að kynna sér það og koma með tillögur að úrbótum.



[15:04]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta áhugaverð umræða sömuleiðis, ég held að við verðum nefnilega að horfa á stóru myndina. Ef við ætlum að ráðast í það verkefni að minnka losun gróðurhúsalofttegunda þurfum við að grípa til alvöruaðgerða; alvöruaðgerða sem ríki hafa gripið til, eins og Norðmenn sem ég nefndi áðan, með góðum árangri. Í Hollandi er verið að ræða um að banna sölu bifreiða annarra en raf- og vetnisbíla eða þeirra sem ekki gefa frá sér gróðurhúsalofttegundir. Svo eru átta fylki í Norður-Ameríku sem hafa tekið ákvörðun um að reyna að vera laus við slíkar bifreiðar fyrir árið 2050. Þetta eru alvörumarkmið og ég sakna þess svolítið að við setjumst ekki niður og setjum okkur slík markmið. Ég held að við ættum vel að geta gert það, markað okkur stefnu og unnið eftir henni. Tiltekt í gjöldunum er eitthvað sem hæstv. fjármálaráðherra getur farið í og skoðað en þessi stefnumörkun þarf að eiga sér stað þvert á alla flokka vegna þess að hún verður að halda fram yfir kosningar. Hún verður að halda milli ólíkra ríkisstjórna vegna þess að við þurfum að reyna að halda kúrsi í þessu.

Ég er ekki alveg sammála þeim sem talaði á undan mér, hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni, um að við eigum ekki að láta markaðinn leysa þessi mál að öllu leyti. Ég held að hann eigi að leysa flest þessi vandamál. Hann á til dæmis að leysa hvaða tækni við notum; við eigum ekki að taka ákvörðun um að hér eigi bara að vera rafbílar eða bara svona bílar, markaðurinn hlýtur að sjá um þá hluti. Það er ekki stjórnvalda að taka beinlínis ákvörðun um það. En það er okkar að búa til hvatana með því að segja, eins og Norðmenn hafa gert, að bílar eða ökutæki sem losa ekki gróðurhúsalofttegundir séu skattfrjáls þangað til við höfum náð einhverjum tilteknum árangri. Þá getum við endurskoðað skattumhverfið. Ég held að það sé mjög brýnt að við gerum þetta, að búa til öflugt hvatakerfi í þessu sem er þá gagnsærra og svarar líka kröfum hv. þingmanns sem hóf þessa umræðu.



[15:06]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég get tekið undir það að viss þörf er og hefur verið á heildarendurskoðun skattlagningar á umferð en þó miklu frekar á heildstæða framtíðarstefnumörkun. Nú er það svo að á síðasta kjörtímabili var þessi skattlagning tekin í gegn og öll gerð grænni. Fram að þeim tíma var skattkerfið einhverjum árum á undan orðið mjög forneskjulegt borið saman við önnur lönd. Þetta var gert með upptöku kolefnisgjalds. Þetta var gert með því að gera koltvísýringslosun að andlagi, bæði aðflutningsgjalda og bifreiðagjalda. Þetta var gert með því að ívilna sérstaklega og í raun og veru gera skattfrjálsa notkun á hreinum eða umhverfisvænum orkugjöfum eins og rafmagni, metani, vetni eða öðru slíku.

Hvað varðar verðlagningu á dísilolíu annars vegar og bensíni hins vegar þá fór Ísland að þessu leyti alveg sömu leið og önnur nálæg lönd. Það á sér góð og gild efnisleg rök. Það var þannig að framfarir í sparneytni dísilvéla voru á undan sparneytni í bensínvélum. Það er líka þannig, og það varðar Ísland sérstaklega, að stóru aflvélarnar í flutningabílum og slíku eru nánast alfarið dísilvélar. Nægur þykir nú flutningskostnaðurinn á Íslandi samt. Þannig að það voru og eru að því leyti til áfram gild rök fyrir þessu. En ég skal viðurkenna að athygli núna á seinni missirum hefur farið að beinast í meira mæli að sótmenguninni, þá er það eitthvað sem við skoðum og bregðumst við eftir atvikum.

Stóra framtíðarverkefnið á þessu sviði, og ég veit að hæstv. fjármálaráðherra er að líta á það, er auðvitað það að eftir því sem hlutur umhverfisvænna orkugjafa vex í umferðinni verður fyrr eða síðar ekki hjá því komist að sá hluti umferðarinnar fari einnig að taka á sig nokkurn kostnað til að fjármagna innviði samgöngukerfisins. Þessa stefnu þarf að móta langt fram í tímann. Við þurfum að setja okkur ákveðin markmið um hlutföll eða annað slíkt í þeim efnum, hvenær við byrjum aðeins að færa skatta yfir á rafbíla, metanbíla, vetnisbíla hvað það nú verður, (Forseti hringir.) en það þarf að vera fyrirsjáanleiki í þessu og er ekkert svona kjaftæði um að stjórnvöld eigi ekki að reyna að stýra þessu eftir bestu (Forseti hringir.) vitund og hafa einhverja umhverfismeðvitund þegar verið er að móta stefnuna í þessum efnum.



[15:09]
Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigríði Á. Andersen fyrir þessa góðu og þörfu umræðu. Við undirbúning á þessari umræðu bar ég saman samgönguáætlun og frumvarp til fjárlaga fyrir 2016; samgönguáætlun sem við í umhverfis- og samgöngunefnd erum að vinna með núna. Í samgönguáætlun eru aðallega þrír liðir, sérstakur virðisaukaskattur á bensíni, olíugjald, og svo kílómetragjald eða þungaskattur, þetta eru um 20,5 milljarðar. Þetta er uppistaðan í samgönguáætlun. Það sem er ekki í samgönguáætlun er bifreiðagjald upp á 7 milljarða, virðisaukaskattur af bensíni upp á 4,7 milljarða og virðisaukaskattur af bílum upp á tæpa 7,2 milljarða, að öðrum ótöldum gjöldum í kringum varahluti, hjólbarða o.fl.

Mér finnst óeðlilegt að vera að rukka bifreiðaeigendur um þessar gríðarlegu fjárhæðir og að þær skuli ekki renna í samgöngukerfið okkar. Ég held að það sé komin full þörf á því að taka gjaldstofnana til endurskoðunar og hvert þeir renna. Ég held að það sé allt í lagi að hafa þá mikla, hafa þá einfalda, en að þeir muni þá allir renna í uppbyggingu og viðhald á samgöngukerfinu en ekki að sækja almenna skattheimtu í vasa bifreiðaeigenda. Ég held að það sé ógegnsætt. Það er sérstakur skattur á landsbyggðina og þá sem keyra mikið, þá sem hafa tvo bíla. Ég legg til að ráðist verði í vinnu við að endurskoða þetta.



[15:11]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Það er svolítið sérstakt að á meðan við ættum í raun og veru að gera allt sem við getum til að hætta að brenna jarðefnaolíum, eldsneyti, þá fögnum við bara þegar verð á eldsneyti lækkar á heimsmarkaði. Mér finnst ekkert óhugsandi að setja þak, segja bara: Bensínlítrinn kostar 300 krónur. Við erum að reyna að gera allt sem við getum til að fá fólk til að nota aðra orkugjafa — þ.e. ef við erum sammála um að það að brenna eldsneyti sé vont og að ógn stafi af gróðurhúsaáhrifum og loftslagsbreytingum í heiminum.

Við gerum þetta til dæmis með áfengi og tóbak. Þá höfum við háa skatta. Það er ekki þannig að þegar vel gengur í Suður-Ameríku, eða hvar þar er sem þeir rækta tóbakslaufin, og tóbakið lækkar í verði, að þá lækki verð á sígarettum. Við höldum verði á þessum vörum háum vegna þess að við viljum að neyslan á þeim sé minni, bara neyslustýring. En við þorum ekki alveg að gera þetta þegar eldsneyti er annars vegar. Ég er ekki endilega að tala fyrir þessu en hin leiðin er þá að vera með verulega ívilnandi aðgerðir til að beina fólki í átt að rafbílum, metanbílum eða öðrum nýorkubílum. Sú stefna hefur verið mörkuð. Ég er ánægð að heyra að hæstv. fjármálaráðherra hefur skilning á því að þarna þurfi að beita hvötum. Við þurfum að gera enn meira. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram um að setja okkur markmið eins og t.d. Hollendingar og Norðmenn gera.

Mér finnst þetta hafa verið góð umræða og skemmtilegri en ég bjóst við. Ég þakka málshefjanda fyrir að setja hana á dagskrá og hvet hæstv. fjármálaráðherra til dáða. Ég mundi vilja sjá miklu meira gert í opinberum innkaupum, þ.e. af hálfu ríkisins. Ég vil ekki lesa enn eina fréttina um að keyptur hafi verið Land Cruiser fyrir einhverja stofnun því að í dag er hægt að fá nýorkubíla af öllum stærðum og gerðum.



[15:13]
Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka öllum þeim hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls.

Hvað er umhverfisvænn bíll? Flestir ræðumenn hafa talað um umhverfisvæna bíla án þess þó að skilgreina sérstaklega hvaða bíll er umhverfisvænni en næsti bíll. (Gripið fram í.) Þótt ég hafi tekið sérstaklega til umfjöllunar dísilbílana sem dæmi um bíla sem menga, gefa frá sér skaðleg efni út frá lýðheilsusjónarmiðum, verður ekki fram hjá því litið að dísilbílar, eins og bensínbílar og aðrir bílar, rafmagnsbílar líka, hafa verið í mikilli þróun. Þeir eru að batna mikið út frá umhverfissjónarmiðum. Allir þessir bílar menga minna en þeir gerðu fyrir nokkrum árum og sú þróun heldur áfram. Það er mikilvægt að sú þróun fái að halda áfram án inngripa stjórnmálamanna, þeirra sem telja sig vita betur. Þessi þróun þarf að fá að eiga sér stað í sátt og samvinnu við bæði markaðinn og vísindin. Það er þess vegna sem ég vek athygli á þeirri grímulausu neyslustýringu sem á sér hér stað við skattlagningu á bílum og eldsneyti.

Menn hafa nefnt rafmagnsbílana sérstaklega og spurðu: Af hverju keyra sjálfstæðismenn ekki á rafmagnsbílum, af því að það eru engir skattar á rafmagnsbílum? Það vakti athygli mína í nýjum tölum um nýskráningar bifreiða að rafmagnsbílar eru einungis innan við 1% af nýskráningu. Samt eru engin vörugjöld á rafmagnsbílum, og verulegur afsláttur gefinn af virðisaukaskatti. Af hverju er það? Ég veit þó að efnameira fólk er að kaupa þessa bíla. Þess vegna er þessi niðurgreiðsla á rafmagnsbílum niðurgreiðsla til efnameira fólks hér á Íslandi.

Ég vil að lokum þakka fyrir þessa umræðu og fagna því að hæstv. ráðherra er að vinna í þessum málum og hefur skipað starfshóp. Ég vil fá að leggja áherslu á að stefnumörkun og lagasetning í þessum málum á auðvitað að koma frá löggjafanum en ekki embættismönnum. (Forseti hringir.) Sá þingmaður sem hér stendur vill að þróunin verði sú að dregið verði úr neyslustýringu, að einfalda kerfið til dæmis með því að hafa eitt vörugjald á alla bíla.



[15:15]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég var hér í þingsal fyrir nokkrum árum þegar við breyttum gjöldunum á eldsneyti. Við gerðum það þá undir þeim formerkjum að nýjustu vísindi sýndu okkur að dísileldsneyti væri umhverfisvænna en bensínið. Við enduðum þá með því að lækka álögur á dísil vegna þess sérstaklega að þá var heimsmarkaðsverðið á dísil orðið svo hátt á móti bensíninu. Síðan hefur það snúist við. Nú er dísill töluvert ódýrara eldsneyti en bensínið. Í millitíðinni eru að berast nýjustu tíðindi um að sótið frá dísil sé skaðlegra, sérstaklega í þéttbýlinu, og sums staðar eru dísilbílar jafnvel bannaðir í dag. Ég nefni þetta bara sem dæmi um það að við þurfum að vanda okkur og sérstaklega þegar kemur að því að taka ákvörðun um að mismuna einni eldsneytistegund umfram aðra.

Ég tek undir með hv. málshefjanda varðandi vörugjöld á bifreiðar fyrir einstaklinga. Mér finnst bilið milli hæsta vörugjalds og lægsta vera óeðlilega lágt og þrepin óeðlilega mörg. Í þessari stefnu felst líka sú ákvörðun að marka Íslandi sess með þeim löndum þar sem bílar eru hvað dýrastir í heiminum. Það er slík neyslustýring sem við erum með hér á Íslandi. Það eru eingöngu örfá önnur lönd þar sem bílar eru jafn dýrir og hér. Við getum tekið dæmi; hvort sem við færum vestur yfir haf eða til landa eins og Þýskalands, inn á meginland Evrópu, þá er nánast hægt að taka hvaða meðalbíl sem er og fullyrða að hann kostar upp undir helmingi meira á Íslandi. Þarf þetta endilega að vera þannig? Þurfum við svona grimma neyslustýringu? Ég er ekki viss um það.

Það sem ég vonast til þess að gerist, eins og margir sem hafa tekið þátt í umræðunni, er að við sjáum áframhaldandi hraða þróun í rafbílum þannig að þeir verði klárlega umhverfisvænni, og þá erum við kannski ekki síst að horfa til rafgeymanna sem knýja þá áfram, að þeir verði jafn góður valkostur fyrir lengri vegalengdir og að við náum þannig markmiðum okkar um að draga úr losun og að þeir geti keppt án sérstakra ívilnana við aðrar bifreiðar. Þetta væri mjög æskileg þróun og vonandi (Forseti hringir.) náum við þeim markmiðum.

En að lokum um losunina (Forseti hringir.) skulum við alltaf muna að okkar vandi varðandi losun er ekki mestur af bifreiðaflotanum þó að bifreiðaflotinn eigi þar þátt að máli, hann er mestur á (Forseti hringir.) öðrum sviðum og þar hefur þurrkun lands mest haft skaðleg áhrif.