145. löggjafarþing — 119. fundur
 26. maí 2016.
stjórn fiskveiða, 1. umræða.
frv. atvinnuvn., 786. mál (byggðakvóti og framlenging bráðabirgðaákvæða). — Þskj. 1343.

[18:18]
Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, byggðakvóti og framlenging bráðabirgðaákvæða. Þetta frumvarp til laga leggur atvinnuveganefnd fram.

1. gr. hljóðar svo:

Á eftir 10. gr. laganna kemur nýtt ákvæði, 10. gr. a, svohljóðandi:

Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar aflaheimildir sem ráðherra ákvarðar samkvæmt heimild í 5. mgr. 8. gr. til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Byggðastofnun getur gert samninga við fiskvinnslur eða útgerðarfélög til allt að sex ára í senn. Byggðastofnun skal hafa samráð við sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags áður en samningur er undirritaður. Aflaheimildir skulu vera í þorski, ýsu, steinbít og ufsa í hlutfalli við leyfðan heildarafla af þessum tegundum. Aflaheimildir þessar miðast við þorskígildi og skulu þær dregnar frá með sama hætti og greinir í 3. mgr. 8. gr. laganna, sbr. 5. mgr. sömu greinar. Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum Byggðastofnunar, að setja nánari ákvæði um framkvæmd þessa ákvæðis í reglugerð, svo sem efni samnings, skilyrði og tímalengd.

Þá er það 2. gr.:

Ákvæði til bráðabirgða V, XIII, XIV og XV í lögunum falla brott.

3. gr. Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða VII í lögunum:

a. Í stað ártalanna „2014/2015“ í 1. málslið. 1. mgr., sbr. 10. gr. laga nr. 48/2014, kemur: 2016/2017.

b. Í stað orðanna „innan mánaðar“ í 2. málslið. 1. mgr., sbr. 2. gr. laga nr. 74/2010, kemur: mánuði.

4. gr. Í stað ártalanna „2015/2016“ í 1. mgr. ákvæði til bráðabirgða VIII í lögunum kemur: 2016/2017.

5. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum sem eru til bráðabirgða í lögunum. Í 1. gr. er lagt til að lögfest verði sem 10. gr. a laganna ákvæði um byggðakvóta Byggðastofnunar vegna brothættra byggða sem nú er í bráðabirgðaákvæði XIII. Jafnframt er lagt til að bráðabirgðaákvæðið falli brott. Reynslan hefur sýnt að þörf er á slíkum stuðningi fyrir þau byggðarlög sem flokkast sem brothætt byggðarlög og hefur þessi sérstaka úthlutun þótt skila góðum árangri.

Einnig er lagt til að þrjú önnur ákvæði til bráðabirgða í lögunum verði felld brott þar sem þau eiga ekki lengur við, þ.e. ákvæði til bráðabirgða V, XIV, XV. Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að framlengd sé til lok næsta fiskveiðiárs heimild ráðherra í ákvæði til bráðabirgða VII til að hafa afskipti af því þegar aflaheimildir eru framseldar eða þeim ráðstafað með öðrum hætti úr sveitarfélögum ef um er að ræða umtalsverðan hluta aflaheimilda viðkomandi sveitarfélags. Einnig er lagt til að orðalag í því ákvæði verði lagfært. Að lokum er lagt til að ákvæði VIII til bráðabirgða um heimild ráðherra til að ráðstafa síld, þ.e. sumargotssíld og norsk-íslenskri síld, gegn greiðslu verði framlengt til næsta fiskveiðiárs.

Svona lítur þetta frumvarp út. Það er kannski ekki mikill fiskur á þessu beini en munar mikið um að Byggðastofnun fái þarna möguleika á að fá auknar aflaheimildir til ráðstöfunar. Það er auðvitað mjög mikilvægt. Við þekkjum þann sérstaka Byggðastofnunarkvóta sem stofnunin hefur haft til að ráðstafa til brothættra byggða. Það hefur tekist mjög vel til og sýnir fram á að slíkar ráðstafanir geti hjálpað byggðarlögum sem standa frammi fyrir vanda í atvinnu vegna þess að aflaheimildir hafa verið seldar í burtu og það er erfitt að halda uppi atvinnu, fiskvinnslu og sjávarútvegi. Þetta er verkefni sem hefur verið gengið í og byrjaði á síðasta kjörtímabili og hefur í ljósi reynslunnar verið mjög verðmætt, það hefur sýnt sig að þetta skilar árangri. En það er líka nauðsynlegt að þá séu nægar aflaheimildir upp á að hlaupa hjá Byggðastofnun þegar eitthvert byggðarlag lendir í vanda, svo að hægt sé að ráðstafa þeim aflaheimildum til þeirra aðgerða sem ég tel að skili sér margfalt til baka, eins og sýnt hefur verið fram á.

Auðvitað er líka alvarlegt að hlutirnir séu komnir í þann farveg að grípa þurfi til þessara ráðstafana. Þá getum við velt því fyrir okkur hverjar afleiðingar kvótakerfisins eru og hafa verið í gegnum tíðina. Byggðarlög sem voru árum áður í blússandi uppgangi og fólk flutti til til að starfa til sjós og lands eru komin í þá stöðu að þurfa að leita ásjár hjá stjórnvöldum og til Byggðastofnunar sem hefur haft það verkefni með höndum að reyna að styðja þessi byggðarlög svo að þau geti orðið sjálfbjarga og sjálfbær. Það er það sem verið er að gera hérna, en maður hefði viljað að ekki hefði þurft að grípa til slíkra aðgerða, að hlutirnir væru þannig og stjórn fiskveiða væri þannig að byggðirnar gætu einar og óstuddar gengið í það að draga fisk úr sjó og vinna aflann í landi og það gengi eðlilega fyrir sig.

Þau stjórnvöld sem hafa ráðið ferðinni að mestu síðustu 20 ár styðja það grimma kvótakerfi sem við búum við og það óhefta framsal sem hefur farið mjög illa með byggðirnar og hefur leitt til þessa gífurlega vanda sem margar þeirra standa frammi fyrir og til fólksflutnings frá byggðunum. Byggðastofnun þekkir þær tölur allar, hversu mikil fækkun hefur orðið á 20 árum í mörgum sjávarbyggðum. Ég hef alltaf sagt að það eigi að gera samfélagslega úttekt á sjávarbyggðunum, af hverju þau eru komin í þá erfiðu stöðu sem þau eru komin í. Það er ekki eingöngu hægt að skýra þá stöðu með því að þróunin sé í þá átt að fólk sæki á höfuðborgarsvæðið og hafi ekki áhuga á að búa á þessum stöðum, vegna þess að ef grunnurinn er í lagi og innviðirnir eru í lagi og það sem byggðarlögin hafa byggt á í gegnum tíðina, sjávarútvegurinn, ef það fær að vaxa og dafna í friði byggist upp fjölbreytt atvinnustarfsemi í byggðarlögunum. Ungt fólk sem fer og sækir sér menntun hefur þá áhuga á að koma aftur í byggðarlag sitt og nýta menntun sína til að byggja upp gott samfélag. En þá þurfa samfélögin að njóta þeirra auðlinda sem eru við bæjardyrnar, eins og við segjum stundum, og hafa möguleika á að nýta þann rétt, þann frumbyggjarétt sem þau byggðarlög byggðust upp í kringum, en þurfa ekki að versla við einhverja sem hafa yfir aflaheimildum að ráða til þess að geta sótt sjó.

Hlutirnir hafa þróast þannig að aflaheimildirnar hafa þjappast saman hafa frá því að kvótakerfið var sett á, safnast saman á fárra manna hendur. Það eru fáir aðilar sem geta drottnað og deilt í þeim efnum. Síðan eru það hinir smáu sem hafa orðið undir í þessari samkeppni, sem eru að reyna að bjarga sér og leigja af öðrum sem eiga aflaheimildir, aflamark, á háu verði. Það verð er oft ekkert í takt við það verð sem sjómaðurinn fær síðan þegar hann selur afla sinn, hvort sem er á markaði eða til fiskvinnslunnar í heimabyggð sem hann leggur upp hjá.

Ég hef talað fyrir því ásamt fleiri hv. þingmönnum að byggja upp öflugan leigupott þar sem þeir sem hafa hug á því að byggja upp útgerð og stunda sjómennsku hafa það atvinnufrelsi að geta sótt í þann leigupott og þá sé einhver eðlileg verðmyndun. Það er miklu eðlilegra og hægt að segja að það sé sjálfsagður hlutur að greiða leigu sem rennur til samfélagsins, frekar en að greiða stórútgerð aðgang að fiskimiðunum eins og er í dag.

Menn hafa talað fyrir ýmsum leiðum. Mér skilst að Færeyingar tali í dag um að bjóða upp aflaheimildir. Ég hef ekki talað fyrir því að það eigi óheft að bjóða upp allar aflaheimildir á Íslandsmiðum því að þá göngum við markaðslögmálunum alfarið á hönd. Ég tel að líka þurfi horfa á fiskveiðistjórnarkerfið út frá félagslegum sjónarmiðum. Byggðirnar vítt og breitt um landið sem eiga mikið undir sjávarútvegi eru ekki í stakk búnar til að keppa við öfluga aðila sem hafa mikið aðgengi að fjármagni og geta haft forskot í að bjóða í aflaheimildir og sópað þeim til sín. Ég hræðist því þá hugsun að allur afli yrði settur í uppboðsmarkað, eins og ég hef heyrt frá mörgum stjórnmálaflokkum, síðast frá nýjum stjórnmálaflokki sem ætlar að bjóða landsmönnum upp á viðreisn. Ég veit ekki hvort sú viðreisn verður endilega viðreisn fyrir landsbyggðina en Viðreisn, þessi nýi stjórnmálaflokkur, talar fyrir því að allar aflaheimildir fari á uppboð, þannig ráðist verðið á þeim markaði. Ég tel að smærri sjávarbyggðum og minni útgerðum og meðalútgerðum sé enginn greiði gerður með óheftum markaði þar sem allar aflaheimildir fara á uppboð.

En að taka einhverja slíka breytu inn í aðrar útfærslur á fiskveiðistjórnarkerfinu tel ég vel vera til skoðunar og hef talað fyrir því. Það frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða sem lá tilbúið fyrir á síðasta kjörtímabili gerði ráð fyrir því að meðfram leyfum til útgerðaraðila sem núna eru með aflamark, leyfum miðað við ákveðin skilyrði til lengri tíma, og að það yrði ekki óheft framsal, yrði í boði af hálfu ríkisins öflugur leigupottur sem mundi vaxa með árunum og taka mið af auknum afla á Íslandsmiðum, þannig að aukningin rynni að hluta í þennan pott jafnframt því sem hún rynni til þeirra sem hefðu þá leyfi til einhverra x margra ára, sem væru endurskoðuð eftir einhvern ákveðinn tíma.

Þetta stóra mál hefur verið bitbein hér í fjölda ára og sitt sýnist hverjum. Það má segja að þegar svona kerfi hefur verið lengi við lýði sé gífurlega erfitt að hrófla við því. Hagsmunatengslin eru svo mikil og allt krosstengt í bak og fyrir inn í bankastofnanir og til stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna sem eru ráðandi á markaði. Það eru allir skíthræddir við að hrófla eitthvað við því. Stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtæki hafa í skjóli aðgangs að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og sterkrar stöðu í atvinnusköpun á ákveðnum svæðum komið mjög sterk hér fram frá síðasta kjörtímabili, eins og við þekkjum, og mótmælt því að lýðræðislega kjörnir fulltrúar geri breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Forsvarsmenn stórútgerða í landinu söfnuðu saman fólki úr sínum röðum, þótt ég haldi reyndar að ekki hafi endilega allir verið svo glaðir með að vera smalað á Austurvöll til að mótmæla breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu og veiðigjöldum. En það vakti mjög hörð viðbrögð þegar átti að fara að hreyfa við fiskveiðistjórnarkerfinu og leggja á auðlindarentu. Menn risu upp á afturlappirnar með að ég vil segja fjármálakerfið með sér og stóru útgerðirnar. Ég segi ekki að menn hafi legið undir hótunum en það gerðist sem við óttuðumst að sú mikla alda sem reis gegn öllum breytingum frá fjársterkum aðilum olli því að breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu í lok síðasta kjörtímabils voru stoppaðar. Menn lögðust á sveif með þessum aðilum, minni hlutinn á Alþingi þá, þeir sem sitja nú í stjórnarmeirihluta, lagði því lið og stoppaði það af að gerðar yrðu þær breytingar sem ég tel að hefðu orðið mjög til bóta. Þær hefðu vissulega verið ákveðin málamiðlun en ef þær hefðu verið samþykktar hefði ótal sjónarmiðum verið mætt úr öllum áttum. Auðvitað er það þannig að enginn nær sínu fullkomlega fram, sama hvað það er, og ef eitthvað á að standa til lengri tíma þarf að gera málamiðlun. Ég tel að í því frumvarpi hafi falist mikil tækifæri fyrir nýliðun og möguleika á nýliðun og opnun á að þeir sem eru litlir í dag og berjast í því að halda útgerð sinni gangandi og leigja öðrum hefðu haft tækifæri til að leigja úr leigupotti ríkisins og byggja sig upp og koma sér betur fyrir. Aðgengi að sjávarútvegi hefði verið miklu meira en það er í dag.

Það eru fyrst og fremst ungir menn sem stunda sjó þótt það sé til undantekning á því. Núna mennta ungir menn sig, fara í vélstjórn og Stýrimannaskólann og mennta sig til þess að gera út og hafa stjórn á stórum bátum og skipum. Þeir fara í ýmiss konar skipstjórnarnám og öðlast mismunandi réttindi eftir því hvaða stærð þeir mennta sig til, það er allt frá því að vera með réttindi á strandveiðibáta upp að 12 metrum og upp í millilandaskip. En það unga fólk sem menntar sig svona og hefur áhuga á því að búa í fallegum sjávarbyggðum í kringum landið hefur ekki sömu möguleika og fólk hafði fyrir 20–30 árum á að koma í heimabyggð sína og byggja upp útgerðarfyrirtæki. Menn hafa ekki það fé handa á milli að geta startað því að kaupa varanlegar aflaheimildir til þess að það beri rekstur á minni bát. Það er ekki þannig þegar varanlegt kíló af þorski er á um 2.500–3.000 kr. Það ræður auðvitað enginn við það.

Opnun á kerfið eins og það er í dag var þó gerð og það eru þær strandveiðar sem eru núna í gildi. Ég tel að við þurfum að festa það sem best í sessi með því að laga þar eitthvað til miðað við reynsluna frá því 2009. Það er komin sjö ára reynsla á það kerfi og margt hefur gengið mjög vel og margt mætti laga með hliðsjón af reynslunni. En síðustu ríkisstjórn og okkur sem vorum í meiri hluta á síðasta kjörtímabili tókst þó að gera þá opnun á niðurnjörvað kerfi, sem eru strandveiðar. Það hefur verið gífurlega mikil ánægja með það og margir nýliðar komið þar inn og haft mögulega til að byggja sig upp, þótt auðvitað þyrfti að vera enn greiðari aðgangur að því að leigja aflaheimildir á viðráðanlegu verði.

Í dag er félagslegi hluti fiskveiðistjórnarkerfisins 5,3%, sem ég tel vera allt of lítið. Við í atvinnuveganefnd höfum í marga mánuði, í hátt á annað ár, fjallað um þennan hluta fram og til baka. Núverandi stjórnvöld ætla sér ekkert að auka þann hlut, sem þyrfti vera miklu hærri miðað við óbreytt kerfi til að ýta undir nýliðun og opna á aðgengi að greininni. Kallað hefur verið eftir ótal skýrslum og gögnum og öðru í kringum þetta mál og uppskeran er sú að það stendur til að flytja það mál til eins árs óbreytt að mestu leyti, fyrir utan þá aukningu sem sérstakur kvóti Byggðastofnunar er, sem kemur fram í frumvarpinu sem ég hef mælt fyrir fyrir hönd atvinnuveganefndar.

Við þekkjum það að núverandi ríkisstjórn fór fram með að gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og maður var ekki yfir sig bjartsýnn á að þær breytingar væru þannig að það mundi hugnast a.m.k. þeim sjónarmiðum um breytingar sem ég stend fyrir og Vinstri græn og fleiri í þessu samfélagi. En það frumvarp fór ekki lengra en til stjórnarflokkanna og ég skil það þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki getað fallist á það frumvarp sem þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Sigurður Ingi jóhannsson kynnti samstarfsflokknum. Svo þar endaði það mál. Því var pakkað niður og kannski er það gott vegna þess að ég er hrædd um að það hefði ekki gagnast veikum sjávarbyggðum vítt og breitt um landið eða þeirri nýliðun sem þarf að vera og opnun á kerfið og því atvinnufrelsi sem þarf að vera í greininni. Greinin þarf líka að greiða sanngjarna auðlindarentu, nota bene eftir aðstæðum. Ég tel alveg fráleitt að litlar og meðalstórar útgerðir greiði sambærilegt og þær stærstu gera þar sem myljandi hagnaður er í gangi, þær geta vissulega greitt hærri veiðigjöld eða auðlindarentu til samfélagsins en gert er í dag.

Þessi ríkisstjórn hefur lækkað veiðigjöld. Hún hefur falið sig á bak við að það sé til þess að mæta minni og meðalstórum útgerðum, sem er ekki satt, langt í frá. Þetta hefur verið smurt svona slétt yfir og eftir stendur enn þá sá vandi minni og meðalstórra útgerða að rísa undir veiðigjöldum en stórútgerðin í landinu greiðir sér og hluthöfum sínum gífurlegan arð. Hvar hefur sá arður lent m.a.? Við lásum um það í Panama-skjölunum hvar sá arður lenti, að hluta til hjá ákveðnu fyrirtæki og einstaklingum. Ég er ansi hrædd um að eitthvað meira eigi eftir að koma upp úr þeirri kistu í framtíðinni. Það er ekki gott að upplifa að arðurinn af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar renni eftir ýmsum leiðum út fyrir landsteinana á lágskattasvæði og skili sér ekki til samfélagsins. Á meðan barma útgerðarmenn stórútgerðanna sér og kalla til liðs við sig fólk til að mæta á Austurvöll til þess að berjast gegn öllum réttlátum breytingum á því vonda kvótakerfi sem hefur verið við lýði allt of lengi.

Ég er fylgjandi því að auka sérstakan Byggðastofnunarkvóta og það kemur fram í því frumvarpi sem atvinnuveganefnd leggur fram og ég legg lið. En ég vil gera róttækar breytingar á því fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við í dag og koma tímar og koma ráð. Ég vona að með nýrri ríkisstjórn í haust verði aftur hægt að hefja þá vinnu að gera breytingar á þessu rangláta kvótakerfi.



[18:48]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir deilum að verulegu leyti þeirri skoðun að gera þurfi gagngerar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu til þess að tryggja atvinnu, frelsi, nýliðun, jafnræði og byggð í landinu, en núna erum við að fjalla um bráðabirgðaráðstafanir vegna úthlutunar á þessu örlitla hlutfalli, 5% af heildarkvótanum, sem er til ráðstöfunar fyrir utan kvótakerfið fyrir byggðirnar í landinu. Það er nú ekki mjög drjúgur skerfur, en við þetta hefur náttúrlega þjóðin mátt búa um alllanga hríð.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Á meðan ekki hafa náðst í gegn þær róttæku breytingar sem verða að nást í gegn á fiskveiðistjórnarkerfinu, hvernig telur hún þá að þessum hluta, þessum 5%, verði best ráðstafað þannig að það nýtist byggðunum í landinu? Telur hún að þessi 5% séu nægilega stórt hlutfall? Væri ekki ráð að reyna að ná fram stærri prósentu á þessu?

Komið hefur fram hugmynd sem við lögðum fram í sameiningu á síðasta kjörtímabili, um að reyna að koma á leigupotti með aflaheimildir með fast aflamark að lágmarki, 20 þús. tonn. Ég er enn þá hrifin af þeirri hugmynd, a.m.k. á meðan ekki verða stærri breytingar að það sé þá eitthvað sem byggðirnar geti gengið að. Er hv. þingmaður enn þá þeirrar skoðunar eða telur hún hugsanlega rétt að binda þetta við einhverja fasta prósentu af því aflamagni sem til ráðstöfunar er?



[18:51]
Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hlutfallið sé allt of lágt. En vilji þessarar ríkisstjórnar er að hræra bara í þessum potti og gera alla óánægða. Talað er um að draga úr línuívilnun, breyta hlutföllum í almenna byggðakvótanum, en að strandveiðarnar standi í stað, að ekki verði hægt að horfa á þann pott vaxa áfram þótt aukning verði í tillögum frá Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegsráðherra leggi til aukningu. Núna eru 239 þús. tonn og má búast við tillögum um aukningu seinni partinn í júní, kannski 21 þús. tonn til viðbótar. Þá er það komið í 260 þús. tonn. Ég sé ekki fram á að áhugi verði á því að láta t.d. strandveiðipottinn aukast hlutfallslega í þeim efnum, heldur að það sé eitthvert þak þar. Ég sé voða lítinn tilgang með því að vera að hræra í þessum 3,5% fram og til baka, sem gerir þá sem fyrir eru og treyst hafa á þennan félagslega hluta veikari, þ.e. byggðir og marga sem eru með minni útgerðir og eru í krókaaflamarkskerfinu og reyndar aðra líka. Það þarf bara að stokka allt upp eins og hv. þingmaður veit.

Ég er áfram mjög fylgjandi því að útfæra kerfið þannig að það sé öflugur leigupottur sem vaxi, en þó sé alltaf að lágmarki eitthvert ásættanlegt magn sem fari í hann, en hann taki auðvitað einhverjum sveiflum eftir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og aukningu, stundum getur sveiflan verið niður á við, (Forseti hringir.) en að hlutfallið sé að lágmarki um 15% heildarúthlutunar aflaheimilda.



[18:53]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að hlutfallið er allt of lágt. Sjálfri finnst mér það vera gamaldags pólitík að vera alltaf að stýfa úr hnefa einhverja ölmususkammta sem byggðirnar eiga að geta fengið á meðan þetta stóra óréttláta kerfi er við lýði þar sem aðalverðmætin verða til.

Hver er þá afstaða þingmanns? Ég lít svo á að á meðan ekki næst sátt eða nein niðurstaða um breytingar á stóra kerfinu ætti að reyna að leita einhverra leiða til þess að sjá til þess að t.d. nýjar tegundir verði þá settar á markað þannig að menn eigi þess kost að bjóða í þær, og síðan verði búið þannig um strandveiðarnar að þær verði öflugur valkostur, möguleiki fyrir byggðirnar. Í því sambandi velti ég fyrir mér hvort ekki sé ástæða til þess að skera vel upp strandveiðikerfið og reyna að draga úr þeirri miklu sókn sem gagnrýnd hefur verið þar og kannski reyna að koma á meira skikki og meira jafnræði. Við vitum að það er miklu meiri sókn inn á ákveðin svæði strandveiðanna en önnur. Það hefur skapað ákveðið ójafnvægi. Og þó að strandveiðarnar hafi verið að sanna sig sem kostur á síðustu árum og gagnrýnin hafi mikið hljóðnað tel ég að hægt sé að bæta kerfið töluvert. Það væri fróðlegt að heyra hver sjónarmið hv. þingmanns eru hvað það varðar.



[18:55]
Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef talað fyrir því og lagt fram þingmál um að byggðatengja aflaheimildir. Ég held að byggðatengdar aflaheimildir hefðu bjargað miklu í gegnum árin ef þær hefðu verið til staðar, t.d. á Flateyri, ef þar væru alltaf 1 þús. tonn sem væru bundin byggðinni og engin útgerðarmaður gæti selt frá sér allar aflaheimildirnar og skilið sjávarplássið eftir slyppt og snautt sem byggði þessar aflaheimildir upp með honum með vinnslu í fiskvinnslunni og með sjósóknarbátunum hjá viðkomandi aðila.

Þess vegna hef ég talað fyrir því að byggðatengja aflaheimildir af einhverjum lágmarksgrunni. Það eru ekki endilega mörg sjávarpláss sem þurfa á því að halda og væri útlátalaust fyrir kerfið eins og það er núna að gera það. Það væri þá einhver gulrót fyrir svona byggðir að gera út frá þessum stöðum af því að það væru að lágmarki einhver þúsund tonn bundin við þessi sjávarpláss, sem eru alltaf í vanda og verða áfram í vanda og verða alltaf með einhverja plástra frá Byggðastofnun ef ekkert breytist frá því sem nú er.

Ég hef líka talað fyrir því, alveg eins og hv. þingmaður, að gera jákvæðar breytingar á strandveiðikerfinu miðað við reynsluna, og koma með fasta daga. Það er ekkert lögmál að einhverjir fastir dagar verði framseljanlegir. Það er bara mannanna verk að ákveða hvernig lögin eru. Það gerist ekki bara með tímanum heldur gerist það ef misvitrir stjórnmálamenn fara að leyfa slíkt. Slíkt á ekki að leyfa miðað við reynsluna. Þess vegna hef ég talað fyrir því að það sé góð breyting að koma á föstum dögum í strandveiðikerfinu.



[18:57]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að forseti aðstoði mig við að fá tækifæri til að tjá mig aðeins um þetta mál eins og ég hef jafnan gert þegar mál sem varða sjávarútveginn og byggðir ber á góma. Satt best að segja fannst mér athyglisvert að sjá mælendaskrána tóma lengst af undir framsöguræðu framsögumanns atvinnuveganefndar, öðruvísi mér áður brá þegar sjávarútvegsmál af þessu tagi hafa verið til umræðu dögum saman á Alþingi. Þetta skýrist kannski að einhverju leyti af því að hér er atvinnuveganefnd af góðsemi sinni að skera ráðuneytið og ráðherra niður úr snörunni með því að taka að sér að bjarga málum fyrir í hönd farandi fiskveiðistjórnarár og leggja til meðferð aflaheimildanna sem tekist hefur að toga til hliðar við kerfið undanfarin ár á því eina og sama fiskveiðiári.

Í sjálfu sér held ég að nefndin hafi gert sitt besta og sjálfsagt á grundvelli einhverrar undirbúningsvinnu ráðuneytisins og í samstarfi við það. Hún hefur ekki úr öðru að spila en því svigrúmi sem lögin bjóða upp á í gegnum þá reglu sem þar er innkomin að 5,3% heildarveiðiheimilda í kvótasettum tegundum gangi til hliðaraðgerða í kerfinu. Eftir atvikum geri ég ekki stórar athugasemdir við hvernig atvinnuveganefnd leggur til að með þær verði farið á næsta fiskveiðiári, sérstaklega í ljósi þess að eingöngu er verið að ganga frá málinu til bráðabirgða á því ári.

Í fyrsta lagi vil ég segja að að sjálfsögðu gleður mig að sjá strandveiðarnar áfram með sinn hlut eins og hann hefur aðeins þokast upp undanfarin ár og er áfram 9 þús. tonn, líklega þriðja fiskveiðiárið í röð eða svo, kannski annað til þriðja fiskveiðiárið. En ég tek undir þau sjónarmið sem hafa komið fram að ég hefði verið alveg til í að sjá þetta aðeins aukið og hefði fundist það sanngjarnt í ljósi þess að sú tegund sem ber alveg uppi strandveiðarnar, þ.e. þorskurinn, hefur sem betur fer verið að aukast undanfarin ár nokkuð jafnt og þétt og horfir ágætlega með það áfram á næsta fiskveiðiári á grundvelli ráðgjafar sem við væntum frá Hafró á hverjum næstu dögum. Ég kem betur að því síðar hvað mér finnst að hefði mátt hugleiða í þeim efnum.

Ég tel í öllum aðalatriðum að strandveiðarnar hafi margsannað gildi sitt og það birtist okkur að sjálfsögðu í því að nú þorir enginn að tala fyrir því sjónarmiði að þær verði slegnar af. Ég held að sú umræða sé dáin, en hún fór ekki lágt fyrstu eitt, tvö, þrjú árin sem verið var koma þessu kerfi á og þróa það. Snemma á árinu 2009 voru tillögur mótaðar í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu sem þá hét og ef ég man rétt kynntum við þær einhvern tímann rétt um páskaleytið af hálfu ráðuneytisins og þær tillögur sem gengu til Alþingis á Kaffivagninum úti á Granda og mér er það nokkuð í minni hvað það var gaman. Rökin voru margvísleg, þau sem eru auðvitað sígild og standa fyrir sínu að opna aftur glugga fyrir nýliðun inn í greinina og gera mönnum kleift að sækja sjóinn frá ströndinni á minni bátum, a.m.k. yfir hagstæðasta tíma ársins, sem hefur verið hluti af því að lifa við sjávarsíðuna á Íslandi frá upphafi. Einnig að greiða fyrir vistvænum veiðum smærri skipa þar sem orkukostnaður er lítill og ekki síst að reyna að hleypa aftur lífi í minni og minnstu sjávarbyggðirnar sem margar hverjar voru orðnar ansi eyðilegar hvað umsvif í höfnunum snerti o.s.frv. Í öllum aðalatriðum hefur þetta gengið eftir og gengið vel. Meðferð aflans hefur stórbatnað. Á því voru eðlilega má segja nokkrir misbrestir í byrjun þegar menn voru að koma sér af stað og höfðu kannski takmarkaðan tíma til að undirbúa sig. Það stórbatnaði strax á öðru, þriðja ári og ég hef ekki heyrt lengur umræður sem þá létu aðeins á sér bera að þarna væri eitthvert lélegt hráefni á ferð, þvert á móti. Hún er þögnuð sú umræða. Fiskmarkaðirnir fá að uppistöðu til þennan afla og hann kemur á þeim tíma ársins að stórum hluta þegar verulega er farið að ganga á veiðiheimildir stærri útgerða. Oft var einmitt lítið hráefni á ferð sumarmánuðina fram að upphafi nýs fiskveiðiárs. Ég er að sjálfsögðu líka sammála því að það er alltaf rétt og skylt að skoða reynsluna og vel má hugsa sér ákveðna þróun og ákveðnar úrbætur í þessu kerfi. Það bíður þá þeirra sem takast á við það á komandi árum að útfæra þær, sem og að magnið mætti að mínu mati vel aukast.

Tímans vegna ætla ég ekki út í langar umræður um magnið í hliðarráðstöfununum sem slíkum, 5,3% sem slík. Ég minni bara á að þrátt fyrir allt náðist sá árangur á síðasta kjörtímabili ásamt með mörgu fleiru að toga í áföngum verulega aukið magn út úr hefðbundna kerfinu í hliðarráðstafanir. Svigrúmið þar hefur síðan verið umtalsvert meira, festist svo í sessi að lokum með þessari 5,3% reglu, sem er ákveðin staðfesting á því að orðinn er miklu meiri skilningur á því og þverpólitískur stuðningur að talsverðu leyti á bak við það að kvótakerfið í núverandi mynd sé óframkvæmanlegt vegna byggða- og félagsáhrifa kvótakerfis með frjálsu framsali nema hægt sé að hafa a.m.k. umtalsverðar heimildir til hliðar til þess að mæta skaðlegustu afleiðingum þess ella.

Í öðru lagi vil ég fagna því að byggðafestukvóti sem ég vil kalla svo, kvóti sem fer í gegnum Byggðastofnun til nokkuð varanlegrar ráðstöfunar til smærri byggðarlaga í vanda og til að tryggja þar vinnslu, hefur vaxið myndarlega frá því að hann var upptekinn árið 2013 og tengdur við verkefni sem hrint var af stað, Brothættar byggðir. Í töflu má sjá hvernig þessu er ráðstafað á grundvelli gagna frá Byggðastofnun. Það er farið að muna um þetta. Ætli það sé ekki aldeilis fengur að því fyrir Tálknafjörð/Patreksfjörð, að vera með 400 tonn til ráðstöfunar án þess að þurfa að greiða fyrir það og til nokkurra ára fram undan. Þingeyri 400 tonn, Flateyri 300 tonn, Suðureyri 400 tonn, Drangsnes 150 tonn, Hrísey 250 tonn, Grímsey nýlega 400 tonn, Bakkafjörður 150 tonn, Breiðdalsvík 300 tonn og Djúpivogur 800 tonn, að vísu kannski ekki til eins langs tíma að öllu leyti en þar er þó verið að mæta alveg óvenjulegu höggi sem það byggðarlag fékk á sig þegar Vísir fór þar með allt sitt hafurtask og því miður eiginlega allar veiðiheimildir staðarins með sér, og í reynd á grundvelli sögulegrar reynslu mestallar veiðiheimildir sem byggst höfðu upp á viðmiðunarárunum eftir það á bæði Breiðdalsvík og Djúpavogi í gegnum félagið Búlandstind.

Auðvitað vekur athygli þegar maður fer yfir þetta að Húsavík, sem varð líka fyrir þungu höggi og missti í burtu þær veiðiheimildir sem eftir höfðu staðið þar frá dögum útgerðarfélagsins Höfða og Fiskiðjusamlags Húsavíkur, ein 2.500 tonn, er þarna ekki á blaði. En menn geta svo sem af öðrum ástæðum sagt að mikið sé um að vera á Húsavík um þessa mundir, en þegar maður lítur til sjávarútvegsins sérstaklega væri að sjálfsögðu eðlilegt að eitthvað hefði verið gert til að milda aðeins höggið sem Húsavík varð fyrir þegar Vísir fór sömuleiðis þaðan og út af fyrir sig á Flateyri líka.

Ég tel að byggðafestukvóti Byggðastofnunar hafi í aðalatriðum gengið vel og sannað gildi sitt og sérstaklega og ekki síst að hægt er að hafa aðeins meiri fyrirsjáanleika í kerfinu en áður var mögulegt í árlegum úthlutunum. Þarna er byggðafestuhugsunin svolítið að festast í sessi sem ég er algerlega sannfærður um og hef allan tímann verið að þarf að stórauka í kerfinu og hefði betur verið gert strax við upptöku þess. Ef eins og þriðjungur veiðiheimildanna eftir viðmiðunarárin fram til 1983 hefði verið tengdir byggðarlögunum og ekki framseljanlegir þaðan væri margt öðruvísi um að litast á Íslandi.

Í þriðja lagi nefni ég að ég tel að áfram sé þörf á því að endurskoða meðferð hins hefðbundna byggðakvóta. Það hefur aðeins verið dregið úr vægi hans, en engu að síður sýna úttektir að hann hafi talsverða byggðafestu í för með sér. Ég vefengi það svo sem ekki, en maður er nógu sjóaður í umræðum um þessi mál til að vita að ekki hefur alls staðar tekist að ná góðri sátt um meðferð þeirra veiðiheimilda. Ég held að bæði reiknireglurnar og kannski að einhverju leyti hugsunin eða beitingin á þeim veiðiheimildum þurfi að endurskoðast.

Þá aðeins um hvað mætti hugsa sér að gera í sambandi við þessar hliðarráðstafanir annað. Þar staldrar maður við þá aukningu sem orðið hefur á veiðiheimildum í þorski núna, sem betur fer samfellt undanfarin ár frá líklega 2010 eða svo þegar aflareglan var aftur sett í samband eða reyndar strax á árinu 2009 með stjórnvaldsákvörðunum, eftir smá hliðarspor sem var tekið rétt áður en ríkisstjórnarskipti urðu í landinu í janúar 2009 þegar menn ákváðu allt í einu að fara að veiða 30 þús. tonnum meira af þorski en ráðgjöf og aflareglur sögðu til um. Það tókst að vinda ofan af þeirri stöðu sem það hefði annars þýtt fyrir landið og skammarkrókinn hjá Alþjóðahafrannsóknaráðinu o.s.frv. sem við hefðum umsvifalaust lent í og vorum á leiðinni í. Menn héldu sig við að beita hinni ábyrgu nálgun. Án þess að ég ætli að þakka því allan árangurinn sem síðan hefur náðst við uppbyggingu þorskstofnsins þá er a.m.k. sanngjarnt að ætla að það að menn héldu út hafi átt sinn hlut í því. Menn héldu út og leyfðu þorskstofninum og hrygningarstofninum ekki síst að stækka og við erum að sjá glæsilegan árangur af því núna ár eftir ár.

Nú er svo komið að samkvæmt öllum viðmiðunum er jafnstöðuaflinn í þorski kominn svo vel upp fyrir langtímameðaltal síðustu 10, 15 ára, og svo langt upp fyrir það sem var þegar t.d. sérstakar skerðingar hófust vegna bágs ástands þorskstofnsins, að þeirri skerðingu hefur allri verið skilað til baka til handhafa þorskveiðiheimilda sem hafa þá haldið óbreyttri stöðu, óbreyttri hlutdeild í kerfinu. Á sínum tíma var þetta skoðað meðan ég var í ráðuneytinu í annað hvort skiptið, 2009 eða 2012, 2013, og þá reiknaðist mönnum svo til að allar skerðingarnar væru komnar til baka þegar jafnstöðuaflinn væri kominn í um 230 þús. tonn.

Aukist nú þorskkvótinn umtalsvert um tugi þúsunda tonna og þar upp úr, þá hlýtur að vera eðlilegt að skoða þann möguleika að nýta a.m.k. einhvern hluta þeirrar aukningar til þróunar í kerfinu. Það er hægt að hugsa sér svo margar leiðir í því. Leggja grunn að einhverri leigu, sveigjanleika í kerfinu, jafnvel svæðisbundna leigupotta, sérstaklega sniðna að þörfum nýrra og smærri útgerðaraðila. Nota eitthvað af þessu í uppbót á strandveiðarnar meðan veiðiheimildarnar væru yfir einhverjum tilteknum skilgreindum mörkum o.s.frv.

Ég tel að enn standi eftir að það væri auðvitað æskilegt að menn gætu unnið sig út úr rækju- og skeluppbótunum. Það er dálítið snúið að vera með svo gamalt uppbótarkerfi inni í þessu þegar svona langt er um liðið. Mér er alveg ljóst mikilvægi þess fyrir þá sem urðu fyrir áfallinu á sínum tíma, það er ekki hægt bara að strika þetta út allt í einu, en auðvitað eru fordæmi fyrir því að slík tímabundin stuðningskerfi eða slíkar stuðningsaðgerðir séu einfaldlega leystar út úr kerfinu með einhverri lágmarksúthlutun varanlegra heimilda í staðinn. Það er að sjálfsögðu ein fær leið í þessum efnum. Þar með losnuðu menn við að lesa svona gamla fortíð alltaf endalaust inn í bótum af þessu tagi.

Varðandi málin almennt þá náðist þessi árangur á síðasta kjörtímabili. Menn deila um það hvort sú ríkisstjórn hafi uppskorið eitthvað í sjávarútvegsmálum. Jú, það gerði hún. Það stendur eftir að strandveiðar komust á og þær eru orðnar fastar í sessi þótt magnið mætti vera meira.

Í öðru lagi er um talsvert meira magn veiðiheimilda nú til ráðstöfunar árlega í hliðarráðstafanir í kerfinu. Það var einmitt það sem gerðist á árunum frá hruni og næst þar á eftir að magnið fór vaxandi.

Í þriðja lagi kom sú ríkisstjórn á fyrra kjörtímabili á veiðigjöldum sem núverandi ríkisstjórn hefur að vísu af miklu örlæti lækkað, en eftir standa þau þó miklu, miklu hærri en þau höfðu áður sögulega séð verið talin.

Núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar ekkert gert, herra forseti, nema það eina að lækka veiðigjöld á útgerðina af miklu örlæti. Að öðru leyti hefur hún ekki sett mark sitt á málsmeðferð á þessu sviði á einn eða neinn hátt. Hún hefur gefist upp. Svo hleypur hún á náðir atvinnuveganefndar til að framlengja óbreyttar ráðstafanir árlega í hliðarkerfinu. Það er allt og sumt.



[19:13]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hans ræðu. Eitt af því sem hefur valdið byggðunum búsifjum er það þegar útgerðin leggur upp laupana eða ákveður að flytja sig um set og eftir situr byggðarlag í sárum. Um leið og kvótahafinn hverfur úr byggðarlaginu fer oft allt með, fiskvinnslan fer líka með.

Mig langar því að velta upp og spyrja hv. þingmann um afstöðu hans til þeirrar hugmyndar sem hefur stundum komið upp í þessari umræðu, þ.e. að aðskilja veiðar og vinnslu. Því að ef vinnsluheimildirnar og vinnsluleyfið væri áfram í byggðarlaginu og væri ekki eins háð útgerðaraðilanum og ekki endilega órjúfanlegt samband milli kvótans og þess að vinna aflaheimildirnar væri staðan kannski betri sums staðar. Ég nefni bara staði eins og Þingeyri og Flateyri sem hafa komið mjög illa út úr röskun af þessu tagi. Mér þætti fróðlegt að heyra hver afstaða þingmannsins er til þessarar hugmyndar sem hefur oft og einatt komið inn í umræðuna en einhvern veginn aldrei orðið að neinu og alltaf mætt andstöðu, aðallega þó hjá útgerðinni sem sér sér hag í því að hafa alla virðislínuna frá upphafi til enda. En nú erum við kannski að horfa á þetta frá öðrum sjónarhóli sem er þá sjónarhóll byggðarlagsins.



[19:15]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Að sjálfsögðu er þetta hin sígilda umræða, og við höfum því miður verið að sjá sársaukafullar birtingarmyndir á því öryggisleysi sem byggðarlögin búa við í óheftu framsali veiðiheimilda þegar þeir sem hafa vald á kvótanum ákveða að fara þá fer allt með þeim, grundvöllur vinnslunnar og gjarnan eitthvað af íbúum um leið. Eftir stendur byggðarlag í sárum með fallandi tekjur og fólksfækkun og mikla erfiðleika.

Ég er ekki viss um að aðskilnaður veiða og vinnslu sé í sjálfu sér mikilvægt innlegg í lausn þess máls nema menn gangi alla leið í þeim skilningi að veiðar og vinnsla verði bókstaflega aðskilin þannig lagalega að mönnum sé skylt að bjóða veiðiheimildirnar yfir markað áður en þær fara inn til vinnslunnar. Þá að sjálfsögðu breytist þetta verulega mikið. Ég vil vera hreinskilinn; ég hef aldrei algerlega sannfærst um kosti þess að fara í slíkan fullan aðskilnað einfaldlega vegna þess að maður þekkir svo vel kostina við hitt líka þegar vel rekin og sómasamleg fyrirtæki, ekkert endilega bara þau stóru heldur ýmsar fjölskylduútgerðir með litla vinnslu á bak við, spila vel úr sínum heimildum og tvinna þetta vel saman og stýra veiðunum inn í vinnsluna o.s.frv. Ég veit að hv. þingmaður þekkir það líka úr sínu kjördæmi.

Það má líka velta fyrir sér spurningunum um að binda sjálfar veiðiheimildirnar einhvern veginn með lögum í meira mæli við byggðarlögin í þeim skilningi að hyggist útgerðarmaður flytja eða selja þá séu ekki bara einhver ónýt forkaupsréttarákvæði sveitarfélagsins heldur hugsanlega og mögulega einhver takmörk á því hvað geti farið í burtu og jafnvel skyldur á herðum (Forseti hringir.) ríkisins til einhvers konar innlausnar á hluta veiðiheimildanna. Í raun og veru eru mörg úrræði (Forseti hringir.) möguleg í þessu ef pólitískur vilji er til staðar.



[19:17]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að hv. þingmaður var svolítið tregur í taumi varðandi þessa hugmynd á sínum tíma, ekki alveg ginnkeyptur fyrir henni. Ég held nefnilega að ef sú leið yrði farin, sem þingmaðurinn nefndi, að bjóða allan óunninn fisk á innlendan markað og skilja á milli veiða og vinnslu þá gæti það bjargað miklu. Ég hef ákveðnar efasemdir um allt þetta byggðabix í þeim skilningi að á meðan það er svona lítið til ráðstöfunar og það er verið að stýfa úr hnefa svo takmarkaðar úrlausnir fyrir byggðarlögin þá finnst mér það kalla á óheilbrigt ástand. Það væri miklu nær, eins og þingmaðurinn nefnir, ef hægt væri að binda við byggðarlögin eitthvert tiltekið magn aflaheimilda til að tryggja að það fari ekki allt forgörðum ef útgerðarmaðurinn ákveður að flytja sig um set.

Þá vaknar líka spurning hvort það væri, nú er ég að hugsa upphátt, ekki eðlilegra að reyna að fækka öllum þessum smærri ívilnunaraðferðum og einfalda kerfið og færa þá sveitarfélögunum jafnvel eða byggðunum verkfæri í hendur til að ráðstafa einhverjum hluta aflaheimilda. Hvernig menn færu að því að finna þær aflaheimildir, það eru ýmsar leiðir til þess. Það mætti taka aflaaukningu. Það mætti umreikna nýjar tegundir sem eru að koma o.s.frv. En er þingmaðurinn mér sammála um að það væri kannski farsælla að breyta þessum byggðatengingum sem eru til staðar nú þegar og reyna að einfalda þær eitthvað?



[19:19]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins nánar um aðskilnað veiða og vinnslu, það er ekki svo að ég sjái ekki líka ýmsa kosti sem gætu falist í að fara inn á þá braut. Ég hef oft sagt og velt fyrir mér að lágmark væri að við krefðumst algers bókhaldslegs og jafnvel rekstrarlegs aðskilnaðar þessara tveggja þátta jafnvel þó fyrirtækið væri samsett, það mundi meðal annars koma að því að leysa krónískar deilur um uppgjör við sjómenn þar sem fyrirtækin eru samsett. Að allur afli sem ekki fer þá beint til vinnslu hjá sama aðila skuli fara á markað, að það sé þá sett sem skilyrði að þú getir eingöngu farið fram hjá markaðnum ef þú ert að reka samsett fyrirtæki þar sem þú spilar saman hráefnisöflunina og vinnsluna í þágu þíns eigin rekstrar. Það verður hins vegar að horfast í augu við það að það er eitt af því sem hefur gefið íslenskum sjávarútvegi mikinn styrk og er ein af ástæðum þess að við stöndum svona sterkt að vígi á ferskfiskmörkuðunum með unnan ferskan fisk í gegnum flug o.s.frv. beint á markað í Evrópulöndum aðallega, að við höfum yfirburði yfir allar aðrar þjóðir hvað þetta varðar, að geta tryggt afhendingu á þessari hágæðavöru reglubundið og árið um kring út á það að þessir möguleikar til samstillingar eru til staðar.

En að endurskoða meðferð þess sem er til hliðar í kerfinu þá er ég alveg sammála því. Ég er reyndar þeirrar skoðunar og hef lengi verið að ef okkur tækist að byggðafesta nokkuð myndarlegan grunn veiðiheimilda almennt í sjávarbyggðunum, a.m.k. öllum þeim minni þangað til komið væri upp í stærri útgerðarstaðina, þá þyrftum við kannski ekki neitt annað. Jafnvel mætti það kerfi vera svo einfalt að það væri bara alltaf til árlegrar hlutfallslegrar uppbótar á (Forseti hringir.) þá aðila sem stunduðu útgerð frá viðkomandi byggðarlagi og ynnu þar fisk. Það mundi þá alltaf duga til þess að draga að nýja aðila, sú gulrót, þó einn færi. Þetta er það sem ég hef stundum, herra forseti, kallað (Forseti hringir.) Grenivíkurmódelið í sjávarútvegi, en ég hef ekki tíma til að útskýra það nánar.



[19:22]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um tímabundnar ráðstafanir á svo sáralitlu broti kvótakerfisins að það er eiginlega átakanlegt að hugsa til þess að það sé það sem falla eigi byggðunum í skaut þegar horft er á stóru myndina. Mig langar af því tilefni að nota ræðutíma minn til þess ræða um fiskveiðistjórnarkerfið, annmarkana á því og hvers vegna það er svo brýnt réttlætismál að breyta því kerfi. Ég er ein af þeim sem telja ekki fullnægjandi að leggja veiðigjöld á útgerðina til þess að tryggja innkomu í ríkissjóð. Auðvitað er til bóta ef hægt er að koma á eðlilegu og sanngjörnu veiðileyfagjaldi og sjá til þess að arðurinn af fiskveiðiauðlindinni skili sér betur en verið hefur inn til samfélagslegra verkefna. En það er kerfið sjálft sem þarf líka að taka breytingum vegna þess að uppbygging þess hindrar atvinnufrelsi, kemur í veg fyrir nýliðun, stendur í vegi fyrir jafnræði og stendur í vegi fyrir eðlilegri byggðaþróun í landinu, eins og dæmin sanna og sársaukafull atvik á liðnum árum hafa leitt í ljós.

Sjávarútvegurinn er afar auðug atvinnugrein. Auðvitað á hann að hlaupa undir bagga í samfélagi sem hefur tekist á við jafn stór og alvarleg áföll eins og við Íslendingar á síðustu árum, ég tala nú ekki um í kringum hrun. Þess vegna var það átakanlegt á síðasta kjörtímabili, þegar atlaga var gerð að því að breyta þessu kerfi, að sjá hversu hart og af mikilli grimmd menn gengu fram í því að verja hagsmuni stórútgerðarinnar og hafna sem firru öllum sjónarmiðum sem lutu að því að auka samfélagslega ábyrgð þessarar atvinnugreinar og leiða í ljós að hún sem burðarafl í íslensku samfélagi ætti í ríkari mæli að vera samfélagsþátttakandi. Gríðarlegir fjármunir streyma í gegnum sjávarútveginn og hafa gert það á síðustu árum, sem ættu í ríkari mæli en dæmin sanna að skila sér inn í samfélagið.

Þess er skemmst að minnast fyrir okkur sem stóðum í þessari orrahríð á síðasta kjörtímabili hvernig áróðursstríðið var háð gegn því sem við litum á sem tímabærar og eðlilegar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Sú umræða var í raun í sáralitlu samræmi við tilefnið. Menn hrópuðu hrun yfir sjávarútveginn í landinu ef hróflað yrði við kerfinu. Þeir töluðu eins og verið væri að hrammsa frá þeim þeirra lögmætu eign og þjóðnýta hana, eins og það var oft orðað. Gott ef byggðirnar sjálfar áttu ekki að leggjast í eyði og fiskveiðar að leggjast af við strendur landsins ef af þessum áformum yrði. En það var auðvitað fátt sem fékk staðist í þeim málflutningi útvegsmanna og talsmanna þeirra hér á Alþingi. Vitanlega munu fiskveiðar ekki leggjast af við landið eða byggðir fara í eyði þó að útgerðarmenn yrðu með formlegum hætti að horfa upp á að því sem þeir hafa kallað eignarrétt sinn yrði breytt í nýtingarrétt í samræmi við markmið þeirra laga sem verið hafa í gildi um alllanga hríð. Þó að t.d. yrði stofnaður auðlindasjóður þaðan sem veiðiheimildunum yrði ráðstafað til framtíðarnota fyrir samfélagið og að útgerðin legði þar inn hóflegt gjald.

Því er nefnilega þveröfugt farið. Það er núverandi kvótakerfi eins og það er í dag sem kallað hefur alvarlega röskun yfir byggðir landsins. Átakanlegasta dæmið sem við höfum um það eru litlar byggðir eins og t.d. Flateyri við Önundarfjörð sem hefur trekk í trekk mátt taka á sig sársaukafull högg við það að útgerðarmaðurinn selur og fer einn daginn. Einn morguninn vakna íbúarnir við það að ekkert er eins og áður og fótunum hefur verið kippt undan atvinnulífi staðarins.

Ég fór í haust að sjá ágæta kvikmynd, heimildarmynd sem heitir Veðrabrigði, sem ég hefði viljað óska að þingmenn allir hefðu farið að sjá. Hún er skylduáhorf, bara til þess að gera sér grein fyrir því hvað gerist í einu samfélagi og hvaða áhættu sjávarbyggðirnar í landinu eru ofurseldar vegna þess kerfis sem við höfum núna við fiskveiðistjórnina.

Sennilega hefur það aldrei verið vilji löggjafans að reyndin yrði sú sem hún er. Minna má á 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga, sem er markmiðsgrein þeirra laga, og hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“

Síðan segir:

„Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Það er með öðrum þjóðin sem á fiskinn í sjónum, við getum kannski kallað það ríkið, en í lögunum stendur „þjóðin“. Það virðist hafa verið frá fyrstu tíð vilji löggjafans að útgerðin hefði nýtingarrétt á þeirri auðlind en ekki eignarhald. Mér finnst það algjörlega skýrt af markmiðslýsingunni.

Svo má auðvitað rifja upp það sem reyndar hefur oft komið til umræðu á þessum vettvangi, að hér er um að ræða kerfi sem samkvæmt úrskurði mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna brýtur mannréttindi og hindrar eðlilega nýliðun þar sem menn eru tilneyddir að gerast leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna. Kerfið felur í sér sams konar meinsemd og skuldasöfnunin og yfirveðsetningin sem olli efnahagshruninu haustið 2008.

Menn hafa líka leyft sér að tala um það eins og hið frjálsa framsalskerfi fiskveiðiheimilda, kvótakerfið sé einhvers konar fyrirmyndarkerfi sem ekki megi raska. Það hefur jafnvel verið talað um að aðrar þjóðir líti til okkar Íslendinga með það fyrir augum að reyna að læra af okkar fiskveiðistjórn að þessu leyti. Hvernig stendur þá á því að grátkórinn hrópar alltaf hrun yfir greinina í hvert skipti sem kemur til tals að breyta einhverjum skilyrðum greinarinnar? Það er umhugsunarefni.

Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein í samfélagi okkar. Auðvitað viljum við hlúa að þessari atvinnugrein og tryggja henni eðlileg rekstrarskilyrði, en það verða að gilda þær leikreglur í kringum þessa atvinnugrein sem kallast geta sanngjarnar, hafa samfélagslega þýðingu og opna fyrir það að menn séu frjálsir af því að leita sér viðurværis með fiskveiðum.

Af því að ég nefndi Flateyri áðan þá eru Vestfirðir sá landshluti sem hefur komið einna verst út úr kvótakerfinu. Ég vil minna á nýlega ályktun sem Verkalýðsfélag Vestfirðinga samþykkti nú nýlega þar sem kallað er eftir ábyrgð stjórnvalda vegna áfalla sem dynja reglulega á vestfirskum sjávarplássum í formi tilflutnings aflaheimilda út af svæðinu, eins og segir í þeirri ályktun. Ég les áfram, með leyfi forseta:

„Með flutningi aflaheimilda úr fjórðungnum hafa Vestfirðingar í raun verið sviptir frumbyggjaréttinum, að nýta sjálfir sína helstu auðlind sem er gjöful fiskimið. Félagið kallar eftir raunhæfum hugmyndum varðandi byggðafestu aflaheimilda. Fundurinn krefst þess að strax verði gerðar viðeigandi ráðstafanir til að Vestfirðingar fái að nýta eigin auðlindir til að styrkja atvinnulíf og búsetu í fjórðungnum.“

Þetta segir í raun og veru allt. Hafi einhver haldið að sjávarútvegsumræðan og ágreiningurinn og ósættið um ríkjandi fiskveiðistjórnarkerfi væri liðin tíð af því að núverandi stjórnvöld hafa leitast við að þegja um það mál, þá er það misskilningur. Vandinn brennur enn þá á byggðum landsins. Atvinnufrelsið hefur ekki aukist. Nýliðunin hefur ekki aukist. Jafnræðið hefur ekki aukist. Og að því leyti sem byggðaröskun í landinu hefur jafnað sig er það vegna ferðaþjónustunnar en ekki vegna þess að skilyrði í sjávarútvegi hafi batnað. Sennilega verður það þá ferðaþjónustan sem bjargar byggðum landsins, ég tala nú ekki um ef núverandi stjórnvöld fá sínu framgengt, því að ekki ætla þau að hrófla við kerfinu.

Þess vegna er mjög brýnt að koma þessari ríkisstjórn frá, skipta um stjórnvöld og skipta um kúrs hvað varðar þennan stóra og mikilvæga atvinnuveg þannig að hann geti orðið það hjarta og sá æðasláttur sem veitir lífi út í byggðir landsins eins og eðlilegt er með jafn stóran atvinnuveg.

Byggðirnar þurfa ekki neina ölmusu. Það er ekki sæmandi að bjóða þeim endalausa ölmusu úr einhverju örlitlu prósenti af því sem til ráðstöfunar er. Byggðirnar fara ekki fram á annað en að fá að bjarga sér sjálfar. Það er frumbyggjarétturinn sem verið er að vísa til, að byggðirnar fái sjálfsbjörgina til þess að bjarga sér sjálfar.

Þess vegna ætti það auðvitað að vera siðferðileg skylda, mundi ég segja, í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi og ætti ekki að vera núverandi stjórnvöldum ofraun að taka nýjar tegundir og bjóða þær upp og taka þótt ekki væri nema hluta af aflaaukningunni og setja á útboðsmarkað, því að það er í gegnum útboðsmarkaðinn sem jafnræðisins er gætt, þar geta allir komið og boðið í aflaheimildirnar. Grundvallaratriðið er að byggðirnar fái að bjarga sér sjálfar. Vonandi tekst okkur að breyta hér um stjórnarfar áður en of langt um líður þannig að þjóðin þurfi ekki öllu lengur að búa við það ástand sem nú er.



[19:36]
Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fína ræðu. Það er hressandi að komast aftur í þann gír að ræða sjávarútvegsmál og breytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þessi umræða hefur ekki verið mikil síðustu þrjú ár frá því að við tókum góða umræðu um það á síðasta kjörtímabili og mikil vinna var lögð í að endurskoða kerfið. Því miður var uppskeran ekki alveg eins og við áttum von á þótt hún yrði vissulega uppskera sem við megum vera ánægð með, við opnuðum glufu inn í kerfið með strandveiðum og nokkrum öðrum breytingum sem ber að fagna.

Hv. þingmaður kom áðan inn á aðskilnað veiða og vinnslu og útgerðar án fiskvinnslu og öfugt. Við vitum að til er fiskvinnsla án útgerðar og hún hefur talað mjög fyrir því að þó að ekki væri nema ákveðið hlutfall afla sem færi á markað mundi það breyta öllu fyrir slíka fiskvinnslu. Hún gæti þá bæði verið samkeppnisfær við aðra útgerð í landinu sem er líka með fiskvinnslu á sinni hendi til þess að sinna mörkuðum og haft möguleika á að geta alltaf skaffað hráefnið. Það hefur verið talað um að kannski 30% af lönduðum afla færi að lágmarki á markað. Það hefði líka áhrif á kjör sjómanna sem oft eru á einhverju lágmarksverði miðað við lágmarksverð sem fiskvinnsla og útgerð á sömu hendi greiðir til sjómanna í uppgjöri þeirra. Ég vildi heyra í hv. þingmanni um þetta.



[19:38]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Já, það er hressandi að fá að koma hér og ræða aðeins sjávarútvegsmál eftir nokkurt hlé.

Ég hef verið áhugasöm um að skilja milli veiða og vinnslu eins og þingmaðurinn nefndi. Það getur haft úrslitaþýðingu að fiskvinnslan sé alltaf í færum til að geta boðið í afla til vinnslu. Að hún geti skaffað hráefni, því að það er hráefnið, það að leggja upp á staðnum, sem skiptir máli upp á atvinnuna í byggðarlaginu. Ég man ekki betur en við hv. þingmaður legðum fram tillögu á síðasta kjörtímabili einmitt um það eða hefðum viðrað hugmyndir um að gert yrði ráð fyrir því að fast hlutfall færi í þetta. Ég held að það gæti orðið mjög til bóta.

Síðan kom ég ekki mikið inn á ýmislegt annað í ræðu minni sem ég hefði viljað nefna eins og t.d. strandveiðarnar, að búa vel að þeim. Það er kannski það jákvæðasta sem hefur gerst í sjávarútvegsmálum um alllanga hríð. Þar átti hv. þingmaður og núna sitjandi hæstv. forseti, Steingrímur J. Sigfússon, drjúgan hlut að máli og mikið frumkvæði sem er þakkarvert, því að þetta bjargaði bókstaflega ásýnd byggðanna yfir sumartímann. Það fann maður svo vel fyrst eftir að strandveiðunum var komið á.

Ég mundi telja að það væri mjög mikils virði að efla þennan þátt og búa vel um kerfið, en það má laga það. Ég held að það þurfi aðeins að hagræða umbúnaði strandveiðanna þannig að þær geti nýst enn þá betur en verið hefur.



[19:40]
Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar á þeim stutta tíma sem ég hef að henda fram hugmynd sem hefur verið rædd aðeins í atvinnuveganefnd. Hún gengur út á að allir þeir sem eru með aflaheimildir í dag leggi ákveðið hlutfall, segjum bara 15%, í pott sem yrði til leigu fyrir aðila eftir ákveðnum skilyrðum, það væri hægt að svæðisbinda og eftir útgerðarflokkum. Potturinn væri leigður út af hálfu ríkisins, tekjur kæmu inn í hann á móti, en framlag útgerðanna í pottinn sem yrði svo leigður út væri ígildi veiðigjalda.

Þetta er kannski of mikið til þess að melta og svara í stuttu andsvari, en ég vil viðra þetta hér vegna þess að þessi umræða fór fram í atvinnuveganefnd. Ég verð að segja að ég er svolítið skotin í að hugsa þessa hugmynd aðeins lengra og vinna með hana af því að við þurfum að vera svolítið lausnamiðuð og velta upp öllum hlutum í þessu efni. Við vitum að ríkisstjórnin hefur verið að lækka veiðigjöld á stórútgerðina. Það væri alveg hægt að stilla þetta þannig af að ríkið tapaði ekki tekjum vegna þess að það fengi inn á móti fyrir útleigu á þessum aflaheimildum, miklu fleiri hefðu aðgengi að, en það væri samt tryggt að ákveðnir útgerðarflokkar hefðu aðgengi að pottinum og byggðarlög vítt og breitt um landið, en samt sem áður yrði eitthvert lágmarks almennt veiðigjald.



[19:42]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig ef hv. atvinnuveganefnd er orðin skapandi í því að kasta fram nýtilegum hugmyndum. Mér finnst þessi hugmynd sem hv. þingmaður nefndi allrar athygli verð, ég verð að segja það. En ég legg þá áherslu á að ekki mætti líta á það sem lausnina í málinu, að þar með væru allir orðnir sáttir, en sem úrræði til að bæta stöðuna á meðan ekki nást veigameiri breytingar fram finnst mér full ástæða til að skoða þetta, að aflaheimildirnar sem útgerðin væri skyldug til að leggja inn í þennan pott, sem væri þá frjáls uppboðspottur, væru ígildi hluta veiðileyfagjalds. Það firrti þær kannski ekki alveg greiðslu veiðileyfagjalds en gæti metist sem hluti veiðileyfagjalds. Mér finnst það alveg koma til greina. En þá veltur töluvert á því hvað við erum að tala um stóran pott. Hvað gæti þetta orðið mikið? Hann yrði að vera nýtilegur sem raunverulegur valkostur, sem útboðspottur sem byggðirnar gætu sótt í. Hugmyndin er allrar athygli verð.

Veiðigjöldin, af því að við nefnum þau, það var náttúrlega mjög sorglegt að ríkisstjórnin sem nú situr skyldi láta það verða sitt fyrsta verk að lækka þau svo verulega sem raun varð á, því að á þeirri spýtu hékk fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar og margt hefðum við getað gert við þá peninga sem annars hefðu komið inn. En auðvitað má líka hugsa sér að það gæti nýst með þeim hætti sem þingmaðurinn nefndi, að við fengjum aflaheimildir sem jafngildi eða andlag veiðigjalda.