145. löggjafarþing — 120. fundur
 30. maí 2016.
viðskipti við Nígeríu.
fsp. ValG, 716. mál. — Þskj. 1157.

[15:31]
Fyrirspyrjandi (Valgerður Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég hef áður komið í þennan ræðustól til þess að ræða um málefni þurrkfiskútflytjenda á Íslandi. Það er að verða kominn býsna langur tími sem verið hefur stopp að mestu leyti í innflutningi á hertum þorskhausum og beinhryggjum úr þorski til Nígeríu. Þetta er í rauninni mjög alvarlegt mál vegna þess að undir liggja 450–500 störf. Yfir 20 fyrirtæki á Íslandi hafa þessa starfsemi með höndum. Þessi starfsemi skapar tekjur inn í þjóðarbúið upp á 15–20 milljarða. Þetta eru því mikilvæg fyrirtæki, bæði fyrir Íslendinga og eins fyrir Nígeríubúa vegna þess að þessar afurðir skila inn til þeirra gríðarlega verðmætum próteingjöfum í fæðu fyrir nígeríska þjóð.

Þeir sem eru í þessum útflutningi kaupa jafnframt mikla orku. Þeir nota flutningsleiðir sem skila tekjum í þjóðarbúið. Það er alveg ljóst að þetta er í raun eini markaðurinn fyrir þennan útflutning og hann er mikilvægur vegna þess að þarna er verið að fullnýta fiskinn. Það er að vísu einhver hreyfing núna á málinu og vonandi mun hæstv. utanríkisráðherra gera okkur grein fyrir stöðu þess.

En ég spyr: Mun ráðuneytið skipuleggja ferðir sendinefndar til Nígeríu til að ræða þá alvarlegu stöðu sem uppi er vegna innflutningshafta á þurrkuðum fiskafurðum frá Íslandi, sem hafa nú þegar haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir íslensk fiskverkunarfyrirtæki? Ef svo er, hvenær má þess þá vænta að sendinefnd fari til Nígeríu?

Í öðru lagi: Geta stjórnvöld með einhverjum hætti komið að því að efla innflutning á vörum frá Nígeríu? Eru einhverjir möguleikar á vöruskiptum milli landanna á meðan gjaldeyrisskortur hrjáir nígerískt samfélag?

Í þriðja lagi: Hefur sendiherra Ísland afhent nígerískum yfirvöldum trúnaðarbréf sitt nú þegar? Það skiptir miklu máli fyrir markaðinn að við séum með sendiherra af hálfu Íslands í Nígeríu.



[15:34]
utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Um er að ræða afar mikilvægt en á sama tíma erfitt mál. Við þekkjum hve erfitt það reynist ríkjum að glíma við mjög snarpan samdrátt í gjaldeyristekjum líkt og átt hefur sér stað núna í Nígeríu. Forsaga málsins er sú að um mitt ár 2015 setti seðlabanki Nígeríu reglur sem takmarka gjaldeyrisyfirfærslur vegna innflutnings til landsins á ýmsum vörutegundum, meðal annars sjávarafurðum. Voru reglurnar settar í ljósi þess gífurlega samdráttar sem orðið hefur í gjaldeyristekjum þjóðarinnar vegna lækkandi olíuverðs, en langstærstur hluti af útflutningsverðmætum Nígeríu kemur frá olíuviðskiptum.

Hinar nýju reglur hafa haft alvarlegar afleiðingar fyrir útflutning sjávarafurða frá Íslandi til Nígeríu, sem eru fyrst og fremst þurrkaðar sjávarafurðir og einnig frystur makríll á síðustu árum. Í kjölfar ákvörðunar seðlabanka Nígeríu stofnaði utanríkisráðuneytið samráðsvettvang með fulltrúum útflytjenda, samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Seðlabanka Íslands sem hafa hist reglulega. Á þeim vettvangi hefur verið rætt um þá stöðu sem upp er komin í viðskiptum við Nígeríu og hvernig hugsanlegt sé að finna leiðir til að auka viðskiptin að nýju. Utanríkisráðherra sendi jafnframt bréf til utanríkisráðherra Nígeríu í fyrra sumar og óskaði eftir skýringum á hinum nýju reglum seðlabanka Nígeríu. Slíkt hið sama gerði Seðlabanki Íslands í bréfi til seðlabanka Nígeríu um sama leyti. Því miður hefur ekkert svar borist við þeim erindum. Þá hefur málið verið tekið upp á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, að frumkvæði Íslands og annarra ríkja. Í þeim efnum hefur verið kannað hvort reglur seðlabanka Nígeríu standist alþjóðlegar skuldbindingar sem Nígería hefur gengist undir á vettvangi stofnunarinnar. Að auki má þess geta að í lok síðustu viku í Ósló átti sér stað fundir milli nígeríska utanríkisráðherrans og íslenskra embættismanna sem er liður í undirbúningi að fyrirhugaðri heimsókn til Nígeríu. Einn vandinn við að sinna hagsmunum Íslands í þessum efnum hefur verið sá að lengi var ekki starfandi ríkisstjórn í Nígeríu, eftir valdatöku nýs forseta í mars 2015. Ríkisstjórn var hins vegar skipuð í lok þessa árs og afhenti sendiherra Íslands í London trúnaðarbréf sitt í Nígeríu í mars síðastliðnum. Við það tækifæri voru viðskipti landanna tekin upp og áhyggjum lýst yfir þeirri stöðu sem þar er uppi.

Til að svara fyrstu spurningu hv. þingmanns er síðan í undirbúningi að utanríkisráðherra fari til Nígeríu með viðskiptasendinefnd til þess að ræða frekar þau vandamál sem uppi eru í viðskiptum landanna. Er stefnt að því að slík sendinefnd fari til Nígeríu síðar í sumar eða um leið og aðstæður leyfa. Fóru fulltrúar utanríkisráðuneytisins nýlega til Nígeríu til að undirbúa slíka heimsókn.

Sem svari við annarri spurningu hv. þingmanns hefur verið ræddur sá möguleiki að koma á vöruskiptum milli Íslands og Nígeríu með sjávarafurðir og olíu. Of snemmt er þó að segja til um hvort sá möguleiki sé fyrir hendi. Verður það mál ásamt öðrum tekið upp í fyrirhugaðri heimsókn til Nígeríu.



[15:38]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur, fyrir að vekja máls á stöðu viðskipta við Nígeríu. Eins og fram hefur komið er hér um mikla hagsmuni að ræða, þeirra sem þurrka fiskafurðir eða flytja út þurrkaðar fiskafurðir.

Hér er líka um mikla hagsmuni sjávarútvegsins í heild að ræða þar sem þurrkun skiptir miklu máli við fullnýtingu hráefnis. Því miður er staðan sums staðar orðin sú að starfsfólki hefur verið sagt upp svo að ekki sé talað um alvarlega stöðu í Nígeríu.

Mér fannst því mjög gott að heyra frá hæstv. utanríkisráðherra að unnið er markvisst í utanríkisráðuneytinu í leit að mögulegum leiðum til lausna. Ég velti jafnframt fyrir mér hvort ekki sé mikilvægt að huga að öflun annarra markaða fyrir þurrkaðar afurðir samhliða vinnunni gagnvart Nígeríumarkaði.



[15:40]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur fyrir að taka upp þetta mál. Það eru gríðarlega miklir hagsmunir í húfi og sorglegt að horfa upp á að fólk hafi misst vinnuna út af því pólitíska ástandi sem hefur ríkt í Nígeríu, sem má því miður rekja til falls á heimsmarkaðsverði á olíu. Við horfum upp á gríðarlega mörg fyrirtæki úti um allt land og ég nefni Fiskmiðlun á Dalvík sem eitt stöndugt fyrirtæki sem hefur reitt sig á þennan markað og er í vandræðum.

Um leið vil ég fagna orðum hæstv. utanríkisráðherra sem kom með þær yfirlýsingar að hún hygðist fara til Nígeríu og ræða við þarlend stjórnvöld. Ég tel afar brýnt að slík ferð verði farin. Ég geri mér grein fyrir því að reynst hefur afar erfitt að komast fyrr, en því fyrr þeim mun betra.

Ég fagna bæði umræðunni sem og jákvæðum viðbrögðum hæstv. utanríkisráðherra.



[15:41]
Fyrirspyrjandi (Valgerður Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra kærlega fyrir svör hennar og viðbrögð. Það er í samræmi við kraft hennar og áhuga á starfinu sem þetta mál er að þokast í þá átt að við munum væntanlega sjá sendinefnd fara til Nígeríu. Ég tel að það sé afskaplega mikilvægt að sendinefndin fari suður til Nígeríu og að þessum útflutningi sé sýndur sá áhugi sem það felur í sér og þá virðingu sem þeim sem standa í þessari atvinnustarfsemi er jafnframt sýnd.

Ég vil líka bæta því við að mikil lækkun hefur orðið á afurðum. Sú opnun, sem hefur þó orðið, hefur þýtt að útflytjendur eru að selja afurðirnar á allt að 40% lægra verði. Þar fyrir utan hafa innflutningstollar í Nígeríu hækkað úr 5% í 20%. Þannig að þetta er nú mun erfiðari staða en verið hefur og mikilvægt, eins og fram hefur komið hjá öllum sem hér hafa tekið til máls, að reyna að koma þessum markaði í gagnið aftur.

Ég vil velta því aðeins upp, og veit að hæstv. utanríkisráðherra hefur komið að þeirri athugun, hvort það sé einhver möguleiki að hækkun á þessum tollum verði lækkuð aftur og líka spurningin hvaða afurðum við sjáum þá að við gætum til dæmis tekið við frá Nígeríumönnum, öðrum en olíu.

Er eitthvað sem þeir hafa að bjóða sem gæti verið mikilvægt og áhugavert fyrir okkur að flytja inn á móti þurrkuðu fiskafurðum?



[15:43]
utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mína til hv. fyrirspyrjanda fyrir að varpa ljósi á stöðu mála á Nígeríumarkaði sem hefur verið útflytjendum okkar afar mikilvægur í áranna rás. Ég tek undir þau sjónarmið fyrirspyrjanda að hér er um brýnt mál að ræða og afar brýnt að við fáum farsæla lausn í þetta mál og mun ég leggja mig mikið fram við það.

Ég reifaði í mínu fyrra svari ástæður þess að lokun Nígeríumarkaðar hefur valdið fiskútflytjendum þeim búsifjum sem raun ber vitni. Hér er um að ræða aðstæður sem við eigum erfitt með að hafa áhrif á, en á móti kemur að utanríkisráðuneytið hefur leitað ýmissa leiða til að reyna að rétta af þessa stöðu og munum við vissulega halda áfram þeirri vinnu. Ég vil líka taka það fram, vegna þess að það kom fram í annarri fyrirspurn hvort við værum að horfa til annarra markaða, að það erum við svo sannarlega að gera. Ég vænti þess að sú vinna sem lagt hefur verið í muni jafnvel skila árangri á næstu missirum.

Varðandi tollana og þá hækkun sem á þeim varð þá er það eitt af því sem við munum taka upp. Það er mjög erfitt að segja á þessum tímapunkti hvort það muni skila árangri, en við munum taka það upp. Eins hvort það væru einhverjar aðrar afurðir sem kæmu til greina í einhverjum skiptum, en þetta verður mjög fróðlegt að ræða þegar að því kemur. Ég ítreka að við munum leggja mikla vinnu í fyrirhugaða sendiför til Nígeríu og við vonumst til þess að hún verði árangursrík.