145. löggjafarþing — 122. fundur
 31. maí 2016.
skýrsla um mansal.

[13:43]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Í dag kom út skýrsla frá Global Slavery Index sem er að skoða þrælahald í heiminum. Niðurstöðurnar eru nokkuð sláandi því Ísland er í 49. sæti á heimsvísu. Talið er að yfir 45 milljónir manna séu bundnir þrældómi í heiminum, en þrælahald, bara svo það sé á hreinu, er skilgreint þannig að fólk vinnur við aðstæður sem það getur ekki yfirgefið vegna hótana, ofbeldis, harðstjórnar, valdníðslu eða svika.

Mér finnst þetta vera mjög sláandi. Við höfum heyrt ýmis dæmi í fréttum af mansali á Íslandi. Þegar skýrslan er skoðuð kemur í ljós að Ísland fær einkunnina B sem er lægsta einkunn Norðurlandaþjóða og með þeim lægstu í Evrópu. Ráðherra hlýtur að taka þetta mjög alvarlega þannig að mig langar til að spyrja hvað sé verið að gera í þessum málum og hvernig eigi að bregðast við. Við getum ekki sætt okkur við að vera á þessum stað. Ég mundi gjarnan vilja fá svör frá hæstv. ráðherra hvort það sé einhver áætlun í gangi og hvort hún hafi haft tíma til að kynna sér þessar niðurstöður og hvað verði gert í framhaldinu. Þetta er ekki viðunandi.



[13:45]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir fyrirspurnina. Ég skal viðurkenna að ég hafði rekið augun í þessa fyrirsögn en ég hafði ekki kynnt mér nákvæmlega forsenduna fyrir niðurstöðunni í þessum mælingum.

Við höfum verið að vinna gegn mansali samkvæmt ákveðinni aðgerðaáætlun. Það sem hefur verið að gerast fyrst og fremst á undanförnum vikum og mánuðum er að ég held að samfélagið allt hafi verið að útvíkka skilgreininguna á mansali og átta sig á því. Áður voru menn mjög mikið að horfa á samspil mansals og vændis. Hins vegar höfum við gert okkur betur grein fyrir því að þarna undir geta fallið margvísleg störf sem við höfum verið að huga að. Þar hefur skipt verulega miklu máli sú fræðsla sem stjórnvöld hafa staðið fyrir í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Þar hefur líka skipt mjög miklu máli gott samstarf á milli verkalýðsfélaganna, Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlitsins þar sem menn hafa farið með virkari hætti inn á vinnustaði. Við höfum átt í samtali við verkalýðsfélögin sem snýr almennt að stöðunni á vinnumarkaðnum og hvernig við viljum skilgreina sjálfboðavinnu í ljósi mála sem hafa verið að koma upp undanfarið.

Hins vegar held ég, í ljósi þess hvað umræðan er ný og þær upplýsingar sem við höfum verið að fá eru nýjar, að við þurfum svo sannarlega að huga að þessari niðurstöðu, fara vel yfir hana, og ég vænti þess að ég muni gera það í framhaldi dagsins í dag.



[13:47]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið og hvet hæstv. ráðherra til dáða. Og ég vil einmitt ítreka að það eru í mörgum tilfellum útlendingar sem eru í þessari stöðu. Við þurfum að taka á þessu og vera vakandi yfir þessum málum og koma í veg fyrir að svona geti gerst.

Það er eitt sem hefur líka hvílt svolítið þungt á mér, það er þegar ég les fréttir um heimsmeistaramótið sem á að halda í Katar, fótboltamót, árið 2022. Þar er massíft þrælahald í gangi og mótsstaðurinn var ákveðinn eftir að einhverjir kallar í spilltum samtökum ákváðu að það væri góð hugmynd. Nokkrir leikmenn í danska og norska landsliðinu hafa stigið fram og gagnrýnt þetta. Ég hlýt að spyrja: Ætlar Ísland að taka þátt í undankeppni fyrir heimsmeistaramótið í Katar 2022? Er það ásættanlegt þegar við höfum upplýsingar um það hvernig staðið er þar að málum? Amnesty International hefur t.d. gefið út mjög harðorða skýrslu um meðferð á verkafólki, (Forseti hringir.) m.a. frá Nepal. Ég hef áhuga á að heyra hvað hæstv. ráðherra finnst um það. Eigum við að taka þátt í þessari vitleysu?



[13:48]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ef ég mætti kannski koma eilítið inn á fyrri hluta fyrirspurnarinnar, varðandi mansalið almennt. Eins og ég nefndi höfum við verið að vinna samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir gegn mansali sem var samþykkt fyrir árin 2013–2016. Það hefur ekki verið samþykkt ný áætlun í framhaldi af þessu. Það voru þrjár aðgerðir þar sem velferðarráðuneytið var skráður ábyrgðaraðili, en heildarumsjón með málaflokknum fellur hins vegar undir innanríkisráðuneytið. Við erum að huga að líkamlegri, félagslegri og sálrænni aðstoð óháð lögheimilisskráningu, aðgerðum til að tryggja öruggt húsnæði fyrir öll fórnarlömb mansals og hvernig við getum þróað úrræði til að bæta félagslega færni og andlega líðan. Til viðbótar við þetta er það sem ég nefndi, aukið samstarf sem við höfum átt við verkalýðsfélögin almennt til að tryggja að ekki sé um félagsleg undirboð að ræða og ekki sé verið að brjóta á mannréttindum fólks á vinnumarkaðnum.

Varðandi fyrirspurnina sem snýr að (Forseti hringir.) þátttöku okkar á íþróttamóti þá hafa oft verið mjög skiptar skoðanir um þátttöku okkar (Forseti hringir.) og má benda á Ólympíuleikana í Rússlandi. Ég hef sjálf hins vegar ekki í hyggju að mæta á þetta mót.