145. löggjafarþing — 122. fundur
 31. maí 2016.
ákvörðun kjördags.

[13:56]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef áður vakið athygli á því úr þessum ræðustóli hversu brýnt það sé að ákveða kjördag og þó fyrr hefði verið vegna fyrirhugaðra alþingiskosninga í haust.

Þetta helgast í fyrsta lagi af því að nauðsynlegt er að gera breytingar á lögum um kosningar til Alþingis þegar óreglulegan kjördag ber að á hausti og fyrir 1. desember eins og nú stefnir í til að afstýra því að Íslendingar búsettir erlendis missi í stórum stíl kosningarrétt eða möguleikann á að sækja um að endurnýja veru sína á kjörskrá. Nauðsynlegar lagabreytingar, sem forsætisnefnd Alþingis hefur reyndar haft í undirbúningi, er erfitt að klára nema kjördagur hafi verið festur.

Í öðru lagi er brýnt að ákveða kjördag því að utankjörfundaratkvæðagreiðsla á að hefjast átta vikum fyrir kosningar. Það er upp úr miðjum ágúst ef kosið yrði um miðjan október.

Í þriðja lagi eru stjórnmálamenn, tilvonandi frambjóðendur og flokkar að hefja sinn undirbúning undir kosningar þessa dagana, nema þá Framsóknarflokkurinn, og það er fráleitt að halda mönnum í óvissu um það lengur nákvæmlega hvenær verður kosið.

Framsóknarmenn virðast vera einir um að reyna að tala sig í burtu frá loforði sínu eða ríkisstjórnarinnar um kosningar í haust. En það verður náttúrlega ekki þannig að Framsókn sitji ein á þingi og í ríkisstjórn næsta vetur í andstöðu við meirihlutavilja Alþingis og annarra flokka.

Loforð um kosningar í haust var ekki gefið stjórnarandstöðunni og það var ekki gefið stjórnmálafræðingum og álitsgjöfum sem bíða auðvitað með eftirvæntingu eftir sinni veislu. Loforðið var gefið íslensku þjóðinni um að hún fengi málin í sínar hendur í haust.

Með þessum rökstuðningi spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Hyggst ríkisstjórnin og meiri hluti hennar standa við loforð sitt til þjóðarinnar um kosningar í haust eða ekki? Skýrt svar óskast.

Í öðru lagi: Eigi ekki að svíkja loforðið, hyggst þá ekki hæstv. forsætisráðherra ganga (Forseti hringir.) frá samkomulagi við forustumenn annarra flokka um kjördag áður en Alþingi lýkur störfum í vor?



[13:58]
forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það gæti nú reyndar verið áhugavert ef Framsóknarflokkurinn væri hérna einn við völd í haust. En svo öllu gamni og gríni sé sleppt úr þessum ræðustól, hann er nú yfirleitt ekki notaður til slíks, gætu kannski orðið skemmtilegri eldhúsdagsumræður ef því yrði beitt aðeins, þá er staðan þessi og hefur verið mjög lengi að forustumenn stjórnarflokkanna hafa sagt að boðað yrði til kosninga í haust og það færi auðvitað eftir því hvernig gengi á þinginu.

Ég sagði í ræðu minni í gær að þingstörfin hefðu gengið býsna vel. Það er líka ljóst, og ég tek undir með hv. þingmanni, að ákveðinn undirbúningur þarf að eiga sér stað, ekki bara fyrir lýðræðið, fyrir þá stjórnmálaflokka sem fyrir eru, heldur hugsanlega nýja aðila til að undirbúa sig fyrir kosningar. Síðan eru ákveðin atriði sem snerta tæknilegar útfærslur, eins og hv. þingmaður kom inn á, um að tryggja að ekki sé tekinn kosningarréttur af fólki sem býr erlendis og til þess þurfa þessar tímasetningar að liggja fyrir með nægilegum fyrirvara. Ég hef sagt að það muni styttast í að hægt verði að upplýsa um það.

Það er hins vegar þannig að þegar menn segja að stefnt sé að einhverjum kjördegi þá er það auðvitað ekki lagalega bindandi fyrr en menn hafa rofið þing, eins og hv. þingmaður þekkir, og þá skal gengið til kosninga innan 45 daga. En ég tek undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að það skýrist fyrr en seinna til þess að menn geti undirbúið sig með bestum hætti.

Stutta svarið við fyrri spurningunni er já.

Framsóknarflokkurinn treystir sér alveg til kosninga eins og hver annar stjórnmálaflokkur og er að sjálfsögðu eins og aðrir stjórnmálaflokkar byrjaður að hefja undirbúning að þeim kosningum sem fyrirhugaðar eru í haust.



[14:01]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Aðeins tosast þetta í rétta átt en er samt loðið og fljótandi enn þá. Styttist í o.s.frv. Það er eins og hæstv. forsætisráðherra átti sig ekki almennilega á alvöru málsins. Það er ekki, af mörgum ástæðum, boðlegt að vera að fresta því að festa kjördaginn. Það eru fordæmi fyrir því að gera það fyrst með pólitískt völduðu samkomulagi allra flokka. Síðan kemur hinn lögformlegi og stjórnskipulegi prósess í framhaldinu.

Ég skil ekki hæstv. forsætisráðherra og framsóknarmenn að þeir skuli ekki sjá í hversu ámátlegt ljós þeir setja sjálfa sig með þessu þófi. Þeir eru eins og rjúpnahópur sem vill fresta jólunum til þess að fá að lifa í nokkrar vikur í viðbót. Þetta er alveg dæmalaust.

Ég er hérna með dagatal, hæstv. forsætisráðherra, og ég get afhent þér það og kennt þér á það á eftir ef með þarf. Það er ekki flókið málið. Laugardagarnir í október eru 1., 8., 15., 22. og 29. Ef við erum að tala um október þá er þetta þarna.

Ef við erum að tala um miðjan mánuðinn, sem væri æskilegt þannig að þetta fari ekki alveg inn í veturinn, þá hefst utankjörfundaratkvæðagreiðslan (Forseti hringir.) um 20. ágúst. Þá verður að vera búið að festa kjördaginn löngu áður en Alþingi kemur saman að nýju. Þannig að við eigum að gera þetta núna, hæstv. forsætisráðherra, og ekki degi seinna.



[14:02]
forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að hv. þingmaður sýnir kunnáttu sína í almanakinu. Ég get fullvissað hann um að aðrir þingmenn í þessum sal kunna það líka.

Það er auðvitað þannig, svo ég svari spurningunni aftur, að Framsóknarmenn hræðast ekki kosningar. Eftir það sem við höfum afrekað á kjörtímabilinu þorum við auðvitað að leggja þau verk okkar í dóm kjósenda. Svo það er rangt hjá hv. þingmanni.

Varðandi málatilbúninginn og spurningarnar, ef við tökum þær beint, þá er ég sammála þingmanninum að þetta þarf að liggja fyrir með góðum fyrirvara til að menn geti undirbúið sig. En við erum nú stödd í lok maí enn þá og það er langt til kosninga. En það er rétt. Það þarf að liggja fyrir með nægilega góðum fyrirvara til þess að lýðræðisöfl í landinu geti undirbúið sig og til þess að tryggt sé að allir geti kosið sem það vilja.