145. löggjafarþing — 122. fundur
 31. maí 2016.
rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl., fyrri umræða.
þáltill. stjórnsk.- og eftirln., 791. mál. — Þskj. 1367.

[20:11]
Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum í 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl. Það er rétt sem fram kom í máli hæstv. forseta að málið er flutt af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Allir nefndarmenn voru því sammála.

Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar í samræmi við ákvæði laga um rannsóknarnefndir að fram fari rannsókn á þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8% eignarhluta ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf.

Rannsóknin verði falin einum manni sem forseti Alþingis skipar skv. 1. mgr. 2. gr. laga um rannsóknarnefndir. Hann dragi saman og búi til birtingar upplýsingar um málsatvik og aðkomu einstakra aðila að þátttöku þýska bankans í kaupunum með tilliti til þeirra upplýsinga sem kaupendur veittu íslenska ríkinu sem seljanda og stofnunum þess.

Rannsókninni ljúki svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 31. desember 2016.

Samhliða rannsókninni fari stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd yfir fyrirliggjandi gögn og upplýsingar um umfjöllun og ályktanir eftirlitsaðila um söluna á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., samanber ályktun Alþingis frá 7. nóvember 2012.

Á grundvelli niðurstöðu rannsóknarinnar, sbr. 1. mgr., og að lokinni yfirferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sbr. 4. mgr., leggi nefndin mat á hvort hún geri tillögu um frekari rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., samanber fyrrgreinda ályktun frá 7. nóvember 2012 þar um.“

Hæstv. forseti. Þetta er tillagan eins og hún liggur fyrir. Ég ætla að lesa fyrstu línurnar í greinargerð, með leyfi forseta:

„Tilgangur tillögunnar er að leiða í ljós hver hafi í raun verið þátttaka þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8% eignarhluta ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. og jafnframt að skapa grundvöll fyrir nánari afmörkun á ályktun Alþingis frá 7. nóvember 2012, um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., samanber ákvæði laga um rannsóknarnefndir með síðari breytingum.“

Síðan vil ég vísa í greinargerð sem fylgir þingmálinu þar sem birt er bréf frá umboðsmanni Alþingis sem lagði til við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og þar með Alþingi, að þessi rannsókn færi fram.

Ég vil taka það fram að allir nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis voru þessu sammála. En í umræðu um málið hafa einnig fléttast aðrar tillögur, þar á meðal frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, um rannsókn á einkavæðingu banka, hinni síðari einkavæðingu eins og það hefur stundum verið nefnt. Ég hef sagt það, og það var rætt í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að eðlilegt væri að það mál og önnur sem upp kunna að koma fái skjóta þinglega meðferð og væri eðlilegt að mál af þessu tagi kæmu sem fyrst fyrir þingið. Ég væri því síst mótfallinn að það gerðist núna fyrir þinglokin eða í þessari viku. Ég hefði verið því fylgjandi að þessi mál hefðu fylgst að. En ég þakka fyrir að þetta mál komist hér á dagskrá og legg til að það gangi til síðari umr.



[20:15]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru nú svolítið skrýtin lokaorðin hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni þar sem hann þakkar fyrir að þetta mál komist á dagskrá. Ég held að frekar ætti að bera fram þakkir til þeirra þingmanna sem bíða hér og voru næstir á dagskrá í stað þess að frekjast hér fram fyrir alla með það, því að ef allt hefði verið með felldu hefði þetta mál ekki komist á dagskrá þingsins fyrr en í fyrramálið. En sumir hafa meiri forgang hér í þinginu en aðrir.

Þess ber að geta að það mál sem er hér til umræðu er á þskj. 1367. Sambærilegt mál sem ég flutti snemma í nóvember er á þskj. 392. Það munar því tæpum 1.000 málsnúmerum á þessum tveimur málum sem ég vildi að yrðu rædd saman undir þessum dagskrárlið, þ.e. rannsókn á fyrri og seinni einkavæðingu bankanna. Við því var ekki orðið.

Ég fór til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þegar þetta mál kom þar upp og bar fyrst fram þá ósk að þessum tveimur málum yrði rennt saman í eitt þingskjal. Það var ekki samþykkt. Þar óskaði ég eftir því að þessi mál yrðu rædd saman. Hver er raunin? Jú, málið var tekið út úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd síðastliðinn fimmtudag og það er þriðjudagur í dag. Ég man bara ekki eftir svo fljótri afgreiðslu á einu máli, virðulegi forseti, og kem ég því hér til skila að mér finnast vinnubrögðin afar undarleg sem snúa að þessu máli.

Þá langar mig til að spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson: Hvað er áætlað að fáist út úr þessu máli? Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er hvorki búin að fá það á hreint né fá svör við því hver ber upp kvörtunina eða hver telur sig hafa eitthvað nýtt fram að færa í málinu. Í öðru lagi: Hvert er málið sem rannsaka á? Hvernig er hægt að rannsaka mál ef enginn getur sagt um hvað málið snýst?



[20:18]
Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður lýsti fyrst og fremst sínum viðhorfum. Ég hef áður lýst mínum viðhorfum. En síðan kom ákveðin spurning um þetta þingmál og þá rannsókn sem hér er lagt til að ráðist verði í. Hún er skilgreind í greinargerð með frumvarpinu og er vísað þar í bréf frá umboðsmanni Alþingis sem er ráðgefandi þinginu í þessum efnum. Við höfum farið yfir erindi hans á fundum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Síðan kemur skilmerkilega fram í þingmálinu og greinargerð með því um hvað málið snýst.



[20:18]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafna andsvari hv. þm. Ögmundar Jónassonar því að það stendur ekkert í þessu þingskjali um hvað þetta mál er. Hér er verið að leggja til að taka upp 13 ára gamalt mál, blanda þinginu inn í það með afgerandi hætti og láta þingið sjálft skipa hér rannsóknarnefnd um mál sem eru löngu fyrnd. Jafnframt var ríkisendurskoðanda falið hér árið 2006 að gera ítarlega úttekt á málinu og kom þar ekkert einkennilegt fram eftir gögnum að dæma sem eru aðgengileg á vef Ríkisendurskoðunar. Og ekki nóg með það, heldur var fjallað ítarlega um einkavæðingu bankanna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á 71 blaðsíðu og kom ekkert út úr því sem þingmenn hafa orðið varir við eða landsmenn allir. Í millitíðinni hefur verið kallaður saman landsdómur. Hér hafa fallið þungir hæstaréttardómar sem fjalla um markaðsmisnotkunarmál og annað. Þá spyr ég: Hvað er verið að rannsaka? Það stendur skýrt í lögunum um rannsóknarnefndir Alþingis að rannsóknarefnið skuli vera skýrt og afmarkað og að öllum skuli vera ljóst hvað eigi að rannsaka.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann aftur: Hver er það sem kom með þessar nýju upplýsingar til umboðsmanns Alþingis sem, nota bene, var í rannsóknarnefnd Alþingis, einn af þremur, og skrifaði níu binda skýrslu um fall bankanna og rannsókn á fyrri einkavæðingu bankanna?

Í öðru lagi: Hvert er sakarefnið sem rannsaka á til þess að þeir sem rannsóknin beinist að geti þá farið að leita í 13–20 ára gömlum skjölum til að taka til varna? Hvernig er hægt að fara af stað með rannsókn á vegum þingsins og þvæla löggjafanum inn í það án þess að nokkur viti hvað rannsaka á, heldur byggist það á almannarómi einhvers huldumanns úti í bæ?



[20:21]
Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í upphafsorðum greinargerðar með þingsályktunartillögunni segir og ég ítreka, með leyfi forseta:

„Tilgangur tillögunnar er að leiða í ljós hver hafi í raun verið þátttaka þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8% eignarhluta ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. og jafnframt að skapa grundvöll fyrir nánari afmörkun á ályktun Alþingis frá 7. nóvember 2012 …“

Þetta mál hefur áður og oft verið til umræðu í þinginu, þar á meðal í fyrirspurn frá mér í febrúar 2006 og þá bárust svör frá viðskiptaráðuneytinu. Talin er ástæða til að efast um að þau hafi verið á rökum reist og hefur þáverandi viðskiptaráðherra lýst því yfir opinberlega í fjölmiðlum að hún telji eðlilegt og fagnar því að málið skuli vera tekið til rannsóknar.

Ég ítreka að málið er skilgreint í sjálfu þingmálinu og í greinargerð sem fylgir því. Að öðru leyti er ekki annað um það að segja en að hv. þingmaður hefur lýst sínum viðhorfum til málsins. Ég hef lýst mínum.



[20:22]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil biðja þá þingmenn sem eru í þinghúsinu afsökunar á því að þetta mál sé komið á dagskrá, en það vissu allir að ég mundi tala í málinu. Það verður einhver bið á þingstörfum þangað til málinu lýkur en það er ekki á mína ábyrgð og endurtek ég það. Ég fór fram á að þessi mál yrðu rædd saman, það mál sem er nokkurra daga gamalt og mál sem ég lagði fram snemma í nóvember, en það munar um þúsund númerum á þeim þingskjölum sem um er að ræða. Það hefur verið hefð í þinginu að mál þingmanna eru tekin eftir málsnúmerum, þeir þingmenn sem leggja mál sín fram fyrr eiga meiri séns á því að málin séu tekin til umræðu og 1. umr. ef málsnúmerin eru lág. En sífellt er verið að búa til nýjar reglur, sem er líklega á ábyrgð forseta og forsætisnefndar.

Það er afar erfitt fyrir þingmenn að starfa undir slíkum kringumstæðum, sérstaklega í ljósi þess að sú þingsályktunartillaga sem ég ætlaði að ræða sameiginlega með þessu máli hefur verið lögð fram áður. Hún var fyrst lögð fram árið 2011 sem breytingartillaga við tillögu þáverandi meiri hluta ríkisstjórnarflokkanna um að rannsaka einkavæðingu bankanna hina fyrri einu sinni enn. Það varð ekki útrætt það ár og málið var lagt fram aftur þingveturinn 2012 og náðist þá í gegn. Hv. þingmaður og framsögumaður málsins, Ögmundur Jónasson, vísaði í að það hefði verið samþykkt árið 2012 að hefja einu sinni enn rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni fyrri og var þessi tillaga mín þá líka lögð fram sem breytingartillaga en var felld eftirminnilega, sem gefur vísbendingar um það að fyrrverandi stjórnarflokkar, Vinstri grænir og Samfylking, vilji ekki að einkavæðing bankanna, hin seinni, verði rannsökuð. Þetta var mjög einkennilegt. Ég hef sagt áður að síðan þá hef ég lagt þetta fram a.m.k. tvisvar sinnum sem sjálfstætt þingskjal og ekki fengið málið rætt.

Það er nú svo að nokkur vandi var á höndum þegar 28 þingmenn samþykktu á síðasta kjörtímabili að hefja eina rannsókn í viðbót á einkavæðingu bankanna hinni fyrri, 28 þingmenn, meiri hluti þingmanna treysti sér ekki til að styðja þá tillögu að fara af stað með fullrannsakað mál og tillögu um nýja rannsókn. Þess vegna hefur dregist að taka á því máli, því að fram að því hafði verið mikill peningaaustur í þær rannsóknarnefndir sem var búið að stofna á vegum þingsins. Ber þar að nefna rannsóknarnefnd Alþingis sem ég vísaði í áðan, það var rannsóknarnefnd um Íbúðalánasjóð og rannsóknarnefnd um sparisjóðina. Fór kostnaður við nefndirnar í hátt í 1,5 milljarða. Þess vegna var pólitískt samkomulag um að breyta þyrfti því og að þetta yrðu nefndir sem væru ekki óendanlegar, eins og raunin varð með þessar nefndir og sífellt verið að bæta við og peningar sóttir í gegnum forsætisnefnd í fjárlög til þess að uppfylla fjárkröfur nefndanna. Það er vel.

Það verður líka að passa, og ég hef rætt það í þingsályktunartillögu minni og úr ræðustól þingsins og í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bæði kjörtímabilin sem ég hef setið á þingi, að ekki má stofna til rannsóknar eða rannsóknarnefnda á vegum þingsins í pólitískum tilgangi, til að koma höggi á andstæðingana. Þess vegna hef ég talað fyrir því að a.m.k. meiri hluti þingmanna þurfi að samþykkja rannsóknarnefndir. Helst hefði ég viljað sjá þá breytingu á lögum um rannsóknarnefndir sem fór í gegnum þingið í síðustu viku að aukinn meiri hluta þingmanna þyrfti til að fara af stað með rannsóknarnefndir, til að tryggja að það væru ekki pólitískar hefndaraðgerðir, eins og virtist glitta í á síðasta kjörtímabili, sérstaklega þegar farið var af stað með rannsóknarnefnd um einkavæðingu bankanna hina fyrri enn einu sinni, ég fór yfir það í andsvari hversu oft er búið að rannsaka einkavæðingu bankanna hina fyrri.

Ég hvet fólk til að fara inn á vef Ríkisendurskoðunar, rikisendurskodun.is, velja flipa sem ber nafnið Annað og finna undir honum skjöl með því að smella á hlekk sem vísar manni á hv. þm. Vilhjálm Bjarnason, en þar svarar Ríkisendurskoðun aðdróttunum hans og efasemdum um aðkomu þýska bankans að sölu Búnaðarbankans. Ríkisendurskoðun fór vel yfir þau mál árið 2006 og er því svarað á að mig minnir 46 fylgiskjölum. Ég vil biðja þingmenn sem láta sig þau mál varða að skoða það vel því að einhvern veginn virðast fáir vita um tilvist þessara skjala. Ég bendi líka á kafla 6 í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem snýr að rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni fyrri. Í nefndinni átti sæti Tryggvi Gunnarsson sem nú er umboðsmaður Alþingis, hann var það líka þá, en það er svolítið merkilegt að hann er fenginn til að koma inn í þingið með nafnlaust bréf og nafnlausar sakir og hvetja til þess að þessi mál verði skoðuð á nýjan leik. Eins og ég hef sagt hefur málið fengið alveg dæmalausa flýtimeðferð í þinginu, það liggur greinilega mikið á pólitískt að koma því af stað og rannsóknarnefnd um einkavæðingu bankanna hina seinni, tillaga um hana liggur ekki sem þingskjal samhliða eins og ég var búin að biðja um.

Varðandi þessi mál er rétt að geta þess að frá því að ég lagði fram þingsályktunartillögu þessa og breytingartillögu hef ég alltaf talað fyrir því að uppfylla ætti kröfu síðustu ríkisstjórnar varðandi rannsóknarnefnd Alþingis, að skoða einkavæðingu bankanna hina fyrri með því að tengja þessar tvær rannsóknir saman. Mér finnst það eðlilegt og var ég fyrsta manneskjan til þess að minnast á það og tala fyrir því að þær rannsóknir yrðu tengdar saman og væru þá saman í einni nefnd, rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni fyrri og rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni seinni, sem átti sér stað á haustdögum 2009. Til þess að fyrirbyggja misskilning, virðulegi forseti, því að sumir hafa gripið í að ég sé að tala um það, sem sýnir hvað þingmenn eru illa lesnir í þessum málum, hefur verið slegið upp að ég sé að tala um endurreisn bankanna sem átti sér stað á haustdögum 2008. Ég er ekki að tala um það. Það gekk allt saman vel fyrir sig og smurt og tókst með ótrúlegum hætti að endurreisa bankana eftir bankahrunið á grunni neyðarlaganna og hafi þeir þakkir fyrir það sem að því stóðu.

Ég er að tala um það sem kom í kjölfarið þegar einkavæðing bankanna, hin síðari, átti sér stað. Það var á haustdögum 2009. Atburðarásin byrjaði í febrúar/mars það ár og vel hægt að afmarka það tímabil. Þetta spannar níu mánaða tímabil í sögu þjóðarinnar, vel afmarkað. Úti á nefndasviði liggja gögn sem snúa að þessu máli, sem að vísu hvílir leynd yfir, en ég hvet þingmenn til að kynna sér þetta.

Svo er ég búin að eyða nokkrum tugum mánaða í að reyna að fá svör frá kerfinu sem snúa að þessum tíma. Það hefur reynst mjög erfitt sem sýnir að kerfið er ekki alveg tilbúið til að gefa þær upplýsingar þjóðkjörnum þingmönnum og eftirlitsnefnd þingsins. Rétt er að geta þess að þann 27. apríl skrifaði meiri hluti fjárlaganefndar bréf sem var sent til ríkisendurskoðanda 2. maí síðastliðinn og ég er enn að bíða eftir svörum við þeim spurningum sem þar eru.

Ég ætla að vísa í það bréf, til þess að reyna að ýta á hin opinberu embætti að svara fjárlaganefnd. Sem dæmi spyr ég um nafnverð krafna sem voru fluttar til Arion á stofndegi hans á haustdögum 2009 og á hvaða verði þær voru fluttar yfir. Var framkvæmt mat á áætluðu virði þeirra? Var gengið frá fullnaðaruppgjöri Kaupþings við Seðlabankann? Varð Seðlabankinn fyrir tjóni vegna þessara tilfærslna? Þetta eru m.a. þær spurningar sem ég hef lagt fyrir og hef beðið eftir svörum við í mánuð. Ég vona að þessi umræða í dag flýti svörum frá embættinu því að þá getum við, án aðstoðar þingsins má segja, vegna þess að þingið er ekki tilbúið til þess að stofna rannsóknarnefnd um einkavæðinguna hina seinni, farið að sýna landsmönnum hvað gerðist þá daga þegar bankarnir voru einkavæddir í annað sinn án útboðs, raunverulega fluttir til kröfuhafa á einni nóttu.



[20:33]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi í tilefni af ræðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur segja að ég sem nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er sammála henni um að það sé ástæða til þess að fara yfir einkavæðinguna hina síðari og að það eigi eftir að leiða ýmsa hluti í ljós um þá atburðarás. Ég er sammála því. Ég er hins vegar ekki jafn sannfærður og hún um að rétt sé að tengja þetta tvennt saman. Sú rannsókn sem liggur fyrir í þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu er mjög afmörkuð um tiltekin atvik sem tengjast einkavæðingu bankanna 2002–2003. Ég átta mig ekki á því að það sé efnislegt hagræði af því að tengja það við þá atburði sem áttu sér stað árið 2009. Ég held í raun og veru að það sé heppilegra að hafa tvær aðskildar rannsóknir þar sem hvor rannsókn hefur sitt andlag, sínar rannsóknarspurningar, og atburðarás sem þarf skýra.

Ég get verið sammála hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um að búið er að leiða mjög margt í ljós um einkavæðingu bankanna hina fyrri. Það sem hefur hins vegar gerst í þessu máli er að það eru vísbendingar um að nýjar upplýsingar séu komnar fram sem geti breytt þeirri mynd sem við höfum af atburðarásinni í því tilviki og hugsanlega leiði þær í ljós atriði sem fram að þessu hafa verið a.m.k. umdeild. Ég held að hægt sé að gera það í tiltölulega stuttri rannsókn og fá á hreint hvort þarna sé um að ræða raunveruleg gögn sem breyta myndinni. Þess vegna styð ég tillöguna sem hér liggur fyrir og vona að hún nái fram að ganga.



[20:35]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Áður en ég gleymi því og ef það hefur ekki komið fram í fyrri ræðu minni þá styð ég þessa tillögu. Það er mjög mikilvægt að þetta mál sé leitt til lykta þótt ég efist um sannleiksgildi eða tilgang þess, svo það sé sagt. Ég geri það á grunni þess að ég studdi það að báðar einkavæðingarnar færu í rannsókn. En pólitískar refskákir eru oft og tíðum þannig að til þess að ná einu fram er hitt skilið eftir. Það hefur svo sannarlega birst í vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar undir forustu fyrrverandi ráðherra síðustu ríkisstjórnar, hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Hann var meðvitaður um það allan tímann að báðar þessar breytingartillögur frá síðasta kjörtímabili og þingsályktunartillagan frá mér um að rannsaka síðari einkavæðingu bankanna lægju fyrir þinginu. Gott og vel.

Það má vel vera, hæstv. forseti, að ég þiggi það góða boð að þingsályktunartillaga mín um rannsókn á síðari einkavæðingu bankanna fari á dagskrá þingsins á morgun, eins og gaukað var að mér í dag og ég spurð hvort ég væri tilbúin að samþykkja, fyrst það láðist að setja þær báðar á dagskrá í dag. Við skulum þá fara í það mál, ræða það á morgun og taka þá enn meiri tíma frá þinginu í þessi mál, vegna þess að stefnt er að þinghléi á fimmtudaginn. Það má alveg segja að þetta sé handvömm. En það er jafnframt merkilegt, og ég vil segja það við hv. þm. Birgi Ármannsson, að þingmenn hafa ekki neitt fast í hendi um hvað á að fara að rannsaka annað en upplýsingar frá einum aðila utan úr bæ sem segir að hér sé kannski eitthvað nýtt á ferðinni.



[20:37]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að þingið eða þingnefndin hefur ekki undir höndum þær upplýsingar sem hér er vísað til og hefur ekki séð þær. Það er mitt mat að það megi með rannsókn af þessu tagi leiða í ljós hvort hér er raunverulega um að ræða ný gögn. Það verður síðan metið þegar þær upplýsingar liggja fyrir hvort þær breyta með einhverjum hætti þeirri mynd sem við höfum af atburðarásinni.

Ég vildi hins vegar segja að það er alveg rétt sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kom inn á í ræðu sinni, að við höfum verið í hálfgerðum vandræðum með þá þingsályktunartillögu sem samþykkt var 2012. Þar er eiginlega tvennt sem hefur valdið því að það mál hefur tafist. Annars vegar það að að margra mati var sú tillaga frekar illa afmörkuð og ekki mjög skýr um þá þætti sem leiða átti í ljós umfram það sem áður hafði komið fram. Eins töldu menn þörf á því að setja skýrari lagaramma um hvernig staðið skyldi að undirbúningi og afmörkun bæði rannsóknarefnis og fyrirkomulags rannsóknar. Það hefur nú verið gert.

Ég vil reyndar láta í ljós þá skoðun í þessari umræðu að komi í ljós að þau nýju gögn sem umboðsmaður Alþingis vísaði til og er tilefni þeirrar tillögu sem við ræðum hér varpi einhverju nýju ljósi á atburðarásina tel ég að þar með séum við að mestu leyti, ef ekki öllu, búin að tæma það sem óklárað var eða óljóst varðandi einkavæðinguna hina fyrri.

Svo ítreka ég þá afstöðu mína að ég tel að það sé full ástæða til þess að fara yfir einkavæðinguna (Forseti hringir.) hina síðari og styð hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur í því efni.



[20:39]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið og ég þakka kærlega fyrir stuðningsyfirlýsinguna, að fá afdráttarlausa stuðningsyfirlýsingu til að fara í rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni síðari. Það er mjög mikilvægt fyrir málið.

Þetta voru rándýrar rannsóknarnefndir sem ég vísaði í áðan. Ein kostaði yfir 700 milljónir, það var rannsóknarnefndin um sparisjóðina. Það kom niðurstaða í þá rannsóknarvinnu sem tekin var fyrir á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrir nokkrum dögum eða á nokkrum vikum. Þar var leitt í ljós að tap ríkisins á því að endurreisa sparisjóðina var 32 milljarðar — þrjátíu og tvö þúsund milljónir. Þar liggja stórar upphæðir og væri vert fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að leggja til enn frekari rannsókn á því hvernig það gat gerst og hvernig þetta tap var leitt yfir ríkissjóð. En þá er búin til nokkurs konar smjörklípa og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd býr til nýtt mál úr 13 ára gömlu máli.

Mér finnst heldur ekki sæmandi fyrir þjóðþing Íslendinga að fara af stað með rannsókn í máli sem er fyrnt og byggir á ummælum eins manns og umboðsmaður Alþingis kemur með það fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem ákvað það á einum fundi sínum að hefja rannsókn. Þegar Alþingi hefur rannsókn verður það að vera málatilbúnaður af því tagi að leitt sé fram með óyggjandi hætti að eitthvað rangt hafi átt sér stað. Hér er verið að leggja til rannsókn þar sem enginn veit hvað á að fjalla um, sem er (Forseti hringir.) fyrnt og það er huldumaður sem ber tillöguna upp.



Till. gengur til síðari umr.