145. löggjafarþing — 123. fundur
 2. júní 2016.
framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda 2016–2019, fyrri umræða.
stjtill., 765. mál. — Þskj. 1285.

[00:02]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

Samkvæmt 7. gr. laga um málefni innflytjenda skal ráðherra leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda til fjögurra ára í senn að fenginni umsögn annarra ráðuneyta, stofnana, Fjölmenningarseturs og innflytjendaráðs. Er þetta í fyrsta sinn sem mælt er fyrir slíkri þingsályktunartillögu eftir að lög um málefni innflytjenda voru samþykkt árið 2012.

Meginmarkmið þingsályktunartillögunnar sem hér er mælt fyrir er að stuðla að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna. Því skal m.a. náð fram með því að taka tillit til hagsmuna innflytjenda í stefnumótun, stjórnsýslu og opinberri þjónustu. Með framkvæmdaáætlun þessari er unnið að því að tryggja jöfn tækifæri allra landsmanna óháð einstaklingsbundnum þáttum og aðstæðum. Stuðlað verði að samfélagi án aðgreiningar, að sérhver einstaklingur fái tækifæri til að njóta sín óháð uppruna og geti þannig auðgað samfélagið. Mikilvægt er að vel sé tekið á móti einstaklingum og fjölskyldum sem flytja til Íslands svo að fólk fái tækifæri til að skapa sér farsælt líf hér á landi. Huga þarf að þörfum innflytjenda við opinbera stefnumótun og samfélagið í heild þarf að takast á við nýjar aðstæður, hvort sem er á vinnumarkaði, í skólakerfinu, heilbrigðisþjónustu eða annarri velferðarþjónustu ríkis og sveitarfélaga.

Framkvæmdaáætlunin sem hér er mælt fyrir var unnin í samráði við innflytjendaráð eins og ég nefndi ásamt því að leitað var til sérfræðinga innan háskólasamfélagsins, meðal stofnana og hjá sveitarfélögum. Jafnframt voru hafðar til hliðsjónar ábendingar sem fram komu í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2015 um málefni útlendinga og innflytjenda. Þá var við upphaf vinnunnar greint hverjar væru helstu ábendingar sem borist hefðu til íslenskra stjórnvalda frá alþjóðlegum stofnunum og nefndum og jafnframt fór framkvæmdaáætlun í opið umsagnarferli á vef ráðuneytisins. Tillaga innflytjendaráðs var að horfa á fjórar stoðir; fjölskylduna, menntun, vinnumarkaðinn og samfélagið. Voru fjórir vinnuhópar skipaðir í samræmi við það. Í ljósi þess hve mikill viðsnúningur og hversu mikil breyting hefur orðið í málefnum flóttamanna var ákveðið á síðari stigum að bæta við fimmtu stoðinni sem snýr eingöngu að málefnum flóttamanna, en allar aðgerðir í áætluninni taka þó að sjálfsögðu einnig til flóttamanna þar sem þeir eru líka innflytjendur.

Framkvæmdaáætlunin samanstendur af 30 aðgerðum undir þeim fimm stoðum sem hér hafa verið tilgreindar. Í stoðinni sem fjallar um samfélagið er horft á verkefni sem draga fram þau tækifæri sem felast í ólíkum menningarlegum bakgrunni landsmanna og nýta þannig þekkingu innflytjenda til þess að efla íslenskt samfélag. Þá er lögð áhersla á að aðgerðirnar stuðli að virkri þátttöku innflytjenda í samfélaginu. Leitast verður við að ná breiðri samstöðu með félagasamtökum, fjölmiðlum, atvinnulífi og innflytjendum við framkvæmd aðgerða. Meðal aðgerða má nefna fræðslu til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga og hvatningarverðlaun til þeirra aðila sem stuðla að faglegri, vandaðri og upplýstri umfjöllun um málefni innflytjenda og þátttöku þeirra í samfélaginu.

Í fjölskyldustoðinni er lögð áhersla á verkefni sem stuðla að aukinni upplýsingagjöf til innflytjenda fyrst eftir komu þeirra til landsins. Þá skal leita leiða til að varpa ljósi á aðstæður þeirra á húsnæðismarkaði og vinna að bættu húsnæðisöryggi þeirra. Í þessu sambandi verður einkum lögð áhersla á stuðning við þá hópa innflytjenda sem standa höllum fæti og skortir stuðningsnet hér á landi. Þá verði einnig unnið að því að auka þátttöku barna og ungmenna innflytjenda í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Eitt af því sem ég vildi fá að nefna sérstaklega í kafla B, um fjölskyldustoðina, að talað er í lið B.2 um fyrirmynd að móttökuáætlun. Þar er ætlunin að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að semja fyrirmynd að formlegri móttökuáætlun fyrir sveitarfélög. Við höfðum kynnt okkur hvað einstök sveitarfélög höfðu verið að gera og töldum að það gæti skipt öll sveitarfélög mjög miklu máli að vera með formlega áætlun. Stefnt er að því að minnst 15 sveitarfélög hafi tekið upp formlega móttökuáætlun í lok árs 2019 og að þau sveitarfélög nái til þorra innflytjenda á Íslandi.

Það kann svo sem ekki að koma á óvart, virðulegur forseti, að í áætluninni sé rætt sérstaklega um húsnæðismálin. Það hefur sýnt sig ítrekað að staða fólks af erlendum uppruna á húsnæðismarkaði getur verið erfið og innflytjendur í nágrannalöndum okkar eru skilgreindir sem einn af þeim viðkvæmu hópum sem þarf að huga að þegar kemur að húsnæðismálum og mjög hátt hlutfall innflytjenda er t.d. á leigumarkaðnum.

Í ljósi ræðu áðan um jafnréttismál og ofbeldismál þá vil ég nefna að í öllum þeim framkvæmdaáætlunum sem ég hef verið að vinna að er tengt inn á ofbeldismálin og þar hef ég lagt mikla áherslu á að við nýtum þá takmörkuðu fjármuni sem við höfum og það afl sem við höfum með því að samþætta áætlunina með þessum hætti. Við erum náttúrlega líka að gera okkur betur og betur grein fyrir því að það geta verið aðrir mismunaþættir sem hafa veruleg áhrif á stöðu fólks umfram það sem er kannski algengast að við tölum um, sem er kyn, en eins og hérna er nefnt getur það verið uppruni og fötlun eins og var talað um í fyrri ræðu. Hér er sérstaklega talað um stuðning við konur sem hafa búið við heimilisofbeldi og síðan ofbeldi almennt. Þarna er þá unnið samkvæmt verklagi sem ég, innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra höfum komið okkur saman um og vinna aðgerðaáætlun gegn ofbeldi þar sem einmitt er komið sérstaklega inn á berskjaldaða hópa, þá sem eru viðkvæmir. Þar er talað sérstaklega um fatlað fólk og það sem snertir innflytjendur.

Síðan er þriðja stoðin, menntastoðin. Hún er gífurlega mikilvæg. Í menntastoðinni er lögð áhersla á jafna stöðu og jöfn tækifæri til menntunar og að þekking og reynsla innflytjenda sé metin. Í áætluninni er lagt til að unnið verði enn markvissara en hefur verið gegn brottfalli innflytjenda úr framhaldsskólum með stuðningi á öllum skólastigum, m.a. með aukinni áherslu á kennslu í móðurmáli þeirra barna sem hafa annað móðurmál en íslensku. Þá er lögð áhersla á að auka gæði og framboð íslenskunáms fyrir innflytjendur.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi framkvæmdaáætlun fari til allsherjar- og menntamálanefndar, eins og ég mun leggja til, og einnig skýrsla um stöðu innflytjenda á Íslandi. Þar eru mjög áhugaverðar upplýsingar sem við mundum helst vilja hafa öðruvísi, eins og varðandi brottfall. Það er það sem við erum að vinna að með þessari framkvæmdaáætlun, ekki síst þegar kemur að brottfalli úr framhaldsskólanámi og síðan í framhaldinu varðandi háskólanám, þannig að menntastoðin er að mínu mati alveg gífurlega mikilvæg.

Í vinnumarkaðsstoðinni er lögð áhersla á að staða innflytjenda á vinnumarkaði verði styrkt og tryggt að þeir njóti sömu tækifæra og aðrir. Launajafnrétti á vinnumarkaði verði sett í forgang sem og það að tryggja innflytjendum aukin tækifæri til endurmenntunar og starfstengds náms. Þá er gert ráð fyrir í einni aðgerðinni bættu eftirliti með vinnustöðum.

Ef það er eitthvað sem ég held að við getum sagt að við höfum staðið okkur þokkalega í þegar kemur að þessu málefni þá er það atvinnuþátttaka fólks af erlendum uppruna. Hún hefur verið mjög mikil og hefur kannski verið helsta ástæðan fyrir því að gengið hefur þokkalega í málaflokknum. En við sáum hins vegar að atvinnuleysi hjá innflytjendum jókst mjög mikið við hrunið. Það tók lengri tíma að atvinnuleysi hjá þeim minnkaði en hjá fólki sem var fætt á Íslandi og var ekki af erlendum uppruna. Hér er verið að huga að þáttum sem við teljum að þurfi sannarlega að bæta úr þegar kemur að vinnumarkaðnum. Til dæmis er hér nefnt hlutfall innflytjenda í opinberum störfum og áhrifastöðum í samfélaginu. Það má bara horfa yfir þingsalinn þegar kannski fleiri sitja í honum. Launajafnrétti almennt á vinnumarkaði verði sett í forgang, hér sé ekki um að ræða félagsleg undirboð á nokkurn máta, og stutt sé við tengslanet innflytjenda á vinnumarkaði. Við þekkjum öll í okkar litla samfélagi hvað tengslanetið getur skipt miklu máli. Síðan er rætt um aukna möguleika til endurmenntunar og starfstengds náms og fjölgun sérfræðimenntaðra innflytjenda á Íslandi. Ég er ánægð með mjög margt í frumvarpi um útlendingalög sem var rætt hér á undan, en ekki síst þær breytingar sem verið er að gera á atvinnulöggjöfinni þegar kemur að innflytjendum. Ég vona svo sannarlega að það muni leiða til þess, ásamt því sem við erum að gera í þessari áætlun, að fleiri sérfræðimenntaðir innflytjendur geti nýtt þekkingu sína og færni á íslenskum vinnumarkaði og einnig þeir sem eru þegar komnir til landsins.

Í flóttamannastoðinni er lögð áhersla á að flóttafólk fái fljótt tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, hvort sem er á vinnumarkaði, varðandi menntun eða á öðrum sviðum. Þá fái flóttafólk jafnframt nauðsynlega aðstoð til að vinna úr þeim áföllum sem það er að kljást við. Lögð verði áhersla á að hjálpa fólki til að koma sér vel fyrir hér á landi, jafnt flóttamönnum sem hingað koma fyrir milligöngu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og þeim sem koma til landsins eftir öðrum leiðum.

Til að þjónusta og stefnumörkun vegna móttöku flóttafólks verði sem skilvirkust verður lögð áhersla á að rannsaka hagi flóttafólks eins fljótt og unnt er eftir komu þess til landsins. Lagt er til að sett verði á stofn nefnd sem kortleggi núverandi þjónustu og setji fram tillögur um hvernig hægt sé að bæta þjónustu við flóttafólk eftir hælismeðferð og þá gerir nefndin tillögu um samræmt móttökukerfi fyrir flóttafólk. Sérstaklega verði hugað að þætti sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka við móttöku flóttafólks, einnig að tengslum á milli stjórnsýslustofnana og fræðslu fyrir starfsfólks ríkis og sveitarfélaga sem kemur að móttöku flóttamanna. Ég tel að um mjög mikilvæga tillögu sé að ræða og áríðandi að við vöndum okkur við þetta. Við höfum alla jafna við móttöku kvótaflóttamanna lagt áherslu á sérstaklega viðkvæma hópa flóttamanna. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna er með ákveðnar skilgreiningar þar sem hún metur stöðu flóttamanna eftir því í hversu viðkvæmri stöðu viðkomandi eru. Einn sá hópur sem við höfum tekið á móti er einstæðar mæður, einstæðar konur með börn á flótta. Annar hópur er hinsegin fólk sem sætir oft ekki bara ofsóknum í heimalandi sínu heldur jafnvel í flóttamannabúðunum þar sem viðkomandi einstaklingar eru og annar hópur sem við höfum líka tekið á móti er fólk sem þarf á sérstakri aðstoð að halda vegna vanheilsu eða fötlunar. Þá verði skoðað hvernig hægt sé að halda áfram að styðja við þessa sérstöku viðkvæmu hópa, en samhliða því að huga að þeim sem koma hér og fá stöðu flóttamanns eftir hælisleitandaferli.

Jafnhliða þingsályktunartillögunni þá legg ég fram þingskjal sem er skýrsla um stöðu og þróun í málefnum innflytjenda samkvæmt 8. gr. laga um málefni innflytjenda. Það er í fyrsta sinn sem slík skýrsla er lögð fyrir Alþingi. Með skýrslunni er rennt frekari stoðum undir þær tillögur að aðgerðum sem birtast í framkvæmdaáætluninni og greint frá þróun í málaflokknum síðustu árin og stöðu hans nú. Skýrslan sýnir þróun á síðustu 15 árum og má svo sannarlega segja að landslagið sé nokkuð breytt frá því að 3,2% þjóðarinnar töldust vera innflytjendur árið 2000, en nú teljast 10% þjóðarinnar vera fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda. Í skýrslunni er líka fjallað um atvinnuþátttöku innflytjenda, en 9,3% vinnuaflsins hér á landi er með erlent ríkisfang. Þá er fjallað um stöðu innflytjenda innan skólakerfisins og þróun varðandi málefni flóttamanna almennt.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir meginatriðum málsins og ég vona svo sannarlega að þingsályktunartillaga um fyrstu lögbundnu framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem hér er lögð fram muni verða til þess að stuðla að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna. Ég leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og til síðari umræðu.



[00:17]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er liðið nokkuð fram á nótt og þess vegna sé ég ekki ástæðu til að lengja umræðurnar. Ég kem eiginlega hér upp í ræðustað, í andsvar við ráðherrann, til að lýsa ánægju minni með að áætlun af þessu tagi skuli vera komin fram. Hún er tímabær. Það svarar líka kalli tímans að leggja slíka áætlun fram, sem tekur á einu og öðru sem lýtur að móttöku flóttamanna, þ.e. hvernig við búum að fólki eftir að það er flutt hingað til landsins og hvernig við auðveldum því að aðlagast íslensku samfélagi og vera virkt á vinnumarkaði. Ég hefði kosið, eins og kom fram í málflutningi varðandi útlendingalöggjöfina, að það væri ein stofnun sem hefði það utanumhald með höndum, þ.e. að leiðbeina, aðstoða og gæta hagsmuna innflytjenda, bæði þegar þeir koma hingað og leita hælis en líka á fyrstu mánuðum og missirum eftir að þeir hafa fengið hér viðtöku. Það segir líka töluvert um menningarstig þjóðar hvernig við tökum á móti þeim sem til okkar leita og hvernig búið er um það utanumhald allt saman.

Ég er ánægð með að þessi áætlun skuli hafa litið dagsins ljós. Hún er tímanna tákn og til vitnis um þau viðfangsefni sem við sem þjóð þurfum að takast á við vegna þeirra atburða sem eru að eiga sér stað í veröldinni umhverfis okkur.



[00:19]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hæstv. ráðherra svo og hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur um að mikilvægt sé að þingsályktunartillaga sem þessi um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sé sett fram. Ég fagna því þó svo að það séu nokkur atriði sem mig langar engu að síður í stuttri ræðu að gera að umtalsefni.

Mig langar að byrja á að taka undir með hæstv. ráðherra að það sem fjallað er um í kafla C, um menntastoð, sé alveg gríðarlega mikilvægt mál. Ég hef hins vegar svolitlar áhyggjur af því að það sé ef til vill ekki nógu fast kveðið að því, ég mundi vilja sjá enn fastar kveðið að því hversu mikilvægt það er að íslenskukennsla sé góð og aðgengileg. Mér finnst að stjórnvöld eigi að vinna að því að innflytjendur geti sótt námskeið í íslensku til að mynda á vinnutíma sér að kostnaðarlausu. Ég held að það mundi hjálpa fólki mjög svo til að gera sig heimakomið í íslensku samfélagi.

Að sama skapi tel ég líka mjög mikilvægt að vel sé hlúð að móðurmáli fólks og ekki síst barna. Mér finnst gott að í lið C.2 sé fjallað um þetta, því að til að geta tekið þátt í samfélagi sem fullgildur samfélagsþegn er nauðsynlegt að hafa tungumál sem maður kann vel og skilur vel til að geta hreinlega hugsað flóknar og erfiðar hugsanir. Það er rosalega mikilvægt líka að geta átt í djúpum og innihaldsríkum samræðum við sína nánustu. Þar held ég að móðurmálið skipti alveg gríðarlega miklu. Mér finnst það reyndar fínt markmið sem sett er fram að árið 2018 eigi 75% nemenda með íslensku sem annað mál að fá stað- eða fjarkennslu í eigin móðurmáli. Ég spyr, þar sem þessi áætlun nær til ársins 2019, hvers vegna er látið staðar numið við árið 2018? Er ekki markmiðið að fara hærra en upp í 75%? Þetta er kannski eitthvert fínstillingaratriði sem nefndin mætti skoða vegna þess að þetta er alveg gríðarlega mikilvægt mál.

Í lið C.3 er fjallað um aðgerðir gegn brotthvarfi úr námi. Mig langar að setja dálítið spurningarmerki við það sem heyrir undir framkvæmdina þar sem segir að unnið verði að því að sem flestir framhaldsskólar bjóði upp á viðeigandi námstilboð. Ég velti fyrir mér hvað viðeigandi námstilboð sé. Ætti ekki stefnan að vera á það að innflytjendur ljúki sama námi og gildir um aðra Íslendinga í marga ættliði? Þarna finnst mér að þurfi að huga að orðalaginu og hverju við stefnum að. Þarna þyrfti að ganga lengra.

Í kafla D er fjallað um vinnumarkaðsaðstoð. Þar langar mig að fagna sérstaklega lið D.6 sem fjallar um bætt eftirlit með vinnustöðum. Við höfum oft fengið fréttir af því hvernig stundum er komið illa fram við erlent verkafólk. Stundum kemur fólk hingað tímabundið og telst ekki til innflytjenda kannski í þeim skilningi, en þetta gildir líka um innflytjendur, fólk sem þekkir kannski ekki réttindi sín með sama hætti og þeir sem hafa verið lengur hér og alist upp í samfélaginu frá barnsaldri. Mér finnst mikilvægt að þetta ákvæði sé inni.

Sömuleiðis vil ég fagna því sem sagt er í kafla E um flóttafólk og taka undir með ráðherra að liður E.1 um móttöku flóttafólks eftir hælisleit sé sérlega mikilvægur, því að ósamræmið og aðstöðumunur fólks eftir því í gegnum hvaða leið eða hlið það kemur til landsins er auðvitað hrópandi og brýnt að tekið verði á því að jafna þar, og vil ég taka skýrt fram að jafna þar upp, þ.e. bæta réttindi þeirra sem koma hingað, þá ekki sem kvótaflóttamenn heldur koma hingað fyrir eigin rammleik, að bæta þurfi stöðu þeirra til jafns við hælisleitendur.

Mér finnst einnig gott, eins og mælt er fyrir í lið E.4, að gera eigi rannsókn á stöðu og líðan flóttafólks. Mig langar hins vegar að segja að ég tel fyrirséð að svona rannsókn sé ekki nóg að gera bara einu sinni þó svo ég sé engan veginn að tala fyrir því að það þurfi að gera svona rannsókn oftar meðan þessi áætlun er í gildi, en mér finnst mikilvægt að segja við þessa umræðu og halda því til haga að það er auðvitað mikilvægt að gera svona rannsóknir með nokkuð reglulegum hætti einmitt til að fá gleggri upplýsingar um líðan og stöðu flóttafólks. Það getur auðvitað verið þannig að fólk sem kemur hingað á ólíkum tímum kemur náttúrlega inn í ólíkar samfélagslegar aðstæður. Þess vegna verður staða þeirra ólík og með því þarf að fylgjast.

Hæstv. forseti. Það er einn liður sem ég tel að nefndin þurfi að taka til sérstakrar skoðunar og gera breytingu. Það er liður B.7 um stuðning við konur sem hafa búið við heimilisofbeldi. Ég fagna því svo sannarlega að efla eigi stuðning við þær konur. En í markmiðsgreininni segir, með leyfi forseta:

„Að efla stuðningsnet kvenna af erlendum uppruna sem búið hafa við heimilisofbeldi og draga þannig úr heimilisofbeldi.“

Og draga þannig úr heimilisofbeldi. Hér er eitthvað brogað við orðalagið, því að ég get ekki skilið þessa setningu öðruvísi en svo að draga eigi úr heimilisofbeldi með því að efla stuðningsnet þeirra sem búið hafa við ofbeldi. Hvar eru þeir sem eru gerendur í því?

Ég er algjörlega sammála inntakinu í greininni, en þetta orðalag finnst mér vera það sem á ensku er kallað „victim blaming“, þar sem sökinni er í rauninni skellt á þolandann. Ég held að það sé alls ekki það sem hæstv. ráðherra gengur til með þessu orðalagi. Þess vegna vil ég beina því til nefndarinnar að taka þetta og breyta því þannig að það sé alveg ljóst að hér eigi að styðja þá sem beittir hafa verið ofbeldi, en stuðningurinn einn og sér eigi ekki að verða til þess að það dragi úr heimilisofbeldinu. Það þarf að gera með öðrum hætti.



[00:29]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur kærlega fyrir ræðu hennar og áhuga á málinu. Ég tek algjörlega undir tillöguna um breytingar varðandi lið B.7 og mikilvægi þess að orða þetta með betri hætti þannig að það komi skýrar fram hvað við eigum við. Það tengist líka skýrslunni og hverju menn eru að huga að þar. Það á að vera fullt samræmi þar á milli. Það sem sérfræðingar og þeir sem unnu áætlunina fyrir mig hafa sérstaklega verið að skoða er að hlutfall þeirra kvenna sem hafa leitað til Kvennaathvarfsins sem eru af erlendum uppruna er langt umfram það sem er hlutfallið af þjóðinni. Eins og ég talaði um eru innflytjendur af fyrstu og annarri kynslóð 10% hér á landi, en af þeim konum sem leituðu til athvarfsins, og þar af leiðandi með sín börn, voru 35% af erlendum uppruna og 32% þeirra kvenna sem dvöldu í athvarfinu. Þær komu frá fjölmörgum löndum. Þar er líka vísað til átaks sem var efnt til á Suðurnesjunum, höfuðborgarsvæðinu og Norðurlandi vegna heimilisofbeldis.

Ég vil hins vegar þakka fyrir þær ábendingar sem komu fram í ræðu þingmannsins. Það sem ég vildi líka nefna sérstaklega er að ég tek undir með henni um mikilvægi þess sem snýr að vinnumarkaðnum. Við göngum kannski oft að því sem sjálfsögðum hlut hvað það er mikið og náið samstarf milli stjórnvalda, opinberra stofnana og aðila vinnumarkaðarins þegar kemur að því að tryggja að farið sé að lögum og reglum á íslenskum vinnumarkaði. Það samstarf er hins vegar að mínu mati ómetanlegt. Það eru þeir sem (Forseti hringir.) vinna að því og tryggja að ekki sé verið að misbjóða fólki á vinnumarkaðnum og (Forseti hringir.) við þurfum að styðja áfram við það samstarf.



[00:31]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það gleður mig að heyra jákvæð viðbrögð ráðherrans við ræðu minni og að ráðherrann sé sammála mér um að þessa setningu þurfi að skoða, því að líkt og ég sagði áðan þá tel ég að vilji ráðherrans í þessum málum þegar kemur að stuðningi við konur sem hafa búið við heimilisofbeldi sé alveg heill og skýr. Orðalagið er hins vegar óheppilegt. Ég treysti hæstv. ráðherra og nefndinni sem fær málið til sín algjörlega til að laga þetta þannig að þegar þingsályktunartillagan kemur til endanlegrar afgreiðslu verði búið að snúa orðalaginu þannig að enginn þurfi að velkjast í vafa um að tilgangurinn sé að efla og styðja konur af erlendum uppruna sem hafa búið við heimilisofbeldi, það sé á engan hátt verið að koma sökinni á ofbeldinu yfir á þær, það tel ég að enginn vilji gera í þessu máli. Þess vegna þurfum við að breyta orðalaginu.



[00:33]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég fái að vitna í fylgigagnið, skýrsluna, er þar fjallað um ársskýrslu Kvennaathvarfsins fyrir 2014 þar sem bent er á að þetta háa hlutfall gefi ekki endilega vísbendingu um að konur af erlendum uppruna séu frekar beittar ofbeldi en íslenskar kynsystur þeirra. Þar segir að ástæðuna megi hugsanlega frekar rekja til þess að erlendar konur geti síður leitað til ættingja og vina en þær íslensku eða þær sem eru af íslenskum uppruna, og hafi þannig í færri hús að venda. Þá skiptir ríkisfang viðkomandi máli, en staða kvenna frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, því að það er náttúrlega mikilvægt að hafa í huga hversu fjölbreyttur bakgrunnur er, sé í mörgum tilfellum verri. Það sem er oft mjög erfitt, og er eitt af því sem allsherjar- og menntamálanefnd hefur verið að fjalla um, er þegar konurnar eru jafnvel háðar maka varðandi dvalarleyfi. Samtök um kvennaathvarf greina jafnframt frá því að konur af erlendum uppruna dvelji jafnan lengur en konur af íslenskum uppruna í athvarfinu en tilgreina ekki hversu mikill munurinn er á dvalarlengd. Þannig að ég vonast til þess að nefndin fari vel yfir þetta, finni gott orðalag, þannig að það sé alveg skýrt hver sé vilji þingsins og okkar í velferðarráðuneytinu og hverju við viljum huga að.



[00:35]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að fagna því að þessi þingsályktunartillaga sé komin fram. Hér er fjallað um mál sem er samfélagi okkar mikilvægt. Það er brýnt að við sinnum málefnum innflytjenda vel. Ég fagna því hversu skýrt þetta er sett upp og greint niður. Við höfum svo sannarlega þörf fyrir að einstaklingar bætist við í okkar samfélag, við eigum að taka þeim einstaklingum fagnandi sem vilja setjast hér að hjá okkur og verða virkir þátttakendur. Ég tel það afskaplega þarft hvernig þetta er sett fram hér, að leggja áherslu á að draga fram tækifæri sem felast í ólíkum menningarlegum bakgrunni landsmanna og nýta þekkingu innflytjenda til að efla íslenskt samfélag. Vissulega hefur samfélag okkar oft verið ansi einsleitt og það er styrkur fyrir samfélagið að það verði sem fjölbreyttast, við erum jú í alþjóðlegum tengslum, og gott að stuðla að því að við verðum sem flest virk í samfélaginu, líka allir þeir sem hingað leita, það er okkur ómetanlegt.

Þá komum við að ólíkum bakgrunni hjá fólki. Það er mjög mikilvægt að vel sé tekið á móti fólki og rétt að því staðið. Mig langar að minnast á verkefni sem ég fékk kynningu á, þ.e. móttöku flóttamanna á Akureyri. Það verkefni hefur tekist afskaplega vel. Það sýnir hve vel getur tekist til þegar samfélagið er tilbúið og það er það vissulega á Akureyri. Þar og í nærsveitunum tóku allir fullan þátt í því og menn voru virkilega viljugir og eru það, það hefur ekkert lát orðið á því. Það er til stakrar fyrirmyndar hvernig að því hefur verið staðið öllu þar saman. Áhugi heimamanna, þeirra sem búa fyrir á staðnum, og ánægja með að vera að fá nýja íbúa hefur sannarlega komið í ljós með því að fólk hefur sýnt áhuga á þessu málefni, boðið fram aðstoð, komið fram sem sjálfboðaliðar á ótrúlegustu stöðum og við öll tækifæri og virkilega opnað samfélagið fyrir nýjum íbúum. Það er verulegt fagnaðarefni og gaman að sjá hvernig börnin eru að falla inn í skólana, fólk kemur inn á vinnustaðina og þetta er að takast vel af því að þarna eru allir að taka ábyrgð á verkefninu sem slíku og taka til sín þá ábyrgð sem okkur ber að gera. Ég vildi vekja athygli á þessu einstaklega góða framtaki þar og hvernig það hefur gengið. Það verkefni er eitt af þeim sem má alveg horfa til og líta til hvernig til hefur tekist.

Þá komum við að því hvernig þetta er greint niður í framkvæmdaáætluninni. Í kafla A.3. er talað um hvatningarverðlaun sem ganga út á það markmið að stuðla að faglegri, vandaðri og upplýsandi umfjöllun um innflytjendur og þátttöku þeirra í samfélaginu. Ég held að þetta sé gríðarlega mikilvægur þáttur eins og kemur fram í lið A.4, sem fjallar um fræðslu til starfsfólks ríkis og sveitarfélaga. Það hlýtur að vera grunnurinn að öllu saman að hægt sé að miðla þekkingu og reynslu á milli fólks sem vinnur að þessu verkefni og hvernig við getum haldið takti í því.

Hjá kynningaraðilunum á Akureyri kom fram að ekki mætti koma bil í þessu ferli, að ekki mætti líða of langur tími á milli þess sem tekið er á móti hópum. Það er eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur: Hvað erum við sem samfélag tilbúin til að taka á móti mörgum hópum, hversu títt og hversu þétt má það vera til að okkur takist að gera það vel og við séum tilbúin að vinna að því áfram? Það er einn vinkill í þessu máli sem við þurfum að skoða þannig að þetta falli allt saman vel og öllum líði vel með þessa framkvæmd. Ég held að við eigum alveg að geta náð þeim markmiðum eins og hefur sýnt sig og á fleiri stöðum. Lýðræðisleg þátttaka innflytjenda og samstarf félags- og hagsmunasamtaka innflytjenda er mjög mikilvægt, að fólk kynnist innviðunum og finni sig strax vera þátttakendur og sjái hvernig það getur haft áhrif á sín hagsmunamál eins og hverjir aðrir borgarar í þessu landi.

Þá er talað um samstarf á milli stofnana eins og fram hefur komið hér. Það er gríðarlega mikilvægt. Ég tek undir það sem fram hefur komið í þeim efnum. Það byggir á því að innflytjendur fái sem bestar upplýsingar sem fyrst eftir komuna til landsins og hafi auðvelt aðgengi að öllum upplýsingum og þeim leiðum sem þeim eru færar, hvaða leiðir hægt sé að fara til að afla sér upplýsinga og verða þátttakendur.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sagði hér áðan um móttökuna og orðalagið í grein sem fjallar um stuðning við konur sem hafa búið við heimilisofbeldi, en ég treysti nefndinni og því fólki sem vinnur innan þingsins og mun taka við þessari þingsályktunartillögu fullkomlega til að vinna að þessum málum öllum og að það fari vel. En ég tek því fagnandi að þetta sé komið hér fram og vona að við berum gæfu til að vinna sem best úr þessum málum. Ég fagna því að samfélagið okkar verði fjölbreyttara og fjölþættara.



[00:41]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og sérstaklega punktinn sem hún kom inn á varðandi mikilvægi þess að samfélög séu tilbúin og jákvæð gagnvart því að taka á móti fólki af erlendum uppruna, hvort sem við erum að tala um flóttamenn eða innflytjendur almennt. Við þekkjum það öll í okkar litla samfélagi hvað tengslanetið skiptir gífurlega miklu máli, hvort sem við erum að setja inn á Facebook hjá okkur að við séum að leita að íbúð eða fyrstu sumarvinnunni. Ef við hugsum bara til baka hvernig við fengum hana, þá var það mjög oft í gegnum vini okkar og kunningja í gegnum tengslanetið. Það er það sem fólk hefur ekki þegar það kemur í nýtt samfélag. Það er þannig sem samfélagið getur hugað að því hvað það getur gert, til dæmis að vera með skipulagða móttökuáætlun þar sem fjölskylda eða einstaklingar sem flytja inn í samfélagið fá strax tengilið, tengilið sem getur sagt þeim frá hlutum sem við veltum ekki mikið fyrir okkur, eins og bara hvað á að gefa í afmælisgjöf þegar afmælisboð eru. Við sem höfum búið í litlum bæjarfélögum þekkjum það að oft er ekki sagt að hús sé númer eitthvað, heldur að það sé húsið hennar Gunnu; við eigum bara öll að vita hvar húsið hennar Gunnu er. Það eru slíkir hlutir sem geta verið svo ómetanlegir og við áttum okkur ekki svo oft á því að það er þetta sem skiptir mestu máli. Við höldum kannski oft að það sé mikilvægara sem snýr að húsnæði, húsbúnaði, fatnaði, þessum veraldlegu gæðum, en það eru þessir hlutir sem skipta langmestu máli til að ná árangri í þessum málaflokki sem og öðrum.



[00:43]
Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Ég þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir andsvarið og tek undir sjónarmið hennar. Það er gríðarlega mikilvægt að samfélögin séu tilbúin, að við undirbúum okkur af því að það er fáfræðin sem gerir okkur fordómafull og ef okkur skortir þekkingu og við nálgumst ekki fólkið sem er að koma. Við verðum að átta okkur á því að við þurfum að tala saman til að byggja upp samfélög og við þurfum að eiga samskipti.

En ég get sagt frá því að í sveitarfélaginu sem ég bý í var ég spurð fyrir nokkrum árum, en þar sá ég um fullorðinsfræðslu: Eru ekki margir útlendingar á Vopnafirði? Ég sagði: Nei, það eru eiginlega engir útlendingar. Svo fór ég að hugsa málið. Jú, þá gat ég talið upp marga einstaklinga, en þeir einstaklingar komu beint inn í fjölskyldur, höfðu sitt tengslanet og fengu leiðsögn um þau atriði sem okkur virðast vera svo lítil og skipta litlu máli, fengu leiðsögn beint frá fjölskyldunum um hvað maður hefur í matinn, hvernig maður fer á ýmsa staði og aðra einfalda hluti sem við erum ekki að velta fyrir okkur. Þetta skiptir held ég gríðarlega miklu máli, hvernig við eigum að bera okkur að, hvað er eðlilegt að koma með í skólann og hvenær getur maður farið í heimsókn eða hvað er eðlilegt að gera í samskiptum við krakkana í bekknum og hvað ekki, hvernig við leikum okkur eftir skóla og annað. Þá eru dæmi um að börnin skildu ekkert í því af hverju stúlkan sem flutti í samfélagið vildi aldrei leika við þau eftir skóla. Það var vegna þess að hún þekkti það ekki úr sínu samfélagi sem hún bjó áður því að þá mátti ekki vera úti, það var svo hættulegt. Það var dásamlegt að fylgjast með uppgötvuninni sem varð hjá barninu þegar hún áttaði sig á því að hún var frjáls, hún gat verið úti, það var ekki hættulegt. Hún þurfti bara að láta vita af sér. Það eru slíkir hlutir sem skipta máli og hjálpa okkur til að gera samfélag okkar ánægjulegt.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allsh.- og menntmn.