145. löggjafarþing — 124. fundur
 2. júní 2016.
málefni hælisleitenda.

[10:37]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Enn á ný er talsverð umræða í samfélaginu um hvernig farið er með hælisleitendur og aðra sem koma hingað í neyð í leit að skjóli. Sú umræða er því miður ekki ný og ekkert bendir til þess að hún sé á leiðinni burt nema hugsanlega ef mjög kjánalegir vankantar, að mínu mati, eru lagaðir í gildandi lögum. Lögin verða vonandi löguð að einhverju leyti í frumvarpi því sem við greiðum atkvæði um á eftir við 2. umr. Í þessum málaflokki er það einhvern veginn þannig að hver bendir á annan.

Ég hef oft haft á orði að ekki sé við Útlendingastofnun að sakast, það sé við lögin að sakast, að lögin séu gölluð. Ég er þeirrar skoðunar og vil meina að þau verði áfram gölluð eftir að frumvarpið sem við greiðum hér atkvæði um á eftir verður að lögum. En hins vegar verður mér sífellt ljósara að það er fleira sem er gallað en lögin, það er líka hvernig stofnanir eins og Útlendingastofnun vinna. Útlendingastofnun bendir á kærunefnd útlendingamála. Kærunefnd útlendingamála bendir á Útlendingastofnun og allt er það í einhverju pólitísku, ég ætla ekki að segja tómarúmi, en einhvers konar þoku. Mér hefur þótt vanta á að tekin sé skýr pólitísk afstaða gagnvart því að nýta þær heimildir sem eru í lögum sem eru til bóta fyrir mál skjólstæðinga Útlendingastofnunar. Hins vegar virðist vera að allar mögulegar heimildir sem til staðar eru séu nýttar til þess að ýta fólki frá ferlinu.

Mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort gerð hafi verið athugun á því hvort sú tilhneiging að ýta fólki frá ferlinu kosti meira eða minna en einfaldlega að taka þessi mál til efnismeðferðar.



[10:39]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þingmaður veit hefur málaflokkur útlendinga vaxið gríðarlega mikið og hratt á undanförnum mánuðum og missirum. Málefni hælisleitenda hafa tekið á sig allt aðra mynd á örfáum mánuðum miðað við það sem við þekktum áður. Í því umhverfi er rík skylda á ráðherra útlendingamála að líta til allra málsmeðferðarreglna og gæta að því að við framfylgjum þeim lögum sem hér eru sett með það alltaf í huga að vilji Alþingis hafi verið skýr um að ráðherra skuli vera utan sviga þegar kemur að einstökum málum og líta á málin almennt.

Í því skyni hefur verið unnið að verulegum umbótum í útlendingamálum að undanförnu í því andrúmslofti sem við þekkjum og miklu álagi. Við höfum verið að yfirfæra þær reglur sem ráðuneytið hefur sett. Við höfum líka verið að huga að því hvers vegna reglur hafa ekki verið settar á grundvelli gildandi laga sem hægt væri að gera, þ.e. við höfum reynt að líta þannig á að við náum því markmiði okkar að ljúka málum hratt þannig að einstaklingar þurfi ekki að vera hér í langan tíma og bíða niðurstöðu, þess sem verða vill. Eins og þingheimur veit hafa líka verið gerðar breytingar á löggjöfinni sjálfri, enda eru þau lög opin og til meðferðar nú í þinginu.

Ég held því fram að þær stofnanir sem um þessi mikilvægu mál fjalla fari að þeim lögum sem hér eru sett. Ég tek ekki undir það með hv. þingmanni að þar séu menn með sjónarmið í aðra áttina frekar en hina. Ég held að menn reyni að horfa hlutlægt á málin (Forseti hringir.) og leggi sig alla fram í því að fjalla um þennan málaflokk með vönduðum hætti.



[10:42]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef reynt að trúa því eftir bestu getu að starfsfólki Útlendingastofnunar gangi gott eitt til. Ég reyni eins og ég get að trúa því áfram. Hins vegar get ég ekki orða bundist lengur yfir því að lögin bjóða upp á túlkunaratriði. Það eru hlutir í gildandi lögum, eins og sanngirnisástæður og því um líkt. Það virðist gerast aftur og aftur að heimildir í lögum til þess að líta til sanngirnissjónarmiða, ríkra eða ekki, eru ekki notaðar til þess að leyfa fólki t.d. að vera í landinu á meðan umsókn þess er til meðferðar. Það gerist trekk í trekk.

Sömuleiðis þarf maður á einhverjum tímapunkti að horfast í augu við að það er ekki alltaf einföld, bein túlkun á lögum sem eru til staðar. Það er líka viðhorf kerfisins. Alls staðar er kallað eftir pólitískri leiðsögn í þessum málum. (Forseti hringir.) Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að hún komi fram og sé ekki spurning um hvort við ætlum að opna landið upp á gátt eða loka því algjörlega, heldur (Forseti hringir.) einfaldlega að sýna sanngirni.



[10:43]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegur forseti. Það er enginn vafi á því að í þessum málaflokki eins og öllum öðrum skiptir pólitísk leiðsögn máli, en hún verður að vera á grundvelli laga. Það er ekki þannig í þessum málaflokki frekar en öðrum, og við getum yfirfært það á hvaða málaflokk sem við viljum, að pólitísk sjónarmið eigi að ganga yfir lög. Ég held að það yrði töluvert mikil breyting á ef menn mundu telja það í þessum sal. Það tel ég ekki vera og þá afstöðu verður aldrei hægt að fá fram hjá mér.

Ég held að það sé líka þannig, og ég held að ég hafi sagt það margoft í þessum sal, að ekki er búið að botna neina umræðu þegar kemur að þessum málaflokki. Við eigum eftir að sjá það á næstu mánuðum, missirum og árum að við munum oftar þurfa að opna lög um útlendinga, við þurfum oftar að breyta reglunum, við þurfum oftar að skerpa á því hvernig stefnan er lögð í lögum þannig að það sé auðveldara fyrir þær stofnanir sem um þessi mál fjalla að vinna vinnuna sína þannig (Forseti hringir.) að menn geti treyst því að þar séu menn að vinna af heilindum, af því að þannig er það.