145. löggjafarþing — 124. fundur
 2. júní 2016.
mansal og undirboð á vinnumarkaði.

[10:58]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða við hæstv. félagsmálaráðherra um mál sem liggur mér og fleirum töluvert á hjarta. Hver hefði trúað því að óreyndu að á 100 ára afmælisári íslenskrar verkalýðshreyfingar væri þrælahald og mansal ásamt undirboðum á vinnumarkaði raunverulegt og vaxandi vandamál í íslensku samfélagi? Sú er engu að síður raunin. Þetta mansal á Íslandi á sér ýmsar birtingarmyndir, allt frá kynlífsánauð á vegum glæpasamtaka, skuldaþrælkun í gegnum málamyndahjónabönd og starfsmannaleigur og nauðungarvinnu ungmenna sem koma hingað til lands sem au pair heimilishjálp. Þetta hefur komið fram í skýrslum sérfræðinga og þetta hefur komið fram í einstökum fréttum sem birst hafa.

Vinnumansal hefur orðið meira áberandi á Íslandi síðustu missiri eins og nýlegar fréttir staðfesta, t.d. frá Vík í Mýrdal. Í nýlegri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins, um mansal í ríkjum heims, er meðal annars fullyrt að nauðungarhjónabönd tíðkist á Íslandi og að fólk sé þvingað í kynlífsánauð og því sé þrælað út við vinnu á nuddstofum, veitingastöðum, í byggingariðnaði, fiskvinnslu og sem au pair.

Ef þetta samfélagsmein nær að festa hér rætur til frambúðar getur það haft mjög óheillavænlegar breytingar í för með sér á samfélagi okkar og á hluti sem varða grundvallarmannréttindi. Þess vegna vil ég ræða við hæstv. félagsmálaráðherra. Hefur ráðuneyti hennar aðhafst eitthvað eða hyggst það aðhafast í þessu máli? Ef svo er, hvað er þá til ráða og til hvaða aðgerða hyggst ráðuneytið grípa? Nú hafa forustumenn í stjórnarflokkunum lagt fram tillögu um að leggja niður Félagsmálaskóla alþýðu (Forseti hringir.) sem er beinlínis með það á sinni námskrá að upplýsa fólk um einkenni vinnumansals á vinnumarkaði. Er þetta stefna ríkisstjórnarinnar og hver er afstaða ráðuneytisins í málinu?



[11:00]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir fyrirspurnina. Ég tek undir það sem þingmaðurinn segir hér og samflokksmaður hennar hafði líka fyrr í vikunni spurst fyrir um þær fréttir sem hafa verið að koma fram að undanförnu, kannanir sem vísað er til, um að hér væri verulegt vandamál sem snýr að mansali.

Hv. þingmaður spyr hvað ég hyggist gera eða hvað ég hafi gert. Ég hef óskað eftir því að fá nánari upplýsingar um þessa könnun, hef óskað eftir því að mínir starfsmenn, sem eiga sæti í teymum sem snúa að mansali, samstarfsteymum, fari yfir þessar upplýsingar ásamt samstarfsaðilum. Þar eru verkalýðsfélögin lykilsamstarfsaðilar ásamt Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitinu og ríkisskattstjóra. Það er nokkuð síðan þessir aðilar eða fulltrúar þeirra tóku höndum saman um aukið vinnustaðaeftirlit og hafa komið á framfæri ábendingum til lögreglunnar ef ástæða hefur þótt til. Í umfjöllun fjölmiðla um þau mál sem hafa komið upp má sjá árangur af þessu samstarfi. Ég svaraði því líka, sem snýr að Félagsmálaskólanum, að það sé alveg skýrt að ég styð ekki þessa tillögu, ég hef sjálf ekki lagt til að Félagsmálaskólinn yrði lagður niður. Ég hef hins vegar komið því mjög skýrt á framfæri við forustumenn verkalýðshreyfingarinnar að ef það er eitthvað meira sem ég eða mínar stofnanir geta gert verði það gert.

Ég tel líka í framhaldi af þessum upplýsingum, þegar við erum búin að fara yfir þær, að ástæða sé til að ég og innanríkisráðherra, sem ber ábyrgð á framkvæmdaáætlun hvað varðar mansal, förum yfir hvort ekki sé einmitt rétt að, af því að hún var til ákveðins tíma, lögð verði fram ný áætlun (Forseti hringir.) þar sem við byggjum á reynslu fyrri ára. Að sjálfsögðu er það þá viðkomandi ráðherra sem ber ábyrgð á því sem mundi þá leggja það til.



[11:03]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er gott að heyra að félagsmálaráðherra styður það ekki að Félagsmálaskóli alþýðu verði lagður niður eins og tveir forustumenn í stjórnarliðinu hafa engu að síður lagt til. Það bendir ekki til þess að einhugur sé í stjórnarliðinu um það hvaða afstöðu eigi að taka til þess fyrirbyggjandi þáttar sem lýtur að fræðslu og upplýsingu um þessi málefni, en allir sérfræðingar eru sammála um að fræðsla sé einmitt grundvallaratriði varðandi það að koma auga á einkenni vinnumansals og geta stemmt stigu við því úti á vettvangi, á vinnustöðunum. Þá mætti kannski spyrja í beinu framhaldi — úr því að þetta er hluti af námsefni Félagsmálaskóla alþýðu og ráðherrann er mér sammála um að sá skóli eigi hlutverki að gegna, m.a. á þessu sviði — (Forseti hringir.) hvort ráðherrann hyggist þá ekki styrkja þann skóla og beita sér fyrir því að efla hann frekar en að höggva stoðir undan honum eins og lagt er til.



[11:04]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Til viðbótar við mitt fyrra svar vil ég geta þess að við höfum verið að undirbúa, í samstarfi við verkalýðshreyfinguna, sérstaka samstarfsyfirlýsingu þar sem við leggjum mikla áherslu á mikilvægi kjarasamninga og baráttuna gegn félagslegum undirboðum. Þar er hugað sérstaklega að sjálfboðavinnu og ýmsu starfsnámi sem menn hafa verið að fara betur yfir. Eitt af því sem ég hef þar nefnt er hvort rétt sé að setja af stað vinnu við að búa til skýran lagaramma utan um það. Ég hef reynt að kynna mér hvernig staðið hefur verið að þessu annars staðar á Norðurlöndunum þar sem ekki virðast vera skýrir lagarammar utan um sjálfboðavinnu eða starfsnám sem tengist sjálfboðavinnu; það er eitt af því sem verður að huga að.

Síðan höfum við verið að styðja við (Forseti hringir.) fræðslu og það hefur sannarlega skilað árangri eins og við sjáum. Mál eru að koma upp vegna þess að unnið hefur verið að þessum verkefnum.