145. löggjafarþing — 124. fundur
 2. júní 2016.
lögreglulög, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 658. mál (eftirlit með störfum lögreglu). — Þskj. 1411.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[12:53]

[12:50]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu máli. Þetta er skref í rétta átt, skref sem ég vona að verði sem stærst. Þó vil ég halda því til haga, eins og ég hef gert áður, að ég mundi vilja ganga lengra, samanber þingsályktunartillögu, sem er 12. mál hér á þinginu, sem við píratar lögðum fram seinasta haust. Ég fagna þessu máli og fagna sérstaklega þróuninni í viðhorfum á Íslandi, líka hjá stjórnvöldum, gagnvart þeirri staðreynd að það þarf að hafa eftirlit með stofnunum sem hafa valdheimildir. Lögreglan er eina stofnunin á landinu sem hefur heimildir til að beita líkamlegu valdi. Það er nauðsynlegur þáttur í okkar samfélagi, því miður, en því mikilvægara er að hafa skýrt eftirlit með slíku valdi alveg eins og lýðræði er mikilvægt til að halda aftur af valdinu sem hér er. Ég fagna þessu máli enn og aftur og vona að þetta skref sé sem stærst en segi líka: Það er allt í lagi að stíga stærri skref og ég vænti þess fastlega að þau verði stigin í framtíðinni.



Frv.  samþ. með 45 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsmD,  ÁstaH,  BÁ,  BirgJ,  BjG,  BjarnB,  BjÓ,  BP,  EKG,  ElH,  ELA,  FSigurj,  GStein,  HBK,  HarB,  HE,  HHG,  HöskÞ,  JMS,  JónG,  KG,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LínS,  ÓP,  PVB,  REÁ,  RR,  RM,  SÁA,  SII,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  UBK,  VBj,  ValG,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞorS,  ÞórE.
18 þm. (ÁPÁ,  ÁsF,  BN,  EyH,  GÞÞ,  GBS,  HHj,  IllG,  KJak,  OH,  ÓÞ,  PJP,  SDG,  SigrM,  SIJ,  VigH,  ÖJ,  ÖS) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[12:52]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta mál er komið á lokastig í meðferð í þinginu. Það er rétt, sem komið hefur fram, að það er nauðsynlegt að ræða um aðhald og eftirlit með stofnunum samfélagsins sem fara með opinbert vald og mikilvægt að það sé gert án þess að með nokkrum hætti sé verið að ala á tortryggni í garð þessara stofnana. Það eru gömul sannindi og ný að allar stofnanir, hverju nafni sem þær nefnast, þurfa aðhald. Ég held að það skref sem stigið er með þessu frumvarpi sé mikilvægt.

Ég ætlaði líka að geta þess að á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins hefur verið rætt um að eiga frekara samráð um þróun þessara mála, auðvitað með aðkomu allsherjarnefndar sem er sá vettvangur þar sem málefni lögreglunnar eru sérstaklega til umræðu, en við höfum einnig óskað eftir samtali við innanríkisráðherra og innanríkisráðuneytið um þau mál.